Hæstiréttur íslands
Mál nr. 652/2008
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
|
|
Fimmtudaginn 18. júní 2009. |
|
Nr. 652/2008: |
M(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl. Kristján B. Thorlacius hdl.) gegn K(Brynjar Níelsson hrl. Guðrún Seselja Arnardóttir hdl.) |
Börn. Forsjá.
M og K deildu um forsjá sonar síns. Með héraðsdómi var K falin forsjáin. Talið var að báðir aðilar væru hæfir til að fara með forsjá sonarins og honum liði vel hjá þeim báðum. Niðurstöður dómkvadds matsmanns um hæfi M og K til að fara með forsjána voru M í vil. Þá stóð vilji drengsins frekar til þess að M yrði falin forsjáin. Með því að M lýsti því yfir að hann væri nú reiðubúinn til að fylgja leiðsögn lækna um lyfjagjöf fyrir drenginn vegna athyglisbrests hans var litið svo á að forsendur væru svo breyttar að rétt væri að virtum öllum öðrum atriðum, þar á meðal vilja M til að styðja drenginn við heimanám, að taka til greina kröfu hans um að honum yrði falin forsjá sonar aðila. Þá var kveðið á um meðlag og umgengnisrétt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2008. Hann krefst þess að honum verði falin forsjá sonar aðilanna, A, og stefnda dæmd til að greiða einfalt meðlag með barninu eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins. Þá krefst hann málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
I
Málsaðilar deila um forsjá sonar þeirra, A, sem nú er á tólfta aldursári. Í héraðsdómi eru atvik málsins rakin og gerð grein fyrir stöðu aðilanna og sonar þeirra, þar á meðal um athyglisbrest sem hann á við að glíma og ólíkri afstöðu foreldranna til þess hvernig takast eigi á við þann vanda, sem þessu fylgir. Meðal annars kemur fram að áfrýjandi hefur verið andvígur því að drengnum sé gefið lyfið ritalín, sem læknar hafa ávísað honum og mælt eindregið með að hann taki. Áfrýjandi hefur þar á móti haldið fram að aðrar aðferðir séu vænlegri til að hamla gegn vanda sonar síns, svo sem regluleg hreyfing, sem áfrýjandi hafi séð til að drengurinn leggi stund á þegar hann dvelji á heimili áfrýjanda. Í forsendum héraðsdóms kemur fram að við mat á því hvar hagsmunum drengsins sé betur borgið vegi þungt sú staðreynd að áfrýjandi hafi með öllu kosið að virða að vettugi álit sérfræðinga um að sonur hans þurfi lyf vegna athyglisbrests. Mat dómsins, sem tveir sérfróðir meðdómsmenn skipuðu ásamt héraðsdómara, var að ekki væri forsvaranlegt að hunsa ráðleggingar sérfræðinga um læknismeðferð á drengnum, en þeir telji að velferð hans sé undir því komin að hann fái lyf til að vinna bug á röskun vegna athyglisbrests. Niðurstaða héraðsdóms var sú að þörfum og hagsmunum drengsins væri betur borgið með því að stefnda færi með forsjá hans.
II
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð allmörg ný gögn, en meðal þeirra er yfirlýsing 3. mars 2009 frá D, umsjónarkennara A í [...]skóla, og E sérkennara. Þar segir að A eigi við mikinn athyglisvanda að etja og hafi skólahjúkrunarfræðingi verið falið að gefa drengnum lyf við honum á morgnana. Drengurinn hafi neitað að taka lyfið og gefið þá skýringu að börn undir 14 ára aldri eigi ekki að taka ritalín. Faðir hans hafi fundið þær upplýsingar á netinu og segi A að börn deyi ef þau taki lyfið. Annað ítarlegra vottorð sömu kennara 25. maí 2009 er einnig meðal nýrra málskjala. Þar segir meðal annars að A hafi átt í erfiðleikum með að fylgja jafnöldrum sínum eftir, jafnt félagslega sem í námi. Hann hafi tekið lyf við athyglisbresti á tímabili fyrir síðustu áramót, en ekki upp frá því. Meðan svo standi sakir sé lítil von um að hann taki framförum, sem sé slæmt fyrir sjálfsmynd hans og líðan. Fyrirmæli til A þurfi að margítreka og síðastliðinn vetur, einkum eftir áramót, hafi hegðun hans verið erfiðari en árið áður. Þá sé farið að bera á andfélagslegri hegðun og hann brjóti reglur ítrekað. Hann virðist oft vera þreyttur, dapur og leiður, syfjaður á morgnana og erfitt sé að fá hann til að sinna námi. Hann sé neikvæður, áhugalaus og afkasti litlu, sýni lítið frumkvæði í námi og leik og einbeiting sé lítil sem engin. Framfarir séu litlar og A hafi dregist mikið aftur úr jafnöldrum sínum í námi. Þá sé hann óvirkur félagslega, taki aldrei þátt í hópleikjum bekkjarins í frímínútum og forðist að taka þátt í hópastarfi í kennslustundum. Hann eigi nú tvo vini í skólanum, en samskipti við aðra bekkjarfélaga séu lítil. Þá kemur fram að samskipti kennara við móður A séu góð, en lítil við föður.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing áfrýjanda 3. júní 2009, þar sem meðal annars segir eftirfarandi: „ ... ég er reiðubúinn til að fara að ráðleggingum lækna varðandi lyfjagjöf fyrir son minn A og mun fara yfir það með drengnum að hann þurfi að taka þau lyf sem læknar telja að hann þurfi, þ.á m. lyf við athyglisbresti. Þá mun ég leggja áherslu á að sinna heimanámi drengsins þegar hann býr hjá mér og hef gert það síðan hann flutti til mín í byrjun maí sl. Fram til þessa hef ég verið andsnúinn lyfjagjöf fyrir A og hef talið önnur úrræði duga til að vinna á erfiðleikum hans. Eftir að hafa séð umsögn umsjónarkennara og sérkennara drengsins, dags. 25. maí sl., þar sem fram kemur að skólavist A og nám hefur gengið mjög illa þennan skólavetur, sem kennarar hans rekja aðallega til þess að drengurinn taki ekki lyf við athyglisbresti, tel ég ljóst að ekki verði við svo búið lengur. Ég er því eins og að framan greinir, með hagsmuni hans að leiðarljósi, reiðubúinn að fara að ráðleggingum lækna og sérfræðinga varðandi lyfjagjöf.“
III
Undir rekstri málsins í héraði var Oddi Erlingsson sálfræðingur dómkvaddur til að meta og gefa rökstudda álitsgerð meðal annars um hæfi aðilanna hvors um sig til að fara með forsjá barnsins, aðstæður þeirra, tengsl barnsins við þau, námslega stöðu þess og sérþarfir og hvernig best henti barninu að hafa umgengni við það foreldri, sem það er ekki búsett hjá. Matsgerð sálfræðingsins 23. júní 2008 er ítarleg og hefur henni ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð. Niðurstöðum hans er lýst í héraðsdómi, en hinar helstu eru að báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá drengsins og hafi hann lýst yfir að honum líði vel hjá báðum. Niðurstöður matsmannsins eru áfrýjanda í vil um fleiri þætti en stefndu og kemur hann í heild ótvírætt betur út í þessu mati sem uppalandi drengsins en stefnda. Þar greinir einnig frá því að vilji drengsins hafi frekar staðið til þess að föður yrði falin forsjáin en móður. Ný gögn benda ekki til að breyting hafi orðið á þeirri afstöðu drengsins og frá byrjun maí 2009 bjó hann um nokkurt skeið á heimili föður samkvæmt eigin ósk.
Að framan var rakið að áfrýjandi hefur lýst yfir að hann sé nú reiðubúinn til að fylgja leiðsögn lækna um lyfjagjöf fyrir drenginn vegna athyglisbrests hans. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram hvað ráðið hafi þessari viðhorfsbreytingu. Líta verður svo á að með þessu séu forsendur svo breyttar að rétt sé að virtum öllum öðrum atriðum, þar á meðal vilja áfrýjanda til að styðja drenginn við heimanám, að taka til greina kröfu áfrýjanda um að honum verði falin forsjá sonar aðila, enda eru ekki efni til að fallast á efasemdir stefndu, sem lýst var við flutning málsins fyrir Hæstarétti, um að áfrýjandi muni standa við orð sín um lyfjagjöf þegar á reynir. Samkvæmt þessu verður jafnframt fallist á kröfu áfrýjanda um að stefnda greiði honum einfalt meðlag með barninu, en um umgengnisrétt skal farið eins og nánar segir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugast að í hinum áfrýjaða dómi var þess ekki gætt að tiltaka hvort áfrýjun myndi fresta réttaráhrifum hans, sbr. 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Dómsorð:
Áfrýjandi, M, skal fara með forsjá sonar málsaðila, A, til fullnaðs 18 ára aldurs hans.
Stefnda, K, greiði frá uppsögu þessa dóms einfalt meðlag með drengnum eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins til fullnaðs 18 ára aldurs hans.
Umgengni sonar málsaðila við stefndu verði aðra hverja viku frá miðvikudegi til mánudags. Sumarumgengni við stefndu verði árlega fjórar vikur. Drengurinn verði til skiptis hjá aðilunum annars vegar um jól og hins vegar um áramót. Umgengni um páska skiptist jafnt milli aðila.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2008.
I
Mál þetta sem dómtekið var 21. október 2008 var höfðað 6. desember 2007. Stefnandi er M, [...] en stefnda er K, [...].
Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði falin forsjá sonar aðila, A. Þá gerir hann þær kröfur að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda einfalt meðlag með drengnum frá uppkvaðningu dóms í máli þessu til fullnaðs 18 ára aldurs drengsins eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins. Þá gerir stefnandi þær dómkröfur að í dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar drengsins við það foreldri sem ekki fer með forsjá. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum málskostnað.
Dómkröfur stefndu eru þær að kröfum stefnanda verði hafnað og henni dæmd forsjá sonar aðila, A. Þá krefst hún þess að stefnanda verði gert að greiða stefndu tvöfalt meðlag með drengnum frá uppkvaðningu dóms í máli þessu til fullnaðs 18 ára aldurs hans. Þá gerir stefnda þær dómkröfur að í dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar drengsins við það foreldri sem ekki fer með forsjá. Þá krefst stefnda þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál.
II
Aðilar máls þessa áttu í sambandi frá árinu 1996 allt til ársins 1998 er þau slitu því. Þau eignuðust soninn A hinn [...] 1997. Við sambandsslitin gerðu aðilar samkomulag um að stefnda færi ein með forsjá drengsins. Hinn 27. janúar 2003 staðfesti sýslumaðurinn í Reykjavík samkomulag aðila frá 24. janúar 2003 um að þau færu sameiginlega með forsjá drengsins og skyldi lögheimili hans vera hjá móður. Þannig hefur þetta verið síðan og hefur drengurinn gengið í [...]skóla sem er skammt frá heimili hans og móður. Samkomulag hefur verið um umgengni og hefur sá háttur verið hafður á að drengurinn dvelur til skiptis hjá foreldrum sínum, viku í senn.
Stefnandi hefur haldið því fram að mikil óregla sé á heimili móður, bæði vegna veikinda hennar og neyslu. Þá sinni hún því ekki að halda stöðugleika í daglegu lífi drengsins, s.s. með reglulegum svefntíma, sinna heimanámi og skólasókn. Þetta sé sérstaklega mikilvægt í tilviki A sem hafi sérþarfir en drengurinn hefur verið greindur með athyglisbrest. Telur stefnandi að vanhæfni stefndu að þessu leyti sé þess valdandi að drengurinn eigi í námserfiðleikum og félagslegum vanda.
Stefnda mótmælir þeim fullyrðingum stefnanda að mikil óregla sé á heimili hennar. Hún hafi þjáðst af þunglyndi og misnotað róandi lyf um tíma vegna þeirra veikinda. Hún hafi farið í meðferð á Vogi árið 2005 og ekki notað róandi lyf síðan. Kveðst stefnda hafa gengið í gegnum þunglyndistímabil haustið 2007 og hafi hún leitað sér lækninga vegna þess.
Kveðst stefnda áður hafa verið ranglega sjúkdómsgreind en nú hafi hún loksins verið sjúkdómsgreind réttilega og fengið viðeigandi lyfjameðferð sem haldi einkennum sjúkdómsins niðri. Þau lyf sem hún hafi fengið áður hafi ekki virkað sem skyldi vegna rangrar greiningar. Stefnda kveðst hafa farið á heilsustofnun í Hveragerði í desember 2007 og náð að hvílast og safna kröftum eftir veikindin. Hún hafi nú náð sér að fullu og sé fullfær um að sinna drengnum.
Stefnda mótmælir því að drengurinn sinni ekki heimanámi hjá henni. Hún hafi lagt sig fram um að veita drengnum alla þá aðstoð og hjálp sem hann þurfi. Stefnandi hins vegar hafi hins vegar lítinn áhuga sýnt vandamáli drengsins sem lúti að athyglisbresti. Hafi stefnda haft frumkvæði að öllum samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk og skólayfirvöld í þeirri viðleitni að aðstoða drenginn.
Stefnda kveður drenginn hafa verið greindan með athyglisbrest þegar hann var fimm ára gamall. Í kjölfarið kveðst stefnda hafa farið þess á leit að hann fengi viðeigandi aðstoð og hafi hann farið í iðjuþjálfun. Þá hafi hún hlutast til þess að málsaðilar sæktu sérhæft námskeið vegna sérþarfa drengsins og hún hafi einnig hlutast til um að drengurinn færi á sérstakt lestrarnámskeið. Nú hafi læknar bent á að það gæti hjálpað drengnum að taka lyf vegna athyglisbrestsins en stefnandi hefur lýst sig andvígan því. Hefur stefnda í samvinnu við skóla ákveðið að drengurinn fái þau lyf sem læknir hefur ráðlagt en stefnandi var ekki hafður með í ráðum.
Stefnandi fór þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík að fara einn með forsjá drengsins og kveðst hafa gert það vegna óreglu móður og slælegrar skólagöngu drengsins auk þess sem foreldrar væru ekki sammála um þörf drengsins á lyfjagjöf. Stefnda hafnaði þeirri kröfu og með bréfi 12. október 2007 var málinu vísað frá sýslumanni og var mál þetta höfðað í kjölfarið.
Stefnda fékk leyfi dómsmálaráðherra til gjafsóknar í málinu hinn 15. febrúar 2008.
Við meðferð málsins kom fram krafa stefnanda um dómkvaðningu matsmanns og var Oddi Erlingsson sálfræðingur dómkvaddur til starfans. Liggur matsgerð hans, sem dagsett er 23. júní 2008, fyrir í málinu.
III
Stefnandi byggir kröfu sína um að hann fái forsjá drengsins á því að sú ráðstöfun sé drengnum fyrir bestu. Hafi hann annast drenginn meira en stefnda, einkum skólagöngu hans og félagsstarfi og því þarfnist drengurinn hans meira en stefndu. Þá séu tengsl stefnanda og drengsins náin og góð og því myndi það hafa eins lítið rask í för með sér fyrir drenginn og mögulegt sé að faðir hans fengi forsjá hans miðað við núverandi aðstæður foreldra.
Stefnandi byggir á því að persónulegir hæfileikar hans og aðstæður geri hann að góðu foreldri fyrir drenginn. Hann sé í sambúð með B og búi tvær dætur hennar á heimilinu. Komi drengnum og dætrum sambýliskonunnar vel saman auk þess sem honum og sambýliskonunni komi vel saman. Þá njóti drengurinn öryggis og góðs atlætis á heimilinu og gangi samskipti þeirra feðga vel. Sé drengurinn vanur að geta leitað til stefnanda og treysti hann honum vel.
Stefnandi kveðst vera rafeindavirki með ágætar tekjur og gangi honum vel í starfi. Séu því persónulegir eiginleikar stefnanda og aðstæður allar til þess fallnar að annast vel um son aðila.
Stefnandi kveðst enn fremur byggja á því að stefnda hafi ekki hæfi til þess að fara með forsjá drengsins vegna vanheilsu og neyslu ávanabindandi lyfja. Þá hafi hún gert tilraunir til þess að svipta sig lífi og eigi hún erfitt með að mynda stöðugleika í eigin lífi. Vegna þessa sé stefnda ekki hæf til að annast drenginn með fullnægjandi hætti, ekki síst þegar tekið sé tillit til sérþarfa hans. Vísi stefnandi til reynslu undanfarinna ára hvað þetta varði en það hafi meðal annars sýnt sig að hún geti ekki sinnt skólagöngu drengsins eðlilega, þ.e. að halda honum við heimanám og sjá til þess að hann mæti alla daga í skóla.
Að fenginni reynslu telji stefnandi ómögulegt að aðilar fari áfram með sameiginlega forsjá drengsins að minnsta kosti miðað við óbreytt búsetufyrirkomulag, enda ráði stefnda ekki við að sinna drengnum nægilega. Þá séu samskipti aðila mjög erfið enda sjái stefnda ekki eigin vanda og kannist ekki við að úrbóta sé þörf varðandi aðhlynningu drengsins. Þá séu félagslegar og efnahagslegar aðstæður stefnanda betri en stefndu þar sem aðstæður hennar séu ótryggar vegna atvinnu- og heilsuleysis og vangetu til að stýra eigin aðstæðum.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða barnalaga nr. 76/2003, einkum 34. gr. og sé mál þetta höfðað á grundvelli VI. kafla laganna.
IV
Stefnda kveður það vera drengnum fyrir bestu að hún fari með forsjá hans, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, þegar nú liggi fyrir að stefnandi vilji slíta sameiginlegri forsjá aðila. Góð og mikil tengsl séu milli stefndu og drengsins. Þá séu mikil tengsl milli drengsins og allrar fjölskyldu stefndu. Þá hafi stefnda annast drenginn meira en stefnandi og verið sá aðili sem séð hafi um að hann fái viðeigandi aðstoð vegna athyglisbrests. Hún hafi verið í samskiptum við skólann og lækna vegna drengsins. Hún hafi einnig séð um að kaupa föt á hann og sinnt allri daglegri umönnun.
Að mati stefndu hafi hún fremur en stefnandi þá persónulegu eiginleika sem þurfi til þess að sinna forsjá drengsins. Hún búi ein í rúmgóðri þriggja herbergja íbúð sem hún hafi fest kaup á árið 2002 og sé í næsta nágrenni við skóla drengsins. Drengurinn hafi sér herbergi fyrir sig og prýðilega aðstöðu til að taka á móti leikfélögum en þeir búi einnig í sama hverfi. Stefnda hafi starfað á [...] og á [...] fram til ágúst 2007 þegar hún hafi orðið að hætta vegna veikinda. Hún sé nú í fullu námi í fjarnámi í [...] við [...] og geri ráð fyrir að ljúka því á þessu ári. Þá hafi hún í hyggju að hefja fljótlega störf á ný í sínu fagi. Þá hafi hún jafnan reynt að miða vinnu sína við það að vera laus þegar drengurinn sé hjá henni.
Stefnda sé reglusöm í dag og misnoti ekki lyf. Hún hafi ekki misnotað lyf síðan 2005 er hún hafi farið í meðferð. Vegna þunglyndis sem hún hafi strítt við haustið 2007 hafi stefnda átt í erfiðleikum með að vakna á morgnana og hafi þá komið fyrir að drengurinn mætti of seint í skólann. Eftir að hún hafi fengið rétta sjúkdómsgreiningu og rétta lyfjameðferð hafi hún alla burði til að bjóða drengnum upp á öryggi og gott atlæti í framtíðinni.
Þá hafi umönnun og aðstæður stefnanda ekki alltaf verið eins og best verði á kosið fyrir drenginn. Hann hafi lengi þurft að gist í svefnherbergi föður og sambýliskonu hans og í stofunni á heimili þeirra. Viti stefnda til þess að drengurinn sé oft eftirlitslaus á heimili stefnanda og sé jafnvel tímunum saman í tölvu eða fyrir framan sjónvarpið án þess að honum sé nokkuð sinnt. Oft sé hann hafður með frænda sínum sem sé tveimur árum eldri og mjög ofvirkur og virðist engin takmörk vera fyrir því hvað þeir megi taka sér fyrir hendur. Þá hafi sambýliskona stefnanda ítrekað talað illa um stefndu fyrir framan drenginn og hafi drengnum verið meinað að hafa samband við stefndu þegar hann sé hjá stefnanda. Telur stefnda að stefnandi sé að blanda drengnum í ósætti aðila og sé það til þess fallið að hafa skaðleg áhrif á hann.
Stefnda kveður drenginn hafa átt í námserfiðleikum síðastliðinn vetur og hafi hann á þeim tíma einangrast félagslega. Því telji hún það mikla röskun í för með sér fyrir hann ef hann þurfi að flytjast í nýtt bæjarfélag og skipta um skóla sem sé fjarri þeim skóla sem hann hafi verið í frá upphafi og fjarri félögum sínum í hverfinu.
Telur stefnda að stefnandi sýni vanda drengsins lítinn skilning. Hafi stefnandi aldrei haft frumkvæði að því að leitað væri aðstoðar vegna vanda hans og nú síðast hafi stefnandi þvertekið fyrir að drengurinn fái lyf vegna athyglisbrestsins sem læknar hafi ráðlagt.
Stefnda mótmælir því að aðstæður hennar séu ótryggar vegna atvinnu- og heilsuleysis. Hún hafi náð bata og eigi góða vinnumöguleika þar sem hún sé komin langt með að ljúka námi í [...]. Þá hafi hún komið sér upp góðu húsnæði sem hún sé ein eigandi að og hafi hún aldrei lent í fjárhagsvandræðum.
Verði stefndu dæmd forsjá drengsins muni hún stuðla að ríkulegri umgengni hans við stefnanda. Leggur hún til að umgengni þess foreldris sem ekki fær forsjána verði svo:
Regluleg umgengni: Frá fimmtudagssíðdegi til mánudagsmorguns.
Sumarleyfi: Fjórar vikur árlega. Skuli það foreldri sem ekki fær forsjá láta hitt vita fyrir 1. apríl ár hvert hvaða tími henti best til sumarleyfis þess og drengsins og fyrir 1. maí hvert ár skuli aðilar hafa ákveðið sumarleyfi drengsins með hvoru foreldri fyrir sig. Regluleg umgengni falli niður á meðan sumarumgengni stendur.
Jól og áramót: Drengurinn verði á jólum hjá stefndu og um áramót hjá stefnanda.
Páskar: Drengurinn verði aðra hverja páska hjá því foreldri sem ekki fær forsjána frá morgni skírdags og fram til hádegis á laugardegi fyrir páskasunnudag. Þau ár sem drengurinn sé hjá umgengnisforeldri sínu frá skírdegi fram á laugardag verði hann hjá forsjárforeldri frá hádegi á laugardegi fyrir páskasunnudag og fram á síðdegi annan í páskum.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnda til 3. og 4. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Kröfu sína um málskostnað byggir stefnda á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna. Hvað snertir virðisaukaskatt á málskostnað vísar stefnda til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
V
Eins og fram er komið deila aðilar í máli þessu um forsjá drengsins A sem er tæplega ellefu ára gamall. Fara aðilar með sameiginlega forsjá drengsins og á hann lögheimili hjá móður sinni.
A hefur verði greindur með athyglisbrest en sú röskun getur haft alvarlegar afleiðingar á námshæfni. Liggur fyrir í málinu að drengurinn hefur átt við námserfiðleika að etja auk þess sem hann er frekar illa staddur félagslega. Verður ekki annað af gögnum málsins ráðið en að þessir erfiðleikar drengsins verði fyrst og fremst raktir til þess að hann er með athyglisbrest. Hefur A gengið til Stefáns Hreiðarssonar barnalæknis og sérfræðings í fötlun barna frá því í febrúar 2007 vegna athyglisbrestsins en fram að því hafði hann gengið til Steingerðar Sigurbjörnsdóttur barnalæknis vegna þessa.
Stefán Hreiðarsson gaf skýrslu fyrir dóminum og kom fram hjá honum að athyglisbrestur drengsins væri afgerandi bæði í skóla og á heimili. Kvað hann athyglisbrestinn hafa áhrif á námshæfni á þann hátt að úthald væri lítið og lítil einbeiting við erfið verkefni. Hafi verið reynt að ýta undir námshæfni, athygliseinbeitingu og sjálfstjórn hjá drengnum með lyfjum. Árangur af lyfjagjöf komi ekki fram strax heldur sé þetta langtímasinning sem sé endurskoðuð á nokkurra mánaða fresti. Þá sé einnig mikilvægt að drengurinn fái gott öryggi, skipulag og góðan stuðning. Þá kom fram hjá lækninum að auk athyglisbrestsins sé misstyrkur í þroskamynstri drengsins sem leiði til þess að miklir veikleikar séu í vinnsluminni og vinnsluhraða hjá honum þannig að námið verði honum erfiðara en greind hans segi til um. Kvað læknirinn að bæði hann og fyrri læknir drengsins, Steingerður, hefðu ráðlagt mjög sterkt að drengurinn fengi lyf til að bæta námshæfni sína og þar með stöðu sína í lífinu. Aðspurður um hvort hægt væri að taka á athygslisbresti með öðru en lyfjum s.s. reglusemi í daglegu lífi og hreyfingu kvað hann slíkt geta hjálpað til en athyglisbrestur væri yfirleitt það sem síst léti undan með uppeldisháttum og væru lyf mjög oft það sem gerði börnum með athyglisbrest kleift að stunda nám sitt.
Eins og fram er komið liggur fyrir í málinu matsgerð Odda Erlingssonar sálfræðings, meðal annars um forsjárhæfni aðila. Kemur þar fram að báðir aðilar séu hæfir til að fara með forsjá sonarins. Bæði eigi þau sögu um misnotkun vímuefna, stefnandi hafi hætt neyslu fyrir um tíu árum en stefnda fyrir þremur árum. Sem standi virðist báðum ganga vel að halda sig frá vímugjöfum. Er ekkert fram komið í málinu annað en að svo sé.
Matsmaður telur að helsti styrkur föður sem uppalanda sé hve auðvelt hann eigi með að setja og halda ramma utan um drenginn en helstu veikleikar hans að hann sinni ekki ráðleggingum frá kennara um mikla aðstoð við heimanám drengsins, einkum þar sem drengurinn eigi við námserfiðleika að stríða. Þá telur matsmaðurinn að faðir geri sér grein fyrir að drengurinn eigi við einbeitingarskort og athyglisbrest að etja en meti umfang vandans minna en móðir og kennari. Sé faðir ásakandi í garð móður og telji vanda hennar mikinn en geri minna úr vanda drengsins. Hann virðist einfalda flóknar aðstæður með því að álíta að ef drengurinn komist undan uppeldisaðferðum móðurinnar verði allt gott.
Þá kemur fram í matsgerð að niðurstöður úr sálfræðilegum prófum sýni að greind föður sé við efstu mörk meðalgreindar og svo virðist sem skipulags- og námshæfileikar hans séu mjög góðir. Komi engin einkenni um geðrænan vanda föður á persónuleikaprófum. Megi búast við að faðir hafi gott sjálfstraust, sé stöðuglyndur, hafi almennt góða stjórn á skapi sínu, sé vanafastur, en ekki mjög næmur á eigin tilfinningar. Hann höndli álag með yfirvegun og leysi auðveldlega flest dagleg verkefni. Hann sé bjartsýnn, eigi mörg áhugamál, sé heiðarlegur og gangi almennt vel í daglegum samskiptum. Á forsjárhæfniprófi komi fram að forsjárhæfni föður sé mjög góð og hann vel hæfur að sinna forsjá sonarins.
Matsmaður kveður styrk móður sem uppalanda meðal annars liggja í umhyggjusemi gagnvart drengnum, en þar sem skorti festu og ákveðni sé hætta á að aðstæður hjá henni einkennist af undanlátssemi og ofvernd. Á greindarprófi komi fram að móðir búi við meðalgreind og að samsvörun sé á milli hæfileikans til náms og þeirrar leikni sem hún búi yfir. Á öðrum prófum sýni móðir einkenni kvíðaröskunar, depurðar, fíknar og persónuleikaröskunar. Séu einstaklingar, sem lýsi sér eins og móðir á persónuleikaprófi óhamingjusamir, hafi fá áhugamál og takist illa að finna úrræði til að láta sér líða betur. Þeir búi við lítið sjálfstraust og sterka efatilfinningu, séu mjög samviskusamnir, leggi ofuráherslu á smáatriði, séu ofurvarkárir og þrjóskir. Í samskiptum séu þeir tortryggnir og þar megi búast við togstreitu og reiðiköstum.
Þá segir í matsgerð að í samskiptum sé móðir heiðarleg. Tekur matsmaður fram að persónuleikaröskun eins og móðir greinist með sé alvarlegt einkenni geð- og atferlisröskunar sem oftast hafi varað frá bernsku eða unglingsárum. Einkenni séu frekar varanleg og oftast illbreytanleg. Þau hafi áhrif á flesta þætti í lífi viðkomandi og einkenni samskipti viðkomandi og lífstíl mjög greinilega. Slík röskun sé oftast rót tilfinningalegrar spennu og samskiptavanda. Móður finnist hún nú sátt við líðan sína og færni, einkenni vægari og ástand betra en þegar tekið sé mið af öllu síðasta ári. Niðurstöður á forsjárhæfnimati gefi til kynna að forsjárhæfni móður sé góð og hún sé fær um að sinna forsjá sonarins. Vandi móður að setja barninu mörk og andleg veikindi hennar hafi árhif á niðurstöður.
Matsmaður kveður að við samanburð á niðurstöðum forsjárhæfnimats sé á milli aðila marktækur munur á hugrænum tilfinningarkvarða og séu niðurstöður oftast föður í vil. Komi faðir því betur úr úr matinu en móðir og megi einkum búast við meiri stöðugleika og jafnvægi hjá föður, einkum varðandi andlega líðan.
Samkvæmt gögnum málsins hafa báðir foreldrar góðar ytri aðstæður. Þau búa bæði í eigin húsnæði þar sem A á sérherbergi og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að báðir aðilar séu ágætlega settir fjárhagslega. Stefnandi er nýfluttur í nýtt raðhús í Hafnarfirði þar sem hann býr með sambýliskonu sinni og eiga þau von á barni nú í nóvember. Þá búa tvær dætur sambýliskonunnar á heimilinu. Þá hefur frændi A, sem hann leikur sér gjarnan við, flutt í sama hverfi. Stefnda býr ein með A í íbúð sinni sem er í [...] í Reykjavík, stutt frá [...]skóla sem A hefur gengið í frá því að skólaganga hans hófst. Þar hafa þau mægðin búið frá því að A var fjögurra ára og í því hverfi á hann leikfélaga. Þá verður af gögnum málsins ekki annað ráðið en að báðir aðilar eigi góða að og fái stuðning hjá fjölskyldum sínum.
Matsmaður átti tvö viðtöl við A í byrjun maí 2008, það fyrra eftir að drengurinn hafði verið í umgengni hjá föður og hið síðara eftir umgengni við móður. Kveður matsmaður að í viðtölum þessum hafi komið fram að tengsl drengsins við báða foreldra séu góð. Honum líði vel á báðum stöðum og finnist þau bæði góð. Honum finnist ekki erfitt að búa til jafns hjá þeim báðum.
Þegar A hafi verið spurður um það sérstaklega í hinu fyrra viðtali hvar hann vildi frekar búa ef hann ætti val hafi hann sagst frekar vilja búa hjá pabba. Í síðara viðtalinu hafi hann sagt að sig langaði að fara til pabba þegar nýja húsið væri tilbúið. Þá kemur fram hjá matsmanni að í viðtölum hafi A reynt að gera ekki upp á milli foreldranna en hann taldi fleiri kosti við það að vera hjá pabba sínum þótt hann væri ekki viss um að hann vildi skipta um skóla. Honum finnist sér minna strítt þegar hann sé hjá pabba og þar leiki hann sér við frænda sinn.
Kemur fram hjá matsmanni að niðurstöður úr fjölskyldutengslaprófi sýni að A líði best hjá pabba sínum og hann sé sá sem hann vilji helst hafa hjá sér. Honum finnst pabbi sinn vera bestur við sig, sá sem hjálpar sér mest og sýni mesta umhyggju. Aðrir fjölskyldumeðlimir fái mun færri stig en móðirin næstflest þegar athyglinni sé beint að jákvæðum gagnkvæmum tengslum. Þá sýni niðurstöður að drengnum finnist báðir foreldrar ofvernda sig. Séu tengsl við stjúpsystur meira á neikvæðum nótum en jákvæðum en við stjúpmóður lýsi hann veikum tengslum sem séu bæði jákvæð og neikvæð.
Þá kemur fram í matsgerð að samkvæmt greindarprófi sé drengurinn í meðallagi greindur en grunur sé um einbeitingarerfiðleika. Þá sýni þunglyndispróf ekki merki um depurð eða vanlíðan. Þá hafi niðurstöður úr sjálfsmyndaprófi gefið til kynna að sjálfsmynd drengsins sé góð og hann upplifi sig sem venjulegt heilbrigt barn, finnist sér almennt líða vel en finni spennu í samskiptum við jafnaldra og finnist sér ógnað í bekknum. Þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður úr sjálfsmyndaprófi telur matsmaður að ekki verði fram hjá því litið að drengurinn eigi við sérstakan vanda að stríða og sérþarfir sem taka þurfi alvarlega og huga sérstaklega að. Að mati matsmanns taki hvorugt foreldranna á þessum vanda til fullnustu þótt þau sýni honum mikla umhyggju hvort á sinn hátt.
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003 skal við úrlausn um, hjá hvoru foreldri forsjá verði, fara eftir því sem er barni fyrir bestu. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar eru báðir aðilar hæfir til að fara með forsjá drengsins en stefnandi þó hæfari þar sem hjá honum megi búast við meiri stöðugleika og jafnvægi, einkum varðandi andlega líðan. Þá kemur fram í matsgerðinni að drengnum líði vel hjá báðum foreldrum þótt hann myndi velja að búa hjá föður ef hann ætti val, en væri ekki viss um að hann vildi skipta um skóla.
Eins og rakið hefur verið á drengurinn við sérstakan vanda að stríða sem þarf að taka alvarlega og huga sérstaklega að. Þrátt fyrir það mat matsmanns, að búast megi við meiri stöðugleika og jafnvægi hjá föður, einkum varðandi andlega líðan, verður ekki fram hjá því litið að Stefán Hreiðarsson barnalæknir hefur ráðlagt að drengurinn fái lyf til að bæta námshæfni sína og þar með stöðu sína í lífinu. Þessu hefur stefnandi algerlega hafnað og telur reglusemi og hreyfingu duga þrátt fyrir eindregnar ráðleggingar sérfræðingsins.
Við meðferð málsins kom fram að stefnda hefur þvert á vilja stefnanda ákveðið í samráði við Stefán Hreiðarsson og skóla drengsins að hann fái þau lyf sem ráðlögð hafa verið. Hafa drengnum verið gefin lyf í skólanum og í viðtali matsmanns við C deildarstjóra sérkennslu, kom fram að hinn 13. maí 2008 hafi lyfjagjöf hafist í skólanum og eftir það hafi sést mikil og jákvæð breyting á A, hann eigi mun auðveldara með að einbeita sér, bæði í námi og félagslega. Þá kom fram hjá báðum aðilum fyrir dómi að betur gangi nú með drenginn en áður.
Í stefnu er fullyrt að mikil óregla sé á heimili stefndu en stefnandi hefur ekki lagt fram nein haldbær gögn sem styðja þær fullyrðingar. Hins vegar er ljóst að stefnda hefur átt við veikindi að stríða sem hún telur sig nú hafa fengið bata á. Benda gögn málsins til þess að þau vandamál sem vissulega voru til staðar þegar mál þetta var höfðað varðandi skólasókn drengsins og rekja má til veikinda stefndu, séu nú úr sögunni. Þá kemur fram í umsögnum kennara A, D, og fyrrnefndrar C að stefnda sinni heimanámi drengsins, sem sé mjög mikilvægt enda þurfi hann á mikilli aðstoð að halda vegna námserfiðleika. Stefnandi hins vegar sinni heimanámi hans ekki. Þessu mótmælir stefnandi án þess að leggja fram haldbær gögn þeim mótmælum til stuðnings, en honum hefði verið í lófa lagið að leiða kennarana sem vitni í málinu.
Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að stefnda hefur alla tíð verið vakandi fyrir vandamálum drengsins og leitað sér aðstoðar hjá fagaðilum. Hefur A fengið mikla aðstoð í skólanum vegna námserfiðleika sinna.
Við mat á niðurstöðu í þessu máli vegast á þau sjónarmið, annars vegar að forsjá drengsins fari til föður sem matsmaður telur hæfari forsjáraðila þar sem hjá honum megi búast við meiri stöðugleika og jafnvægi og drengurinn hefur gefið til kynna að þar vilji hann heldur vera, og hins vegar þau sjónarmið sem lúta að því hvort drengurinn eigi að taka þau lyf sem sérfræðingar telja að séu honum nauðsynleg, en faðir hefur alfarið hafnað því að drengnum séu gefin lyf og telur sig geta tekist á við vanda hans með uppeldisaðferðum og hreyfingu.
Við mat á því hvar hagsmunum drengsins þykir betur borgið vegur þungt sú staðreynd að faðir hefur alfarið kosið að virða að vettugi álit sérfræðinga um að sonur hans þurfi lyf vegna athyglisbrests. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat dómsins að ekki sé forsvaranlegt að hunsa ráðleggingar sérfræðinga varðandi meðhöndlun á athyglisbresti drengsins sem telja að velferð barns með röskun sem þessa vera undir því komin að hún sé meðhöndluð með lyfjagjöf. Er það því niðurstaða dómsins að þörfum og hagsmunum drengsins sé betur borgið fari stefnda með forsjá hans. Er því fallist á kröfu hennar um að henni verði falin forsjá A.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða einfalt meðlag með syni málsaðila, frá dómsuppsögudegi til fullnaðs 18 ára aldurs hans, en stefnda hefur ekki rökstutt með neinum hætti á hverju hún byggir kröfur sínar um tvöfalt meðlag sem er undantekning frá meginreglunni um einfalt meðlag .
Í málinu er gerð krafa um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar. Það er mat dómsins að drengurinn hafi mikla þörf fyrir ríkulega umgengni við föður sinn, hins vegar ber aðilum saman um að helmingaskipti á umgengni séu ekki hagstæð fyrir hann. Það fær einnig stoð í gögnum málsins og miðað við persónulega stöðu drengsins er mikilvægt að festa sé á umgengninni. Þykir rétt að regluleg umgengni við föður verði aðra hverja viku frá miðvikudagssíðdegi til mánudagsmorguns. Þá verði sumarumgengni með þeim hætti að drengurinn verði árlega fjórar vikur í sumarleyfi hjá föður sínum og skal faðir láta móður vita fyrir 1. apríl ár hvert hvaða tími hentar best. Fyrir 1. maí ár hvert skulu aðilar hafa ákveðið sumarleyfi drengsins með hvoru foreldri fyrir sig. Regluleg umgengni fellur niður á meðan á sumarumgengni stendur. Þá þykir rétt að drengurinn dvelji hjá stefndu yfir jól og hjá stefnanda yfir áramót. Umgengni um páska skiptist til helminga milli aðila.
Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu að fjárhæð 1.144.465 krónur, sem er útlagður kostnaður að fjárhæð 438.815 krónur og málflutningslaun lögmanna hennar, annars vegar Daggar Pálsdóttur hrl. sem þykja hæfilega ákveðin 373.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og hins vegar Hilmars Baldurssonar hdl. sem þykja hæfilega ákveðin 336.150 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl. Af hálfu stefndu flutti málið Hilmar Baldursson hdl., en hann tók við málinu af Dögg Pálsdóttur hrl. sem sagði sig frá málinu.
Dóm þennan kveða upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari, Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur og Þorgeir Magnússon sálfræðingur.
DÓMSORÐ
Stefnda, K, skal fara með forsjá sonar málsaðila, A, til fullnaðs 18 ára aldurs hans.
Stefnandi, M, greiði einfalt meðlag með drengnum sig til fullnaðs 18 ára aldurs hans frá 7. nóvember 2008.
Umgengni sonar málsaðila við stefnanda verði aðra hverja viku frá miðvikudegi til mánudags. Sumarumgengni við föður verði árlega fjórar vikur. Drengurinn verði um jól hjá stefndu en hjá stefnanda um árámót. Umgengni um páska skiptist til helminga milli aðila
Málskostnaður fellur niður milli aðila.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, samtals að fjárhæð 1.144.465 krónur, greiðist úr ríkissjóði.