Hæstiréttur íslands
Mál nr. 10/2021
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Barnavernd
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst Landsrétti 17. febrúar 2021. Kærumálsgögn bárust Hæstarétti sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 11. febrúar 2021 þar sem málinu var vísað frá réttinum. Kæruheimild er í 3. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka kröfur hennar til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt við meðferð málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 var dóttir sóknaraðila vistuð utan heimilis í tvo mánuði eða til 24. janúar 2021 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili bar úrskurð varnaraðila undir héraðsdóm með heimild í 2. mgr. 27. gr. laganna. Með úrskurði dómsins 15. janúar 2021 var úrskurður varnaraðila staðfestur, málskostnaður felldur niður milli aðila og mælt fyrir um að gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.100.000 krónur, skyldi greiddur úr ríkissjóði. Sama dag höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Málið var þingfest fyrir héraðsdómi 22. janúar 2021 og mun sæta þar flýtimeðferð, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga.
Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar 29. janúar 2021 og krafðist þess að úrskurður varnaraðila um vistun dóttur sinnar utan heimilis í tvo mánuði yrði felldur úr gildi, varnaraðila yrði gert að greiða sér kærumálskostnað, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og að þóknun lögmanns hennar vegna meðferðar málsins í héraði yrði ákveðin 1.741.775 krónur.
Með hinum kærða úrskurði Landsréttar 11. febrúar 2021 var máli sóknaraðila vísað frá réttinum á þeim grundvelli að varnaraðili hafi krafist þess að sóknaraðili yrði svipt forsjá dóttur sinnar áður en þeim tíma lauk sem hún var vistuð utan heimilis. Við þær aðstæður og með vísan til afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga yrði að líta svo á að áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis sóknaraðila sækti með ,,sjálfstæðum hætti“ stoð í það lagaákvæði allt þar til dómur gengi í forsjármálinu. Hefði sóknaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ógildingu ,,hins kærða úrskurðar“. Málinu var vísað frá Landsrétti og kærumálskostnaður felldur niður. Þá var í hinum kærða úrskurði kveðið á um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Landsrétti og þóknun lögmanns hennar fyrir réttinum.
II
1
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að hinum kærða úrskurði verði hnekkt í fyrsta lagi á því að í honum sé ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu hennar að úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 yrði ógiltur. Í hinum kærða úrskurði sé á hinn bóginn tekið fram að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ,,ógildingu hins kærða úrskurðar“. Sú krafa hafi ekki komið fram af hálfu sóknaraðila. Einnig skorti á að í hinum kærða úrskurði sé tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um hækkun málflutningsþóknunar sem ákveðin hafi verið í héraðsdómi.
Í annan stað reisir sóknaraðili kröfu sína á því að ráðstöfun samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga framlengist meðan dómari leysi úr kröfu barnaverndarnefndar um lengri vistun samkvæmt 27. eða 28. gr. laganna, eða kröfu um sviptingu forsjár samkvæmt 29. gr. þeirra. Sóknaraðili bendir á að niðurstaða Landsréttar feli í sér að ekki sé unnt að vinda ofan af ráðstöfun barnaverndarnefndar, þegar ekki eru uppfyllt skilyrði fyrir því að vista barn utan heimilis, fyrr en dómur gangi í máli sem höfðað hefur verið til sviptingar forsjár. Þótt ætla megi að slík tilvik séu fátíð vegi slík niðurstaða að réttaröryggi og hagsmunum foreldra og barna.
Í þriðja lagi telur sóknaraðili að niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vistun barns utan heimilis sæki ,,með sjálfstæðum hætti“ stoð í 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, eins og það sé orðað í hinum kærða úrskurði, verði ekki skilin á annan hátt en þann að réttur foreldra og þeirra barna sem náð hafa 15 ára aldri til að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara og síðan æðri dóm, ónýtist ef nefndin höfði mál gegn foreldri til sviptingar forsjár. Slík niðurstaða standist ekki enda sé sérstaklega mælt fyrir um réttinn til að leita úrlausnar dómstóla um úrskurð sem kveðinn er upp samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. laganna í 2. mgr. ákvæðisins.
Í fjórða lagi bendir sóknaraðili á að löggjafinn hafi metið það svo að brýnt sé að héraðsdómur leysi úr málum af þeim toga sem hér um ræðir eins fljótt og auðið er og að heimilt sé að leita eftir endurskoðun Landsréttar á þeirri niðurstöðu. Í því ljósi sé örðugt að átta sig á hvers vegna talið sé að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni.
Að lokum reisir sóknaraðili kröfu sína á að niðurstaða hins kærða úrskurðar samrýmist ekki stjórnarskrárvörðum rétti hennar til að bera úrskurð varnaraðila undir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún fari gegn rétti hennar til að leita úrlausnar dómstóla um þá ákvörðun að taka dóttur hennar úr hennar umsjá, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða Landsréttar leiði til þess að réttur sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga til að bera úrskurð varnaraðila undir æðri dóm sé í reynd ekki fyrir hendi þegar barnaverndarnefnd höfði á sama tíma mál til sviptingar forsjár.
2
Varnaraðili heldur því fram að dóttir sóknaraðila sé nú vistuð utan heimilis á grundvelli skýrs lagaákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Í hinum kærða úrskurði Landsréttar hafi einungis verið til úrlausnar úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 um vistun dóttur sóknaraðila utan heimilis til tveggja mánaða. Það vistunartímabil hafi runnið sitt skeið. Því hafi niðurstaða hins kærða úrskurðar verið sú að sóknaraðili hefði ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum fyrir Landsrétti. Byggt er á því að fyrir liggi skýr fordæmi um að ef vistunartíma lýkur áður en úrskurður er kveðinn upp af hálfu dómstóla, séu lögvarðir hagsmunir sóknaraðila af því að fá úrskurði barnaverndarnefndar hnekkt ekki lengur fyrir hendi, sbr. dóma Hæstaréttar 7. desember 2011 í máli nr. 633/2011, 22. mars 2012 í máli nr. 168/2012 og 14. júní 2016 í máli nr. 422/2016. Varnaraðili bendir á að þegar kæra sóknaraðila hafi borist Landsrétti hafi tveggja mánaða vistunartíma verið lokið. Tafir á því að nýta málskotsrétt leiði til þess að málskot til Landsréttar ónýtist ef vistunartímabili úrskurðar varnaraðila er þá lokið. Varnaraðili telur að slíkt fyrirkomulag gangi ekki í berhögg við ákvæði 1. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Varnaraðili bendir á að áframhaldandi vistun dóttur sóknaraðila að loknum tveggja mánaða vistunartíma á grundvelli úrskurðar varnaraðila byggist á skýru lagaboði 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Þar sem varnaraðili hafi krafist sviptingar forsjár áður en vistunartíma samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar lauk haldist sú ráðstöfun að vista barnið tímabundið utan heimilis að loknum gildistíma úrskurðarins. Þar sem viðbótarvistunartími á grundvelli framangreinds lagaákvæðis hafi verið hafinn er sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar hafi sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af kröfu sinni.
Varnaraðili mótmælir málskostnaðarkröfu sóknaraðila og bendir á að þegar sóknaraðili krafðist endurskoðunar á úrskurði barnaverndarnefndar fyrir Landsrétti hafi vistunartími samkvæmt úrskurðinum verið liðinn. Lögmæti úrskurðarins hafi því verið borið undir dóm að ófyrirsynju.
III
Í 27. gr. barnaverndarlaga er fjallað um úrskurð barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis. Í a-lið 1. mgr. greinarinnar segir að með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 26. gr. laganna og ef brýnir hagsmunir barns mæli með því geti barnaverndarnefnd með úrskurði gegn vilja foreldra og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri kveðið á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði. Í b-lið 1. mgr. 27. gr. kemur meðal annars fram að barnaverndarnefnd geti með úrskurði kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barni og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í 2. mgr. 27. gr. segir að foreldrum eða barni sem náð hefur 15 ára aldri sé heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara innan tilskilins frests. Málskot til dómstóla komi þó ekki í veg fyrir að úrskurður barnaverndarnefndar komi til framkvæmda.
Eins og rakið hefur verið kvað varnaraðili upp úrskurð 24. nóvember 2020 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um að dóttir sóknaraðila skyldi vistuð á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði til 24. janúar 2021.
Samkvæmt 28. gr. laganna, sem fjallar um úrskurð dómstóls um vistun barns utan heimilis, getur barnaverndarnefnd gert kröfu um það fyrir héraðsdómi að ráðstöfun samkvæmt a- og b-liðum 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um og er þá heimilt með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp. Ef krafist er framlengingar vistunar samkvæmt 27. eða 28. gr. barnaverndarlaga eða forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. laganna áður en vistunartíma lýkur er kveðið svo á um í 2. mgr. 28. gr. laganna að ráðstöfun haldist þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir. Að baki ákvæði 2. mgr. 28. gr. standa þau rök að hagsmunir barns séu best tryggðir með því að ákveðin samfella verði í vistun þess meðan ágreiningsmálum um áframhaldandi vistun eða forsjársviptingu er ráðið til lykta.
Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að fyrir liggi skýr fordæmi Hæstaréttar um að ef vistunartíma er lokið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar áður en úrskurður dómstóls um vistunina liggur fyrir, hafi málskotsaðilar samkvæmt 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Um þetta hefur varnaraðili vísað til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar í málum nr. 633/2011, 168/2012 og 422/2016. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 633/2011 og 168/2012 eiga það sammerkt að sá tími sem vistun barna þeirra sem í hlut áttu var markaður hafði runnið sitt skeið þegar málið kom til kasta Hæstaréttar og ekki verður ráðið af dómum þessum að krafist hafi verið áframhaldandi vistunar eða forsjársviptingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Hinir lögvörðu hagsmunir af því að fá endurskoðaða ákvörðun barnaverndarnefndar voru því ekki lengur fyrir hendi. Í því máli sem dómur Hæstaréttar í máli nr. 422/2016 tekur til hagaði svo til að héraðsdómur hafði tekið ákvörðun um að framlengja vistun barna þeirra sem í hlut áttu frá því sem upphaflega var ákveðið með úrskurði barnaverndarnefndar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Í því ljósi hafði móðir barnanna ekki lögvarða hagsmuni af því að fá sérstaklega endurskoðaðan fyrir Hæstarétti þann úrskurð barnaverndarnefndar sem upphaflega hafði verið kveðinn upp, en þess í stað var endurskoðaður úrskurður héraðsdóms um framlengingu vistunar utan heimilis.
Í máli því sem hér er til úrlausnar hagar á hinn bóginn svo til að varnaraðili hefur höfðað mál á hendur sóknaraðila og krafist þess að hún verði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, en niðurstaða dómstóls um þá kröfu liggur ekki fyrir. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 28. gr. laganna helst því sú ráðstöfun varnaraðila að vista barn sóknaraðila utan heimilis þar til dómur gengur um kröfu varnaraðila um sviptingu forsjár, enda féllst héraðsdómur ekki á að fella úr gildi úrskurð varnaraðila um tímabundna vistun barns sóknaraðila utan heimilis. Þar sem sú ráðstöfun sem ákveðin var með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 er enn í gildi vegna ákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga hefur sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðaða fyrir æðri dómi niðurstöðu héraðsdóms um þann úrskurð. Í þessu samhengi verður að túlka kröfuna um lögvarða hagsmuni í ljósi 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og með tilliti til friðhelgi fjölskyldu, sbr. 1. mgr. 71. gr. hennar.
Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Við þá efnismeðferð komi auk þess sem að framan er rakið til skoðunar sá annmarki á hinum kærða úrskurði að ekki var tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um endurskoðun á fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hennar fyrir héraðsdómi.
Kærumálskostnaður verður felldur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar lögmanns sóknaraðila er litið til þess að samhliða þessu máli er rekið sambærilegt mál fyrir Hæstarétti vegna annars barns sóknaraðila.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Úrskurður Landsréttar 11. febrúar 2021.
Landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Ragnheiður Bragadóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.
Málsmeðferð og dómkröfur aðila
-
Sóknaraðili, A, skaut málinu til Landsréttar með kæru 29. janúar 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Greinargerð varnaraðila barst réttinum 3. febrúar 2021. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2021 í málinu nr. U-8060/2020 þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 um að dóttir sóknaraðila, B, skyldi vistuð utan heimilis móður sinnar í tvo mánuði frá 24. nóvember 2020. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
-
Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 verði felldur úr gildi. Þá krefst sóknaraðili þess að málflutningsþóknun lögmanns hennar vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi verði ákveðin 1.741.775 krónur auk virðisaukaskatts og kærumálskostnaðar líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál.
-
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá Landsrétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Niðurstaða
-
Með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 var dóttir sóknaraðila vistuð utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi. Varnaraðili fól jafnframt borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gera kröfu um að sóknaraðili og faðir stúlkunnar skyldu svipt forsjá hennar á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.
-
Hinn 24. janúar 2021 rann út sá vistunartími sem kveðið var á um í úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020. Áður en vistunartímanum lauk krafðist varnaraðili þess að foreldrar stúlkunnar yrðu sviptir forsjá hennar. Réttarstefna vegna forsjársviptingarmálsins var gefin út af héraðsdómara 11. janúar 2021 og birt fyrir lögmanni sóknaraðila 15. sama mánaðar. Málið mun hafa verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 22. sama mánaðar og vera rekið undir málsnúmerinu E-113/2021. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga.
-
Í 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga segir að ef krafist er framlengingar vistunar samkvæmt 27. eða 28. gr. laganna eða forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. áður en vistunartíma lýkur haldist ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir. Með ákvæðinu er tryggð samfella í vistun barns meðan ágreiningsmálum varðandi áframhaldandi vistun eða forsjársviptingu er ráðið til lykta fyrir dómstólum.
-
Eins og að framan greinir krafðist varnaraðili þess, áður en fyrrgreindum vistunartíma lauk, að sóknaraðili yrði svipt forsjá dóttur sinnar. Við þessar aðstæður og með vísan til afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga verður að líta svo á að áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis sæki með sjálfstæðum hætti stoð í það lagaákvæði allt þar til dómur gengur í forsjársviptingarmálinu. Sóknaraðili hefur því ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ógildingu hins kærða úrskurðar. Samkvæmt því verður málinu vísað frá Landsrétti.
-
Kærumálskostnaður fellur niður.
-
Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Landsrétti fer eins og í úrskurðarorði greinir en þóknun lögmanns hennar er þar tilgreind án virðisaukaskatts í samræmi við venju. Við ákvörðun þóknunar lögmannsins hefur verið litið til þess að sambærilegt mál vegna annars barns sóknaraðila er rekið samhliða þessu máli.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá Landsrétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, 323.000 krónur.