Hæstiréttur íslands
Mál nr. 622/2011
Lykilorð
- Skuldabréf
- Ábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 3. maí 2012. |
|
Nr. 622/2011.
|
Lánasjóður íslenskra námsmanna (Indriði Þorkelsson hrl.) gegn Viðari Má Matthíassyni (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Skuldabréf. Ábyrgð.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sýknu V af kröfu LÍN um að felldur yrði úr gildi úrskurður málskotsnefndar LÍN þar sem úrskurður stjórnar LÍN var felldur úr gildi og ábyrgð V á tilteknu láni var felld niður. Var það niðurstaða Hæstaréttar að skýra yrði ákvæði 4. mgr. 8. gr. þágildandi laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki á þann veg að ábyrgð ábyrgðarmanns á endurgreiðslum gæti ekki staðið lengur en í 20 ár frá fyrsta gjalddaga láns, óháð því hvort lántaki fengi undanþágur eða frestun á greiðslu þess. Þar sem 20 ár voru liðin frá fyrsta gjalddaga lánsins er V hafði uppi kröfu um niðurfellingu ábyrgðar, var hann talinn laus undan ábyrgð sinni á láninu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Símon Sigvaldason héraðsdómari, Sigurður Tómas Magnússon prófessor og Skarphéðinn Þórisson hæstaréttarlögmaður.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. nóvember 2011. Hann krefst þess að „felldur verði úr gildi úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dagsettur 9. maí 2011, í málinu nr. L-40/2010 þar sem úrskurður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 17. ágúst 2010 var felldur úr gildi og ábyrgð stefnda, Viðars Más Matthíassonar, á láni nr. V-007230 felld niður.“
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi undirritaði stefndi 22. ágúst 1985 yfirlýsingu um ábyrgð sem sjálfskuldarábyrgðarmaður á námsláni að fjárhæð 270.617 krónur vegna endurnýjunar námslána Ingólfs Arnarsonar hjá áfrýjanda. Í yfirlýsingunni kemur fram að um sé að ræða lán sem veitt sé til endurnýjunar lána til greiðslu á námstíma skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1976, um námslán og námsstyrki. Í skilmálum yfirlýsingarinnar er tekið fram að lánið sé að fullu greitt þegar höfuðstóll sé að fullu greiddur, eða ,,greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sé lán þá eigi að fullu greitt falla eftirstöðvar þess ásamt verðbótum niður.“ Þá er tekið fram í skilmálum að sjóðsstjórn geti veitt undanþágu frá endurgreiðslureglum ef lánþegi búi við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa, t.d. vegna örorku. Einnig er tekið fram að séu árlegar afborganir ekki inntar af hendi á réttum tíma teljist öll skuldin, ásamt verðbótum, gjaldfallin og sé innheimt á kostnað lántaka, nema sérstakar ástæður valdi að mati sjóðsstjórnar, sem geti þá samið um greiðslufrest. Skuldabréf að fjárhæð 270.617 krónur vegna endurnýjunar námslána Ingólfs Arnarsonar var gefið út 4. september 1985. Í skuldabréfinu er samhljóða ákvæði um greiðslutíma, undanþágur frá endurgreiðslureglum og greiðslufresti og fram komu í ábyrgðaryfirlýsingunni. Ekki er ágreiningur um að lántaki hafi árlega greitt af umræddu skuldabréfi í samræmi við skilmála þess frá fyrsta gjalddaga 1. júlí 1986 til og með 1. nóvember 1991. Þá er ágreiningslaust að á árunum 1992 til 1995 hafi lánþegi ekki greitt árlegar afborganir af láninu á grundvelli reglna áfrýjanda um undanþágur frá greiðslum á grundvelli lánshæfs náms. Jafnframt er ekki ágreiningur um að á árunum 1996 til 2002 hafi ekki verið greitt af láninu þar sem lántaki hafi verið að greiða af svonefndu R-láni, sem voru námslán veitt á árunum 1992 til 2004, en í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er ákvæði þess efnis að greiðslur af eldri námsskuld frestist þar til R-lán sé að fullu greitt. Lántaki hóf á ný greiðslur af láninu á árinu 2003, en við gjalddaga 1. júlí 2008 fór lánið í vanskil. Þá veitti áfrýjandi lántaka undanþágur frá greiðslu lánsins á árunum 2009 og 2010. Stefndi ritaði áfrýjanda bréf 18. janúar 2010 þar sem hann lýsti yfir að í ljósi skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar frá 22. ágúst 1985 teldi hann ábyrgð sína niður fallna. Eftirstöðvar lánsins námu samtals 1.137.300 krónum við framlagningu yfirlits um stöðu þess í héraðsdómi 20. september 2011.
Ágreiningur með aðilum stendur fyrst og fremst um skýringu á gildistíma ábyrgðaryfirlýsingarinnar í ljósi ákvæða 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 og skilmála hennar. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skyldu endurgreiðslur af veittum námslánum ,,standa yfir í 20 ár hið lengsta.“ Væru eftirstöðvar lánsins þá óafturkræfar. Áfrýjandi leggur þann skilning í ákvæði laganna og skilmála lánsins að skilja beri lánstíma þannig að miðað sé við að eftirstöðvar láns falli niður að liðnum 20 ársgreiðslum af láninu. Þar sem lántaki hafi fengið frest af greiðslu lánsins á árunum 1992 til 1995 og ákvæði laga nr. 21/1992 hafi mælt fyrir um forgang greiðslna samkvæmt R-lánum á árunum 1996 til 2002, hafi 20 ársgreiðslur af láninu ekki verið inntar af hendi og standi því ábyrgð stefnda á láninu óhögguð. Hvorki ákvæði laganna, ábyrgðaryfirlýsingarinnar, né skuldabréfsins verði skýrð á þann veg að greiðslutími sé að hámarki 20 ár frá 1. gjalddaga skuldabréfsins. Enn standi ógreiddar ársgreiðslur af láninu í samtals 8 ár. Stefndi byggir hins vegar meðal annars á því að skilja verði ákvæði 4. mgr. 8. gr. á þann veg að endurgreiðslur geti ekki staðið yfir lengur en í 20 ár, hvað sem líði undanþágum eða frestunum á greiðslum.
Lög um íslenska námsmenn hafa frá upphafi kveðið á um endurgreiðslur námslána. Fyrstu lög um þetta efni, nr. 5/1952 um lánasjóð stúdenta og lög nr. 17/1960 um lánasjóð íslenskra námsmanna erlendis, höfðu að geyma samhljóða ákvæði um að lán skyldu greidd upp með jöfnum afborgunum á 10 árum. Með lögum nr. 52/1961 um lánasjóð íslenskra námsmanna runnu eignir lánasjóðanna tveggja inn í einn sameiginlegan sjóð. Í 5. gr. laganna var kveðið á um að lán skyldu endurgreidd með jöfnum afborgunum á allt að 15 árum. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að lánskjörum öllum sé haldið óbreyttum frá því sem áður var, að öðru leyti en því, að endurgreiðslutími lánanna sé lengdur úr 10 í 15 ár. Samhljóða ákvæði um endurgreiðslu var að finna í lögum nr. 7/1967 um námslán og námsstyrki, nema nú skyldu lánin endurgreidd með jöfnum ársgreiðslum. Á þessum árum var ekki vikið að undanþágum frá endurgreiðslu eða frestun á greiðslu námslána í lögum. Ákvæði um endurgreiðslur námslána tekur breytingum með lögfestingu laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 57/1976 er rakið að með frumvarpinu sé verið að gera róttæka breytingu á gildandi endurgreiðslukjörum lánasjóðsins. Sú mikla verðbólga er ríkt hafi hér á landi hin síðari ár hafi í raun leitt til þess að núverandi námslán hafi aðeins að litlu leyti komið til endurgreiðslu á raunvirði. Hafi þau nánast komið lánþegum að sama gagni og styrkir. Með ákvæðum frumvarpsins sé ætlunin að snúa af þessari braut og tryggja það í senn að lánasjóðurinn fái umtalsverðan hluta námslána endurgreiddan á raunvirði og að engum lánþega verði ofþyngt með endurgreiðslum. Lánin séu vaxtalaus en vísitölutryggð. Endurgreiðslutími lána skuli vera allt að 20 árum eftir að afborganir hefjist.
Um ábyrgð þá sem mál þetta er sprottið af fer eftir lögum nr. 57/1976. Verða ákvæði um gildistíma ábyrgðaryfirlýsingarinnar, sem er sjálfstæður samningur að lögum, skýrð með hliðsjón af ákvæðum laganna. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 57/1976 er ákvæði um endurgreiðslutíma í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 ekki skýrt umfram það sem segir í ákvæðinu sjálfu. Hið sama á við um forvera þess. Þá eru ákvæði laga nr. 57/1976 ekki skýr um samspil ákvæða laganna um endurgreiðslu og hvaða áhrif undanþágur frá greiðslu og greiðslufresti hafa á endurgreiðslutíma og um leið gildistíma ábyrgðarinnar. Hefði löggjafanum verið í lófa lagið að kveða afdráttarlaust á um þessi atriði við lögfestingu laga nr. 57/1976, enda ábyrgðin þá orðin til muna meira íþyngjandi fyrir ábyrgðarmann en áður. Óljós atriði í þessum efnum verða skýrð stefnda í hag en áfrýjandi er opinber lánasjóður stofnaður á grundvelli laga og á ábyrgð íslenska ríkisins. Af þeim ástæðum verður ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 skýrt á þann veg að ábyrgð ábyrgðarmanns á endurgreiðslum geti ekki staðið lengur en í 20 ár frá fyrsta gjalddaga lánsins, óháð því hvort lántaki fái undanþágur eða frestun á greiðslu lánsins. Þar sem meira en 20 ár voru liðin frá fyrsta gjalddaga lánsins er stefndi hafði uppi kröfu um niðurfellingu ábyrgðar, er stefndi þar með laus undan ábyrgð sinni á láninu. Með hliðsjón af því verður héraðsdómur staðfestur.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði stefnda, Viðari Má Matthíassyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 19. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lánasjóði íslenzkra námsmanna, kt. [...], Borgartúni 21, Reykjavík, með stefnu, birtri 27. júní 2011, á hendur Viðari Má Matthíassyni, kt [...], Bláskógum 4, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að felldur verði úr gildi úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenzkra námsmanna, dagsettur 9. maí 2011, í málinu nr. L-40/2010 þar sem úrskurður stjórnar Lánasjóðs íslenzkra námsmanna frá 17. ágúst 2010 var felldur úr gildi og ábyrgð stefnda, Viðars Más Matthíassonar, á láni nr. V-007230 felld niður.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að þann 22. ágúst 1985 undirritaði stefndi, ásamt Jóni Erni Arnarsyni, ábyrgðaryfirlýsingu vegna endurnýjunar námslána Ingólfs Arnarsonar hjá stefnanda. Umræddur lántaki tók námslán í tíð laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki. Í ábyrgðaryfirlýsingu þeirri, sem stefndi undirritaði, kom fram, að lánið væri veitt til endurnýjunar lána til greiðslu kostnaðar á námstíma, skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1976. Í texta ábyrgðaryfirlýsingarinnar sagði: ,,Lán er að fullu greitt þegar höfuðstóll er að fullu greiddur, eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sé lán þá eigi að fullu greitt falla eftirstöðvar þess ásamt verðbótum niður.“ Þá sagði einnig: ,,Séu árlegar afborganir ekki inntar af hendi á réttum tíma telst öll skuldin ásamt verðbótum gjaldfallin og er innheimt á kostnað lántaka, nema sérstakar ástæður valdi að mati sjóðsstjórnar, sem getur þá samið um greiðslufrest.“ Þann 4. september 1985 var gefið út skuldabréf með sama texta að þessu leyti og í ábyrgðaryfirlýsingunni frá 22. ágúst s.á. Fyrsti gjalddagi samkvæmt skuldabréfinu var 1. júlí 1986. Samkvæmt lögum nr. 57/1976 og ákvæðum skuldabréfsins sjálfs var um að ræða tvær afborganir á ári, þ.e. annars vegar 1. júlí ár hvert, sem var svokölluð föst greiðsla, þ.e. ákveðin upphæð uppreiknuð í samræmi við vísitölu og hins vegar 1. nóvember ár hvert, sem var svokölluð aukaafborgun sem reiknaðist sem hlutfall af tekjum samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1976 og skilmálum bréfsins. Lántaki greiddi af skuldabréfinu árlegar afborganir í samræmi við skilmála bréfsins og ákvæði laganna frá fyrsta gjalddaga þess þann 1. júlí 1986 til og með 1. nóvember 1991. Á árunum 1992 til 1995 fékk lántaki undanþágu frá árlegum afborgunum lánsins í samræmi við reglur sjóðsins, þar sem hann stundaði á þeim árum lánshæft nám. Á árunum 1996 til 2002 var afborgunum lánsins frestað, þar sem lántaki var þá að greiða af svokölluðu R-láni, en greiðsla af slíku láni frestaði sjálfkrafa greiðslu af skuldabréfi því, sem hér um ræðir, skv. ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslur hófust aftur af umræddu V-láni á árinu 2003. Lántaki stóð ekki skil á afborgun þann 1. júlí 2008 og hófst þar með innheimta gagnvart lántaka og ábyrgðarmönnum. Síðar sótti lántaki um og fékk undanþágur frá afborgunum áranna 2009 og 2010 á grundvelli laga og reglna, sem um slíkar undanþágur gilda.
Þann 18. janúar 2010 ritaði stefndi bréf til stefnanda þar sem hann lýsti því yfir, að hann teldi ábyrgð sína á láninu fallna niður, skv. skilmálum ábyrgðaryfirlýsingarinnar, þar sem liðin væru meira en 20 ár frá fyrsta gjalddaga bréfsins. Óskaði stefndi jafnframt skýringa stefnanda á því, hvers vegna enn væri verið að innheimta lánið gagnvart honum sem ábyrgðarmanni, þrátt fyrir þetta. Með bréfi stefnanda, dags. 27. janúar 2010, var útskýrt, að greiðslur hefðu frestazt, sbr. það sem áður hefur verið lýst, og samkvæmt túlkun stefnanda félli ábyrgðin ekki niður fyrr en greiddar hefðu verið afborganir í samtals 20 ár. Væru því á þessum tímapunkti enn eftir 8 ár af endurgreiðslutíma lánsins, nema skemmri tíma tæki að greiða lánið upp. Þann 1. febrúar 2010 sendi stefndi svarbréf til stefnanda og óskaði eftir nánari skýringum við tiltekin atriði auk afrits af úthlutunarreglum þeim, sem giltu, þegar ábyrgðaryfirlýsingin var undirrituð. Með bréfi, dags. 16. febrúar s.á., voru stefnda sendar umbeðnar útskýringar og gögn.
Þann 6. apríl 2010 sendi stefndi bréf til stefnanda og krafðist þess, að ábyrgðin yrði talin niður fallin á þeim grundvelli, sem hann hafði áður byggt á, þ.e. að lánið skyldi greiða á 20 árum með tveimur árlegum afborgunum, þeirri fyrstu þann 1. júlí 1986. Því hefði greiðslum átt að ljúka á árinu 2005 og ábyrgðin þar með að falla niður. Þá vísaði stefndi til laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, þannig að stefnanda hefði ekki verið heimilt að breyta skilmálum ábyrgðarinnar einhliða, eins og stefndi taldi að gert hefði verið með því að fresta afborgunum lánsins og lengja þannig gildistíma ábyrgðarinnar. Með bréfi, dags. 28. apríl 2010, var erindi stefnda synjað með sömu rökum og fram komu í bréfi stefnanda, dags. 27. janúar s.á., en ekki var fallizt á, að skilmálum ábyrgðarinnar hefði verið breytt með því að fresta afborgunum lánsins. Var þannig af hálfu stefnanda talið, að ábyrgð stefnda gæti ekki fallið úr gildi fyrr en; i) lánið hefði verið að fullu greitt, ii) það fallið niður eftir að greiddar hefðu verið af því afborganir í 20 ár eða iii) ef önnur ábyrgð yrði sett í staðinn. Var stefnda jafnframt bent á, að hann gæti farið með erindi sitt fyrir stjórn stefnanda, vildi hann ekki una niðurstöðunni. Með bréfi, dags. 3. maí 2010, ítrekaði stefndi þá afstöðu sína, að hann teldi ábyrgð sína niður fallna og boðaði jafnframt, að hann myndi bera erindið undir stjórn stefnanda. Áréttaði hann m.a., að skilningur stefnanda fæli í sér, að ábyrgð hans gæti staðið t.d. í 60 ár, allt eftir því hversu miklir frestir væru veittir á afborgunum. Óskaði stefndi jafnframt eftir að innheimta yrði stöðvuð, á meðan mál hans væri til úrlausnar, og var af hálfu stefnanda orðið við því.
Með bréfi, dags. 14. júlí 2010 (ártal leiðrétt), vísaði stefndi málinu til stjórnar stefnanda og gerði þá kröfu, að fallizt yrði á, að ábyrgð hans á láni nr. V-007230 teldist niður fallin. Stefndi byggði kröfu sína á sömu röksemdum og að framan greinir, þ.e. að ábyrgð hans hefði skv. skilmálum átt að falla niður að liðnum 20 árum frá fyrsta gjalddaga þess, og að stefnanda hefði ekki verið heimilt að breyta þeim skilmálum án hans samþykkis. Stjórn stefnda komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum, dags. 17. ágúst 2010, að ekki væru efni til að fallast á þau sjónarmið, að ábyrgðin teldist niður fallin. Í úrskurðinum var m.a. á því byggt, að í skilmálum skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingarinnar hefði falizt samkvæmt orðanna hljóðan, að eftirstöðvar lánsins féllu ekki niður fyrr en greiddar hefðu verið afborganir í 20 ár. Þau ár, sem frestur var veittur á afborgunum hafi þannig ekki getað talizt til ára, þar sem greiddar voru afborganir. Þá var á því byggt, að ekki hefði verið um að ræða breytingu á skilmálum skuldabréfsins eða ábyrgðarinnar, þar sem fram kom í skilmálunum, að stjórn sjóðsins væri heimilt að veita greiðslufrest á láninu.
Þann 16. nóvember 2010 kærði stefndi framangreindan úrskurð stjórnar stefnanda til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Í kærunni gerði stefndi eftirfarandi kröfur: „að hinn kærði úrskurður verði úr gildi felldur og jafnframt að viðurkennt verði að ábyrgð mín samkvæmt yfirlýsingu 22. ágúst 1985 á láni Ingólfs Arnarsonar, kt. 040256-2299, nr. V-007230 samkvæmt skuldabréfi útgefnu 16. september 1985, sé niðurfallin.“
Með bréfi, dags. 25. nóvember 2010, tilkynnti málskotsnefndin stjórn stefnanda, að nefndin hefði málið til meðferðar og veitti stefnanda frest til að koma að frekari rökstuðningi. Með bréfi, dags. 10. desember s.á., sendi stjórn stefnanda nefndinni rökstuðning sinn og umbeðin gögn. Stefnda gafst kostur á að gera athugasemdir vegna þess, sem hann gerði með bréfi, dags. 14. janúar 2011. Með bréfi, dags. 26. janúar s.á., óskaði málskotsnefndin eftir frekari gögnum frá stefnanda, og voru þau gögn send nefndinni þann sama dag. Stefndi sendi athugasemdir sínar vegna þessa til nefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2011.
Þann 9. maí 2011 kvað málskotsnefndin upp úrskurð sinn í málinu. Niðurstaða nefndarinnar var svohljóðandi:
„Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. ágúst 2010 er felldur úr gildi. Staðfest er að ábyrgð kæranda á láni Ingólfs Arnarsonar nr. V-007230 hjá LÍN er fallin niður.“
Með bréfi, dags. 23. maí 2011, óskaði stjórn stefnanda eftir því við málskotsnefndina, að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað í samræmi við 3. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992. Nefndin sendi stefnda tilkynningu um beiðnina þann 24. maí sl. og gaf honum kost á að tjá sig um beiðnina. Með bréfi, dags. 25. maí 2011, tilkynnti stefndi nefndinni, að hann hygðist ekki mótmæla því, að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað, enda gengi hann út frá því að innheimtuaðgerðum gegn honum sem ábyrgðarmanni yrði frestað, þar til niðurstaða lægi fyrir. Með bréfi nefndarinnar, dags. 27. maí 2011, var stefnanda tilkynnt um afstöðu stefnda, og með tölvupósti sama dag tilkynnti stefnandi, að innheimtuaðgerðum gagnvart stefnda hefði verið frestað. Þann 30. maí sl. kvað málskotsnefndin upp úrskurð, þar sem réttaráhrifum úrskurðar í málinu nr. L-40/2010 var frestað með þeim skilyrðum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992, að stjórn stefnanda bæri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óskaði jafnframt eftir flýtimeðferð málsins.
Til viðbótar framangreindri málavaxtalýsingu, sem er óumdeild, kveður stefndi nauðsynlegt að fram komi, að stefndi og Jón Örn Arnarson hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð, vegna fyrirhugaðrar endurnýjunar á námsláni Ingólfs Arnarsonar með undirritun á yfirlýsingu um ábyrgð þann 22. ágúst 19853. Skuldabréf vegna endurnýjunar námslána, sbr. 3. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki, hafi verið gefið út þann 4. september 1985. Skuldabréfið hafi ekki verið undirritað af hálfu ábyrgðarmanna, væntanlega af þeirri ástæðu, að skuldbinding sú, sem ábyrgðarmenn voru að ábyrgjast, hafi ráðizt af ákvæðum laga nr. 57/1976, eins og þau voru, þegar til ábyrgðarinnar var stofnað.
Fyrirkomulag þetta hafi verið í samræmi við ákvæði 8. gr. laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki, en þar hafi verið gert að skilyrði fyrir útgáfu skuldabréfs til greiðslu uppsafnaðra námslána á námstíma, að lánþegi útvegaði ábyrgðaraðila, sem sjóðsstjórn mæti gilda, sbr. 8. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976. Í sama ákvæði sé kveðið á um, að ábyrgð ábyrgðarmanna skuli vera einföld, sem stangist á við efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar um sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna.
Ábyrgðaryfirlýsing sú, sem stefndi ritaði undir, hafi borið með sér, að hún væri gefin út til tryggingar á endurnýjunarláni skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1976. Um endurgreiðslutíma endurnýjunarláns segi svo í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976:
„Endurgreiðslur skulu standa yfir í 20 ár hið lengsta. Eftirstöðvar lánsins eru þá óafturkræfar, sbr. þó ákvæði 11. gr.“
Í 11. gr. laga nr. 57/1976 sé að finna gjaldfellingarheimild vegna vanskila eða rangrar upplýsingargjafar, sem eðli málsins samkvæmt stytti endurgreiðslutímann.
Gildistíma ábyrgðarinnar sé lýst svo í ábyrgðaryfirlýsingunni 3:
„Lán er að fullu greitt þegar höfuðstóll er að fullu greiddur, eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sé lán þá eigi að fullu greitt falla eftirstöðvar þess ásamt verðbótum niður.“
Samkvæmt skuldabréfi vegna endurnýjunar námsláns hafi borið að greiða af skuldabréfinu árlega. Hafi fyrsti gjalddagi afborgunar af láninu verið þann 1. júlí 1986 og afborganir af því séu tvær á ári, önnur föst afborgun með gjalddaga 1. júlí ár hvert, en hin aukaafborgun með gjalddaga 1. nóvember ár hvert., sbr. einnig 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976.
Engin ákvæði séu í ábyrgðaryfirlýsingunni, sem veiti stjórn stefnanda heimild til að framlengja ábyrgðartíma ábyrgðarmanna, eins og hann hafi verið markaður af skilmálum ábyrgðaryfirlýsingarinnar og í lögum nr. 57/1976, þegar til ábyrgðarinnar var stofnað.
Í ábyrgðaryfirlýsingunni og 5. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 sé að finna heimild til þess að veita lánþega undanþágur frá endurgreiðslureglum, séu sérstakar ástæður fyrir hendi. Í skilmálum ábyrgðarinnar sé þessi heimild takmörkuð við það, að lánþegi búi við stórlega skertar fjárhagsaðstæður til langframa, t.d. vegna örorku. Ekki séu önnur ákvæði í ábyrgðaryfirlýsingunni, sem veiti stjórninni heimild til að víkja frá lögbundnu greiðslufyrirkomulagi, en heimildin sé að mati stefnda bundin við ívilnandi aðgerðir til að mæta aðstæðum lánþega. Hún feli hins vegar ekki í sér heimild til að auka við eða framlengja ábyrgð ábyrgðarmanna, a.m.k. ekki án samþykkis viðkomandi ábyrgðarmanna.
Í skilmálum ábyrgðaryfirlýsingarinnar sé einnig kveðið á um heimild stjórnarinnar til þess að veita greiðslufrest á afborgunum í vanskilum, en ekki sé vitað til þess, að á það ákvæði hafi reynt og því ekki haldið fram af hálfu stefnanda, að því hafi verið beitt.
Í stefnu sé upplýst og á því byggt, að greiðslum af láni því, sem stefndi var í ábyrgð fyrir, hafi verið frestað þrívegis, og séu gefnar upp eftirfarandi ástæður og forsendur að baki hverri frestun:
1. Árin 1992 til 1995, frestur veittur þar sem lánþegi var að stunda lánshæft nám. Hvaðan stefnandi sótti heimild til frestunar er ekki tilgreint í stefnu. Enga heimild til slíkrar frestunar er að finna í ábyrgðaryfirlýsingu á dskj. nr. 3, lögum nr. 57/1976 eða reglugerð nr. 402/1976.
2. Árin 1996 til 2002, frestur veittur á greiðslu lánsins skv. ákvæðum, 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1991, þar sem greiðslur af yngra láni voru látnar ganga fyrir greiðslum á eldra láni.
3. Árin 2009 og 2010, lánþegi fékk undanþágur á „grundvelli laga og reglna“ vegna „aðstæðna sinna“ eins og það er orðað í stefnu. Ekki er það skýrt nánar hvernig sú frestun sæki stoð í þá skilmála sem stefndi undirgekkst og óvíst að það skipti máli enda ábyrgð hans á þeim tíma niður fallin.
Varðandi öll framangreind tilvik sé óumdeilt, að stefndi hafi hvorki samþykkt framlengingu á ábyrgðartíma vegna þessara fresta, né hafi verið eftir því leitað af hálfu stefnanda, að stefndi veitti slíkt samþykki.
Einnig sé óumdeilt, að stefnandi hafi ekki upplýst stefnda um ákvarðanir stjórnarinnar um að breyta endurgreiðsluskilmálum þess námsláns, sem hann var í ábyrgð fyrir, eða að stefnandi liti svo á, að ábyrgðartími stefnda hafi framlengzt vegna frestunar á greiðslum, og því hafi stefndi verið í góðri trú um, að ábyrgð hans hafi fallið niður í síðasta lagi á árinu 2005, sbr. bréf stefnda til stefnanda, dags. 18. janúar 2010.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveður málatilbúnað sinn byggja á því, að málskotsnefndin hafi ranglega túlkað ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 og skilmála umrædds skuldabréfs og ábyrgðarskuldbindingar stefnda varðandi endurgreiðslutíma umrædds láns nr. V-007230 og þar með gildistíma ábyrgðarskuldbindingarinnar. Þá hafi málskotsnefndin ekkert tillit tekið til ákvæðis 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992, sem kveði á um, að ef lánþegi skuldi svokölluð R-lán hjá sjóðnum, skuli hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið, og greiðslur af eldri námslánum frestist, þar til R-lánið sé að fullu greitt, en um slíkt hafi verið að ræða í því tilviki, sem hér um ræði. Framangreint leiði til þess, að ógilda beri úrskurð málskotsnefndarinnar frá 9. maí 2011 í máli nr. L-40/2010.
Ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 hafi verið svohljóðandi: ,,Endurgreiðslur skulu standa yfir í 20 ár hið lengsta. Eftirstöðvar lánsins eru þá óafturkræfar, sbr. þó ákvæði 11. gr.“
Í 11. gr. laganna sé gjaldfellingarheimild vegna verulegra vanskila eða vantalningar tekna til útreiknings aukaafborgunar. Í umræddri ábyrgðarskuldbindingu stefnda sé svohljóðandi ákvæði í skilmálum: ,,Lán er að fullu greitt þegar höfuðstóll er að fullu greiddur eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sé lán þá eigi að fullu greitt falla eftirstöðvar þess ásamt verðbótum niður.“ Að mati stefnanda verði skilmálar ábyrgðarskuldbindingarinnar ekki túlkaðir öðruvísi en svo, að einungis þau ár, þegar sannanlega sé greitt af láninu, geti talizt til endurgreiðslutíma þess, eins og skýrt sé kveðið á um í orðalagi skilmálanna, þar sem segi, að greiddar skuli afborganir í 20 ár. Að mati stefnanda fái það ekki staðizt að túlka skilmála ábyrgðarskuldbindingarinnar með þeim hætti, sem nefndin geri, þ.e. að lánið hafi átt að falla niður að liðnum 20 árum frá fyrsta gjalddaga þess, án alls tillits til þess, hversu margar af árlegum afborgunum hafi í raun verið greiddar. Hefði það verið ætlunin, hefði slíkt þurft að koma með skýrum hætti fram í skilmálum ábyrgðarskuldbindingarinnar. Sé hér um óvenjulega skilmála að ræða á sviði fjármunaréttar, sem séu frábrugðnir stöðluðum skilmálum sem gildi um almenn skuldabréfalán, m.a. varðandi það, að eftirstöðvar láns falli niður. Þá telji stefnandi þessa túlkun nefndarinnar ekki samræmast orðalagi umrædds lagaákvæðis, enda hefði með sama hætti verið kveðið skýrar á um slíkt, hefði það verið vilji löggjafans, að lánið, og þar með ábyrgðin, félli niður að liðnum 20 árum eftir fyrsta gjalddaga þess, án tillits til þess, hversu mikið þá hefði verið búið að greiða af láninu.
Stefnandi vísi til þess, að greiðslur hafi hafizt af umræddu láni þann 1. júlí 1986, og hafi lántaki greitt af láninu frá og með þeim tíma til og með ársins 1991. Á árunum 1992 til 1995 hafi lántaki fengið frestun á endurgreiðslum umrædds láns samkvæmt reglum stefnanda á þeim tíma, en lántaki hafi, á þessum árum, stundað lánshæft nám og því átt rétt á, að endurgreiðslur námslána frestuðust á meðan. Á árunum 1996 til 2002 hafi lántaki svo verið að greiða af svokölluðu R-láni hjá sjóðnum og hafi greiðslur af V-láni því frestazt sem hér um ræði á meðan, í samræmi við skýrt ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992, en þar hafi komið fram, að ef ,,skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd“. En með lögunum frá 1992 hafi verið tekin upp svokölluð R-lán. Ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1991 hafi svo verið breytt með lögum nr. 140/2004, er tekin hafi verið upp svokölluð G-lán. Ekki hafi hins vegar verið um efnislega breytingu að ræða, og sé reglan sú, að R-lán greiðist fyrst, áður en eldri lán (V-lán eða S-lán) séu greidd. Ákvæði 2. mgr. 18. gr. sé nú svohljóðandi, sbr. lög nr. 140/2004: ,,Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 19922004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.“
Endurgreiðslur af V-láni því, sem hér um ræði hafi hafizt aftur á árinu 2003. Lántaki hafi þá greitt af láninu frá árinu 2003 til og með árinu 2007. Lántaki hafi hins vegar ekki greitt afborgun þann 1. júlí 2008. Hann hafi aftur greitt afborgun þann 1. nóvember 2008, en fengið síðan undanþágur á grundvelli laga og reglna þar um vegna afborgana áranna 2009 og 2010. Hafi því samtals verið greitt af umræddu V-láni í 12 ár. Samkvæmt túlkun stefnanda á skilmálum skuldabréfsins og ábyrgðarskuldbindingar stefnda eigi því enn eftir að greiða afborganir af láninu í samtals 8 ár til viðbótar, nema skemmri tíma taki að greiða upp eftirstöðvar þess. Verði hins vegar á því tímabili veittur frestur á árlegum afborgunum, lengist endurgreiðslutíminn í samræmi við það, þótt samanlagður árafjöldi endurgreiðslna fari aldrei fram yfir 20 ár, sbr. ákvæði laga nr. 57/1976, skilmála skuldabréfsins og ábyrgðarskuldbindingarinnar.
Í úrskurði nefndarinnar sé á því byggt, að framangreind túlkun stefnanda, þ.e. að endurgreiðslur skuli vara í tiltekinn árafjölda samanlagt en ekki tiltekið tímabil frá fyrsta gjalddaga að telja, fái ekki staðizt og að til slíks hefði þurft lagabreytingu. Ekki sé þó, að mati stefnanda, ljóst, á hverju nefndin byggi þá fullyrðingu sína. Nefndin vísi í rökstuðningi sínum til þess, að túlkun hennar á ákvæði laganna og skilmálum ábyrgðarskuldbindingarinnar, þ.e. að eftirstöðvar lánsins skyldu skilyrðislaust falla niður að liðnum 20 árum frá fyrsta gjalddaga þess, fái stoð í orðalagi eldri og yngri laga um Lánasjóð íslenzkra námsmanna. Stefnandi sé ósammála þessum rökstuðningi. Með lögum nr. 57/1976 hafi lánakjörum sjóðsins verið breytt í veigamiklum atriðum. Þá hafi m.a. verið tekið upp í fyrsta skipti það, sem ágreiningur þessa máls snúist um að meginstefnu til, þ.e. að eftirstöðvar láns falli niður eftir ákveðinn árafjölda af endurgreiðslum. Fram að þeim tíma hafi verið kveðið á um, að lánin greiddust upp með jöfnum afborgunum á tilteknum árafjölda, en ekki hafi verið um það að ræða, að eftirstöðvar féllu niður. Í þeim tilvikum, þ.e. fram að setningu laga nr. 57/1976, hafi því ekki verið um sambærilegar aðstæður að ræða. Þá vísi nefndin til samanburðar til laga nr. 72/1982, en stefnandi bendir á, að orðalag 8. gr. þeirra laga sé í veigamiklum atriðum frábrugðið orðalagi 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976, en í 8. gr. laga nr. 72/1982 segi: ,,Endurgreiðslum skal ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast og eru eftirstöðvar lánsins þá óafturkræfar...“
Stefnandi telji, að verulegur munur sé á orðalagi ákvæða laganna m.a. að þessu leyti og því ekki hægt að styðjast við lögskýringargögn að baki laganna frá 1982 við textaskýringu ákvæða laga nr. 57/1976.
Í skilmálum umrædds skuldabréfs og ábyrgðaryfirlýsingar sé svohljóðandi ákvæði: ,,Sjóðstjórn getur veitt undanþágu frá endurgreiðslureglum ef lánþegi býr við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa, t.d. vegna örorku.“. Ákvæði þetta sé í samræmi við svohljóðandi ákvæði 21. gr. reglugerðar nr. 402/1976, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976: ,,Sjóðsstjórn getur samið um undanþágur frá endurgreiðslureglum ef lánþegi býr við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa, t.d. vegna örorku.“ Í úthlutunarreglum, sem gilt hafi, þegar ábyrgðaryfirlýsingin var undirrituð, hafi svo verið nánar úrfærð skilyrði fyrir undanþágum. Þá séu í núgildandi lögum, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins ákvæði um undanþágur frá árlegum endurgreiðslum. Stefnandi telji, að þannig hafi, við útgáfu umræddrar ábyrgðarskuldbindingar, verið ljóst, að til þess gæti komið, að endurgreiðslutími skuldabréfsins yrði annar en 20 ár. Nefndin vísi til þess í úrskurði sínum, að þær aðstæður, sem lýst sé í skilmálunum, eigi ekki við í því máli, sem hér um ræði. Stefnandi bendi hins vegar á, að lántaki hafi sótt um og fengið undanþágur vegna aðstæðna sinna á árunum 2009 og 2010, sem fái m.a. stoð í þessum skilmálum skuldabréfsins og ábyrgðarskuldbindingarinnar.
Stefnandi byggi einnig á því, að um hafi verið að ræða lögmæta frestun á greiðslum lánsins á árunum 1996-2002, á meðan lántaki hafi greitt af R-láni sínu, skv. skýru og fortakslausu ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992, sem áður sé lýst, sem hafi leitt til þess, að endurgreiðslutími láns nr. V-007230, lengdist sem því nam.
Stefnandi mótmæli því þeirri niðurstöðu nefndarinnar, að hann hafi skort lagaheimild til þess að veita undanþágur frá afborgunum lánsins eða fresta þeim, líkt og gert hafi verið, þannig að ábyrgðarskuldbinding stefnda framlengdist.
Með vísan til framangreinds sé því enn fremur mótmælt, að stefnandi hafi breytt skilmálum ábyrgðarskuldbindingar stefnda án hans samþykkis, líkt og úrskurður nefndarinnar byggi á og stefndi hafi haldið fram, heldur hafi í öllum tilvikum verið um að ræða lögmæta frestun skv. ákvæðum laga og reglna, sem um þetta gildi. Að mati stefnanda komi ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn því ekki til álita, þar sem ekki sé skv. þessu um að ræða breytingar á skilmálum lánsins. Stefnandi telji, að sú niðurstaða, sem málskotsnefndin hafi komizt að í úrskurði sínum frá 9. maí 2011 í máli nr. L-40/2010, þ.e. að ábyrgðarskuldbinding stefnda teljist niður fallin, fái ekki staðizt. Lántaki hafi, skv. því, sem að framan hafi verið lýst, einungis greitt afborganir af láninu í samtals 12 ár. Samtals sé því eftir að greiða afborganir í 8 ár, nema styttri tíma taki að greiða upp lánið, og gildi ábyrgðarskuldbindingin á meðan enn sé eitthvað eftir af greiðslutíma lánsins. Hafi lánið ekki verið uppgreitt, þegar greiddar hafi verið afborganir í tilskilinn árafjölda, þ.e. 20 ár, falli eftirstöðvar þess niður í samræmi við ákvæði laga og skilmála skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Stefnandi byggi á því, að ábyrgð stefnda á því láni, sem um ræði, verði ekki talin fallin niður með öðrum hætti.
Kröfu um ógildingu á úrskurði málskotsnefndarinnar frá 9. maí sl. byggi stefnandi á ákvæði 3. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992. Þá vísi stefnandi til almennra reglna stjórnsýsluréttar.
Málsástæður stefnda
Stefndi styður sýknukröfu sína þeim rökum, að ábyrgð hans á námsláni Ingólfs Arnarsonar sé niður fallin, þar sem hún hafi að hámarki átt að standa í 20 ár frá fyrsta gjalddaga námslánsins þann 1. júlí 1986. Hafi ábyrgð stefnda því fallið niður í síðasta lagi eftir aukaafborgun af láninu hinn 1. nóvember 2005.
Ábyrgð stefnda, þar með talinn sá tími, sem ábyrgðin skyldi standa, markist af þeim skilmálum, sem um lánið hafi gilt, þegar til ábyrgðarinnar var stofnað. Þeir skilmálar séu lögbundnir og komi fram í lögum nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki. Ekki sé um það deilt milli aðila. Þeir skilmálar komi einnig fram í ábyrgðaryfirlýsingu stefnda, en skilmálarnar geti ekki orðið annað en nánari útfærsla á þeim skuldbindingum, sem lögin kveði á um.
Stefndi telji hins vegar ástæðu til að árétta, að verði talið, að eitthvert misræmi sé milli efnis eða inntaks ábyrgðaryfirlýsingarinnar annars vegar og laganna hins vegar, gangi ákvæði laganna framar. Afstaða stefnda að þessu leyti byggist á því, að námslán samkvæmt lögum nr. 57/1976 feli í sér ráðstöfun á fjármunum ríkisins samkvæmt lögum í þeim tilgangi að veita íslenzkum námsmönnum fjárhagsaðstoð, sbr. 1. gr. laga nr. 57/1976. Stjórn sjóðsins sæki vald sitt til 5. gr. laganna, en það sé takmarkað við það að veita námslán með þeim skilmálum, sem kveðið sé á um í lögunum. Ákvörðun stjórnar sjóðsins um skilmála lána og veitingu einstakra námslána hafi verið, og séu enn, stjórnvaldsákvarðanir og verði því sem slíkar að sækja stoð til viðeigandi lagaheimildar, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 965/1993. Stjórn sjóðsins skorti því vald til að setja aðra skilmála fyrir námslánum og endurgreiðslu þeirra en fram koma í lögum nr. 57/1976, sbr. lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, sjá m.a. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5321/2008.
Krafa um fjárhagslega ábyrgð sé þess eðlis, að til hennar verði ekki stofnað, eða henni breytt, nema með samþykki ábyrgðarmanns. Það sé því ekki á valdi stefnanda eða annarra ábyrgðarhafa að breyta eða auka við rétt sinn gagnvart ábyrgðarveitanda einhliða, og heimildir löggjafans til hins sama séu takmarkaðar af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. Hrd. mál nr. 274/2010. Þannig hafi það verið ólögfest og viðurkennd meginregla, að allar íþyngjandi breytingar á ábyrgð séu háðar samþykki ábyrgðarmanns. Ákvæði þess efnis hafi nú verið fest í lög, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.
Stefndi byggi á því, að samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 hafi lán það, sem stefndi gekkst í ábyrgð fyrir, átt að standa að hámarki í 20 ár, og að þeim tíma liðnum hafi eftirstöðvar þess átt að falla niður. Aðilar máls þessa deili um það, hvernig eigi að skilja umrætt ákvæði að því er varði lánstíma og þar með um tímamörk ábyrgðar stefnda. Stefndi telji, að ákvæðið sjálft, sem og skýringar með því, þegar það var sett, séu þannig, að ótvírætt sé, að með ákvæðinu hafi verið settur hámarksendurgreiðslutími á námslán, og að sá hluti lánsins, sem ógreiddur, eða réttara sagt ógjaldfallinn, væri eftir 20 ár, skyldi niður falla, alfarið óháð því, hve stór sá hluti væri. Um þennan tilgang ákvæðisins sé sérstaklega fjallað í framsögu menntamálaráðherra á sínum tíma, sem og þau rök, sem búið hafi að baki þessari reglu, sem þá hafi verið ný. Taki stefndi að þessu leyti undir forsendur úrskurðar málskotsnefndar Lánasjóðs íslenzkra námsmanna, dskj. nr. 19, bls. 8-10, þess efnis að umrætt lagaákvæði og skilmálar ábyrgðarinnar marki greiðsluskyldu lánþega og þar með ábyrgð stefnda tiltekinn hámarkstíma, þ.e. 20 ár frá fyrsta gjalddaga, en vísi ekki til fjölda endurgreiðslna, líkt og stefnandi haldi fram. Stefndi taki einnig undir með málskotsnefndinni, að bæði yngri og eldri lög um námslán styðji sömu niðurstöðu, og vísi til röksemda hennar að því leyti.
Önnur niðurstaða, og sú, sem stefnandi haldi fram, feli í sér, að ábyrgðartíminn, sem sé einn mikilvægast þáttur ábyrgðarloforðsins, sé algerlega óviss og háður einhliða ákvörðun stefnanda. Stefndi byggir á því, að slíkt sjálfdæmi um gildistíma ábyrgðarinnar fái ekki staðizt nema gegn skýru og afdráttarlausu loforði stefnda eða lagaákvæði.
Stefndi byggi á því, að verði einhver vafi talinn vera fyrir hendi um inntak og efni ákvæða laga og ábyrgðarloforðs hans um hámarkstíma ábyrgðarinnar, beri að skýra slíkan vafa honum í hag, annars vegar þar sem um sé að ræða íþyngjandi skyldu, sem feli í sér inngrip í fjárhagsréttindi stefnda, og hins vegar út frá sjónarmiðum um túlkun á stöðluðum löggerningum, sem samdir hafi verið einhliða af öðrum samningsaðilum. Óskýrleika slíkra skjala beri að túlka þeim, sem samdi skjalið, í óhag, enda eigi hann ekki að komast upp með að öðlast réttindi á grundvelli óskýrra og óljósra ákvæða í skilmálum.
Stefndi byggi samkvæmt framansögðu á því, að ábyrgð hans samkvæmt yfirlýsingu um ábyrgð á dskj. nr. 3 hafi staðið í 20 ár frá 1. júlí 1986, og greiðsluskylda hans hafi takmarkazt við þær kröfur, sem gjaldfallið hafi á þeim tíma. Stefnandi hafi ekki haldið því fram, að kröfur, sem gjaldféllu innan ábyrgðartímans, séu í vanskilum, heldur hafi hann staðfest, að umrætt lán teljist í skilum, og því hafi engum fjárkröfum verið beint að stefnda. Ábyrgð stefnda á láninu sé því niður fallin.
Stefndi byggi á því, að ákvörðun stefnanda, eftir atvikum eftir beiðni lánþega, um frestun á einstökum gjalddögum afborgana, framlengi ekki ábyrgðartíma stefnda, án hans samþykkis. Óumdeilt sé, að stefndi hafi ekki samþykkt framlengingu á ábyrgðartíma og ekki hafi verið óskað eftir því af hálfu stefnanda að hann veiti slíkt samþykki. Samkvæmt upplýsingum stefnanda hafi hann veitt lánþega frest á afborgunum á árunum 1992 til 1995, þar sem hann hafi stundað lánshæft nám. Ekki liggi fyrir, hvort frestur þessi hafi verið veittur einhliða eða skv. beiðni lánþega. Stefnanda hafi verið frjáls að veita lánþega aukinn frest til greiðslu á láninu, en með því að láta undir höfuð leggjast að óska eftir samþykki stefnda hafi framlenging á greiðslutíma lánsins ekki haft áhrif til framlengingar á ábyrgðartíma stefnda, eins og hann hafi verið markaður í upphafi.
Á árunum 1996 til 2002 hafi greiðslur af láninu frestazt vegna ákvæða 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992, sem hafi kveðið á um, að fyrst skyldi greiða yngra lán samkvæmt þeim lögum og greiðslur á eldri lánum frestast, þar til hin nýju lán væru að fullu greidd. Samkvæmt upplýsingum stefnanda hafi lánþegi verið með lán samkvæmt lögum nr. 21/1991, sem hafi af þeim sökum notið forgangs á árunum 1996 og 2002. Í 18. gr. laga nr. 21/1991 séu engin ákvæði þess efnis, að ábyrgðir fyrir eldri skuldbindingum skuli framlengjast, og í meðförum Alþingis á málinu sé engar vísbendingar að finna um það, að til þess hafi verið ætlazt, eða að ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1991 hefði verið ætlað að hafa slík íþyngjandi áhrif fyrir ábyrgðarmenn.
Hafi það verið vilji Alþingis, að ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1991 myndi skuldbinda ábyrgðarmenn eldri lána, hefði verið nauðsynlegt að skilyrða ákvæði við það, að samþykki ábyrgðarmanna fengist fyrir fresti af þessari ástæðu. Í því sambandi verði að hafa í huga, að ákvæðið feli í sér áhættuaukningu fyrir ábyrgðarmenn eldri lána með tvennum hætti. Annars vegar aukist áhætta þeirra vegna þess að ábyrgðartíminn hafi lengzt, og hins vegar aukist áhætta þeirra við það, að fjármunum lánþega sé fyrst varið til greiðslu á yngra láni. Áður hafi verið fjallað um það, að ábyrgðartími verði ekki lengdur, nema með samþykki ábyrgðaraðila, en það sama eigi við um þá ákvörðun kröfuhafa að ráðstafa greiðslu frá lánþega fyrst til greiðslu á yngra láni. Slíkt sé kröfuhafa ekki heimilt nema með samþykki ábyrgðaraðila á eldra láni, enda brjóti ákvæðið gegn þeirri grundvallarreglu fjármunaréttarins, að kröfuhafa beri að ráðstafa mótteknum greiðslum frá skuldara fyrst til greiðslu á elztu skuldinni, sbr. m.a. Hrd. mál nr. 286/1995. Augljóst megi vera, að ábyrgðarmenn á eldri skuldum hafi beina hagsmuni af því, að ekki sé vikið frá þeirri grundvallarreglu, og því sé slík ráðstöfun háð samþykki þeirra, eigi hún að hafa áhrif á áhættu þeirra. Alþingi hafi kosið að setja ákvæði um frestun eldri lána og breytta greiðsluröð, án samþykkis ábyrgðarmanna, og því hafi setning 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1991 ekki þau áhrif, að efni ábyrgðarloforðs stefnda breytist eða áhætta hans aukist. Hinir breyttu skilmálar að þessu leyti hafi alfarið verið á áhættu og ábyrgð kröfuhafans, enda hafi hann verið frjáls að því að gera slíkar breytingar á eigin áhættu og kostnað, en ekki á áhættu og kostnað stefnda.
Varðandi það, sem fram komi í stefnu á bls. 6 um, að með lögum nr. 57/1976 hafi í fyrsta sinn verið tekin upp regla um hámarksendurgreiðslutíma, og að fyrir þann tíma hafi lán verið greidd að fullu með jöfnum afborgunum, telji stefndi nauðsynlegt að taka fram, að fyrir setningu laga nr. 57/1976 hafi námslán verið óverðtryggð og með lágum vöxtum. Hafi þáverandi menntamálaráðherra metið það svo, að raungildi endurgreiðslna námslána hafi á þeim tíma verið innan við 10% af lánsfjárhæðinni, og hafi ráðherra viljað tryggja með hinni nýju reglu, að „Lánasjóðurinn fái umtalsverðan hluta námslána endurgreiddan á raunvirði...“. Það hafi hins vegar legið fyrir við setningu laga nr. 57/1976, að með hámarksendurgreiðslutíma væri verið að stíga skref í þá átt að auka endurgreiðslu, en þó þannig að ef lánþegar hefðu ekki nægar tekjur til að endurgreiða lán á 20 árum, féllu eftirstöðvar niður. Komi fram í athugsemdum við frumvarpið til laga nr. 72/1982, að greiðslufyrirkomalag laga nr. 57/1976 leiði til um 66% endurgreiðslu af raungildi lána.
Varðandi þá málsástæðu stefnanda, að einhver verulegur munur sé á efni 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 annars vegar og hins vegar 4. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982, vegna breytingar á orðalagi, telji stefndi rétt að taka fram, að ekki sjáist af lögskýringargögnum, að slík efnisbreyting hafi átt sér stað. Sé breytingin skýrð svo í greinargerð með frumvarpi því, sem síðar hafi orðið lög nr. 72/1982: „Þá er gert ráð fyrir að hámarksendurgreiðslutími verði þrjátíu ár í stað tuttugu ára ...“ Í meðförum þingsins hafi hámarksendurgreiðslutíminn verið lengdur í 40 ár, án þess að orðalagi ákvæðisins væri að öðru leyti breytt. Ekki verði því séð, að lögskýringargögn styðji þá málsástæðu stefnanda, að breyting hafi átt sér stað á inntaki ákvæðis um hámarksendurgreiðslutíma með lögum nr. 72/1982 fyrir utan þá breytingu, að hámarkstíminn hafi farið úr 20 árum í 40 ár.
Stefnandi vísi í málatilbúnaði sínum einnig til ákvæðis í ábyrgðaryfirlýsingu á dskj. nr. 3, sem sé samhljóða 5. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 og 21. gr. reglugerðar nr. 406/1976. Ákvæðin, sem stefnandi vísi til, heimili sjóðsstjórn að veita undanþágu frá endurgreiðslureglum, búi lánþegi við stórlega skertar fjárhagsaðstæður til langframa, t.d. vegna örorku. Telji stefnandi, að ákvæði þetta, og svo ótilgreind síðari ákvæði í lögum, reglugerðum og úthlutunarreglum sjóðsins, veiti sjóðsstjórn opna heimild til að framlengja greiðslutíma lána og framlengja með þeim hætti einhliða ábyrgðartíma ábyrgðarmanna. Haldi stefnandi því jafnframt fram, að lánþegi hafi á árunum 2009 og 2010 fengið undanþágu á framangreindum grundvelli. Stefnandi leggi þó engin gögn fram til stuðnings þessari fullyrðingu sinni, og sé henni hafnað af hálfu stefnda. Að auki liggi fyrir í málinu, að málskostnefnd Lánasjóðs íslenzkra námsmanna hafi farið yfir gögn vegna frestunar á fyrrgreindum greiðslum og staðfest, að þær aðstæður, sem ákvæðin taki til, eigi ekki við í málinu, sjá efst á bls. 10 í úrskurði málskotsnefndarinnar, dskj. nr. 19.
Til viðbótar sé á því byggt af hálfu stefnda, að umrædd ákvæði feli í sér heimild til að ívilna lánþega vegna aðstæðna hans, en ekki til þess að breyta láni með íþyngjandi hætti fyrir ábyrgðarmenn. Ef tekin sé ákvörðun um breytingu, sem hafi íþyngjandi áhrif á ábyrgðarmenn, leysi ákvæðið stefnanda ekki undan því að leita samþykkis ábyrgðarmanna. Að þessu leyti vísi stefndi einnig sérstaklega til ákvæða 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn 32/2009, en með því ákvæði hafi verið lögfest meginregla fjármunaréttarins, sbr. það sem áður segi.
Í stefnu byggi stefnandi á því, að þær frestanir, sem hann hafi veitt á endurgreiðslu á láni lánþega, hafi verið lögmætar og heimilar og að það eigi að leiða til þess, að stefndi skuli talinn skuldbundinn af sömu breytingum. Slíkar breytingar geti verið skuldbindandi milli stefnanda og lánþega, án þess að afstaða sé tekin til þess hér, en séu þær íþyngjandi fyrir stefnda sem ábyrgðarmann, s.s. með þeim hætti að þær lengi ábyrgðartímann eða breyti endurgreiðsluröð lána, séu slíkar breytingar óskuldbindandi fyrir stefnda, nema hann samþykki þær, sbr. m.a. Hrd. mál nr. 100/2001. Það að lánþegi sé skuldbundinn af breytingum á greiðsluskilmálum láns, leiði þannig ekki til þess að ábyrgðarmaður verði sjálfkrafa skuldbundinn af sömu breytingu, svo sem ætla megi af málatilbúnaði stefnanda. Málsástæður stefnanda að þessu leyti séu í andstöðu við reglur kröfu- og samningaréttar um ábyrgðarloforð.
Stefnandi byggi á því, að ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn eigi ekki við, þar sem hann telji, að frestun á greiðslum sé ekki breyting á skilmálum lánsins í skilningi þess ákvæðis. Stefndi mótmæli þessu og telji vafalaust, að lenging lánstíma sé í öllum tilvikum skilmálabreyting á láni, enda feli slík breyting í sér breytingu á endurgreiðsluskilmálum lánsins frá því sem gilt hafi fyrir breytinguna. Lenging á lánstíma auki einnig þann tíma, sem ábyrgðarmaður sé í ábyrgð og sé því íþyngjandi fyrir hann. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn eigi því við, en samkvæmt 12. gr. laganna eigi 2. mgr. 6. gr. einnig við um ábyrgðir, sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra.
Stefndi byggir að síðustu á því, að verði talið, að stefnandi hafi haft heimild að lögum til að taka ákvörðun um einhliða breytingu á skilmálum lánsins með íþyngjandi áhrif á stefnda, væri slík ákvörðun stjórnsýsluákvörðun, sem yrði að fara eftir reglum stjórnsýsluréttarins. Stefnandi hafi ekki haldið því fram, að hann hafi tekið slíka ákvörðun um breytingu á skilmálum ábyrgðar stefnda, og engin slík ákvörðun liggi frammi í málinu.
Málsástæður stefnda eigi sér stoð í þeim lagaákvæðum, sem að framan séu rakin, sem og þeim almennu reglum, sem gildi á sviði kröfu- og samningaréttar um ábyrgðarloforð og snerti aukningu á áhættu ábyrgðarmanns og sjálfstætt gildi loforðs hans gagnvart kröfuhafa.
Málskostnaðarkrafa stefnda sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Forsendur og niðurstaða
Umrætt námslán var tekið í gildistíð laga nr. 57/1976. Lánið var veitt til endurnýjunar láns til greiðslu á kostnaði á námstímanum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna og er vísað til laganna í skuldabréfinu, sem gefið var út til endurnýjunar lánsins. Þá er einnig vísað til þeirra laga í ábyrgðaryfirlýsingunni. Gilda þau lög því um réttarsamband aðila og er ekki ágreiningur um það.
Í skuldabréfinu kemur fram, að endurgreiðslur lánsins skyldu hefjast þann 1. júlí 1986. Stendur ágreiningur aðila um það, hvernig túlka beri uppgreiðslutíma lánsins. Byggir stefnandi á því, að greiða hefði þurft af láninu í 20 ár, þannig að þau ár, sem greiðslur frestuðust samkvæmt undanþágum, sem lántaki fékk, teljist ekki til greiðslutímans. Stefndi lítur hins vegar svo á, að greiðslutími lánsins skyldi standa í 20 ár hið mesta, hvort sem greitt var af því árlega eða ekki.
Í ábyrgðaryfirlýsingunni er vísað til lánskjara samkvæmt skuldabréfinu og segir þar m.a. svo: „Lán er að fullu greitt þegar höfuðstóll er að fullu greiddur, eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sé lánið þá eigi að fullu greitt falla eftirstöðvar þess ásamt verðbótum niður.“ Verður ákvæði þetta ekki skýrt rýmra en ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976, sem hljóðar svo: „Endurgreiðslur skulu standa yfir í 20 ár hið lengsta. Eftirstöðvar lánsins eru þá óafturkræfar, sbr. þó ákvæði 11. gr.“ Verður að fallast á með stefnda, að samkvæmt skýru orðalagi lagaákvæðisins mátti hann treysta því, að ábyrgð hans lyki í síðasta lagi 20 árum frá fyrsta gjalddaga lánsins. Kemur þá til álita, hvort ákvæði í skuldabréfinu sem tekið var upp í ábyrgðaryfirlýsingunni um heimild sjóðstjórnar til að veita lánþega undanþágu frá endurgreiðslureglum, eða yngri lög, geti haft áhrif á lengd ábyrgðartímans ábyrgðarmanni í óhag.
Lántaki fékk undanþágur frá greiðslum meðan hann stundaði doktorsnám á árunum 1992-1995. Þá frestuðust greiðslur af láninu á árunum 1996-2003, meðan lántaki greiddi upp svonefnt R-lán, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenzkra námsmanna. Greinin hljóðar svo: „Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 19922004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.“
Í skilmálum í skuldabréfinu, sem teknir voru upp í ábyrgðaryfirlýsingu þeirri, sem hér er deilt um, segir svo um greiðslufresti, að sjóðstjórn geti veitt undanþágu frá endurgreiðslureglum, búi lánþegi við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa, t.d. vegna örorku. Einnig segir, að séu árlegar afborganir ekki inntar af hendi á réttum tíma, teljist öll skuldin gjaldfallin ásamt verðbótum, nema sérstakar ástæður valdi, að mati sjóðstjórnar, sem geti þá samið um greiðslufrest.
Ekki er unnt að líta svo á, að greiðslufrestur vegna tímabundins náms lántaka falli undir undanþáguákvæði skuldabréfsins. Þá er ekki fallizt á, að framangreint ákvæði laga nr. 72/1982 um frest á endurgreiðslum ef eldri námsskuldum vegna R-lána falli þar undir. Þá verður sú niðurstaða ekki leidd af lagaákvæðinu, að ábyrgð stefnda á láninu frestist, án þess að sérstakt samþykki hans komi til, enda er þar ekki getið um skyldur ábyrgðarmanna. Er þannig ekki fallizt á, að stefnandi hafi einhliða getað breytt skilmálum ábyrgðarsamningsins stefnda í óhag. Er því fallizt á með stefnda, að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenzkra námsmanna frá 9. maí 2011, í málinu nr. L-40/2010 standi. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 520.000, þar með talinn virðisaukaskattur.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Viðar Már Matthíasson, er sýkn af kröfum stefnanda, Lánasjóðs íslenzkra námsmanna.
Stefnandi greiði stefnda kr. 520.000 í málskostnað.