Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2001
Lykilorð
- Handtaka
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 23. maí 2001. |
|
Nr. 4/2001. |
Sævar Sævarsson (Karl Axelsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Handtaka. Gjafsókn.
S höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu og krafðist miskabóta vegna ólögmætrar frelsissviptingar. S var handtekinn, grunaður um aðild að ráni, en sleppt 19 klukkustundum síðar þegar ljóst þótti að hann hefði ekki tekið þátt í því. Ekki var talið sýnt að S hefði verið yfirheyrður fyrr en rúmum 12 klukkustundum eftir handtökuna og var sá dráttur óútskýrður. Þá var ekki talið að nauðsyn hefði borið til að halda honum eftir að tveir einstaklingar höfðu borið á sama veg og S um sakleysi hans. Voru S dæmdar skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júlí 1999 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst stefndi þess að bætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt nokkur ný skjöl. Meðal þeirra eru upplýsingaskýrslur lögreglu um samtöl við tvo menn, annan nafngreindan en hinn ónafngreindan, sem fram fóru þann 8. júlí 1999 og vörðuðu ætlaða aðild áfrýjanda að þeirri háttsemi sem hann var grunaður um.
Í málinu krefur áfrýjandi ríkissjóð um bætur vegna „ólögmætrar og tilnefnislausrar handtöku og frelsissviptingar”. Áfrýjandi var handtekinn af lögreglu 8. júlí 1999 klukkan 1.38, grunaður um aðild að ráni. Reyndist grunur lögreglu ekki á rökum reistur og var áfrýjanda sleppt úr haldi hennar klukkan 20.35, um 19 klukkustundum eftir að hann var handtekinn.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var áfrýjandi annar tveggja farþega í bifreið kunningja síns að kvöldi 7. júlí 1999. Um klukkan 23 var bifreiðinni ekið að húsi við Kleppsveg 28 en þar stóð þá yfir samkvæmi. Er þangað var komið veittist að áfrýjanda fólk, sem þar var fyrir á bílastæði fyrir utan húsið. Mun ástæða þess hafa verið sú að orðrómur var á kreiki um að áfrýjandi hafi borið út sögur um konu, sem þar var stödd. Réðst fólkið að áfrýjanda með höggum og spörkum og hlaut hann við það heilaskaða auk annarra áverka. Með ákæru 9. maí 2000 og framhaldsákæru 11. september 2000 var höfðað opinbert mál á hendur fjórum mönnum vegna líkamsárásarinnar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2000 voru þrír þeirra sakfelldir og þeim gerð refsing.
Eftir árásina tóku tveir árásarmannanna sér far ásamt þriðja manninum með ökumanni bifreiðar þeirrar sem áfrýjandi hafði verið farþegi í. Var haldið að bifreiðastæði við Efstaleiti en þar fóru mennirnir út úr bifreiðinni. Skömmu síðar frömdu þeir vopnað rán í söluturninum Grill-Vídeó við Ofanleiti. Á meðan á því stóð hafðist áfrýjandi við nokkra stund í íbúðinni við Kleppsveg 28. Nokkru síðar komu mennirnir fjórir til baka á bifreiðinni í samkvæmið við Kleppsveg. Bað áfrýjandi ökumanninn þá að aka sér heim. Gerði hann það og kom áfrýjandi heim til sín um klukkan eitt um nóttina. Voru foreldrar áfrýjanda þá heima við. Er þeir urðu þess áskynja að áfrýjandi hafði orðið fyrir líkamsárás hafði móðir áfrýjanda samband við lögreglu.
Eigandi söluturnsins Grill-Vídeó tilkynnti lögreglu um ránið laust fyrir miðnætti 7. júlí og um tvöleytið um nóttina var tekin af honum skýrsla hjá lögreglu. Greindi hann lögreglu frá aðdraganda ránsins og gat um að honum hafi tekist að sparka í höfuð eins mannanna. Barst lögreglu síðar lýsing á bifreiðinni sem notuð hafði verið til ránsins. Lýsti lögregla eftir henni og um klukkan 1.20 barst ábending um að maður hafi sést yfirgefa bifreiðina við heimili áfrýjanda. Fóru lögreglumenn þá á vettvang og handtóku áfrýjanda. Samkvæmt lögregluskýrslu var áfrýjandi handtekinn klukkan 1.38. Hann var í fyrstu fluttur á lögreglustöð en þaðan fór lögregla með hann á slysadeild til skoðunar. Í lögregluskýrslu kemur fram að þangað hafi áfrýjandi komið klukkan 2.07 um nóttina. Í vottorði læknis, sem ræddi þá við áfrýjanda, kemur fram að áfrýjandi hafi sagt að á hann hafi verið ráðist á göngustíg í Breiðholti. Þessara ummæla er hvergi getið í öðrum gögnum málsins.
Að læknisskoðun lokinni var áfrýjandi fluttur að nýju á lögreglustöð. Þar var hann þó ekki yfirheyrður heldur vistaður í fangageymslu. Í vistunarskýrslu lögreglunnar í Reykjavík kemur fram að klukkan 9.14 morguninn eftir hafi áfrýjandi verið færður til yfirheyrslu en færður „til baka” klukkan 9.18. Engra frekari gagna nýtur við um þá yfirheyrslu og hefur stefndi ekki gert grein fyrir því að áfrýjandi hafi þá yfirleitt verið yfirheyrður eða við hann rætt.
Klukkan 13.41 var áfrýjandi færður til yfirheyrslu. Aðspurður um ránið í söluturninum kvaðst áfrýjandi enga vitneskju hafa um það. Hann greindi frá því að kvöldið áður hafi nokkrir einstaklingar gengið í skrokk á sér við fjölbýlishús við Kleppsveg. Hann vildi ekki gefa upp nöfn árásarmannanna og bar því við að honum hafi verið hótað frekari líkamsmeiðingum ef hann kærði málið til lögreglu. Áfrýjandi greindi síðan frá dvöl sinni í íbúð að Kleppsvegi eftir árásina. Kvaðst hann hafa dvalið þar stutta stund. Síðar í yfirheyrslunni greindi hann frá nöfnum unglingsstúlku og fjögurra manna, sem hann kvað hafa ekið á bifreiðinni frá Kleppsvegi kvöldið áður en komið þangað á ný um klukkustund síðar.
Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2000 voru þrír þessara manna dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir ránið í söluturninum, þar af tveir einnig fyrir annað rán. Sá fjórði, bílstjórinn, var hins vegar dæmdur fyrir hlutdeild í ráninu í söluturninum. Einn mannanna áfrýjaði dóminum og með dómi Hæstréttar 25. maí 2000 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans.
II.
Aðfaranótt fimmtudagsins 8. júlí og þann dag handtók lögregla þrjá af þeim fjórum mönnum sem tóku þátt í ráninu. Klukkan 1.24 um nóttina var bifreiðarstjórinn og einn farþeganna handteknir í bifreiðinni auk unglingsstúlku sem með þeim var, en báðir höfðu þeir verið með áfrýjanda í bifreiðinni er honum var ekið heim til sín í Æsufell í Breiðholti. Bifreiðin var stöðvuð á Reykjanesbraut skammt frá Stekkjarbakka. Sá þriðji var handtekinn klukkan 18.52. Fjórði maðurinn var eftirlýstur og mætti til skýrslutöku 12. júlí.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu um samtal hennar við bifreiðarstjórann klukkan 4.25 aðfaranótt 8. júlí er haft eftir honum að kvöldið áður hafi hann orðið við beiðni þriggja manna um að aka þeim frá fjölbýlishúsinu við Kleppsveg að útvarpshúsinu við Efstaleiti. Þar hafi þeir farið úr bifreiðinni og komið skömmu síðar hlaupandi til baka og hafi einn þeirra þá haldið á skjalatösku. Kvaðst hann hafa grunað að þeir hefðu framið rán. Hafi hann síðan ekið mönnunum til baka á Kleppsveg. Þar hafi áfrýjandi komið inn í bifreiðina ásamt ofangreindri stúlku og hann ekið áfrýjanda heim. Í yfirheyrslu hjá lögreglu síðdegis þennan sama dag áréttaði hann þessa frásögn sína og á ný við skýrslutöku fyrir dómi klukkan 18.08.
Er áfrýjanda var ekið heim til sín um eða upp úr miðnætti 7. júlí var ofangreind stúlka með í för í bifreiðinni. Samkvæmt skýrslu lögreglu um samtal hennar við stúlkuna klukkan 14.20 daginn eftir staðfesti hún að áfrýjandi hafi ekki farið með í bílferðina kvöldið áður, sem síðar kom í ljós að farin var til að fremja umrætt rán.
Fram kemur í skýrslu lögreglu 8. júlí að klukkan 15.00 þennan dag ræddi lögregla við mann, sem ekki vildi láta nafns síns getið. Staðhæfði hann að hann hafi verið viðstaddur árásina á áfrýjanda kvöldið áður og staðfesti jafnframt að áfrýjandi hafi ekki farið með í ránsferðina heldur hefðu þar verið á ferð fjórir aðrir karlmenn.
Eftir handtöku þriðja ránsmannsins, sem fram fór klukkan 18.52, þótti lögreglu orðið ljóst að áfrýjandi tengdist ekki ráninu og var hann látinn laus klukkan 20.35.
III.
Áfrýjandi var handtekinn í framhaldi þess að hann yfirgaf bifreið, sem ábending hafði borist um að notuð hefði verið í ránsferð í söluturn við Ofanleiti þá skömmu áður. Hann var með áverka í andliti, en eigandi söluturnsins hafði þá borið að hann hafi náð að sparka í höfðuð eins ránsmannanna. Í vottorði Arnbjörns H. Arnbjörnssonar, bæklunarskurðlæknis á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, 30. október 1999 er haft eftir áfrýjanda að hann hafi verið á ferð á göngustíg sem liggur milli Hóla- og Fellahverfis og þar hafi nokkrir strákar „slegið hann, rykkt honum niður og sparkað í hann.“ Engin gögn eru í málinu um að á þeim tíma sem áfrýjandi var handtekinn hafi hann sagt hvernig hann hlaut áverkana. Þessir áverkar gáfu tilefni til að vekja grunsemdir lögreglu um að áfrýjandi kynni að vera sá ránsmannanna sem eigandi söluturnsins náði að sparka í. Þær grunsemdir gátu verið fyrir hendi þótt annar þeirra manna, sem voru handteknir í bifreiðinni um stundarfjórðungi áður, hafi einnig verið með áverka, en fram kemur í skýrslu lögreglu um handtöku hans að hann hafi verið hruflaður í andliti. Er áfrýjandi var handtekinn var rannsókn málsins á frumstigi, en hún laut að alvarlegum sakargiftum, vopnuðu ráni. Þegar framangreint er virt verður á það fallist með stefnda að rökstuddur grunur hafi leikið á því að áfrýjandi hafi átt þátt í alvarlegum refsiverðum verknaði og nauðsyn hafi borið til að handtaka hann til að koma í veg fyrir að hann gæti spillt sakargögnum. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 84/1996, til að handtaka áfrýjanda.
Er áfrýjandi var handtekinn klukkan 1.38 um nóttina neitaði hann strax að hafa tekið þátt í ráninu. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að hann hafi verið yfirheyrður fyrr en klukkan 13.41 þennan dag, rúmum tólf klukkustundum eftir handtöku hans. Hefur stefndi ekki fært fram viðhlítandi skýringar á því hvers vegna það dróst svo lengi að taka skýrslu af honum, en til þess er að líta að í framangreindu læknisvottorði kemur fram að við handtöku hafi áfrýjandi verið „vel áttaður og engin vínlykt af honum”. Hefði með réttu átt að yfirheyra áfrýjanda þegar er hann kom af slysadeild og í síðasta lagi morguninn eftir. Er áfrýjandi var loks yfirheyrður áréttaði hann að hann hafi engan þátt átt í ráninu. Áfrýjandi gaf ekki að öllu leyti réttar upplýsingar um atvik um nóttina í samtali við lækni. Hefur stefndi haldið því fram að með því hafi áfrýjandi torveldað rannsókn málsins. Ekkert er þó fram komið í málinu um það að lögreglu hafi verið kunnugt um efni þessa samtals fyrr en vottorðið, sem dagsett er 30. október 1999, barst henni í hendur. Eins og áður greinir skýrði áfrýjandi lögreglu hins vegar frá því í yfirheyrslu klukkan 13.41 að eftir árásina hafi unglingsstúlka og fjórir nafngreindir menn, sem síðar kom í ljós að stóðu að ráninu, ekið í bifreið frá Kleppsvegi kvöldið áður og komið þangað á ný um klukkustund síðar. Honum hafi í kjölfar þess verið ekið heim í sömu bifreið.
Eins og að framan greinir staðfestu tveir menn, sem voru á Kleppsveginum þegar ráðist var á áfrýjanda í samtölum við lögreglu 8. júlí klukkan 14.20 og 15, framburð áfrýjanda um að hann hafi ekki farið í umrædda ökuferð frá Kleppsvegi. Annar þeirra bar einnig á sama veg og áfrýjandi um árásina á hann. Framburð áfrýjanda um að hann hafi ekki tekið þátt í ráninu staðfesti sá sem síðar var dæmdur fyrir hlutdeild í ráninu, þegar kl. 4.25 um nóttina og aftur í yfirheyrslu sem hófst þennan sama dag kl.15.21. Þeirri yfirheyrslu lauk kl. 16.49. Þar skýrði hann frá því að áfrýjandi hafi ekki átt hlut að máli eins og nánar er rakið hér að framan. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að nauðsyn hafi borið til að halda áfrýjanda eftir að framburður þessara manna lá fyrir. Að þessu virtu og í ljósi þess óútskýrða dráttar sem varð á að yfirheyra áfrýjanda verður fallist á það með honum að hann hafi verið sviptur frelsi mun lengur en efni stóðu til. Á hann því með vísan til 2. mgr. 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 rétt til miskabóta sem þykja hæfilega ákveðnar 125.000 krónur. Stefnda ber að greiða áfrýjanda dráttarvexti af fjárhæðinni frá 16. janúar 2000, en þann dag var mánuður liðinn frá því að áfrýjandi krafði stefnda fyrst um bætur, sbr. 15. gr. vaxtalaga.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Sævari Sævarssyni, 125.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. janúar 2000 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. október síðastliðinn að afloknum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 16. mars 2000.
Stefnandi er Sævar Sævarsson, kt. 070481-3169, Æsufelli 4, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta, að fjárhæð 1.000.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júlí 1999 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða, auk virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati réttarins. Til vara er þess krafist, að stefnufjárkröfur verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn niður falla.
I.
Málavextir
Undir miðnætti miðvikudaginn 7. júlí 1999 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um rán í söluturninum Grill-video að Ofanleiti 14 hér í borg. Taldi kærandi, sem jafnframt var fyrirsvarsmaður söluturnsins, að þrír menn með lambhúshettur hefðu staðið að ráninu og hefði hann náð að sparka í andlit eins þeirra. Hann taldi sig jafnframt kannast við einn af ránsmönnunum og gaf lýsingu á meintum brotamönnum eftir bestu getu. Vitni, sem gaf sig fljótlega fram við kæranda, kvaðst hafa séð einn mannanna aka burtu frá söluturninum á Toyota Corolla bifreið og hafi upphaf skráningarnúmers hennar verið Þ-38. Lögreglan lýsti eftir bifreiðinni og sást hún skömmu síðar fyrir utan Æsufell 4, þar sem verið var að hleypa manni út úr henni. Kom síðar í ljós, að um stefnanda var að ræða, en hann býr í nefndu fjöleignarhúsi. Skömmu eftir þetta hringdi móðir stefnanda í lögregluna og kvað son sinn hafa verið að koma heim rétt í þessu og hefði hann áverka á höfði eftir líkamsárás. Fóru lögreglumenn að heimili stefnanda og handtóku hann vegna gruns um aðild að ráni í umræddum söluturni. Var stefnandi fyrst fluttur á lögreglustöð og síðan á bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur til skoðunar og þaðan aftur á lögreglustöð. Stefnandi var handtekinn kl. 1.38 og er koma hans á sjúkrahúsið skráð kl. 2.07. Samkvæmt því liðu 29 mínútur frá handtöku, þar til stefnandi kom á bráðamóttökuna til rannsóknar. Stefnandi var í haldi lögreglu til kl. 20.35 þann 8. júlí 1999, en þá þótti lögreglu fyrst ljóst, að hann hefði ekki átt aðild að söluturnsráninu kvöldið áður. Höfðar stefnandi mál þetta til heimtu bóta fyrir ólögmæta handtöku og frelsissviptingu.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt, að til þess að handtaka sé lögmæt skv. 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, verði að vera til staðar rökstuddur grunur um refsivert afbrot. Jafnframt verði handtaka að vera nauðsynleg, til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist handtekins manns og öryggi eða koma í veg fyrir, að hann spilli sönnunargögnum. Sé handtaka þvingunarúrræði, sem skuli beitt af hófsemd. Það sé mat stefnanda, að í umræddu tilviki hafi tilgangur handtökunnar ekki verið lögmætur. Byggi stefnandi það á því, að stuttu eftir að hann kom heim hafi verið haft samband við lögreglu að hans frumkvæði. Hafi ætlunin verið að kæra líkamsmeiðingar þær, er hann hafi þolað fyrr um kvöldið. Ástand stefnanda hafi verið bágborið, en hann hafi ekki getað gengið óstuddur og liðið miklar kvalir. Hafi hann farið af heimili sínu, ásamt tveimur lögreglumönnum, í þeim tilgangi að leita læknis. Þess í stað hafi honum verið ekið á lögreglustöð, þar sem honum hafi verið tjáð, að hann væri grunaður um aðild að ráni og þjófnaði á bifreið. Stefnandi hafi engin tök haft á því að spilla sönnunargögnum, enda líkamlegt ástand hans svo bágborið, að hann hafi ekki getað gengið einn og óstuddur. Auk þess hafi hegðun hans gagnvart lögreglunni ekki verið til þess fallin að vekja grunsemdir, þar sem hann hafi sjálfur haft samband við hana. Verði að teljast afar ólíklegt, að fyrsta verk manns, sem væri nýbúin að fremja vopnað rán og taka þátt í þjófnaði á bifreið, væri að hringja til lögreglu og leggja fram kæru vegna áverka, sem hann hefði hlotið meðan á hinum ólögmæta verknaði stæði. Handtaka og frelsissvipting stefnanda hafi því verið tilefnislaus og ekki uppfyllt kröfur 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð opinberra mála, 67. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995 og c-lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Þá hafi stefnandi verið hafður í haldi alltof lengi, enda hafi fljótlega verið upplýst, að grunsemdir lögreglu væru ekki á rökum reistar. Hefði lögreglan þá þegar í stað átt að láta stefnanda lausan. Þá hafi handtakan brotið í bága við 1. mgr. 101. gr. laga nr. 19/1991 og meðalhófsregluna.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því, að grunur lögreglu um þátttöku stefnanda í ofangreindu ráni hafi byggst á því, að stefnandi hafi verið farþegi í bifreiðinni, sem notuð hafði verið við ránið og að óljóst hefði verið samkvæmt framburðarskýrslu stefnanda hjá lögreglu 8. júlí 1999, hvernig áverkar stefnanda voru til komnir. Hafi verið talið nauðsynlegt að halda stefnanda fram eftir degi í þágu rannsóknar málsins. Hafi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi því leitt til handtöku stefnanda. Það hafi því verið óvenjulegar aðstæður stefnanda, sem orðið hafi til þess, að grunur beindist að honum. Þar að auki hafi bæst við, að stefnandi hafi neitað að gefa upp árásarmenn sína, sem hafi getað bent til þess, að áverkar hans stöfuðu frá umræddu sparki kæranda. Hafi allt þetta leitt til frelsissviptingar stefnanda í tæpa tuttugu tíma og nánast allan þann tíma hafi stefnandi verið grunaður um þátttöku í ráninu. Eftir handtöku stefnanda hafi allar aðgerðir lögreglu lotið að því að rannsaka réttmæti þeirra sakargifta, sem að stefnanda virtust beinast, og hafi lögregla farið að einu og öllu eftir reglum IX. kafla laga nr. 19/1991 í því efni.
Samkvæmt læknisvottorði um skoðun á stefnanda á Sjúkrahúsi Reykjavíkur greint sinn sé líkamsástandi hans lýst þannig, að ekki sé um neina alvarlega áverka að ræða, stefnandi sé marinn víða og ekki sé ástæða til að ætla annað en að hann muni ná sér að fullu eftir áverkana. Stefnandi hafi verið talinn vel áttaður og skýr. Af þessari lýsingu að dæma hafi ekkert óeðlilegt verið við, að lögreglan héldi stefnanda föngnum í þann tíma, sem raun varð á. Þá hafi handtakan alls ekki brotið í bága við 1. gr. 101. gr. laga nr. 19/1991, eins og stefnandi haldi fram, og hún verið framkvæmd á eins eðlilegan máta og unnt hafi verið og stefnandi verið kominn undir læknishendur innan við 30 mínútur frá handtöku. Telji stefndi því, að langur vegur sé frá því, að grunnskilyrði 176. gr. ofangreindra laga hafi verið brotin í þessu máli. Beri þess vegna að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Kl. 1.20 aðfaranótt 8. júlí 1999 tilkynnti lögreglumaður, að maður hefði farið út úr Toyota fólksbifreið við Æsufell 4 hér í borg, en talið var, að bifreiðin hefði verið notuð við rán, sem tilkynnt hafði verið til lögreglu kl. 23.51 um kvöldið. Er stefnandi var handtekinn 1.38 um nóttina, bar hann merki þess að hafa fengið áverka á höfuð, en kærandi taldi sig hafa náð að sparka í einn ránsmanna. Er þess getið í skýrslu um handtöku, að stefnandi hafi verið með mar á hægra gagnauga og klóraður á hálsi og í andliti. Skömmu áður en stefnandi var handtekinn hafði umrædd Toyota bifreið verið stöðvuð á Reykjanesbraut á móts við ,,Staldrið” og í framhaldi af því voru þrjú ungmenni, sem í henni voru, handtekin og færð á lögreglustöð.
Eðli máls samkvæmt er mikilvægt, að rannsókn jafn alvarlegra sakamála og ránsmál eru, gangi fljótt fyrir sig, þar sem ella er hætta á, að sönnunargögn fari forgörðum. Rökstuddur grunur var um, að ofangreind Toyota bifreið hefði verið notuð þá skömmu áður í fyrrgreindu ráni. Þá bar stefnandi þess merki við handtöku að hafa fengið höfuðhögg, en eigandi söluturnsins taldi sig hafa náð að sparka í höfuð eins ránsmanna. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er það mat dómsins, að lögregla hafi haft réttmæta ástæðu á ofangreindu tímamarki til að handtaka stefnanda vegna gruns um aðild að ráninu. Verður því að telja, að handtakan hafi verið lögmæt samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að þess hafi verið gætt við handtökuna að baka stefnanda ekki meiri óþægindi með henni, en nauðsyn bar til, sbr. 1. mgr. 101. gr. sömu laga. Var því rétt staðið að handtökunni að mati dómsins.
Svo sem áður greinir var stefnandi handtekinn kl. 1.38 umrædda nótt. Hann var færður á bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur kl. 2.07 um nóttina, eftir viðkomu á lögreglustöð, eða 29 mínútum eftir handtöku. Samkvæmt læknisvottorði um skoðun þar var stefnandi vel áttaður og gaf skýra sögu. Skýrði svo frá, að hann hefði verið á ferð um göngustíg, sem liggur milli Hóla- og Fellahverfis. Hefði hann mætt nokkrum strákum, sem hefðu slegið hann, rykkt honum niður og sparkað í hann. Stefnandi kvartaði undan höfuðverk og verk í vinstri framhandlegg, bringu og hálsi.
Að mati læknis voru engin merki þess, að stefnandi hefði fengið alvarlega höfuðáverka. Við skoðun á vinstri handlegg kom í ljós, að stefnandi var með mikið mar um olnbogann og marrákir utanvert á framhandleggnum og nokkra marbletti á utanverðum upphandlegg. Dreift mar var víða á baki. Nokkrir marblettir voru á neðanverðu vinstra herðablaði og þá var marfláki undir hægra herðablaði og marrendur upp yfir herðablaði. Mar var aftan á hálsi og mar og rispur á framanverðum hálsinum, líkt og um hann hefði verið gripið með hendi. Voru þar boglaga rispur, sem pössuðu vel eftir neglur og lengri rispur, er trúlega voru eftir það sama. Var niðurstaða læknisins sú, að ekki væri ástæða til að ætla annað, en að stefnandi myndi ná sér að fullu.
Síðar hefur komið í ljós, að höfuðáverkar stefnanda eru taldir mun alvarlegri en í fyrstu var ætlað og kemur m.a. fram í vottorði Þuríðar Jónsdóttur taugasálfræðings, dagsettu 30. ágúst síðastliðinn, að stefnandi beri merki varanlegs heilaskaða eftir líkamsárásina.
Stefnandi var yfirheyrður af lögreglu næsta dag vegna gruns um aðild að ráninu. Hófst skýrslutaka kl. 13.46 og lauk henni kl. 14.49. Stefnandi kvaðst ekkert vita um þetta mál. Hann hefði verið ,,á rúntinum” daginn áður með nafngreindum manni, sem síðar var ákærður og dæmdur fyrir aðild að umræddu ráni. Hefði maður þessi ekið umræddri Toyota bifreið. Hefðu þeir komið að fjölbýlishúsi við Kleppsveg einhvern tímann um kvöldið, þar sem bifreiðinni hefði verið lagt. Hefðu nokkrir strákar komið og dregið stefnanda út úr bifreiðinni, kýlt hann og sparkað í hann. Hefði ástæða þessa verið upplognar sakir á stefnanda. Stefnandi kvaðst ekki vilja greina frá, hverjir þessir strákar væru vegna hótana um frekari barsmíðar. Stefnandi skýrði síðan frá því, að fyrrgreindur ökumaður Toyota bifreiðarinnar hefði ekið henni á brott en í bifreiðinni hefðu verið, auk hans, stúlka og þrír drengir, sem stefnandi nafngreindi með fornafni. Stefnandi hefði verið mjög vankaður eftir barsmíðarnar og farið inn í fjölbýlishúsið og þar inn í íbúð. Um klukkustund síðar hefði ökumaður fólksbifreiðarinnar komið til baka ásamt mönnunum þremur. Hefðu þeir ekki verið með neitt með sér að öðru leyti en því, að einn þeirra hafi haldið á ölflösku. Eftir um klukkustund hefði stefnandi beðið bifreiðarstjórann að aka sér heim og með í för hefðu verið áðurnefnd stúlka og einn þeirra manna, sem var í bifreiðinni, er henni var ekið á brott frá fjölbýlishúsinu, eftir að ráðist hafði verið á stefnanda.
Fyrrnefndur bifreiðarstjóri Toyota bifreiðarinnar var handtekinn kl. 1.20 um nóttina, ásamt stúlkunni og manninum, sem voru í bifreiðinni, er stefnanda var ekið heim til sín. Er bókað í skýrslu um handtöku bifreiðarstjórans, að hann hafi þá verið hruflaður í andliti. Samkvæmt lögregluskýrslu er haft eftir honum kl. 4.30 um nóttina, að hann hafi ekið þremur strákum rétt fyrir kl. 23 kvöldið áður frá íbúðarblokk á Kleppsvegi að bifreiðastæði við Útvarpshúsið í Efstaleiti, þar sem þeir hafi farið úr bifreiðinni. Þeir hafi síðan komið hlaupandi og einn þeirra haldið á skjalatösku. Hafi hann strax grunað, að þeir hefðu framið rán. Í skýrslutöku, sem hófst kl. 15.21 daginn eftir og lauk kl. 16.49, skýrði hann svo frá, að hann hefði ekið greindri bifreið að fjölbýlishúsi við Kleppsveg um kl. 22.50 kvöldið áður. Hefðu þá verið með honum í bifreiðinni stefnandi, ásamt nafngreindri konu og manni. Að bifreiðinni hefði komið nafngreindur maður, ásamt fleiri mönnum, sem hann hefði ekki þekkt. Hefðu þeir dregið stefnanda út úr bifreiðinni og lamið hann margoft í andlitið og sparkað í hann, þar á meðal í höfuðið. Hefði einn mannanna skýrt svo frá, að ástæðan fyrir árásinni væri, að stefnandi hefði ,,logið upp á einhverja stelpu.” Eftir þetta hefði hann ekið þremur árásarmannanna um kl. 23.10 23.15 inn á áðurnefnt bifreiðarstæði við Útvarpshúsið og þeir sagt honum að bíða. Hefði hann beðið í 20-25 mínútur og þeir þá komið til baka með skjalatösku. Eftir það hefði verið haldið á Kleppsveginn og nokkru síðar hefði hann ekið stefnanda heim til sín að beiðni hans.
Bifreiðarstjórinn og umræddir þrír menn, sem hann ók frá Kleppsvegi að Útvarpshúsinu eftir árásina á stefnanda, þar á meðal sá, sem handtekinn var greint sinn á sama tíma og bifreiðarstjórinn, voru síðar ákærðir fyrir aðild að áðurnefndu ráni. Voru þeir allir sakfelldir með dómi, uppkveðnum 25. janúar 2000, og dæmdir til refsingar. Þá hafa þessir menn, að bifreiðarstjóranum undanteknum, og kona, einnig verið ákærð fyrir líkamsárás á stefnanda umrætt kvöld og brotið talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Einn þeirra manna, sem grunaður var um aðild að ráninu og var síðar sakfelldur samkvæmt framansögðu, var handtekinn í þágu rannsóknar málsins kl. 18.55 að kvöldi 8. júlí 1999 og eftir handtöku hans og skýrslutöku af honum þótti ekki ástæða til að hafa stefnanda lengur í haldi og var hann látinn laus kl. 20.35, svo sem áður greinir.
Stefnandi var handtekinn skömmu eftir rán og eftir að hafa verið ekið heim af ökumanni bifreiðar, sem sterkur grunur var um, að ránsmenn hefðu verið á, er glæpurinn var drýgður. Sá maður var handtekinn 18 mínútum fyrir handtöku stefnanda, ásamt öðrum manni, báðir grunaðir um þátttöku í ráninu. Voru þeir teknir höndum á leið sinni frá heimili stefnanda.
Við handtöku bar stefnandi merki þess að hafa fengið höfuðhögg, en það gat verið í samræmi við framburð kæranda ránsins um, að hann hefði náð að sparka í höfuð eins ránsmanna. Við skoðun á bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur kom stefnandi með sögu um, að nokkrir piltar hefðu ráðist á sig í Hóla- og Fellahverfi þá skömmu áður.
Er skýrsla var tekin af stefnanda næsta daga neitaði hann að gefa upp nöfn þeirra manna, sem hann kvað hafa ráðist á sig kvöldið áður. Stuðlaði hann þar með sjálfur að því, að honum var haldið föngnum lengur en ella hefði verið tilefni til.
Þegar framangreind atburðarrás er virt í heild og tekið er tillit til þeirra ríku rannsóknarhagsmuna, sem í húfi voru, er það mat dómsins, að stefnandi hafi ekki, miðað við þær aðstæður, sem hér um ræðir, verið sviptur frelsi lengur en lögmætt var. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Rétt er, að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 10. apríl 2000. Greiðist gjafsóknarkostnaður hans úr ríkissjóði, en að mati dómsins er þar eingöngu um að ræða laun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónsson hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og þingfestingargjald, 3.500 krónur.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Sævars Sævarssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 253.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hdl., 250.000 krónur.