Hæstiréttur íslands
Mál nr. 205/2001
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Samningur
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2001. |
|
Nr. 205/2001. |
Tækni-Stál ehf. (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Dynjanda ehf. (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Samingur. Aðild.
V ehf. samdi við T ehf. um að smíða dráttarvagn þar sem meðal annars mætti koma fyrir rafstöð að tiltekinni gerð. Að beiðni T ehf. gerði D ehf. tilboð í nokkrar gerðir rafstöðva. Í framhaldi af viðræðum aðila fékk T ehf. afhenta rafstöð frá D ehf. Í málinu var deilt um hvort D ehf. bæri að beina kröfu um greiðslu rafstöðvarinnar til T ehf. eða V ehf. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að T ehf. hafi óskað eftir því, án nokkurs fyrirvara um að það væri fyrir hönd annars aðila, að D ehf. gerði tilboð í rafstöð. Jafnframt lægi fyrir að tilboð D ehf. hefði verið móttekið athugasemdalaust af starfsmanni T ehf. Rafstöðin hefði verið afhent T ehf., sem hefði veitt henni móttöku athugasemdalaust. Það hefði ekki verið fyrr en nokkru eftir að T ehf. hefði fengið reikning vegna rafstöðvarinnar að félagið hefði sannanlega gert D ehf. grein fyrir því að það væri ekki kaupandi rafstöðvarinnar. Með vísan til þessa hefði D ehf. mátt treysta því að T ehf. væri viðsemjandi þess. Var T ehf. því dæmt til að greiða kröfu D ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2001. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur, en þó þannig að krafa hans beri dráttarvexti, sem dæmdir voru í héraði, til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags fari um þá samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefndi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeirri breytingu á ákvörðun dráttarvaxta, sem mælt er fyrir um í dómsorði, en ekki verður hreyft við niðurstöðu hans um málskostnað stefnda í hag, enda áfrýjaði hann ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að um dráttarvexti af kröfu stefnda, Dynjanda ehf., fer eftir III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. desember 1999 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags eftir 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Áfrýjandi, Tækni-Stál ehf., greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2001.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 9. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 20. júní 2000.
Stefnandi er Dynjandi ehf., kt. 610284-0359, Skeifunni 3 h, Reykjavík.
Stefndi er Tækni-Stál ehf., kt. 461198-2449, Suðurhrauni 2, Garðabæ. Dómkröfur stefnada eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 566.597, auk dráttarvaxta af upphæðinni frá 17. desember 1999 til greiðsludags og greiðslu málskostnaðar að mati réttarins. Þá er þess krafist að leggja megi áfallna dráttarvexti við höfuðstól á 12 mánaða fresti og að málskostnaður beri dráttarvexti hafi greiðsla ekki farið fram innan 15 daga frá dómsuppsögn.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Jafnframt gerir hann kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
II
Atvik að baki máli eru þau að með samningi dagsettum 12. nóvember 1999 tók stefndi, Tækni-Stál ehf., að sér að hanna og smíða fyrir Vélahönnun ehf., dráttarvagn undir öskutunnuþvottavél. Samkvæmt samningnum skyldi stefndi koma þvottavélinni fyrir á vagninum ásamt rafstöð og hljóðeinangruðu húsi sem Vélahönnun leggði til.
Þann 27. september 1999 barst stefnanda, sem selur vélar, öryggistæki o.fl, svofellt símbréf frá stefnda:
Tilboð óskast í diselrafstöð sem uppfyllir eftirfarandi: 3ja fasa 380 V. Afl 8 kW. Hljóðstyrkur <80dB.
Símskeytið var með undirritun Jóns Ómars Erlingssonar, starfsmanns stefnda.
Stefnandi kveður skeytinu hafa verið svarað samdægurs og eftir nokkrar vangaveltur hafi niðurstaðan orðið sú að stefnda var afhent Rafst. 15 L/13 WTE, hljóðeinangruð. Verð hennar hafi verið kr. 566.597, sem sé stefnufjárhæðin.
Þegar stefndi hafi verið krafinn um greiðslu, hafi hann óskað eftir því að stefnandi sneri sér til fyrirtækisins Vélahönnunar ehf. þar sem vélin hefði verið framsend því fyrirtæki. Stefnandi hafi gert það en án árangurs.
Þar sem ekkert réttarsamband sé á milli stefnanda og Vélahönnunar ehf. verði stefnandi að beina kröfum sínum í málinu til stefnda Tækni-Stáls ehf.
Stefndi kveður Vélahönnun ehf. hafa keypt umrædda rafstöð af stefnanda máls þessa. Stefnandi hafi síðan ranglega sent stefnda reikning fyrir rafstöðinni. Ástæðan fyrir því sé líklega sú að forsvarsmenn Vélahönnunar ehf., sem hafi einu sinni sem oftar verið staddir á starfsstöð stefnda, hafi fengið að nota faxtæki stefnda til að senda á nokkra staði, m.a. til stefnanda, beiðni um tilboð í rafstöð. Samningar muni síðan hafa tekist milli Vélahönnunar ehf. og stefnanda um kaup á rafstöð.
Þegar stefnda hafi borist reikningur frá stefnanda fyrir rafstöð hafi stefndi endursent reikninginn enda hafi stefndi ekki átt nein viðskipti við stefnanda.
III
Stefnandi byggir á að í málinu sé krafist endurgjalds fyrir vél sem pöntuð hafi verið af stefnda og afhent honum eftir viðræður kaupanda og seljanda.
Stefnandi vísar til meginregla samninga- og kröfuréttar um skyldu manna til að standa við fjárskuldbindingar. Um dráttarvaxtakröfu vísar stefnandi til 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á aðildarskorti. Stefndi hafi aldrei keypt umrædda rafstöð af stefnanda enda hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings, hvorki samþykkt tilboð eða kvittun fyrir móttöku. Stefnandi hafi hins vegar ranglega stílað reikning fyrir rafstöð á stefnda. Það hafi verið Vélahönnun ehf. sem hafi keypt umrædda rafstöð af stefnanda sbr. yfirlýsing starfsmanna Vélahönnunar þar að lútandi. Stefndi hafi enga aðild átt að þeim viðskiptum og því heldur ekki að máli þessu. Verði því ekki komist hjá því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Steindór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri stefnanda og Erling Jónsson framkvæmdastjóri stefnda. Þá komu fyrir dóminn sem vitni, Guðmundur Auðunsson starfsmaður stefnanda, Jón Ómar Erlingsson verkfræðingur hjá stefnda og Guðlaugur Sigmundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Vélahönnunar ehf.
IV
Mál þetta er tilkomið vegna kaupa á rafstöð sem stefndi skyldi samkvæmt samningi við Vélahönnun ehf. koma fyrir á vagni sem stefndi var að smíða fyrir Vélahönnun ehf., en samkvæmt samningnum skyldi Vélahönnun ehf. útvega rafstöðina.
Fyrir liggur að beiðni um tilboð í rafstöð var sent til stefnanda með símbréfi á bréfsefni stefnda, Tækni-Stáls ehf., með prentaðri undirritun Jóns Ómars Erlingssonar, verkfræðings hjá stefnda, en hann hefur viðurkennt að hafa sent beiðnina. Stefnandi brást við beiðninni um tilboð samdægurs með símbréfi til Jóns Ómars. Í niðurlagi símbréfsins segir: “Vona að tilboð þetta samræmist óskum ykkar og að við getum orðið til frekari aðstoðar.” Hefur Jón Ómar viðurkennt að hafa móttekið tilboðið.
Þannig liggur ljóst fyrir að af hálfu stefnda var óskað eftir því, án nokkurs fyrirvara um að það væri fyrir hönd annars aðila, að stefnandi gerði tilboð í rafstöð. Jafnframt liggur fyrir að tilboðið frá stefnanda var móttekið athugasemdalaust af starfsmanni stefnda.
Öll samskipti vegna kaupa á rafstöð þeirri er mál þetta snýst um munu hafa verið munnleg eftir að tilboð stefnanda var fram komið, ef frá er talið símbréf stefnanda til Jóns Ómars dagsett 1. október 1999. Í símbréfinu er vísað til símtals Jóns Ómars sama dag varðandi rafstöð og verð hennar gefið upp. Í niðurlagi bréfsins segir síðan: “Vona að þessar upplýsingar samræmist óskum ykkar og að við getum orðið til frekari aðstoðar.”
Rafstöðin var afhent stefnda sem veitti henni móttöku athugasemdalaust. En það var ekki fyrr en stefndi hafði fengið reikning vegna rafstöðvarinnar að hann sannanlega gerði stefnanda grein fyrir því að hann væri ekki kaupandi rafstöðarinnar. Þykir engu breyta þó að ágreingslaust hafi verið á milli stefnda og Vélahönnunar ehf. að Vélahönnun ehf. skyldi leggja stefnda rafstöðina til.
Í ljósi þess sem að framan er rakið um samskipti stefnanda og stefnda, og þess að ekkert þykir fram komið í málinu varðandi samskipti stefnanda og stefnda sem byggt verður á sem rennir stoðum undir að stefnanda hafi mátt vera ljóst að stefndi væri ekki kaupandi vélarinnar, þykir verða að fallast á stefnandi hafi mátt treysta því að stefndi væri viðsemjandi hans. Samkvæmt því og þar sem almennt verður sá sem pantar vöru að greiða fyrir hana, verða dómkröfur stefnanda teknar til greina og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hina umstefndu fjárhæð eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 80.000 krónur. Málskostnaður beri dráttarvexti frá fimmtánda degi eftir uppkvaðning dóms.
Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Tækni-Stál ehf. greiði stefnanda kr. 566.597, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 17. desember 1999 til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Stefndi greiði greiði stefnanda 80.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður beri dráttarvexti frá fimmtánda degi eftir uppkvaðning dóms.