Hæstiréttur íslands
Mál nr. 291/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsvist
|
|
Föstudaginn 1. júlí 2005. |
|
Nr. 291/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsvist.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Krafa X, um að aflétt yrði takmörkunum samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. sömu laga, var tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærðir eru tveir úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júlí 2005 kl. 16 og staðfest var ákvörðun sóknaraðila um að varðhaldið yrði með þeim takmörkunum, sem heimilaðar eru í e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Málin voru sameinuð með ákvörðun réttarins 1. júlí 2005. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess að gæslan verði án takmarkana samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hinna kærðu úrskurða.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður á það fallist að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem greinir í hinum kærða úrskurði og verður hann því staðfestur.
Varnaraðila var í þinghaldi kynnt að gæsluvarðhald hans yrði með takmörkunum samkvæmt b., c., d. og e. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Krafðist hann þess þá að gæsluvarðhald hans yrði án takmarkana samkvæmt e. lið ákvæðisins. Kvað héraðsdómari upp úrskurð, þar sem þeirri kröfu var hafnað. Ekki verður talið að sóknaraðili hafi fært fyrir því fullnægjandi rök að takmarkanir á heimild varnaraðila til að fylgjast með fjölmiðlum séu nauðsynlegar í þágu rannsóknar málsins til viðbótar þeim takmörkunum sem felast í b., c. og d. liðum fyrrnefndrar lagagreinar. Verður hinn kærði úrskurður sem þetta varðar því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald varnaraðila, X, er staðfestur.
Krafa varnaraðila, um að aflétt verði takmörkunum samkvæmt e. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er tekin til greina.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júlí 2005, klukkan 16:00.
Í greinargerð rannsóknara kemur fram að lögreglu hafi undanfarið borist upplýsingar um að kærði annist sölu og dreifingu fíkniefna. Við húsleit 28. þ.m. hafi verið lagt hald á mikið magn meintra fíkniefna á dvalarstað kærða, auk ætlaðra íblöndunarefna, umbúða og búnaðar sem ætla megi að notaður hafi verið til að pakka fíkniefnum. Síðar sama dag hafi einnig verið lagt hald á meint fíkniefni á lögheimili kærða. Kærði hafi verið handtekinn við húsleitina 28. þennan dag kl. 10:20.
Rannsóknari vísar til þess að rannsókn málsins sé á frumstigi en kærði þyki vera undir rökstuddum grun um stórfellda dreifingu fíkniefna. Fyrir liggi að afla frekari gagna sem varpað geti ljósi á meinta vitorðsmenn kærða og þykja frekari skýrslutökur vera nauðsynlegar af kærða og hugsanlega fleirum sem tengst geta hinu meinta broti. Að mati rannsóknara þykir nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins með því að hafa samband við meinta vitorðsmenn eða þeir geti haft samband við hann og miðlað upplýsingum eða haft verði samband við aðra sem veitt geta upplýsingar eða kærði eða meintir vitorðsmenn hans geti komið undan gögnum sem kunna að hafa þýðingu í málinu. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins. Meint brot kærða þykir vera alvarlegt og kunni að varða fangelsisrefsingu ef sök sannast og er um það vísað til 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði hefur mótmælt kröfu um gæsluvarðhald en krafist þess til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann hefur viðurkennt vörslu á hluta af þeim efnum sem fundust við framangreinda húsleit, en kveðst ekki hafa haft aðgang að tilteknum hlutum húsnæðis á dvalarstað sínum og ekki kannast við þau efni sem fundust á þessum stöðum.
Að virtum gögnum málsins telur dómari að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varðað getur fangelsisrefsingu. Að virtum atvikum málsins, eins og þau liggja fyrir á þessu stigi, telur dómari einnig að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins ef hann gengur laus, svo sem með því að ræða við og hafa áhrif á ætlaða vitorðsmenn sína. Er því fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Með hliðsjón af fyrirliggjandi rannsóknarhagsmunum telur dómari gæsluvarðhaldi markaður hæfilegur tími í kröfu rannsóknara. Verður því fallist á kröfu hans um gæsluvarðhald, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júlí 2005, klukkan 16:00.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005.
Kærði X [kt. og heimilisfang], hefur krafist þess að gæsluvarðhald yfir honum skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag verði án takmarkana skv. e lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 þannig að honum gefist kostur á að lesa dagblöð og horfa á sjónvarp.
Af hálfu rannsóknara er kröfu kærða mótmælt, en ítrekað að fyrirkomulag gæsluvarðhalds muni verða endurskoðað svo fljótt sem efni standa til, líklega innan nokkurra daga.
Líkt og fram kemur í úrskurði dómara um gæsluvarðhald fyrr í dag telur dómari, að virtum atvikum málsins, að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins ef hann gengur laus, svo sem með því að ræða við og hafa áhrif á ætlaða vitorðsmenn sína. Taldi dómari því fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að kærði sæti gæsluvarðhaldi og féllst á kröfu rannsóknara um gæsluvarðhald. Af gögnum málsins verður ráðið að fjölmargir þættir þess séu enn óupplýstir, m.a. atriði sem fram hafa komið í framburði kærða fyrir lögreglu. Samkvæmt þessu svo og að virtum atvikum málsins í heild, eins og þau liggja fyrir á þessu stigi, telur dómari að takmarkanir skv. e lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 helgist nægilega af rannsóknarhagsmunum málsins að svo stöddu. Verður kröfu kærða því hafnað.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærða, X, um að takmörkunum skv. e lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 verði aflétt, er hafnað.
.