Hæstiréttur íslands
Mál nr. 296/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Föstudaginn 24. apríl 2015. |
|
Nr. 296/2015. |
Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi) gegn X (Jónína Guðmundsdóttir hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Fallist var á kröfu L um að X yrði bönnuð brottför af landinu um nánar tilgreindan tíma enda væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 24. júlí 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili ökumaður bifreiðar sem valt á [...] 9. apríl 2015, með þeim afleiðingum að farþegi í farangursgeymslu bifreiðarinnar kastaðist út úr henni og lést af áverkum sem hann hlaut er hann hafnaði undir henni.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti segir að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa valdið mannsbana af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti fangelsi allt að sex árum, auk þess sem hann sé grunaður um brot gegn 2. mgr. 73. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem varðað geti fangelsi allt að tveimur árum. Í greinargerðinni kemur einnig fram að telja verði miklar líkur á því að gefin verði út ákæra á hendur honum fyrir háttsemi sem varðað geti fangelsisrefsingu.
Samkvæmt framangreindu er rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, en lögreglurannsókn er skammt á veg komin. Varnaraðili er [...] ríkisborgari sem starfað hefur á hóteli í [...] í nokkra mánuði, en hyggst hefja háskólanám í heimalandi sínu næstkomandi haust. Hann á ekki fjölskyldu hérlendis og ofangreint starf er hið eina sem tengir hann við landið. Með vísan til framangreinds er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að banna varnaraðila brottför af landinu. Af þeim sökum verður fallist á kröfu sóknaraðila, enda nægir sá tími til að ljúka rannsókn málsins og taka ákvörðun um saksókn.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð brottför af landinu allt til föstudagsins 24. júlí 2015, klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. apríl 2015.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], [...] ríkisborgara, með lögheimili að [...] í [...], verði með úrskurði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir dómstólum, ef til útgáfu ákæru kemur, fram til þess að dómur verði kveðinn upp í málinu, þó eigi lengur en til föstudagsins 24. júlí nk., kl. 16:00.
Krafan er sett fram með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Í greinargerð með kröfu lögreglustjóra kemur fram að fimmtudagskvöldið 9. apríl sl., hafi kærði X, sem umrætt sinn ók bifreiðinni [...] eftir [...] í [...], misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafi oltið og hafnaði utan vegar við [...] á móts við [...]. Í bifreiðinni hafi í umrætt sinn verið fimm farþegar, þ.á m. A, kt. [...], sem var farþegi í farangursgeymslu bifreiðarinnar, en hann mun hafa kastast út úr bifreiðinni og hafnað undir henni og hlotið slíka áverka að hann hafi verið úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi síðar sama kvöld. Auk kærða og hins látna hafi verið fjórir farþegar í bifreiðinni, þrír erlendir ríkisborgarar og einn Íslendingur. Kærði hafi við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni [...] í umrætt sinn, að hafa haft vitneskju um að í bifreiðinni væri umframfarþegi, og að nefndur A hafi verið í farangursrými bifreiðarinnar þegar slysið varð. Segir í greinargerð lögreglustjóra að framburður kærða og vitna beri í meginatriðum saman um slysið sjálft og aðdraganda þess. Kærði sé undir sterkum grun um að hafa valdið mannsbana af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti fangelsi allt að sex árum. Kærði, sem sé [...] ríkisborgari, hafi dvalist hér á landi frá því í lok janúar sl., við störf á hóteli í [...]. Fjölskylda hans muni vera búsett í [...] og hafi hann engin tengsl við Ísland, fyrir utan framangreint starf í [...] sem hann hafi fengið í gegnum íslenska vinnumiðlun.
Í greinargerð lögreglustjóra er gerð grein fyrir aðkomu sérfróðra aðila sem lögregla hefur snúið sér til varðandi m.a. rannsókn á vettvangi, svokallaða bíltæknirannsókn, rannsókn á ætluðum ökuhraða bifreiðarinnar, rannsókna á sviði meina- og taugameinafræði og öflun læknisvottorða. Segir að þrátt fyrir að mál þetta sé í forgangi hjá lögreglu og sérfræðingum sem lögregla hafi leitað til, sé álitsgerða sérfræðinga í fyrsta lagi að vænta eftir tíu vikur. Þegar framangreindar niðurstöður liggi fyrir megi gera ráð fyrir að nauðsynlegt reynist að kalla vitni til skýrslutöku á ný og nær öruggt að kalla þurfi kærða aftur til skýrslutöku í þeim tilgangi að bera undir hann niðurstöður framangreindra rannsókna.
Telur lögreglustjóri, að öllu framangreindu virtu, séu uppfyllt skilyrði til að kærða verði bönnuð för af landinu meðan á rannsókn málsins stendur hjá lögreglu og eftir atvikum mál hans til meðferðar hjá dómstólum ef til útgáfu ákæru kemur, enda megi ætla að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, verður sakborningur því aðeins gert að sæta farbanni að hann hafi náð 15 ára aldri og að rökstuddur grunur sé um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Að auki framangreindra þriggja skilyrða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, verði eitt af hinum sérstöku skilyrðum a-d liðar 1. mgr. eða 2. mgr. að vera til staðar. Lögreglustjóri vísar í kröfu sinni til b-liðarins, en þar segir að ætla megi að sakborningur muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Meðal gagna málsins er læknabréf ritað af sérfræðingi á bráðamóttöku þar sem fram kemur að A hafi verið úrskurður látinn þann 10. apríl sl., klukkan 00:11. Lýsing á áverkum hans, svo langt sem þeir ná í framangreindu læknabréfi, eru í samræmi við framburð kærða, vitna í bifreiðinni [...] og vitna sem leið áttu um [...], og lögregla ræddi við á vettvangi, um að hinn látni hafi hafnað undir bifreiðinni [...]. Ítarleg skýrsla hefur verið tekin af kærða en hann mætti til skýrslutöku ásamt tilefndum verjanda sínum að viðstöddum túlki þann 10. apríl sl. Þar viðurkenndi kærði að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar [...] umrætt sinn með farþega í farangursrými bifreiðarinnar og að hafa misst stjórn á bifreiðinni í hálku. Þá hefur lögregla tekið skýrslu af farþegum bifreiðarinnar [...], en fyrir liggur að þrír þeirra, sem eru erlendir ríkisborgarar, eru farnir úr landi. Er framburður þeirra í meginatriðum samhljóða framburði kærða. Þá kemur fram í gögnum málsins að kærði hafi gefið blóðsýni í þágu rannsóknar málsins rúmri klukkustund eftir slysið, en á vettvangi blés kærði í áfengismæli sem gaf niðurstöðuna 0,00 mg/l.
Með farbanni er ferðafrelsi manns skert. Rannsókn máls þessa er á frumstigi og lögregla hefur nú þegar leitað aðstoðar sérfræðinga við rannsókn málsins, en niðurstöður þeirra kunna að veita upplýsingar um aðstæður á vettvangi, ástand ökutækis þess sem kærði ók í umrætt sinn og atburðarás að öðru leyti. Ekki verður annað ráðið af greinargerð lögreglustjóra og meðfylgjandi gögnum að nú þegar hafi lögregla aflað þeirra rannsóknargagna sem atbeina kærða eða nærveru þurfi til.
Við meðferð málsins fyrir dómi lagði verjandi kærða fram yfirlýsing frá vinnuveitanda kærða þar sem fram kemur að unnusta kærða er væntanleg til landsins og að hún muni starfa á umræddu hóteli ásamt kærða fram á haust, en þá hyggst kærði fara í háskólanám í heimalandi sínu. Þá lýsti kærði því yfir fyrir dómi að hann myndi koma til landsins, komi til þess að ákæra verði gefin út á hendur honum í máli þessu.
Þó tengsl kærða við landið séu, að því er virðist, eingöngu tengd þeirri vinnu sem hann réð sig til í lok janúarmánaðar sl., í gegnum íslenska atvinnumiðlun, er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að kærði muni koma sér undan því að mæta fyrir dóm hér á landi komi til þess að opinbert mál verði höfðað gegn honum fyrir íslenskum dómstólum. Þá er til þess að líta að ekki er venja í málum sem þessu að sérfræðigögn, eins og þau sem nefnd eru hér að framan og ítarlega eru rakin í greinargerð með kröfu lögreglustjóra, séu sérstaklega borinn undir sakborninga eða vitni meðan á lögreglurannsókn stendur eða í tengslum við ákvörðun um málsókn eins og lögreglustjóri vísar til. Að öllu framansögðu virtu er það mat dómsins að ekki sé í máli þessu uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, til að úrskurðar kærða í farbann.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Körfu lögreglustjórans á Suðurlandi um að kærða, X, verði bönnuð för frá Íslandi, er hafnað.