Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-295

A (Reimar Pétursson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Rannsókn
  • Handtaka
  • Leit
  • Kyrrsetning
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Með beiðni 28. október 2019 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. sama mánaðar í málinu nr. 804/2018: Íslenska ríkið gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna aðgerða lögreglu og ákæruvalds í tengslum við rannsókn og saksókn sakamáls sem höfðað var á hendur honum vegna ætlaðra brota gegn lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra. Fólust þessar aðgerðir meðal annars í handtöku, húsleit, haldlagningu og rannsókn gagna frá fjarskiptafyrirtæki, kyrrsetningu á eignum í tvígang og haldlagningu innstæðu á bankareikningi. Með héraðsdómi í fyrrnefndu sakamáli var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Ríkissaksóknari áfrýjaði dóminum en féll frá áfrýjun um ári síðar. Leyfisbeiðandi kveður tjón sitt felast í miska og fjártjóni, þar á meðal atvinnutjóni, og byggir kröfur sínar á 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og almennri sakarreglu skaðabótaréttar.

Með framangreindum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfu um bætur vegna atvinnutjóns. Þá var hvorki fallist á kröfu leyfisbeiðanda um miskabætur fyrir tilgreind ummæli saksóknara í fjölmiðlum né um bætur að álitum vegna kyrrsettra og haldlagðra peningaeigna á grundvelli 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 2. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008. Vísað var til þess að umræddir fjármunir hafi borið vexti meðan á kyrrsetningu og haldlagningu stóð. Hins vegar var íslenska ríkið dæmt til greiðslu miskabóta vegna fyrrnefndra rannsóknaraðgerða og sökum óhæfilegs dráttar sakamálsins, samtals að fjárhæð 2.500.000 krónur, en í héraði var íslenska ríkið dæmt til að greiða 1.400.000 krónur í miskabætur vegna umræddra rannsóknaraðgerða og tilgreindra ummæla saksóknara.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í fyrsta lagi hvað varðar mörk leyfilegrar umfjöllunar lögreglu og ákæruvalds í sakamálum. Vísar hann meðal annars til þess að ekki sé að finna fordæmi Hæstaréttar um það efni og að við slíkt mat vegist á stjórnarskrárvarin réttindi. Í öðru lagi reyni í málinu á við hvaða aðstæður megi dæma bætur að álitum annars vegar fyrir atvinnutjón og hins vegar vegna kyrrsetningar eða haldlagningar reiðufjár. Hvað það síðarnefnda varðar vísar leyfisbeiðandi til þess að bótaréttur hans vegna umræddra rannsóknaraðgerða samkvæmt lögum nr. 88/2008 geti vart verið rýrari heldur en væri samkvæmt 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda því tekin til greina.