Hæstiréttur íslands

Mál nr. 141/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 24

 

Þriðjudaginn 24. apríl 2001.

Nr. 141/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Sigurður G. Gíslason fulltrúi)

gegn

X

(Pétur Örn Sverrisson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

X, sem var undir rökstuddum grun um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli, var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum samdægurs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærða úrskurði verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2001.

 Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X [. . .] , verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. maí 2001 klukkan 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í dag vegna gruns um aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna.

[ . . . ]

Kveður lögreglan fleiri menn hafa verið handtekna í dag og megi gera ráð fyrir að mikil rannsókn muni fylgja í kjölfarið.  Rannsókn málsins sé á frumstigi.  Þurfi að taka frekari skýrslur af kærða og bera undir hann ýmis gögn s.s. símtöl og framburði annarra eftir því sem þeir verði til, en fyrirsjáanlegt sé að miklar skýrslutökur muni vera framundan.

Beri því brýna nauðsyn til að hneppa kærða í gæsluvarðhald til að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins með því að hafa samband við vitni eða samseka og/eða komið undan gögnum sem kunni að hafa þýðingu í málinu.  Rannsókn málins sé á frumstigi og sé brýnt að vernda rannsóknarhagmuni strax í upphafi.  Verið sé að rannsaka ætluð brot kærða gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 eða 173.gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem geti varðað fangelsisrefsingu ef sannist.  Rannsókn málsins sé ekki lokið og ef kærði gangi nú laus gæti hann torveldað mjög þá rannsóknarvinnu sem enn sé ólokið.  Heimild til gæsluvarðhalds sé í a-lið 1.mgr. 103.gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með vísan til alls ofanritaðs og rannsóknargagna málsins þykir framkominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og ljóst af gögnum málsins að yfirheyra þarf kærða frekar svo og samseka og/eða vitni og er ljóst að hann getur torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Þykir því rétt sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga 19/1991 að taka kröfu lögreglustjórans í Reykjavík til greina eins og hún er fram sett.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, X, [ . . . ], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 3. maí 2001 klukkan 16:00.