Hæstiréttur íslands
Mál nr. 471/2013
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Hraðakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Fíkniefnalagabrot
- Skjalabrot
- Reynslulausn
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2013. |
|
Nr. 471/2013.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Baldri Hrafni Þorleifssyni (Bjarni Hauksson hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hraðakstur. Akstur sviptur ökurétti. Fíkniefnalagabrot. Skjalabrot. Reynslulausn. Hegningarauki.
B var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa í sex nánar tilgreind skipti ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Í þremur af framangreindum tilvikum ók hann óvátryggðri bifreið, í jafnmörg skipti ók hann langt yfir hámarkshraða og í eitt skipti sinnti hann ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir hegningarlagabrot með því að hafa í einu þessara tilvika tekið skráningarmerki af tiltekinni bifreið og fært þau yfir á aðra og fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum fíkniefni. B játaði sök og með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var refsing hans ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þá var áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2013 að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði milduð, en héraðsdómur staðfestur að öðru leyti.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Með ákæru 6. nóvember 2012 voru ákærða gefin að sök umferðarlagabrot með því að hafa í sex nánar tilgreind skipti á tímabilinu 21. maí til 4. október sama ár ekið tilgreindum bifreiðum sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Hann var að auki ákærður fyrir að hafa í þremur af þessum tilvikum ekið óvátryggðri bifreið, í jafnmörg skipti ekið langt yfir hámarkshraða og í eitt skipti ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu. Þá var hann einnig sakaður um hegningarlagabrot með því að hafa í einu þessara tilvika tekið skráningarmerki af tiltekinni bifreið og fært þau yfir á aðra. Ákærði játaði skýlaust fyrir héraðsdómi þær sakir sem á hann voru bornar og var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur á árinu 2006 til greiðslu sektar og sviptur ökurétti fyrir ölvun við akstur. Á árinu 2007 var honum með viðurlagaákvörðun fjórum sinnum gert að greiða sekt vegna aksturs sviptur ökurétti og hlaut hann að auki einn dóm fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur. Með þeim dómi var ákærði dæmdur til greiðslu sektar og sviptur ökurétti í tvö ár. Á árunum 2008 til 2011 var hann sex sinnum dæmdur til fangelsisrefsingar, þar af þrisvar fyrir að aka ölvaður og undir áhrifum ávana- og fíkniefna og tvisvar fyrir ölvun við akstur, en að auki í öll skiptin jafnframt fyrir að aka sviptur ökurétti. Með fyrsta dóminum var hann sviptur ökurétti ævilangt, en í þeim síðari að einum frátöldum var sú ökuréttarsvipting áréttuð. Þá var ákærði dæmdur 14. desember 2012 til að sæta fangelsi í 18 mánuði fyrir fíkniefnalagabrot, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti. Ævilöng ökuréttarsvipting hans var enn á ný áréttuð. Með dóminum var jafnframt dæmd upp 327 daga reynslulausn, sem honum hafði verið veitt 1. janúar 2012. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 30. janúar 2013 hefur ákærði tvívegis hlotið dóm. Annars vegar 7. febrúar 2013 fyrir akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna og sviptur ökurétti, en honum var ekki gerð sérstök refsing. Hins vegar 11. október sama ár fyrir akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti, svo og fyrir rangar sakargiftir, en með þeim dómi var ákærða gert að sæta fangelsi í níu mánuði.
Í hinum áfrýjaða dómi var sakaferill ákærða ekki reifaður, en tekið var fram að dæma yrði upp reynslulausn, sem hann hafi fengið á óafplánuðum eftirstöðvum fangelsisrefsingar, 327 dögum, og var honum gert að sæta fangelsi í 12 mánuði auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Í dóminum var ekki getið um áðurnefndan dóm sem ákærði hlaut 14. desember 2012, enda var hans ekki getið í sakavottorði sem lá fyrir í héraði. Verður því ekki annað séð en að héraðsdómara hafi ekki verið kunnugt um að að fangelsisrefsingin sem ákærði hafði hlotið reynslulausn á hafi verið tekin upp með dóminum frá 14. desember 2012.
Ákærði hefur sem fyrr segir hlotið fjölda dóma fyrir akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna auk aksturs án ökuréttar. Hann hefur með hinum áfrýjaða dómi enn á ný verið sakfelldur fyrir samkynja brot auk fleiri umferðarlagabrota og hegningarlagabrots. Að auki var akstur ákærða samkvæmt 1., 2. og 5. lið I. kafla ákæru stórhættulegur þar sem hann ók langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Brot hans voru öll framin áður en dómarnir frá 14. desember 2012, 7. febrúar 2013 og 11. október sama ár voru kveðnir upp. Refsingu ákærða nú verður því að ákveða með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en í því sambandi er þess að gæta að í dóminum 11. október 2013 var refsing ákærða ákveðin með tilliti til refsihámarks 148. gr. sömu laga, sem er tíu ár, en ekki 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Að öllu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað verða staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Baldur Hrafn Þorleifsson, sæti fangelsi í sex mánuði.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2013.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri sl. á hendur ákærða, Baldri Hrafni Þorleifssyni, kt. [...], [...], [...], „fyrir eftirtalin umferðar- hegningar- og fíkniefnalagabrot á árinu 2012.
I
Umferðarlagabrot með því að hafa:
- Að kvöldi mánudagsins 21. maí í Hafnarfirði, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, (í blóði mældist amfetamín 135m ng/ml og tetrahýdrókannabínól 5,1 ng/ml) og með 145 km hraða á klst. austur Reykjanesbraut, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst., uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar á Reykjanesbraut á móts við Þúfubarð.
- Að kvöldi fimmtudagsins 19. júlí, í Reykjanesbæ, ekið sömu bifreið óvátryggðri, sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, undir áhrifum áfengis, (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 1,4 ng/ml og vínandamagn 0,60 ) og með 143 km hraða á klst. suður Reykjanesbraut, við Vogastapa í Vatnsleysustrandarhreppi, ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu heldur ekið áfram Reykjanesbraut og til hægri inn á Stekk síðan til vinstri inn á bifreiðastæði á Fitjum við Bónus þaðan til vinstri norður Vallarás síðan til hægri inn á Klettás til austur uns aksturinn var stöðvaður á móts við hús nr. [...], þar sem ákærði fór út úr bifreiðinni og reyndi að komast undan á hlaupum, en lögregla handtók hann skömmu síðar.
- Laugardaginn 28. júlí í Reykjavík, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 1,40 ) austur Sæbraut og suður [...] uns aksturinn var stöðvaður við hús nr. [...] við [...].
- Miðvikudaginn 1. ágúst, í Reykjavík, ekið bifreiðinni [...] óvátryggðri, sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 1,4 ng/ml) frá [...] í Sundagarða að bifreiðastæði við Skarfagarða þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða er hann færði bifreiðina milli bifreiðastæða.
- Aðfaranótt föstudagsins 21. september, í Garðabæ, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, undir áhrifum áfengis (í blóði mældist amfetamín 195 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 0,5 ng/ml og vínandamagn 0,59) og með 129 km hraða á klst. suður Reykjanesveg, á vegarkafla við Arnarnesveg, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst. uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við Kaplakrika.
- Aðfaranótt fimmtudagsins 4. október, í Reykjavík, ekið bifreið með skráningarmerkinu [...], en sem bera átti skráningarmerkin [...], óvátryggðri, sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 4,8 ng/ml í þvagi mældist amfetamín) suður Reykjaveg uns aksturinn var stöðvaður á Reykjavegi við Suðurlandsbraut.
Teljast brot í öllum töluliðum varða við 1. mgr. 48. gr., og brot í töluliðum 1, 2, 4, 5 og 6 auk þess við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., og brot í töluliðum 2 og 3 ennfremur við 1. sbr. 2. mgr .45. gr., og brot í töluliðum 1 og 2 ennfremur við 1. sbr. 3 mgr. 37. gr., og loks brot í töluliðum 2, 4 og 6 ennfremur við 1. mgr. 93. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
II
Hegningarlagabrot með því að hafa einhverju fyrir aðfaranótt fimmtudagsins 4. október, sbr. atvik kafla I tölulið 6, í blekkingarskyni tekið skráningarmerkið [...] af [...] bifreið í hans eigu og sett á [...] bifreið, sem bera átti skráningarmerkið [...], og ekið henni þannig uns lögregla stöðvaði aksturinn.
Telst þetta varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III
Fíkniefnalagabrot með því að hafa í sama skipti og greinir í kafla I tölulið 2 haft í vörslum sínum, í buxnavasa, 0,92 grömm af marihuana sem lagt var hald á.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr.lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist á ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“
Málavextir
Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða. Dæma ber upp 327 daga reynslulausn sem ákærði hlaut 29. júní 2011. Þykir refsing ákærða þannig hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að vera sviptur ævilangt ökurétti frá dómsbirtingu að telja.
Þá ber að dæma að ákærði skuli greiða annan kostnað af málinu, 670.391 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Baldur Rafn Þorleifsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði sæti sviptingu ökuréttar ævilangt frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði 670.391 krónu í sakarkostnað.