Hæstiréttur íslands
Mál nr. 508/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2008. |
|
Nr. 508 /2008. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði og gögnum málsins stendur nú yfir hjá sóknaraðila rannsókn á því hvort varnaraðili hafi einn eða í félagi við fleiri menn gerst sekur um líkamsárás 14. september 2008 í tilgreindu húsi í Þorlákshöfn þar sem hann var gestkomandi. Þegar lögregla kom á vettvang stóð brotaþoli fyrir framan húsið og var með mjög djúpan skurð á hálsi. Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að verið sé að rannsaka ætlað brot varnaraðila á grundvelli 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fallist er á með héraðsdómi að vegna rannsóknarhagsmuna séu fyrir hendi skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2008
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], pólskum ríkisborgara, til heimilis að [...], Þorlákshöfn, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 19. september nk. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að því verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að skömmu fyrir kl. 03:00 í fyrrinótt hafi lögreglunni á Selfossi borist tvær tilkynningar um hávaða og slagsmál fyrir utan Y í Þorlákshöfn. Er lögreglan hafi komið á vettvang kl. 03:17 hafi brotaþoli staðið þar fyrir utan með mikla áverka, m.a. djúpa skurði á hálsi, þannig að glitt hafi í hálsliði.
Árásarvettvangur hafi í upphafi ekki verið ljós þar sem aðilar á vettvangi hafi borið að árásin hafi átt sér stað við gatnamót í Þorlákshöfn, ekki langt frá Y. Hafi framburður hinna grunuðu tekið breytingum og ekki samrýmst frumniðurstöðum lögreglurannsóknar.
Lögregla hafi notið aðstoðar blóðslettufræðings og réttarlæknis. Eigi eftir að framkvæma fullnaðartæknirannsókn á vettvangi og þá standi réttarlæknisfræðileg skoðun á kærða yfir. Mikil vinna sé framundan hjá lögreglu við samprófun aðila og þá eigi eftir að taka skýrslur af tveimur vitnum. Brotaþoli hafi með öllu neitað að tjá sig við lögreglu að öðru leyti en því að hann haldi því fram að á hann hafi verið ráðist við Broadway í Reykjavík.
Af hálfu lögreglu er byggt á því að verið sé að rannsaka ætlað brot a.m.k. fimm grunaðra aðila, þar á meðal kærða, á 2. mgr. 218. gr., eða 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Umrædd árás hafi verið mjög gróf og hending ein að ekki hafi hlotist meiri skaði af. Það sakarefni sem hér um ræði varði fangelsisrefsingu ef sök teljist sönnuð. Rannsókn málsins sé mjög viðamikil og á frumstigi. Einnig sé ljóst að reynt hafi verið að villa um fyrir lögreglu með því að spilla vettvangi og veita misvísandi upplýsingar. Lögregla telji mikla hættu á því, eins og mál þetta sé vaxið, að grunaðir muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum, eða hafa áhrif á vitni og samseka. Sé gæsluvarðhalds krafist með vísan til alls ofanritaðs, svo og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Kærði er grunaður um aðild að alvarlegri líkamsárás gagnvart brotaþola og getur háttsemi hans varðað hann ævilangri fangelsisrefsingu ef sök sannast. Kærði neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja grun um aðild hans og annarra að atlögunni gagnvart brotaþola. Eftir er að yfirheyra hann og aðra sem grunaðir eru um aðild að verknaðinum nánar, svo og vitni. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærði geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina og verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september nk. kl. 16:00.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. september 2008 kl. 16:00.