Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2009
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorkubætur
- Almannatryggingar
- Miskabætur
- Annað fjártjón
- Slysatrygging ökumanns
- Vextir
|
|
Miðvikudaginn 12. maí 2010. |
|
Nr. 449/2009. |
Sandra Jónsdóttir Jón Már Halldórsson og Kristín Jónsdóttir (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Brynjari Sigurðssyni Hrefnu Björk Ólafsdóttur og Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorkubætur. Almannatryggingar. Miskabætur. Annað fjártjón. Slysatrygging ökumanns. Vextir.
S varð fyrir líkamstjóni 13. febrúar 2004 í umferðarslysi þegar B kom akandi á bifreið í eigu H úr gagnstæðri átt og hafnaði á bifreiðinni, sem S ók. Bifreið H var með ábyrgðartryggingu hjá SA. S fékk þungt höfuðhögg við áreksturinn en afleiðingar þess voru heilaáverki með dreifðum skemmdum. Óumdeilt var að SA, B og H báru fulla fébótaábyrgð á tjóni S. Uppgjör fór fram og tók S við greiðslum með fyrirvara og höfðaði máli til heimtu frekari bóta. Hafnað var aðalkröfu S um ómerkingu héraðsdóms, enda varð ekki litið svo á að slíkur misbrestur hefði orðið á því að taka afstöðu til einstakra af fjölmörgum málsástæðum S að varðað gæti ómerkingu dómsins. Einnig var hafnað kröfu S um frekari bætur fyrir varanlegan miska þar sem fallist hafði verið á boð um hærri miskabætur samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Aftur á móti var tekin til greina krafa um miskabætur samkvæmt 26. gr. sömu laga þar sem B var talinn hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi. Þá var talið að útreikningur bóta fyrir varanlega örorku S, sem var 18 ára að aldri á öðru ári í námi við framhaldsskóla þegar hún varð fyrir slysinu, ætti að fara fram miðað við lágmarkstekjur, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Jafnframt voru ekki tekin til greina andmæli S við því að til frádráttar bótum kæmi eingreiðsluverðmæti greiðslna til hennar úr almannatryggingum. Krafa S um bætur vegna kostnaðar af sjúkraþjálfun, þjónustu á göngudeild sjúkrahúss og lyfjum var studd áliti læknis og í útreikningum í matsgerð, sem S hafði aflað, var tekið tillit til stuðnings af félagslegum toga, sem hún gæti notið í þessum efnum. Matsgerðinni hafði ekki verið hnekkt að þessu leyti og var krafa S því tekin til greina. Hins vegar var hafnað kröfu S um bætur vegna erfiðari heimilisstarfa, frekara náms eða starfsþjálfunar og aukins kostnaðar af framfærslu fatlaðra, þar sem tjón að þessu leyti hefði ekki verið leitt í ljós. Loks var ekki tekin til greina krafa S á hendur T um bætur úr slysatryggingu ökumanns og heldur ekki krafa foreldra S á hendur SA, B og H vegna tekjutaps, sem þau urðu fyrir vegna umönnunar S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason dómstjóri.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2009. Áfrýjandinn Sandra Jónsdóttir krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara að stefndu Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Brynjar Sigurðsson og Hrefna Björk Ólafsdóttir verði dæmd til að greiða sér óskipt aðallega 75.968.922 krónur, til vara 57.612.352 krónur, til þrautavara 54.691.189 krónur, en að því frágengnu 47.002.357 krónur, með 4,5% ársvöxtum frá 13. febrúar 2004 til 5. desember 2005 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 6.695.635 krónur 6. desember 2005, 7.101.884 krónur 5. desember 2006, 1.087.230 krónur 7. sama mánaðar og 1.290.218 krónur 21. október 2008. Verði þessi stefndu sýknuð gerir áfrýjandinn Sandra sömu kröfur á hendur stefnda Tryggingamiðstöðinni hf.
Áfrýjendurnir Jón Már Halldórsson og Kristín Jónsdóttir krefjast þess að stefndu Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Brynjar og Hrefna Björk verði dæmd til að greiða þeim óskipt 2.494.715 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 13. febrúar 2004 til 4. september 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjendur krefjast í öllum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Brynjar og Hrefna Björk krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Varastefndi Tryggingamiðstöðin hf. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjandans Söndru.
I
Áfrýjandinn Sandra varð fyrir líkamstjóni 13. febrúar 2004 í umferðarslysi þegar hún ók bifreið austur Arnarnesveg í Garðabæ og beygði á umferðarljósum til norðurs að Fífuhvammsvegi. Stefndi Brynjar kom akandi á bifreið í eigu stefndu Hrefnu Bjarkar úr gagnstæðri átt vestur Arnarnesveg og hafnaði á bifreiðinni, sem áfrýjandinn ók. Bifreið stefndu Hrefnu Bjarkar var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., en vegna bifreiðarinnar, sem áfrýjandinn ók, hafði verið fengin slysatrygging ökumanns hjá varastefnda. Áfrýjandinn fékk þungt höfuðhögg við áreksturinn og greindist meðal annars með minnistap, breytilegt meðvitundarástand, lömun í hægri útlimum, tvísýni og són í eyra, sem allt var rakið til heilaáverka með dreifðum skemmdum. Í kjölfar legu á sjúkrahúsi var áfrýjandinn til meðferðar á endurhæfingardeild fram í lok júní 2004. Á slysdegi var hún 18 ára og við nám á öðru ári í Verslunarskóla Íslands. Haustið eftir slysið hóf hún aftur nám við sama skóla og lauk stúdentsprófi vorið 2007, ári síðar en ella hefði orðið. Í málinu er óumdeilt að stefndu Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Brynjar og Hrefna Björk beri fulla fébótaábyrgð á tjóni áfrýjandans Söndru af þessu slysi.
Áfrýjandinn Sandra fékk 2. september 2005 dómkvadda menn til að meta líkamstjón sitt vegna slyssins og luku þeir matsgerð 29. október sama ár. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar áfrýjandans eftir slysið hafi orðið stöðugt 13. febrúar 2005. Tímabundið atvinnutjón hennar var talið taka til þriggja mánaða vinnu sumarið 2004 þegar hún hefði verið í leyfi frá skóla. Að því er varðar tímabil þjáningabóta töldu matsmenn áfrýjandann hafa verið veika um eins árs skeið, þar af rúmfasta í þrjá mánuði. Varanlegur miski áfrýjandans var metinn 70 stig, en varanleg örorka 50%.
Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. bauð áfrýjandanum Söndru uppgjör á grundvelli þessarar matsgerðar og innti af hendi greiðslu samkvæmt því boði 6. desember 2005. Með þessu fékk áfrýjandinn 489.668 krónur í bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, 455.400 krónur í þjáningabætur og 4.177.950 krónur í bætur vegna varanlegs miska. Í boði stefnda var ráðgert að bætur vegna varanlegrar örorku, sem reiknaðar væru út frá lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, næmu 15.562.861 krónu, en til frádráttar þeirri fjárhæð kæmi eingreiðsluverðmæti bóta til áfrýjandans úr almannatryggingum, 14.416.539 krónur, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga, og stæðu því eftir af þeim lið 1.146.322 krónur. Að viðbættum vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 426.296 krónur greiddi stefndi áfrýjandanum samtals 6.695.635 krónur auk þóknunar lögmanns og útlagðs kostnaðar. Áfrýjandinn tók við þessari greiðslu með fyrirvara.
Áfrýjandinn Sandra fékk dómkvadda yfirmatsmenn 21. apríl 2006 og luku þeir störfum 3. nóvember sama ár. Í yfirmatsgerðinni var varanlegur miski áfrýjandans talinn 75 stig og varanleg örorka 70%. Að fengnu þessu yfirmati innti stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. af hendi bætur til áfrýjandans Söndru 5. desember 2006 vegna aukningar frá undirmati á varanlegum miska um 5 stig og varanlegri örorku um 20%, en vegna fyrrnefnda liðarins voru greiddar 320.175 krónur og þess síðarnefnda 6.225.144 krónur. Við þetta bættust 556.565 krónur í vexti og voru því greiddar samtals 7.101.884 krónur auk þóknunar til lögmanns áfrýjandans og útlagðs kostnaðar. Áfrýjandinn tók við þessari greiðslu með fyrirvara um kröfu um bætur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar og miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, svo og um viðmiðunarlaun til útreiknings bóta vegna varanlegrar örorku, auk kröfu „vegna aukins miska“ og um frekari málskostnað. Í framhaldi af þessu mun stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa gert áfrýjandanum boð um hækkun miskabóta á grundvelli síðari málsliðar 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, sem samþykkt var af hennar hálfu í bréfi 7. desember 2006, en þar sagði meðal annars: „Fallist er á boðna greiðslu vegna 3. mgr. 4. greinar, kröfu Söndru um hærri miska“. Þann sama dag greiddi stefndi áfrýjandanum bætur fyrir sem svaraði 15 miskastigum með 960.525 krónum, auk vaxta að fjárhæð 126.705 krónur, og fékk hún því af þessu tilefni samtals 1.087.230 krónur að viðbættri þóknun til lögmanns. Í tengslum við þessa greiðslu ítrekaði áfrýjandinn áðurnefnda fyrirvara um önnur atriði, auk þess að gera fyrirvara um rétt stefnda til að draga eingreiðsluverðmæti bóta úr almannatryggingum frá bótum fyrir varanlega örorku og um rétt áfrýjandans til dráttarvaxta.
Auk þess, sem að framan greinir, fékk áfrýjandinn Sandra dómkvadda menn 2. september 2005 til að meta sjúkrakostnað hennar og annað fjártjón af völdum slyssins, annars vegar frá slysdegi þar til hún lyki stúdentsprófi vorið 2007 og hins vegar frá þeim tíma þar til hún næði 74 ára aldri. Jafnframt óskaði áfrýjandinn eftir að metinn yrði „umönnunarkostnaður foreldra, þ.m.t. tekjutap og annað sem matsmenn koma auga á“ vegna fyrrnefnda tímabilsins. Matsgerð þessari var lokið 23. júní 2008. Í henni var sjúkrakostnaður og annað fjártjón áfrýjandans Söndru frá slysdegi og til vors 2007, sem nánar var sundurliðað, talið nema samtals 890.218 krónum. Sjúkrakostnaður hennar og annað fjártjón eftir þann tíma til 74 ára aldurs, sem sundurliðað var í kostnað vegna aksturs, sjúkraþjálfunar, læknisþjónustu og lyfja, var talið myndu nema alls 125.886 krónum á ári eða sem svaraði eingreiðslu að fjárhæð 2.495.523 krónur miðað við þann dag, sem heilsufar hennar var talið hafa orðið stöðugt. Loks var komist að þeirri niðurstöðu að umönnunarkostnaður foreldra áfrýjandans Söndru, áfrýjendanna Jóns Más og Kristínar, á tímabilinu frá slysdegi til 15. maí 2007 fælist annars vegar í missi tekna að fjárhæð 917.715 krónur og hins vegar vinnuframlagi að andvirði 1.577.000 krónur eða samtals 2.494.715 krónur. Um þessa matsgerð er þess að öðru leyti að geta að þar var sérstaklega tekið fram að hinir dómkvöddu menn hafi ekki talið sér fært að meta ýmsa liði, sem áfrýjandinn Sandra hafi talið að fella mætti undir fjártjón af slysinu og óskað eftir mati á, þar á meðal kostnað vegna erfiðari heimilisstarfa og af frekara námi eða starfsþjálfun, auk mismunar á kostnaði af framfærslu fatlaðra og ófatlaðra.
Eftir að mál þetta var höfðað 26. ágúst 2008 innti stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. af hendi greiðslu til áfrýjandans Söndru 21. október sama ár annars vegar á bótum að fjárhæð 890.218 krónur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns hennar frá slysdegi til 15. maí 2007 samkvæmt framangreindri niðurstöðu matsgerðarinnar frá 23. júní 2008 og hins vegar á 400.000 krónum í bætur vegna námstafa eða samtals 1.290.218 krónur.
II
Áfrýjandinn Sandra reisir aðalkröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að þar hafi ekki í öllum atriðum verið tekin rökstudd afstaða til helstu málsástæðna hennar. Í því sambandi bendir áfrýjandinn á að ekki hafi verið úr því leyst hvort ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og það hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 53/2009, hafi brotið gegn þeirri meginreglu laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi að vátryggingafélög verði sjálf að standa að eigin starfsemi og bera þá vátryggingaáhættu sem á þeim hvíli, en með vísan til þeirrar meginreglu hafi áfrýjandinn borið fyrir sig að hún þyrfti ekki að sæta því að fá stærstan hluta bóta fyrir varanlega örorku sína úr almannatryggingum. Ekki hafi heldur verið fjallað í hinum áfrýjaða dómi um þá málsástæðu áfrýjandans að sú skipan, sem leiddi af áðurgildandi reglu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga um frádrátt bóta úr almannatryggingum, hafi farið í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.
Þótt ekki hafi í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms verið fjallað berum orðum um þau atriði, sem að framan greinir, verður ekki litið svo á að slíkur misbrestur hafi orðið á því að taka afstöðu til einstakra af fjölmörgum málsástæðum, sem áfrýjandinn Sandra hefur teflt fram, að varðað geti ómerkingu dómsins. Aðalkrafa hennar verður því ekki tekin til greina.
III
Í héraðsdómsstefnu sundurliðaði áfrýjandinn Sandra fjárhæð dómkröfu sinnar þannig að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón ættu að nema 489.668 krónum, fyrir þjáningar alls 455.400 krónum, fyrir varanlegan miska 4.802.625 krónum auk 1.680.918 króna vegna 35% álags á þær bætur samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, og fyrir varanlega örorku 50.754.570 krónum, en þessu til viðbótar kæmu 4.000.000 krónur í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, 890.218 krónur í bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, 400.000 krónur í bætur vegna námstafa í eitt ár, 2.495.523 krónur í bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns frá vori 2007 til 74 ára aldurs hennar og 10.000.000 krónur í bætur vegna kostnaðar af erfiðari heimilisstörfum og frekara námi eða starfsþjálfun, svo og vegna meiri kostnaðar af framfærslu fatlaðra en ófatlaðra. Krafa áfrýjandans Söndru samkvæmt héraðsdómsstefnu var því um greiðslu á samtals 75.968.922 krónum, sem er sama fjárhæð og hún krefst aðallega úr hendi stefndu fyrir Hæstarétti að teknu tilliti til innborgana, en munurinn á þeirri kröfu og áðurgreindum varakröfum hennar hér fyrir dómi stafar af mismunandi árslaunum, sem beitt er til viðmiðunar við útreikning bóta fyrir varanlega örorku.
Svo sem áður er rakið í einstökum atriðum hefur stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greitt áfrýjandanum Söndru að fullu höfuðstól bóta, sem hún krefst samkvæmt framansögðu vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga, sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns fram til vors 2007 og námstafa í eitt ár. Þá hefur stefndi einnig greitt henni fyrrgreindar fjárhæðir í bætur fyrir varanlegan miska ásamt álagi á þær samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og fyrir varanlega örorku, en um fjárhæð þeirra liða er að öðru leyti ágreiningur. Að auki hefur stefndi greitt vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af þeim liðum í bótakröfu áfrýjandans Söndru, sem hann hefur gert skil á, þó að frátöldum áðurnefndum liðum, sem greiddir voru 21. október 2008. Á hinn bóginn hefur stefndi með öllu hafnað að greiða áfrýjandanum Söndru miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns til 74 ára aldurs hennar og bætur vegna erfiðari heimilisstarfa, frekara náms eða starfsþjálfunar og aukins kostnaðar af framfærslu fatlaðra. Einnig hefur stefndi hafnað kröfu áfrýjendanna Jóns Más og Kristínar um greiðslu á 2.494.715 krónum í bætur vegna kostnaðar af umönnun áfrýjandans Söndru, en fjárhæð þeirrar kröfu er studd við áðurnefnda matsgerð frá 23. júní 2008.
IV
Sem áður segir gerir áfrýjandinn Sandra kröfu um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 4.802.625 krónur, en stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. telur sig hafa að fullu staðið henni skil á bótum af þessu tilefni með því að greiða annars vegar 4.177.950 krónur 6. desember 2005 á grundvelli undirmatsgerðar og hins vegar 320.175 krónur 5. desember 2006 samkvæmt yfirmatsgerð. Ekki er ágreiningur um að varanlegur miski áfrýjandans nemi 75 stigum, svo sem komist var að niðurstöðu um í yfirmatsgerðinni, en á hinn bóginn deila hún og stefndi um hvort reikna eigi fjárhæð bótanna út með tilliti til verðlagsbreytinga samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga í einu lagi á því tímamarki, sem þetta endanlega mat á miskastigi lá fyrir, eða í tvennu lagi miðað við þann tíma, sem stefndi innti greiðslur sínar af hendi. Um þetta er þess að gæta að stefndi greiddi áfrýjandanum 6. desember 2005 bætur fyrir varanlegan miska eins og hann var metinn í undirmatsgerð, þar sem hann var talinn 70 stig. Að því marki var krafan efnd og bar stefnda því eingöngu að greiða bætur, sem svöruðu til hækkunar á miska áfrýjandans um 5 stig miðað við verðlag þegar yfirmatsgerð var lokið 3. nóvember 2006. Óumdeilt er að fjárhæðirnar, sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. innti af hendi, hafi verið rétt reiknaðar eftir þessum forsendum. Kröfulið áfrýjandans Söndru um frekari bætur fyrir varanlegan miska verður því að þessu leyti hafnað.
Ágreiningur stendur í annan stað um kröfu áfrýjandans Söndru um greiðslu á 1.680.918 krónum, en sú fjárhæð svarar til þess að bætur til hennar fyrir varanlegan miska verði hækkaðar um 35% með stoð í síðari málslið 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. viðurkenndi sem áður segir að áfrýjandinn ætti rétt á hærri bótum fyrir varanlegan miska á grundvelli þessa lagaákvæðis og stóð henni 7. desember 2006 skil á 960.525 krónum eða sem nam 15% hækkun bótanna. Í fyrrnefndu bréfi, sem lögmaður áfrýjandans ritaði stefnda síðastnefndan dag, var berum orðum tekið fram að fallist væri á boð stefnda um þessa greiðslu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna þessum lið í kröfu áfrýjandans Söndru.
Krafa áfrýjandans Söndru um miskabætur á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga er reist á því að stefndi Brynjar hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að aka yfir gatnamót Arnarnesvegar og Fífuhvammsvegar þótt rautt ljós hafi logað gegnt akstursstefnu hans og hafi hann að auki ekið á allt of miklum hraða. Samkvæmt framlögðum gögnum frá Vegagerðinni var umferðarljósum á gatnamótunum hagað þannig að grænt beygjuljós fyrir þá, sem óku eins og áfrýjandinn austur Arnarnesveg og hugðust beygja til norðurs inn á Fífuhvammsveg, kviknaði eftir að rautt ljós hafði logað í tvær sekúndur á móti umferð úr gagnstæðri átt á Arnarnesvegi og gult ljós þar á undan í þrjár sekúndur. Í frumskýrslu lögreglu um slysið, sem mál þetta varðar, kom fram að umferðarljósin hafi virkað eðlilega þegar hún kom á vettvang og hafa stefndu ekki vefengt það. Fyrir héraðsdómi bar vitni, sem var í bifreið skammt á eftir áfrýjandanum Söndru, að bifreiðin sem hún ók hafi numið staðar á gatnamótunum og ekki verið ekið aftur af stað í átt af Arnarnesvegi að Fífuhvammsvegi fyrr en græna beygjuljósið logaði fyrir þá akstursstefnu. Bifreiðin, sem stefndi Brynjar ók vestur Arnarnesveg, hafi síðan komið með miklum hraða yfir gatnamótin. Annað vitni, sem var í kyrrstæði bifreið á gatnamótunum, bar á sama veg um ökuhraða stefnda Brynjars. Þá er þess að gæta að aðalstefndu hafa allt frá öndverðu viðurkennt ótakmarkaða skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjandans Söndru, en óskipt sök gat ekki að réttu lagi verið fyrir hendi ef áfrýjandinn hefði ekið í veg fyrir stefnda Brynjar meðan grænt ljós logaði fyrir hans akstursstefnu, eins og hann hefur haldið fram. Undir rekstri málsins í héraði aflaði áfrýjandinn álitsgerðar Magnúsar Þórs Jónssonar, prófessors í vélaverkfræði, um líklegan ökuhraða stefnda Brynjars þegar áreksturinn varð. Samkvæmt niðurstöðum álitsgerðarinnar var áætlaður ökuhraði 82 km á klukkustund, en hugsanlegur lágmarkshraði 67 km og hámarkshraði 97 km. Að öllu þessu virtu verður að leggja til grundvallar að stefndi Brynjar hafi í umrætt sinn ekið gegn rauðu umferðarljósi og á óleyfilegum hraða, en með því sýndi hann af sér stórfellt gáleysi í skilningi a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa áfrýjandans Söndru um miskabætur eftir þessu lagaákvæði og eru þær hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur.
Svo sem áður var rakið var áfrýjandinn Sandra 18 ára gömul og í námi á öðru ári við Verslunarskóla Íslands þegar hún varð fyrir slysinu 13. febrúar 2004. Fram að þeim tíma hafði hún eftir gögnum málsins aðeins aflað sér óverulegra vinnutekna með störfum samhliða skólagöngu og í fríum. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður útreikningur bóta til áfrýjandans fyrir varanlega örorku að fara eftir fyrirmælum 8. gr. skaðabótalaga og taka mið af þeim lágmarkstekjum, sem kveðið er á um í 3. mgr. 7. gr. sömu laga, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. október 2006 í máli nr. 151/2006 og 19. desember 2006 í máli nr. 246/2006. Fjárhæð lágmarkstekna, sem greinir í síðastnefndu lagaákvæði, skal framreiknuð í hlutfalli við breytingar, sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku skaðabótalaga, sbr. 1. mgr. 15. gr. þeirra, og getur því ekki komið til álita að beita í því skyni framreikningi eftir launavísitölu, svo sem lagt er til grundvallar í þrautavarakröfu áfrýjandans Söndru, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 21. janúar 2010 í máli nr. 230/2009. Samkvæmt þessu öllu verður við úrlausn málsins að miða við að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi réttilega byggt á því að bætur til áfrýjandans fyrir 70% varanlega örorku eigi að stofni til að nema samtals 21.788.005 krónum.
Þegar áfrýjandinn Sandra varð fyrir slysinu gilti sú regla samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að greiðslur til tjónþola úr almannatryggingum skyldu koma til frádráttar kröfu hans um bætur vegna líkamstjóns. Með 1. gr. laga nr. 53/2009 var fyrirmælum um þetta breytt á þann veg að til frádráttar skaðabótum komi aðeins eingreiddar örorkubætur úr almannatryggingum, en eftir gildistöku þeirrar breytingar tekur regla 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga ekki lengur til lífeyrisgreiðslna úr almannatryggingum, sem gengið er út frá í málinu að áfrýjandinn Sandra muni njóta til frambúðar. Áfrýjandinn ber fyrir sig að breyting þessi á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi að hafa þau áhrif að eingreiðsluverðmæti væntanlegra greiðslna til hennar úr almannatryggingum, sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hefur miðað við að nemi samtals 14.416.539 krónum, komi ekki til skerðingar á bótum til hennar vegna varanlegrar örorku af slysinu. Þegar áfrýjandinn varð fyrir slysinu 13. febrúar 2004 stofnaðist skaðabótakrafa hennar á hendur stefndu. Í samræmi við almennar reglur verður að haga ákvörðun skaðabótanna eftir þágildandi lögum, enda er hvorki stoð í lögum nr. 53/2009 fyrir því að þau verði látin taka til uppgjörs skaðabótakröfu, sem orðið hefur til fyrir gildistöku þeirra, né verður slík niðurstaða leidd af öðrum réttarreglum. Af sömu ástæðum verður heldur ekki fallist á með áfrýjandanum að lagabreyting þessi geti haft þau áhrif að til frádráttar kröfu hennar um bætur fyrir varanlega örorku komi aðeins eingreiðsluverðmæti greiðslna úr almannatryggingum, sem hún hafði þegar fengið 1. maí 2009 við gildistöku laga nr. 53/2009. Þá verður ekki litið svo á að umræddur frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga 53/2009, hafi farið í bága við stjórnarskrá, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. september 2003 í máli 520/2002. Áfrýjandanum er haldlaust að bera því við að virða eigi þetta lagaákvæði að vettugi með tilliti til meginreglu að baki lögum nr. 60/1994 eða svokallaðra ökutækjatilskipana Evrópusambandsins. Af gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjandinn hafi hreyft athugasemdum við útreikning stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. á eingreiðsluverðmæti greiðslna til hennar úr almannatryggingum fyrr en í greinargerð fyrir Hæstarétti og eru slík mótmæli of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum. Samkvæmt þessu öllu verður ekki fallist á með áfrýjandanum að hjá því verði komist að draga fyrrnefndar 14.416.539 krónur frá bótum til hennar vegna varanlegrar örorku, en því til samræmis verður að líta svo á að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi nú þegar staðið henni full skil á þeim lið í kröfu hennar.
Áfrýjandinn Sandra krefst að auki skaðabóta, sem svara til sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns hennar eftir 15. maí 2007 til 74 ára aldurs hennar miðað við reiknað eingreiðsluverðmæti þessara liða á þeim degi, sem heilsufar hennar var orðið stöðugt. Fjárhæð þessa kröfuliðar, sem studd er við fyrrnefnda matsgerð frá 23. júní 2008, nemur 2.495.523 krónum og er með reikniskekkju sundurliðuð í ferðakostnað, 1.494.705 krónur, kostnað af sjúkraþjálfun, 426.288 krónur, útgjöld vegna þjónustu á göngudeild sjúkrahúss, 55.149 krónur, og 519.380 krónur í lyfjakostnað. Til grundvallar útreikningi á fyrstnefnda liðnum liggur greinargerð endurhæfingarlæknis frá 10. janúar 2008, þar sem fram kemur áfrýjandinn geti aðeins ekið bifreið við góðar aðstæður og sé ósennilegt að á því verði breyting, en vegna þessa er í matsgerðinni ráðgert að áfrýjandinn verði fyrir auknum kostnaði af notkun leigubifreiða í tilvikum, þar sem henni yrði sjálfri ófært að aka. Í greinargerð læknisins kemur einnig fram að miðað við þá áverka, sem áfrýjandinn hlaut í slysinu, verði að gera ráð fyrir að hún muni á tímabilum þurfa að leita til sjúkraþjálfara „t.d. í þrjá til fjóra mánuði á ári, tvisvar í viku.“ Þá verði að reikna með að áfrýjandinn þurfi til ævilengdar að vera undir eftirliti lækna vegna heilaskaða og koma af þeim sökum á göngudeild sjúkrahúss einu sinni til tvisvar á ári. Loks kemur fram að ætla verði að áfrýjandinn þurfi til frambúðar að taka ýmis lyf þótt ekki verði fullyrt afdráttarlaust um slíka lyfjanotkun. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá, sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni, greiða meðal annars skaðabætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón. Á það verður ekki fallist með aðalstefndu að þetta ákvæði taki eingöngu til útgjalda, sem þegar hafa fallið til, enda væri það andstætt þeirri meginreglu að tjónþoli eigi að fá tjón sitt að fullu bætt. Að því virtu verður að leggja til grundvallar að skaðabótaskylda aðalstefndu taki meðal annars til framtíðartjóns áfrýjandans Söndru að því marki, sem slíkt tjón verður sannað með viðhlítandi gögnum og reiknað til eingreiðsluverðmætis eins og aðrir liðir í skaðabótakröfu vegna líkamstjóns sem lúta að ókomnum tíma. Að því er varðar áðurnefndan kröfulið vegna ferðakostnaðar áfrýjandans er þess að gæta að í matsgerð var tekið fram að útilokað væri að segja til um í hvaða mæli áfrýjandinn gæti ekki ekið vegna fötlunar sinnar, en komist var að þeirri niðurstöðu að miða við eina ferð í viku með leigubifreið og að kostnaður af slíkri ferð færi eftir áætlun áfrýjandans og næmi þannig 1.450 krónum. Þess var og getið í matsgerðinni að ekki væri tekið tillit til þess að áfrýjandinn gæti fengið styrk frá Tryggingastofnun ríkisins til reksturs bifreiðar vegna fötlunar sinnar. Að virtum öllum þeim óvissuþáttum og fyrirvörum, sem niðurstaða matsgerðarinnar var háð að þessu leyti, er ófært að telja tjón áfrýjandans af þessu tilefni nægilega leitt í ljós til að taka mætti þennan kröfulið til greina. Krafa um bætur vegna kostnaðar af sjúkraþjálfun, þjónustu á göngudeild sjúkrahúss og lyfjum er hins vegar studd áliti læknis og í útreikningum í matsgerð er tekið tillit til stuðnings af félagslegum toga, sem áfrýjandinn gæti notið í þessum efnum. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt að þessu leyti og verður því krafa áfrýjandans Söndru í þessum lið tekin til greina með 1.000.817 krónum.
Loks krefst áfrýjandinn bóta úr hendi stefndu vegna erfiðari heimilisstarfa, frekara náms eða starfsþjálfunar og aukins kostnaðar af framfærslu fatlaðra. Í matsgerð frá 23. júní 2008 var ekki talið unnt að leggja mat á þessa liði og tjón hefur að þessu leyti ekki verið leitt í ljós með öðru móti. Þessum kröfulið áfrýjandans verður því hafnað.
Áfrýjandinn Sandra hefur beint að varastefnda sömu kröfu og hún hefur uppi gegn aðalstefndu og leitar dóms á hendur honum að því marki, sem krafan verður ekki tekin til greina gagnvart þeim. Er kröfugerðin reist á því að áfrýjandinn eigi rétt á að fá úr slysatryggingu ökumanns það sem vantar upp á fullar bætur úr hendi aðalstefndu. Samkvæmt 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 lækka bætur úr slysatryggingu ökumanns ef tjónþoli á rétt á skaðabótum vegna slyss eftir umferðarlögum eða öðrum skaðabótareglum. Svo sem áður greinir hafa aðalstefndu viðurkennt ótakmarkaða skaðabótaábyrgð og er dómur lagður á málið í samræmi við það. Skaðabætur, sem áfrýjandinn getur krafist úr hendi aðalstefndu, koma samkvæmt nefndu lagaákvæði að fullu til frádráttar bótum úr slysatryggingu ökumanns, sem ákveðnar eru eftir almennum reglum um skaðabætur. Af þessum sökum stendur ekkert eftir til greiðslu úr slysatryggingu ökumanns. Samkvæmt þessu er krafa áfrýjandans á hendur varastefnda með öllu haldlaus og verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur að þessu leyti.
Áfrýjendurnir Jón Már og Kristín gera kröfu um að fá bætt úr hendi aðalstefndu tekjutap, sem þau rekja til slyssins með því að þau hafi orðið af vinnu vegna þess að þau hafi þurft að veita áfrýjandanum Söndru sérstaka umönnun sökum fötlunar hennar allt þar til hún lauk stúdentsprófi vorið 2007. Fjárhæð kröfunnar er sem fyrr segir reist á matsgerð frá 23. júní 2008. Í málinu liggur fyrir að áfrýjandinn Sandra þurfti mikla aðhlynningu og aðstoð í kjölfar slyssins og er komið fram að þessi umönnun hvíldi fyrst og fremst á foreldrum hennar, áfrýjendunum Jóni Má og Kristínu. Jafnframt mun þó starfsfólk skóla, þar sem áfrýjandinn var í námi, eftir mætti hafa komið til móts við þarfir hennar. Sú meginregla gildir að sá einn, sem verður fyrir líkamstjóni, geti krafist bóta úr hendi þess sem ber bótaábyrgð. Þegar af þeirri ástæðu að áfrýjandinn Sandra hafði náð 18 ára aldri þegar slysið varð, en við það aldursmark lauk lögbundnum forsjárskyldum áfrýjendanna Jóns Más og Kristínar, er ekki unnt að gera hér undantekningu frá nefndri meginreglu. Samkvæmt þessu verða aðalstefndu sýknuð af kröfu áfrýjendanna Jóns Más og Kristínar.
Aðalstefndu hafa mótmælt kröfu áfrýjandans Söndru um vexti. Krafa um bætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og miskabætur samkvæmt 26. gr. sömu laga bera ekki vexti eftir 16. gr. laganna. Aðalstefndu verður á hinn bóginn gert að greiða áfrýjandanum vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga 38/2001 af þeim fjárhæðum, sem henni eru nú dæmdar vegna þessara liða í skaðabótakröfu hennar, svo og af bótum vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns að fjárhæð 1.290.218 krónur, sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. innti sem áður segir af hendi án vaxta 21. október 2008. Vextir af kröfu áfrýjandans um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga falla til frá slysdegi 13. febrúar 2004, en af öðrum liðum, sem hér um ræðir, frá því að heilsufar áfrýjandans var orðið stöðugt 13. febrúar 2005. Með bréfi áfrýjandans 15. nóvember 2005 var fyrst gerð krafa um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og reiknast dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af bótunum frá því að mánuður var liðinn frá þeim degi, sbr. 9. gr. laganna. Krafa um sjúkrakostnað áfrýjandans er reist á matsgerð 23. júní 2008, en ekki verður séð að hún hafi verið höfð uppi fyrr en í héraðsdómsstefnu. Af þeim hluta kröfunnar reiknast dráttarvextir frá málshöfðun 26. ágúst 2008, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, þar á meðal af þeirri fjárhæð, sem innt var af hendi með fyrrgreindri innborgun 21. október 2008.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest og jafnframt ákvæði hans um gjafsóknarkostnað að því er varðar þóknun lögmanns áfrýjandans Söndru fyrir flutning málsins í héraði, en um greiðslu útlagðs kostnaðar úr ríkissjóði í skjóli gjafsóknar verður ekki tekin ákvörðun í málinu, sem hún tekur til.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Brynjar Sigurðsson og Hrefna Björk Ólafsdóttir, greiði áfrýjanda, Söndru Jónsdóttur, 2.500.817 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.500.000 krónum frá 13. febrúar 2004 til 13. febrúar 2005 og af 3.791.035 krónum frá þeim degi þar til dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga greiðast af kröfunni, annars vegar af 1.500.000 krónum frá 15. desember 2005 til greiðsludags og hins vegar af 2.291.035 krónum frá 26. ágúst 2008 til 21. október sama ár, en af 1.000.817 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefndu, Sjóvá-Almennra trygginga hf., Brynjars og Hrefnu Bjarkar, af kröfu áfrýjenda, Jóns Más Halldórssonar og Kristínar Jónsdóttur, svo og um sýknu varastefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., af kröfu áfrýjandans Söndru.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Söndru fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar með þeirri fjárhæð sem greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní sl., var höfðað 26. ágúst 2008 af Söndru Jónsdóttur, Grundarsmára 10, Kópavogi, Jóni Má Halldórssyni, sama stað, og Kristínu Jónsdóttur, s.st., gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Brynjari Sigurðssyni, Kleppsvegi 56, og Hrefnu Björk Ólafsdóttur, Borgargerði 3, og til vara Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 4-6, öllum í Reykjavík.
Stefnandi Sandra krefst þess aðallega að stefndu, Sjóvá hf., Brynjar Sigurðsson og Hrefna Björk Ólafsdóttir, verði in soldium dæmd til að greiða henni 75.968.922 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 13. febrúar 2004, til 5. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innágreiðslum 5. desember 2005, 6.695.635 krónum, 5. desember 2006, 7.101.884 krónum, og 2. október 2008, 1.290.218 krónum.
Fyrsta varakrafa stefnanda Söndru er að stefndu, Sjóvá hf., Brynjar og Hrefna, verði in soldium dæmd til að greiða henni 57.612.352 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá 13. febrúar 2004 til 5. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innágreiðslum 5. desember 2005, 6.695.635 krónum, 5. desember 2006, 7.101.884 krónum, og 2. október 2008, 1.290.218 krónum.
Önnur varakrafa hennar er að sömu stefndu verði in soldium dæmd til að greiða henni 54.691.189 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá 13. febrúar 2004 til 5. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innágreiðslum 5. desember 2005, 6.695.635 krónum, 5. desember 2006, 7.101.884 krónum, og 2. október 2008, 1.290.218 krónum.
Þriðja varakrafa hennar er að sömu stefndu verði in soldium dæmd til að greiða henni 47.002.357 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá 13. febrúar 2004 til 5. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innágreiðslum 5. desember 2005, 6.695.635 krónum, 5. desember 2006, 7.101.884 krónum, og 2. október 2008, 1.290.218 krónum.
Verði ofangreindar kröfur á hendur stefndu ekki teknar til greina krefst stefnandi Sandra þess að varastefnda, Tryggingamiðstöðin hf., verði dæmd til að greiða henni slysatryggingabætur að fjárhæð 75.968.922 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 13. febrúar 2004, til 5. desember 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innágreiðslum 5. desember 2005, 6.695.635 krónum, 5. desember 2006, 7.101.884 krónum og 2. október 2008, 1.290.218 krónum. Í varaaðild eru gerðar allar sömu varakröfur og að framan greinir.
Í samlagsaðild krefjast stefnendur, Jón Már Halldórsson og Kristín Jónsdóttir, þess að stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Brynjar og Hrefna, verði in solidum dæmd til að greiða þeim 2.494.715 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 13. febrúar 2004 til 4. september 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnendur krefjast málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti og í aðalsök eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda Söndru var veitt gjafsókn 25. ágúst 2005. Krafist er málskostnaðar bæði í varaaðildarkröfu og samlagsaðildarkröfu.
Af hálfu stefndu, Sjóvár-Almennra trygginga hf., Brynjars Sigurðssonar og Hrefnu Bjarkar Ólafsdóttur, er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir til að greiða þeim málskostnað. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnenda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Af hálfu varastefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., er krafist sýknu af kröfum stefnanda Söndru og að henni verði gert að greiða varastefnda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara er krafist að dómkröfur stefnanda Söndru verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður. Í greinargerð varastefnda var þess krafist til vara að kröfum stefnanda Söndru á hendur varastefnda yrði vísað frá dómi en fallið var frá þeirri kröfu við munnlegan málflutning.
Með úrskurði dómsins 21. janúar 2009 var hafnað beiðni stefnanda Söndru um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tilefni af spurningum hennar varðandi tilgreindar tilskipanir Evrópusambandsins og áhrif er þær kynnu að hafa á tiltekin ágreiningsefni málsins. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 23. febrúar sl.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi Sandra slasaðist þegar árekstur varð 13. febrúar 2004 í Garðabæ milli bifreiðarinnar VK-794, er hún ók inn á gatnamót Arnarnesvegar og Fífuhvammsvegar, og bifreiðarinnar DB-950 sem ekið var um Arnarnesveg og inn á gatnamótin. Af stefnanda hálfu er því haldið fram að hún hafi byrjað að beygja til vinstri af Arnarnesvegi og inn á Fífuhvammsveg þegar grænt ljós á beygjuör hafði kviknað á umferðarljósi er gefið hafi til kynna að hún mætti beygja. Hún hafi talið öruggt að beygja þar sem rautt ljós hafi logað fyrir umferð úr gagnstæðri átt. Bifreiðinni DB-950 hafi verið ekið á mjög miklum hraða og hafi áreksturinn verið mjög harður. Af hálfu stefnanda Söndru er byggt á því að ástæðan fyrir árekstrinum hafi verið stórfellt gáleysi ökumanns bifreiðarinnar DB-950, stefnda Brynjars, er hann ók gegnt rauðu ljósi á allt of miklum hraða yfir gatnamótin.
Bifreiðin DB-950 var vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. en bifreiðin, er stefnandi Sandra ók, var vátryggð hjá varastefnda, Tyggingarmiðstöðinni hf.
Stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafði greitt stefnanda Söndru í bætur vegna slyssins 5. desember 2005 samkvæmt útreikningi 6.695.635 krónur. Einnig voru greiddar 8.149.214 krónur 6. 7. desember 2006, þar á meðal vegna 5% hærri miska, 15% aukins miska og 20% hærri örorku, sem þá hafði verið metin samkvæmt yfirmati frá 3. nóvember 2006, og 1.290.218 krónur 21. október 2008 vegna námstafa, sjúkrakostnaðar og annars útlagðs kostnaðar.
Ágreiningur í málinu snýst um það hvort stefnandi hafi fengið fullar bætur lögum samkvæmt úr höndum aðalstefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. Stefnendur Jón Már og Kristín eru foreldrar stefnanda Söndru, en þau krefjast umönnunarbóta og greiðslu fyrir tekjutap sem þau hafi orðið fyrir vegna slyssins. Einnig er ágreiningur um það hvort stefnandi Sandra eigi rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga.
Varakrafa stefnanda Söndru á hendur stefndu Tryggingamiðstöðinni hf. er byggð á því að verði tjónið ekki bætt úr ábyrgðartryggingunni eigi hún rétt á því að fá það bætt úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga.
Málsástæður og lagrök stefnenda
Af hálfu stefnanda Söndru er um málsatvik vísað til þess sem fram kemur í gögnum málsins. Í lögregluskýrslu 14. febrúar 2004 sé eftirfarandi haft eftir ökumanninum sem ók á eftir bifreiðinni sem stefnandi Sandra ók: „Guðfinnur gaf sig fram á vettvangi og sagðist hafa orðið vitni að árekstrinum. Hann sagðist hafa ekið á eftir VK-794 og því séð greinilega það sem gerst hafi. Hann sagði að grænt beygjuljós hafi logað gegn akstursstefnu VK-794 þegar áreksturinn varð.“ Í upplýsingaskýrslu daginn eftir slysið sé haft eftir Guðfinni að hann væri þess fullviss að grænt ljós hefði logað á báðum ljósum neðanverðu þegar bifreiðinni VK794 var ekið inn á gatnamótin. Hann hafi sagst vera þess fullviss að áður en bifreiðin VK-974 hafi verið komin að stöðvunarlínu hafi komið grænt ljós á bæði ljósin. Guðfinnur sagði að bæði VK-794 og hann hafi verið á eðlilegum hraða en hann gæti ekki sagt til um hve miklum enda hafi hann verið að fylgjast með umferðinni sem hefði annars verið frekar lítil. Einnig vísi stefnandi til skýrslu Elísu Arnardóttir, sem hafi verið vitni að árekstrinum, en hún hafi tekið fram að jeppabifreiðinni hafi verið ekið á „rosalega mikilli ferð“.
Í matsgerð Viðars Más Matthíassonar lagaprófessors og Torfa Magnússonar taugalæknis 29. október 2005 hafi stefnanda Söndru verið metinn 70 stiga miski vegna áverkanna og 50% varanleg örorka. Matsmenn hafi metið batahvörf eða stöðugleikapunkt 13. febrúar sama ár. Stefnandi hafi ekki sætt sig við niðurstöðu matsgerðarinnar og hafi hún beðið um yfirmat. Hún hafi aflað vottorða frá Smára Pálssyni taugasálfræðingi og Marínó P. Hafstein taugalækni vegna yfirmatsins. Dómkvaddir hafi verið sem yfirmatsmenn Sverrir Bergmann taugalæknir og lögfræðingarnir Sigurður Arnalds og Birgir Magnússon. Niðurstaða yfirmatsgerðar 3. nóvember 2006 hafi verið að stefnandi hefði hlotið 75 stiga miska vegna áverkanna, sem hún hlaut í slysinu, og 70% varanlega örorku. Í niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar segi m.a. um varanlega örorku:
“Eftir slysið hefur hún glímt við erfiðleika við skólanámið, hefur þurft mikla aðstoð bæði foreldra sinna og kennara í Verslunarskólanum. Hún er enn ákveðin í að ljúka stúdentsprófi og nú bendir flest til þess að það takist. Afleiðingar slyssins hafa þegar valdið töfum í námi um eitt ár. Í matsgerðinni hefur ítarlega verið fjallað um getu og árangur matsbeiðanda í skólanámi eftir slysið. Það er álit matsmanna að sú staðreynd að afleiðingar umferðarslyssins hafi haft verulega áhrif á hvort tveggja, getu og árangur í námi, muni vafalaust endurspegla þau áhrif sem afleiðingar slyssins koma til með að hafa á vinnugetu, færni og tekjuöflunarhæfi matsbeiðanda í framtíðinni. Hún er aðeins tvítug að aldri og á því langa framtíð fyrir sér á almennum vinnumarkaði. Almennt miða matsmenn við fulla atvinnuþátttöku til 70 ára aldurs. Geta matsbeiðanda til háskólanáms er verulega skert og ekki raunhæft að hún geti náð árangri í slíku námi. Vinnugeta hennar til starfa á almennum vinnumarkaði er einnig skert, bæði vegna andlegra og líkamlegra einkenna. Það virðist því ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að matsbeiðandi geti unnið við skrifstofuvinnu eða önnur slík líkamlega auðveld störf, þar sem minni hennar er skert og hún á í erfileikum með að vinna á tölvu. Hvort tveggja virðist vera forsenda fyrir raunhæfri getu og færni til að vinna öll almenn störf á vinnumarkaði svo ekki sé minnst á störf sem talin yrðu líkamlega erfiðari, slík störf getur matsbeiðandi ekki unnið vegna afleiðinga slyssins. Er þá næsta lítið eftir af störfum á almennum vinnumarkaði sem með sanngirni má gera ráð fyrir að hún taki sér fyrir hendur, m.a. til að sinna lögboðinni tjónstakmörkunarskyldu sinni. Nærri öruggt má telja að hún mun ljúka stúdentsprófi vorið 2007 og ætla matsmenn ekki að draga úr því að Verslunarskólinn hefur gert kröfur til hennar um árangur í námi eftir slysið. Það er hins vegar ljóst að sömu fyrirgreiðslu mun hún ekki njóta í háskólanámi eða við störf á almennum vinnumarkaði í framtíðinni og hún hefur notið þar auk þess sem það er ekki raunhæft að gera ráð fyrir eins mikilli aðstoð foreldra í framtíðinni og verið hefur. Það er álit yfirmatsmanna að varanleg örorka matsbeiðanda vegna afleiðinga slyssins sé mun meiri en fyrri matsgerð í málinu gerir ráð fyrir. Ekki verður annað séð en starfsval matsbeiðanda verði bundið við störf á vernduðum vinnustað í framtíðinni. Slysið hefur haft margvísleg og mjög alvarleg áhrif á framtíðarmöguleika hennar bæði í námi og vinnu. Að öllum gögnum virtum og m.v.t. viðtals og læknisskoðunar á matsfundi er varanleg örorka vegna afleiðinga slyssins metin hæfilega 70%.“
Í ljósi niðurstöðu yfirmatsmanna um stuðning, sem að þeirra mati sé stefnanda nauðsynlegur í framtíðinni, bæði varðandi heimilisstörf og vinnu, og þar til viðbótar vegna mikillar vinnu og kostnaðar, sem foreldrar hennar hefðu innt af hendi vegna slysaáverka stefnanda og fyrirsjáanlegs kostnaði í framtíðinni, þannig að stefnanda verði eins fært og mögulegt er að njóta sömu lífskjara og heilbrigðir einstaklingar, hafi stefnandi verið knúin til að biðja um mat á sjúkrakostnaði og öðru fjártjóni, fram að stöðugleikapunkti og til framtíðar. Stefnandi hafi lagt fram matsbeiðni í dóminum 4. júlí 2005 og dómkvaddir hafi verið Viðar Már Matthíasson lagaprófessor og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur. Þeir hafi skilað matsgerð 23. júní 2008. Svör við matsspurningum komi fram í matsgerðinni en í athugasemdum matsmanna í niðurlagi matsgerðarinnar segi að matsmenn hafi ekki tíundað fjárhæðir vegna námsskeiðskostnaðar við þýskunámskeið í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, bætur vegna seinkunar í námi (annað fjártjón), kostnað vegna erfiðari heimilisstarfa, kostnað við frekara nám í framtíðinni eða vegna starfsþjálfunar og aukakostnað vegna dýrari framfærslu fatlaðra einstaklinga en ófatlaðra.
Stefnandi hafi sent stefnda Sjóvá hf. kröfubréf 3. nóvember 2005 á grundvelli undirmatsins og hafi félagið samþykkt skaðabætur stefnanda 5. desember s.á., að fjárhæð 6.695.635 krónur, og hafi eftirstöðvar, 3.357.224 krónur, verið greiddar sem stefnandi hafi tekið við með fyrirvara. Í uppgjörinu komi fram að hið stefnda félag hafi dregið frá bótum vegna varanlegrar örorku 14.416.539 krónur, en félagið hafi reiknað bæturnar 15.562.861 krónur. Félagið hafi því einungis greitt 92,3% af bótum stefnanda vegna varanlegrar örorku. Á grundvelli yfirmatsins hafi stefnda Sjóvá hf. greitt stefnanda 8.149.214 krónur 4. desember 2006, þ.e. um það bil 1/3 af bótum fyrir varanlega örorku, sem stefnandi hafi tekið við með öllum fyrirvara. Af þessum gögnum megi sjá að ágreiningur málsaðila snúist aðallega um þær framtíðarbætur samkvæmt almannatryggingalögum sem stefnandi fái á grundvelli örorku sinnar og stefnda Sjóvá hf. dragi frá reiknuðum bótum vegna varanlegrar örorku. Einnig snúist ágreiningurinn um þau viðmiðunarlaun sem stefnda Sjóvá hf. reisi bætur félagsins á, bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, annað fjártjón og sjúkrakostnað.
Stefnandi Sandra hafi áskilið sér bætur frá Tryggingamiðstöðinni hf. á grundvelli 92. gr. umferðarlaga en bifreiðin er hún ók hafi verið í eigu föður hennar og tryggð hjá Tryggingamiðstöðinni hf. samkvæmt 93. gr. sömu laga. Hún hafi því sem ökumaður verið slysatryggð samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laganna.
Stefnandi Sandra styðji kröfu sína í aðalsök við bótakafla umferðarlaga, XIII. kafla, einkum 88., 90. og 91. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr., og reglugerð nr. 392/2003 um lögmæltar ökutækjatryggingar. Jafnframt byggi hún kröfu sína á ökutækjatilskipunum EBE nr. 1 til og með nr. 4, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið, sbr. og 3. gr. EES samningsins (samningsins um evrópska efnahagssvæðið). Einnig byggi stefnandi á meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þá vísi stefnandi sérstaklega til 1. mgr. 1. gr. I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. sáttmálans, og til eignarverndarákvæða stjórnarskrár. Einnig byggi stefnandi dómkröfur sínar á lögum nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, þeirri reglu laganna, sem snúi að leyfisskyldri starfsemi vátryggingafélaga og heimild þeirra til álagningar iðgjalda í samræmi við tjónareynslu. Stefnandi vísi til 1. ml. 3. mgr. 9. gr. laganna, þar sem tekið sé fram að vátryggingafélög verði alfarið að reka vátryggingastarfsemi, en það geri þau ekki þegar Tryggingastofnun ríkisins greiði mikinn meirihluta þess tjóns alvarlega slasaðra tjónþola sem vátryggingafélögin hafi tekið að sér að bæta samkvæmt tryggingasamningum. Tryggingastofnun ríkisins taki þannig að sér þá vátryggingastarfsemi, sem vátryggingafélögum sé ætlað að reka, en það brjóti í bága við 1. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 60/1994 og grunnreglu laganna. Hér komi það einmitt til að félögin hafi varið sig fyrir þessum bótagreiðslum með iðgjaldaálagningum og færslum í bótasjóð. Vátryggingafélög geti ekki „í svo miklum mæli“ lækkað þær bætur, sem félögin hafi skuldbundið sig til að greiða á grundvelli reglunnar um tjónstakmörkunarskyldu, þegar tjónþoli slasist jafn alvarlega og hér hafi orðið raunin. Framtíðarbætur úr almannatryggingakerfinu komi aldrei til með að bæta raunverulagt tjón. Stefnandi byggi á að 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum verði að víkja fyrir ofangreindum meginreglum. Stefnandi vísi til meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur og til niðurlags matsgerðarinnar frá 23. júní 2008 þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir þær bætur, sem metnar hafi verið vegna tjóns stefnanda, sé ekki um fullar bætur að ræða.
Samkvæmt sönnunarreglum skaðabótaréttar beri sá sem sóttur er til greiðslu bóta sönnunarbyrði um þær sérstöku ástæður er leysi hann undan greiðslu bóta. Eitt megin inntak meðalhófsreglunnar sé að verulega gild rök þurfi að liggja því til grundvallar að hægt sé að svipta stefnanda svo mikilsverðum réttindum til bótagreiðslu fyrir varanlega örorku sem hún krefjist í máli þessu. Fjárhæð bótakröfunnar rökstyðji stefnandi þannig:
1. Miskabætur: 6.403.500 x 75% 4.802.625 krónur
Hækkun á miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga 1.680.918 „
2. Bætur fyrir varanlega örorku:
4.023.000 x 18,023 x 70 % 50.754.570 „
3. Þjáningabætur:
Rúmliggjandi 174.600 „
Veik án þess að vera rúmliggjandi 280.800 „
4. Bætur fyrir tímabundna örorku 489.668 „
5. Bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga 4.000.000 „
6. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður, samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skbl.:
6.1. Kostnaður vegna lækninga og endurhæfingar 263.093 „
6.2. Kostnaður vegna seinkunar í námi 63.000 „
6.3. Kostnaður vegna flutninga 40.745 „
6.4. Aksturskostnaður 236.780 „
6.5. Kostnaður vegna sjálfsskiptrar bifreiðar 200.000 „
6.6. Fatatjón 86.600 „
7. Framtíðar sjúkrakostnaður, annað fjártjón 2.495.523 „
8. Kostnaður vegna námstafa um tvær annir 400.000 „
9. kostnaður vegna erfiðari heimilisstarfa, frekara náms
í framtíðinni, starfsþjálfunar og aukakostnaður vegna
dýrari framfærslu fatlaðra einstaklinga en ófatlaðra. 10.000.000 „
Samtals 75.968.922 krónur
1. Bætur fyrir miska væru grundvallaðar á yfirmatsgerð og 4. gr. skaðabótalaga, sbr. og 3. mgr. greinarinnar, síðari málslið. Stefnandi byggi á að hækka beri miska um 35% miðað við eðli áverkanna. Einnig sé byggt á að miða beri heildarfjárhæð miska við niðurstöðu yfirmatsins hvað tíma varði.
2. Bætur fyrir varanlega örorku væru grundvallaðar á yfirmatinu, þ.e. miði við 70% varanlega örorku og að upphaf örorku sé stöðugleikapunktur (batahvörf), þ.e. 13. febrúar 2005, og stuðulinn 18,023. Stefnandi byggi kröfu sína á yfirmatsgerðinni og ákvæðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um að árslaun skulu metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefnandi byggi á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, þar sem ekki sé við tekjureynslu að miða síðustu þrjú ár fyrir slysið. Auk þess eigi lágmarkslaun frekar við um tjónþola sem orðinn sé eldri og hafi ekki tekjureynslu eða takmarkaða, þrátt fyrir fullan þroska, aldur og tækifæri til vinnu. Stefnandi sé ung kona, sem alltaf hafi staðið sig vel í skóla og haft góðar einkunnir, þrátt fyrir að hún hafi unnið með námi sínu. Hún hafi stefnt á háskólanám og því ekki aflað sér tekna með samfelldri vinnu. Ekki sé heldur sanngjarnt í tilviki stefnanda að miða aðeins við lágmarkslaun. Ekkert í aðstæðum hennar bendi til að hún hefði einungis unnið fyrir lágmarkslaunum í framtíðinni, heldur sé líklegt og mætti ætla að stefnandi hefði lokið háskólanámi og haft tekjur í samræmi við það, hefði slysið ekki orðið.
Stefnandi miði ofangreint launaviðmið við þann mælikvarða, sem fram komi í kröfubréfi stefnanda til stefnda Sjóvár hf. 3. nóvember 2005, sem byggður sé á undirmatsgerð. Eftir því sem meiri munur verði á rauntekjum hér á landi og lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sé ríkari ástæða til að meta árslaun ungs tjónþola sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna, þar sem lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. geti engan veginn talist réttmætt í skilningi laganna, miðað við aðstæður í þessu máli. Stefnandi vísi til kjarasamninga háskólamanna á árunum 2001 til og með 2004. Í aðalkröfu sé byggt á meðallaunum háskólamenntaðra opinberra starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar árið 2005 og 2006, en samkvæmt 2. mgr. 7. gr. beri að horfa fram í tímann þegar slík viðmiðunarlaun séu metin. Heildarmeðallaun á mánuði séu 313.565 krónur árið 2005 og 362.009 krónur 2006. Tekið sé meðaltal af þessum fjárhæðum og verði árslaun 4.023.000 krónur.
Verði ekki fallist á ofangreint árslaunaviðmið til grundvallar varanlegri örorku stefnanda geri hún til vara neðangreindar kröfur en þær komi þannig til að aðalkrafa hafi verið lækkuð vegna lægri viðmiðunarlauna:
Varakrafa sé miðuð við meðallaun kvenna í fullu starfi í skrifstofustörfum hér á landi samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Mánaðarlaun hafi verið 214.000 krónur og árslaun því 2.568.000 krónur. Útreikningur sé þannig: 2.568.000 x 18,023 x 70% = 32.398.000 krónur. Varakrafan sé því að fjárhæð 75.968.922 50.754.570 + 32.398.000 eða 57.612.352 krónur. Krafan sé byggð á því að stefnanda hefði lokið námi frá Verslunarskóla Íslands og dómafordæmum.
Önnur varakrafa sé byggð á því að lágmarkslaunaviðmið verði hækkað samkvæmt launavísitölu frá 1. júlí 1993 til stöðugleikapunkts (batahvarfa) í febrúar 2005, þannig: 1.200.000 x 5588/2870 = 2.336.446. Reiknist bætur stefnanda fyrir varanlega örorku þá þannig: 2.336.500 x 18,023 x 70 = 29.476.836 (heildarbætur 54.691.189 krónur). Sá mismunur sem orðinn sé á lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og meðallágmarkslaunum í landinu (launum verkamanna, iðnaðarmanna, afgreiðslufólks og skrifstofufólks) skapi slíka mismunun, að varði við jafnræðisreglu stjórnarskrár með líkum hætti og talið hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 37/1999 eftir því hvort bótaákvörðun færi samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga eða 8. gr. s.l.
Þriðja varakrafa sé byggð á lágmarkslaunum þannig: 1.727.000 x 18,023 x 70% = 21.788.000 (Heildarbætur 47.002.357 krónur). Krafan sé byggð á því að frádráttur samkvæmt þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga komi ekki til skerðingar. Einnig sé byggt á því að frádráttur samkvæmt lagaákvæðinu geti aldrei náð lengra en til 27. apríl 2009, að fjárhæð 2.737.637 krónur. Eigi það við allar ofangreindar kröfur.
3. Þjáningabætur séu byggðar á 3. gr. skaðabótalaga og undirmati.
4. Bætur fyrir tímabundna örorku séu byggðar á 2. gr. skaðabótalaga og undirmati.
5. Bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga byggist á að ökumaður bifreiðarinnar DB-950, stefndi Brynjar, hafi sýnt af sér vítavert gáleysi, er hann ók stórri jeppabifreið yfir fjölfarin gatnamót á rauðu ljósi á miklum hraða beint á bifreið stefnanda. Stefnandi byggi þessa kröfu sína einnig á 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Stefnandi telji sannað með vitnisburði Guðfinns Guðmannssonar að bifreiðarstjóri DB-950 hafi sýnt af sér vítavert gáleysi (IV. kafli umfl.) og því beri henni bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Varðandi bótafjárhæð vísi stefnandi til alvarleika áverkanna, sem séu afleiðingar af vítaverðum akstri stefnda Brynjars.
6. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður í liðum 6.1. til og með 6.6. sé samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Krafan skiptist í sjúkrakostnað og annað fjártjón fram að stöðugleikapunkti 13. febrúar 2005 og síðan kostnað eftir þann tíma. Dómkrafan byggist á mati dómkvaddra matsmanna 23. júní 2008 og greinargerðum sem lagðar hafi verið fram í málinu.
7. Kröfu um bætur fyrir framtíðarsjúkrakostnað byggi stefnandi á niðurstöðu matsgerðar og 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Krafan sé einnig byggð á læknisvottorðum og vottorði sjúkraþjálfara. Telji dómari að þarna vanti að núvirðisreikna kröfuna beri að lækka hana um 1/3 eða í 1.663.692 krónur.
8. Kostnaður vegna námstafa og annað fjártjón sé vegna þess að stefnandi hafi tafist í námi vegna slysaáverkanna í eitt ár, þ.e. tvær vetrarannir. Krafan byggist á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, sbr. og þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga um bætur fyrir röskun á stöðu og högum (sjá dóm Hæstaréttar Íslands nr. 19/2002 og nr. 188/2004).
9. Stefnandi byggi síðasta kröfuliðinn á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, sbr. og þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga um bætur fyrir röskun á stöðu og högum. Þrátt fyrir að dómkvaddir matsmenn hafi ekki treyst sér til að meta þennan kostnað sé hér um að ræða tjón stefnanda vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu, sem felist í frekari kostnaði: i. vegna heimilisstarfa, en þar falli einnig til kostnaður vegna barneigna, ef þær verða stefnanda mögulegar, sem sé óvíst, sbr. læknisvottorð Guðrúnar Karlsdóttur 10. janúar 2008 og ii. vegna frekara náms í framtíðinni eða vegna starfsþjálfunar og iii. aukakostnaði vegna dýrari framfærslu fatlaðra einstaklinga en ófatlaðra.
Málsástæður stefnanda Söndru í varaaðild séu þær að stefnda Sjóvá hf. telji félagið þegar hafa greitt þær skaðabætur sem hún eigi rétt á. Eftir standi því að Tryggingamiðstöðin hf. eigi eftir að greiða stefnanda slysatryggingabætur í samræmi við efni 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga er hljóði svo: „Ef tjónþoli á rétt á skaðabótum vegna slyssins eftir lögum þessum eða öðrum skaðabótareglum lækka bætur úr þessari vátryggingu sem því nemur.“ Það séu bætur samkvæmt þeirri sérstöku slysatryggingu sem stefnandi hafi haft samkvæmt 92. gr. umferðarlaga við stefndu Tryggingamiðstöðina hf. er hún slasaðist. Eftir standi því að Tryggingamiðstöðin hf. hafi enn ekki greitt stefnanda fullar slysabætur samkvæmt 92. gr. umferðarlaga.
Stefnandi byggi á því að þegar hún slasaðist hafi hún notið réttarstöðu vátryggðs samkvæmt 3. mgr. 2. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954, sbr. og ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 392/2003, nú nr. 424/2008. Réttarstaða hennar sé önnur en þeirra sem eigi skaðabótakröfu 3ja manns á hendur ábyrgðartryggingarfélagi, en slíkir aðilar séu ekki vátryggðir í skilningi 3. mgr. 2. gr. vátryggingasamningalaga nr. 20/1954. Til viðbótar komi síðan ákvæði 3. gr. laganna um að ákvæði þeirra séu ófrávíkjanleg í ákveðnum tilvikum, sem sé í samræmi við efni 1. mgr. 3. gr. núgildandi vátryggingasamningalaga á þá leið að efni I. kafla laga nr. 30/2004 sé ófrávíkjanlegt, ef það leiði til lakari stöðu þess sem öðlist kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi.
Einnig komi skýrt fram í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að slysatryggingabætur samkvæmt 92. gr. umferðarlaga dragist frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns, sem sé í samræmi við það efni 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Af því leiði að fullar slysatryggingabæturnar hafi ekki verið greiddar. Þessu til staðfestingar sé vísað til þess sem fram komi í greinargerð með 4. gr. laga nr. 37/1999 á þessa leið:
„Ekki er lagt til að bætur skerðist vegna slysatrygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hefur sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds.“ Að því leiði einnig að slíkar bætur skerðist ekki af almannatryggingabótum samkvæmt „eðli máls“. Í ákvæði 4. mgr. 5. gr. sé undantekningarregla sem verði ekki skýrð rýmra en orð greinarinnar mæli beinlínis fyrir, sérstaklega þegar um vátryggingasamning sé að ræða.
Stefnandi byggi einnig á að með iðgjaldaálagningu félagsins hafi félagið skuldbundið sig til að greiða slysatryggingabæturnar og geti ekki á grundvelli undantekningarákvæðis í skaðabótalögum hlaupið frá þeirri skyldu.
Efni 92. gr. umferðarlaga á þá leið, að slysabætur stefnanda ákvarðist á grundvelli skaðabótalaga samkvæmt mati á afleiðingum tjóns, stangist á við ákvæði laga um slysabætur. Um það sé vísað til 1. tl. 1. mgr. 22. gr. laga um vátryggingarstarfsemi.
Hið stefnda félag geti ekki takmarkað ábyrgð sína með þeim hætti sem félagið geri samkvæmt ákvæðum vátryggingasamningalaga nr. 20/1954 og skilmálum félagsins. Í þessu sambandi byggi stefnandi einnig á 2. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 með síðari breytingum.
Stefnendur Jón Már og Kristín byggi kröfu sína að fjárhæð 2.494.715 krónur á forsendum og niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna 23. júní 2008 og 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, sbr. og þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga um bætur fyrir röskun á stöðu og högum, sem og dómafordæmum um umönnunarbætur. Sama gildi um þennan kröfulið og áður greini varðandi lækkun sem komi til af því að kröfuna þurfi að núvirðisreikna. Eigi það við lækki krafan um 1/3 eða í 1.663.144 krónur.
Stefnandi Sandra byggi á því að afgreiðsla stefnda Sjóvár hf. á bótakröfu hennar brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og jafnræðisreglu stjórnarskrár þar sem félagið hafi ekki greitt stefnanda nema 33,83% þeirra bótafjárhæðar fyrir varanlega örorku sem ákvörðuð hafi verið af félaginu. Þar með snúist mál þetta í raun ekki um hvort bætur almannatrygginga skuli koma til frádráttar bótum stefnanda frá félaginu, heldur um að almannatryggingakerfið greiði þessar bætur í stað tryggingafélags sem hafi þó þann starfsgrundvöll að greiða slíkar bætur. Hvort það geti staðist almennar reglur laga, að meiri hluti þess tjóns, sem mikið slasaðir einstaklingar í umferðarslysum verði fyrir hér á landi, skuli greitt af almenningi, en ekki þeim vátryggingafélögum, sem veitt hafi verið leyfi til innheimtu iðgjalda til greiðslu tjónanna, samfara ýmsum mikilvægum ívilnunum, í formi færslna í bótasjóði, sem gera eigi þessum félögum fært að greiða fullar bætur. Ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til einstaklingsbundinna hagsmuna, sem varðir séu af jafnræðis- og eignarverndarákvæðum stjórnarskrár, við setningu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið sé túlkað af stefnda Sjóvá hf. í þessu máli. Vátryggingafélögum, sem safnað hafi fé til greiðslu bótanna, bæði með lögbundinni álagningu iðgjalda og færslu í bótasjóði, sé ekki fært vegna einstaklingsbundinna réttinda að greiða aðeins lítinn hluta af heildartjóni stefnanda á þeim forsendum að stefnandi eigi rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna þeirra áverka sem hún fékk í slysinu. Gengið hafi verið lengra en nauðsyn bar til að tryggja hagsmuni vátryggingafélaga hér á landi á grundvelli hins óljósa hugtaks um „tjónstakmörkunarskyldu“ og ekki hafi verið sýnt fram á að iðgjaldaákvarðanir vátryggingafélaga séu í samræmi við þennan afdrátt og þær lágu bótagreiðslur sem félögin komist upp með að greiða til tjónþola í sporum stefnanda.
Stefnanda og tjónþolum í hennar stöðu sé einnig mismunað með því að þeir fái bætur sínar ekki í einu lagi frá viðkomandi vátryggingafélagi, eins og þeir tjónþolar, sem minna tjón hafi beðið og hafi því ekki eins mikla þörf fyrir bætur. Mismununin felist í því að tjónþolar í sporum stefnanda fái einungis lítinn hluta af heildarbótum sínum í eingreiðslu frá viðkomandi vátryggingafélagi, þegar minna slasaðir fái bætur sínar 100% staðgreiddar sem eingreiðslu. Þetta ósamræmi sé enn meira sláandi fyrir þá sök að grundvöllur þess sé að frá bótum tjónþola í sporum stefnanda séu dregnar áætlaðar óvissar framtíðarbætur af félagslegum toga, sem greiddar væru með hliðsjón af þjóðfélagslegri stöðu fatlaðra einstaklinga, sem standi höllum fæti í samfélaginu vegna fötlunarinnar og sé nánast mismunur á almennum framfærslukostnaði fatlaðra einstaklinga og ófatlaðra.
Með þessum frádrætti sé alls ekki hugað að almannahagsmunum, þar sem almenningi sé með þessu athæfi ætlað að greiða bæturnar, í stað þeirra vátryggingafélaga, sem til þess hafi innheimt iðgjöld og stofnað til vátryggingaskuldar sér í hag (fært í bótasjóð), með því hagræði fyrir tryggingafélögin sem því fylgi. Hið stefnda vátryggingafélag hafi ekki upplýst hver sé grundvöllur iðgjaldaálagningar og verði ekki framhjá því litið að félagið auðgist á frádráttarheimild 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og beri því að skila stefnanda frádrættinum á grundvelli skaðabótareglunnar um óréttmæta auðgun. Þessari málsástæðu til grundvallar vísi stefnandi og til 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi byggi á að umferðarlögin séu sérlög en skaðabótalögin almenn. Ökutækjatilskipanir EBE hafi verið lögleiddar hér á landi, eins og sjá megi af kafla umferðarlaga og reglugerð nr. 392/2003. Ökutækjatilskipanirnar séu hluti af EES samningnum, sem fullgiltur hafi verið fyrir Íslands hönd með lögum nr. 2/1993. Samkvæmt 3. gr. laganna skuli skýra lög og reglur landsréttar til samræmis við EES samninginn og þær reglur sem á honum byggja (bókun 35, við EES samninginn).
Viðmiðunarbótafjárhæðin, sem tilgreind sé í 4. mgr. 91. gr. og 4. mgr. 92. gr. umferðarlaga, geti ekki verið á því byggð að tjónþolar sem hljóti verulega fötlun í umferðarslysum séu knúnir til að sækja meirihluta bóta sinna til annars aðila en þess vátryggingafélags, sem skuldbundið hafi sig til greiðslu slysabótanna, en með því móti sé öllum mikið slösuðum tjónþolum umferðarslysa hér á landi ómögulegt að ná þessu bótahámarki umferðarlaga eða nálgast það með nokkrum hætti. Lagaákvæði þessi hafi þar af leiðandi, miðað við núverandi lagaframkvæmd, ekki nokkurn tilgang.
Stefnandi byggi einnig á að efni 91. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 95. gr., sé samræmt ökutækjatilskipunum EBE: 1. tilskipuninni nr. 72/166/EBE, 1. og 2. mgr. 3. gr. hennar, 2. tilskipuninni, nr. 84/5/EBE, 1. og 2. mgr. 1. gr. hennar og 3. tilskipuninni, nr. 90/232/EBE. Í þessum tilskipunum um ábyrgðartryggingu ökutækja séu reglur, sem skyldi aðildarríkin til að gera ráðstafanir til að tryggja að fyrir hendi sé vátrygging, sem taki til bótaskyldu, er stofnist vegna líkamstjóna af völdum vélknúinna ökutækja. Ráðstafanir eigi að gera til þess að vátryggingasamningur taki til „alls tjóns“ á mönnum. Í tilskipununum felist regla um skyldubundna ábyrgðartryggingu bifreiða gegn föstu iðgjaldi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem markmiðið sé að tjónþola, 3ja aðila, verði kleift að heimta bætur fyrir allt raunverulegt tjón sitt. Það brjóti því gegn þessum ákvæðum að stefnanda skuli vera gert að sækja mikinn meirihluta bóta sinna vegna tjónsins (66,17% af bótum fyrir varanlega örorku), sem hún varð fyrir í umferðarslysinu, til Tryggingastofnunar ríkisins á löngum tíma, þ.e. til 67 ára aldurs. Einnig vísi stefnandi til tilmæla 81/76/EBE um að flýta eigi tjónsuppgjöri í ábyrgðartryggingum ökutækja. Samkvæmt 3. gr. ökutækjatilskipunar nr. 4 (2000/26/EB frá 16. maí 2000), eigi tjónþolar rétt á að beina kröfum sínum beint að vátryggingafélagi sem sé einnig tekið fram í 10. lið aðfararorða tilskipunarinnar. Þó að þessi ákvæði eigi við tjónþola, sem búsettur sé í öðru aðildarríki en hann slasist í, sé um að ræða grundvallarreglu ökutæjatilskipananna, sem einnig eigi við um stefnanda. Henni sé hins vegar gert ómögulegt að beina kröfum fyrir heildartjón sitt vegna varanlegrar örorku til vátryggingafélagsins vegna bóta sem hún eigi nú rétt á frá Tryggingastofnun ríkisins. Það gefi einnig augaleið að erlendir tjónþolar af EBE svæðinu, sem slasist hér á landi eigi ekki rétt til bóta frá Tryggingastofnun ríkisins og fari örugglega eftir ýmsu varðandi bætur til þeirra frá almannatryggingum. Hér sé einnig um að ræða brot á jafnræðisreglu hvað þessar tvær fylkingar varði og vandséð að þess samræmis sé gætt sem ökutækjatilskipanirnar mæli fyrir um. Stefnandi vísi einnig eftir því sem við eigi til 1. gr. 5. ökutækjatilskipunarinnar (2005/14/EB frá 11. maí 2005), sem og 10. liðs aðfararorða hennar.
Höfuðmarkmið tilskipananna sé að stuðla að frjálsri för ökutækja og farþega og tryggja þeim sem verði fyrir tjóni af völdum ökutækja á evrópska efnahagssvæðinu sambærilega stöðu hvað varði bætur fyrir líkamstjón. Af því leiði að þegar allir þeir farþegar ökutækja (ökumenn meðtaldir) hér á landi, sem hljóti alvarlega fötlun af slysi af völdum ökutækis, séu, vegna reglna landsréttar um bætur, útilokaðir frá bótum frá vátryggingafélagi sem starfi á evrópska efnahagssvæðinu upp að þeim mörkum, sem tilgreind séu í tilskipununum (og umferðarlögum), geti slíkar reglur verið andstæðar þessum sömu tilskipunum og þeirri meðalhófsreglu sem gilda eigi við mat á lögmæti þeirra reglna samningsríkis, sem feli í sér frávik frá rétti þeirra tjónþola, sem slasist alvaralega af völdum vélknúins ökutækis.
Þá er af hálfu stefnanda vísað til 1. gr. laga nr. 53/2009, eins og fram kemur í bókun sem lögð var fram í þinghaldi 16. júní sl. Með því hafi verið gerð breyting á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og sé mælt fyrir um að ekki skuli draga frá bótum greiðslur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum heldur aðeins eingreiddar örorkubætur almannatrygginga. Samkvæmt þessu skuli ekki draga frá bótakröfu stefnanda greiðslur almannatrygginga eins og stefndu hafi gert. Í öllu falli verði framtíðarbætur almannatrygginga ekki dregnar frá bótum vegna varanlegrar örorku eftir 27. apríl 2009 er lagabreytingin tók gildi.
Stefnandi vísi til skaðabótalaga nr. 50/1993, 1.-8. gr., almennu skaðabótareglunnar, sakarreglunnar, bótakafla umferðarlaga nr. 50/1987, IV. og XIII. kafla, sbr. 4. gr., reglugerðar nr. 392/2003 um lögmæltar ökutækjatryggingar, nú nr. 424/2008, vátryggingasamningalaga nr. 20/1954, ákvæða laganna, sem eru óundanþæg, laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, 1. ml. 4. mgr. 9. gr., 5. gr., 21. gr. og 22. gr., sbr. 1. tilskipun 72/166/EBE um ábyrgðartryggingar ökutækja með breytingum samkvæmt tilskipunum 72/430/EBE, 84/5/EBE, 90/232/EBE og ákvörðun 91/323/EBE, laga um evrópska efnahagssvæðið, 3. gr., ökutækjatilskipana EB nr. 1-5, jafnræðisreglna stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, eignarverndarregla stjórnarskrár, 72. gr. stjórnarskrár, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, reglu skaðabótaréttar um auðgun, 7. tl. 31. gr. nr. 90/2003, 18. gr. laga nr. 100/2007, 12. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, 2. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, 2. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, laga um félagslega aðstoð nr. 118/1995, reglugerðar um öryrkjavinnu nr. 159/1995, laga nr. 21/1994, reglu um tjónstakmörkunarskyldu tjónþola, reglu um sönnunarbyrði tjónvalds um frádrátt frá kröfu tjónþola, 2. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 og grunnreglna samningalaga. Einnig vísar stefnandi til 1. gr. laga nr. 53/2009 frá 27. apríl 2009 kröfum sínum til grundvallar.
Málsástæður og lagarök stefndu Sjóvár-Almennra trygginga hf., Brynjars Sigurðssonar og Hrefnu Bjarkar Ólafsdóttur
Stefndu lýsa málsatvikum þannig að 13. febrúar 2004 hafi árekstur orðið á milli bifreiðarinnar DB-950, sem tryggð var lögboðnum vátryggingum hjá stefnda, og bifreiðarinnar VK-794 sem stefnandi Sandra ók. Hún hafi þá verið átján ára og hafi verið flutt á slysadeild en þar hafi komið í ljós að hún hafði fengið alvarlegan höfuðáverka.
Hinn 2. september 2005 hafi matsmennirnir Torfi Magnússon læknir og Viðar Már Matthíasson lögfræðingur verið dómkvaddir til að meta afleiðingar slyssins á heilsufar stefnanda. Í matsgerð þeirra 29. október s.á. komi fram að þeir telji að ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt ári eftir slysið og hafi stöðugleikatímapunktur því verið ákveðinn 13. febrúar 2005. Þeir hafi talið stefnanda eiga rétt á bótum vegna tímabundins atvinnutjóns vegna tímabilsins júní, júlí og ágúst 2004 þar sem hún hafi ætlað að sinna sumarvinnu en ekki getað það vegna slyssins. Stefnandi hefði samkvæmt niðurstöðu í matinu verið talin veik og rúmliggjandi í þrjá mánuði, en veik án rúmlegu í níu mánuði og ætti hún rétt á þjáningabótum í samræmi við það. Þá hafi verið talið að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins væri 70 stig, en varanleg örorka 50%.
Með bréfi 3. nóvember 2005 hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslu bóta vegna slyssins, samtals 53.950.384 krónur. Með bréfi 15. sama mánaðar hafi stefnandi krafið stefnda um 8.000.000 króna til viðbótar á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með vísan til þess að ökumaður bifreiðarinnar DB-950, meðstefndi Brynjar, hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er slysið varð. Fjárhæðin hafi í engu verið rökstudd eða útskýrð.
Stefndi hafi 5. desember s.á. sent lögmanni stefnanda tillögu að fullnaðar- og lokauppgjöri vegna tjóns stefnanda. Krafa um bætur vegna tímabundinnar örorku hefði þegar verið greidd og fallist hafi verið á kröfu um þjáningabætur í samræmi við fyrrgreinda matsgerð. Fallist hafi verið á greiðslu bóta vegna 70 stiga varanlegs miska, en ekki á kröfu um hækkun bóta vegna varanlegs miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Stefndi hafi talið að miða bæri launaviðmið vegna varanlegrar örorku við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, enda um ungan einstakling í námi að ræða og hafi bætur verið greiddar í samræmi við það. Frá bótum vegna varanlegrar örorku hafi verið dregnar eingreiðslureiknaðar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ekki hafi verið fallist á kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga þar sem talið var ósannað að stefndi Brynjar hefði valdið slysinu af stórfelldu gáleysi, auk þess sem ekki væri sýnt fram á að stefnandi hefði orðið fyrir meiri miska af þeim völdum en þegar hafði verið metinn. Stefnanda hafi verið greiddar samtals 3.357.224 krónur í samræmi við ofangreint.
Þar sem stefnandi hafi ekki viljað una niðurstöðu matsmanna um varanlegan miska og varanlega örorku vegna slyssins hafi hún óskað eftir yfirmati. Í yfirmatsgerð 3. nóvember 2006 sé komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins væru 75 stig og varanleg örorka 70%. Stefndi hafi sent stefnanda tillögu að fullnaðaruppgjöri vegna hinnar nýju matsgerðar. Þar hafi verið gert ráð fyrir því að stefnanda yrðu greiddar frekari bætur í samræmi við yfirmatsgerðina, þ.e. bætur vegna 5% miska og 20% varanlegrar örorku til viðbótar því sem áður hafði verið greitt. Stefnandi hafi tekið á móti þessum bótum, sem greiddar hafi verið 6. desember 2006, með nánar tilgreindum fyrirvara.
Stefndi hafi greitt stefnanda 7. desember s.á. 960.525 krónur vegna 15% aukins miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og jafnframt vexti, lögmannsþóknun og virðisaukaskatt vegna þessa þáttar málsins þannig að greiðslan hafi numið samtals 1.111.148 krónum. Samkomulag hafi verið milli aðila um að eftir stæðu fyrirvarar um orðinn og óorðinn sjúkrakostnað og annað fjártjón, árslaunaviðmið vegna varanlegrar örorku, heimild til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Með bréfi 7. desember s.á. hafi lögmaður stefnanda fallist á boðna greiðslu vegna aukins miska og tekið undir að eftir stæðu fyrrgreindir fyrirvarar, auk þess sem hann hafi gert fyrirvara við dráttarvexti og lögmannsþóknun.
Með bréfi 3. apríl 2006 hafi stefnandi óskað eftir dómkvaðningu matsmanna í því skyni að meta meðal annars sjúkrakostnað og annað fjártjón stefnanda. Í matsgerð 23. júní 2008 hafi niðurstaðan verið sú að bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns næmu alls 889.618 krónum og hafi þessi kostnaðar verið nánar greindur í sex liði. Þá hafi verið talið að sjúkrakostnaður til framtíðar næmi 2.495.523 krónum og að tekjutap eða vinnuframlag foreldra hennar næmu 2.494.715 krónum, en stefnendur hafi ekki krafið stefnda um greiðslu vegna þessara liða.
Stefndi hafi fallist á kröfu stefnanda 21. október 2008 um bætur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar, sbr. kröfulið 6, og jafnframt á kröfu um bætur vegna kostnaðar sem rakinn verði til námstafar, sbr. kröfulið 8. Stefnanda hafi í samræmi við það verið greiddar 1.290.218 krónur.
Af hálfu stefndu er vísað til þess að málatilbúnaður stefnenda sé ekki svo skýr og glöggur sem æskilegt væri, auk þess sem samhengi málsástæðna væri óljóst. Kunni þetta að varða frávísun málsins án kröfu, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Aðalkrafa stefnda um sýknu sé á því byggð að með þegar greiddum bótum sé tjón stefnanda að fullu bætt og eigi hún ekki lögvarinn rétt til frekari bóta. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir umfangi tjóns síns en hún hafi ekki sannað að hún hefði orðið fyrir frekara tjóni en bætt hafi verið, eins og nánar greini í umfjöllun um einstaka kröfuliði.
1. Bætur vegna varanlegs miska.
Stefndi hafi nú þegar greitt stefnanda bætur vegna 75 stiga varanlegs miska í samræmi við 4. gr. skaðabótalaga og yfirmatsgerð. Þá hafi stefndi greitt stefnanda bætur vegna 15% aukins miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga 7. desember 2006. Stefnandi hafi fallist á boðna greiðslu vegna aukins miska án nokkurs fyrirvara með bréfi, sem sent hafi verið samdægurs, en þar segi orðrétt: ,,Fallist er á boðna greiðslu vegna 3. mgr. 4. greinar, kröfu Söndru um hærri miska, eins og greinir í kröfubréfi.“ Eingöngu hafi verið tekið fram í bréfinu að eftir stæði fyrirvari um annað fjártjón og sjúkrakostnað, viðmiðunarlaun, heimild til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, miskabætur samkvæmt 26. gr. laganna og vegna dráttarvaxta og lögmannsþóknunar.
Stefndi telji að með þessu hafi stefnandi fallist á fullnaðargreiðslu vegna aukins miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga með bindandi hætti, sbr. meginreglu kröfuréttar um að uppgjör án fyrirvara séu bindandi fyrir samningsaðila. Stefnandi geti því ekki krafist bóta vegna hærri miska á grundvelli lagaákvæðisins, enda hafi komist á bindandi samkomulag um þennan kröfulið 7. desember 2006. Engar nýjar upplýsingar liggi fyrir sem geti leitt til þess að forsendur uppgjörsins séu brostnar eða að víkja beri frá uppgjörinu af öðrum sökum. Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda af þessum kröfulið þar sem bætur vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga hafi þegar verið greiddar í samræmi við kröfugerð stefnanda og bætur vegna aukins miska í samræmi við bindandi og fyrirvaralaust samkomulag málsaðila.
Verði ekki fallist á ofangreindar röksemdir sé byggt á því að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði séu til að hækka bætur til stefnanda vegna varanlegs miska um meira en 15% á grundvelli 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Fyrir liggi að stefnandi geti sinnt grunnþörfum sínum, en í dómaframkvæmd hafi heimild til hækkunar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. almennt eingöngu verið notuð þegar hefðbundnar bætur þyki ekki fela í sér fullar bætur og tjónþoli hafi orðið fyrir mjög alvarlegu fjölþættu líkamstjóni sem leiði til þess að hann sé ósjálfbjarga og öðrum háður um daglegar þarfir sínar, svo sem að borða og að halda sér hreinum. Ekki sé svo ástatt um stefnanda og hafi tjón hennar vegna miska þegar verið að fullu bætt með ofangreindum greiðslum.
Verði ekki fallist á kröfu stefnanda um sýknu vegna þessa kröfuliðar sé krafist verulegrar lækkunar bóta með vísan til sömu röksemda og að framan greini.
2. Bætur vegna varanlegrar örorku.
Ágreiningur málsaðila að því er varðar varanlega örorku snúist annars vegar um launaviðmið og hins vegar um heimild til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
2.1. Launaviðmið við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku.
Stefnandi byggi á því að meta skuli árslaun vegna ákvörðunar á bótum fyrir varanlega örorku á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en samkvæmt því ákvæði skulu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði en árslaun síðustu þriggja ára fyrir slys sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Hvort tveggja skilyrðanna þurfi að vera uppfyllt til að heimilt sé að beita framangreindu ákvæði, þ.e. hið fyrra að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og hið síðara að annar mælikvarði en meginregla 1. mgr. 7. gr. sé réttari á líklegar framtíðartekjur.
Stefnandi hafi ekki sannað að annar mælikvarði en meginregla skaðabótalaga í 1. mgr., sbr. 3. mgr. 7. gr. gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar. Miða beri við aðstæður hennar á slysdegi þegar metið er hvort heimilt sé að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Því sé mótmælt að stefnandi hafi á slysdegi verið komin það langt í námi að hún hafi verið búin að marka sér ákveðinn starfsvettvang eða að námslok hennar hafi verið fyrirséð. Hún hafi verið 18 ára og nemandi við Verslunarskóla Íslands, en hún hafi hafið þar skólagöngu haustið 2002 og því aðeins lokið um einu og hálfu skólaári af fjórum þegar slysið átti sér stað eða innan við helmingi námsins. Af fastmótaðri dómaframkvæmd Hæstaréttar verði ráðið að þegar tjónþoli sé við nám þegar slys beri að höndum, sé aðeins heimilt að beita undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ef námslok eru fyrirsjáanleg. Því fari fjarri að svo hafi verið háttað um stefnanda á slysdegi.
Stefndu mótmæli því að miða beri við meðallaun háskólamenntaðra starfsmanna en ekki standist að það sé ,,í samræmi við undirmatsgerð“, eins og haldið sé fram af hálfu stefnanda. Matsmönnum hafi eingöngu verið falið að meta prósentustig varanlegrar örorku og komi ekkert fram í undirmatsgerð um launaviðmið sem líta beri til við uppgjör bóta.
Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að annar mælikvarði en meginregla 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar. Samkvæmt þessu beri að miða við lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna við útreikning á bótum til stefnanda vegna varanlegrar örorku. Stefnanda hafi verið greiddar bætur á þessum grundvelli í samræmi við matsgerð 6. desember 2005 og yfirmatsgerð 6. desember 2006.
Varakröfu stefnanda um að lágmarkslaunaviðmið verði hækkað samkvæmt launavísitölu sé mótmælt, enda engin stoð fyrir því í skaðabótalögum og slík reikniaðferð í raun andstæð lögunum sem kveði sérstaklega á um hvernig haga skuli vísitöluhækkun, sbr. 15. gr. laganna. Í lagagreininni komi fram að vísitöluhækka beri lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. samkvæmt lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna (3282 stig) og fram að stöðugleikatímapunkti. Við útreikning stefnda á bótum til stefnanda hafi þessum fyrirmælum verið fylgt og hafi lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. verið vísitöluhækkuð miðað við lánskjaravísitölu í febrúar 2005 (4723 stig), þ.e. á stöðugleikatímapunkti, og hafi verið byggt á því að launaviðmið næmi 1.727.000 krónum (1.200.000 x 4723/3282).
Svokölluð ,,þrautavarakrafa“ stefnanda virtist vera í samræmi við útreikning stefnda sem hafi þegar greitt stefnanda bætur í samræmi við hana. Því sé óljóst af hvaða ástæðu þessi krafa hafi verið sett fram, en grundvöllur hennar sé óljós og hún ekki útskýrð með fullnægjandi hætti.
2.2. Frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi haldi því fram að afgreiðsla stefnda á bótakröfu hennar brjóti í bága við ákvæði 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði og eignavernd, auk þess sem afgreiðslan sé ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Málsástæður stefnanda séu ekki fyllilega skýrar og kunni það að koma niður á vörnum stefnda, en svo virtist sem stefnandi telji frádrátt stefnda vegna greiðslna úr almannatryggingum á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga vera í andstöðu við umrædd ákvæði stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún byggi á því að um mismunun og óréttmæta auðgun stefnda sé að ræða.
Við greiðslu á bótum til stefnanda vegna varanlegrar örorku 5. desember 2005 hafi stefndi dregið framreiknaðar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá fjárhæðinni í samræmi við úreikning tryggingastærðfræðings. Þetta sé í fullu samræmi við 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðinu hafi verið breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999, en þar segi meðal annars að frá skaðabótakröfu skuli draga greiðslur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 37/1999 komi fram að margföldunarstuðull 5. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðinu var breytt með lögunum, sé þess eðlis að hann meti heildartekjutap tjónþola vegna varanlegrar örorku. Vegna þessa beri að draga frá hinni reiknuðu bótakröfu greiðslur af félagslegum toga frá þriðja manni vegna örorkunnar, þ.á m. greiðslur frá almannatryggingum, enda myndu bætur til tjónþola að öðrum kosti vera hærri en raunverulegt fjártjón hans. Ákvæðið sé því byggt á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að eingöngu skuli bæta tjón, sem tjónþoli hafi í raun orðið fyrir, og að ekki skuli bæta sama tjón tvívegis.
Ákvæði þetta hafi verið skýrt svo að bætur frá almannatryggingum, sem stefnandi eigi rétt til og komi til frádráttar bótagreiðslum, skuli reiknast til eingreiðsluverðmætis á viðmiðunartímapunkti. Stefndi hafi reiknað þær greiðslur sem komi til frádráttar með þessum hætti, sbr. útreikning tryggingastærðfræðings. Tölulegum útreikningi frádráttarins hafi ekki verið mótmælt og verði því að miða við að stefnandi geri ekki athugasemdir við hann.
Stefndi mótmæli því að afgreiðsla hans á bótakröfu stefnanda sé í ósamræmi við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrárinnar. Frádrættinum hafi verið hagað í samræmi við 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga en því hafi verið slegið föstu af Hæstarétti að reglan sé í samræmi við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði 72. gr. hennar um eignarvernd, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 520/2002 frá 18. september 2003, enda hafi lögin verið sett með stjórnskipulega réttum hætti með það í huga að fjárhagslegur skaði tjónþola verði fullbættur og samkvæmt þeim sé farið eins með alla tjónþola, sem eins hátti til um. Í ljósi þessa stoði ekki að halda því fram að afgreiðslan hafi verið í ósamræmi við stjórnarskrána.
Málsástæðu stefnanda um að afgreiðslan feli í sér mismunun á milli stefnanda og þeirra sem bíði minna tjón þar sem stefnandi fái bætur sínar ekki greiddar í einu lagi frá vátryggingarfélagi sé mótmælt á sama grundvelli. Því hafi þegar verið slegið föstu af Hæstarétti að frádráttarreglur 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga séu í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrár og auk þess sé ekki um að ræða mismunun í skilningi stjórnskipunarréttar þegar eins sé ástatt um þann sem hlut eigi að máli, eins og í þessu tilviki. Þá sé afgreiðsla stefnda í samræmi við meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, en ekki sé ljóst af stefnu hvernig afgreiðslan hafi brotið gegn umræddri reglu.
Stefnandi byggi jafnframt á því að afgreiðsla stefnda feli í sér óréttmæta auðgun og beri því að ,,skila stefnanda frádrættinum“. Stefndi fái á engan hátt séð hvernig um óréttmæta auðgun hans geti verið að ræða, enda sé rökstuðningur stefnanda fyrir því verulega óljós og takmarkaður. Hvað sem því líði hafi stefndi hagað afgreiðslu sinni á bótakröfu stefnanda í samræmi við skaðabótalög og stjórnarskrá og því ekki aðhafst neitt óréttmætt né auðgast á kostnað stefnanda.
Stefnandi byggi kröfu sína á því að skýra beri 91. gr. umferðarlaga til samræmis við tilskipanir EB um ábyrgðartryggingu vegna notkunar á vélknúnum ökutækjum, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnhagssvæðið. Því sé haldið fram að það brjóti gegn ákvæðum umræddra tilskipana að stefnandi þurfi að sækja ,,mikinn meirihluta“ þess tjóns sem hún varð fyrir til Tryggingastofnunar ríkisins fram til 67 ára aldurs. Ekki verði ráðið með skýrum hætti hvort stefnandi telji 91. gr. umferðarlaga eða 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga vera í andstöðu við umræddar tilskipanir EB eða hvort aðeins sé byggt á því að skýra beri ákvæðin til samræmis við tilskipanirnar. Hvað sem því líði telji stefndi ljóst að hvorki 91. gr. umferðarlaga né 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga séu í ósamræmi við umræddar tilskipanir, enda hafi ákvæði umferðarlagaanna meðal annars verið sett í því skyni að innleiða viðkomandi tilskipanir, en þær hafi ekki að geyma nokkur ákvæði sem varði frádrátt frá bótum vegna almannatrygginga. Eins og stefnandi segi réttilega sé tilskipununum ætlað að tryggja að fyrir hendi sé ábyrgðartrygging vegna líkamstjóns af völdum vélknúinna ökutæka og sé slíkt tryggt með XIII. kafla umferðarlaga, sbr. sérstaklega 91. gr. laganna. Með 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé ætlunin að tryggja að ekki sé meira en raunverulegt tjón bætt, en tilskipanirnar hafi að sjálfsögðu ekki að geyma ákvæði sem geri kröfu um annað.
Loks virtist stefnandi byggja á því að vátryggingafélög geti ekki lækkað bætur, sem félögin hafi skuldbundið sig til að greiða, ,,í svo miklum mæli“ þegar tjónþoli slasist jafn alvarlega og hér eigi við þar sem það sé ekki í samræmi við 3. mgr. 9. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, enda brjóti það í bága við 1. mgr. 5. gr. laganna taki Tryggingastofnun ríkisins að sér þá vátryggingastarfsemi sem vátryggingafélögum sé ætlað að reka. Ekki sé ljóst hvernig tilvitnuð ákvæði laga nr. 60/1994 tengdust þessari málsástæðu eða máli þessu yfirhöfuð, en stefndi stundi vátryggingastarfsemi í samræmi við starfsleyfi og fari að öllu leyti eftir lögunum.
3. Þjáningabætur og bætur vegna tímabundins atvinnutjóns.
Af hálfu stefndu er vísað til þess að stefnanda hafi verið greiddar bætur vegna þjáninga og tímabundins atvinnutjóns og sé tjón stefnanda að þessu leyti að fullu bætt.
4. Miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi krefjist 4.000.000 króna í miskabætur á þeim grundvelli að stefndi Brynjar, sem var ökumaður bifreiðarinnar DB-950, hafi sýnt af sér vítavert gáleysi er hann ók á bifreið stefnanda, sbr. 26. gr. skaðabótalaga.
Til að heimilt sé að gera ökumanni að greiða þeim sem orðið hafi fyrir líkamstjóni miskabætur verði að sýna fram á að hann hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi valdið líkamstjóni, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Skilyrði bótaábyrgðar samkvæmt ákvæðinu séu ströng og dugi einfalt gáleysi ekki, sbr. einnig athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 37/1999, en sönnunarbyrðin fyrir því að ökumaður umræddrar bifreiðar hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi hvíli á stefnanda. Til þess að gáleysi teljist stórfellt þurfi það að vera á mjög háu stigi og í dómaframkvæmd hafi verið miðað við að um sé að ræða óvenjuleg eða sérstök mistök við akstur, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 171/2007.
Til stuðnings kröfu sinni vísi stefnandi eingöngu til vitnisburðar Guðfinns Guðmannssonar sem hafi ekið á eftir bifreið stefnanda þegar slysið átti sér stað. Stefndi mótmæli því að framburðurinn feli í sér sönnun þess að stefndi Brynjar hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi. Í upplýsingaskýrslu lögreglu frá 14. febrúar 2004 sé framburðurinn rakinn og komi þar ekki annað fram um aksturslag ökumannsins en að bifreiðinni hafi að mati Guðfinns ekki verið ekið óeðlilega hratt inn á gatnamótin. Guðfinnur hafi jafnframt gefið skýrslu hjá rannsóknardeild lögreglu 18. febrúar 2004, en þar komi ekkert fram sem styðji þá staðhæfingu stefnanda að stefndi Brynjar hafi sýnt af sér vítavert gáleysi og reyndar ekkert fjallað um aksturslag bifreiðarinnar. Framburður annarra vitna og önnur fyrirliggjandi gögn séu ekki þess eðlis að þau renni stoðum undir stórkostlegt gáleysi ökumannsins, enda séu þau fjarri því að vera afdráttarlaus. Framburður vitna um hraða bifreiðarinnar DB-950 sé t.d. misvísandi.
Þó að stefndi Brynjar kunni að hafa sýnt af sér gáleysi við akstur bifreiðarinnar þurfi vangá að vera á mjög háu stigi til að hún verði talin stórkostlegt gáleysi en slíku sé ekki til að dreifa hér. Ekki liggi fyrir að aksturslag ökumannsins hafi verið mjög vítavert í skilningi umferðarlaga, en svo þurfi að vera til að um stórkostlegt gáleysi í skilningi 26. gr. skaðabótalaga sé að ræða. Tíðni umferðaróhappa á þessum gatnamótum hafi verið veruleg, en beygjuljós, sem var í notkun þegar áreksturinn varð, hafi nú verið tekið niður þar sem það hafi verið talið skapa slysahættu. Umferðaraðstæðum hafi verið áfátt þegar slysið átti sér stað og verði áreksturinn ekki eingöngu rakinn til aksturslags stefnda Brynjars.
Þar sem ósannað sé að skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt beri að sýkna stefnda af þessum kröfulið. Verði skilyrði til greiðslu miskabóta talin uppfyllt beri að lækka kröfufjárhæðina verulega. Samkvæmt athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að lögum nr. 37/1999 skuli meta fjárhæð bóta eftir því hvað sanngjarnt þyki í hverju tilfelli, meðal annars skuli hafa í huga umfang tjónsins, sök tjónvaldsins og fjárhagslega getu hans, en stefndi Brynjar hafi litlar sem engar tekjur.
5. Annað fjártjón, sjúkrakostnaður og kostnaður vegna námstafar.
Krafa stefnanda um bætur vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar sé byggð á matsgerð 23. júní 2008, en krafa um kostnað vegna námstafar á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Stefndi hafi fallist á að greiða stefnanda að fullu bætur vegna þessara þátta, eins og þeir eru settir fram í liðum 6 og 8 í stefnu og hafi greiðsla farið fram 21. október 2008. Beri því að sýkna stefnda af þessum kröfuliðum.
6. Framtíðarsjúkrakostnaður.
Krafa stefnanda um bætur vegna sjúkrakostnaðar í framtíðinni sé byggð á matsgerðinni frá 23. júní 2008. Samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar verði tjónþoli að hafa þegar greitt sjúkrakostnað til þess að hann eigi rétt á endurgreiðslu hans úr hendi hins bótaskylda. Krafan eigi því ekki stoð í 1. gr. skaðabótalaga eða öðrum réttarheimildum, enda sé hún of óákveðin og áætlanir um sjúkrakostnað í framtíðinni ekki í samræmi við þá meginreglu að tjónþoli fái eingöngu bætt það tjón sem hann hafi sannanlega orðið fyrir.
Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á framtíðarsjúkrakostnað með matsgerðinni, enda verði ráðið af orðalagi hennar að um grófar áætlanir sé að ræða og að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra opinberu greiðslna sem stefnandi eigi rétt til og sem ættu með réttu að koma til frádráttar hugsanlegum bótum. Matsmenn árétti í matsgerð að þeir meti kröfuliði án þess að taka afstöðu til þess hvort krafa samkvæmt þeim sér réttmæt. Verði fallist á kröfu um sjúkrakostnað í framtíðinni á grundvelli jafn óljósra forsendna og miðað sé við í matsgerðinni sé veruleg hætta á að farið verði á svig við þá meginreglu skaðabótaréttar að tjónþolar eigi ekki að fá meira en raunverulegt tjón sitt bætt. Jafnframt yrði þá farið á svig við meginreglu skaðabótaréttar um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt, en það beri tjónþolum til dæmis að gera með því að sækja allar þær greiðslur og alla þjónustu sem þeim standi til boða frá opinberum aðilum og öðrum.
Í matsgerðinni segi að ,,útilokað“ sé að segja fyrir um hve oft stefnandi þurfi á leigubílum að halda en miðað sé við eina ferð á viku og að hver ferð nemi nánar tiltekinni fjárhæð. Þarna sé um áætlun að ræða sem ekki sé byggð á haldbærum gögnum. Fjárhæðin, sem miðað sé við, taki ekki tillit til frádráttar vegna styrkja sem stefnandi geti fengið til reksturs bifreiðar vegna fötlunar sinnar, sbr. reglugerð nr. 752/2002. Hvað varði kostnað vegna sjúkraþjálfunar sé byggt á áætlun læknis og á því hverju stefnandi ,,geti þurft á að halda“. Forsendur útreikningins í matsgerðinni séu of óljósar til að unnt sé að byggja á honum. Jafnframt hafi láðst að taka tillit til þeirra greiðslna sem stefnandi hafi notið frá Tryggingarstofnun ríkisins vegna kostnaðar af sjúkraþjálfun. Um kostnað vegna annarrar læknis og sérfræðiaðstoðar segi í matsgerð að ,,óljóst“ sé á hve mikilli þjónustu stefnandi muni þurfa á að halda og sé um grófa áætlun að ræða sem ekki dugi til sönnunar á tjóni stefnanda. Þá sé fjórði liðurinn, lyfjakostnaður, jafnframt byggður á þeirri forsendu að stefnandi muni neyta þeirra lyfja sem hún noti nú til fullnaðs 74 ára aldurs en ekki sé unnt að byggja bótakröfu á svo óljósri forsendu, enda komi fram í greinargerð læknisins Guðrúnar Karlsdóttur að ekki sé hægt að fullyrða um lyfjanotkun í framtíðinni.
Sýkna beri stefndu af kröfu um greiðslu bóta á grundvelli þessa kröfuliðar, enda hafi meint tjón stefnanda ekki verið sannað með fyrirliggjandi matsgerð eða öðrum gögnum.
Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu beri að lækka fjárhæðina verulega, enda hafi ekki verið tekið tillit til greiðslna sem stefnandi eigi rétt á frá hinu opinbera sem henni beri að nýta sér í samræmi við tjónstakmörkunarskyldu sína. Þá sé einnig byggt á því að fjárhæðir samkvæmt þessum lið séu of háar og óraunhæfar.
7. Kostnaður vegna erfiðari heimilisstarfa, frekara náms í framtíðinni eða vegna starfsþjálfunar og aukakostnaður vegna dýrari framfærslu fatlaðra einstaklinga en ófatlaðra.
Stefndu krefjist sýknu af þessari kröfu stefnanda þar sem krafan njóti ekki lagastoðar, auk þess sem ætlað tjón stefnanda sé með öllu ósannað. Matsmenn hafi ekki treyst sér til að meta umræddan kostnað, eins og fram komi í matsgeðinni.
Stefnandi byggi kröfulið þennan á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og virðist átt við að um ,,annað fjártjón“ í skilningi ákvæðisins sé að ræða. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til skaðabótalaga sé tekið fram, að með orðunum „annað fjártjón“ sé átt við útgjöld, sem falli á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik hafi borið að höndum en erfitt sé að færa sönnur á. Þeir liðir sem stefnandi krefjist bóta vegna séu ekki þess eðlis að þeir falli til ,,strax eða fljótlega eftir tjónsatvik“ og sé reyndar óljóst hvort kostnaður vegna þeirra muni almennt falla til. Þessir kröfuliði eigi sér ekki lagastoð og óheimilt að dæma bætur vegna þeirra á grundvelli skaðabótalaga en bætur sem tjónþoli geti átt kröfu til vegna líkamstjóns séu þar tæmandi taldar. Þá hafi láðst að taka tillit til greiðslna sem stefnandi eigi rétt á frá hinu opinbera. Stefnandi geti ekki krafist bóta frá stefnda vegna kostnaðar sem hún eigi rétt á frá öðrum.
Stefnanda beri að sýna fram á tjón sitt að þessu leyti, enda sé það ekki markmið skaðabótalaga að bætur séu greiddar vegna tjóns sem sé óvíst eða sem óvíst er hvort falli til í framtíðinni. Í samræmi við það hafi kröfum sem þessari, þ.e. þar sem fjártjón hafi verið áætlað og gögn ekki legið því til grundvallar, almennt verið hafnað af dómstólum.
Kröfu vegna fyrsta liðarins, sem varðar kostnað vegna erfiðari heimilisstarfa, sé ekki unnt að fallast á þar sem engin gögn liggi honum til stuðnings en óljóst sé með öllu við hvers konar kostnað er átt. Matsmenn hafi ekki talið unnt að áætla aukakostnað vegna þessa liðar enda væru ekki til staðar gögn sem sýndu fram á hve mikla aðstoð stefnandi þyrfti. Stefnandi eigi rétt á að fá kostnað samkvæmt þessum lið greiddan frá því sveitarfélagi þar sem hún hafi búsetu, sbr. lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 595/1997 um heimilisuppbót, og jafnframt eftir atvikum viðbótargreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Því sé ekki um raunverulegt tjón samkvæmt þessum lið að ræða.
Hvað varðar kröfu vegna kostnaðar í tengslum við frekara nám í framtíðinni eða starfsþjálfun hafi stefnandi ekki gert nokkra grein fyrir því við hvers konar nám eða starfsþjálfun sé átt. Þegar af þeirri ástæðu sé um svo óákveðna og óljósa kröfu að ræða að ekki geti komið til greina að fallast á hana, enda hafi matsmenn talið útilokað að setja fram hugmynd vegna kostnaðar sem þessa. Þá sé jafnframt óhugsandi að dómstólar geti áætlað bætur vegna kostnaðar, sem með öllu sé óvíst hvort falli til í framtíðinni, en stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem leiði líkum að því að hún muni stunda frekara nám eða leita sérstakrar starfsþjálfunar í framtíðinni.
Að því er varðar kröfu vegna dýrari framfærslu fatlaðs einstaklings en ófatlaðs eigi fatlaðir einstaklingar rétt á margs konar stuðningi frá hinu opinbera. Því sé mótmælt að framfærsla þeirra sé dýrari en annarra en fyrir slíku beri stefnandi sönnunarbyrði. Í matsgerðinni segi að matsmenn telji að kostnaður við framfærslu, með þeim takmörkunum sem fötlunin setji og stuðningi hins opinbera við fatlaða, eigi ekki að vera meiri en kostnaður við framfærslu ófatlaðra. Þar sem stefnandi njóti ýmiss konar stuðnings frá hinu opinbera vegna framfærslu sinnar sé ekki um að ræða eiginlegt tjón sem hún eigi kröfu á að fá bætt. Fengi hún þar að auki bætur til að geta notið sömu lífsgæða og ófatlaðir einstaklingar væri verið að bæta sama hlutinn tvisvar, sbr. röksemdir matsmanna fyrir því að áætla ekki aukakostnað vegna þessa liðar. Þegar af þessari ástæðu verði að hafna kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið.
Verði ekki á það fallist beri að lækka fjárhæðina verulega, enda hafi ekki verið tekið tillit til greiðslna sem stefnandi eigi rétt á frá hinu opinbera og henni beri að nýta sér í samræmi við tjónstakmörkunarskyldu sína. Þá sé fjárhæðinni jafnframt mótmælt á þeim grundvelli að hún sé allt og há og með öllu óraunhæf.
8. Krafa stefnenda Jóns Más og Kristínar um umönnunarbætur.
Krafa samkvæmt þessum lið sé byggð á matsgerð þar sem matsmenn meti alla liði sem þeir telji fært án þess að taka afstöðu til þess hvort krafa samkvæmt þeim sé réttmæt eða ekki. Fram komi að ekki sé tekin afstaða til þess lögfræðilega álitaefnis, hvort foreldrar eigi að fá bætur vegna umönnunarkostnaðar eftir að tjónþoli nær 18 ára aldri og því síður eftir að hann nær 20 ára aldri. Þá sé jafnframt tekið fram að ekki sé tekin afstaða til þess hvort stefnandi eigi rétt á að bótauppgjöri sé þannig háttað að hún sé eins sett, t.d. með skólagöngu, og hún hefði verið ef tjónið hefði ekki komið til, og eigi því rétt á bótum sem svari til kostnaðar við að ljúka skólagöngu, þ.m.t. kostnaðar við aðstoð, sem hún þurfi á að halda.
Framfærsluskyldu foreldra ljúki við 18 ára aldur, sbr. 1. mgr. 61. gr. barnalaga nr. 76/2003. Aðstandendur tjónþola geti átt rétt til bóta vegna umönnunar þegar um er að ræða barn á þeirra framfæri. Hins vegar sé rétti til sérstakra bóta vegna umönnunar eftir að tjónþoli hefur náð 18 ára aldri ekki til að dreifa, enda hafi framfærsluskyldu þá lokið og líkur á því að slíkur kostnaður verði greiddur af hinu opinbera, sbr. Hrd. 1992, bls. 2122 og jafnframt dóm Hæstaréttar 16. nóvember 2006 í máli nr. 237/2006 sem byggi á þeirri forsendu að ekki beri að greiða umönnunarbætur eftir að framfærsluskyldu lýkur.
Stefnandi var orðin 18 ára gömul á slysdegi og hafði náð 19 ára aldri við batahvörf. Kostnaður vegna umönnunar foreldra stefnanda, sem miðað sé við í matsgerð, hafi því að öllu leyti fallið til eftir að framfærsluskyldu þeirra lauk. Verði þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af kröfu samkvæmt þessum lið.
Þá sé ekki unnt að fallast á greiðslu samkvæmt þessum kröfulið þar sem gerð sé krafa um að fá sama tjón bætt tvisvar, sbr. athugasemdir í matsgerð um að stefnandi geti ekki bæði krafið um bætur vegna tapaðrar yfirvinnu föður á vinnustað og vegna námsaðstoðar á sama tíma. Þrátt fyrir þetta sé miðað við báða liði í stefnu, þ.e. krafist bóta vegna tapaðrar yfirvinnu stefnandans Jóns Más og vegna námsaðstoðar hans. Grundvöllur kröfu samkvæmt þessum lið sé því verulega óljós og sé krafan svo vanreifuð að ekki sé unnt að fallast á hana.
Verði ekki fallist á ofangreind rök byggi stefndu á því að lækka beri kröfuna verulega. Krafan sé annars vegar byggð á vinnuframlagi stefnenda, Jóns Más og Kristínar, vegna aðstoðar við nám stefnanda Söndru og hins vegar á tekjutapi stefnanda Jóns Más. Námsaðstoð foreldra einstaklings, sem náð hafi 18 ára aldri, falli ekki innan eðlilegrar umönnunarskyldu, enda hafi ekki tíðkast að dæma bætur vegna slíkrar aðstoðar. Bætur vegna námsaðstoðar foreldra eftir lok lögboðinnar framfærsluskyldu eigi sér hvorki stoð í lögum, venju né öðrum réttarheimildum og verði því að hafna kröfu um bætur vegna námsaðstoðar. Fjárhæð kröfunnar sé ekki nægilega rökstudd þar sem hún sé eingöngu byggð á einhliða yfirlýsingum foreldra stefnanda Söndru. Í öllu falli verði ekki hjá því komist að lækka kröfu samkvæmt þessum lið þar sem gerð sé krafa um bætur vegna sama tjóns tvívegis.
Verði ekki á sýknukröfu stefndu fallist sé krafist verulegrar lækkunar bóta, en um rökstuning fyrir þeirri kröfu sé vísað til umfjöllunar um einstaka liði að ofan.
Kröfu um vexti sé mótmælt. Bætur vegna varanlegs miska, varanlegrar örorku, tímabundins atvinnutjóns og þjáninga hafi þegar verið greiddar með vöxtum í samræmi við ákvæði 16. gr. skaðabótalaga, en ekki séu lagaskilyrði til greiðslu almennra vaxta vegna annarra kröfuliða, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Því sé mótmælt að upplýsingar um grundvöll álagningar iðgjalda og ,,hve hárri vátryggingaskuld hafi verið gert ráð fyrir vegna slyssins, þ.e. hve félögin færðu háa fjárhæð í bótasjóð sinn“, hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Um lagarök vísi stefndi einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna um sönnun tjóns og sönnunarbyrði. Þá vísi stefndi til laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerða sem settar hafi verið á grundvelli þeirra laga, svo og til barnalaga nr. 76/2003. Þá sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um vexti vísi stefndu til skaðabótalaga og laga um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök varastefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Af hálfu varastefnda er vísað til þess að ekki sé um það deilt að ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar DB-950, aðalstefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafi viðurkennt óskoraða bótaskyldu sína og annarra aðalstefndu gagnvart stefnanda vegna þess líkamstjóns er hún hlaut í slysinu, sbr. 89. gr., 1. og 3. mgr. 90. gr. og 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ekki sé heldur um það deilt að á slysdegi hafi verið í gildi hjá varastefnda lögboðnar ökutækjatryggingar vegna bifreiðarinnar VK-794, þ.á m. slysatrygging ökumanns og eiganda sem farþega í eigin ökutæki.
Í aðalsök krefjist stefnandi bóta fyrir líkamstjón sitt úr hendi aðalstefndu og virtist krafan að mestu leyti reist á ákvæðum skaðabótalaga. Í varasök væru dómkröfur stefnanda alveg þær sömu og hún geri á hendur aðalstefndu, þ.e. til greiðslu bóta að fjárhæð 75.968.922 krónur með nánar tilgreindum vöxtum en allt að frádregnum innborgunum sem greiddar hafi verið af hálfu aðalstefndu.
Af hálfu stefnanda sé vísað til þess að aðalstefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., telji sig þegar hafa greitt þær skaðabætur sem stefnandi eigi rétt á. Varastefndi eigi því „eftir að greiða stefnanda slysatryggingabætur í samræmi við efni 5. mgr. 92. greinar umferðarlaga....“ Málsástæða þessi sé mjög torskilin og örðugt að átta sig á hvað stefnandi eigi við, einkum í ljósi þess að hún geri nákvæmlega sömu dómkröfur á hendur varastefnda og hún geri gagnvart aðalstefndu. Þessa málsástæðu virtist einna helst eiga að skilja á þann veg að á grundvelli 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 32/1998 um breyting á þeim, eigi stefnandi rétt til hærri bóta fyrir líkamstjón sitt en þær bætur sem hún fái úr hendi aðalstefndu samkvæmt skaðabótalögum. Í hverju sá munur felist sé ekki útlistað með skýrum hætti af hálfu stefnanda.
Í 92. gr. umferðarlaga sé mælt fyrir um sérstaka slysatryggingu ökumanns. Þar sé ekki kveðið á um það hvernig bætur skulu ákvarðaðar. Í 4. gr. vátryggingarskilmála varastefnda fyrir slysatryggingu ökumanns og eiganda sem farþega segi að um ákvörðun bóta fari eftir almennum reglum íslensks skaðabótaréttar. Skilmálar þessir gildi um vátryggingarsamninginn sem var í gildi milli varastefnda og eiganda bifreiðarinnar sem stefnandi ók er hún slasaðist. Í ljósi þessa beri að ákvarða bætur fyrir líkamstjón stefnanda úr slysatryggingunni eftir reglum skaðabótalaga. Bætur sem stefnandi gæti átt rétt á úr slysatryggingunni nemi því nákvæmlega sömu fjárhæð og þær bætur sem stefnandi fái greiddar úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar DB-950 hjá aðalstefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Samkvæmt 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga lækki bætur úr slysatryggingunni sem nemi skaðabótum sem stefnandi eigi rétt á samkvæmt öðrum ákvæðum laganna eða öðrum skaðabótareglum. Óumdeilt sé að bætur, sem stefnandi fái úr hendi aðalstefndu, séu grundvallaðar á öðrum ákvæðum laganna, þ.e. 89. gr., 1. og 3. mgr. 90. gr. og 1. mgr. 95. gr. Þar sem bætur, sem aðalstefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hefur greitt, og eftir atvikum eigi eftir að greiða úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar DB-950 nemi sömu fjárhæð og stefnandi geti gert tilkall til úr slysatryggingunni eigi hún engan rétt til bóta úr síðarnefndu vátryggingunni. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna varastefnda af öllum kröfum stefnanda.
Að því marki sem slysatrygging ökumanns kunni að vera til skoðunar vegna slyss stefnanda þá sé því ekki mótmælt að hún teljist vera vátryggð í skilningi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem voru í gildi er slysið varð. Það breyti því hins vegar ekki að réttur hennar til bóta úr slysatryggingu fari eftir alveg sömu reglum og réttur þriðja manns til bóta úr ábyrgðartryggingu ökutækis. Ekki verði séð hvað stefnandi eigi við þegar hún staðhæfi að réttarstaða hennar sé önnur en þriðja manns sem eigi skaðabótakröfu á hendur ábyrgðartryggingafélagi. Þarna virtist einna helst gæta einhvers misskilnings, í það minnsta sé ekkert útlistað hvað stefnandi eigi við eða hvaða þýðingu staðhæfing þessi eigi að hafa að lögum. Sama gildi um bollaleggingar hennar um að ákvæði laga nr. 20/1954 séu ófrávíkjanleg í ákveðnum tilvikum, sbr. 3. gr. laganna. Óljóst sé hvað stefnandi er að fara eða hvaða þýðingu þetta hafi fyrir úrslit málsins.
Stefnandi byggi kröfu sína á hendur varastefnda á því að skýrt komi fram í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að slysatryggingabætur samkvæmt 92. gr. umferðarlaga dragist frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns, sem sé í samræmi við ákvæði 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Stefnandi staðhæfi að af þessu leiði að „fullar slysatryggingabætur“ hafi ekki verið greiddar. Hér sé um grundvallarmisskilning að ræða. Samkvæmt 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga dragist frá skaðabótakröfu m.a. bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum. Þessi regla sé lögfest gagngert til að koma í veg fyrir að tjónþoli geti fengið líkamstjón sitt tvíbætt, þ.e. bæði úr slysatryggingu ökumanns og eftir atvikum ábyrgðartryggingu annars ökutækis sem eigi aðild að umferðarslysi. Tilgangur 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga sé alveg hinn sami. Það sé fráleitt að ákvæði þessi feli í sér að stefnandi geti átt rétt til hærri bóta úr slysatryggingu ökumanns en úr ábyrgðartryggingunni.
Til frekari stuðnings sjónarmiðum sínum vísi stefnandi til greinargerðar með 4. gr. laga nr. 37/1999 en þar segi að ekki sé lagt til að bætur skerðist vegna slysatrygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hafi sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds. Þessi umfjöllun eigi ekki við um 1. ml. 4. mgr. 5. gr. heldur 5. og síðasta ml. 4. mgr., þar sem segi að aðrar greiðslur, sem tjónþoli fái frá þriðja manni, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragist ekki frá skaðabótakröfu. Hin tilvitnuðu orð geti heldur ekki breytt skýru og ótvíræðu orðalagi lagatextans sjálfs og hafi því enga þýðingu í máli þessu.
Þá virtist stefnandi gera því skóna að bætur úr slysatryggingu ökumanns „skerðist ekki af almannatryggingabótum samkvæmt „eðli máls“.“ Ef í þessu felist að stefnandi telji að bætur frá almannatryggingum eigi ekki að dragast frá bótum úr slysatryggingu ökumanns þá sé það alrangt. Skýrt sé tekið fram í skilmálum slysatryggingarinnar að bætur skuli ákvarðast samkvæmt reglum íslensks skaðabótaréttar, þ.e. eftir reglum skaðbótalaga. Skipti í þessu sambandi engu máli hvort um sé að ræða skaðabótakröfu eða kröfu um bætur úr slysatryggingu ökumanns; í báðum tilvikum dragist frá kröfunni bætur frá almannatryggingum, sbr. 1. ml. 4. mgr. 5. gr. laganna. Þá séu engin haldbær rök fyrir því að skýra beri frádráttarreglur 4. mgr. 5. gr. með öðrum hætti eða þrengra, þegar um sé að ræða greiðslu bóta úr slysatryggingu ökumanns.
Við ákvörðun iðgjalda í slysatryggingum ökumanna og eigenda sé út frá því gengið að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku komi til frádráttar bætur úr öðrum bótakerfum eins og mælt sé fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Mótmælt sé sem röngu og tilhæfulausu að varastefndi hafi skuldbundið sig til að greiða bætur úr slysatryggingunni án slíks frádráttar í þeim tilvikum þegar það eigi við.
Umfjöllun í stefnu að því er virtist um tengsl 92. gr. umferðarlaga við 1. tl. 1. mgr. 22. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994 sé óskiljanleg með öllu. Í 22. gr. laganna komi fram fyrirmæli um þá greinarflokka vátrygginga sem skaðatryggingafélag geti sótt um leyfi til að starfrækja. Flokkunin segi ekkert til um það hvernig bætur skulu ákveðnar í einstökum greinaflokkum eða vátryggingagreinum. Ef stefnandi telji að reglur slysatryggingar ökumanns um ákvörðun bóta stangist á við ákvæði 1. tl. 1. mgr. 22. gr. laganna um vátryggingagreinar innan slysatrygginga sé það rangt.
Greinaflokkar vátrygginga samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 60/1994 séu þeir sömu og lagðir eru til grundvallar í gerðum EES-samningsins í því skyni að starfsleyfi í einstökum greinaflokkum vátrygginga séu samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu. Hin lögboðna slysatrygging ökumanns og eiganda sem farþega í eigin ökutæki eigi sér ekki fyrirmynd í öðrum ríkjum innan EES. Slíkrar vátryggingar sé því ekki getið í þeim greinarflokkum sem 1. mgr. 22. gr. taki til. Hins vegar, í ljósi þess að um lögboðna vátryggingu sé að ræða, þá hafi leyfi til að starfrækja þessa vátryggingu verið bundið við þau vátryggingafélög sem einnig hafi leyfi til að starfrækja ábyrgðartryggingar ökutækja hér á landi samkvæmt 10. tl. 1. mgr. 22. gr. laganna, enda slík vátrygging einnig lögbundin. Því eigi 1. tl. 1. mgr. 22. gr. ekkert við í máli þessu.
Þá byggi stefnandi á því að varastefndi geti ekki takmarkað ábyrgð sína með þeim hætti sem hann geri samkvæmt ákvæðum laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 og skilmálum sínum. Í þessu sambandi byggi stefnandi einnig á 2. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 með síðari breytingum eftir því sem við eigi. Stefnandi útlisti ekkert nánar hvað hér sé átt við eða á hvern hátt varastefnda sé óheimilt að takmarka ábyrgð samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga eða skilmálum. Málsástæður stefnanda hvað þessu viðvíkur séu að engu hafandi. Sama sé að segja um vísun stefnanda til lagaákvæðisins, en ekki sé tilgreint á hvern hátt varastefndi hafi takmarkað ábyrgð sína þannig að fari í bága við það. Beri því að hafna málsástæðum stefnanda sem á þessu byggi.
Að öllu framangreindu virtu sé ekkert fram komið í málatilbúnaði stefnanda sem gefi tilefni til að ætla að hún eigi kröfur á hendur varastefnda sem hún fái ekki bætt úr hendi aðalstefndu vegna líkamstjóns síns. Því sé óhjákvæmilegt að taka sýknukröfu varastefnda til greina.
Stefnandi skori á hin stefndu félög, þ.m.t. varastefnda, að veita upplýsingar um „hver hafi verið grundvöllur álagningar iðgjalda á þær bifreiðir, sem í árekstrinum lentu, það vátryggingatímabil er slysið varð á.“ Enn fremur skori stefnandi á félögin að upplýsa „hve hárri vátryggingaskuld hafi verið gert ráð fyrir vegna slyssins, þ.e. hve félögin færðu háa fjárhæð í bótasjóð sinn.“ Iðgjöld lögboðinna ökutækjatrygginga taki m.a. mið af þeim bótagreiðslum sem kunni að falla á vátryggjanda samkvæmt reglum skaðabótalaga, þegar um líkamstjón er að ræða. Hvernig hvert einstakt tjón sé áætlað hjá vátryggingafélagi og hvaða áhrif það hafi á tjónaskuld þess hafi alls enga þýðingu fyrir úrlausn málsins en stefnandi hafi að minnsta kosti ekki sýnt fram á að svo sé. Í III. kafla laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994 með síðari breytingum séu ítarleg fyrirmæli um fjárhagsgrundvöll vátryggingafélaga, vátryggingaskuld o.fl. Í V. kafla laganna séu enn fremur ítarleg ákvæði varðandi eftirlit með vátryggingafélögum og að slíkt eftirlit skuli vera í höndum Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu beri m.a. að fylgjast með iðgjaldagrundvelli vátrygginga með það fyrir augum að iðgjöld, sem í boði séu hér á landi, séu sanngjörn í garð vátryggingartaka og í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingum felist og eðlilegan rekstrarkostnað, sbr. 2. mgr. 55. gr. laganna. Iðgjaldsákvarðanir og innri starfsemi vátryggingafélags geti í engu breytt eða haft áhrif á hvernig ákveða skuli bætur til stefnanda lögum samkvæmt vegna þess líkamstjóns sem hún hlaut í slysinu 13. febrúar 2004.
Málskostnaðarkröfur varastefnda séu reistar á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsókn stefnanda á hendur varastefnda sé algerlega að ófyrirsynju. Ljóst sé að kröfur stefnanda á hendur varastefnda skorti alla lagastoð og nær engin von sé til að fá kröfum þessum framgengt. Kröfurnar séu lítt eða ekkert rökstuddar. Málsástæður sem stefnandi byggi kröfur sínar á gagnvart varastefnda séu sundurlausar og ruglingslegar og nánast ógerlegt að skilja þær þannig unnt sé að fá samhengi milli þeirra og kröfugerðar. Það hafi kostað varastefnda mikla vinnu við að freista þess að fá einhvern botn í málatilbúnað stefnanda þannig að unnt sé halda uppi vörnum í málinu. Verði ekki komist hjá því að líta til þessara atriða við ákvörðun málskostnaðar til varastefnda.
Niðurstaða
Kröfugerð stefnenda og máltilbúnað verður að telja fullnægjandi en ágallar á honum, sem vísað er til af hálfu stefndu, þykja ekki slíkir að í bága fari við 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála um skýran og glöggan máltilbúnað. Með vísan til þess verður málinu ekki vísað frá dómi án kröfu.
Ágreiningslaust er í málinu að stefnda, Sjóvá-almennar tryggingar hf., greiddi stefnanda Söndru þjáningabætur, bætur fyrir tímabundna örorku, fjártjón og sjúkrakostnað samkvæmt 6. tl. í kröfugerð stefnanda og kostnað vegna námstafa um tvær annir. Með vísan til þess verður ekki fjallað frekar um þessa liði, þ.e. 3.,4., 6. og 8., í kröfugerð stefnanda Söndru í málinu.
Stefnandi krafðist bóta vegna slyssins með bréfi lögmanns 3. nóvember 2005 til stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. en þá lá fyrir mat dómkvaddra matsmanna 29. október s.á. samkvæmt skaðabótalögum þar sem varanlegur miski var metinn 70 stig. Voru bætur greiddar af hálfu hins stefnda vátryggingafélags í samræmi við það 5. desmber s.á. Samkvæmt yfirmatsgerð 3. nóvember 2006 var varanlegur heildarmiski stefnanda metinn 75 stig og voru miskabætur greiddar 5. desember s.á. samkvæmt uppgjöri á skaðabótum stefnanda, þar á meðal útreikningi á 5 stiga miska. Lögmaður stefnanda gerði fyrirvara við uppgjörið með bréfi sama dag þar sem fyrirvarar eru taldir, þar á meðal vegna aukins miska. Samkvæmt gögnum málsins greiddi stefndi stefnanda skaðabætur vegna aukins miska 7. desember s.á. Með bréfi lögmanns stefnanda sama dag var fallist á boðna greiðslu vegna hærri miska samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Með vísan til þess verður að líta svo á að af hálfu stefnanda hafi verið fallist á uppgjörið hvað varðar varanlegan miska. Samkvæmt því verður að fallast á þær röksemdir stefndu að bætur hafi með þessu verið að fullu uppgerðar fyrir varanlegan miska. Ber því að sýkna stefndu af þessum lið í kröfugerð stefnanda.
Ágreiningur um varanlega örorku stefnanda varðar annars vegar hvernig, þ.e. eftir hvaða reglu, skuli áætla viðmiðunartekjur við útreikninga á bótakröfu stefnanda Söndru og hins vegar frádrátt frá örorkubótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Varðandi tekjuviðmið er af hálfu stefnanda vísað til þess að meta skuli árslaun hennar sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Á þetta verður ekki fallist. Samkvæmt 8. gr. laganna eru bætur til barna og þeirra sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar tekjur ákveðnar á grundvelli örorkustigs eftir 5.-7. gr. laganna. Í yfirmatsgerð kemur fram að launatekjur stefnanda Söndru voru 206.125 krónur á árinu 2001, 360.070 krónur á árinu 2002, 619.640 krónur á árinu 2003, 77.025 á árinu 2004 og 354.125 krónur á árinu 2005. Þar kemur einnig fram að vegna ungs aldurs og náms hennar hafi tekjur verið tilkomnar vegna sumarvinnu í fyrstu og síðar einnig hlutastarfs með námi. Bætur stefnanda vegna varanlegrar örorku voru af hálfu stefnda Sjóvár reiknaðar samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna sem mælir fyrir um að ekki skuli miða við lægri árslaun en þau sem tilgreind eru í lagaákvæðinu. Verður að telja að við útreikning á bótum stefnanda beri að miða við þá reglu, en með því er hafnað þeirri röksemd stefnanda að árslaun beri að meta sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Sú afstaða dómsins er byggð á því að telja verður forsendur fyrir því að áætla laun hennar eftir lagaákvæðinu vera of óljósar og óvissar, hvort sem miðað væri við meðallaun háskólamenntaðra opinberra starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar eða meðallaun kvenna í fullu skrifstofustarfi eins og krafist er af hálfu stefnanda að gert verði. Ekki er fallist á að launaviðmið hækki samkvæmt launavísitölu, eins og stefnandi krefst, enda engin lagaheimild eða aðrar réttarheimildir fyrir því. Þá er heldur ekki fallist á að útreikningur í samræmi við umrætt launaviðmið fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, en telja verður að ekki hafi komið fram viðhlítandi rök fyrir því. Að þessu virtu er ekki fallist á að stefnandi eigi af þessum sökum rétt til frekari bóta en þeirra sem þannig hafa verið reiknaðar og eru þegar greiddar.
Tilvitnað ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga um frádrátt mælir fyrir um að til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku komi m.a. greiðslur frá almannatryggingum. Ákvæðinu var breytt með 1. gr. laga nr. 53/2009 þar sem felld voru út orðin „greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum“ og í staðin kom „eingreiddar örorkubætur almannatrygginga“. Samkvæmt meginreglunni, sem fram kemur í 28. gr. skaðabótalaga, þess efnis að lögin eigi við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem verði eftir gildistöku laganna, verður að telja að fara verði eftir lagaákvæðinu eins og það var þegar stefnandi varð fyrir umræddu tjóni. Skýr fyrirmæli voru á þeim tíma í 4. mgr. 5. gr. laganna um að greiðslur frá almannatryggingum bæri að draga frá skaðabótum fyrir líkamstjón. Sömu röksemdir leiða til þess að ekki verður talið heimilt að reikna frádráttinn þannig að hann nái ekki lengra en til 27. apríl 2009 þegar framangreind lagabreyting tók gildi. Lagaákvæðið verður ekki talið fara í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, sem vísað er til af hálfu stefnanda, né verða tilskipanir Evrópusambandsins túlkaðar þannig að þær mæli fyrir um að umrædd frádráttarregla sé óheimil. Með vísan til þess ber að hafna þeim röksemdum stefnanda að óheimilt hafi verið að draga greiðslur almannatrygginga frá skaðabótakröfu stefnanda við uppgjör á henni.
Samkvæmt framangreindu veður að fallast á þær röksemdir stefndu að bætur vegna varanlegrar örorku stefnanda Söndru hafi verið gerðar upp að fullu. Ber því að sýkna stefndu af þessum kröfulið stefnanda sem leiðir jafnframt til að sýkna ber stefndu einnig af öllum varakröfum stefnanda Söndru.
Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er heimilt að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni greiða þeim miskabætur sem misgert er við. Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefndi Brynjar hafi valdið stefnanda Söndru umræddu tjóni af stórfelldu gáleysi er hann ók gegn rauðu ljósi á allt of miklum hraða yfir gatnamótin. Engin vitni hafa borið um það að stefndi hafi ekið í þessu tilviki gegn rauðu ljósi þótt ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var næst á eftir bifreiðinni er stefnandi Sandra ók hafi borið um að grænt ljós hafi kviknað áður en hún beygði í veg fyrir bifreiðina er stefndi ók. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að græna ljósið fyrir hennar akstursstefnu hafi kviknað mjög skömmu eftir að rautt ljós hefur kviknað fyrir akstursstefnu stefnda Brynjars. Fyrir dóminum bar ökumaðurinn, sem ók á eftir bifreiðinni er stefnandi Sandra ók, að stefndi Brynjar hefði ekið mjög hratt. Annar ökumaður, sem beið við gatnamótin, skýrði frá fyrir dóminum á sama hátt. Þessir framburðir, sem gefnir voru rúmum fimm árum eftir umrætt slys, eru ekki studdir öðrum beinum sönnunargögnum og eru ekki fyllilega í samræmi við lýsingar á aksturskraða stefnda Brynjars sem fram koma í lögregluskýrslum. Útreikningar sem lagðir hafa verið fram af hálfu stefnanda á ætluðum ökuhraða bifreiðarinnar DB-950 eru samkvæmt niðurstöðum rannsókna Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors þannig að ætlaður hraði er reikaður 82 km á klukkustund, mögulegur lágmarkshraði er 67 km á klukkustund og hámarkshraði 97 km á klukkustund. Annað liggur ekki fyrir í gögnum málsins um aksturshraða bifreiðarinnar sem stefndi Brynjar ók. Þegar litið er til þess sem fram hefur komið um aðstæður við umrædd gatnamót verður að telja þær varhugaverðar og hlýtur fyllstu aðgæslu að vera þörf þegar ekið er þar um. Með vísan til þessa er ekki unnt að líta svo á að fram hafi komið fullnægjandi sönnun fyrir því að stefndi Brynjar hafi valdið stefnanda umræddu tjóni af stórfelldu gáleysi. Þar með eru ekki skilyrði til að dæma stefndu til að greiða stefnanda Söndru miskabætur samkvæmt ofangreindu lagaákvæði. Ber því að sýkna stefndu af þessum kröfulið í kröfugerð hennar.
Af hálfu stefnanda Söndru er krafist bóta vegna framtíðarsjúkrakostnaðar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt lagaákvæðinu skal sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst. Þarna er um að ræða áætlaðan ferðakostnað stefnanda, sjúkraþjálfun og læknis- og lyfjakostnað frá miðju ári 2007 til 74 ár aldurs stefnanda, samtals að fjárhæð 2.495.523 krónur. Með vísan til þess að þarna er um áætlaðan kostnað að ræða sem gert er ráð fyrir að byrjað hafi að falla til rúmum tveimur árum eftir að heilsufar stefnanda Söndru varð stöðugt og eftir það um langa framtíð verður að telja að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að krafan hafi viðhlítandi lagastoð. Ber því að hafna þessum kröfulið stefnanda og sýkna stefndu af honum.
Stefnandi Sandra krefst 10.000.000 króna vegna kostnaðar sem hún telur sig verða fyrir vegna erfiðari heimilisstarfa, frekara náms í framtíðinni og starfsþjálfunar og aukakostnaðar vegna dýrari framfærslu vegna fötlunarinnar. Í rökstuðningi fyrir þessum lið er vísað til 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, sbr. og þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga um bætur fyrir röskun á stöðu og högum. Kostnaður vegna þessa þáttar hefur ekki verið metinn, eins og fram kemur í matsgerð 23. júní 2008. Þar kemur fram að kostnað við aðstoð og erfiðari heimilisstörf eigi stefnandi að geta fengið greiddan af sveitarfélagi og eftir atvikum viðbótargreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins miðað við reglur Reykjavíkurborgar um félagslega heimaþjónustu frá maí 2006 og reglurgerð nr. 595/1997. Um aðstoð eða útlagðan kostnað við hugsanlegt frekara nám og starfsþjálfun segir að ekkert liggi fyrir um hvaða nám eða starfsþjálfun sé þar um að ræða og sé útilokað að matsmenn geti sett fram hugmyndir um kostnað vegna þessa. Þá segir um aukinn framfærslukostnað vegna dýrari framfærslu fatlaðs einstaklings en ófatlaðs að þar sé ekki um auka kostnað að ræða þar sem kostnaður við framfærslu með þeim takmörkunum sem fötlunin setur og stuðningi hins opinbera við fatlaða eigi ekki að vera meiri en kostnaður við framfærslu ófatlaðra. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að hér sé um fjártjón að ræða sem stefnanda verði reiknaðar bætur fyrir samkvæmt þeim lagaákvæðum sem vísað er til af hennar hálfu. Ber því að sýkna stefndu af þessum kröfulið.
Eins og fram hefur komið fjallar 92. gr. umferðarlaga um slysatryggingu ökumanns. Í 5. mgr. hennar segir að ef tjónþoli eigi rétt á skaðabótum vegna slyss eftir lögunum eða öðrum skaðabótareglum lækki bætur úr þessari vátryggingu sem því nemi. Reglan sem þarna kemur fram og aðrar lagareglur sem vísað er til af hálfu stefnanda Söndru í þessu sambandi verða ekki túlkaðar þannig að stefnandi geti átt rétt á frekari bótum en ákveðnar verða eftir almennum reglum. Leyst hefur verið úr því hér að framan og komist að niðurstöðu um að hún sé ekki talin eiga rétt til frekari bóta samkvæmt þeim en þegar hafa verið greiddar. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á að um frekari vátryggingagreiðslur geti verið að ræða úr slysatryggingu ökumanns. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna varastefnda Tryggingamiðstöðina hf. til samræmis við það af öllum kröfum stefnanda Söndru í málin þessu.
Krafa Jóns Más og Kristínar, að fjárhæð 2.494.715 krónur, er eins og fram kemur í stefnu, byggð á forsendum og niðurstöðu matsgerðar frá 23. júní 2008. Einnig er vísað til þess að krafan sé byggð á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, sbr. og þágildandi 264. gr. almennra hegningarlaga um bætur fyrir röskun á stöðu og högum og dómafordæmum um umönnunarbætur. Nánari lýsing á málsástæðum stefnenda Jóns Más og Kristínar kemur ekki fram í stefnu.
Í matsgerðinni er tekjutap stefnanda Kristínar metið á tímabilinu 13. febrúar 2004 til 30. júní s.á. 465.690 krónur. Í matsgerðinni kemur jafnframt fram að ekki voru lögð fram gögn um tekjutap hennar á umræddu tímabili en fjárhæðin var reiknuð út þar sem miðað var við 430 klukkustundir og tímagjald 1.083 krónur. Vísað er í matsgerðinni til þess að stefnandi Kristín hafi ekki verið í vinnu þegar slysið varð en áæltað að hún hæfi vinnu vorið 2004 en af því hafi ekki orðið vegna slyssins.
Tekjutap stefnanda Jóns Más á tímabilinu 1. september 2004 til 12. febrúar 2005, að fjárhæð 452.025 krónur, er eins og fram kemur í matsgerðinni talið rakið til þess að hann hafi aðstoðað stefnanda Söndru í námi og því hafi hann unnið mun minni eftirvinnu í starfi sínu en undanfarin ár. Aukin vinna stefndna Jóns Más og Kristínar á heimili og við ferðir vegna fötlunar stefnanda Söndru er í matsgerðinni metin að fjárhæð 300.000 krónur en fram kemur að þar sé fyrst og fremst um tímabilið 1. júlí til 13. febrúar 2005 að ræða.
Af hálfu stefndu er þessi krafa stefnenda ekki talin hafa lagastoð en stefnendur hafi ekki lengur framfærsluskyldur við stefnanda Söndru þar sem hún hafi verið orðin 18 ára er slysið varð. Einnig er af hálfu stefndu talið að grundvöllur kröfu stefnenda sé verulega óljós og krafan svo vanreifuð að ekki sé unnt að fallast á hana. Dómurinn telur að ekki verði hjá því komist að fallast á þessi rök stefndu með vísan til þess sem að framan er rakið. Í málatilbúnaði stefnanda hefur því ekki verið sýnt fram á að krafa stefnenda Jóns Más og Kristínar hafi fullnægjandi lagastoð og ber því að sýkna stefndu af henni.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála. Við ákvörðun málskostnaðar er m.a. litið til þess að lögmaður stefnanda Söndru hefur í málatilbúnaði hennar litið svo á að túlka beri 5. mgr. 92. gr. umferðarlaga þannig að hún eigi rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns að því marki sem bætur hafi ekki verið greiddar samkvæmt öðrum reglum eins og segir í lagaákvæðinu. Dómurinn hefur ekki fallist á að lagaákvæðið verði túlkað á þann hátt sem lögmaðurinn gerir, en eins og málið er lagt fyrir þykja ekki efni til að það leiði til þess að stefnanda Söndru verði gert að greiða varastefnda Tryggingamiðstöðinni hf. málskostnað. Að teknu tilliti til þessa og annars sem fram hefur komið í málinu er málskostnaður felldur niður samkvæmt heimild í 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda Söndru greiðist úr ríkissjóði sem þykir hæfilega ákveðinn 2.318.824 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.000.000 krónur án virðisaukaskatts en útlagður kostnaður er samtals 1.318.824 krónur, þ.e. 946.000 krónur vegna mats á sjúkrakostnaði og öðrum kostnaði, 152.150 krónur vegna matsgerðar Sigurðar Sigurjónssonar læknis og Björns Daníelssonar lögfræðings 4. maí 2005, 15.000 krónur vegna skýrslu Birnu G. Gunnlaugsdóttur sjúkraþjálfara, 167.328 krónur vegna hraðaútreikninga Magnúsar Þórs Jónssonar og vegna reiknings Vigfúsar Ásgeirssonar, að fjárhæð 38.346 krónur, fyrir útreikninga á eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna stefnanda Söndru.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Brynjar Sigurðsson, Hrefna Björk Ólafsdóttir og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknuð af kröfum stefnenda, Söndru Jónsdóttur, Jóns Más Halldórssonar og Kristínar Jónsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda Söndru greiðist úr ríkissjóði, samtals 2.318.824 krónur, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl. 1.000.000 krónur, en útlagður kostnaður er samtals 1.318.824 krónur.