Hæstiréttur íslands

Mál nr. 421/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. september 2005.

Nr. 421/2005.

A

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

B

(Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.)

 

Kærumál. Lögræði. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

B, dóttir A, krafðist þess í málinu að hann yrði sviptur fjárræði tímabundið þar sem hann væri haldinn áfengissýki og misfæri stórlega með fé þegar hann væri undir áfengisáhrifum. Skipaður verjandi A mótmælti ekki þessum fullyrðingum og tók héraðsdómari kröfu B til greina. Talið var að samkvæmt 11. gr. lögræðislaga hefði héraðsdómara borið að hlutast til um að fyrir lægju í málinu fullnægjandi gögn um hagi sóknaraðila, svo sem vottorð læknis um ætlaða áfengissýki hans, áður en hann féllst á kröfu um fjárræðissviptingu. Þar sem þetta var ekki gert þótti óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og málsmeðferð fyrir héraðsdómi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að nýju..

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. september 2005 þar sem sóknaraðili var sviptur fjárræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að úrskurðurinn verði ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að nýju. Þá krefst hún málsvarnarlauna fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili reisti kröfu sína fyrir héraðsdómi á því að sóknaraðili væri haldinn áfengissýki og væri ekki fær um að ráða sjálfur fjármunum sínum og því bæri með vísan til b. liðar 4. gr. lögræðislaga að verða við kröfu hans um að sóknaraðili yrði sviptur fjárræði í 12 mánuði. Voru lögð fyrir héraðsdóm gögn sem sýndu fram á að sóknaraðili hefur á undanförnum árum sólundað fé sínu. Skipaður verjandi sóknaraðila bar ekki brigður á það að sóknaraðili ætti við áfengisvandamál að stríða og ekki heldur að hann eyddi miklu fé þegar hann væri undir áhrifum áfengis. Var krafa varnaraðila tekin til greina á grundvelli þessara yfirlýsinga skipaðs verjanda sóknaraðila. Þótt óumdeilt sé að sóknaraðili eigi við áfengisvandamál að stríða og hann misfari með fjármuni sína undir áfengisáhrifum er til þess að líta að við mat á því hvort skilyrðum nefnds b. liðar 4. gr. lögræðislaga sé fullnægt er dómari ekki bundinn af málsforræði aðila eins og við ætti í almennu einkamáli. Samkvæmt 11. gr. sömu laga bar héraðsdómara að hlutast til um að fyrir lægju fullnægjandi gögn um hagi sóknaraðila, svo sem vottorð læknis um ætlaða áfengissýki hans, áður en hann féllst á kröfu um fjárræðissviptingu. Þar sem þetta var ekki gert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og málsmeðferð fyrir héraðsdómi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að nýju.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, sem og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og meðferð málsins fyrir héraðsdómi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að nýju.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttir héraðsdómslögmanns, 75.000 krónur til hvors þeirra.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. september 2005.

Sóknaraðili er B, [heimilisfang]. Varnaraðili er A, til lögheimilis að [heimilisfang], talinn til heimilis að [heimilisfang]. Málið var þingfest 26. ágúst síðastliðinn og tekið til úrskurðar í dag að loknum munnlegum málflutningi.

I.

                Með bréfi sóknaraðila 11. ágúst 2005, sem dóminum barst samdægurs, krafðist hún þess að faðir hennar, varnaraðili í málinu, yrði sviptur lögræði ótímabundið, bæði sjálf­ræði og fjárræði, með vísan til b-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, vegna alvar­legs áfengisvanda, sem hann eigi við að stríða. Undir rekstri málsins var þeirri kröfu­gerð breytt á þann veg að nú er þess krafist að varnaraðili verði sviptur fjárræði tíma­bundið í tólf mánuði á grundvelli sömu lagaraka, sbr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðis­laga. Jafnframt er krafist hæfilegrar þóknunar til handa skipuðum talsmanni sóknar­aðila, Guðrúnu Björgu Birgisdóttur héraðsdómslögmanni.

                Varnaraðili krefst þess að synjað verði um kröfu sóknaraðila og að þóknun skipaðs verjanda, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, verði greidd úr ríkissjóði.

II.

Sóknaraðili lýsir helstu málsatvikum svo að varnaraðili hafi átt við mjög alvarlegt áfengisvandamál að stríða frá árinu 1996 og margsinnis farið í meðferð hér heima og erlendis, sem ekki hafi borið árangur. Á árinu 2002 hafi hann selt [atvinnurekstur sinn] fyrir u.þ.b. 120.000.000 króna, en í dag eigi hann aðeins eftir um 11-15.000.000 króna, á banka­reikningum og í verðbréfum. Peningunum hafi hann að stórum hluta eytt í áfengi og aðra óráðsíu á meðan hann hafi verið að drekka. Þannig hafi hann frá því í febrúar 2005 eytt um 7.000.000 króna af einum bankareikningi, sem engin skýring sé fyrir. Hann hafi ekki skilað skattskýrslum undanfarin ár og eigi enn eftir að greiða skatt af sölu [atvinnurekstrarins]. Fyrir liggi að margra milljóna króna skatt­skuldir muni hvíla á fasteign fyrrverandi eiginkonu hans. Sjálfur eigi varnaraðili ekki fasteign og hafi að minnsta kosti til skamms tíma hafst við í leiguherbergi að [...]. Fyrir liggi að vísa eigi honum þar á dyr vegna hrikalegrar umgengni, ofdrykkju og óþrifnað, en ítrekað hafi komið fyrir að varnaraðili hafi gert þarfir sínar á göngum húsnæðisins og það án þess að þrífa saurinn upp eftir sjálfan sig. Sökum þessa og gríðarlegrar ofdrykkju síðla part ágústmánaðar hafi varnaraðili loks verið færður í afvötnun á deild 33A LHS, nær dauða en lífi. Þaðan hafi hann útskrifast um síðustu helgi og sé nú byrjaður að drekka á ný. Þar sem varnaraðili óttist mjög um líf föður síns, ef drykkjunni linnir ekki og að hann eyði nú síðustu fjármunum sínum, þannig að hann verði öðrum háður til frambúðar, ef ekki verði gripið fram fyrir hendur hans, sé krafist tímabundinnar fjárræðissviptingar.

III.

Af hálfu varnaraðila er því ekki mótmælt að hann sé alkóhólisti og að hann hafi verið mjög illa á sig kominn fyrir síðustu innlögn á deild 33A LHS. Þá sé því ekki mótmælt að hann hafi misfarið stórlega með fé sitt, en varnaraðili segir það þó ein­göngu gerast þegar hann sé undir áhrifum áfengis. Þegar svo sé ástatt um hann væri ágætt að þiggja einhvers konar aðstoð í fjármálum, en að öðru leyti sé honum treystandi fyrir eigin fé. Hann hafi aflað þess sjálfur og ráði hvernig hann verji því. Varnaraðili viðurkenni að hann hafi nú ekki talið fram til skatts í nokkur ár, en hann sé að fara að ganga í þau mál. Varðandi eyðslusemi sína undanfarna mánuði neiti hann því ekki að hafa bruðlað með um 7.000.000 króna, en að hans sögn hafi þó um 3.000.000 króna af þeirri fjár­hæð verið stolið undan kodda í leiguherbergi hans. Varnaraðili leggi engu að síður áherslu á frelsi sitt til að ráða hvernig hann fari með eigið fé og telur skilyrði b-liðar 4. gr. lögræðislaga ekki vera fyrir hendi í þessu máli.

Varnaraðila var gefinn kostur á að mæta í aðalmeðferð málsins í dag og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum. Samkvæmt upplýsingum frá verjanda mun varnaraðili hins vegar vera farinn að drekka á ný og því hafi verjanda ekki tekist að ná tal af honum. Verjandi hafi hins vegar rætt ítarlega við varnaraðila á meðan hann hafi verið edrú inni á deild 33A LHS og þar hafi ofangreind sjónarmið öll komið fram.

IV.

Af framlögðum gögnum og yfirlýsingum talsmanns sóknaraðila og verjanda varnar­aðila velkist dómurinn ekki í vafa um að varnaraðili eigi við mjög alvarlegt áfengis­vandamál að stríða, sem hann virðist ekki hafa vilja eða getu til að takast á við. Þrátt fyrir innlögn á deild 33A LHS nú nýlega mun varnaraðili vera fallinn aftur. Er sýnt, ef marka má frásögn hans sjálfs, að undir þeim kringumstæðum geti hann sólundað milljónum króna á tiltölulega skömmum tíma. Telur dómurinn þetta skýr merki um fullkomið ábyrgðarleysi varnaraðila í eigin fjármálum. Ekki bætir þar heldur úr skák að hann skuldar margar milljónir í ógreidda skatta, svo sem hann viðurkennir sjálfur, en að minnsta kosti hluti þess skatts getur fallið á fyrrverandi eiginkonu hans til greiðslu vegna samsköttunar hjóna. Eru það skuldir, sem konan hefur engar varnir gegn, ef varnaraðili verður ógjaldfær. Innsæisleysi varnaraðila er þannig svo alvarlegt og áfengisvandi hans slíkur að dómurinn telur fulla ástæðu til að verða við kröfu sóknaraðila eins og hún er sett fram. Því úrskurðast svo, en fjárræðissviptingin miðast við uppkvaðningu úrskurðar þessa.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga skal málskostnaður, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns og verjanda, greiðast úr ríkissjóði. Þykir þóknun til talsmanns hæfilega ákveðin 75.000 krónur og þóknun verjanda 50.000 krónur.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, [kt.], er sviptur fjárræði tímabundið í tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 75.000 króna þóknun Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs talsmanns sóknaraðila og 50.000 króna þóknun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda varnaraðila.