Hæstiréttur íslands

Mál nr. 110/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Þriðjudaginn 26. febrúar 2008.

Nr. 110/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Þormóður Skorri Steingrímsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hafnað var kröfu um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. febrúar 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert, á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Sóknaraðili krefst þess að ofangreind krafa hans verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Kærði hefur við yfirheyrslur játað hlut sinn í innflutningi fíkniefna og hefur sóknaraðili ekki byggt kröfu sína um áframhaldandi gæsluvarðhald á rannsóknarhagsmunum. Fallist er á með héraðsdómara að sóknaraðili hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að hlutur varnaraðila í hinum ætluðu brotum sé slíkur að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurðar því staðfestur.

Kærumálskostnaðar verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                      Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. febrúar 2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krefst þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. 06[...], [heimilisfang], Hafnarfirði, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. apríl 2008, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir:

Að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á 4.639,5 g af amfetamíni og 594,70 g af kókaíni, sem fannst við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins Z við húsakynni Y á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. en hin ætluðu fíkniefni komu í kassa frá Þýskalandi.

Þá höfðu lögreglu borist upplýsingar um að starfsmaður Z flutningsþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli hafi m.a. séð um að halda ákveðinni leið fyrir innflutning fíkniefna opinni, sem grunur lék á að væri A kt. [...], yfirmaður á gólfi. Samkvæmt upplýsingunum hafði þessi innflutningsleið verið notuð áður og stóð til að nota hana aftur.

Dagana 7.-11. janúar sl. bárust lögreglu áreiðanlegar upplýsingar um að nota ætti þessa sömu leið aftur, það er að flytja fíkniefni til Íslands með Z flutningsfyrirtækinu. Voru sendingarnar taldar vera 3 talsins og hver þeirra átti að innihalda 3 kíló af kókaíni og þær áttu að vera sendar hver á eftir annarri og næsta sending færi ekki af stað fyrr en sú fyrri væri komin í gegn. Á mánudagskvöldið 14. janúar sl. bárust lögreglu svo upplýsingar að X, kt. [...], hefði móttekið vörusendingu hjá Z við Þ í Hafnarfirði rétt fyrir hádegi sama dag. Er lögregla kannaði með vörusendingar sem afhentar voru á mánudeginum var engin slík skráð á X.

Í þágu rannsóknar málsins handtók lögregla þann 23. og 24. janúar sl. fimm aðila og m.a. kærða, B, kt. [...], og ofangreindan A sem allir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá þeim tíma á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þá handtók lögregla C, kt. [...] þann 30. janúar sl. og hefur hann setið í gæsluvarðhaldi frá 31. janúar sl. vegna sterks gruns lögreglu um vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna hingað til lands og að vera sá aðili sem hefði séð um að skipuleggja innflutninginn með því að nota leið með flutningsþjónustu Z en Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð dómsins um að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 7. mars nk. Er nánar vísað til gagna málsins.

Rannsókn máls þessa er í fullum gangi og miðar áfram. Unnið er að rannsókn málsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og bíður m.a. upplýsinga erlendis frá varðandi þann samskiptamáta sem kærði hefur lýst fyrir lögreglu að notaður hefur verið við skipulag innflutning fíkniefnanna hingað til lands. Þá  telur lögregla að ljóst sé að umfang þess innflutnings sem farið hefur í gegnum hraðflutningaþjónustuna Z á síðustu mánuðum og árum sé mikið og rannsókn á því hverjir hafi fjármagnað innflutninginn og móttekið hin ætluðu fíkniefni í fullum gangi. Lögregla hefur unnið hörðum höndum að skoðun á þeim tölvubúnaði sem haldlagður var í málinu með það að markmiði að finna samskipti milli hinna kærðu og hefur haft nokkuð erindi sem erfiði en örðugt hefur verið að finna þau gögn og það tekið mikinn tíma. Þá hefur mikil vinna verið lögð í úrvinnslu banka- og símagagna sem lögregla hefur aflað og stendur hún enn yfir. Sem stendur hafa ekki öll gögn borist lögreglu erlendis frá en munu berast á næstunni. Rannsókn málsins er umfangsmikil og verður flýtt eftir föngum.

Kærði þykir vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 24. janúar sl. Meint aðild kærða þykir mikil en hann er talin tengjast skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefnanna. Einnig er lagt til grundvallar að um er að ræða mjög mikið magn hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þykir að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þykir mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þykir þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar en telja verður að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þykir sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hefur fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Er ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og er talið að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og má ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr.103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.

Niðurstaða:

Fallast má  að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi með fyrrgreindri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sem varðað getur allt að tíu ára fangelsi. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn, með þeim gögnum sem nýtur við í málinu, ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að hlutur kærða í málinu sé slíkur að áframhald gæsluvarðhalds yfir honum megi telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því ekki næg efni til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður gæsluvarðhaldskröfu sóknaraðila því hafnað.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu um að kærði, X, sæti gæsluvarhaldi er hafnað.