Hæstiréttur íslands

Mál nr. 136/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 15

 

Miðvikudaginn 15. mars 2006.

Nr. 136/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Gizur Bergsteinsson hdl.)

 

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Ekki voru talin skilyrði til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málsatvik eru greind í hinum kærða úrskurði. Eins og þar segir er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa veitt nafngreindum manni stungusár með hníf. Meðal gagna málsins er mynd af litlum vasahníf sem grunur leikur á að hafi verið notaður við árásina. Má af henni ráða að hnífur þessi sé með 4 til 5 sm löngu blaði. Í læknisvottorði sem fyrir liggur í málinu um áverka á brotaþola er sárum hans svo lýst að á höku hafi hann haft grunnt sár 1,5 sm að lengd, á vinstri síðu sár 3 sm að lengd, á brjóstbaki grunnt sár 2,5 sm að lengd og tvö önnur sár 2 sm að lengd og loks sár á mjóbaki 1,5 sm að lengd. Þá er þess getið að öll sárin samrýmist áverkum eftir eggvopn og að þau hafi verið staðdeyfð og saumuð. Af framangreindri lýsingu verður hvorki séð að atlaga sú sem kærði er grunaður um né áverkar þeir sem um ræðir hafi verið þess eðlis að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan í Reykjavík hafi nú til rannsóknar tilraun til manndráps eða eftir atvikum sérstaklega hættulega líkamsárás sem hafi átt sér stað í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 5. mars sl.  Kærði liggi undir sterkum grun um að hafa umrætt sinn veitt A, [kt.], fimm stunguáverka á bol, þrjá hægra megin, einn á vinstri síðu og einn á mjóbak.   

                Samkvæmt vottorði Steinunnar Hauksdóttur, deildarlæknis á slysa- og bráðadeild, hafi A reynst vera með fimm stungusár á bol þegar hann kom á deildina. Hafi þrjú sár verið hægra megin, eitt á vinstri síðu og eitt á mjóbaki.

                Lögreglu hafi verið tilkynnt um atvikið kl. 5:34 aðfaranótt 5. mars sl. Er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi þeir haft tal af A sem hafi verið alblóðugur á baki og er lögreglumenn hafi hugað að honum hafi þeir séð að hann var með þrjú sár á baki sem blæddi úr. A hafi í skyndi verið fluttur á slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi. Á vettvangi hafi lögreglumenn hitt B sem hafi tjáð þeim að kærði hafi sagt henni að hann hafi stungið mann og hafi sýnt henni vasahníf.  Strax hafi verið gerðar ráðstafanir til að hafa upp á kærða og hann verið handtekinn stuttu síðar í bifreið sinni fyrir utan heimili hans.

                Kærði hafi viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa lent í átökum við A inni á veitingahúsinu [...]. Til átaka hafi komið eftir að út úr veitingahúsinu var komið og hafi fleiri en þeir komið þar við sögu. Átökin hafi borist  inn í port sunnan við veitingahúsið. Kærði hafi síðan séð A fara út um hlið sem sé inn í portinu og segist hafa elt hann. Kærði hafi spurt A hvort hann myndi eftir honum og hafi A þá slegið hann í andlitið. Kærði hafi svarað í sömu mynt og hafi komið til frekari átaka milli þeirra. Kærði kveðist hafa tekið upp hníf sem hann hafi verið með í vasa sínum og stungið A tvisvar með hnífnum en útiloki ekki að hann hafi stungið hann oftar. Kærði segist hafa áttað sig á hvað hann hefði gert og farið að bifreið sinni sem hann hafði lagt vestan við [...]. Hann hafi hitt þar B og sagt henni frá slagmálunum og að hann hefði óvart stungið mann. Telji hann að B hafi séð hnífinn. Félagar hans tveir hafi síðan komið að bifreiðinni og hann ekið henni í burtu. B hafi borið að hún hafi rætt við kærða við bifreið hans og hafi hann margendurtekið að hann hafi stungið mann og að hann hafi gert það sex sinnum.  Hafi hún séð að kærði var með hnífinn í höndunum. C var með B umrætt sinn og kveðist hún hafa heyrt kærða segja að hann hafi stungið “gaur” og hafi hún séð að kærði var með hníf í hendi.  

            Kærði hafi með úrskurði héraðsdóms þann 5. þ.m. verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Rannsókn málsins sé vel á veg komin og sé staða rannsóknarinnar þannig að ekki sé talin þörf á að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Reynt verði að ljúka rannsókn málsins svo fljótt sem verða megi og verði málið síðan sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar, sbr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála.

            Samkvæmt gögnum málsins sé sterkur grunur um að kærði hafi framið alvarlegt brot þar sem beitt hafi verið lífshættulegu vopni. Geti brotið samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðað allt að 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr., sömu laga, teljist sök sönnuð. Sé brot kærða þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tillit til almannahagsmuna að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.

            Kröfu þessari til stuðnings sé vísað til dóma Hæstaréttar nr. 563/2002, 268/2003, 44/2004, 331/2004, 521/2004, 396/2005  og 33/2006. Varðandi þau sjónarmið sem liggi til grundvallar gæsluvarðhaldi samkvæmt nefndu ákvæði skuli og bent á rit Evu Smith, Straffeproces, 1999, bls. 70.

                Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú ætlað brot kærða sem geti varðað við  211. gr., sbr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga eins og hún sé fram sett.

                Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú þann atburð er átti sér stað aðfararnótt 5. mars sl. í miðbæ Reykjavíkur er A hlaut fimm stunguáverka með hnífi. Um var að ræða þrjá stunguáverka hægra megin á bol, einn á vinstri síðu og einn á mjóbak.  Kærði liggur undir sterkum grun um að hafa valdið A þessum áverkum,  en hann hefur játað fyrir lögreglu að hafa stungið A tvisvar sinnum.  Brot þetta getur varðað við  211. gr. sbr. 20. gr. eða  2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Að því virtu að A hlaut áverka af völdum eggvopns og með hliðsjón af því hversu alvarleg sú háttsemi kærða er sem hann er sakaður um, teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.  Verður krafa lögreglu því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð :

                Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16:00.