Hæstiréttur íslands
Mál nr. 108/2001
Lykilorð
- Lögmaður
- Skaðabætur
- Innheimta
- Nauðungarsala
- Vextir
- Aðild
|
|
Þriðjudaginn 18. desember 2001. |
|
Nr. 108/2001. |
Jakob A. Traustason(sjálfur) gegn Hróbjarti Jónatanssyni Jónatan Sveinssyni Reyni Karlssyni og Almennu málflutningsstofunni sf. (Ólafur Axelsson hrl.) |
Lögmenn. Skaðabætur. Innheimta. Nauðungarsala. Vextir. Aðild.
J leitaði til lögmannsstofunnar A sf. í nóvember 1990 um að gæta hagsmuna hans vegna tveggja krafna, sem tilheyrðu honum. Fyrir báðum þessum kröfum hafði JP sett að veði fasteign sína með 10. veðrétti. Var fasteignin seld nauðungarsölu í júlí 1993 án þess að J fengi nokkuð greitt af söluverði hennar. J taldi að mistök og aðgerðaleysi lögmanna á lögmannsstofunni hafi leitt til þess að hann hafi ekki fengið kröfurnar greiddar. Vegna þessa höfðaði J mál á hendur A sf. og eigendum félagsins. Hæstiréttur taldi að J hafi í reynd falið A sf. verkið og lögmannsstofan jafnframt tekið það að sér, en báðir þá gengið út frá því að verkinu yrði sinnt þar af einhverjum einum eða fleiri lögmönnum, sem hver fyrir sig hefði nægilegt málflutningsumboð í því skyni og bæri þá ábyrgð á sínum þætti í verkinu ásamt málflutningsstofunni sem slíkri. Var kröfu lögmannsstofunnar og eigenda hennar um sýknu vegna aðildarskorts því hafnað. Hæstiréttur féllst á að annmarkar hafi verið á verki lögmannsstofunnar að því leyti að H lögmaður hafi krafist nauðungaruppboðs með beiðnum, sem hafi ekki verið rétt úr garði gerðar, og tafið framgang þess með því að afturkalla þær ekki og krefjast uppboðs að nýju. Jafnframt hafi lögmannsstofan vanrækt að leggja fram í þágu J nýjar beiðnir um nauðungarsölu haustið 1992. Aftur á móti hafi J ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna framangreindra atriða, og þá hvert það tjóni gæti verið. Þá taldi Hæstiréttur aðrar málsástæður J ekki leiða til þess að taka bæri til greina kröfu hans um skaðabætur. Voru lögmannsstofan og eigendur hennar því sýknuð af kröfu J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2001. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 8.257.740 krónur, en til þrautavara 2.166.633 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. júlí 1993 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
Málið var flutt skriflega eftir ákvörðun Hæstaréttar samkvæmt 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 15. gr. laga nr. 38/1994, en sú ákvörðun var tekin að fram kominni ósk áfrýjanda um þetta efni, sem stefndu hreyfðu ekki athugasemd við.
I.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði áfrýjandi til stefndu Almennu málflutningsstofunnar sf. í nóvember 1990 um að gæta hagsmuna hans vegna tveggja krafna, sem tilheyrðu honum. Var önnur þeirra samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 1.140.000 krónur, sem Ess hf. gaf út 10. júní 1990 til handhafa, en Ásgeir Svan Vagnsson, Egill Eyfjörð og Jörundur Pálsson gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Hin krafan var samkvæmt víxli að fjárhæð 3.100.000 krónur, útgefnum af Jörundi Pálssyni 25. júlí 1990 og ábektum af honum ásamt Guðrúnu Stefánsdóttur, en samþykktum til greiðslu af Ess hf. 10. ágúst 1990. Fyrir báðum þessum kröfum hafði Jörundur Pálsson gefið út tryggingarbréf 15. nóvember 1990 til handhafa, þar sem hann setti að veði fasteign sína að Kleppsvegi 86 í Reykjavík með 10. veðrétti. Í bréfinu var kveðið á um að selja mætti eignina á nauðungaruppboði án dóms eða aðfarar ef vanskil yrðu á skuldinni, sem það veitti tryggingu fyrir.
Með tveimur stefnum, sem voru gefnar út 16. janúar 1991, höfðaði stefndi Jónatan Sveinsson mál í nafni áfrýjanda til greiðslu fyrrgreindra krafna. Voru stefnurnar áritaðar um aðfararhæfi 19. febrúar sama árs. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að neitt hafi verið aðhafst frekar um innheimtu á kröfunum fyrr en 26. ágúst 1991, þegar fjárnám mun hafa verið gert fyrir þeim í fasteigninni að Kleppsvegi 86. Sama dag gerði stefndi Hróbjartur Jónatansson beiðnir í nafni áfrýjanda um nauðungaruppboð á fasteigninni. Í beiðnunum var vísað til fjárnáms sem heimild til að leita uppboðs. Á uppboðsþingi 8. október 1991 mótmælti uppboðsþoli að uppboð næði fram að ganga á grundvelli þessara beiðna. Var uppboðinu, sem fleiri veðhafar höfðu þó gert kröfu um, slegið á frest meðan leyst var úr þeim mótmælum. Þeim var hrundið með úrskurði uppboðsréttar Reykjavíkur 14. janúar 1992, en með dómi Hæstaréttar 29. september 1992, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1473, var fallist á þau. Sú niðurstaða var reist á því að endurrit fjárnámsgerða hefðu ekki fylgt uppboðsbeiðnunum, eins og mælt var fyrir um í 6. gr. þágildandi laga nr. 57/1949 um nauðungaruppboð. Eftir þetta leituðu stefndu ekki á ný nauðungarsölu á fasteigninni til fullnustu á kröfum áfrýjanda.
Að gengnum síðastnefndum dómi Hæstaréttar tók sýslumaður fyrir að byrja uppboð á fasteigninni 4. desember 1992. Þann dag var uppboðinu frestað til 28. sama mánaðar og fór það þá fram. Í lok uppboðsins var ákveðið að því yrði fram haldið á eigninni sjálfri 22. janúar 1993. Af því mun hins vegar ekki hafa orðið, þar sem ekki var mætt til uppboðsins af hálfu gerðarbeiðanda og nauðungarsalan felld af þeim sökum niður. Að þessu gerðu munu þrír veðhafar í fasteigninni hafa krafist nauðungarsölu á ný. Leiddu beiðnir þeirra til þess að uppboð byrjaði aftur á eigninni 16. júní 1993 og var því fram haldið 8. júlí sama árs. Við framhald uppboðsins átti fulltrúi stefndu hæsta boð í fasteignina fyrir hönd áfrýjanda, að fjárhæð 10.700.000 krónur. Stefndu halda því fram að árangurslaust hafi verið reynt að ná sambandi við áfrýjanda bæði fyrir og eftir þetta uppboð, meðal annars með því að senda símskeyti á lögheimili hans. Þegar það hafi ekki borið árangur hafi þeir ekki átt annars kost en að falla frá boðinu og sýslumaður þá ákveðið að taka næst hæsta boði í eignina, sem var að fjárhæð 10.600.000 krónur. Áfrýjandi staðhæfir á hinn bóginn að hann hafi veitt stefndu upplýsingar um ferðir sínar á umræddum tíma. Við uppboðið lögðu stefndu fram í nafni áfrýjanda kröfulýsingar í söluverðið, annars vegar vegna kröfunnar á grundvelli skuldabréfsins frá 10. júní 1990 og hins vegar vegna kröfunnar samkvæmt víxlinum, sem var í gjalddaga 10. ágúst sama árs. Var fyrrnefnda krafan þar sögð nema 2.333.035 krónum, en sú síðarnefnda 5.924.705 krónum. Í frumvarpi sýslumanns 28. júlí 1993 til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar var gert ráð fyrir að 906.716 krónur kæmu í hlut áfrýjanda til greiðslu upp í þessar kröfur. Ágreiningur reis milli áfrýjanda og tveggja annarra veðhafa í fasteigninni um þessa úthlutun. Lauk þeim ágreiningi með dómi Hæstaréttar 24. janúar 1994, sem er birtur í dómasafni þess árs á bls. 110. Leiddi niðurstaða dómsins til þess að ekkert kom í hlut áfrýjanda af söluverðinu.
Aðilum málsins ber ekki saman um hvernig samskiptum þeirra var háttað fyrir og eftir nauðungarsöluna. Áfrýjandi heldur því fram að stefndu hafi bæði veitt honum rangar upplýsingar og látið hjá líða að skýra honum frá ákvörðunum, sem hafi snert málið. Stefndu mótmæla þessu og fullyrða að áfrýjandi hafi sjálfur fylgst vel með gangi málsins og verið gerð grein fyrir lyktum þess um leið og samband hafi náðst við hann á árinu 1993. Af gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjandi hafi kvartað yfir fyrrgreindum störfum stefndu í sína þágu fyrr en haustið 1996.
II.
Með bréfi 13. september 1996 krafðist áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefnda Hróbjarts Jónatanssonar vegna mistaka og aðgerðaleysis við innheimtu á áðurnefndum kröfum hans. Stefndi hafnaði kröfunni með bréfi 17. sama mánaðar. Í framhaldi af því gerði hann áfrýjanda reikninga fyrir þóknun vegna innheimtu á kröfunum og útlögðum kostnaði. Af þessu tilefni kvartaði áfrýjandi yfir viðskiptum sínum við stefndu til Lögmannafélags Íslands. Stjórn félagsins tók afstöðu til erindis áfrýjanda með álitsgerð 25. mars 1997.
Að fengnu áliti stjórnar Lögmannafélags Íslands mun áfrýjandi í júní 1997 hafa höfðað mál á hendur stefndu, þar sem hann krafðist skaðabóta fyrir það tjón, sem hann taldi mistök þeirra og aðgerðaleysi hafa leitt til. Að frumkvæði áfrýjanda mun málið hafa verið fellt niður 24. nóvember 1997. Hann höfðaði aftur mál um sömu kröfu á hendur stefndu 24. júní 1998. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 1999 var málinu vísað frá héraðsdómi og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð með dómi 24. ágúst 1999, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3109. Samhliða þessu höfðaði stefnda Almenna málflutningsstofan sf. mál gegn áfrýjanda 10. júní 1997 til heimtu skuldar samkvæmt fyrrgreindum reikningum frá 3. október 1996. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 1998 var því máli vísað frá dómi. Áfrýjandi kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, en með dómi 8. maí 1998, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1793, var málinu vísað frá Hæstarétti. Hinn 3. nóvember 1998 höfðaði stefnda á nýjan leik mál á hendur áfrýjanda út af sama sakarefni. Lauk málinu með dómi Hæstaréttar 21. júní 2001, þar sem áfrýjandi var sýknaður á þeim grundvelli að krafa stefndu væri fyrnd.
III.
Í máli þessu krefst áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefndu á þeim grunni að mistök þeirra og aðgerðaleysi við innheimtu á þeim kröfum, sem áður er getið, hafi leitt til þess að þær fengust ekki greiddar. Áfrýjandi heldur því fram að stefndu hafi átt að sjá til þess að kröfurnar greiddust á sem skemmstum tíma með því að fasteignin að Kleppsvegi 86 yrði seld á nauðungaruppboði. Í stað þess að beiðast uppboðs á grundvelli tryggingarbréfsins frá 15. nóvember 1990, þar sem veðréttur var veittur í fasteigninni fyrir kröfum áfrýjanda, hafi stefndu höfðað mál til heimtu þeirra. Þegar stefndu hafi loks krafist uppboðs 26. ágúst 1991 hafi það verið gert á grundvelli fjárnáma, sem gerð voru fyrir kröfum áfrýjanda sama dag. Stefndu hafi láðst að láta endurrit fjárnámsgerðanna fylgja beiðnunum og uppboðsþoli af þeim sökum krafist þess að synjað yrði um framgang uppboðsins. Í stað þess að falla frá beiðnunum og leggja fram nýjar hafi stefndu haldið þeim til streitu. Þessi mistök stefndu hafi leitt til þess að rétthærri veðkröfur hafi hækkað vegna áfallandi vaxta meðan deilt var um gildi beiðnanna fyrir dómstólum. Eftir dóm Hæstaréttar 29. september 1992 hafi stefndu hvorki lagt fram nýjar beiðnir né haft önnur afskipti af málinu. Þannig hafi stefndu ekki mótmælt því að nauðungarsala færi fram á grundvelli upphaflegra beiðna annarra veðhafa, sem hafi lögum samkvæmt verið fallnar niður. Þetta hafi leitt til þess að rétthærri veðhafar hafi notið vaxta af kröfum sínum umfram það, sem rétt hefði verið eftir ákvæðum þágildandi laga nr. 23/1901 um forgangsrétt veðhafa fyrir vöxtum. Vegna þessa hafi rétthærri veðkröfur hækkað svo mjög að ekkert hafi komið í hlut áfrýjanda þegar eignin var loks seld nauðungarsölu 8. júlí 1993. Þá hafi stefndu látið hjá líða að tilkynna áfrýjanda um að uppboði á fasteigninni yrði fram haldið þann dag. Af þessum sökum hafi stefndu komið í veg fyrir að hann tryggði greiðslu krafna sinna með því að leysa eignina til sín. Jafnframt hafi stefndu gert öðrum veðhöfum grein fyrir því að þeir myndu verja kröfu áfrýjanda með því að bjóða í eignina allt að 18.800.000 krónur. Þetta hafi komið í veg fyrir að aðrir veðhafar byðu í eignina og leitt til tjóns fyrir áfrýjanda.
Krafa stefndu um staðfestingu héraðsdóms er aðallega reist á því að þá beri að sýkna vegna aðildarskorts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Að auki halda stefndu fram að áfrýjandi hafi upphaflega óskað eftir því að stefndi Hróbjartur Jónatansson fylgdist með afdrifum beiðna, sem þá voru komnar fram um nauðungaruppboð á fasteigninni að Kleppsvegi 86, og lýsti kröfu í uppboðsandvirðið ef til þess kæmi. Sökum tengsla við uppboðsþolann hafi áfrýjandi ekki viljað að stefndi krefðist uppboðs í hans nafni. Þegar málið hafi dregist á langinn hafi aftur á móti verið ákveðið að beiðast uppboðs í nafni áfrýjanda. Uppboðsþoli hafi hins vegar mótmælt kröfunni og borið ágreininginn undir dómstóla. Vegna þessa hafi orðið tafir á uppboðinu án þess að við stefndu sé að sakast. Að gengnum dómi Hæstaréttar 29. september 1992 hafi sýslumaður ákveðið að nauðungarsala færi fram 4. desember sama árs, en í samræmi við vilja áfrýjanda hafi stefndu ekki krafist nauðungarsölu í hans nafni. Af ástæðum óviðkomandi stefndu hafi enn orðið tafir á að nauðungarsala færi fram, en að endingu orðið af því 8. júlí 1993. Fyrir þann tíma hafi árangurslaust verið reynt að ná tali af áfrýjanda. Í samræmi við óskir áfrýjanda hafi verið boðið í eignina, en síðan verið óhjákvæmilegt að falla frá boðinu þegar ekki hafi náðst í hann. Þannig beri áfrýjandi einn sök á hugsanlegu tjóni sínu.
IV.
Áfrýjandi hefur engin haldbær rök fært fyrir aðalkröfu sinni um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og heimvísun málsins. Verður kröfunni samkvæmt því hafnað.
Svo sem áður greinir leitaði áfrýjandi í nóvember 1990 eftir þjónustu lögmanns til innheimtu á þeim kröfum, sem um ræðir í málinu. Þótt ætla verði af því, sem fram er komið, að áfrýjandi hafi þá borið þetta erindi sitt upp við stefnda Hróbjart Jónatansson, þar sem hann var við störf hjá Almennu málflutningsstofunni sf., verður að líta til þess að verkið, sem áfrýjandi vildi fá leyst af hendi, var í eðli sínu einfalt. Er ekkert í málinu, sem bent gæti að öðru leyti til þess að áfrýjandi hafi gagngert ætlast til að þessi stefndi sinnti verkinu í einu og öllu sjálfur. Verður og að líta til þess að aðrir lögmenn, sem störfuðu við málflutningsstofuna, komu jafnframt að einstökum þáttum í þessu verki, en af gögnum málsins er sýnt að áfrýjanda hafi að minnsta kosti að einhverju leyti verið þetta ljóst. Að verki loknu var gerður reikningur fyrir því á hendur áfrýjanda í nafni Almennu málflutningsstofunnar, en ekki neins ákveðins lögmanns, sem þar starfaði. Að þessu gættu verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi í reynd falið Almennu málflutningsstofunni sf. verkið og hún jafnframt tekið það að sér, en báðir þá gengið út frá því að verkinu yrði sinnt þar af einhverjum einum eða fleiri lögmönnum, sem hver fyrir sig hefði nægilegt málflutningsumboð í því skyni og bæri þá ábyrgð á sínum þætti í verkinu ásamt málflutningsstofunni sem slíkri. Fallist verður á með héraðsdómara að Almennu málflutningsstofuna sf., sem áfrýjandi fól þetta verk í upphafi, megi skoða sem sömu persónu að lögum og þá, sem ber sama heiti og er stefnt í máli þessu. Fyrir liggur í málinu að stefndu Hróbjartur Jónatansson, Jónatan Sveinsson og Reynir Karlsson séu sameigendur að hinu stefnda félagi og beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess. Samkvæmt þessu verður enginn af stefndu sýknaður í málinu vegna aðildarskorts.
Varakrafa og þrautavarakrafa áfrýjanda eru sem fyrr segir reistar á því að stefndu hafi gert mistök og sýnt af sér aðgerðaleysi við innheimtu á kröfum hans og þannig valdið því að þær hafi ekki fengist greiddar. Í málinu greinir aðilana meðal annars á um það með hvaða hætti stefndu hafi borið að gæta hagsmuna áfrýjanda vegna þeirra krafna, sem voru tryggðar með 10. veðrétti í fasteigninni Kleppsvegur 86 í Reykjavík. Í erindi áfrýjanda til Lögmannafélags Íslands 30. október 1996 kvaðst hann hafa afhent stefnda Hróbjarti Jónatanssyni skuldabréfið og víxilinn, sem áður er getið, og tekið það sérstaklega fram að hann óskaði aðeins eftir því að stefndi „fylgdist með uppboðsmeðferð þeirri, sem þegar var hafin á eigninni Kleppsvegi 86 og setti inn kröfulýsingu í uppboðsandvirðið þegar og ef til lokauppboðs kæmi.“ Hafi skuldarar samkvæmt framangreindum viðskiptabréfum farið fram á greiðslufrest og veitt þess vegna tryggingu fyrir þeim með fasteignaveði svo ekki þyrfti að beita innheimtuaðgerðum að svo stöddu. Hafi stefnda Hróbjarti verið fullkunnugt um vilja áfrýjanda til að sýna biðlund og harðar innheimtuaðgerðir af hans hálfu „ástæðulausar og óæskilegar“ á þessu stigi. Af þessari lýsingu atvika er áfrýjandi bundinn, þótt hann hagi henni nú í ýmsum atriðum á annan veg. Samkvæmt því verður ekki litið svo á að stefndu hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu með því að hefja ekki aðgerðir við innheimtu á kröfum áfrýjanda fyrr en raun varð á.
Málatilbúnaður áfrýjanda er sem fyrr greinir öðrum þræði reistur á því að stefndi Hróbjartur hafi gert mistök með því að krefjast nauðungaruppboðs með beiðnum, sem hafi ekki verið rétt úr garði gerðar, og tafið framgang þess með því að afturkalla þær ekki og krefjast uppboðs að nýju. Enn fremur hafi stefndi vanrækt að leggja fram í þágu áfrýjanda nýjar beiðnir um nauðungarsölu eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar gekk 29. september 1992. Fallast má á með áfrýjanda að í þessum atriðum hafi verið annmarkar á verki stefnda, sem hafi meðal annars valdið verulegum töfum á framgangi nauðungaruppboðs og síðar nauðungarsölu. Af slíkum töfum var augljós hætta á að kröfur, sem stóðu framar kröfum áfrýjanda í röð veðréttinda í fasteigninni að Kleppsvegi 86, myndu hækka og rýra að sama skapi tryggingarréttindi hans. Til þess verður hins vegar að líta að áfrýjandi hefur ekki lagt fram nein haldbær gögn um hvert hafi verið verðmæti fasteignarinnar eða samanlögð fjárhæð rétthærri veðskulda á einhverjum þeim tíma, sem unnt hefði verið að ná fram nauðungaruppboði eða nauðungarsölu á henni ef engra mistaka hefði gætt. Að þessu athugðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni, sem stefndu gætu borið ábyrgð á vegna framangreindra atriða, og þá hvert það tjón gæti verið.
Varakrafa áfrýjanda er enn fremur reist á því að hann hefði fengið kröfur sínar að fullu greiddar ef stefndu hefðu sinnt því að tilkynna honum um boð í nafni hans á uppboði 8. júlí 1993 og honum þannig gefist kostur á að eignast fasteignina að Kleppsvegi 86. Þessu til stuðnings vísar áfrýjandi til þess að fasteignasali hafi talið markaðsverð eignarinnar vera um 20.000.000 krónur í byrjun árs 1993. Sem fyrr segir var fasteignin seld við uppboðið 8. júlí 1993 á 10.600.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins gerði veðhafi, sem þar keypti eignina, á henni nokkrar endurbætur og virðist hafa selt hana aftur á árinu 1994 fyrir 14.200.000 krónur. Í fyrirliggjandi yfirliti, sem mun stafa frá þeim veðhafa, kemur fram að hagnaður hans af þessum viðskiptum hafi þegar upp var staðið orðið 118.523 krónur án þess að tillit væri tekið til vaxtakostnaðar. Áfrýjandi hefur ekki með matsgerð eða á annan viðhlítandi hátt sýnt fram á að hann hefði sjálfur getað hagnast með kaupum á eigninni frekar en sá, sem keypti hana við nauðungarsöluna. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu áfrýjanda.
Með vísan til þess, sem að framan greinir, og með því að áfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir öðrum málsástæðum, sem hann heldur fram til stuðnings varakröfu sinni, verður henni hafnað.
Um þrautavarakröfu áfrýjanda er þess að gæta að ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að nauðungaruppboði á fasteigninni að Kleppsvegi 86 hafi í heild verið frestað 8. október 1991, þegar uppboðsþoli mótmælti framgangi þess vegna annmarka á uppboðsbeiðnum stefnda Hróbjarts Jónatanssonar í þágu áfrýjanda, og allt þar til ágreiningur um þetta hafði verið leiddur til lykta með dómi Hæstaréttar 29. september 1992. Eftir gildistöku laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu 1. júlí 1992 bar sýslumanninum í Reykjavík að fara með þetta uppboð sem nauðungarsölu, sbr. 3. mgr. 95. gr. laganna, og hefja aftur aðgerðir við hana af sjálfsdáðum að gengnum nefndum dómi, sbr. 5. mgr. 22. gr. þeirra. Svo sem áður greinir fylgdi sýslumaður þessum lagafyrirmælum, enda byrjaði hann uppboð á fasteigninni 28. desember 1992 samkvæmt reglum V. kafla laga nr. 90/1991 að undangenginni ákvörðun um það 4. sama mánaðar. Með þessu héldu fyrirliggjandi beiðnir um nauðungaruppboð, sem borist höfðu í tíð eldri laga, gildi sínu sem beiðnir um nauðungarsölu, enda var þeim fylgt fram svo tímanlega, sem áskilið var í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 2. mgr. 27. gr. sömu laga. Þótt nauðungarsalan hafi síðan sem fyrr segir fallið niður 22. janúar 1993, var á ný leitað nauðungarsölu á fasteigninni langt innan þeirra fresta, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1991, enda var fasteignin seld að endingu 8. júlí 1993. Af þessum sökum glötuðu þeir veðhafar, sem stóðu framar áfrýjanda í veðröð og höfðu haldið kröfum sínum fram við nauðungaruppboðið á fasteigninni og síðan fyrri og síðari nauðungarsölu hennar, ekki þeim forgangsrétti til vaxta, sem þeir nutu samkvæmt ákvæðum laga nr. 23/1901. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að nokkur annar en þeir, sem þetta gæti átt við um, hafi fengið úthlutað af söluverði fasteignarinnar greiðslu á vöxtum, sem réttur stóð ekki til samkvæmt síðastnefndum lögum. Verður jafnframt að líta til þess að í áðurgreindu máli, sem dæmt var í Hæstarétti 24. janúar 1994, var að nokkru marki leyst úr því hvort áfrýjandi gæti fengið kröfu rétthærri veðhafa lækkaða á þeim forsendum, sem hér um ræðir, og var því hafnað. Eru því engin efni til að fallast á þrautavarakröfu hans.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Eftir þessum úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Jakob A. Traustason, greiði stefndu, Hróbjarti Jónatanssyni, Jónatan Sveinssyni, Reyni Karlssyni og Almennu málflutningsstofunni sf., hverjum fyrir sig 75.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jakob A. Traustasyni, kt. 180846-2049, Barónsstíg 3, Reykjavík, á hendur Hróbjarti Jónatanssyni hrl., kt. 270458-5649, Ljárskógum 6, Reykjavík, Jónatan Sveinssyni hrl., kt. 180234-7569, Deildarási 16, Reykjavík, Reyni Karlssyni hrl., kt. 220356-5239, Logafold 102, Reykjavík, Leifi Árnasyni hdl., kt. 121262-6579, Vesturási 26, Reykjavík, og Almennu málflutningsstofunni sf., kt. 460886-1399, kringlunni 6, Reykjavík, með stefnu sem birt var 15. og 17. febrúar 2000.
Dómkröfur stefnanda eru aðalega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða honum skaðabótakröfu að fjárhæð 8.257.740 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af sömu fjárhæð frá 8. júlí 1993 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða honum skaðabótakröfu að fjárhæð 2.166.633 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af sömu fjárhæð frá 8. júlí 1993 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati réttarins.
Dómkröfur stefndu eru að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og að honum verði jafnframt gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum þannig: Í nóvember 1990 tóku stefndu að sér að gæta hagsmuna stefnanda á grundvelli tryggingarbréfs með veði að fjárhæð 1.140.000 krónur og 3.100.000 krónur í fasteigninni Kleppsvegur 86, eign Jörundar Pálssonar. Tryggingabréfið var útgefið 15. nóvember 1990 og innihélt ákvæði um að ganga mætti að veðinu án dóms eða aðfarar. Uppboðsmeðferð hafði byrjað í ágúst 1990 um eignina fyrir tilstilli SPRON og Sparisjóðs vélstjóra. Um var að ræða hefðbundna uppboðsmeðferð sem féll undir þágildandi lög um nauðungaruppboð nr. 57/1949. Áttu stefndu að sjá til þess að stefnandi fengi kröfur sínar greiddar ásamt tilheyrandi vöxtum á eins skömmum tíma og mögulegt væri og með nauðungarsölu ef ekki vildi betur. Fasteignin að Kleppsvegi 86 var að mati fasteignasala að söluverðmæti 20.000.000 króna. Áhvílandi veðkröfur á undan kröfum stefnanda voru hins vegar „framreiknaðar með dráttarvöxtum og lögfræðikostnaði, samtals liðlega kr. 7.000.000."
Þó að stefndu tækju að sér hagsmunagæsluna báðu þeir ekki þegar í stað um uppboð á grundvelli tryggingarbréfsins. Þann 26. ágúst 1991, nærri ári síðar, sendu stefndu loksins inn uppboðsbeiðnir og þá á grundvelli fjárnáma sem dagsett voru þann sama dag. Uppboðsbeiðnunum, þannig útfylltum, fylgdi ljósrit af tryggingarbréfinu. Fjárnám þessi voru hins vegar reist á stefnum sem stefndu höfði áður upp á sitt eindæmi látið birta og fengið áritað um aðfararhæfi 19. febrúar 1991.
Þá mættu stefndu ekki heldur við neinar fyrirtökur í uppboðsmálinu fram að 8. október 1991 og gerðust þannig sekir um útivistir, ásamt að vinna ekki að málinu, með þeim afleiðingum að ekki varð af lokasölu eignarinnar, sem hefði í síðasta lagi átt að fara fram á uppboði í maí 1991, ef stefndu hefðu unnið rétt að málinu.
Þann 8. október 1991, er fyrir var tekið að halda annað og síðara nauðungaruppboð á fasteigninni, var framgangi uppboðsins mótmælt af uppboðsþola á þeim forsendum að uppboðsbeiðnir stefndu fyrir stefnanda uppfylltu ekki lagaskilyrði. Stefndu bættu ekki úr þessum ágöllum, en héldu þess í stað uppboðsbeiðnunum til streitu. Þannig urðu þeir valdir að málarekstri, bæði fyrir uppboðsrétti og Hæstarétti Íslands. Hæstiréttur staðfesti með dómi 29. september 1992 að ekki hefði verið gerð grein fyrir uppboðsheimild með réttum hætti og ekki hefðu þau skjöl fylgt er sönnuðu hana.
Þegar ljóst var að uppboðsbeiðnir stefndu voru ekki tækar í uppboðsréttinn settu stefndu ekki inn nýjar uppboðsbeiðnir og mótmæltu ekki heldur þegar sýslumaður ákvað 10. nóvember 1992 að byrjun uppboðs færi fram í desember 1992 á grundvelli upphaflegra uppboðsbeiðna annarra veðhafa. Stefndu mættu ekki við fyrirtökur í málinu til að mótmæla þar m.a. að upphaflegri uppboðsmeðferð yrði haldið áfram eða til að krefjast þess að hafin yrði ný uppboðsmeðferð á grundvelli nýrra beiðna frá þeim, í ljósi þess að allar fyrri uppboðsbeiðnir voru lögum samkvæmt fallnar niður. Einnig var forgangur til vaxta skv. eldri beiðnunum fallinn niður, umfram það sem heimilt er skv. ákv. laga nr. 23/1901. Jafnframt þessu hættu stefndu einnig, fyrirvaralaust, öllum öðrum afskiptum af viðkomandi uppboðsmáli eftir áðurgreindan dóm Hæstaréttar og mættu ekki við neinar fyrirtökur í málinu eftir það, allt án vitundar stefnanda og án þess að segja sig frá verkinu og gáfu þeir stefnanda þannig engan kost á að ráða sér annan lögmann til að annast áframhald hagsmunagæslunnar. Afleiðingar þessara útivista stefndu urðu m.a. þær að aflýst var framhaldsuppboði, sem halda átti 22. janúar 1993. Þá settu stefndu ekki heldur inn uppboðsbeiðnir eftir að uppboðinu, 22. janúar 1993, hafði verið aflýst.
Vegna vanrækslu og útivista stefndu varð ekki af uppboðssölu eignarinnar innan þess tíma að veðið, er áður tryggði kröfur stefnanda, næði lengur því marki.
Ákvílandi veðkröfur á undan kröfum stefnanda hækkuðu vegna áfallandi vaxta á þeim langa tíma sem leið, fyrst vegna mistaka, trassaskapar og útivista stefndu í upphafi hagsmunagæslunnar, og síðan sökum þess að stefndu reyndu að byggja uppboðsbeiðnir á fjárnámum ásamt óæskilegum málarekstri samfara því.
Eftir að framhaldsuppboðið, sem halda átti 22. janúar 1993, féll niður sökum útivista stefndu bað Sparisjóður vélstjóra að nýju um nauðungarsölu 9. febrúar 1993. Stefndu komu þar hvergi nærri, þó svo að þeir sendu stefnanda bréf þess efnis að krafist hefði verið nauðungarsölu á nýjan leik. Fasteignin var síðan seld við nauðungarsölu þann 8. júlí 1993. Stefndu áttu þar hæsta boðið í eignina f.h. stefnanda 10.700.000 krónur. Þó svo að stefnandi væri alltaf tiltækur þá tilkynntu stefndu honum hvorki um þetta boð né uppboðið sjálft og gerðu ekkert til þess að stefnandi fengi staðið við fyrrgreint boð. Eignin var því seld næsthæsta bjóðanda á 10.600.000 krónur.
Uppboðsmeðferð, sem hófst í ágúst 1990, var þannig ekki til lykta leidd fyrr en tæpum þrem árum síðar og þá þannig að ekkert fékkst greitt upp í kröfur stefnanda. Samkvæmt frumvarpi að úthlutun uppboðsandvirðisins, dagsettu 28. júlí 1993, áttu að komu í hlut stefnanda 906.716 krónur. Uppboðsbeiðandi, Sparisjóður vélstjóra, mótmælti hins vegar frumvarpinu og hélt því fram að hann ætti rétt á þessari fjárhæð vegna forgangskröfu hans til vaxta. Var rekið um þennan ágreining sérstakt dómsmál fyrir héraðsdómi og Hæstarétti Íslands. Í dómi Hæstaréttar þann 24. janúar 1994, var krafa sjóðsins tekin til greina, en með því féll niður greiðsla til stefnanda af uppboðsandvirðinu. Vaxtakrafan sem málarekstur þessi spratt af átti alfarið rætur að rekja til vanrækslu stefndu við hagsmunagæsluna.
Þá létu stefndu einnig hjá líða að yfirfara frumvarp sýslumanns að úthlutun söluandvirðis eignarinnar en skv. frumvarpinu var gert ráð fyrir of miklum greiðslum til þeirra kröfuhafa sem voru framar í veðröðinni en stefnandi. Fyrir þessar sakir fékk stefnandi ekki heldur úthlutað 2.166.633 krónum af söluandvirði eignarinnar eftir uppboðssöluna þann 8. júlí 1993.
Þá unnu stefndu gegn hagsmunum stefnanda með því að gera síðari veðhöfum það fyllilega ljóst, er leið að uppboðinu þann 8. júlí 1993, að þeir myndu verja alla kröfu stefnanda og jafnframt sögðu stefndu þessum veðhöfum að uppboðsverðið þyrfti að vera að minnsta kosti 18.800.000 svo aðrir uppboðskaupendur kæmu til álita.
Að sögn stefndu höfðu síðari veðhafar ekki áhuga á að bjóða yfir þessa upphæð til að verja kröfur sínar og lauk því uppboðinu er fulltrúi þeirra bauð 10.700.000 í eignina. Til þessa höfðu stefndu ekkert umboð. Þá viðurkenna stefndu sjálfir í greinargerð til LMFL að þeim hafi orðið á alvarleg mistök við uppboðsmeðferðina.
Stefndu hafa gefið stefnanda ýmist rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum um málsmeðferð þá sem stefndu ákváðu að viðhafa við hagsmunagæsluna. Engin skilagrein kom frá stefndu vegna málaloka og engin krafa kom heldur frá stefndu um greiðslu kostnaðar vegna málsins. Ítrekaðar fyrirspurnir stefnanda um afdrif málsins voru ýmist árangurslausar eða röngu til svarað.
Þann 13. ágúst 1996 ritaði stefnandi stefndu bréf og spurðist fyrir um afdrif veðkrafa sinna. Einnig krafðist hann upplýsinga og gagna varðandi hagsmunagæsluna. Stefndu svöruðu ekki þessu erindi þrátt fyrir ítrekun. Í kjölfar þessa, þann 13. september sama ár, krafðist stefnandi í bréfi skaðabóta úr hendi stefndu. Þá svöruðu stefndu loksins bréfum og fyrirspurnum stefnanda með bréfi, dags. 17. september 1996. Eftir þetta, eða þann 3. október 1996, sendu stefndu stefnanda reikning fyrir umrædda hagsmunagæslu. Þann 28. október 1996, sendi stefnandi stefndu bréf vegna þessarar innheimtu ásamt því að senda síðar ítrekun.
Í framhaldi þessara bréfaskrifa bar stefnandi viðkomandi hagsmunagæslu undir Lögmannafélag Íslands með greinargerð, dags. 30. október 1996, og óskaði jafnframt eftir áliti félagsins. Stefndu skiluðu greinargerð til félagsins vegna málsins, þann. 17. nóvember 1996. Í framhaldi sendi LMFÍ málsaðilum álitsgerð sem samþykkt var á fundi stjórnar félagsins, þann 25. mars 1997, en þar kom m.a. fram að stjórn félagsins taldi það ekki vera á valdssviði sínu að leggja mat á umkvartanir stefnanda, sbr. t.d. töluliði 9, 10 og 11 í áliti hennar. Stjórnin gaf það þó ótvírætt í skyn að hún telur ábyrgð lögmanna ríka í sambærilegum tilvikum og hér um ræði. Í álitinu er einnig vísað til ríkrar ábyrgðar lögmanna varðandi ákveðna mikilvæga þætti sem stefnandi byggði umkvörtun sína á til félagsins. Hins vegar var ekki hægt að sjá það af álitsgerðinni að stjórnin hefði tekið tillit til þess að stefndu var falin hagsmunagæslan á grundvelli tryggingarbréfs með beinni uppboðsheimild án dóms eða aðfarar og að bréf þetta var þá nýútgefið. Þá var í álitinu ekki heldur tekið tillit til þess að síðari veðhafar gátu ekki komið fram uppboði á eigninni vegna þeirra málaferla sem rekin voru vegna uppboðsbeiðna stefndu né var þar tekið tillit til þess langa tíma sem þannig var eytt í það að láta reyna á fyrir dómstólum hvort uppboðsbeiðnir, sem ekki voru gerðar skv. laganna hljóðan, væru tækar í uppboðsréttinn. Þá fór stjórn Lögmannafélagsins rangt með það í síðasta málslið 4. mgr. 6. töluliðar álitsins að skort hafi upplýsingar um dvalarstað stefnanda er uppboðið 8. júlí fór fram. Þetta tók stjórnin beint upp úr bréfi stefndu til félagsins án nokkurra sannana þar um og gagnstætt því, sem stefnandi hélt fram í erindi sínu til félagsins. Stjórnin sagði þó að hún gæti ekki lagt mat á það í ljósi þess sem þá lá fyrir af gögnum hvort stefndu hefðu brugðist stefnanda að þessu leyti. Þá taldi stjórn félagsins að gera mætti ríka kröfu til lögmanna um hagsmunagæslu þeirra við nauðungarsölur, sérstaklega þegar vafi kynni að leika á því að uppboðsandvirðið hrykki til greiðslu veðkröfu umbjóðandans. Þá kom fram í álitsgerðinni, að mat stjórnar LMFÍ sé það að full ástæða hafi verið fyrir stefndu að fá nauðungarsölu-meðferðinni flýtt svo sem kostur var og að stefndu hafi ekki getað haft áhrif á meðferð nauðungarsölunnar nema með því að senda inn nauðungarsölubeiðni f.h. stefnanda. Segir svo orðrétt í stefnu:
Með stefnu birtri þann 19. júní 1997 höfðaði stefnandi mál, nr. E-3143/1997, á hendur stefndu til greiðslu skaðabóta af sömu ástæðum og í þessu máli. Það mál var síðar fellt niður eftir þó nokkrar fyrirtökur og marga fresti. Með stefnu birtri þann 24. júní 1998 höfðaði stefnandi aftur mál, nr. E-3322/1998, á sömu aðila og af sömu ástæðum. Því máli var vísað frá dómi, þann 24. ágúst 1999, eftir margar fyrirtökur og mikinn ágreining.
Þá höfðuðu stefndu mál á hendur stefnanda, nr. E-2869/1997, er þingfest var 19. júlí 1997, til heimtu á þóknun sem þeir sögðu vera fyrir þá hagsmunagæslu sem um er rætt í þessari stefnu. Því máli var vísað frá dómi eftir aðalmeðferð þess. Með stefnu, þingfestri 19. nóvember 1998, höfðuðu stefndu aftur mál af sömu ástæðu, nr. E-5490/1998. Reikningur sá sem lagður var fram í báðum þessum málum er útgefinn 3. október 1996. Reikningur þessi er sá sami og að framan greinir og hljóðar upp á u.þ.b. eina milljón króna og barst hann stefnanda í kjölfar bréfanna frá 13. ágúst og 13. september 1996, er stefnandi krafði stefndu um upplýsingar og gerði bótakröfu á hendur þeim, dskj. 20, dskj. 16 og dskj. 18.
Málavextir eru tilkomnir bæði fyrir og eftir þá lagabreytingu sem gekk í gildi 1. júlí 1992
Mál þetta er nú höfðað til öflunar aðfararhæfs dóms á hendur stefndu, fyrir sömu skaðabótum og í fyrri málunum og af sömu ástæðum.
II.
Af hálfu stefndu er málsatvikum lýst þannig: Í nóvember 1990 fól stefnandi Hróbjarti Jónatanssyni lögmanni, sem þá rak Almennu málflutningsstofuna sf. ásamt Jónatani Sveinssyni, að gæta hagsmuna sinna vegna tveggja krafna. Önnur var skuldabréf að fjárhæð 1.140.000 krónur, sem var útgefið af Ess hf. til handhafa. Skuldina bar að greiða með tólf jöfnum, mánaðarlegum afborgunum, fyrst 15. júlí 1990. Stefnandi leysti allt bréfið til sín sem þá var gjaldfallið frá Sparisjóði Keflavíkur þann 13. nóvember 1990 með greiðslu að fjárhæð 1.086.691,40 krónur en greiðsluna, þann 15. júlí, hafði hann leyst til sín áður með greiðslu að fjárhæð 1.197.542 krónur. Egill Eyfjörð, Jörundur Pálsson og Ásgeir Svanur Vagnsson báru sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins ásamt stefnanda. Hin krafan var samkvæmt víxli að fjárhæð 3.100.000 krónur, sem var útgefinn af Jörundi Pálssyni, samþykktur af Ess hf. og ábektur af Guðrúnu Stefánsdóttur. Gjalddagi víxilsins var 10. ágúst 1990. Til frekari tryggingar á greiðslu ofangreindra krafna hafði Jörundur Pálsson gefið út til handhafa tryggingarbréf 15. nóvember 1990 með 10. veðrétti í fasteigninni Kleppsvegi 86, Reykjavík, sem var eign hans.
Af hálfu stefndu segir að er stefnandi kom með kröfurnar til Hróbjarts var nýbyrjuð uppboðsmeðferð á fasteigninni eftir kröfu Sparisjóðs vélstjóra frá 5. september 1990. Þá hafi stefnandi lýst því í kæru sinni til Lögmannafélags Íslands að hann hefði viljað að Hróbjartur fylgdist með uppboðsmeðferðinni og legði fram kröfulýsingu ef til lokauppboðs kæmi. Hróbjarti hafi ekki verið ætlað að senda inn uppboðsbeiðnir, þar sem stefnandi hafi ekki viljað gerast beinn aðili að uppboðinu vegna tengsla hans við uppboðsþolann og son hans.
Fenginn hafi verið dómur (áritun) yfir skuldurum og ábyrgðarmönnum ofangreindra viðskiptabréfa til að staðreyna kröfurnar og forðast fyrningu. Hafi tvær áskorunarstefnur verið áritaðar 19. febrúar 1991.
Þann 26. ágúst 1991 hafi verið sendar tvær uppboðsbeiðnir eftir undangengið fjárnám í veðréttinum ( tíunda ) skv. tryggingabréfinu. Allt frá þeim tíma, er Hróbjartur tók að sér að gæta hagsmuna stefnanda út af umræddum kröfum og þar til uppboðsbeiðnir af hálfu stefnanda voru lagðar fram hjá uppboðshaldara, hafi fasteignin verið til uppboðsmeðferðar að beiðni annarra kröfuhafa en ekki hafi komið til nauðungarsölu á henni á þeim tíma. Á uppboðsþingi 8. október 1991 hafi strax komið fram mótmæli af hálfu uppboðsþolans gegn umræddum uppboðsbeiðnum stefnanda. Hafi því verið ákveðið af uppboðshaldara að sérstakt uppboðsmál yrði rekið vegna þessa ágreinings. Úrskurður hafi síðan gengið 14. janúar 1992, þar sem kröfu gerðarþola var hafnað og uppboðsbeiðnirnar þar með metnar gildar. Uppboðsþoli hefði ekki viljað una þessari niðurstöðu uppboðsréttarins og kært úrskurðinn til Hæstaréttar með kæru dags. 28. janúar 1992. Hafi dómur í málinu gengið í Hæstarétti 29. september 1992, þar sem úrskurði uppboðsréttar hafi verið hafnað með þeim rökum að uppboðsbeiðnirnar hefðu ekki uppfyllt tiltekin lagaskilyrði.
Þá hafi sýslumaður ákveðið að byrja nýja uppboðsmeðferð á fasteigninni. Stefnandi hafi ekki verið aðili að þeirri uppboðsmeðferð (hún féll niður), né þeirri næstu, sem byrjuð var að beiðni Sparisjóðs vélstjóra 9. febrúar 1993 og sem leiddi til endanlegrar nauðungarsölu á eigninni þann 8. júlí 1993. Ekki hafi verið sendar uppboðsbeiðnir að nýju af hálfu stefndu fyrir stefnanda heldur hafi verið ákveðið að fylgjast með gangi mála eins og upphaflega hafði verið ákveðið og gert ráð fyrir að koma að málinu við lokasöluna. Hafi þessi afstaða enda verið í samræmi við upphaflega beiðni stefnanda um hvernig hagsmunagæslu fyrir hans hönd skyldi framfylgt. Segir svo í greinargerð:
Á nauðungaruppboðinu 8. júlí 1993 varð Leifur Árnason hdl., fulltrúi Hróbjarts, hæstbjóðandi fyrir hönd stefnanda með boð upp á kr.10.700.000,oo, sbr. dómskj. nr. 13. Ekki var stefnandi mættur við lokasöluna, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stefndu til þess að hafa upp á honum í þeim tilgangi að kynna honum stöðu mála og gæta hagsmuna sinna sjálfur. Var brugðið á það ráð að senda honum þann 7. júlí 1993 skeyti á lögheimili hans að Barónsstíg 3 í Reykjavík, þar sem hann var beðinn um að hafa strax samband við lögmenn vegna uppboðsins daginn eftir, sbr. dómskj. nr. 48. Stefnandi upplýsir sjálfur í stefnu að á þessum tíma hafi hann verið á landinu en skömmu fyrir og eftir uppboðið hafi hann dvalið erlendis. Þá skal minnt á að stefnanda var sent bréf dags. 4. mars 1993, þar sem hann var upplýstur um stöðu mála sbr. dskj. nr. 12. Ógerlegt reyndist að ná sambandi við stefnanda fyrir lokauppboðið eða áður en samþykkisfrestinum lauk (þrjár vikur), þrátt fyrir ítrekað tilraunir af hálfu stefndu. Sérstök ástæða er til að mótmæla því að stefnandi hafi látið lögmönnum í té allar upplýsingar um dvalarstaði sína og símanúmer. Þetta er rangt. Þar sem ekki náðist í stefnanda (var staddur erlendis), og ekki vitað hvar hann var urðu stefndu að falla frá boðinu. Var þá tekið því næsthæsta, kr. 10.600.000,oo. Við fyrstu úthlutun á uppboðsandvirðinu fékk stefnandi í sinn hlut kr. 906.716,oo. Ágreiningsmál var rekið að tilhlutan Sparisjóðs vélstjóra um úthlutunina, sem snerist fyrst og fremst um um forgangsrétt veðhafa fyrir vöxum. Voru kröfur sparisjóðsins teknar til greina þannig að stefnandi fékk nú ekkert í sinn hlut af andvirði eignarinnar. Var stefnandi upplýstur um þessi afdrif krafna hans eftir að hann kom til landsins og hafði haft samband. Hefur ekkert verið aðhafst frekar í málum þessum enda eru þau ekki lengur til meðferðar hjá stefndu. Í bréfi, dags. 13. ágúst 1996, dómskj. nr. 16, fór stefnandi fram á greinargerð frá stefndu og gögn um rekstur málanna. Því bréfi var svarað með bréfi Leifs Árnasonar hdl. f.h. lögmannsstofunnar sbr. dómskj. nr. 17. Með bréfi dags. 13. september 1996, dómskj. nr. 18, krafði stefnandi stefndu, Hróbjart og Almennu málflutningsstofuna, um skaðabætur vegna meintrar vanrækslu við meðferð innheimtumálanna, en stefnandi taldi sig hafa glatað andvirði verðbréfanna eftir nauðungarsöluna á fasteigninni, sem bréfin voru tryggð með veði í. Með bréfi Hróbjarts fyrir hönd Almennu málflutningsstofunnar til stefnanda dags. 17. september 1996 er bótakröfunni hafnað sbr. dómskj. nr. 19.
III.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndu hafi gerst sekir um vanrækslu með því að senda ekki uppboðsbeiðnir tímanlega inn til sýslumanns á grundvelli tryggingarbréfsins frá 15. nóvember 1990 og að stefndu hafi þannig valdið stefnanda tjóni þar sem kröfurnar hafi þess vegna ekki fengist greiddar. Þá sé byggt á því að stefndu hafi seint um síðir, eða nærri ári eftir að þeir tóku að sér verkið, sent inn uppboðsbeiðnir á viðkomandi eign á grundvelli, sem þeir hefðu hvorki haft heimild eða umboð til, og sem þar að auki hafi alls ekki getað talist þjóna hagsmunagæslu fyrir stefnanda þar sem þessar uppboðsbeiðnir hafi síðan reynst ótækar í uppboðsréttinum. Á því sé einnig byggt að uppboðsmeðferð á viðkomandi eign, sem þá var komin á lokastig fyrir tilstilli annarra kröfuhafa, hafi stöðvast sökum þess að stefndu létu málið til sín taka með röngum hætti og þessar athafnir stefndu hafi m.a. valdið langvarandi, óæskilegum og þarflausum málarekstri, sem stefndu hafi einir átt alla sök á með því að þeir bæði stofnuðu til hans og viðhéldu með því að halda hinum ólögmætu uppboðsbeiðnum til streitu. Byggt sé á því að stefnandi hafi einnig fyrir þessar sakir orðið fyrir tjóni þar sem hann þess vegna hafi ekki fengið kröfur sínar greiddar samhliða og/eða í framhaldi af uppboði fyrir tilstilli annarra kröfuhafa. Byggt sé einnig á því að stefndu hafi verið óheimilt að láta reyna á viðkomandi uppboðsbeiðnir fyrir dómstólum þar sem hagsmunagæslan hafi alls ekki heimilað að sendar væru inn uppboðsbeiðnir á grundvelli greindra fjárnáma. Jafnframt sé byggt á því að stefndu hafi hvorki haft umboð né heimild stefnanda til reksturs dómsmála vegna uppboðsbeiðna sem tilkomnar voru eins og nú hafi verið lýst og allra síst fyrir Hæstarétti.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndu hafi valdið honum tjóni með því að valda umræddum málarekstri þar sem það leiddi til þess, ásamt með öðrum saknæmum afhöfnum og athafnaleysi stefndu, að ekki varð af nauðungarsölu eignarinnar fyrr enn nærri þremur árum eftir að hún hófst, eða í júlí 1993, og að stefndu eigi þannig einnig sök á því að stefnandi fékk ekki kröfur sínar greiddar sökum mikilla áfallinna vaxta á veðkröfur, bæði hvað varðar kröfur rétthærri veðhafa og einnig hans eigin kröfur. Þá kveðst stefnandi byggja á því að stefndu hafi gerst sekir um fjölda útivista við fyrirtökur í uppboðsmálinu um viðkomandi fasteign.
Stefnandi kveðst einnig byggja á því að framhaldsuppboði, sem auglýst var og halda átti 22. janúar 1993, hafi verið aflýst hvað stefnanda varðar vegna vanrækslu og útivista stefndu og að kröfur hans hafi einnig tapast þess vegna. Stefnandi hafi þá verið tiltækur og hefði gætt hagsmuna sinna á því uppboði ef fram hefði farið. Stefndu hefðu heldur ekki sent inn uppboðsbeiðnir eftir að uppboðsmeðferðin var í þetta sinn niður fallin.
Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi verið rangt upplýstur og leyndur bæði málalokum og þeirri málsmeðferð, sem stefndu ákváðu að viðhafa við hagsmunagæsluna. Eigi það bæði við um einstök atriði hennar og um þau atriði sem leiddu til þess að kröfur hans fengust ekki greiddar. Byggt sé einnig á því að stefndu hafi á sviksamlegan hátt, sérstaklega sem lögmenn og lögmansstofa, bæði dregið dul á og vanrækt að skýra frá þeim atvikum, sem urðu til þess að kröfur stefnanda töpuðust, og þá um leið þeim atvikum, sem umstefnd krafa byggist á. Því hafi stefnandi ekki getað vitað að hann ætti bótakröfur á hendur stefndu fyrir því tjóni sem stefndu höfðu valdið honum samfara viðkomandi hagsmunagæslu fyrr en í fyrsta lagi eftir bréfa-viðskipi aðila síðla árs 1996 og/eða samhliða því að málið var rekið fyrir LMFL.
Stefnandi kveðst einnig til viðbótar byggja á því að stefndu hefði borið að senda sýslumanni nýjar uppboðsbeiðnir, strax í október 1992, eftir að Hæstiréttur dæmdi áðurgreindar uppboðsbeiðnir þeirra ótækar í uppboðsréttinn, og krefjast þá um leið að uppboðshaldari byrjaði nýja uppboðsmeðferð á grundvelli þeirra beiðna í ljósi þess að upphaflegar uppboðsbeiðnir annarra uppboðsbeiðenda voru þá niður fallnar ásamt forgangi þeirra til vaxta umfram ákvæði laga nr. 23/1901. Ef uppboðshaldari hefði ekki orðið við þessu þá sé á því byggt að stefndu hefði borið að krefjast úrlausnar héraðsdómara um þetta atriði. Endanlegri uppboðssölu hefði síðan mátt ná fram í febrúar 1993, sbr. að seinni uppboðsmeðferðin um eignina, sem hófst með beiðni Sparisjóðs vélstjóra 9. febrúar 1993 og lauk með uppboðinu 8. júlí, tók aðeins 5 mánuði í það heila. Hefðu stefndu hér gegnt skyldu sinni þá hefðu áhvílandi veðkröfur, á undan kröfum stefnanda, orðið rúmar átta milljónir á þannig gefnum söludegi, í febrúar 1993, í ljósi þess að forgangur rétthærri veðhafa til vaxta hafði fallið niður, þar innifalin lögveð, dráttarvextir og áfallinn kostnaður kröfuhafa. Byggt sé m.a. á því að stefndu hafi með ofangreindri vanrækslu einnig valdið stefnanda tjóni og/eða viðhaldið því tjóni sem þeir höfðu áður valdið stefnanda með vanrækslu, mistökum og athöfnum á fyrri stigum hagsmunagæslunnar.
Þá byggir stefnandi jafnframt á því að hann hefði fengið allar kröfur sínar greiddar ef stefndu hefðu tilkynnt honum um uppboðsdaginn þann 8. júlí 1993 og einnig ef stefndu hefðu tilkynnt honum eftir uppboðið að þeir hefðu þar átt hæsta tilboðið í eignina fyrir hönd stefnanda, þannig að stefnandi ætti þess kost að standa við boðið, 10.700.000 krónur, á gefnum samþykkisfresti sem var til 28. júlí sama ár. Þessu til sönnunar kveðst stefnandi vísa til upplýsinga stefndu þess efnis að fasteignasali hefði metið eðlilegt markaðssöluverð hlutaðeigandi fasteignar á 20.000.000 króna og að stefnandi hefði án vafa fengið kröfur sínar greiddar, með því að kaupa téða eign á uppboðsverðinu og endurselja. Einnig sé á því byggt að stefndu hafi verið óheimilt að falla frá greindu tilboði án vitundar og heimildar stefnanda og án samráðs við hann. Einnig sé á því byggt að stefndu hefði borið að leita eftir samþykki annarra gerðarbeiðenda fyrir lengri samþykkisfresti, þar sem þeir hefðu vanræktu við tilgreinda frestinn að tilkynna stefnanda að þeir hefðu fyrir hans hönd átt hæsta tilboðið í eignina á uppboðinu. Þá sé á því byggt að stefndu hefði borið að krefjast þess að fram færi vanefndaruppboð á eigninni. Byggt sé á að stefndu hafi verið skylt að tilkynna stefnanda bæði um uppboðsdag, 8. júlí og einnig og ekki síður um tilboðið, sem þeir gerðu þá í eignina fyrir hans hönd, eða að öðrum kosti að tryggja hagsmuni stefnanda með öðrum hætti þannig að hann fengi kröfur sínar að lokum greiddar. Á því sé byggt að slíkt hafi verið skilyrðislaus og afdráttarlaus skylda stefndu sér í lagi í ljósi þess hvernig þeir höfðu áður staðið að hagsmunagæslunni.
Þá kveðst stefnandi byggja á því að stefndu hefðu átt að segja sig frá verkinu sökum vanrækslu samhliða fyrri uppboðsmeðferð og engri þátttöku í þeirri seinni. Sé á því byggt að stefnandi hefði þá ráðið annan lögmann til verksins ásamt að gæta sjálfur hagsmuna sinna samhliða uppboði. Engin þörf hefði verið fyrir stefnanda að hafa stefndu til þess eins að bjóða í eignina og þaðan af síður þörf áhrifa þeirra til lækkunar á uppboðsverðinu en þeir hefðu beitt sér gegn því að boðið væri í eignina á uppboðinu í júlí 1993.
Um kröfugerð sína segir stefnandi m.a. að auki þetta í greinargerð sinni:
Byggt er á upplýsingum stefndu um að fasteignasali hafi metið markaðssöluverð veðsins, Kleppsveg 86, til ca. kr. 20.000.000. Einnig byggt á þeim fullyrðingum stefndu að öruggt sé að kröfur stefnanda hefðu allar greiðst ef stefnanda hefði gefist kostur á að kaupa eignina með greiðslu uppboðsandvirðis, kr. 10.700.000, og endurselt hana ...
Byggt er á ofangreindu verðmæti veðsins og að stefndu hafi átt og getað náð fram nauðungarsölu, hvernig sem litið er á málið, þegar veðkröfur stefnanda stóðu í rúmum fimm milljónum og veðkröfur framar í veðröð samtals í rúmum átta milljón, þar innifalin lögveð, dráttarvextir og allur áfallinn kostnaður veðhafa. Kröfur stefnanda hafi því allar átt að fást greiddar í ljósi verðmæti veðsins.
Þar sem stefndu hins vegar, á saknæman hátt, leyndu upplýsingum og gögnum varðandi málið ásamt að þeir villtu um staðreyndir málsins fyrir stefnanda þá gat stefnandi ekki vitað, fyrr en í fyrsta lagi eftir bréfaviðskipi aðila síðla árs 1996 og/eða samhliða því að málið var rekið fyrir L.M.F.L, að hann ætti skaðabótakröfu á hendur stefndu fyrir því tjóni sem stefndu höfðu valdið honum samfara viðkomandi hagsmunagæsluna.
Þar sem hins vegar liggur fyrir útreikningur stefndu á kröfum stefnanda á uppboðsdegi, 8. júlí 1993, og þá um leið viðurkenning stefndu á kröfufjárhæðinni, sbr. kröfulýsingar stefndu, þá þykir bæði rétt og einfaldast að miða stefnufjárhæð við kröfur stefnanda eins og þær stóðu á þeim sama degi. Byggt er á að fjárhæð kröfunnar, eins og hún stóð þá, sé tilkomin fyrir vanrækslu, mistök og athafna eða athafnaleysis stefndu og því sé hún einnig á þeirra ábyrgð. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi í síðasta lagi borið að gera honum skil vegna hagsmunagæslunnar í framhaldi af uppboðinu, 8. júlí, og þá á kröfufjárhæðinni eins og hún þá stóð. Byggt er á að stefndu verði að bera hallan af því að hafa ekki unnið að verkinu þannig að því lyki á öðrum og skemmri tíma.
Á uppboðsdegi 8. júlí 1993 stóð krafa stefnanda í kr. 5.924.705 + kr. 2.333.035 eða samtals í kr. 8.257.740 sbr. útreikningar stefndu í kröfulýsingum, dags. 6. júlí 1993, dskj. 14, og er það þá jafnframt stefnufjárhæðin. Áður hefur þó komið fram að stefnandi átti aðeins rétt til veðsins fyrir uþb. kr. 5.23 5.000, þar sem stefndu vanræktu öll þrjú árin að setja inn gildar uppboðsbeiðnir, en á því er byggt að stefndu séu til viðbótar jafnframt ábyrgir fyrir þeim mismun, kr. 3.022.740, þar sem þeir gætu ekki forgangs fyrir vöxtum af kröfum stefnanda í ljósi l. nr. 23/1901 og því er stefnukrafan ofangreindar kr. 8.257.740.
Stefnandi heldur því fram að hann eigi á engan hátt að þola skerðingu á stefnufjárhæðinni vegna áður áfallinna dráttarvaxta. Stefnandi byggir m.a. á því að stefndu hafi á saknæman hátt, sem lögmenn og eða lögmansstofa, haldið leyndum þeim málsatvikum og gögnum sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik á hverjum tíma og rétt stefnanda til skaðabóta, ásamt til að meta fjárhæð bóta, auk þess sem stefndu hafi einnig villt um fyrir stefnanda varðandi staðreyndir málsins ásamt að hafa vanrækt að skýra stefnanda frá atvikum og niðurstöðum sem vörðuðu hagsmuni hans. Þá er einnig byggt á því að stefndu hafi borið ábyrgð á því, gagnvart stefnanda, að dráttarvextir bættust við kröfur stefnanda þannig að þeir glötuðust ekki og séu stefndu því einnig þess vegna bótaskyldir og ábyrgir hvað þetta varðar, allt frá upphafi máls. Byggt er einnig á ofangreindu, varðandi upphafsdag vaxta í dómkröfum, þ.e. að stefndu hafi leynt upplýsingum og gögnum ásamt að hafa villt um staðreyndir fyrir stefnanda og að þeim verði því jafnframt einum kennt um það að bótakrafa var ekki sett fram fyrr en13. september 1996, sbr. dskj. 18, og/eða að ekki var stefnt til greiðslu bóta fyrr en fyrst með stefnu birtri 19. júní 1997 í framhaldi af álitsgerð L.M.F.L, dags. 25. mars 1997. Það beri því að taka upphafsdag vaxta í dómkröfum, þann 8. júlí 1993, til greina og dæma stefndu til greiðslu dráttarvaxta frá þeim tíma til greiðsludags kröfunnar. Þá verður ekki sagt stefndu til málbótar að þá hafi skorti þá þekkinguna sem sem til þurfti varðandi ofangreind atriði.
Fallist dómurinn ekki á kröfu stefnanda um dráttarvexti eins og greinir í dómkröfum, frá 8. júlí 1993, er þess krafist að dráttarvextir verði í síðasta lagi miðaðir við skaðabótarkröfu sem stefnandi gerði á hendur stefndu, þann 13. september 1996.
Vara-dómkröfu byggir stefnandi á því að stefndu hafi, eins og kemur fram II. hluta í málástæðum, á saknæman hátt vanrækt hagsmuna- og réttargæslu með því að láta það viðgangast að rétthærri veðhafar eignuðust forgang til vaxta, á kostnað stefnanda, vegna tilkomu réttarspjalla undir rekstri málsins og að fyrir þessar sakir hafi stefnandi ekki fengið kr. 2.166.633 greiddar af söluandvirði Kleppsvegar 86, vegna uppboðs 8. júlí 1993, ásamt á því að stefndu hafi ekki heldur yfirfarið frumvarp sýslumanns að úthlutun söluandvirðis, dskj. 15, en þar sé gert ráð fyrir of hárri fjárhæð til rétthærri veðhafa. Þá er einnig byggt á því að óheimilar athafnir og vanræksla stefndu hafi orðið til þess að nauðungarsalan náði ekki fram að ganga fyrr enn raun ber vitni og því beri stefndu jafnframt ábyrgð á þeirri háu vaxtakröfu sem rétthærri veðhafar gerðu í söluandvirði eignarinnar. Varðandi áður áfallna vexti og upphafsdag dráttarvaxta í dómkröfum er vísað til greinar um sama efni hér að ofan.
Kröfugerðina og málssóknina byggir stefnandi á því að stefndu hafi til sakar unnið samhliða og samfara viðkomandi hagsmunagæslu m.a. með mistökum, vanrækslu og útivistum í upphafi máls og með athöfnum og umsýslu sem voru óheimilar og ekki féllu undir hagsmunagæsluna ásamt mistökum þeim tengdum og síðan með mistökum, útivistum og vanrækslu, og með því að bregðast tilkynningaskyldu ásamt að standa fyrir þarflausum skaðlegum málarekstri og þannig hafi stefndu valdið stefnanda tjóni, þar sem vel tryggðar kröfur hans töpuðust fyrir þessar sakir. Stefnandi eigi því skaðabótakröfu á hendur stefndu sem þessu tjóni nemur. Á því er einnig og m.a. byggt að stefndu hafi ekki skilað því ákveðna verki sem þeir tóku að sér að vinna fyrir stefnanda. Það beri því að taka kröfur stefnanda til greina og dæma stefndu til að greiða þær allar ásamt umkröfðum dráttarvöxtum og málskostnaði.
IV.
Af hálfu stefndu segir að af stefnu verði ráðið að stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að stefndu hafi orðið skaðabótaskyldir in solidum vegna margra meintra mistaka við meðferð krafna á tímabilinu frá nóvember 1990, þegar kröfurnar voru afhentar til innheimtu, til ágúst 1993, þegar lokasalan hafði átt sér stað og samþykkisfresturinn liðinn. Á þessum tíma hafi þannig háttað rekstri lögmannsstofu þeirrar, sem fór með málið frá upphafi, að reksturinn hafi verið í nafni Almennu málflutningsstofunnar sf. en eigendur þar hafi verið þeir Hróbjartur Jónatansson og Jónatan Sveinsson. Leifur Árnason hafi verið fulltrúi á lögmannsstofunni. Þann 18. október 1992 hafi lögmannsstofan verið sameinuð Lögmannsstofu Baldvins og Reynis sf., og rekin undir firmaheitinu Almenna málflutningsstofan hf. Almennu málflutningsstofunni hf. hafi verið slitið 4. nóvember 1996 og Almenna málflutningsstofan sf. tekið við rekstri lögmannsstofunnar.
Af hálfu stefndu er talið að sýkna beri stefndu á grundvelli aðildarskorts skv. 16. gr. laga nr. 91/1991. Segir svo í greinargerð:
Hróbjartur Jónatansson. Ef talið verður að saknæm mistök hafi átt sér stað við meðferð krafnanna einhvern tíma á ferlinum getur Hróbjartur ekki borið ábyrgð á því persónulega ef þau urðu eftir að hlutafélagið tók við rekstri lögmannsstofunnar. Sama á við um Jónatan Sveinsson, auk þess sem hann kom aldrei sjálfur að meðferð þessara krafna. Reynir Karlsson kom að rekstrinum 18. október 1992 og þá sem hluthafi í hlutafélagi. Hann getur því ekki borið ábyrgð persónulega auk þess sem hann kom ekkert nálægt innheimtu þessara krafna. Leifur Árnason var fulltrúi á lögmannsstofunni eins og hún var rekin hverju sinni. Hann kom ekkert að meðferð krafnanna fyrr en komið var að lokasölunni. Hann bar aldrei persónulega ábyrgð á rekstri þessara fyrirtækja. Almenna málflutningsstofan sf. kt. 460886-1399 var stofnuð eins og áður sagði 4. nóvember 1996. Hún getur því ekki borið ábyrgð á hinum meintu mistökum, sem hafa þá orðið áður en hún varð til.
Af hálfu stefndu er talið að stefnanda beri að sanna ætluð mistök hjá stefndu við meðferð umræddra krafna. Í stefnu setji stefnandi fram fjölmargar „málsástæður" sem erfitt sé að henda reiður á sökum þess hvernig þær séu fram settar. Stefndu krefjist þess þó ekki að málinu verði vísað frá vegna vanreifunar en kjósi að svara málsástæðum stefnanda eins og efni standi til með vísun til þess á hvaða blaðsíðu í stefnu hver málsástæða kemur fram. Segir svo í greinargerð:
Bls. 5. Að stefndu hafi borið að senda uppboðsbeiðni strax í nóvember 1990 á grundvelli tryggingabréfsins. Að þetta séu saknæm mistök og vanræksla, sem leitt hafi til þess að stefnandi fékk kröfur sínar ekki greiddar af uppboðsandvirðinu.
Í bréfi stefnanda til stjórnar LMFÍ á dskj. nr. 21, bls. 5 kemur fram að þegar hann fól Hróbjarti innheimturnar hafi hann tekið það sérstaklega fram að hann vildi aðeins að hann fylgdist með uppboðsmeðferðinni og setti inn kröfulýsingu þegar til lokauppboðs kæmi. Það var því ljóst strax frá upphafi að hann vildi ekki að uppboðsbeiðnir yrðu sendar inn og hann þar með gerður að beinum aðila að uppboðinu heldur aðeins að kröfulýsing yrði send við lokasölu ef til hennar kæmi. Þessi staðhæfing stefnanda er því beinlínis röng. Afstaða stefnanda til gerðarþolans um að hann gerðist ekki beinn aðili að uppboðinu skýrist af kunningskap sonar gerðarþolans og hans og tilurð þeirra krafna sem mál þetta fjallar um. Minnt skal á að þegar tryggingarbréfið var gefið út er nauðungarsala í gangi á eigninni. Það styður þá afstöðu stefnanda að honum hafi ekki verið ætlað að gerast aðili að uppboðinu, hvað þá að hafa áhrif á gang þess. Þá verður ekki séð að þetta atriði eitt og sér hafi orsakað hið meinta tjón.
Bls. 6. Að stefndu hafi verið óheimilt að fá áritaðar áskorunarstefnur um kröfurnar og að gera fjárnám á grundvelli þeirra.
Umrædd viðskiptabréf voru gjaldfallinn víxill með útgefanda og framseljendum og gjaldfallið skuldabréf með sjálfskuldarábyrgðarmönnum. Með umræddum dómum var komið í veg fyrir að kröfurnar gætu fyrnst á hendur skuldurum, sérstaklega á það við um ábyrgðarmennina, þar sem fyrningarfrestur í þeim tilvikum er stuttur. Stjórn LMFÍ virðist á sama máli sbr. dómskj. nr. 24 bls. 5. Þá verður einnig að telja það eðlilegt að fá upphæð krafnanna staðreyndar með dómi þegar þær eru tryggðar með tryggingarbréfi. Umrædd vinna var innan eðlilegra marka sem fólst í hagsmunagæslu á kröfunum og því fyllilega heimil án sérstaks leyfis. Þá verður ekki séð að það sé orsakasamband á milli þessarar vinnu og hins meinta tjóns.
Bls. 6. Að stefndu hafi um seint og síðir eða nærri ári eftir að þeir tóku að sér verkið sent inn uppboðsbeiðnir sem hafi reynst gallaðar. Að uppboðsmeðferðin hafi stöðvast vegna þarflausra málaferla og leitt til þess að lokasalan á eigninni varð ekki fyrr en 8. júlí 1993.
Að senda uppboðsbeiðnir var eðlilegur framgangur eftir að dómar (áritanir) voru fengnir og fjárnám gert í veðréttinum á fasteigninni. Uppboðsbeiðnirnar voru metnar gildar að lögum hjá uppboðshaldara. Það var veðþolinn sem mótmælti þeim sem fór með málið til Hæstaréttar. Það var uppboðshaldarinn sem ákvað að stöðva uppboðameðferðina, þar til úr ágreiningnum hafði verið leyst. Stefndu höfðu ekkert með þetta að gera í sjálfu sér. Sjá einnig álit stjórnar LMFÍ bls. 6 á dómskj, nr. 24. Verður ekki séð að galli sá, sem var á uppboðsbeiðnunum og sem metinn var í lagi hjá uppboðshaldara en hafnað í Hæstarétti hafi leitt til hins meinta tjóns hjá stefnanda.
Bls. 7.-10. Að það hafi orðið óeðlilegur dráttur á sölu eignarinnar en uppboðsmeðferð hófst í september 1990 og lauk 8. júlí 1993. Að stefndu hafi skilið málið eftir eftirlitslaust fyrir uppboðsréttinum.
Á það skal minnt stefnandi fól stefndu aðeins að fylgjast með málinu. Stefnandi var að eigin ósk aldrei aðili að uppboðsmálinu. Því gátu stefndu ekki haft áhrif á gang málsins fyrir uppboðsrétti enda ekki ætlað það. Það voru aðrir veðhafar sem réðu því.
Bls. 8. Að stefndu hefðu átt að senda uppboðsbeiðnir strax að gengnum hæstaréttardómi í október 1992.
Enn skal minnt á að stefndu var að ósk stefnanda ekki ætlað að gera hann að aðila uppboðsmálsins heldur aðeins að fylgjast með gangi mála og að verja hagsmuni hans kæmi til lokasölu.
Bls. 10. Að stefndu hafi unnið gegn hagsmunum hans með því að að hafa áhrif á aðra bjóðendur með því að upplýsa við lokasöluna að þeir myndu bjóða amk. 18 mkr. Það hafi fælt aðra bjóðendur frá því að bjóða hærra.
Því er mótmælt að þessi yfirlýsing hafi verið gefin á uppboðsstað. Hins vegar buðu hagsmunir stefnanda upp á miðað við veðstöðu og meint verðmæti fasteignarinnar að stefndu þyrftu að bjóða, ef sú staða kæmi upp, a.m.k. langleiðina upp í kröfu stefnanda.
Bls. 11. Að stefnandi hefði fengið allar kröfur sínar greiddar ef stefndu hefðu tilkynnt honum uppboðsdaginn 8. júlí 1993 og jafnframt upplýst hann um boð stefndu í eignina fyrir hans hönd, þannig að hann hefði getað staðið við það áður en samþykkisfrestur rann út þann 28. júlí.
Það er upplýst af stefnanda að hann var á landinu þegar lokasalan fór fram. Stefndu gerðu ítrekaðar tilraunir til að hafa upp á honum án árangurs. Síðar kom í ljós að hann dvaldi á þessum tíma uppi í sveit á bænum Fossi í Arnarfirði. Var því brugðið á það ráð að senda stefnanda símskeyti daginn fyrir lokasöluna á lögheimili hans að Barónsstíg 3 í Reykjavík. Stefnandi upplýsti stefndu aldrei um dvalarstaði sína, hvorki heima eða erlendis og er mótmælt fullyrðingum hans í þá veru. Upplýst er einnig að stefnandi dvaldist erlendis á samþykkisfrestinum og tókst stefndu ekki að hafa upp á honum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þá veru eins og gögn málsins bera með sér. Stefnandi getur því sjálfum sér um kennt að það tókst ekki að koma til hans nauðsynlegum upplýsingum varðandi uppboðið, þannig að hann gæti, ef hann vildi og gat staðið við boðið áður en samþykkisfrestinum lauk. Stefndu gerðu allt það sem með sanngirni mátti krefjast af þeim til að hafa upp á stefnanda en án árangurs vegna aðstæðna sem vörðuðu eingöngu stefnanda sjálfan. Virðist stjórn LMFÍ á sama máli um þetta atriði sbr. dómskj. 17 bls. 6.
Af framangreindu telja stefndu að ráða megi að meðferð krafnanna og hagsmunagæslan hjá stefndu hafi verið fullnægjandi. Þá er því haldið fram af hálfu stefndu að það sé ósannað að stefnandi hefði fengið kröfur sínar greiddar að fullu ef hann hefði fengið tækifæri til að standa við boðið. Í fyrsta lagi liggi ekkert fyrir um það að hann hefði fjárhagslega getað staðið við boðið. Einnig sé ósannað að eignin hafi verið þess virði að endursala á henni hefði nægt til lúkningar kröfunum að fullu. Stefnandi hafi alla sönnunarbyrði um þessi atriði. Þá er stefnukröfunni mótmælt af hálfu stefndu sem of hárri, en útreikningurinn á kröfunum sé ekki réttur
V.
Niðurstaða: Almenna málflutningsstofan, Jónatan Sveinsson hæstaréttarlögmaður og Hróbjartur Jónatansson héraðsdómslögmaður, Kringlunni 6 í Reykjavík, kt. 460886-1399, sendi borgarfógetaembættinu í Reykjavík uppboðsbeiðnir, dags. 26. ágúst 1991, þar sem uppboðsbeiðandinn er stefnandi þessa máls, Jakob A. Traustason uppboðsþoli, Jörundur Pálsson, kt. 201213-3129, Kleppsvegi 86, Reykjavík, annars vegar til lúkningar kröfu samtals að fjárhæð 4.205.408,30 krónur og hins vegar kröfu samtals að fjárhæð 1.600.665,90 krónur, sbr. dskj. nr. 6. Hér er um sömu fjárhæðir að ræða að höfuðstól til og koma fram í myndritum af kröfulýsingum í uppboðsandlagið Kleppsveg 86 í Reykjavík frá Almennu málflutningsstofunni hf. á dskj. nr. 14, sem dagsettar eru 6. júlí 1993.
Almenna málflutningsstofan, Kringlunni 6 í Reykjavík, kt. 460886-1399, Jónatan Sveinsson hrl., Hróbjartur Jónatansson hrl., Reynir Karlsson hrl., Leifur Árnason hdl. Sveinn Jónatansson hdl., Davíð B. Gíslason hdl., gera stefnanda reikninga 3. október 1996, sbr. dskj. nr. 20, þar sem stefnandi er m.a. krafinn um útlagðan kostnað vegna verðmats við uppboð á fasteigninni Kleppsvegur 86 í Reykjavík.
Framangreind skjöl verða að teljast sýna m.a. beina aðild stefndu, Jónatans Sveinssonar, Hróbjarts Jónatanssonar og Almennu málflutningsstofunnar sf. að máli þessu og aðild stefnda, Reynis Karlssonar, sem eins af eigendum Almennu málflutningsstofunnar sf. Á hinn bóginn verður ekki greint að stefndi, Leifur Árnason, fulltrúi hjá Almennu málflutningsstofunni sf. eigi persónulega aðild að málinu og þeim ágreiningi sem hér er um að ræða.
Af gögnum málsins verður ráðið, að stefnandi hafi falið stefnda, Hróbjarti Jónatanssyni, í nóvember 1990, að gæta hagsmuna sinna vegna uppboðsmeðferðar á fasteigninni Kleppsvegi 86 í Reykjavík, að stefnandi hafi átt veð í fasteigninni, á 10. veðrétti samkvæmt tryggingarbréfi er ætlað var að tryggja tvær kröfur stefnanda. Þá er ljóst að önnur krafan var reist á skuldabréfi, útgefnu 10. júní 1990, að fjárhæð 1.140.000 krónur, en hin á víxli, útgefnum 25. júlí 1990, að fjárhæð 3.100.000 krónur, með gjalddaga 10. ágúst 1990. Útgefandi víxilsins var Jörundur Pálsson, eigandi fasteignarinnar að Kleppsvegi 86 í Reykjavík. Segir í stefnu, að uppboðsmeðferð hefði byrjað „fyrir tilstilli SPRON og Sparisjóðs vélstjóra, í ágúst 1990."
Í bréfi sínu til Lögmannafélags Íslands 30. október 1996, þar sem stefnandi leitar umsagnar félagsins á viðskiptum sínum við „Almennu Málflutningsstofuna, Hróbjart Jónatansson hrl. Kringlunni 6, 103 Reykjavík" segir m.a.:
Þegar ég fékk Hróbjarti ofangreindar skuldakröfur til innheimtu, tók ég það sérstaklega fram að ég vildi aðeins að hann fylgdist með uppboðsmeðferð þeirri, sem þegar var hafin á eigninni Kleppsvegi 86 og setti inn kröfulýsingu á uppboðsandvirði þegar og ef til lokauppboðs kæmi. Jafnframt bað ég hann um að bjóða í eignina ef hún yrði seld nauðungarsölu og þess gerðist þörf hagsmuna minna vegna, eða þá að láta mig vita með fyrirvara þegar að uppboði kæmi, þannig að ég hefði sjálfur kost á að vera til staðar og gæta þá sjálfur hagsmuna minna við uppboðið ef á þyrfti að halda...
Skuldarar umræddra viðskiptabréfa höfðu farið fram á greiðslufrest og verið var að tryggja bréfin með fasteignaveði til þess að ekki kæmi til að beita þyrfti innheimtuaðgerðum á borð við dóma og fjárnám að svo stöddu. Um þetta og vilja minn til þess að sína biðlund við skuldarana var Hróbjarti fullkunnugt um ...
Þar sem kröfurnar tryggðust með tryggingarbréfi (...) í eigninni Kleppsvegur 86 og einnig það að ég áleit að skuldirnar myndu greiðast, eða um þær yrði samið án þess að til uppboðs þyrfti að koma, þá vildi ég ekki krefjast uppboðs á eigninni, enda óþarfi, þar sem eignin var þegar í uppboðsmeðferð og ólíklegt að sú meðferð yrði stöðvuð öðruvísi en það hefði í för með sér greiðslur til mín, eða betri veðstöðu fyrir ofangreindar kröfur mínar.
Með áskorunarstefnu, sem dagsett er 16. janúar 1991, krafðist Jónatan Sveinsson hrl. að stefndu, Egill Eyfjörð, Ess hf., Jörundur Pálsson og Ásgeir Svanur Vagnsson, yrðu dæmdir til greiðslu á 1.197.542 krónum auk nánar tilgreindra dráttarvaxta og kostnaðar. Segir í stefnunni m.a. að hin umstefnda skuld sé samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 1.140.000 krónur, útgefnu af stefnda, Ess hf., 10. júní 1990. Þá er greint frá því að bréfið hafi verið framselt til Sparisjóðsins í Keflavík 14. júní 1990, en vegna vanefnda stefndu hafi stefnandi orðið að leysa til sín bréfið „einn gjalddagi pr. 15.07.1990 var innleystur þann 19.07.1990 með kr. 110.850,60 og eftirstöðvar bréfsins innleystar þann 13.11.1990 samtals að fjárhæð kr. 1.086.691,40 er því stefnufjárhæðin kr. 1.197.542,-." Segir að með áritun á skuldabréfið hafi fyrrnefndir, Egill, Jörundur og Ásgeir, ásamt stefnanda tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á framangreindri skuld með vöxtum og kostnaði. Og með áskorunarstefnu, sem einnig er dagsett 16. janúar 1991, krafðist Jónatan Sveinsson hrl. að stefndu, Ess hf., Jörundur Pálsson og Guðrún Stefánsdóttir, yrðu dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 3.100.000 krónur auk nánar tilgreindra dráttarvaxta og kostnaðar. Segir í stefnunni m.a. að skuld þessi sé samkvæmt víxli að fjárhæð 3.100.000 krónur, útgefnum 25. júlí 1990 „af stefnda Jörundi og ábektum af stefndu Guðrúnu en samþykktur til greiðslu af stefnda Ess hf., 10.08.1990 í Íslandsbanka, Hafnarfirði." Báðar þessar stefnur eru áritaðar um aðfararhæfi í borgardómi Reykjavíkur 19. febrúar 1991.
Stefnandi í því máli, sem hér er til umfjöllunar, Jakob A. Traustason, segir í stefnu að hann hafi ekki heimilað að framangreindar áskorunarstefnur yrðu birtar og áritaðar um aðfararhæfi. Lögmönnunum hafi verið óheimilt að gera fjárnám í fasteigninni að Kleppsvegi 86 þann 26. ágúst 1991 „og byggja á þeim fjárnámum uppboðsheimild við gerð uppboðsbeiðna á viðkomandi eign, ..." Hagsmunagæslan hafi einvörðungu átt að grundvallast á tryggingarbréfinu, sem áður var getið.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnanda hafi verið kunnugt um áskorunarstefnurnar og fjárnám á grundvelli þeirra í framhaldi af því. Hér hafi verið um eðlilegar öryggisráðstafanir að ræða til að forðast fyrningu á kröfurétti.
Í máli þessu liggja ekki fyrir nein gögn um það sem fór aðilum óumdeilanlega í milli frá því í nóvember 1990 og þar til í ágúst 1991 varðandi umrædda hagsmunagæslu. Á hinn bóginn þykir ólíklegt að stefnandi hafi hvorki leitað eftir né fengið upplýsingar frá lögmönnum sínum um framvindu málsins - og þar með um áskorunarstefnurnar - frá því í janúar 1991, eða í sjö mánuði. Þá þykir með ólíkindum að stefnanda hafi verið ókunnugt um uppboðsbeiðnir stefnda, Hróbjarts Jónatanssonar hrl., í nafni stefnanda 26. ágúst 1991, enda verður ekki séð að lögmaðurinn hafi getað haft skynsamlega ástæðu eða einhvern ávinning af því að leyna stefnanda hvað hann hafðist að í umboði hans. Verður því að álykta að stefnanda hafi verið kunnugt um áskorunarstefnurnar og fjárnámin í framhaldi af þeim - svo sem haldið er fram af hálfu stefndu. Þá má teljast eðlileg framvinda réttargæslu af hálfu stefndu fyrir stefnanda að senda borgarfógeta uppboðsbeiðni, svo sem gert var, með hliðsjón af þeim tíma sem liðinn var frá því að skuldirnar voru gjaldfallnar.
Af hálfu stefndu er viðurkennt að mistök hefðu orðið við útgáfu uppboðsbeiðna 26. ágúst 1991, mistök, sem lágu í því, að vísað var til fjárnáms en ekki til tryggingarbréfs sem grundvallar uppboðsbeiðni. Ekki verður þó séð að þessi mistök út af fyrir sig hefðu þurft að tefja sölu á eigninni þar eð fleiri aðilar höfðu beðið um uppboð á fasteigninni að Kleppsvegi 86 og uppboðinu mátti fram halda þótt ágreiningur væri um uppboðsbeiðnir, sem stefndu lögðu til. Meðferð og framvinda nauðungarsölu á uppboði á fasteigninni að Kleppsvegi 86 var ekki bundin þessum mistökum.
Verulegur ágreiningur er um, hvort stefnandi hafi lagt fyrir stefndu að hraða því að nauðungarsala á uppboði færi fram, eða, hvort stefnandi hafi lagt fyrir stefndu að knýja ekki fram nauðungarsölu, heldur gæta þess einungis að stefnandi næði greiðslu af uppboðsandvirði eignarinnar, yrði ekki af greiðslu án nauðungasölu svo sem vonir stóðu til. Staðhæfingar stefnanda um þetta eru misvísandi, annars vegar í stefnu og hins vegar í bréfi hans til Lögmannafélags Íslands sem greint var frá. Í þessum efnum er aftur á það að líta að stefndu höfðu enga hagsmuni af því að það yrði dregið að nauðungarsala á eigninni færi fram. Verður því að álykta að stefndu hafi hagað meðferð málsins að mestu varðandi þetta eins og stefnandi lagði til.
Stefnandi telur að stefndu hafi unnið gegn hagsmunum hans „er leið að og samfara uppboðinu 8. júlí 1993 með því að hafa vísvitandi þannig áhrif á væntanlega bjóðendur að ekki fékkst nógu hátt tilboð í eignina til að kröfur stefnanda fengjust greiddar af uppboðsandvirði." Vísar stefnandi til þess sem segir í erindi stefnda, Hróbjarts Jónatanssonar, til LMFÍ, þann 17. nóvember 1996, sbr. dskj. nr. 23 á bl. 5, „Lyktir uppboðsins urðu þær að [ftr.minn, Leifur Árnason] keypti fasteignina f.h. téðs Jakobs Traustasonar á kr. 10.700.000,-. Samkvæmt framlögðum kröfulýsingum skrifstofu minnar í uppboðsandvirði námu kröfur téðs Jakobs með vöxtum og kostnaði, alls ca. kr. 8.100.000,- og var síðari veðhöfum gert ljóst að við myndum verja alla kröfu Jakobs þannig að uppboðsverðið þyrfti að vera a.m.k. 18.800.000,- svo aðrir uppboðskaupendur kæmu til álita. Greinilegt var að síðari veðhafar töldu ekki þess virði að verja kröfur sínar og því lauk uppboðinu er ftr. minn bauð upp í veðrétt téðs Jakobs."
Af hálfu stefndu er talið að hagsmunir stefnanda hafi boðið upp á, miðað við veðstöðu og ætlað verðmæti fasteignarinnar, að stefndu þyrftu að bjóða upp í kröfu stefnanda, yrðu ekki aðrir til þess.
Nú er það svo að menn bjóða í eignir á uppboði að jafnaði eins og menn telja hæfilegt til að bera ekki halla af kaupunum fari svo að boði verði tekið. Yfirlýsingar af hálfu stefndu um að bjóða í eignina til að verja kröfur stefnanda geta ekki hafa fælt menn frá því að gera góð kaup ef um það var að ræða. Verður að telja að stefndu hafi ekki með greindum ummælum varðandi boð á nauðungaruppboði í fasteignina að Kleppsvegi 86, er hér um ræðir, valdið stefnanda tjóni svo sem hann heldur fram.
Stefnandi heldur því fram að hann hefði fengið allar kröfur sínar greiddar ef stefndu hefðu tilkynnt honum um uppboðsdaginn 8. júlí 1993 „og einnig ef stefndu hefðu tilkynnt honum eftir uppboðið að þeir hefðu þar átt hæsta tilboð í eignina fyrir hönd stefnanda, þannig að stefnandi ætti þess kost að standa við það boð, kr. 10.700.000, á gefnum samþykkisfresti sem var til 28. júlí sama ár ..." Af hálfu stefndu er því haldið fram að þeir hafi gert allt það sem með sanngirni mátti krefjast af þeim til að hafa upp á stefnanda en án árangurs vegna aðstæðna sem eingöngu hafi varðað stefnanda sjálfan.
Stefnandi hefur ekki hnekkt staðhæfingum stefndu um að þeir hafi reynt að gera honum viðvart um að uppboð á fasteigninni að Kleppsvegi 86 færi fram 8. júlí 1993. Nauðungarsala á uppboði, eins og hér um ræðir, er auglýst með minnst þriggja daga fyrirvara í dagblaði eða á annan samsvarandi hátt. Þá er einnig hægt að fá upplýsingar hjá sýslumanni um það hvenær ákveðið er að uppboð fari fram. Hafi menn verulegan áhuga á að vera viðstaddir nauðungarsölu á uppboði, er síður en svo nokkuð sem hindrar það. Það eitt út af fyrir sig, að lögmaður nær ekki að tilkynna umbjóðanda sínum um uppboðið, getur ekki valdið því að lögmaðurinn beri ábyrgð á tjóni, sem viðkomandi telur sig hafa orðið fyrir, vegna þess að hann hafi ekki verið staddur á uppboðsstað til að gæta sjálfur hagsmuna sinna við uppboðsmeðferðina.
Aðrar málsástæður stefnanda en hér hafa verið raktar þykja heldur ekki leiða til að stefndu verði taldir bótaskyldir.
Samkvæmt framangreindu verða stefndu sýknaðir en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Hróbjartur Jónatansson, Jónatan Sveinsson, Reynir Karlsson, Leifur Árnason og Almenna málsflutningsstofan sf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Jakobs A. Traustasonar.
Málskostnaður fellur niður.