Hæstiréttur íslands
Mál nr. 746/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til miðvikudagsins 27. desember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að hún haldi frelsi sínu gegn tryggingu samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 101. laga nr. 88/2008.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga, til að varnaraðila verði gert að sæta farbanni. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fædd [...], verði gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 27. desember 2017, kl. 16:00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar meintar líkamsárásir X gagnvart eiginmanni sínum A, fæddum [...], og B, aðfaranótt 1. nóvember sl.
Lögregla hafi verið kölluð á vettvang að [...] í Reykjavík og hafi heyrt strax mikil læti eins og átök væru í gangi. Lögregla hafi rætt við brotaþola A sem hafi verið blóðugur í kringum munn og kvað hann eiginkonu sína, kærðu, hafa bitið framan af tungu sinni og hafi hann verið fluttur á sjúkrahús. Þá hafi lögregla einnig rætt við brotaþola B sem kvað kærðu hafa ráðist á sig, rifið í hár sitt og bitið í fingur. Hún kvað A hafa reynt að slíta kærðu af sér en vissi ekki hvernig það gerðist að kærða beit framan af tungu A. Þau bæði hafi lýst því að þau hafi verið fjögur í íbúðinni ásamt bandarískum manni að nafni C sem hafi verið vísað út áður en árásin hafi átt sér stað. Lögregla hafi tekið myndir af vettvangi og megi þar m.a. sjá ummerki um átök í íbúðinni, blóð í vaski og hárflyksur, þá hafi einnig verið teknar myndir af áverkum beggja brotaþola.
Tekinn hafi verið framburður af brotaþola A hjá lögreglu og hann kvað þau hafa verið öll fjögur heima hjá sér eftir skemmtun í miðbæ Reykjavíkur. Þá hafi kærða gert sér dælt við C og viljað að hann gerði sér dælt við vitnið B en síðan hafi kærða slegið til hans og síðan byrjuðu kærða og vitnið Bað slást. A hafi þá vísað C út en síðan hafi kærða slegið til hans og bitið í tungu hans. Við síðari skýrslutöku af brotaþola hafi hann lýst því að hann hefði kysst kærðu og hún þá sogið tungu hans og bitið í hana. Þá hafi verið teknar ljósmyndir af áverka á tungu brotaþola þar sem sést skýrlega að talsvert stóran bita vantar framan á tungu hans og hafi hann leitað sér aðstoðar á Landspítalanum. Fyrst hafi náðst að sauma tunguhlutann aftur á en sú aðgerð hafi ekki haldið samkvæmt upplýsingum lögreglu og tunguhlutinn sé því endanlega farinn af tungunni.
Rætt hafi verið við kærðu á vettvangi sem kvaðst hafa reiðst vegna þess að A gerði sér dælt við vitnið B en tjáði sig ekki um atburðarásina. Kærða hafi verið yfirheyrð nú í dag og hafi borið við að þetta væri nokkuð í móðu hjá sér en hún kvaðst hafa séð brotaþola A gera sér dælt við vitnið B og þau rifist í kjölfarið. A hafi verið mikið í andliti hennar og hún kvaðst hafa bitið hann óvart en kvaðst svo ekki hafa skilið þann styrk sem hún hafi í tönnunum þegar hún beit í tunguna á honum. Hún kvaðst ekki geta svarað miklu varðandi átökin við vitnið B annað en að hún hafi líka rifið í hár hennar. Við síðari skýrslutöku kvað kærða A hafi ráðist að sér eftir að hún hafi stöðvað árás hans á vitnið C, hún hafi reynt að fara en hann hafi bannað henni það. Þá hafi hann kysst sig án hennar vilja þegar hún lokar munninum á tungu hans.
Tekin hafi verið skýrsla af brotaþola B hjá lögreglu þar sem hún lýsir því að kærða hafi ráðist á sig, m.a. rifið ítrekað í hár hennar og haldið henni niðri. Hún kvaðst hafa fengið áverka víðsvegar eftir árásina. Þá hafi brotaþoli A öskrað og sýnt henni tungubitann og kvað hún hann hafa sagt kærðu hafa bitið tunguna úr sér en hún hafi ekki séð árásina sjálfa og síðan hafi kærða ráðist aftur að sér.
Tekin hafi verið skýrsla af vitninu C en hann kvað brotaþola A og B hafi gert sér dælt við hvert annað og hann og kærða kysst. Þá hafi brotaþoli A reiðst og ráðist að sér og hent sér niður stiga út úr íbúðinni og gripið í kærðu. Hann hafi ekki séð árásina á brotaþolana þar sem hann hafi verið farinn.
Kærða liggi samkvæmt framansögðu undir rökstuddum og eftir atvikum sterkum grun um að hafa framið brot sem talið er varða við 218. gr. b. og 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Brotið sé sérstaklega alvarlegt gagnvart eiginmanni kærðu þar sem bitið hafi verið stór hluti framan af tungu hans, tunguhlutinn hafi verið saumaður aftur á en sú aðgerð hélt ekki samkvæmt upplýsingum lögreglu og tunguhlutinn því ónýtur. Þá hafi kærða einnig ráðist að hinum brotaþola málsins, bitið í fingur hana og rifið harkalega í hár hennar þannig að hárflyksur losnuðu.
Sé það mat lögreglustjóra að brot það sem hér um ræðir sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða á landinu vegna rannsóknar málsins og málsmeðferðar fyrir dómi. Lítið sé eftir af rannsókn málsins en beðið sé læknisfræðilegra gagna og lokaskoðunar á brotaþola A. Stefnt sé að því að gefa út ákæru á næstu dögum þegar þau gögn liggi fyrir.
Kærða sé ástralskur ríkisborgari og hafi engin bein tengsl við landið hvorki atvinnu- né önnur fjölskyldutengsl. Samkvæmt framburði hennar hafði hún komið til landsins af og til í heimsókn til eiginmanns síns, brotaþola málsins, sem er franskur ríkisborgari og sé búsettur hér á landi. Þyki því hætta á að kærða muni fara af landi brott og koma sér undan rannsókn þess, málsókn og fullnustu refsingar. Að mati lögreglu sé brýnt að tryggja nærveru kærðu á meðan mál hennar er til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu og málsókn fyrir dómstólum hér á landi og því nauðsynlegt að henni verði gert að sæta farbanni þar til mál hennar er til lykta leitt.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærða er sökuð um, sé þess krafist að hún sæti farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008.
Niðurstaða
Sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, krefst þess að kærða sæti farbanni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Tilefni kröfugerðarinnar er rakið í greinargerð sóknaraðila en efni hennar hefur verið lýst. Samkvæmt 100. gr. fyrrgreindra laga er það skilyrði þess að fallast megi á kröfu sóknaraðila um farbann að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Auk þess verður eitthvert þeirra sérstöku skilyrða sem rakin eru í fjórum stafliðum í greininni að vera fyrir hendi.
Kærða hefur sætt farbanni frá 1. nóvember 2017 til dagsins í dag samkvæmt úrskurði dómsins þann sama dag í málinu nr. R-387/2017 sem staðfestur var af Hæstarétti 3. nóvember sl. í málinu nr. 690/2017. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er rannsókn málsins á lokastigi og ákæra verði gefin út von bráðar en beðið er lokaskoðunar og læknisvottorða vegna áverka beggja brotaþola.
Með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins og fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að kærða sé undir rökstuddum grun um líkamsárás sem varðað getur við 218.gr. b almennra hegningarlaga nr.19/1940. Sannist sök getur brot af þessu tagi varðað fangelsi. Almennu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fullnægt.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 95. gr. laganna má hins vegar beita gæsluvarðhaldi ef ætla má að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi hafði kærða, sem er ástralskur ríkisborgari, verið hér í heimsókn hjá eiginmanni sínum, sem ætlað brot hennar hefur beinst að en hún fyrirhugði heimför áætluð 3. nóvember næstkomandi. Í þessu ljósi er á það fallist að framangreindu skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 100. gr. sömu laga fyrir beitingu farbanns sé uppfyllt.
Ekki eru þannig efni til að hnekkja mati sóknaraðila um nauðsyn þess að tryggja nærveru kærðu hér á landi með farbanni vegna rannsóknar málsins. Þykir ekki ástæða til þess að marka farbanninu skemmri tíma en farið er fram á. Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að kærða sæti farbanni allt til 27. desember nk. kl. 16:00.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskur.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, X, fædd [...], skal sæta farbanni, allt til miðvikudagsins 27. desember 2017, kl. 16:00.