Hæstiréttur íslands

Mál nr. 413/2000


Lykilorð

  • Vatnsréttindi
  • Afréttur
  • Umráð
  • Samningur
  • Endurgjald
  • Viðurkenningardómur


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. mars 2001.

Nr. 413/2000.

Landsvirkjun

(Hreinn Loftsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Vatnsréttindi. Afréttur. Umráð. Samningur. Endurgjald. Viðurkenningardómur.

Í krafðist viðurkenningar á rétti sínum til að krefja L um endurgjald vegna vatnsréttinda í Blöndu í Blöndudal fyrir almenninga og afréttarlönd Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar. Reisti Í kröfu sína á 3. gr. samnings milli málsaðila frá 1982 þar sem meðal annars var kveðið á um samkomulag um greiðslur L til Í vegna þeirra vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum, sem væru í umráðum ríkisins. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm og féllst á kröfu Í með þeirri athugasemd, að telja yrði að í þeim umráðarétti Í, sem um gæti verið að ræða, hefði falist heimild til að semja um gjaldtöku vegna vatnsréttinda, ef aðrir ættu ekki tilkall til þeirra. Yrði því að skilja 3. gr. hins umdeilda samnings þannig, að L hefði gengist undir að greiða Í vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar að svo miklu leyti sem heiðarnar væru ekki undirorpnar fullkomnum eignarrétti annarra. Úr því hefði verið skorið með tveimur dómum Hæstaréttar 10. apríl 1997, að svo væri ekki.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2000. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og verði þannig viðurkenndur réttur hans til að krefja áfrýjanda um endurgjald vegna vatnsréttinda í Blöndu í Blöndudal fyrir almenninga og afréttarlönd Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar í samræmi við 3. gr. samnings málsaðila frá 11. ágúst 1982. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Þegar ríkisstjórn Íslands og áfrýjandi gerðu með sér samning um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl. 11. ágúst 1982 ríkti óvissa um eignarhald á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Aðliggjandi sveitarfélög kölluðu til fullkomins eignarréttar á heiðunum, eins og skýrlega kom fram í samningi þeirra við Rafmagnsveitur ríkisins um virkjun Blöndu 15. mars 1982, en áfrýjandi tók með fyrrnefnda samningnum við réttindum og skyldum virkjunaraðila samkvæmt þeim samningi. Með 3. gr. samningsins 11. ágúst 1982 féllst áfrýjandi á að gera sérstakt samkomulag um greiðslur til stefnda vegna vatnsréttinda í umráðum hans, þar á meðal á almenningum og afréttarlöndum virkjunarsvæðis Blöndu. Telja verður, að í þeim umráðarétti stefnda, sem um gat verið að ræða, hafi falist heimild til að semja um gjaldtöku vegna vatnsréttinda, ef aðrir áttu ekki tilkall til þeirra. Verður því að skilja 3. gr. hins umdeilda samnings þannig, að áfrýjandi hafi gengist undir að greiða stefnda vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar að svo miklu leyti sem heiðarnar væru ekki undirorpnar fullkomnum eignarrétti annarra. Úr því hefur verið skorið með tveimur dómum Hæstaréttar 10. apríl 1997, að svo er ekki, sbr. H.1997.1162 og 1183.

Með þessari athugasemd og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Áfrýjandi, Landsvirkjun, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. september síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 25. janúar 2000.

Stefnandi er íslenska ríkið.

Stefndi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háleitisbraut 68, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess, að viðurkenndur verði réttur hans til að krefja stefnda um endurgjald vegna vatnsréttinda (virkjunarréttinda) í Blöndu í Blöndudal fyrir almennings- og afréttarlönd Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar í samræmi við 3. gr. samnings málsaðila frá 11. ágúst 1982. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins.

Stefndi krefst þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati réttarins.

I.

Málavextir

Þann 11. ágúst 1982 gerðu málsaðilar með sér samning um virkjunarmál, yfirtöku byggðalína o.fl. Samkvæmt l. gr. samningsins tók stefndi meðal annars að sér að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Blöndu í Blöndudal (Blönduvirkjun) með allt að 180 MW afli frá og með l. október 1982. Í 2. gr. samningsins kemur fram, að frá og með sama tíma tæki stefndi við réttindum og skyldum virkjunaraðila samkvæmt samningi við heimamenn um Blönduvirkjun, dagsettum 15. mars 1982. Stefndi réðst í að reisa og reka Blönduvirkjun á grundvelli samnings þessa og greiddi viðkomandi landeigendum fyrir vatnsréttindi samkvæmt fyrirliggjandi samningum. Stefndi hefur hins vegar hafnað að greiða stefnanda fyrir vatnsréttindi vegna almennings- og afréttarlanda vatnasvæðis Blöndu. Höfðar stefnandi mál þetta  til viðurkenningar á rétti sínum til að krefja stefnda um endurgjald vegna þeirra vatnsréttinda, en það eru þau svæði, sem talin eru tilheyra Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi einkum til 3. gr. samningsins frá 11. ágúst 1982, sem hljóðar svo:

 "Áður en rekstur hverrar virkjunar hefst skal gert samkomulag um greiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs vegna þeirra vatnsréttinda sem eru í umráðum ríkisins, hvort sem er vegna lögbýla í eigu ríkisins, annarra eignarlanda eða vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum.

Landsvirkjun greiðir ríkissjóði fyrir slík virkjunarréttindi endurgjald sambærilegt því sem almennt er greitt vegna slíkra réttinda. Endurgjaldið má vera sem eingreiðsla eða í formi árlegs afgjalds.

Nái aðilar ekki samkomulagi um endurgjald fyrir virkjunarréttindi samkvæmt grein þessari skuldbinda þeir sig til að hlíta mati óvilhallra matsmanna.

Matsmenn samkvæmt grein þessari skulu tilnefndir einn af hvorum aðila og oddamaður tilnefndur sameiginlega. Nái aðilar ekki samkomulagi um tilnefningu oddamanns skal hann tilnefndur af Hæstarétti."

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína aðallega á því, að með 3. gr. samnings aðila frá 11. ágúst 1982 hafi stefndi skýrt og skilmerkilega skuldbundið sig til að greiða stefnanda fyrir vatnsréttindi á almenningum og afréttarlöndum í umráðum ríkisins á viðkomandi virkjunarsvæði. Þar með hafi hann skuldbundið sig til að greiða stefnanda fyrir vatnsréttindi á almenningum og í afréttarlöndum Blöndu í Blöndudal. Almenningar og afréttarlönd Blöndu, þ.e. Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði, hafi verið og séu í umráðum ríkisins, sem aftur leiði til þess, að handhafar ríkisvalds, sem til þess séu bærir, geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu svæðanna. Það hafi ríkisvaldið gert í þessu tilviki með ráðstöfun vatnsréttinda á svæðunum og skuldbundið ríkið þ.a.l. með samningi við stefnda. Sem endurgjald fyrir réttindi þessi hafi stefndi átt að greiða stefnanda eftir því fyrirkomulagi, sem nánar sé kveðið á um í 2. og 3. mgr. 3. gr. samningsins. Í þessu sambandi telur stefnandi ekki skipta máli þótt eignarréttarleg staða svæðanna sé enn formlega ófrágengin, þar sem staðfest sé, að þau séu ekki undirorpin fullkomnum eignarrétti og séu eða verði þjóðlendur í skilningi laga nr. 38/1998 um þjóðlendur o. fl. Samkvæmt skýrum fordæmum Hæstaréttar, sbr. H 1981:182 og H 1981:1584, sé ríkisvaldinu heimilt að kveða á um nýtingu slíkra svæða og meðferð þeirra að öðru leyti. Beri stefnda því að standa við gerðan samning.

Í samningi aðila frá 11. ágúst 1982 geri stefndi ekki þá kröfu til stefnanda, að hann sanni fullkominn eignarrétt sinn á almenningum og afréttarlöndum vatnasvæðis Blöndu. Þvert á móti lofi hann m.a. í 3. gr. samningsins að greiða fyrir vatnsréttindi ,,í umráðum ríkisins, ...vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum.” Hugtakið umráð hljóti að taka til þjóðlendna, þ.e. landsvæða utan eignarlanda, þar sem einstaklingar og lögaðilar kunna að eiga takmörkuð eignarréttindi, og geti því mótbára stefnanda um ósannaðar eignarheimildir ekki staðist.

Með samningnum frá 11. ágúst 1982 hafi stefnda verið veitt heimild til að virkja Blöndu og þar með til að nýta þær auðlindir, sem fólgnar eru í vatnsréttindum á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðum. Telji stefndi sig ekki þurfa að greiða stefnanda fyrir nýtingu vatnsréttindanna á heiðunum, þurfi hann að gera grein fyrir því, hvaða heimildir hann hafi til þess að nýta þessa auðlind. Líti stefnandi svo á, að heimildir þessar stafi frá honum sjálfum og séu skjalfestar í samningnum frá 11. ágúst 1982.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun eignarlanda, þjóðlendna og afrétta sé stefnandi eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum, sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Samkvæmt dómum Hæstaréttar frá 1997, bls. 1162 og 1183 í dómabindi réttarins, séu Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði hvorki háð eignarrétti einstaklinga né kirkjunnar. Sú niðurstaða þýði, að stefnandi sé eigandi landsvæðanna. Geti stefnandi byggt samningsheimildir sínar samkvæmt 3. gr. samningsins á þessari forsendu í því tilfelli, að aðrar nauðsynlegar forsendur verði ekki taldar vera til staðar.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir því, að í 3. gr. samningsins frá 11. ágúst 1982 felist skuldbinding hans um greiðslu fyrir virkjunar- eða vatnsréttindi á eigendalausum svæðum, en slíkt hefði þurft að taka fram sérstaklega í samningnum, þar sem um svo íþyngjandi og óvenjulegt ákvæði væri að ræða. Mun fremur verði að leggja þann skilning í orðalag ákvæðisins um ,,greiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs vegna þeirra vatnsréttinda sem eru í umráðum ríkisins...,” að stefndi greiði stefnanda fyrir réttindi á landsvæðum, þar sem hann fer með eigandaumráð eða forræði. Skuli stefnandi í því tilliti jafnsettur gagnvart virkjunaraðilanum og aðrir landeigendur, þar sem um beinan og óskoraðan stefnanda væri að ræða.

Nauðsynlegt sé við túlkun l. mgr. 3. gr. samningsins að líta einnig til ákvæðis 2. mgr. 3. gr. hans. Í viðræðum aðila á árinu 1981 og 1982 hafi stefnandi haft uppi ráðagerð um, að stefndi greiddi sér fyrir vatnsréttindi á eigandalausum svæðum. Hafi sú afstaða byggst á sjónarmiðum ríkisins í deilum, sem endanlega hafi verið útkljáðar með H 1981:1584, þar sem Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu, að réttur yfir landareign gæti verið takmarkaður, án þess að stefnandi ætti það, sem umfram væri, þannig, að aðild stefnanda væri ekki fólgin í eignarrétti, heldur yfirráðarétti eða umráðarétti. Fyrsta tillaga að orðalagi 3. gr. samnings aðila, eins og hún hafi upphaflega verið kynnt viðræðunefndum aðila, hafi verið sú, að stefndi greiddi fyrir ,,vatnsréttindi í almenningseign” á sama hátt og fyrir ,,þau vatnsréttindi sem eru eign ríkisins.” Hafi uppaflega orðalagið verið afdráttarlaust í þessu tilliti. Þess í stað hafi orðalagi 1. mgr. verið breytt og þar tekið inn almennt orðalag um, að samið verði við stefnda um greiðslur ,,vegna þeirra vatnsréttinda sem eru í umráðum ríkisins, hvort sem er vegna lögbýla í eigu ríkisins, annarra eignarlanda eða vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum.” Nýrri 2. mgr. hafi síðan verið skotið inn til fyllingar 1. mgr. Ekkert bendi því til þess, að stefndi hafi undirgengist að greiða ríkinu annað og meira en það, sem öðrum aðilum en ríkinu hefði borið í svipaðri aðstöðu. Þegar þannig háttaði til, að land tilheyrði sannanlega ákveðinni jörð, en var nýtt sem afréttur, hafi verið ljóst, að greiða varð eigandanum fyrir vatnsréttindin.

Almennt hafi ekki verið greitt fyrir vatnsréttindi í afréttum og á almenningum, nema þar sem fullkominn eignaréttur einstaklings eða lögaðila hafi stofnast. Styðjist sú framkvæmd við 2. gr. vatnalaga nr. 15/1923, en þar segi, að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög heimila. Hugtakið landareign sé skilgreint í 1. gr. laganna sem ,,land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða.” Um virkjunarréttindi landareigna sé kveðið á í V. kafla laganna, og komi fram í 49. gr., að eiganda landareignar, sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum, sem heimildir hafa á þeim tekið, sé rétt að nota það vatn, sem um hana rennur, til að vinna úr því orku ...” Í þessum ákvæðum felist, að til að hljóta viðurkenningu þess að virkjunarréttindi fylgi landi, þurfi eigandi þess eða umráðamaður að sýna fram á, að landið sé fullkomið eignarland, þannig, að hann eigi þar fullan eignarrétt, en ekki aðeins takmarkaðan, svo sem upprekstrarrétt á afréttarlandi, og að landið sé land lögbýlis. Þetta tvennt þurfi að fara saman, til þess að landið geti talist landareign, sem vatnsréttindi fylgi, í merkingu vatnalaga.

Að því er varðar heimildir stefnda til að nýta vatnsréttindi heiðanna endurgjaldslaust vísist til eftirfarandi: Í fyrsta lagi hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu í dómum frá árinu 1997 (H 1997:1162 og 1183), að hvorki Auðkúluheiði né Eyvindarstaðaheiði hafi verið undirorpin beinum eignarrétti ríkisins, annarra stofnana eða einstaklinga. Í öðru lagi sé vísað til áðurgreindra ákvæða vatnalaganna, þar sem fram komi, að vatnsréttindi fylgi ekki slíku landi. Í þriðja lagi byggir stefndi á ákvæðum samningsins frá 11. ágúst 1982, en samkvæmt honum hafi stefndi tekið að sér að reisa og reka Blönduvirkjun sem sína eign frá og með 1. október 1982 að telja og fyrirtækið þá tekið við öllum réttindum og skyldum virkjunaraðila. Í fjórða lagi byggir stefndi heimildir sínar á því, að hann hafi reist og reki Blönduvirkjun á grundvelli virkjunarheimildar í 1. gr. laga nr. 60/1981 um raforkuver og 6. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, sbr. og ályktun Alþingis frá 6. maí 1982 um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu, og virkjunarleyfi iðnaðarráðherra, sem út hafi verið gefið 20. mars 1984 í samræmi við 7. gr. laga um Landsvirkjun. Njóti virkjunin því allra réttinda, sem vatnsorkuverum fylgi samkvæmt V. og VI. kafla vatnalaga og öðrum landslögum. Raski gildistaka laga nr. 58/1998 um þjóðlendur í engu þeim réttindum, sem stefndi hafi öðlast og eignast með lögmætum hætti fyrir lögtöku þeirra, sbr. 2. mgr. 5. gr laganna.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Hæstiréttur hefur með dómi í máli Svínavatnshrepps og Torfalækjarhrepps gegn Landsvirkjun, sem upp var kveðinn 10. apríl 1997 (mál nr. 66/1996), og dómi réttarins sama dag í máli Bólstaðarhlíðarhrepps, Lýtingsstaðahrepps og Seyluhrepps gegn Landsvirkjun (mál nr. 67/1996), sem er að finna í dómabindi réttarins á bls. 1162 og 1183, staðfest, að engar sönnur hafi verið leiddar að því, að landsvæði þau, sem hér er deilt um, Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði, hafi nokkurn tíma verið undirorpin fullkomnum eignarrétti einstaklinga eða kirkjunnar, hvorki fyrir nám né með löggerningum eða öðrum hætti. Þá séu staðhættir og víðátta heiðalandanna þannig, að líkur mæli gegn óskoruðum eignarráðum jarðeigenda. Í málum þessum höfðu hrepparnir uppi bótakröfur á hendur stefnda í máli þessu vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttum Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar. Þar sem hreppunum tókst ekki að sanna eignarrétt sinn að landsvæðunum samkvæmt framansögðu var Landsvirkjun sýknuð af kröfum þeirra. Leiðir sú niðurstaða til þess, að stefndi fengi að óbreyttu endurgjaldslaus afnot þeirra vatnsréttinda, sem um er deilt í máli þessu.

 Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 33/1978 og 199/1978, sem sér stað í dómabindi réttarins árið 1981 á bls. 182 og 1584, er kveðið á um, að íslenska ríkið gæti ekki talist eigandi þeirra landsvæða, Mývatnsbotns og Landmannaafréttar, sem um var deilt, nema það færði fram heimildir fyrir tilkalli sínu. Hæstiréttur taldi þó, að handhafar ríkisvalds, sem til þess væru bærir, gætu í skjóli valdheimilda sinna ráðið meðferð og nýtingu náttúruauðlinda þessara svæða.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður að álykta, að stefnandi fari ekki með hefðbundin eignarráð fasteignareiganda á þeim almenningum og afréttum, sem um er deilt í máli þessu, heldur lúti landsvæðið umráðum hans, þar sem enginn hefur getað sannað eignarrétt sinn til þess og þeirra réttinda, sem því fylgir. Getur stefnandi því í skjóli forræðisréttar síns ráðið meðferð og nýtingu þeirra náttúruauðlinda, sem þar er að finna, þar með töldum vatnsréttindum.

 Lög nr. 60/1981 um raforkuver veittu ríkisstjórninni heimild til að semja við Landsvirkjun um byggingu og rekstur vatnsaflsvirkjana, þar með taldrar Blönduvirkjunar. Bar stefnanda því að sínu leyti réttur til að semja við stefnda um ráðstöfun vatnsréttinda þessara landsvæða, svo sem gert var með umræddum samningi frá 11. ágúst 1982.

Í 1. mgr. 3. gr. samningsins er kveðið skýrt á um, að stefnda beri að greiða stefnanda vegna vatnsréttinda sem voru í umráðum hins síðarnefnda, hvort sem er vegna lögbýla í eigu ríkisins, annarra eignarlanda ,, ... eða  vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum.” Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykir ljóst, að enda þótt umdeild landsvæði séu ekki undirorpin fullkomnum eignarétti stefnanda, hafi hann á þeim tíma, er samningur var gerður, í reynd farið með umráð þeirra. Þykir afdráttarlaust orðalag samningsins jafnframt benda fremur til þess, að það hafi verið sameiginlegur skilningur aðila. Verður og að telja, að sá skilningur sé  í samræmi við áðurnefnda dóma Hæstaréttar frá árinu 1981 í málum nr. 33/1978 og 199/1978 og þá staðreynd, að enginn jarðeigandi á umræddu landsvæði hafði á því tímamarki, sem samningurinn var gerður, getað fært sönnur fyrir óskoruðum eignarumráðum sínum yfir heiðunum. Verður að telja, að það hafi verið fullreynt með áðurnefndum málaferlum milli hreppa í Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu gegn stefnda í máli þessu, sem lauk með dómum Hæstaréttar 10. apríl 1997 og sigri stefnda.  Það er því niðurstaða dómsins, að viðurkenna beri rétt stefnanda til að krefja stefnda um endurgjald vegna vatnsréttinda í Blöndu í Blöndudal fyrir almennings- og afréttarlönd Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar í samræmi við 3. gr.  samnings málsaðila frá 11. ágúst 1982.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur stefnanda, íslenska ríkisins, til að krefja stefnda, Landsvirkjun, um endurgjald vegna vatnsréttinda í Blöndu í Blöndudal fyrir almennings- og afréttarlönd Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar í samræmi við 3. gr. samnings málsaðila frá 11. ágúst 1982.

Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.