Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-285

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Haukur Örn Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Brot gegn blygðunarsemi
  • Nálgunarbann
  • Skaðabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Með beiðni 18. október 2019 leitar ríkissaksóknari fyrir hönd ákæruvaldsins leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. september sama ár í málinu nr. 782/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr. 216. gr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með beiðni 19. október 2019 leitar X jafnframt leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dóminum fyrir sitt leyti á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.

Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi X sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot gegn þáverandi eiginkonu sinni eins og þeim var nánar lýst í tveimur ákæruliðum, en í héraði hafði hann verið sýknaður af sakargiftum samkvæmt öðrum þeirra. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms í fyrsta lagi um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir endurtekin blygðunarsermis- og barnaverndarbrot gagnvart syni sínum á tilgreindu tímabili, sbr. 209. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í öðru lagi fyrir endurtekin brot gegn nálgunarbanni, sbr. 232. gr. laga nr. 19/1940 og í þriðja lagi fyrir brot gegn 5. mgr. 47. gr., sbr. 74. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti með því að hafa komið fyrir eftirfararbúnaði og GPS-staðsetningartæki í bifreið brotaþola. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða öðrum brotaþola skaðabætur.

Ákæruvaldið telur að refsing sú sem ákærða var gerð með fyrrnefndum dómi hafi verið ákveðin til muna of væg, sbr. 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008. Tilgangur áfrýjunar sé annars vegar að fá endurskoðun á ákvörðun viðurlaga og hins vegar á niðurstöðu sem byggð sé á skýringu eða beitingu réttarreglna, sbr. a. og b. lið 1. mgr. 215. gr. laganna. Beiðni sinni til stuðnings vísar ákæruvaldið til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og að áfrýjunin lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu, sbr. 2. og 3. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Landsréttur hafi í dómi sínum ranglega tilgreint afhendingartíma dómsgerða til Landsréttar. Þá hafi niðurstaða réttarins um að milda refsingu leyfisbeiðanda um eitt ár ekki verið rökstudd, auk þess sem refsingin sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Í dóminum hafi hvorki verið litið til sakarferils ákærða til refsiþyngingar við ákvörðun refsingar, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, né til þess að brot leyfisbeiðanda hafi verið framið á sérstaklega meiðandi hátt, sbr. c. lið 195. gr. sömu laga. Um ranga beitingu réttarreglna vísar ákæruvaldið til þess að það hafi almenna þýðingu að fá úr því skorið hvort ákvæði b. liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 eigi við þegar tekin er skýrsla af barni sem vitni eða brotaþola þegar barnið er skyldmenni sakbornings. Í fyrrnefndum dómi hafi verið vísað til þess að ekki yrði byggt á skýrslu sonar leyfisbeiðanda þar sem fyrrnefnds ákvæðis hafi ekki verið gætt. Þessi lagatúlkun Landsréttar sé röng og í andstöðu við dómaframkvæmd.

Leyfisbeiðandinn X telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnlega rangur vegna þess að sök hans hafi ekki verið sönnuð hvað varðar tilgreinda ákæruliði. Dómurinn hafi byggt á röngu mati á sönnunargildi gagna í málinu og rangri beitingu réttarreglna, auk þess sem verknaðarlýsing tiltekins liðar í ákæru sé óskýr og uppfylli ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Þá hafi í dóminum ekki verið tekin afstaða til allra varnarástæðna hans einkum um að ásetning hafi skort til brota gegn syni hans. Loks hafi málið almenna þýðingu um skýringu þeirra réttarreglna sem háttsemi leyfisbeiðanda hafi verið talin brjóta gegn.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn um beitingu ákvæðis b. liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu, auk þess sem mikilvægt sé að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga, sbr. 4. mgr. 215. gr. laganna. Er því fallist á beiðni ákæruvaldsins um að málið verði flutt um beitingu fyrrnefndra réttarreglna og ákvörðun viðurlaga, sbr. a. og b. liði 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, vitna og brotaþola, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.