Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2006


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2007.

Nr. 243/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Orra Frey Gíslasyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Stefán Ólafsson hdl.)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur. Aðfinnslur.

O var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við X á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var um sakfellingu ákærða, var talið sannað að O hefði notfært sér ölvun og svefndrunga X til að koma fram vilja sínum og þar með brotið gegn 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi og til að greiða X 700.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta til brotaþola að fjárhæð 1.000.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. júlí 2004 til 19. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð og bótakröfu vísað frá dómi eða hún lækkuð.

Ljóst er af framburði kæranda og vitna að kærandi hafi verið rænulaus vegna mikillar áfengisdrykkju og svefndrunga á þeim tíma sem ákærði hafði við hana samfarir. Ákærða hlaut því að vera ljóst að hún var alls ófær um að sporna við þeim. Með vísan til þessa og forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Í niðurstöðu héraðsdóms er því réttilega lýst að dráttur hafi orðið á rannsókn málsins sem er aðfinnsluverður. Þegar horft er til brots ákærða og dómafordæma verður þessi dráttur á rannsókn málsins og meðferð þess hjá ákæruvaldinu þó ekki talinn svo verulegur að hann réttlæti að refsing ákærða verði bundin skilorði.

Bætur til brotaþola þykja hæfilega ákveðnar 700.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, auk málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Orri Freyr Gíslason, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði X 700.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. júlí 2004 til 19. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 437.183 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2006.

Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 5. október 2005, gegn Orra Frey Gíslasyni, kt. 180380-4859, Bollagötu 14, Reykjavík, ,,fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 4. júlí 2004, í bifreið á tjaldsvæðinu á Laugarvatni, haft samræði við X, og við það notfært sér það að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa á hendur ákærða:

Af hálfu X, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000, auk dráttarvaxta frá 6. júlí 2004 til greiðsludags.¢¢

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Verjandi ákærða krafðist málsvarnarlauna úr ríkissjóði samkvæmt tímaskýrslu.

I.

Kærandi kom á lögreglustöðina á Selfossi 6. júlí 2004 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot sem hann hefði framið gegn henni aðfaranótt sunnudagsins 4. júlí sama ár á tjaldsvæðinu á Laugarvatni. Lýsti hún atvikum á þann veg að hún hefði farið í útilegu á Laugarvatni ásamt stórum vinahópi úr [...] og hefði hópurinn komið á tjaldsvæðið milli klukkan eitt og tvö aðfaranótt laugardagsins og tjaldað þar. Kærandi kvaðst hafa farið snemma á fætur á laugardeginum og eytt deginum með nokkrum úr hópnum og m.a. farið í sund á Selfossi. Hún hefði byrjað að drekka áfengi um áttaleytið um kvöldið en vinahópurinn hefði allur skemmt sér saman á tjaldsvæðinu. Um miðnættið hefði kærandi fengið sér göngutúr um svæðið með vinkonum sínum og hefði hún þá verið orðin talsvert kennd. Þegar hún hefði komið úr göngutúrnum hefði hún hitt ákærða en hann hefði ekki verið með þeim hópi sem kærandi kom með, heldur hefði hann komið að Laugarvatni ásamt vini sínum einhvern tímann á laugardagskvöldinu.

Kærandi mundi ekki hvernig það atvikaðist að hún fékk sér einn smók af hassi  þegar hún hitti ákærða. Mundi hún ekki hver bauð henni hassið en hún hefði ekki verið með það á sér, enda væri hún ekki í fíkniefnaneyslu. Hins vegar kvaðst hún muna eftir að hafa farið með ákærða inn í bifreið, sem vinur ákærða á, og þar hefði ákærði reynt við hana. Hún kvaðst hafa sagt honum að hætta því og síðan farið út úr bifreiðinni en ákærði hefði tekið aðeins í hana þegar hún fór út og beðið hana um að fara ekki en hún hefði gengið aftur inn á tjaldsvæðið til hópsins. Nokkru síðar hefði ákærði komið til kæranda og beðið hana um að tala við sig en hún hefði ekki gert það. Hún hefði farið inn í Daihatsu Charade bifreið vinkonu sinnar ásamt vini sínum, A, og sofnað þar ölvunarsvefni um klukkan fimm aðfaranótt sunnudagsins. Kærandi kvaðst muna eftir sér næst um ellefuleytið á sunnudagsmorgninum. Hún hefði þá verið íklædd fötum af vinkonu sinni og öðrum nærfötum en hún var í kvöldinu áður. Kærandi sagði að á laugardagskvöldið hefði hún verið klædd svörtum, víðum kvartbuxum, svörtum stuttermabol, svörtum nærbuxum og bláum brjóstahaldara en morguninn eftir hefði hún hins vegar vaknað íklædd sama svarta stuttermabolnum, sama brjóstahaldara en í gráum nærbuxum og bláum adidasíþróttabuxum með skærgrænum röndum og þá hefði svefnpokinn verið opinn þegar hún vaknaði. Lýsti kærandi því jafnframt að þegar hún vaknaði hefði hún verið aum í öllum líkamanum og í klofinu. Einnig hefði hún fundið fyrir sæðisvökva í leggöngum og á lærunum auk þess sem sæðisvökvi hefði verið í nærbuxunum. Hún kvaðst hafa verið ein í bifreiðinni þegar hún vaknaði og hefði hún þá legið með fæturna í farþegasætinu en höfuðið í bílstjórasætinu.

Hafði kærandi eftir vinkonum sínum, B og C, að þær hefðu séð kæranda sofandi í svefnpoka inni í bifreiðinni og hefði ákærði legið við hlið hennar og haldið utan um hana. Hefðu vinkonurnar sagst hafa opnað bifreiðina og spurt ákærða hvað hann væri að gera og hann svarað því til að hann svæfi þarna vegna þess að ekki væri pláss fyrir hann í bifreið hans. Hefðu vinkonurnar þá lokað bifreiðinni aftur. Síðar um nóttina hefðu þær hitt ákærða aftur og þá farið að bifreiðinni og litið inn í hana og séð að kærandi var komin úr fötunum. Hefðu þær klætt kæranda í föt af þeim sjálfum og síðar hefði ákærði komið til þeirra og beðið þær um lyklana að bifreiðinni vegna þess að hann hefði gleymt einhverju þar en vinkonurnar ekki orðið við því. Kærandi kvað A hafa sagt sér að ákærði hefði komið að bifreiðinni þegar hann var um það bil að sofna og beðið sig um að fá að sofa í henni. Hefði A orðið við því og farið út úr bifreiðinni.

Kærandi kvaðst hafa komið heim til sín um eittleytið á sunnudeginum og þá farið í apótek og keypt neyðarpilluna en síðan farið á neyðarmóttökuna um fjögurleytið. Hún hefði hvorki farið í sturtu né þrifið sig áður en hún fór á neyðarmóttökuna en um klukkan 14:00 á mánudeginum 5. júlí hefði hún farið þangað með nærbuxurnar sem hún vaknaði í umrætt sinn. Kemur fram í skýrslunni að kærandi hafi neitað að hafa nokkurn tímann verið í kynferðislegu sambandi við ákærða en þau heilsist á götu. Loks kvað kærandi B, vinkonu sína, hafa sent ákærða sms-skilaboð á leiðinni heim þar sem hún hefði spurt hann um það hvað hefði komið fyrir um nóttina en kærandi gat ekki skýrt nákvæmlega frá því hvað þeim fór á milli.

Í málinu liggur fyrir skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á kæranda sem komið hafi á neyðarmóttöku vegna nauðgunar hinn 4. júlí 2004. Kemur þar fram að kærandi hafi lýst atvikum þannig að hún hefði verið með vinkonum sínum í útilegu á Laugarvatni og sofnað áfengisdauða um fjögurleytið um nóttina í bifreið vinkonu sinnar. Hefði hún vaknað við það um morguninn að vinkonur hennar vöktu hana og hefði hún þá verið allsnakin og fundið að búið var að hafa við hana samfarir. Vinkonurnar hefðu klætt hana og sagt henni að þær hefðu séð vin þeirra í bifreiðinni. Kærandi hefði lýst því að hún hefði fundið útferð frá leggöngum og hefði hún verið lurkum lamin en hvorki með meiðsli né áverka að hennar sögn. Hefði hún hins vegar ekkert munað eftir ætluðum atburði. Hún hefði verið búin að skipta um föt þegar hún kom á neyðarmóttökuna en í skýrslunni kemur fram að kærandi hafi afhent nærbuxur sínar á neyðarmóttöku daginn eftir.

Samkvæmt skýrslunni er ástand kæranda við komu á neyðarmóttöku á þann veg að hún hafi verið fjarræn, óraunveruleikatengd og í hnipri en frásögn hennar hefði verið skýr þótt hún myndi lítið. Í kafla um kvenskoðun kemur fram að ekkert óeðlilegt hafi komið fram við skoðun ytri kynfæra, leggangaskoðun, þreifingu grindarholslíffæra eða skoðun endaþarms. Loks lýsir læknir því í niðurstöðukafla skýrslunnar að um hafi verið að ræða unga stúlku sem var í útilegu og dó áfengisdauða í bifreið en vaknaði þar allsnakin og beri sjónarvottar að maður hafi verið í bifreiðinni þegar þeir komu að. Stúlkan hafi fundið að það hefðu verið hafðar við hana samfarir. Hún hefði verið búin að skipta um föt og kaupa neyðargetnaðarvörn. Stúlkan vilji helst ekki kæra en sýni séu tekin til réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar ef henni snúist hugur, sýni til sýklaræktunar og blóðrannsókn með tilliti til veirusmits og lyf gefið til að koma í veg fyrir klamydíu. Stúlkunni hafi verið gefinn kostur á viðtali við félagsráðgjafa degi síðar og aðstoð lögmanns. Þá hafi verið gert ráð fyrir endurkomu.

Hinn 22. desember 2004 voru send til DNA-rannsóknar hjá Rettsmedisinsk Institutt við Háskólann í Osló gögn, sem safnað hafði verið á neyðarmóttökunni, og samanburðarsýni úr kæranda og ákærða. Í samantekt greinargerðar D, sérfræðings hjá lögreglunni í Reykjavík, dagsettri 23. febrúar 2005 kemur fram að niðurstöður á greiningu sáðfrumna hafi gefið DNA snið sem samsvaraði DNA-sniði ákærða.

Loks liggur frammi í málinu vottorð E sálfræðings, dagsett 2. janúar 2006. Þar kemur fram að X hafi verið vísað í sálfræðiviðtöl í framhaldi af komu á neyðarmóttöku 4. júlí 2004. X hafi þegið 12 sálfræðiviðtöl, síðast 15. desember 2005. Í samantektarkafla vottorðsins kemur fram að allt viðmót X bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn og varnarleysi, sem liggi til grundvallar fyrsta viðmiðs í greiningu áfallastreituröskunar. Atburðurinn hafi haft alvarlegar tilfinningalegar og félagslegar afleiðingar, sem samsvari afleiðingum alvarlegra áfalla eins og nauðgunar, stórslyss eða hamfara og falli undir önnur greiningarviðmið áfallastreituröskunar. Kemur fram að niðurstaða sjálfsmatskvarða samsvari frásögnum stúlkunnar í viðtölum. Síðan segir: ,,Þessi vanlíðan leiddi stúlkuna út í misnotkun vímuefna og hafði víðtæk áhrif á námshæfni og samskipti við annað fólk. Stúlkan virðist hreinskilin, trúverðug og ávallt samkvæm sjálfri sér. Í dag, 16 mánuðum eftir atburð, hefður hún náð að vinna vel úr sínum málum. Niðurstaða: Áfallastreituröskun (Post Traumatic Stress Disorder: ICD-10, F43.1).¢¢

Verður nú rakinn framburður ákærða og vætti vitna fyrir dóminum.

Ákærði hefur neitað sök. Hann kvaðst hafa farið að Laugarvatni milli klukkan átta og hálfníu á laugardagskvöldið umrætt sinn með félögum sínum, F og G. Þeir hefðu hvorki verið með tjald né svefnpoka meðferðis en ætlað að finna sér einhverja gistingu. Kvaðst ákærði hafa drukkið áfengi um kvöldið og reykt hass en hann hefði þó ekki verið ofurölvi og taldi sig muna atburði kvöldsins. Hefðu verið margir [...] á svæðinu og ákærði kannast við marga, m.a. X og vinkonur hennar.

Ákærði kvaðst fyrst hafa hitt X milli klukkan níu og tíu um kvöldið. Síðar hefði X komið til hans og spurt hann hvort hann ætti hass. Hefði hann neitað því en síðan hefðu þau útvegað sér hass og reykt það inni í bifreið F um tíuleytið. Þau hefðu setið inni í bifreiðinni í um það bil hálftíma en enginn samdráttur hefði verið á milli þeirra og neitaði ákærði því að hann hefði verið að ,,eltast vi𢢠hana. Hins vegar hefðu þau gengið um svæðið og spjallað saman eftir að þau fengu sér að reykja en síðan farið aftur á tjaldsvæðið og blandað geði við annað fólk. Kvaðst ákærði hafa sest inn í tjald þar sem fyrir voru margir [...] og setið þar lengi.

Síðar um nóttina hefði ákærði rölt um svæðið og komið að Daihatsu-bifreið og séð X og strák þar inni. Ákærði kvaðst ekki hafa talað við strákinn en strákurinn hefði farið út úr bifreiðinni og þá hefði ákærði sest inn í hana. X hefði setið í bílstjórasætinu og hefði hún spurt hver væri að koma. Þegar ákærði hefði sagt til sín hefði hún boðið honum undir svefnpokann sinn. X hefði þá verið vakandi og íklædd bol og nærbuxum. Ákærði lýsti því að hann hefði losað um brjóstahaldara X, klætt hana úr nærbuxunum og síðan hafi þau hafið forleik og í framhaldi af því haft kynmök en þau hefðu þá lagst yfir bæði sætin. Ákærði kvaðst hafa farið úr buxunum og peysunni en verið í stuttermabol. X hefði nefnt nafn ákærða á meðan á samförunum stóð og þá hefði hún svarað ákærða játandi þegar hann spurði hana hvort hann ætti að ,,koma til hennar almennilega.¢¢ Hefði þetta tekið um 30 til 45 mínútur en þegar ákærði hefði klætt sig hefði X spurt hann hvert hann væri að fara og hann sagst ætla út að pissa. Hún hefði beðið hann að koma aftur en hann sagt að það myndi hann ábyggilega ekki gera. Aðspurður um ástand X kvað ákærði hana hafa verið ölvaða en þó ekki ofurölvi og langt í frá að hún vissi ekki hvað hún væri að gera. Ákærði kvað klukkuna hafa verið milli þrjú og hálffjögur um nóttina þegar hann fór út úr bifreiðinni. 

Um klukkutíma síðar hefði ákærði hitt vinkonur X og beðið þær um lykla að bifreiðinni en þá hafði hann hugsað sér að fara aftur að sofa. Þær hefðu ekki viljað láta hann hafa lyklana og hefði ákærði sofið í bifreið F, vinar síns, sem þeir félagarnir hefðu lagt við hliðina á Daihatsu-bifreiðinni sem X var í. Hins vegar kannaðist ákærði ekki við að vinkonur X hefðu komið að Daihatsu-bifreiðinni á meðan hann var þar inni og bankað í rúðuna. F hefði gengið fram hjá þegar ákærði var á leið út úr bifreiðinni að pissa og hefði hann spurt hvort ákærði hefði sofið hjá X og kvaðst ákærði hafa játað því.

Á sunnudagsmorgninum hefðu þau ákærði og X rætt atburði næturinnar og hefði X þá ekki viljað að það yrði á allra vitorði því þetta væri framhjáhald af hennar hálfu. Hins vegar hefði hún ekki ásakað ákærða með neinum hætti og þá hefði henni virst alveg ljóst að hún hefði haft kynmök við ákærða. Ákærði kvaðst hafa aðstoðað vinkonurnar við að taka saman dótið þeirra og einnig ýtt bifreiðinni í gang fyrir þær. Á leiðinni heim hefði hann fengið sms-skilaboð úr síma vinkonu X þar sem hann var spurður um það hvað hefði gerst og önnur fleiri ,,bullskilaboð.¢¢ Þessu hefði ákærði svarað þannig að þetta hefði verið fyllerísrugl því hann hefði ekki viljað segja vinkonu X frá kynmökum þeirra þar sem þau X hefðu sammælst um að halda þessu sín á milli. Ákærði kvaðst hafa fengið tvenn önnur sms-skilaboð en hann hefði ekki svarað þeim þar sem þau voru send úr símanúmerum sem hann þekkti ekki. Ákærði kvaðst fyrst hafa heyrt um kæru X á hendur honum á miðvikudeginum þegar lögreglan á Selfossi hringdi í hann.

Aðspurður taldi ákærði að F, vinur hans, hefði orðið fyrir aðkasti vegna þessa máls í tvígang. Í fyrra sinnið hefði X ráðist á hann en í síðara skiptið hefði kærasti X kastað glasi í höfuð hans inni á veitingastaðnum Gauki á Stöng.  

Vitnið X, bótakrefjandi í málinu, kvaðst hafa farið í útilegu á Laugarvatni með vinkonum sínum í byrjun júlí 2004. Hefðu þær komið þangað um tvöleytið aðfaranótt laugardagsins og byrjað að drekka en vitnið kvaðst hafa drukkið nokkra bjóra og síðan farið að sofa um fimmleytið um nóttina. Vitnið kvaðst hafa eytt laugardeginum á Selfossi en síðan farið aftur að Laugarvatni og hefðu þær vinkonurnar byrjað að drekka um áttaleytið um kvöldið. Aðspurð kvaðst vitnið hafa drukkið hálfa flösku af Hot’n’Sweet, 11 bjóra og einn breezer auk þess sem hún hefði reykt hass. Var hún viss um að hafa drukkið 11 bjóra á laugardagskvöldinu því hún hefði haft meðferðis 14 bjóra og drukkið þrjá þeirra á föstudagskvöldinu en var viss um að hún hefði í ferðinni drukkið allt áfengið sem hún hafði haft með sér.

Eftir miðnætti hefðu þær vitnið og B farið í um það bil klukkutíma langan göngutúr og þá hefði hún hitt ákærða. Þau ákærði hefðu farið inn í bifreið vinar hans og reykt hass og ákærði reynt við hana en hún sagt nei og farið út úr bifreiðinni. Hefðu þau ákærði verið um það bil hálftíma inni í bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa farið inn á tjaldsvæðið og hitt þar A, vin sinn, og þá tekið eftir því hversu drukkin hún var orðin og óviðræðuhæf. Þau A hefðu ákveðið að fara inn í Daihatsu-bifreið I til að spjalla saman og hefði hún sest í bílstjórasætið og lagst ofan á svefnpokann sinn en síðan hefði hún lognast út af og sofnað klukkan fimm um morguninn. Vitnið kvaðst hafa verið klædd svörtum stuttermabol og svörtum buxum en farið úr peysunni og skónum inni í bifreiðinni.

Næst mundi vitnið eftir sér þegar hún vaknaði morguninn eftir en þá hefði hún legið með fæturna uppi í farþegasætinu. Minnti vitnið að hún hefði vaknað við að ákærði kom að bifreiðinni, bankaði í hana og spurði hvort allt væri í lagi. Hefði hún svarað því játandi enda hefði hún verið nývöknuð og ekki enn verið búin að átta sig á hvað hafði gerst. Þegar hún hefði lyft svefnpokanum, hefði hún tekið eftir því að hún var í adidas-buxum, gráum nærbuxum og svörtum bol sem voru önnur föt en hún var í kvöldinu áður. Þegar vitnið settist upp hefði hún fundið sæðisvökva leka niður en gat þó enn ekki áttað sig á hvað hafði í raun gerst. Neitaði vitnið því aðspurð að kynmök þeirra ákærða hefðu farið fram með samþykki hennar.

Vitnið kvaðst hafa verið í sjokki og hefðu vinkonur hennar sem komu að henni áttað sig á að henni var mjög brugðið. Kvaðst vitnið hafa spurt vinkonurnar út í það sem gerðist og þær hefðu sagt henni að ákærði hefði verið í bifreiðinni hjá henni og að hann hefði sagt að hann ætlaði að leggja sig þar því hann ætti að aka einhverri dýrri bifreið daginn eftir. Þær hefðu jafnframt sagt vitninu að þegar þær hefðu komið að bifreiðinni síðla nætur, hefði vitnið verið ber að neðan og þær hefðu því klætt hana. Kvaðst vitnið ekkert muna eftir því enda hefði hún ekki vaknað þótt þær reyndu að vekja hana.   

Á leiðinni heim hefði vinkona vitnisins stungið upp á því að þær sendu ákærða sms-skilaboð og spyrðu hann út í atburði næturinnar þar sem vitnið mundi ekkert. B hefði sent ákærða skilaboð úr sínum síma þar sem vitnið var annað hvort ekki með síma á sér eða átti enga inneign. Ákærði hefði svarað skilaboðunum á þann veg að þetta hefði verið eitthvert fyllerísrugl. Vitnið kvaðst hafa farið beint heim til sín og talað við kærasta sinn og hefðu þau farið saman í apótek. Kærastinn hefði síðan talið vitnið á að fara á neyðarmóttöku og það hefði hún gert.

Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa átt samskipti við ákærða eða vini hans eftir að hún lagði fram kæruna en ákærði hefði þó reynt að nálgast hana. Hins vegar hefði F angrað vitnið og kærasta hennar í samkvæmi skömmu síðar og hefði hann elt þau milli skemmtistaða og á endanum hefði hann fengið bjórglas í höfuðið.

Vitnið kvað umrætt atvik hafa haft slæm áhrif á sig. Hún hefði ekki farið út úr húsi í mjög langan tíma og þá hefði kynlíf hennar og kærasta hennar til þriggja ára beðið skaða af. Hún hefði engum treyst og því ekki þorað út og kvaðst vitnið enn vera í sálfræðimeðferð hjá E sálfræðingi. Í kjölfar atviksins hefði vitnið leiðst út í neyslu fíkniefna en áður hafði hún eingöngu prófað hass tvisvar eða þrisvar en engri fíkniefnaneyslu verið í. Jafnframt hefði henni gengið ver í skóla eftir umrætt atvik en hefði fram að því gengið vel í námi. 

Vitnið, C, vinkona X, kvaðst hafa farið að Laugarvatni umrætt sinn með X og fleiri vinkonum sínum og komið þangað á föstudagskvöldinu. Á laugardagskvöldinu hefði verið talsverð drykkja hjá hópnum en vitnið hefði ekki drukkið mjög mikið og myndi því vel atburði kvöldsins. X hefði hins vegar verið mjög ölvuð en haldið sig nálægt hópnum og kvaðst vitnið hvorki hafa tekið eftir því að X hefði horfið né ákærði kom á svæðið. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa orðið vör við samskipti X og ákærða í upphafi kvölds en mundi þó eftir því að X hefði talað um að ákærði væri uppáþrengjandi.

Um kl. 5, 6 eða 7 um morguninn hefði vitnið komið að X í bifreið I og séð X í bílstjórasætinu en ákærði hefði verið við hlið hennar, á milli sætanna, og haldið utan um hana. Ákærði hefði verið með lokuð augun en vaknað þegar vitnið bankaði á rúðuna. Hann hefði skrúfað niður rúðuna og þau vitnið rætt saman og hefði ákærði þá ekki virst vera ölvaður. Tók vitnið ekki eftir því hverju ákærði klæddist. Vitnið kvað ákærða hafa beðið um að fá að gista í bifreiðinni og vitnið hefði sagt að það væri í lagi en hann ætti að vera sín megin í farþegasætinu og jafnframt að hann ætti ekki að halda utan um X þar sem hann vissi fullvel að hún ætti kærasta sem væri kallaður H. X hefði verið áfengisdauð og hefði hún ekkert rankað við sér þegar vitnið bankaði í rúðuna. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa séð X með A í bifreiðinni umrædda nótt.

Vitnið kvaðst hafa farið aftur á tjaldsvæðið þar sem gleðskapurinn stóð enn og sagt B að X og ákærði væru saman inni í bifreiðinni. Þær hefðu farið saman að bifreiðinni en B hefði fengið bíllyklana hjá I. Mundi vitnið ekki eftir því hversu langur tími leið frá því að vitnið kom í fyrra skiptið að bifreiðinni og þar til þær B komu að X einni í bifreiðinni, en það gætu hafa verið 1-2 klukkustundir. Þegar þær B hefðu komið að bifreiðinni hefðu þær séð X liggjandi eina inni í bifreiðinni og hefði hún verið nakin með svefnpokann að hálfu leyti yfir sér. Hefði höfuð X verið í bílstjórasætinu en fæturnir í farþegasætinu frammi í en þegar vitnið kom í fyrra sinnið að bifreiðinni, hefði hún setið öðruvísi í sætinu. X hefði ekki vaknað en muldrað og sagt að H, kærasti hennar, hefði verið hjá sér en  H var ekki á Laugarvatni þegar þetta var. Þær B hefðu klætt X í nærbuxur og íþróttabuxur af vitninu en síðan breitt svefnpokann yfir hana, læst bifreiðinni og farið aftur í tjald og sofnað þar án þess að hún gæti sagt til um hvenær það var. Aðspurð kvað vitnið X ekkert hafa orðið vara við það þegar þær B klæddu hana í fötin.

Morguninn eftir hefði X fundið eitthvað leka frá leggöngum sínum og spurt hvað hefði gerst en vitnið hefði sagt henni að ákærði hefði verið inni í bifreiðinni. Síðan hefðu þær haldið heim. Aðspurð kvað vitnið ákærða ekki hafa átt nein samskipti við þær vinkonurnar um morguninn og kvaðst aðspurð ekki muna eftir því að hann hefði hjálpað þeim við að koma bifreið þeirra í gang. Leiðrétti vitnið lögregluskýrslu sína að því er varðar það sem eftir henni er haft um að hún hafi farið þrisvar að bifreiðinni um nóttina en rétt væri að hún hefði komið að bifreiðinni í tvígang eins og hún hefði lýst hér fyrir dóminum. Þá minnti hana að B hefði verið með lyklana að bifreið I á sér en hefði ekki þurft að sækja þá eins og fram komi í lögregluskýrslunni.

  Vitnið B kvaðst hafa verið í útilegu á Laugarvatni ásamt X, vinkonu sinni, og fleira fólki. Hefði hún farið þangað á föstudagskvöldinu í bifreið I og hefðu þær byrjað að skemmta sér þegar þær komu á leiðarenda. Vinkvennahópurinn hefði verið með tvö tjöld með sér og hefði vitnið gist í öðru þeirra. Á laugardeginum hefðu þær farið í sund, fengið sér að borða og síðan byrjað að skemmta sér og drekka áfengi með fólkinu á svæðinu.

Vitnið kvað ákærða hafa komið á staðinn á laugardeginum og minntist hún þess að X hefði sagt að hann væri ágengur við sig. X hefði þá verið orðin mjög drukkin en hún hefði klárað næstum því heila flösku af Hot’n’Sweet. Þær X hefðu farið í um það bil klukkustundar langan göngutúr en vitnið gat aðspurð ekki áttað sig á því hvenær það var. Þá kvaðst vitnið ekki hafa orðið vör við það þegar X fór inn í Daihatsu-bifreiðina til að leggja sig en C hefði sagt sér frá því og jafnframt að ákærði væri með X þar inni. Þær C hefðu gengið að bifreiðinni og kvaðst vitnið hafa bankað á rúðuna og beðið ákærða að opna bifreiðina. Ákærði hefði ekki svarað en skrúfað niður rúðuna og spurt hana hvað hún vildi. Vitnið hefði sagt ákærða að hafa opið því hún vildi geta náð í dótið sitt seinna um kvöldið en hann hefði sagt sér að taka það strax. Ákærði hefði opnað bifreiðina og C þá sagt honum að vera sín megin. Vitnið kvaðst ekki hafa átt orðaskipti við X enda hefði vitnið talið hana vera áfengisdauða þar sem hún svaraði engu þegar vitnið bankaði á bílrúðuna hennar megin. Hún hefði þó ekki reynt að hrista X til en ályktað að hún væri áfengisdauð þar sem hún vissi að X var mjög drukkin.

Að þessu loknu hefðu þær C farið burt en nokkru síðar séð ákærða koma út úr bifreiðinni en þegar þær hefðu farið að bifreiðinni aftur, hefði hurðin verið læst þeim megin sem X var. Gat vitnið ekki upplýst hversu langur tími hefði liðið milli þeirra tveggja skipta sem þær vinkonurnar komu að Daihatsu-bifreiðinni umrædda nótt en taldi að það hefði verið skammur tími. Vitnið kvaðst hafa opnað hurðina farþegamegin og þá séð nærbuxur X, sokka og eitthvað fleira á mælaborðinu og hefði X verið með fæturna í farþegasætinu en var viss um að þegar þær C skildu við hana í fyrra skiptið hefði hún verið klædd og með fæturna undir stýrinu. Þær C hefðu hjálpast að við að klæða X í nærbuxur og buxur en hún hefði ekki svarað þótt vitnið hefði kallað nafn hennar. Þegar þær C hefðu reynt að eiga orðaskipti við X, hefði hún einungis umlað eitthvað um kærasta sinn. Þegar þær hefðu lokið við að klæða X, kvaðst vitnið hafa læst hana inni í bifreiðinni en sjálf geymt bíllykilinn.

Skömmu síðar hefði ákærði komið til vitnisins og beðið um bíllykilinn með þeim orðum að hann ætlaði að sækja svefnpokann sinn. Vitnið kvaðst hafa sagt honum að hann ætti engan svefnpoka í bifreiðinni og þá hefði ákærði sagst eiga þar geisladiska. Vitnið kvaðst hafa opnað bifreiðina, afhent ákærða geisladisk og síðan læst bifreiðinni á nýjan leik. Kvaðst vitnið hafa verið vakandi fram eftir nóttu en þegar búið var að ganga frá farangrinum morguninn eftir, hefðu þær vinkonurnar vakið X. X hefði sagt að sér væri illt og átt erfitt með að fóta sig inni í bifreiðinni. Bifreiðin hefði verið rafmagnslaus og þær vinkonurnar ýtt bifreiðinni í gang með hjálp annarra sem þarna voru. Þegar X hefði rétt sig við, hefði hún fundið eitthvað leka og sagt þeim vinkonunum frá því. X hefði smám saman áttað sig á málavöxtum og brostið í grát. X hefði þó ekki vitað af ákærða inni í bifreiðinni um nóttina en munað eftir A þar.

Vitnið kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða á sunnudeginum en X hefði sent honum skilaboð úr síma vitnisins og hann hefði sent ,,tómt kjaftæði¢¢ til baka. Vitnið kvaðst hafa reiðst og sent honum önnur skilaboð. Aðspurð um það hvers vegna X hefði sent skilaboðin úr síma vitnisins en ekki úr sínum eigin síma, kvað vitnið X ekki hafa átt inneign í símanum sínum. 

Vitnið A, vinur X, kvaðst hafa komið að Laugarvatni um kaffileytið á laugardeginum. Hefði X verið orðin mjög drukkin þegar hann hitti hana um nóttina og því hefði hann hjálpað henni inn í Daihatsu-bifreiðina þar sem hún settist í bílstjórasætið en hann í farþegasætið við hliðina. Vitnið kvaðst hafa reynt að tala við X en hún hefði sofnað strax og hefði hann setið hjá henni um stund þar til ákærði bankaði á bílrúðuna og sagðist ætla að sofa í bifreiðinni. Vitnið kvaðst þá hafa farið enda hefði hann talið það vera í lagi því að ákærði hefði verið um kvöldið með sama fólkinu og þau hin. Kvað vitnið X hafa sagt sér frá því sem gerðist nokkrum dögum síðar.

Vitnið J kvaðst þekkja ákærða og þær C og X. Hann kvaðst hafa frétt af þessu máli og spurt stelpurnar út í það. Hefðu sögur þeirra ekki verið á einn veg og m.a. hefði ein þeirra sagt að þær hefðu ekki séð ákærða fara inn í bifreiðina eins og hinar höfðu haldið fram. Þá minnti hann jafnframt að B hefði sagt sér að hún hefði ekki komið að þeim ákærða og X saman heldur hefði hún einungis komið að X einni í bifreiðinni morguninn eftir. Kvað vitnið stelpurnar hafa brugðist illa við efasemdum vitnisins.

Vitnið E sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt frá 2. janúar sl. sem liggur frammi í málinu. Hefði X verið í viðtölum hjá vitninu í 16 mánuði. Vitnið kvað X hafa verið illa haldna andlega þegar hún leitaði fyrst til hennar. Henni hefði liðið mjög illa og sýnt öll merki áfallastreitu sem sé eðlilegt í kjölfar slíks atviks. X hefði fundist hún ráða betur við ástandið og deyfa kvíðann með því að reykja hass. Hefði hún hætt að tala við vitnið á tímabili en síðan komið til baka og þá verið búin að átta sig á því að þessi leið gengi ekki. X hefði þá verið farið að ganga verr í námi en fram að því hafði henni gengið vel, auk þess sem hún hefði misst tengsl við félaga sína. Hún hefði hætt fíkniefnaneyslunni og komist að því að hún var barnshafandi en það hefði hjálpað henni að takast á við þetta allt saman og hefði henni upp frá því gengið vel að vinna úr áfallinu.

Vitnið kvað X hafa verið samkvæma sjálfri sér í frásögn sinni af atburðinum og mjög trúverðuga þegar hún lýsti því hvað ylli henni vanlíðan. Væri mjög erfitt að leika endurtekið sömu tilfinningaviðbrögð við ákveðnum hlutum en í frásögn X hefði alltaf skinið í gegn að hún hefði talið sig vera óhulta innan um þá sem voru á Laugarvatni umrætt sinn en það hefði ekki reynst vera rétt. Taldi vitnið aðspurð að X hefði ekki sýnt þau viðbrögð sem hún sýndi, ef um það hefði verið að ræða að hún sæi eftir einhverju sem hún gerði vísvitandi. Hins vegar kvaðst vitnið ekki geta svarað því hvort áfallið hefði verið til komið vegna þess að X mundi ekkert eftir samförunum.

Vitnið I, vinkona X, gaf skýrslu sína í gegnum síma. Hún kvað hafa farið að Laugarvatni á föstudagskvöldinu ásamt vinkonum sínum þeim X, B og C. Hefðu þær verið samferða í Daihatsu-bifreið vitnsins. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að samskiptum ákærða og X aðfaranótt sunnudagsins enda hefði hún farið að sofa milli klukkan fimm og sex um nóttina. X hefði verið mjög drukkin um nóttina og kvartað yfir að ákærði hefði verið ágengur við sif. Morguninn eftir hefði vitnið séð X þar sem hún sat í bílstjórasætinu. Vitnið hefði þurft að hjálpa X á fætur en henni hefði liðið mjög illa og smám saman hefði hún greinilega áttað sig á því að kynlíf hefði átt sér stað. Á heimleiðinni hefði X grátið mikið og verið í töluverðu uppnámi en hún hefði ekkert munað. Þegar X hefði spurt A, vin þeirra, um atburði næturinnar hefði hann sagt henni að hún hefði dáið áfengisdauða. Þær B og C hefðu síðan sagt frá því þegar þær gengu framhjá bifreiðinni um nóttina og sáu X nakta og klæddu hana og læstu inni í bifreiðinni.

Vitnið kvaðst hafa hitt F, vin ákærða, á fimmtudeginum á eftir og hefði hann þá sagt að hann vissi ekkert um þetta mál en síðar hefði hann sagt X segja ósatt, enda hefði hann séð að X var vakandi. Þegar vitnið hefði spurt hvernig stæði á því að hann vissi núna eitthvað um málið en hefði sagt áður að hann vissi ekkert, hefði F sagt að það hefði verið þá en þetta væri núna.

Vitnið F, vinur ákærða, kvaðst hafa farið með ákærða að Laugarvatni fyrstu helgina í júlí 2004. Vitnið kvað þau ákærða og X hafa gengið um svæðið og spjallað saman en síðar um nóttina hefði vitnið séð ákærða koma út úr Daihatsu-bifreiðinni þegar honum varð gengið fram hjá bifreiðinni. Þá hefði vitnið litið inn um bílrúðuna úr þriggja til fjögurra metra fjarlægð og séð að X var með opin augu og hreyfði sig og taldi hana því vera vakandi. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hvort hann hefði sofið hjá X og hefði hann svarað því játandi.

Aðspurður um samskipti sín við B seinna í vikunni, kvaðst hann ekki hafa viljað tala um málið við vinkonur X. Skömmu síðar hefði hann lent í orðaskaki við X og kærasta hennar vegna þessa máls og hefði kærastinn kastað glasi í höfuð vitnisins.

K, kvensjúkdómalæknir á neyðarmóttöku Landspítala, kvað X hafa stoppað stutt við á neyðarmóttökunni og ekki haft mikið að segja. Vitnið kvaðst hafa skráð sögu stúlkunnar og tekin sýni til DNA-rannsóknar sem send voru lögreglu. Hins vegar hefði ekki verið tekið blóð úr X til rannsóknar á áfengismagni í blóði hennar enda hefði það yfirleitt ekki verið gert nema ljóst væri að viðkomandi ætlaði að kæra málið til lögreglu.  

II.

Niðurstaða.

Ákærði hefur viðurkennt, bæði hjá lögreglu og hér fyrir dóminum, að hafa haft samfarir við X í Daihatsu-bifreið I aðfaranótt 4. júlí 2004. Niðurstöður framlagðrar DNA-rannsóknar bera að sama brunni og telur dómurinn sannað að ákærði hafi haft kynmök við X umrætt sinn. Hins vegar hefur ákærði borið að samfarir þeirra hafi verið með fullri vitund og vilja X en því hefur X neitað og fullyrt að hún hafi vegna ölvunarástands síns ekki vitað hvað fram fór þeirra á milli í bifreiðinni. Lýsingar ákærða og X á samskiptum þeirra umrætt kvöld og nótt eru í flestum atriðum á sama veg ef frá eru taldar lýsingar á ástandi X og samförum þeirra en framburður beggja hefur verið stöðugur hvor á sinn veg hjá lögreglu og hér fyrir dóminum.

X hefur borið að hún hafi drukkið mikið magn áfengis umrætt sinn auk þess sem hún hafi reykt hass. Hefur hún lýst því að hún hafi sjálf fundið að hún var mjög drukkin og óviðræðuhæf þegar leið á nóttina og hefði hún því farið inn í bifreiðina með A, vini sínum, og lognast þar út af um fimmleytið um morguninn. Þá hefur hún lýst því að hún hafi ekkert munað um atburði næturinnar þegar hún vaknaði um morguninn. Hefur X verið trúverðug í frásögn sinni um atvik og líðan og hefur lýsing hennar ávallt verið á sömu lund í öllum aðalatriðum.

Lýsing X á ölvunarástandi sínu fær stuðning í vitnisburði vitnanna C, B, A og I en þau hafa öll borið að X hafi verið mjög ölvuð. Þá liggur fyrir lýsing þeirra B og C á því að ekki hafi verið hægt að vekja X um nóttina og að hún hafi ekki vaknað þrátt fyrir að þær hafi klætt hana í föt inni í bifreiðinni. Jafnframt hefur A lýst því hvernig X sofnaði strax og hún kom inn í bifreiðina. Þegar litið er til þess mikla magns áfengis sem X kvaðst hafa drukkið umrætt sinn og hassneyslu hennar um nóttina, vitnisburða framangreindra vitna, sem allir eru á sama veg að þessu leyti, þykir dóminum trúverðugt að X hafi sofið svo fast að hún hafi verið ófær um að sporna við samförunum. Vitnisburðir um ástand X eftir á sýna að hún hefur orðið fyrir áfalli og styður framlagt vottorð E sálfræðings og framburður hennar fyrir dómi þá niðurstöðu. Í ljósi þessa þykir engu breyta vitnisburður F um að X hefði verið vakandi en þá ályktun byggði hann á því að hann hefði séð X hreyfa sig með opin augu en fram kom að hann horfði úr þriggja til fjögurra metra fjarlægð og jafnframt kom fram að hann hefði hvorki talað við X né gert tilraun til þess.

Þegar litið er til framburðar X, vættis vinkvenna hennar um að hún hafi verið pirruð yfir ágengni ákærða sem og framburðar ákærða sjálfs um að enginn samdráttur hefði verið með þeim X þegar þau voru ein fyrr um kvöldið, verður ekki talið að ákærði hafi mátt gera ráð fyrir því að X samþykkti kynmökin. Að þessu leyti telur dómurinn þann framburð ákærða að X hafi gefið samþykki sitt fyrir kynmökunum ósennilegan, enda fær hann ekki nægilega stoð í vætti vitna eða gögnum málsins. Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi haft samræði við X gegn vilja hennar umrætt sinn og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er í ákæru en háttsemi hans er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Refsiákvörðun.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem máli skiptir við ákvörðun refsingar í máli þessu. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að brot ákærða er trúnaðarbrot sem beinst hefur gegn kynfrelsi ungrar stúlku. Af framlögðu vottorði sálfræðings og framburði hans fyrir dómi má ráða að brotið hafði í för með sér talsverðar andlegar afleiðingar fyrir stúlkuna. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæflega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Þegar litið er til gagna málsins er ljóst að í lok sumars 2004 lágu fyrir lögregluskýrslur af ákærða og vitnum sem og bótakrafa brotaþola. Lífssýni, sem tekin voru á neyðarmóttöku í upphafi, voru hins vegar ekki send utan til DNA-greiningar fyrr en í lok desember sama ár og bárust niðurstöður rannsóknarinnar í febrúarlok 2005 en ákæra var ekki gefin út fyrr en í október sama ár. Undir rekstri málsins hefur hvorki skýrst hvers vegna þessi dráttur varð né hvers vegna talið var nauðsynlegt að framkvæma lífsýnarannsóknina í ljósi þess að fyrir liggur að ákærði hefur frá upphafi játað að hafa haft samfarir við X. Með vísan til framanritaðs þykir mega fresta fullnustu 9 mánaða af refsivistinni í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingar niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Skaðabætur.

Af hálfu X er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 19. nóvember 2004 til greiðsludags. Er krafan rökstudd á þann veg að brotaþoli hafi orðið fyrir andlegu og líkamlegu áfalli vegna brots ákærða og hefði það valdið henni mikilli vanlíðan. Brot ákærða hefði verið alvarlegt, misnotkunin hefði verið skipulögð og sök ákærða því mikil. Um lagarök er vísað til 170. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála svo og til 26. gr. skaðabótalaga og 4. og 5. greinar sömu laga en um málskostnað er vísað til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af atvikum málsins þykja þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur sem beri dráttarvexti frá 19. nóvember 2004 til greiðsludags.

Sakarkostnaður.

Samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti sækjanda nemur reikningur vegna DNA-rannsóknar 69.383 krónum. Eins og áður er komið fram er óútskýrt hvers vegna rannsókn þessi fór fram en ákærði hefur frá upphafi viðurkennt að hafa haft samfarir við X umrætt sinn og samkvæmt gögnum málsins kom ekkert fram við rannsóknina sem olli vafa þar að lútandi. Þykir því verða að fella kostnað vegna DNA-rannsóknarinnar á ríkissjóð. Annan sakarkostnað málsins, 660.405 krónur, ber ákærða að greiða, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 407.550 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hdl., 99.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Arnfríður Einarsdóttir, sem dómsformaður, Páll Þorsteinsson og Þorgerður Erlendsdóttir.

Dómsorð:

Ákærði, Orri Freyr Gíslason, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsivistinni í 3 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingar niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði X, kt. [...], 800.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. nóvember 2004 til greiðsludags.

Ákærði greiði 660.405 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 407.550 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hdl., 99.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annar sakarkostnaður, 69.383 krónur, greiðist úr ríkissjóði.