Hæstiréttur íslands
Mál nr. 261/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
|
|
Mánudaginn 29. ágúst 2005. |
|
Nr. 261/2005. |
K(Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn M (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna.
Við opinber skipti til fjárslita milli M og K reis ágreiningur um uppgjör átta nánar tilgreindra skulda við lánastofnanir. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á kröfu M um að þeim bæri að greiða umræddar skuldir að jöfnu að frátalinni yfirdráttarskuld á þremur tékkareikningum. Vísað var til þess að opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar gætu ekki farið fram til að færa skuldir frá öðru hjóna yfir á herðar hins, sem eignir þess fyrrnefnda hrökkva ekki fyrir, sbr. 3. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991. Var óumdeilt að hvorugu aðilanna tilheyrðu eignir sem hefðu verðgildi. Af þeim sökum var fallist á kröfu K um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. maí 2005, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila bæri til jafns við hann að greiða fimm nánar tilgreindar skuldir við fjárslit milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilar þess í hjúskap 6. ágúst 1996. Sýslumaðurinn á Selfossi tók fyrir 20. desember 2002 beiðni sóknaraðila um skilnað að borði og sæng við varnaraðila. Ekki var mætt af hálfu varnaraðila, en bókað var eftir sóknaraðila að fjárskipti hefðu farið fram, allar eignir væru seldar og stæði ekki ágreiningur um það. Verður ekki annað ráðið af framkomnum gögnum en að leyfi til skilnaðar hafi verið veitt í samræmi við þessa beiðni.
Varnaraðili beindi kröfu 27. október 2003 til Héraðsdóms Suðurlands um að opinber skipti færu fram til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Í kröfu hans var þess meðal annars getið að allar eignir hefðu verið seldar, en ekki hefði verið gengið frá skuldum, sem flestar væru á nafni hans. Um helstu skuldir var vísað til fylgiskjals með kröfunni, þar sem greint var frá tuttugu skuldbindingum aðilanna. Varðandi sextán þeirra kom fram að varnaraðili væri aðalskuldari og sóknaraðili í þrettán tilvikum ábyrgðarmaður, en fjórar skuldir voru sagðar hvíla á sóknaraðila, þar af tvær með ábyrgð varnaraðila. Fyrir dómi mótmælti sóknaraðili ekki kröfu varnaraðila um opinber skipti og var fallist á hana með úrskurði 23. janúar 2004.
Á skiptafundi vegna fjárslita milli aðilanna, sem skiptastjóri hélt 27. september 2004, kom fram að ágreiningur stæði um uppgjör átta nánar tilgreindra skulda við lánastofnanir. Fimm þessara skulda voru sagðar vera samkvæmt skuldabréfum, sem varnaraðili hafi gefið út, og hafi fjárhæð þeirra alls numið 6.933.994 krónum 31. desember 2002, en óumdeilt virðist hafa verið að miða ætti fjárslit aðilanna við þann dag. Þrjár af skuldunum voru á hinn bóginn sagðar stafa af yfirdrætti á tékkareikningum varnaraðila og hafi fjárhæð þeirra samtals verið 1.697.668 krónur á áðurgreindum degi. Á skiptafundinum gerði varnaraðili sóknaraðila boð um að ljúka skiptum með því að hún greiddi sér 2.500.000 krónur og var henni veittur frestur til 30. september 2004 til að taka afstöðu til þess. Þessu boði hafnaði sóknaraðili og vísaði skiptastjóri til héraðsdóms 27. október 2004 ágreiningi aðilanna um hvort þeim bæri að greiða umræddar átta skuldir að jöfnu, svo sem varnaraðili gerði kröfu um.
Mál þetta var þingfest fyrir héraðsdómi af framangreindu tilefni 15. desember 2004. Sóknaraðili krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 22. apríl 2005. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði leit héraðsdómari svo á að varnaraðili, sem ekki er löglærður og flutti mál sitt sjálfur, hefði fallið frá kröfu sinni að því er varðaði fyrrnefnda yfirdráttarskuld á þremur tékkareikningum. Í úrskurðinum var á hinn bóginn fallist á kröfu varnaraðila að öðru leyti.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 skal við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar greint milli eigna, sem tilheyra hvoru hjóna fyrir sig, og eigna, sem tilheyra þeim í sameiningu. Skal eins farið með skuldir hvors um sig og þær skuldir, sem beinast að þeim báðum í senn. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar á hvort hjóna aðeins rétt á að fá við skiptin eignir á móti skuldum sínum, þar á meðal hlutdeild í sameiginlegum skuldum, að því marki, sem eignir þess sjálfs að meðtalinni hlutdeild í sameign hrökkva fyrir skuldunum, sbr. og 100. gr. og 1. mgr. 106. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Að því leyti, sem eignir annars hjónanna nægja ekki á þennan hátt fyrir skuldum þess, verður ekki tekið tillit við skiptin til skuldanna, sem umfram eru.
Framangreind lagaákvæði eru meðal annars reist á þeirri grunnreglu íslensks réttar um fjármál hjóna að hvorugt þeirra beri ábyrgð á skuldbindingum hins nema það leiði af lögum eða löggerningi. Opinberum skiptum til fjárslita vegna hjónaskilnaðar verður beitt til að fylgja eftir gagnkvæmu tilkalli samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga, sem hjón njóta við skilnaðar til hluta af skýrri hjúskapareign hvors annars. Svo sem ljóst er af fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 geta slík skipti á hinn bóginn ekki farið fram til að færa frá öðru hjóna yfir á herðar hins skuldir, sem eignir þess fyrrnefnda hrökkva ekki fyrir. Eins og mál þetta liggur fyrir er óumdeilt að hvorugu aðilanna tilheyri eignir, sem verðgildi hafa. Þegar af þessum sökum verður að fallast á kröfu sóknaraðila um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Varnaraðili, M, greiði sóknaraðila, K, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. maí 2005.
Sóknaraðili er M, kt. [...], [...].
Varnaraðili er K, kt. [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að málsaðilum beri að greiða að jöfnu við skipti á félagsbúi þeirra eftirtalin lán sem tekin voru í nafni sóknaraðila, miðað við 31. desember 2002:
1. 1. Íbúðalánasjóður, skbr. 4315, staða 31.12.2002: 1.565.449 kr.
2. 2. Íslandsbanki hf., skbr. 960164, staða 31.12.2002: 1.538.728 kr.
3. 3. Landsbanki Íslands hf., skbr. 26844, staða 31.12.2002: 1.606.985 kr.
4. 4. Íslandsbanki hf., skbr. 962298, staða 31.12.2002: 1.457.669 kr.
5. 5. Búnaðarbanki Íslands hf., skbr. 61426, staða 31.12.2002: 765.163 kr.
6. 6. Íslandsbanki hf., tékkareikningur 89, staða 31.12.2002: 503.861 kr.
7. 7. Búnaðarbanki hf., tékkareikningur 1965, staða 31.12.2002: 953.054 kr.
8. 8. Landsb.Íslands hf., tékkareikn. 2499, staða 31.12.2002: 240.753 kr.
Skilja verður kröfugerð sóknaraðila við aðalmeðferð málsins svo að hann falli frá kröfum vegna tékkareikninga eða töluliðum 6-8. Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst sýknu af öllum kröfum sóknaraðila og málskostnaðar úr hendi hans.
Bú málsaðila var tekið til opinberra skipta með úrskurði dómsins dagsettum 23. janúar 2004. og var Eyvindur G. Gunnarsson, hdl., skipaður skiptastjóri. Með bréfi dagsettu 27. október s.l., sem barst dóminum 1. nóvember s.l. óskaði skiptastjóri þess að dómurinn tæki til úrlausnar samkvæmt 122. gr., sbr. 112. gr. laga nr. 20/1991 ágreining sem risið hafði milli aðila um uppgjör skulda. Við þingfestingu málsins 15. desember s.l. krafðist lögmaður varnaraðila þess að sóknaraðili setti tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Var fallist á þessa kröfu varnaraðila með úrskurði upp kveðnum 20. desember s.l. Sóknaraðili lagði fram umbeðna tryggingu og var málinu þá frestað í því skyni að sóknaraðili gæti lagt fram greinargerð, en sóknaraðili er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur. Greinargerð sóknaraðila var lögð fram 16. mars s.l. og í greinargerð sinni sem lögð var fram 4. apríl s.l. krafðist varnaraðili þess að málinu yrði vísað frá dómi. Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fór fram 15. apríl s.l. Með úrskurði dómsins upp kveðnum 22. apríl s.l. var frávísunarkröfunni hafnað og var málið flutt um efnishlið þess 3. maí s.l. Þann dag lagði sóknaraðili fram skilríki fyrir framlengingu málskostnaðartryggingar til 1. ágúst n.k.
1 Íbúðalánasjóður, skbr. 4315, staða 31.12.2002: 1.565.449 kr.
2. Íslandsbanki hf., skbr. 960164, staða 31.12.2002: 1.538.728 kr.
3. Landsbanki Íslands hf., skbr. 26844, staða 31.12.2002: 1.606.985 kr.
4. Íslandsbanki hf., skbr. 962298, staða 31.12.2002: 1.457.669 kr.
5. Búnaðarbanki Íslands hf., skbr. 61426, staða 31.12.2002: 765.163 kr.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 75.000 krónur í málskostnað.