Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Verðbréfaskráning
  • Kröfuréttur


                                                                                              

Þriðjudaginn 6. september 2011.

Nr. 474/2011.

Verðbréfaskráning Íslands hf.

(Ragnar Þ. Jónasson hdl.)

gegn

þrotabúi Baugs Group hf.

(Gunnar Sturluson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Verðbréfaskráning. Kröfuréttur.

       

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu V hf. í þb. B hf. og málskostnaður felldur niður. Málavextir voru þeir að V hf. og B hf. gerðu með sér tvo samninga, annars vegar árið 2000 um rafræna skráningu hlutabréfa B hf. í kerfi V hf. og hins vegar árið 2006 um skuldabréfaútgáfu B hf. í kerfi V hf. Bú B hf. var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2009. Í málinu krafði V hf. þb. B hf. um fjárhæð tveggja reikninga sem sagðir voru reikningar fyrir „árgjöld 2010“. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti úrskurð héraðsdóms um annað en málskostnað, segir meðal annars að málatilbúnaður V hf. væri reistur á því að samningssamband hans við þrotamann hefði haldist þrátt fyrir töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Væri einkum vísað til eðlis samningsskuldbindinganna, en einnig þess að skiptastjóri B hf. hefði með gerðum sínum viðurkennt að samningarnir væru enn í gildi. Þetta leiddi til þess að krafa V hf. stæði fremst í réttindaröð við slit þb. B hf., sbr. 2. og 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hæstiréttur vísaði til þess að samkvæmt meginreglu 91. gr. laganna féllu gagnkvæmir samningar þrotamanns niður við töku bús hans til gjaldþrotaskipta og leiddi hvorki eðli réttarsambandsins né ákvæði laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa til annarrar niðurstöðu, sbr. 89. gr. laga nr. 21/1991. Síðastnefnd lög væru reist á þeirri meginreglu að kröfuhafar njóti jafnræðis við skipti og frávik frá því yrðu að styðjast við skýr lagafyrirmæli. Þá taldi Hæstiréttur að gerðir þb. B hf. hefði ekki falið í sér viðurkenningu á skyldu þrotabúsins til að efna samningana.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 4. ágúst 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila í þrotabú varnaraðila og málskostnaður felldur niður. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans í bú varnaraðila að fjárhæð 1.400.000 krónur verði viðurkennd sem „búskrafa skv. 2. eða 3.“ tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Til vara er þess krafist að úrskurði héraðsdóms verði breytt á þann veg að „lægri fjárhæð að mati réttarins verði viðurkennd sem búskrafa.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 17. ágúst 2011. Hann krefst þess að niðurstaða hans verði staðfest um annað en málskostnað og að honum verði dæmdur málskostnaður í héraði auk kærumálskostnaðar.

I

Bú Baugs Group hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Félagið, sem áður hét Baugur hf., gerði samning við sóknaraðila 5. október 2000, þar sem sagði í 1. gr. að með honum öðlaðist það „rétt til að fá hlutabréf sín gefin út í kerfi“ sóknaraðila, sem einnig „heldur utan um framsal á hlutum í félaginu“ og veitti því upplýsingar um þau. Meðal málskjala er jafnframt annar samningur Baugs Group hf. við sóknaraðila 31. mars 2006 þar sem fyrrnefnda félagið fékk rétt til að fá nánar tilgreindan skuldabréfaflokk „gefinn út í kerfi“ sóknaraðila, auk þess sem sá síðastnefndi „vistar og heldur utan um breytingar á eignarhaldi á skuldabréfi útgefanda.“ Skráningin var rafræn á grundvelli laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa og reglugerðar nr. 397/2000 um slíka skráningu í verðbréfamiðstöð.

Með bréfi sóknaraðila til skiptastjóra varnaraðila 2. júní 2010 var krafist greiðslu á reikningum þess fyrrnefnda og því lýst að greiðsluskylda varnaraðila væri ótvíræð. Tekið var fram að um væri að ræða „kostnað við vörslu á hlutum hins gjaldþrota félags ... ásamt utanumhaldi á skuldabréfum þess sem til fellur burtséð frá stöðu félagsins.“ Vegna ársins 2011 yrði að segja upp samningi um vörslu hlutabréfa með auglýsingu í Lögbirtingablaði og skuldabréf yrðu ekki afskráð úr kerfi sóknaraðila nema með samþykki allra kröfuhafa. Í bréfinu var ekki vísað til einstakra reikninga, en fjórir slíkir hafa verið lagðir fram í málinu og eru allir stílaðir til greiðslu á Baug Group hf. Tveir þeirra eru dagsettir 28. febrúar 2010 þar sem annar er fyrir „árgjald hlutafélags 2010“ að fjárhæð 300.000 krónur, en hinn fyrir „árgjald skuldabréfa 2010“ í níu liðum, samtals að fjárhæð 1.100.000 krónur. Sá þriðji er dagsettur 29. desember 2009 og á hann er skráð „sóttar skrár í hluthafak. VS 2009“ og er að fjárhæð 3.600 krónur. Hinn fjórði er dagsettur 30. janúar 2009 og er fyrir „árgjald skuldabréfaflokka 2009“ í níu liðum og „árgjald hlutafélags 2009“ að fjárhæð 1.400.000 krónur. Kröfu samkvæmt síðastnefnda reikningnum var ekki lýst við innköllun varnaraðila til kröfuhafa, en fresti til þess lauk 19. september 2009. Í greinargerð sóknaraðila í héraði segir að krafa hans í málinu sé fyrir „árgjald og önnur gjöld“ sem fallið hafi til eftir að bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Fjárhæð kröfu hans svarar hins vegar til samtölu tveggja áðurnefndra reikninga 28. febrúar 2010 sem eru báðir fyrir árgjöld á því ári. Ekki eru því efni til að telja kröfuna ná til reiknings 29. desember 2009 að fjárhæð 3.600 krónur, sem er fyrir kostnaði er stofnað var til samkvæmt beiðni skiptastjóra varnaraðila þegar hann leitaði eftir tilteknum upplýsingum hjá sóknaraðila.

II

Sóknaraðili reisir kröfu sína einkum á því að áðurnefndir samningar um skráningu rafbréfa hafi ekki fallið niður við að bú Baugs Group hf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Samningar um skráningu verðbréfa séu ekki gagnkvæmir samningar sem falli undir ákvæði 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991. Sú skýring fái jafnframt stoð í 89. gr. sömu laga. Lög nr. 131/1997 feli í sér að sóknaraðila sé óheimilt að afmá rafbréf eða réttindi samkvæmt þeim úr kerfi sínu nema augljóst sé að slík réttindi séu ekki lengur til staðar og sóknaraðila sé skylt að inna þjónustu af hendi í þágu varnaraðila. Þessar reglur séu settar til að tryggja réttindi eigenda rafrænt skráðra fjármálagerninga, í þessu tilviki eigenda hlutabréfa og skuldabréfa. Um það vísar sóknaraðili til 23. gr. áðurnefndra laga og 45. gr. reglugerðar nr. 397/2000, en í síðarnefnda ákvæðinu sé kveðið á um að við gjaldþrot sé verðbréfamiðstöð skylt að halda skráningu áfram þar til starfsemi útgefanda sé endanlega slitið eða breytt. Þá hafi varnaraðili með athöfnum sínum tekið yfir réttindi og skyldur Baugs Group hf. samkvæmt samningunum með því að kalla eftir upplýsingum úr kerfi sóknaraðila og þar með nýta þjónustu hans.

Varnaraðili hafnar greiðsluskyldu með vísan til 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991, en samkvæmt henni hafi áðurnefndir samningar fallið niður við töku bús Baugs Group hf. til gjaldþrotaskipta og varnaraðili ekki nýtt sér heimild samkvæmt ákvæðinu til að taka við réttindum og skyldum þrotamanns eftir samningunum. Sóknaraðili hafi heldur ekki krafist í samræmi við 2. mgr. sömu greinar að varnaraðili tæki afstöðu til þess innan hæfilegs frests hvort hann myndi nýta framangreinda heimild sína. Þá kveður varnaraðili starfsemi þrotamanns hafa verið hætt sama dag og bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta, en samkvæmt 45. gr. reglugerðar nr. 397/2000 hafi sóknaraðila einungis verið skylt að halda skráningu áfram meðan það skilyrði væri uppfyllt að varnaraðili héldi úti einhverri starfsemi. Sóknaraðili eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt samningunum óháð því hvort starfsemi þrotamanns sé haldið áfram eða ekki. Skýring sóknaraðila á efni ákvæðisins leiði hins vegar til þess að honum yrði gert kleift að hagnast á gjaldþroti viðsemjanda síns á kostnað annarra kröfuhafa. Þá mótmælir varnaraðili að beiðni hans um upplýsingar úr kerfi sóknaraðila feli í sér viðurkenningu á því að hann myndi efna samninga þrotamanns við sóknaraðila. Telur hann sig eiga rétt á að krefja sóknaraðila um upplýsingar um málefni þrotabúsins og vísar um það fyrir Hæstarétti til 82. gr. laga nr. 21/1991. Um málsástæður aðilanna vísast að öðru leyti til úrskurðar héraðsdóms.

III

Sóknaraðili telur að kröfu hans eigi að skipa í réttindaröð við skipti varnaraðila samkvæmt 2. eða 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Undir fyrri liðinn falla kröfur vegna skiptakostnaðar en hinn síðari kröfur sem orðið hafa til með samningum skiptastjóra og vegna tjóns sem búið bakar öðrum eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku bús til gjaldþrotaskipta. Málatilbúnaður sóknaraðila er reistur á því að samningssamband hans við þrotamann hafi haldist þrátt fyrir töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Er þá einkum vísað til eðlis samningsskuldbindinganna, en einnig þess að skiptastjóri varnaraðila hafi með gerðum sínum viðurkennt að samningarnir væru enn í gildi. Þetta leiði aftur til þess að krafa sóknaraðila falli undir 2. eða 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 og standi þannig fremst í réttindaröð við slit varnaraðila.

Í lögum nr. 131/1997 og reglugerð, sem sett er með heimild í þeim, er gengið út frá að verðbréfamiðstöð sé óheimilt að afmá réttindi, sem enn skipti máli, og á það eins við þótt bú útgefanda rafbréfa hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ljóst er að svo kann að hátta til um réttindi samkvæmt að minnsta kosti einhverjum þeirra rafbréfa sem þrotmaður gaf út og skráð eru í kerfi sóknaraðila. Þessi aðstaða leiðir þó ekki sjálfkrafa til þeirrar niðurstöðu að samningssamband sóknaraðila við þrotamann hafi staðið óhaggað þrátt fyrir úrskurð um töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Er þá til þess að líta að samkvæmt meginreglu 91. gr. laga nr. 21/1991 falla gagnkvæmir samningar þrotamanns niður við töku bús hans til gjaldþrotaskipta og leiðir hvorki eðli réttarsambandsins né ákvæði laga nr. 131/1997 til annarrar niðurstöðu, sbr. 89. gr. fyrrnefndu laganna. Þá eru lög nr. 21/1991 reist á þeirri meginreglu að kröfuhafar njóti jafnræðis við skipti og frávik frá því verða að styðjast við skýr lagafyrirmæli. Málatilbúnaður sóknaraðila felur á hinn bóginn í sér að krafa hans stæði framar öðrum kröfum við slit varnaraðila án þess að fyrir slíku sé viðhlítandi stoð. Samkvæmt því, sem að framan greinir, er fallist á með varnaraðila að skuldbindingar þrotamanns samkvæmt áðurnefndum samningum um rafræna skráningu hafi fallið niður 13. mars 2009.

Sóknaraðili byggir jafnframt á því að varnaraðili hafi með gerðum sínum viðurkennt að áðurnefndir samningar væru skuldbindandi fyrir hann. Varnaraðili óskaði ekki eftir að sóknaraðili héldi áfram verkum sínum á grundvelli samninganna og ekkert liggur fyrir um samskipti málsaðila, sem hér skiptir máli, utan þess að varnaraðili leitaði í desember 2009 eftir upplýsingum hjá sóknaraðila, sem sá síðastnefndi gerði honum sérstakan reikning fyrir. Varnaraðili mótmælir að í því hafi falist viðurkenning á skyldu hans til að efna samningana, en ber fyrir sig heimild skiptastjóra samkvæmt 82. gr. laga nr. 21/1991 til að krefja opinbera aðila og ýmsa einkaaðila, þar á meðal verðbréfamiðstöðvar, um hvers kyns gögn varðandi málefni þrotabús. Áður var getið um heimild sóknaraðila samkvæmt 2. mgr. 91. gr. laganna til að krefja varnaraðila svars um hvort hann hygðist halda samningunum upp á þann fyrrnefnda, sem sóknaraðili lét ógert að nýta sér. Engin efni eru til að fallast á að þessi ósk varnaraðila, nærri ári eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti, hafi falið í sér þá viðurkenningu sem sóknaraðili heldur fram. Fjárhæð reiknings 29. desember 2009 fyrir verk sóknaraðila í sama mánuði er ekki innifalin í kröfu hans í málinu og reynir því ekki á rétt hans til að fá hana viðurkennda af öðrum ástæðum en þeim að skuldbindingar samkvæmt samningum þrotamanns séu bindandi fyrir varnaraðila.

Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað er málskostnað, sem sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila ásamt kærumálskostnaði og ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, Verðbréfaskráning Íslands hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Baugs Group hf., samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2011.

Þetta mál barst dóminum með bréfi skiptastjóra í þrotabúi Baugs Group hf. mótteknu 5. nóvember 2010. Málið var þingfest 21. janúar 2011 og tekið til úrskurðar 30. maí 2011.

 Sóknaraðili, Verðbréfaskráning Íslands hf., kt. 500797-3209, Laugavegi 182, Reykjavík, krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 1.400.000 krónur verði viður­kennd sem búskrafa við gjaldþrotameðferð varnaraðila samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara krefst hann lægri fjár­hæðar að mati dómsins.

 Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að meðtöldum kostnaði vegna virðisaukaskatts.

 Varnaraðili, þrotabú Baugs Group hf., kt. 480798-2289, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað svo og að varnaraðila verði dæmdur máls­kostn­aður úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

 Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. mars 2009, óskaði stjórn félagsins Baugur Group hf. eftir því, með vísan til 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var það gert með úrskurði 13. mars 2009 og skiptastjóri skipaður í búinu.

 Að sögn skiptastjóra lauk rekstri félagsins samdægurs. Frestdagur við skiptin var 4. febrúar 2009 en kröfulýs­ingar­frestur rann út 19. september sama ár, fimm mánuðum eftir birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði 19. mars 2009.

 Að sögn sóknaraðila hófst réttarsamband hans og Baugs hf., og síðar Baugs Group hf., árið 2000 þegar Baugur hf. hefði skráð, rafrænni skráningu, skulda­bréfa­flokk útgefinn af félaginu sem og öll hlutabréf félagsins. Frá því tímamarki hafi Baugur hf. og síðar Baugur Group hf. skráð á þriðja tug fjár­mála­gerninga í kerfi sóknaraðila og hafi reikningar sóknaraðila til félagsins alla tíð verið óumdeildir.

Sóknaraðili innti skiptastjóra ekki eftir því hvort búið hygðist taka við rétt­indum og skyldum Baugs Group hf. samkvæmt áðurnefndum samningi við sóknar­aðila, sbr. 91. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili lýsti ekki kröfu í búið vegna ógreidds reiknings Baugs Group hf. vegna ársins 2009. Í lok desember 2009 óskaði skiptastjóri eftir því að sóknaraðili veitti tilteknar upplýsingar úr hluthafa­skrá sem sóknaraðili gerði og gaf út reikning fyrir þjónustunni. Hinn 28. febrúar 2010 gaf sóknaraðili út reikninga vegna árgjalda hluta­bréfa og skuldabréfaflokka vegna ársins 2010.

 Með tölvupósti til skiptastjóra, 2. júní 2010, krafði sóknaraðili varnaraðila um greiðslu árgjalds frá og með árinu 2010 á grundvelli útgáfusamnings milli sóknar­aðila og Baugs hf. um rafræna skráningu í kerfi sóknaraðila, dags. 5. október 2000.

 Með tölvupósti, 23. júní 2010, hafnaði skiptastjóri greiðslu­skyldu með vísan til 91. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en bauð jafn­framt sátt í málinu með greiðslu á 700.000 krónum fyrir árið 2010. Sóknar­aðili féllst ekki á þessa tillögu skipta­stjóra og lagði til að ágreiningnum yrði vísað til úrlausnar héraðsdóms.

 Skiptastjóri hélt fund til jöfnunar ágreiningsins, 31. ágúst 2010, en sá fundur bar ekki árangur. Af þeim sökum vísaði skiptastjóri ágreiningnum til úrlausnar Héraðs­dóms Reykjavíkur á grundvelli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, um gjald­þrotaskipti o.fl., sbr. ákvæði 171. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

 Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili greiði árgjald og önnur gjöld sem fallið hafi til eftir að Baugur Group hf. var úrskurðað gjaldþrota 13. mars 2009. Krafan byggi á gagn­kvæmum samningi sem skipta­stjóra sé óheimilt að segja upp sökum réttinda þriðju aðila nema að uppfylltum skil­yrðum laga nr. 131/1997 um rafræna eigna­skráningu verðbréfa og reglugerðar nr. 397/2000. Varnaraðila sé því skylt að greiða kostnað vegna þjónustu sóknaraðila allt til skiptaloka eða uppsagnar sem uppfylli kröfu þessara laga og reglugerðar.

 Sóknaraðili sé verðbréfamiðstöð og einkafyrirtæki sem starfi á grundvelli starfs­leyfis frá viðskipta­ráðu­neyt­inu frá árinu 2000. Sóknaraðili gefi út og skrái rafrænt verðbréf á íslenskum verðbréfamarkaði í samræmi við ákvæði áðurnefndra laga og reglugerðar auk reglna sem sóknaraðili setji. Í kerfi hans fari fram eignar­skráning sem starfsmenn reikningsstofnana hafi milligöngu um.

 Að sögn sóknaraðila hófst viðvarandi samningssamband málsaðila, með samn­ingi sóknaraðila og Baugs hf., dagsettum 5. október 2000. Hafi það staðið óslitið síðan vegna rafrænnar skrán­ingar hlutabréfa félagsins í kerfi sóknaraðila. Á samn­ings­tímanum hafi Baugur hf. og Baugur Group hf. skráð samtals 29 flokka fjár­mála­gern­inga í kerfi sóknaraðila, mest skuldabréf, samkvæmt talningu á yfirliti yfir ISIN-númer birt á heimasíðu sókn­ar­aðila www.vbsi.is, meðal annars á grundvelli samn­ings um skráningu skulda­bréfa frá 31. mars 2006. Sá samningur sé efnislega sam­hljóða samningnum frá 5. október 2000 í þeim efnum sem hér skipti máli og verði því eingöngu rakin ákvæði eldri samningsins.

 Í samningunum felist réttur Baugs Group hf. til að fá eigin hlutabréf útgefin í kerfi sóknaraðila að uppfylltum lagaskilyrðum. Samkvæmt samn­ingunum ábyrgist sóknar­aðili að framsal á skuldabréfum og hlutum Baugs Group hf. sé í samræmi við skráningar sem reikningsstofnanir færi í kerfi varnaraðila. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. samn­ingsins frá 5. október 2000 sé hvorum samningsaðila um sig heimilt að segja samningnum upp með 6 mánaða fyrirvara, en þó sé heimilt að láta uppsögnina taka gildi fyrr, séu aðilar sammála. Í 2. mgr. 17. gr. samnings­ins sé þó áskilið að afskráning rafbréfa félagsins úr kerfi varnaraðila fari eftir ákvæðum reglu­gerðar nr. 397/2000. Þá segi í 18. gr. samningsins að við gjaldþrot, innlausn, samruna eða aðrar sambærilegar aðgerðir, sem leiði til þess að skráningu hlutabréfanna skuli hætt, fari eftir ákvæðum sömu reglugerðar.

 Sóknaraðili telur Baug Group hf. hafa með samningnum gengist undir þær reglur sem gildi samkvæmt lögum nr. 131/1997 og afleiddum réttargerðum. Þær reglur séu settar til að tryggja réttindi þriðju aðila sem eigi rafrænt skráða fjár­mála­gerninga sem Baugur hafi gefið út. Rafræn skráning eignaréttinda geri upp­lýs­ingar um eignar­hald á fjármálagerningum öruggari. Mikilsverðir einstaklings­bundnir hags­munir, sem og almannahagsmunir, felist því í starfsemi sóknaraðila.

 Þegar fjármálagerningar séu skráðir í verðbréfamiðstöð sé viðkomandi verð­bréf ekki lengur til á pappír heldur lifi það sjálfstæðu lífi í kerfi sóknaraðila sem sé eina starfandi verðbréfamiðstöðin á Íslandi. Starfsemi sóknaraðila hafi því nokkur líkindi með störfum sýslumanna í þinglýsingum. Eignarskráning hafi réttaráhrif og því geti misfærslur eða mistök haft verulega réttarfarslega þýðingu fyrir hlutað­eigandi aðila. Það sé í og með ástæða þess að sérstök úrskurðarnefnd starfi til að greiða úr ágrein­ings­málum varðandi skráningu réttinda.

 Þessu til viðbótar hvíli rík skaðabótaábyrgð á verðbréfamiðstöðvum, allt að því hlutlæg ábyrgð, sbr. til dæmis ákvæði 3. mgr. 28. gr. laga nr. 131/1997 sem kveði á um að verð­bréfa­miðstöð beri að bæta rétthafa tjón sem hann kunni að hafa orðið fyrir vegna ógildingar réttinda, vegna fölsunar eða meiri háttar nauðungar.

 Sóknaraðili byggir á því að honum sé skylt að viðhalda skráningu rafrænna verð­bréfa þrátt fyrir gjaldþrot útgefanda. Reglum laganna til skýringar og frekari áréttingar séu ákvæði reglugerðar nr. 397/2000 um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð. Í 45. gr. reglu­gerð­ar­innar segi:

Við gjaldþrot, innlausn, samruna eða aðrar sambærilegar aðgerðir, sem leiða til þess að skráningu rafbréfs skuli hætt, er verðbréfamiðstöð skylt að halda skrán­ingunni áfram þar til starfsemi útgefanda er endanlega slitið eða breytt.

 Skylda sóknaraðila til að viðhalda skráningunni ætti því að vera óumdeild. Ákvæði 45. gr. reglugerðarinnar sé augljóslega ætlað að tryggja að mikilsverð eigna­rétt­indi fari ekki forgörðum við gjaldþrot útgefenda fjármálagerninga. Það fari eftir eðli fjármálagerninga hvar þeir standi í réttindaröð við gjaldþrot þótt að jafnaði séu meiri líkur til þess að greiðslur fáist upp í skuldabréf heldur en hlutabréf.

 Mikilvægt sé fyrir skiptastjóra að hafa aðgang að upplýsingum um hin rafrænu eignaréttindi við yfirferð réttinda samkvæmt kröfulýsingum í þrotabúið. Einnig sé skipta­stjóra mikilvægt að sannreyna hverjar eignir þrotabúsins kunni að vera í rafrænt skráðum bréfum sem og hvort þær eignir kunni að vera háðar veðböndum. Allar þessar upplýsingar séu hvergi annars staðar geymdar en í kerfi sóknaraðila.

 Þjónusta sóknaraðila sé í öllum meginatriðum eðlisólík öðrum viðvarandi samn­ingum varnaraðila sem skiptastjóri þurfi að taka afstöðu til. Þjónustan sé ekki hefð­bundin, eins og áskrift dagblaða eða vörukaup, heldur hafi sóknaraðili farið með mikils­verð réttindi fyrir kröfuhafa í bú félagsins, það er eigendur skuldabréfa og hlutabréfa.

 Sóknaraðili byggir auk þess á því að kostnaður af þjónustu sóknaraðila sé eðli­legur kostn­aður við skipti þrotabúa. Sóknaraðili telur ljóst af ofangreindu að honum beri, í þágu búsins, að viðhalda skráningu rafrænna réttinda vegna mikil­vægra hags­muna þrota­búa og kröfuhafa. Skiptastjórum megi vera ljóst að sóknar­aðila beri að halda þjónustu sinni áfram í samræmi við þessar lagakröfur.

 Ekki standi nein rök til þess að sóknaraðila sé gert að inna þjónustu sína af hendi og verða fyrir kostnaði af þeim sökum án þess að eiga rétt til greiðslu fyrir hana. Hvorki ákvæði laga nr. 131/2007 né ákvæði reglugerðar nr. 397/2000 banni sóknar­aðila að taka þóknun fyrir þjónustu sína við þrotabúin.

 Einnig verði að líta til þess að hefðu bréfin ekki verið rafrænt skráð í kerfi sókn­ar­aðila hefði fallið kostnaður á búið vegna umsýslu á pappírsgögnum, það er hluta­skrá og verðbréfum skráðum í Baugi hf. og Baugi Group hf. Búið hafi ekki þurft að bera þann kostnað sökum þess að það þiggi þjónustu sóknaraðila.

 Sóknaraðili telur því að krafa hans sé réttilega heimfærð sem búskrafa undir 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

 Sóknaraðili vísar enn fremur til þess að ákvæði gjaldþrotalaga um tilkynn­inga­skyldu beri að skoða í ljósi skyldna hans til að viðhalda skráningu. Hann andmælir því þeirri afstöðu skiptastjóra, sem komi fram í tölvubréfi 23. júní 2010, að 91. gr. laga 21/1991 beri að túlka þannig að sóknaraðila hafi borið að krefja varnaraðila svara við því hvort hann hygðist halda áfram að kaupa þjónustu hans. Sóknaraðili telur engan grundvöll fyrir þessari túlkun á lagaákvæðinu enda lýsi skipta­stjóri því yfir í sama bréfi að þessi túlkun hans sé óvissu háð og hafi því boðið sættir.

 Sóknaraðili heldur því fram að 91. gr. laganna geti ekki átt við fullum fetum um samn­ings­samband aðila. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins sé þrotabúi heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamanns eftir gagnkvæmum samningi. Hér standi svo á að sókn­ar­aðila sé skylt að lögum að inna áfram af hendi þjónustu í þágu varn­ar­aðila þrátt fyrir að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota. Þar með njóti varnar­aðili sérstakrar verndar gegn því að sóknaraðili segi einhliða upp þjónustunni við gjald­þrot með til­heyr­andi tjóni fyrir þrotabúið og kröfuhafa. Það komi því ekki til álita að varn­ar­aðili taki sérstaklega afstöðu til þess hvort hann nýti sér þjónustuna eða ekki. Honum standi hins vegar nær að segja þjónustunni upp, á eigin ábyrgð, þegar hann sé þess full­viss að hún gagnist búinu ekki lengur og að uppfylltum skilyrðum laga.

 Að sama skapi geti ekki staðist að sóknaraðila hafi borið, strax eftir úrskurð um gjaldþrotaskipti, að krefja varnaraðila um afstöðu hans til samning­anna, sbr. ákvæði 2. mgr. 91. gr. laga 21/1991. Þar sem sóknaraðila sé skylt að viðhalda skrán­ingunni til skiptaloka komi ekki til álita að krefja varnaraðila þessara svara. Samkvæmt ákvæðinu beri skiptastjóra að svara því innan „hæfilegs frests“ hvort búið muni ganga inn í samninginn. Almennt eigi sá frestur að vera tiltölulega skammur og í fræðum sé miðað við að hann sé frá nokkrum dögum upp í eina viku. Augljóslega væri slíkur frestur allt of skammur fyrir öll venjuleg þrotabú, hvað þá heldur stærri þrotabú, til að taka afstöðu til upplýsinga um eigendur rafrænna bréfa skráða í kerfi sóknaraðila.

 Sóknaraðili telur vafa leika á því hvort skiptastjóra sé heimilt að slíta skrán­ingunni með einfaldri uppsögn í andstöðu við ákvæði 45. gr. reglugerðar 397/2000 eins og hann virðist telja sér heimilt að gera í tölvupósti, 23. júní 2010, til starfs­manns sóknaraðila. Starfsmaðurinn hafi í tölvupósti, 2. júní sama ár, gert skiptastjóra grein fyrir því að til þess að afskrá fjár­mála­gerninga úr kerfi sóknaraðila fyrir skiptalok þyrfti að segja upp útgáfusamningi vegna vörslu hlutabréfa með birtingu auglýsingar í Lögbirtingablaði en einnig þyrfti samþykki allra kröfuhafa til að skuldabréfin væru afskráð úr kerfinu.

 Nánar tiltekið vísar sóknaraðili til V. kafla reglugerðar 397/2000 þar sem skýrt komi fram að skráningin verði ekki felld niður að ósk útgefanda á meðan hann upp­fylli skil­yrði fyrir skráningu í verðbréfamiðstöð og að því gefnu að ákvæði laga, reglu­gerða eða reglur verðbréfamiðstöðvarinnar standi því ekki í vegi, sbr. 44. gr. reglu­gerðar­innar þar sem segir:

Rafbréf skulu skráð í verðbréfamiðstöð á meðan útgefandi uppfyllir skilyrði er um skráninguna gilda nema að hann óski eftir að eignarskráningu sé hætt, sbr. 40. gr., enda standi ákvæði laga, reglugerða eða reglur verð­bréfa­miðstöðvar því ekki í vegi að eignarskráningu verðbréfanna sé hætt.

 Útgefanda beri því, eðli málsins samkvæmt, að rökstyðja beiðni um afskrán­ingu þannig að ljóst sé að öll lagaskilyrði séu uppfyllt til að afmá megi réttindi, sbr. einnig 40.-49. gr. og 35.-37. gr. reglugerðarinnar, sbr. 18. gr. laga 131/1997. Tölvupóstur skipta­stjóra, 23. júní 2010, geti því ekki talist gild uppsögn varn­ar­aðila á samningi hans við sóknaraðila og reglum sem um uppsögnina gildi að öðru leyti. Í öllu falli telji sóknaraðili ljóst að skiptastjóri beri, í ljósi aðgerða sinna, alfarið ábyrgð á því fari réttindi forgörðum sökum aðgerða hans.

 Verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila á grundvelli framangreindra raka telur hann skiptastjóra hafa, með athöfnum sínum eftir gjaldþrotaúrskurð, tekið við rétt­indum og skyldum varnaraðila samkvæmt samningum við sóknar­aðila. Varnar­aðili hafi haft frumkvæði að því að kalla eftir upplýsingum úr kerfi sóknaraðila og þar með nýtt sér þjónustu hans. Hafi starfsmenn skiptastjóra óskað eftir upplýsingum í hlut­hafa­kerfi sóknaraðila í lok árs 2009 eins og sjá megi af reikningi sem sóknaraðili gaf út fyrir þá þjónustu. Varnaraðili hafi þar með eindregið gefið til kynna að hann hygðist efna gagnkvæman samning aðila og hafi sóknaraðili mátt treysta því að fá greidd gjöld samkvæmt gjaldskrá á hverjum tíma.

 Skiptastjóra, eins og öðrum, hafi átt að vera ljóst að varnar­aðili hafi skráð verðbréf á opinberum verðbréfamarkaði í Kauphöll Íslands, nú Nasdaq–OMX Nordic Exchange á Íslandi ehf. Forsenda skráningar fjármálagerninga, sem gangi kaupum og sölum á verðbréfamarkaði, hafi frá setningu laga nr. 131/1997 verið sú að bréfin séu skráð rafrænni skráningu í kerfi sóknaraðila. Sóknaraðili hafi með réttu mátt ætla að varn­ar­aðili kannaði hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til að afskrá verðbréf úr kerfi sóknaraðila, væri það á annað borð mögulegt, og hefði í kjölfarið samband við sóknar­aðila til að hefja nauðsynlegar aðgerðir til að afskrá viðkomandi fjár­málagerninga. Sóknaraðili telur það því hafa staðið upp á skiptastjóra að gera það sem þyrfti, hafi hann viljað breyta skráningunni.

 Vegna þessa bendir sóknaraðili á að fjöldi lögaðila, með rafrænt skráð bréf, hafi farið í þrot síðustu árin en skiptastjórar hafi eigi að síður talið rétt að greiða reikninga sóknaraðila. Í einhverjum tilvikum hafi verið gerðar athuga­semdir en ávallt hafi skipta­stjórar þessara þrotabúa fallist á greiðsluskyldu búanna og hafi skráningu verið fram haldið þar til að búunum hafi verið slitið. Sóknar­aðili telur að öll þessi mál hafi verið sambærileg því máli sem sé hér til úrlausnar.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

 Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila og telur rök ekki standa til annars en að kröfur hans verði að fullu teknar til greina.

 Krafa varnaraðila byggir í fyrsta lagi á því að túlkun sóknaraðila á ákvæði 45. gr. reglugerðar nr. 397/2000 um rafræna eignarskráningu verðbréfa sé röng. Vísar hann með því til orðalagsins „er verð­bréfa­miðstöð skylt að halda skráningu áfram þar til starfsemi útgefanda er endanlega slitið eða breytt“. Samkvæmt berum orðum ákvæð­is­ins hafi sóknar­aðila einungis verið skylt að halda skráningu áfram meðan það skilyrði væri uppfyllt að varnaraðili héldi úti einhverri starfsemi. Verði ákvæðið ekki skilið á annan hátt en þann.

 Við gjaldþrot fyrirtækja sé það ýmist svo að starfsemi ljúki um leið eða fljót­lega í kjölfar töku bús til skipta en í sumum tilvikum geti þótt nauðsynlegt að halda starfsemi áfram að öllu eða einhverju leyti. Í tilviki varnaraðila hafi starfseminni lokið sama dag og bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Eftir það tímamark hafi skilyrði til að halda skráningu áfram því ekki verið lengur fyrir hendi.

 Í öðru lagi standist ekki að ákvæði 45. gr. reglugerðar nr. 397/2000 sé túlkað þannig að sóknaraðili eigi í hverju tilviki við gjaldþrot útgefenda rétt á greiðslum samkvæmt útgáfusamningi allt fram til skiptaloka. Eðli máls samkvæmt hljóti slíkt að taka mið af því hvort starfsemi gjaldþrota útgefanda sé haldið áfram að einhverju leyti. Með gagnstæðri túlkun yrði sóknaraðila gert kleift að hagnast með óréttmætum hætti á gjaldþroti útgefenda á kostnað annarra kröfuhafa.

 Það sé einsýnt að framvinda skipta muni í tilviki varnaraðila dragast á langinn og taka jafnvel nokkur ár vegna umfangs. Með hliðsjón af því sé það ótæk niðurstaða að þetta ákvæði reglugerðarinnar sé túlkað þannig að varnaraðili verði talinn skuld­bundinn samkvæmt umræddum útgáfusamningi allt til skiptaloka.

 Í þriðja lagi hafi varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 ekki verið skylt að taka við réttindum og skyldum samkvæmt margnefndum útgáfu­samningi en af hálfu varnaraðila hafi aldrei staðið til að halda samningnum til streitu. Einn megintilgangur ákvæðisins sé að auðvelda þrotabúi að halda áfram rekstri meðan hagkvæmt þyki. Rekstri varnaraðila hafi hins vegar lokið 13. mars 2009 og því ljóst að það yrði ekki talið hagkvæmt fyrir varnaraðila þyrfti hann að una því að vera skuld­bundinn samkvæmt útgáfusamningnum fram til skiptaloka.

 Varnaraðili mótmælir sérstaklega þeirri túlkun sóknaraðila að honum sé skylt að lögum að inna þjónustu af hendi í þágu varnaraðila áfram þrátt fyrir að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota. Enn fremur er því mótmælt að ekki komi til álita að varnaraðili taki sérstaklega afstöðu til þess hvort hann nýti sér þjónustuna eða ekki. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að sóknaraðili krefðist þess að varnaraðili tæki afstöðu til þess, innan hæfilegs frests, hvort varnaraðili myndi nýta heimild sína samkvæmt áðurnefndri 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

 Telji sóknaraðili það leiða af réttarreglum að honum sé skylt að viðhalda skrán­ingu þar til skiptum sé lokið og verði jafnframt niðurstaðan að varnaraðila sé óskylt að greiða sóknaraðila vegna skráningar eftir frestdag, þá hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að tryggja sig gegn slíku með gjaldtöku í gjaldskrá. Sóknaraðili verði að bera hallann af því að hafa ekki gert það.

 Í fjórða lagi sé óvíst um réttaráhrif reglugerðar nr. 397/2000 gagnvart skýrum ákvæðum laga nr. 21/1991 en sú niðurstaða myndi tæplega standast að sóknaraðila yrði veittur réttur samkvæmt kröfu sinni á þeim grundvelli, á kostnað annarra kröfu­hafa varnaraðila.

 Í fimmta og síðasta lagi verði krafa sóknaraðila aldrei tekin til greina að öllu leyti enda hafi samningnum ex tuto verið sagt upp með tilkynningu þar um til sóknar­aðila í tölvupósti 23. júní 2010. Skiptastjóra varnaraðila hafi þótt rétt að segja samn­ingnum upp til öryggis en samningarnir séu uppsegjanlegir með sex mánaða fyrir­vara skv. 17. gr. þeirra. Uppsögnin hafi verið gerð með þeim fyrirvara að hana bæri ekki að túlka sem viðurkenningu varnaraðila á ábyrgð á greiðslu umræddra gjalda.

 Ekkert í ákvæðum reglugerðar nr. 397/2000 sé því til fyrirstöðu að heimilt hafi verið að segja samningnum upp með hliðstæðum hætti og að framan greinir og er ummælum í greinargerð sóknaraðila í aðra veru sérstaklega mótmælt.

Niðurstaða

 Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að hann hafi eignast kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt 2. og 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. Kröfur samkvæmt fyrri liðnum eru kostnaður sem stafar af skiptunum en kröfur samkvæmt síðari liðnum eru kröfur sem hafa orðið til á hendur þrotabúinu eftir töku þess til gjald­þrota­skipta með samningum skipta­stjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum.

 Sóknaraðili byggir kröfu sína á samningssambandi sem stofnaðist milli hans og Baugs hf. og síðar Baugs Group hf. Þrátt fyrir töku félagsins til gjaldþrota­skipta og þrátt fyrir að þrotabúið kysi að taka ekki við réttindum og skyldum samkvæmt samningn­um hafi samningssambandið ekki fallið niður, vegna skyldu sóknar­aðila, samkvæmt 45. gr. reglugerðar nr. 397/2000, til að viðhalda skráningu rafbréfa, sem Baugur hf. og Baugur Group hf. hafi gefið út, þar til starfsemi Baugs Group hf. sé að fullu slitið.

 Baugur Group hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Frá og með þeim degi giltu reglur gjaldþrotaréttar um þrotabúið og yfirtöku þess á réttindum sem félagið naut og skyldum sem á því hvíldu. Í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er sérstakur kafli um gagnkvæma samninga sem gerðir voru fyrir töku bús til skipta. Meginmarkmið kaflans er að tryggja hagsmuni þrotabúsins með því að veita því heimild til að ganga inn í gagnkvæma samninga og vera bundið af þeim á meðan skipta­stjóra þykir það hagkvæmt.

 Í upp­hafi kaflans, 89. gr. laganna, segir að ákvæðum hans skuli ekki beita leiði annað af öðrum laga­ákvæðum eða eðli réttarsambandsins. Í 1. mgr. 91. gr. laganna er tekið fram að þrotabúi sé heimilt að taka við réttindum og skyldum þrota­manns eftir gagnkvæmum samningi. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er viðsemjanda þrota­manns heimilt að krefja þrotabúið um afstöðu til þess, innan hæfilegs frests, hvort það muni nýta heimild sína samkvæmt 1. mgr.

 Lög um gjaldþrotaskipti eru reist á þeirri grundvallarreglu að kröfuhafar í þrotabú njóti jafnræðis við úthlutun eigna búsins. Í XVII. kafla laganna er vikið frá þessu með því að raða kröfum í ákveðna forgangsröð. Eigi að víkja enn frekar frá þessari grundvallarreglu um jafnræði kröfuhafa og ganga lengra í því að veita tilteknum tegundum krafna forgang verður það ekki gert nema með skýru og afdráttar­lausu lagaákvæði. Úr lögum nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verð­bréfa verður ekki lesið að samningar sem sóknaraðili gerir við útgefendur rafbréfa, hvort sem það eru hlutabréf eða skuldabréf, séu þess eðlis að þeir falli utan gildissviðs 91. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Sú ályktun verður því enn síður dregin af ákvæði reglu­gerðar, sem er sett með stoð í lögum nr. 131/1997.

 Eins og lög bjóða var taka bús Baugs Group hf. til gjaldþrotaskipta tilkynnt í Lögbirtingablaðinu. Sóknaraðila mátti því vera ljóst að hann þyrfti að inna skiptastjóra eftir því, samkvæmt fyrirmælum 91. gr. laga nr. 21/1991, hvort skiptastjóri hygðist ganga inn í þá samninga sem sóknaraðili hafði gert við Baug hf. og Baug Group hf. Það gerði sóknaraðili ekki og skiptastjóri tilkynnti honum ekki sérstaklega að hann óskaði eftir að þrotabúið fengi að ganga inn í samnings­sambandið. Hinir gagn­kvæmu samningar sóknaraðila við Baug hf. og Baug Group hf. féllu því niður við töku Baugs Group hf. til gjaldþrotaskipta. Eðli réttarsambandsins þykir ekki heldur leiða til annarrar niðurstöðu, sbr. 89. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

 Eins og áður segir var bú Baugs Group hf. tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi óskað eftir upplýsingum úr hluthafaskrá sóknar­aðila 29. desember það ár þykir það ekki jafngilda því að varnaraðili hafi lífgað við samningssamband sem var fallið niður vegna fyrirmæla laga um gjald­þrota­skipti.

 Þar sem samningssamband sóknaraðila við Baug hf. og Baug Group hf. féll niður 13. mars 2009, við töku bús Baugs Group hf. til gjaldþrotaskipta, hefur sóknar­aðili ekki eignast kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

 Sóknaraðili rekur starfsemi á grundvelli leyfis frá viðskiptaráðuneytinu. Með leyfinu fær hann ákveðin réttindi en þarf í staðinn að bera þær skyldur sem á hann eru lagðar í lögum og reglugerðum sem um starfsemi hans gilda. Við gjaldþrot félags má ekki hætta skráningu rafbréfa, sem það hefur gefið út, og ekki hafa orðið verðlaus við gjald­þrotið. Verja þarf grandlausan þriðja mann fyrir tjóni með því að tryggja að hann geti áfram ráðstafað réttindum sínum yfir þeim bréfum sem enn halda verð­gildi sínu og fá þær ráðstafanir skráðar hjá sóknaraðila.

 Því er fallist á það með sóknaraðila að vegna hagsmuna skuldabréfaeigenda beri að túlka 45. gr. reglugerðar nr. 397/2000 þannig að sóknaraðila beri að skrá breyt­ingar sem verði á réttindum yfir þeim og öðrum rafbréfum, sem ekki missa verðgildi sitt við töku bús til gjaldþrotaskipta, þar til skiptum er að fullu lokið.

 Sá kostnaður sem sóknaraðili verður fyrir vegna þeirrar skyldu sem á honum hvílir gagnvart þriðja manni við þessar aðstæður verður að mati dómsins ekki talinn kostnaður sem tengist framkvæmd gjaldþrotaskiptanna og falli á þrotabúið að greiða. Hann er sambærilegur kostnaði sem sókn­ar­aðili verður fyrir vegna annarra laga­skyldna sem á honum hvíla vegna almanna­hags­muna, til dæmis í lögum um bókhald eða lögum um opinbert eftirlit með fjár­mála­starf­semi, það er að segja kostnaður sem sóknaraðili verður að reikna inn í gjaldskrá sína. Því er ekki fallist á það með sókn­araðila að þetta sé kostnaður sem stafi af gjald­þrota­skiptunum í skilningi 2. tölu­liðar 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl.

 Sóknaraðili hefur því hvorki eignast kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli 2. né 3. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og er kröfu hans því hafnað. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

 Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Fyrir uppkvaðningu hans var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en upp­kvaðning úrskurðar hefur dregist vegna anna dómarans við önnur dómstörf.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 Hafnað er kröfu sóknaraðila, Verðbréfaskráningar Íslands hf., í þrotabú Baugs Group hf.

 Málskostnaður fellur niður.