Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. júlí 2007.

Nr. 365/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. c. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 6. júlí 2007.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að kærði, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 30. ágúst nk. kl. 16:00.

             Í greinargerð lögreglu kemur fram að á undanförnum mánuðum hafi lögregla margoft þurft að hafa afskipti af kærða vegna ýmissa afbrota og hafi unnið að rannsókn tuga mála þar sem kærði sé grunaður um að hafa framið fjölda auðgunarbrota á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla telji að kærði fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum. Kærða hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-320/2007 gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna þann 29. júní sl. og hafi sætt gæsluvarðhaldi síðan. Hluti þessara rannsókna lögreglu sé nú að ljúka en eftir standi nokkur mál þar sem rannsókn þurfi að klára, meðal annars þarf að yfirheyra kærða vegna nokkurra mála þar sem ástand hans hafi ekki leyft að yfirheyrslur lögreglu fari fram, sbr. læknisvottorð sem fylgir gögnum málsins. Nú liggi fyrir að ljúka rannsókn þessara mála sem fyrst, gefa út ákæru á hendur kærða á fyrirhuguðum gæsluvarðhaldstíma og ljúka svo málsmeðferð fyrir dómi.

             Kærði sé grunaður um að eiga aðild að eftirfarandi málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu:

             Að hafa þann 26. júní sl., fært þýfi úr þremur aðskyldum málum í geymslu að Dyrhömrum 2. Játning liggi fyrir. (007-2007-48392

             Að hafa aðfaranótt 26. júní sl., flutt þýfi frá Flétturima 9-11. Játning liggi fyrir. (007-2007-48254.

             Að hafa verið á bifreiðinni OH-231 þann 26.júní sl., eftir að hún var tilkynnt stolin til lögreglu. Þýfi úr Fléttirima 9-11 fannst í bifreiðinni. Játning liggi fyrir. (007-2007-48631).

Að hafa brotist inn í sumarbústað við Foss á Síðu þann 26.06.sl. X kvaðst hafa beðið í bílnum og séð A koma með þýfi til baka úr bústaðnum. Játning um aðild liggi fyrir. (031-2007-2689)

             Að hafa brotist inn í Skógarbýlið Skriður þann 26.06.sl., ásamt A og B. Játning liggi fyrir. (028-2007-2699)

             Að hafa aðfararnótt 26. júní sl., farið í heimildarleysi inn í geymslur að Mosarima 9, Reykjavík, og tekið það ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. Neiti sök. (007-2007-48261)

             Að hafa brotist inn í fiskiskipið Álftafell SU 100 við Álaugarbryggju í Hornafjarðabæ þann 27.06.07. Lyfjum hafi verið stolið úr skipinu. Skýrslutaka varðandi málið hafi ekki farið fram en X hafi viðurkennt fyrir Arnóri Jónssyni og Þorvaldi Bragasyni, rannsóknarlögreglumönnum að hafa brotist inn í skipið. Þýfi úr innbrotinu hafi fundist við húsleit að [ ...] í Reykjavík þar sem X og A búi. (028-2007-02723).

             Að hafa einnig brotist inn í fiskiskipið Öðling SF 165 við Álaugarbryggju í Hornafjarðabæ þann 27.06.07. Lyfjum hafi verið stolið úr skipinu. Skýrslutaka varðandi málið hafi ekki farið fram en X hafi viðurkennt fyrir Arnóri Jónssyni og Þorvaldi Bragasyni, rannsóknarlögreglumönnum að hafa brotist inn í skipið. Þýfi úr innbrotinu hafi fundist við húsleit að [...] í Reykjavík þar sem X og A Áskell búi. (028-2007-02722).

             Að hafa þann 17. maí sl. farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði að Meðalholti 3, Reykjavík, og tekið ýmsan varning, samtals að áætluðu verðmæti um kr. 150.000., meðal annars hafi rauð ferðataska verið tekin.  (007-2007-39252 og 37750) Yfirheyrsla hafi ekki farið fram sökum ástands kærða. X og A hafi verið handteknir vegna máls (007-2007-37750) þann 24.05.sl. Rauða ferðataskan merkt eiganda hafi verið haldlögð í því máli.

             Að eiga aðild að þjófnaðarmáli þar sem teppi hafi verið stolið frá Tryggvagötu þann 10.05. sl.  (007-2007-33207). Yfirheyrsla hafi ekki farið fram sökum ástands kærða.

             Að hafa stolið Ipod en hann hafi verið handtekinn með einn slíkan í fórum sínum sem hann hafi ekki getað gert grein fyrir. Hnífur hafi einnig verið haldlagður. (007-2007-40602). Yfirheyrsla hafi ekki farið fram sökum ástands kærða.

             Að hafa brotist inn í bifreiðina KP-299 þann 24.06.07. Seðlaveski sem stolið hafi verið úr bifreiðinni hafi fundist í tengslum við mál nr. 007-2007-48392 en X hafi játað að hafa flutt muni þangað fyrir A. (007-2007-47815).

             Að hafa aðfararnótt 26. júní sl., farið í heimildarleysi inn í fjölbýlishús að Helluvaði 7-13, Reykjavík og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verkfæri. Yfirheyrsla hafi ekki farið fram sökum ástands kærða. (007-2007-48268).

             Að hafa sl. nótt, aðfararnótt 26. sl. júní, farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæðið að Sunnuvegi 11, Reykjavík og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. (007-2007-48274). Yfirheyrsla hafi ekki farið fram sökum ástands kærða. Hafi lögregla upplýsingar um sms-skilaboð sem X hafi sent úr síma A um þýfi sem hann hafi undir höndum og sé að reyna að koma út. Hlutir sem nefndir eru þar passa meðal annars við hluti úr þessu innbroti.

             Að hafa sl. nótt, aðfararnótt 26. júní sl., farið í heimildarleysi inn í inn í íbúðarhúsnæðið að Laugarásvegi 40, Reykjavík, og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. (007-2007-47951). Yfirheyrsla hafi ekki farið fram sökum ástands kærða..

             Að hafa þann 16. maí sl. farið í heimildarleysi inn í íbúð á 4. hæð við Gyðufell 4, Reykjavík, og tekið þaðan ófrjálsri hendi ýmis verðmæti. (007-2007-35068). Yfirheyrsla hafi ekki farið fram sökum ástands kærða.

             Lögreglu sé kunnugt um að kærði sé í mikilli fíkniefnaneyslu. Þrátt fyrir ítrekuð afskipti lögreglu undanfarna mánuði hafi kærði ekki látið af fyrri hegðun og haldið brotastarfsemi áfram. Hegðun kærða undanfarna mánuði bendi til þess að yfirgnæfandi líkur séu á að kærði haldi áfram afbrotum gangi hann laus. Að mati lögreglunnar sé því mikilvægt að orðið verði við kröfu hennar svo koma megi í veg fyrir að kærði hefji afbrot á ný og svo lögreglu og ákæruvaldi verði unnt að ljúka málum hans.

             Sakarefni málanna séu talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannist.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

                Samkvæmt því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af öðrum gögnum málsins hefur kærði viðurkennt aðild sína að fimm auðgunarbrotamálum sem hafa verið til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Er þar meðal annars um að ræða innbrot í íbúðarhúsnæði, en brot þessi voru öll framin 26. júní sl. Auk þess liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að ellefu öðrum brotum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu. Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag með úrskurði dómsins uppkveðnum 29. júní sl. en erfiðlega mun hafa gengið að yfirheyra hann um þau brot sem hann er grunaður um að hafa framið, enda liggur fyrir læknisvottorð dags. 5. júlí sl.  þess efni að kærði sé “óhæfur til yfirheyrslu í núverandi ástandi vegna lyfjagjafa og fíkniefnaneyslu”. Með vísan til þessa og framangreinds rökstuðnings í greinargerð lögreglustjóra að öðru leyti verður fallist á með lögreglustjóra að veruleg hætta sé á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi sé hann frjáls ferða sinna. Er krafan því tekin til greina með þeirri breytingu á tímalengd gæsluvarðhaldsins sem kemur fram í úrskurðarorði.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:         

             Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 17. ágúst nk. kl. 16.00.