Hæstiréttur íslands

Mál nr. 788/2014


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ítrekun


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 26. mars 2015.

Nr. 788/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Styrmi H. Snæfeld Kristinssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Líkamsárás. Ítrekun.

S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa slegið A ítrekað í andlit og höfuð með þeim afleiðingum að hann hlaut m.a. nefbrot, tognun, ofreynslu á hálshrygg og mar á andliti. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til langs sakaferils S og þess að með brotinu rauf hann skilorð samkvæmt eldri dómi, sem hafði að hluta ítrekunaráhrif samkvæmt 71. gr. almennra hegningarlaga. Var skilorðsbundni hluti þess dóms tekinn  upp og S ákveðin refsing í einu lagi fyrir bæði brotin, sbr. 77. gr. laganna. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Þá var S gert að greiða A 400.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. nóvember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.

Brotaþolinn A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist þess að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Hinn 2. desember 1994 hlaut ákærði fjögurra mánaða fangelsisdóm, þar af tvo mánuði skilorðsbundið, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði var ekki orðinn 18 ára þegar hann framdi brotið og hefur dómurinn því ekki ítrekunaráhrif, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga, öndvert við það sem segir í héraðsdómi. Næst hlaut ákærði dóm fyrir ofbeldisbrot 22. febrúar 1999, en þá var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði 4. október 2001 dæmdur til að sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr. laganna. Loks var honum með dómi 15. júlí 2013 gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Líkamsárás sú, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, var algerlega tilefnislaus. Hinn óskilorðsbundni hluti dómsins frá 15. júlí 2013 hefur ítrekunaráhrif í máli þessu, sbr. 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga, enda eru uppfyllt almenn ítrekunarskilyrði 71. gr. sömu laga. Þá ber samkvæmt 60. gr. laganna að taka upp hinn skilorðsbundna hluta sama dóms og ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir bæði brotin eftir reglum 77. gr. þeirra.

Samkvæmt framansögðu og teknu tilliti til þess að ákærði hefur fjórum sinnum áður verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot hefðu verið efni til þess að dæma honum þyngri refsingu en gert var í héraðsdómi, en að virtri kröfugerð ákæruvaldsins verður dómurinn staðfestur.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða staðfest ákvæði hans um einkaréttarkröfu A.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Styrmir H. Snæfeld Kristinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 308.347 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 16. október 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 19. júní sl. og dómtekið 2. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 3. júní 2014, á hendur Styrmi H. Snæfeld Kristinssyni, kt. [...],[...],[...], „fyrir líkamsárás með því að hafa sunnudaginn 2. mars 2014 á útisvæði fyrir fanga aftan við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg 9 í Reykjavík, slegið A, kt. [...], ítrekað í andlit og höfuð, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut nefbeinabrot, tognun og ofreynslu á hálshrygg, mar og sár í andliti kringum auga vinstra megin, bjúg í efri hluta sjónhimnu á vinstra auga og sár í munni.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Þá gerir Sigmundur Hannesson, hrl., f.h. A, kt. [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 2. mars 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist bóta vegna kostnaðar við lögmannsaðstoð eftir mati dómara eða skv. síðar framlögðum reikningi auk álags er nemi virðisaukaskatti af þóknuninni.

Ákærði kom fyrir dóminn 10. september sl. og játaði skýlaust sök. Að beiðni sakflytjenda var málinu frestað til 2. október sl. Var í kjölfar þess farið með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms 2. október sl. án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og viðurlög. Ákærði krafðist vægustu refsingar. Er játning ákærða í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín en þau eru í ákæru rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Ákærði á sér sögu afbrota frá árinu 1993. Ákærði var dæmdur til fjögurra mánaða fangelsis þann 2. desember 1994 fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Voru tveir mánuðir refsingarinnar skilorðsbundnir til þriggja ára. Var í því máli tveggja mánaða skilorðsbundinn dómur vegna þjófnaðar dæmdur með í því máli. Þann 22. febrúar 1999 var ákærði aftur dæmdur til fimmtán mánaða fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og þann 15. júlí 2013 var ákærði dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, þar af níu mánuði skilorðsbundna til fjögurra ára. Var í því máli þrjátíu daga skilorðsbundin refsing dæmd upp. Lauk ákærði afplánun á þeim dómi 11. maí 2014. Með broti sínu, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú, rauf ákærði skilorð dómsins frá 15. júlí 2013. Samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940 voru ítrekunaráhrif dómsins frá 2. desember 1994, ekki fallin niður þegar ákærði var aftur dæmdur fyrir sama hegningarlagabrot 22. febrúar 1999. Þá voru samkvæmt sama lagaákvæði ítrekunaráhrif þess dóms ekki fallin niður er ákærði hlaut dóm fyrir sams konar brot 15. júlí 2013. Er því um þriðju ítrekun að ræða nú. Varðar brot ákærða fangelsisrefsingu. Þá rauf ákærði skilorð dómsins frá 15. júlí 2013, og ber því skv. 60. gr. laga nr. 19/1940 að dæma skilorðið upp. Er refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Með hliðsjón af sakaferli ákærða og því sem að ofan er rakið þykir ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna. Ákærði er dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er vegna læknisvottorða 64.000 krónur, og þóknun skipaðs verjanda hans, Steins S. Finnbogasonar hdl., 244.725 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Í málinu gerir A kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum 1.000.000 króna í miskabætur ásamt tilgreindum vöxtum og kostnað við að halda kröfunni uppi.

Í læknisvottorði B, dagsettu 20. mars 2014, segir m.a. í niðurstöðum: „Eftir beinamyndir er ljóst að sjúklingur er nefbrotinn en ekki með aðra áverka sem fram koma á myndum. Sjúklingur fær mjúkan hálskraga og er með tognun í hálsinum. Þegar hann á að útskrifast þá kvartar hann um minnkaða sjón á vinstra auganu“. Þá segir undir kaflanum Greiningar: „Nefbeinabrot S02.2. Tognun og ofreynsla á hálshrygg, S13.4. Mar og smá sár í andliti, kringum auga vinstra megin, S05.1. Framhaldsrannsóknir áætlaðar annars vegar hjá augnlæknum strax daginn eftir og síðan hjá HNE læknum til að rétta nefbrot eftir viku – 10 daga.“

 Í læknisvottorði C, dagsettu 24. mars 2014, segir í samantekt: „A fékk högg á vinstra auga, augnumgjörð var bólgin, sjón skert og í sjónhimnu var bjúgur. Við endurkomu rúmri viku síðar var sjón orðin mikið betri (70% sjónskerpa). Það var engin meðferð, nema að A var ráðlagt að taka því rólega og nota kalda bakstra og verkjalyf. Við fyrstu komu mældist sjón einnig skert á hæ. auga en við endurkomu var sjónin á hæ. auga eðl.; engin áverkamerki sáust á hæ. auga.“

Af ofangreindu er ekki vafi um að brotaþoli hefur hlotið miska vegna árásar ákærða, sem var algjörlega tilefnislaus. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að ákærða hafi verið birt bótakrafan við birtingu fyrirkalls þann 10. júní 2014. Verður ákærði því dæmdur til að greiða ákærða vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. mars 2014 til 10. júlí 2014 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá ber einnig að dæma ákærða til að greiða ákærða kostnað við að halda bótakröfunni uppi, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, sem þykir hæfilegur 225.900 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Styrmir H. Snæfeld Kristinsson, sæti fangelsi í tólf mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 308.725 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Steins S. Finnbogasonar hdl., 244.725 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði A 400.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 2. mars 2014 til 10. júlí 2014 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Sigmundi Hannessyni hrl., fyrir hönd brotaþola, 225.900 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.