Hæstiréttur íslands

Mál nr. 601/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                                         

Föstudaginn 5. nóvember 2010.

Nr. 601/2010.

Emil Þór Guðmundsson

(Marteinn Másson hrl.)

gegn

Gunnari Sverrissyni og

Höllu Báru Gestsdóttur

(enginn)

Kærumál. Hæfi dómara.

E kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu hans um sérfróður meðdómandi í máli G og H gegn E o.fl. viki sæti. Reisti E kröfu sína á því viðkomandi meðdómandi væri og hefði verið til fjölda ára í spilaklúbbi með einum þriggja yfirmatsmanna, en í málinu væri tekist á um þau álitaefni sem yfirmatsgerðin fjallaði um. Talið var ekki væri dregið í efa meðdómandinn hefði hvorki persónulegra fjárhagslegra hagsmuna gæta í málinu eða hann gæti lagt sérfræðilegt mat á málið. Hins vegar yrði til þess líta þegar yfirmatsmaðurinn kæmi fyrir dóm til staðfesta yfirmatsgerðina og svara spurningum um efni hennar reyndi á sérkunnáttu meðdómsmannsins í þeim álitaefnum sem yfirmatsgerðin fjallaði um. Síðan þyrfti dómurinn leggja mat á þau. Ákvæðum 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri öðrum þræði ætlað hindra tortryggni skapaðist í garð dómara við meðferð málsins. Var krafa E því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sérfróður meðdómandi í málinu, Vífill Oddsson byggingarverkfræðingur, viki sæti. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og í hinum kærða úrskurði greinir var það í tilefni af spurningu sóknaraðila til formanns héraðsdóms um annan meðdómandann að hinn meðdómandinn, Vífill Oddsson byggingarverkfræðingur, upplýsti að eigin frumkvæði að hann væri og hafi til fjölda ára verið í spilaklúbbi með einum þriggja yfirmatsmanna, Júlíusi Sólnes byggingarverkfræðingi, sem skilað hafi yfirmatsgerð, sem varnaraðilar byggi kröfur sínar á. Þetta sé fjögurra manna spilaklúbbur, sem verið hafi óbreyttur frá 1980 og hittist reglulega. Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að í málinu sé tekist á um þau álitaefni sem yfirmatsgerðin fjallar um og það sé héraðsdóms og þá ekki síst hinna sérfróðu meðdómsmanna að taka afstöðu til mótmæla hans við yfirmatsgerðinni. Framangreindum tengslum yfirmatsmanns og meðdómara sé þannig háttað að sóknaraðili telji sig með réttu geta dregið óhlutdrægni meðdómarans í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Meðdómandinn Vífill Oddsson hefur upplýst um persónuleg tengsl við framangreindan yfirmatsmann. Ekki er dregið í efa að meðdómandinn hafi hvorki  persónulegra né fjárhagslegra hagsmuna að gæta í málinu eða að hann geti lagt sérfræðilegt mat á málið. Hins vegar verður til þess að líta að þegar yfirmatsmaðurinn kemur fyrir dóm til að staðfesta yfirmatsgerðina og svara spurningum um efni hennar reynir á sérkunnáttu meðdómsmannsins í þeim álitaefnum sem yfirmatsgerðin fjallar um. Síðan þarf dómurinn að leggja mat á þau. Ákvæðum 5. gr. laga nr. 91/1991 er öðrum þræði ætlað að hindra að tortryggni skapist í garð dómara við meðferð máls. Að þessu virtu og með vísan til g. liðar 5. gr. laganna verður krafa sóknaraðila tekin til greina.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Vífill Oddsson víkur sæti  sem sérfróður meðdómandi í máli þessu.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2010.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 22. september sl., er höfðað af Gunnari Sverrissyni og Höllu Báru Gestsdóttur, báðum til heimilis að Þorláksgeisla 11, Reykjavík, á hendur Húsasmiðjunni hf., Holtavegi 10, Reykjavík, Edward Karli Sigurðssyni, Dofraborgum 44, Reykjavík og Emil Þór Guðmundssyni, Lækjasmára 8, Kópavogi, með stefnu birtri  24. og 25. júní 2009.

Stefnendur krefjast þess, að stefndu greiði stefnendum in solidum 9.915.272 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags, þó þannig að in solidum ábyrgð stefnda, Emils Þórs Guðmundssonar, takmarkist við höfuðstól að fjárhæð 8.550.610 kr. með tildæmdum vöxtum. Að stefndu, Húsasmiðjunni hf., verði gert skylt að gefa út afsal til stefnenda fyrir íbúð 201 að Þorláksgeisla 11, Reykjavík, (fastanúmer 226-2864), að viðlögðum dagsektum, 20.000.000 kr. fyrir hvern dag, frá dómsuppkvaðningardegi til þess dags er það hefur verið gefið út af stefnda. Þá krefjast stefnendur þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda, Húsasmiðjunnar hf., eru þær, að stefndi verði að svo stöddu sýknaður af fjárkröfum stefnanda í málinu nema af kröfu að fjárhæð 68.893 kr. er varðar séreign. Til vara er þess krafist að fjárkröfur verði lækkaðar verulega. Þess er einnig krafist að málskostnaður verði látinn niður falla. Stefndi, Húsasmiðjan hf., telur að þegar hafi verið gefið út afsal vegna eignarinnar. Hafi afsalið glatast í meðförum stefnanda er stefndi Húsasmiðjan hf. reiðubúin nú þegar að gefa út afsal vegna eignarinnar.

Dómkröfur stefnda, Emils Þórs, eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnukröfum. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda.

Stefndi, Edward K. Sigurðsson, hefur ekki látið málið til sín taka.

Í þessum þætti málsins er krafa stefnda, Emils Þórs Guðmundssonar, um að Vífill Oddsson víki sæti í málinu, tekin til úrskurðar. Ekki er krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins. Lögmaður stefnanda telur ekki ástæðu til að draga óhlutdrægni Vífils Oddssonar í efa en leggur ágreininginn í mat dómsins.

Lögmaður Húsasmiðjunnar tekur undir sjónarmið stefnda, Emils Þórs, um vanhæfi Vífils Oddsonar. Að öðru leyti láta lögmaður stefnanda og lögmaður stefnda, Húsasmiðjunnar hf., málið ekki til sín taka.

Mál þetta er eitt af þremur samkynja málum vegna ætlaðs galla á fasteigninni að Þorláksgeisla 11, Reykjavík.

Málavextir

Með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ákvað héraðsdómari að kveða tvo sérfróða meðdómendur með sér í dóminn og fyrir valinu urðu verkfræðingarnir Jón Ágúst Pétursson og Vífill Oddsson. Lögmönnum málsins var tilkynnt þetta fyrir réttarhlé.

Með bréfi lögmanns stefnda, Emils Þórs, hinn 7. september sl., til héraðsdómara var óskað eftir svörum við fimm spurningum er vörðuðu starfsferil Jóns Ágústs Péturssonar, um ætlað eignarhald hans á fyrirtæki, vináttutengsl og önnur tengsl hans við ráðgjafa hjá Hniti og önnur atriði er kynnu að valda vanhæfi hans sem meðdómara. Jón Ágúst svaraði þessum spurningum samdægurs og var lögmanni stefnda send svörin. Lögmaðurinn tilkynnti síðan héraðsdómara með tölvupósti sama dag, að hann reiknaði „ekki með framhaldi af þessum vangaveltum“ þeirra.

Í framhaldi af ofangreindum samskiptum taldi héraðsdómari rétt að tilkynna lögmanni stefnda, Emils Þórs, að Vífill Oddsson hefði haft samband og sagt frá því að hann væri í spilaklúbbi með Júlíusi Sólnes yfirmatsmanni. Vífill teldi sig ekki vanhæfan sem sérfróður meðdómari í málinu þótt svo væri.

Með tölvupósti lögmanns stefnda, Emils Þórs, 13. september 2010 spurði lögmaðurinn hvort þetta væri fámennur klúbbur (eins og algengt væri með t.d. bridge-klúbba í vinahópi), sem héldi oft spilakvöld og hefði fleira á sinni könnu fyrir hópinn, svo sem ferðalög og aðsókn á menningarviðburði og hversu lengi meðdómarinn og yfirmatsmaðurinn hefðu verið saman í klúbbnum, o.s.frv.

Í svari Vífils frá 14. september sl. kemur fram að hann sé í fjögurra manna spilaklúbbi ásamt Júlíusi. Klúbburinn hafi verið óbreyttur frá 1980. Spilað sé 6 til 7 mánuði á ári og oftast tvisvar í mánuði. Einnig sé farið í einn tveggja daga veiðitúr á ári. Að lokum tók Vífill fram að hann teldi sig ekki vanhæfan vegna þessa.

Málsástæður og lagarök Emils Þórs

Í málatilbúnaði Emils Þórs kemur fram, að kröfur stefnenda á hendur honum byggist einkum á forsendum og niðurstöðum yfirmatsgerðarinnar, en hún var unnin af byggingarverkfræðingunum Hrund Einarsdóttur, Júlíusi Sólnes og Snæbirni Kristjánssyni. Í greinargerð Emils Þórs til héraðsdóms eru gerðar nokkrar athugasemdir við forsendur og niðurstöðu yfirmatsmannanna, en stefndi, Emil Þór, telur forsendurnar í sumum tilvikum beinlínis vera rangar. Það sé héraðsdóms að fara yfir yfirmatsgerðina og þá gagnrýni sem á hana kemur.

Stefndi, Emil Þór, telur tengslum Vífils Oddssonar og Júlíusar Sólnes vera þannig háttað að hann geti dregið óhlutdrægni Vífils með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. eml., þegar kemur að því að meta forsendur og niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar. Hann bendir á að nánd manna í félagsskap eins og fámennum spilaklúbbi og persónuleg tengsl þeirra, sem staðið hafa áratugum saman, séu mjög mikil og jafnvel meiri heldur en ýmis þau fjölskyldutengsl sem lýst er í stafliðum d-f, 5. gr. laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Dómari gætir að hæfi sínu af sjálfsdáðum. Í 5. gr. laga nr. 91/1991 segir í g-lið að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru tilvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

Krafa stefnda, Emils Þórs, lýtur ekki að því að Vífill Oddson sé í tengslum/vináttu við aðila málsins eða venslamenn þeirra. Krafan lýtur að tengslum Vífils Oddsonar við Júlíus Sólnes. Júlíus er einn af þremur yfirmatsmönnum sem komust að sameiginlegri niðurstöðu í yfirmatsgerð sem dagsett var 30. desember 2008. Vífill Oddsson kveðst ekki hafa persónulega eða fjárhagslega hagsmuni af málinu. Kjarninn er hvort hann geti lagt sérfræðilegt mat, ásamt öðrum sérfróðum meðdómara, á yfirmatsgerð þá sem liggur fyrir í málinu en Vífill Oddsson, er með sérfræðiþekkingu á sviði burðarþolshönnunar. Í ljósi framangreinds telur dómurinn að ekki sé unnt að draga óhlutdrægni Vífils Oddsonar í efa með réttu. Kröfu Emils Þórs, um að Vífill Oddsson víki sæti, er því hafnað.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Vífill Oddsson víkur ekki sæti sem sérfróður meðdómandi í málinu.