Hæstiréttur íslands
Mál nr. 134/2011
Lykilorð
- Læknir
- Sjúkrahús
- Verksamningur
- Vinnusamningur
- Vinnuveitendaábyrgð
- Skaðabætur
- Endurkrafa
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2011. |
|
Nr. 134/2011.
|
Sjúkrahúsið á Akureyri (Einar Karl Hallvarðsson hrl. Soffía Jónsdóttir hdl.) gegn Guðna Arinbjarnar (Karl Axelsson hrl.) |
Læknar. Sjúkrahús. Verksamningur. Vinnusamningur. Vinnuveitandaábyrgð. Skaðabætur. Endurkrafa.
Sjúkrahúsið SA höfðaði mál gegn lækninum G til endurkröfu skaðabóta sem SA hafði greitt A vegna tjóns sem A taldi sig hafa orðið fyrir í skurðaðgerð sem G framkvæmdi hjá SA. Aðgerðin hafði verið framkvæmd sem svokallað ferliverk en G hafði gert samkomulag við SA um að hann ynni slík verk á sjúkrahúsinu á grundvelli samkomulags SA við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Með vísan til samkomulags aðila og hvernig staðið var að uppgjöri og greiðslum vegna ferliverkanna var talið að G hefði framkvæmt þau sem verktaki en ekki starfsmaður SA. Af þessum sökum var ekki unnt að líta svo á að SA hefði borið vinnuveitandaábyrgð á ferliverkum G og gat 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 því ekki tekið til réttar SA til að krefja G um endurgreiðslu þeirra skaðabóta sem deilt var um. Í samkomulagi aðila var kveðið á um að SA bæri ábyrgð gagnvart sjúklingum á tjóni sem kynni að hljótast af aðgerðum sem það tók til. Sérstaklega var tekið fram að þetta rýrði ekki endurkröfurétt SA. Gögn málsins báru með sér að G hefði að minnsta kosti að einhverju leyti verið kunnugt um kröfu A og að hann hefði ekki gert athugasemd við meðferð SA á kröfu A. Af hálfu G var því ekki borið við að SA hefði greitt A bætur umfram það sem skylda stóð til og af gögnum málsins var ljóst að G hefði verið kunnug ráðagerð SA um að beina endurkröfu að sér vegna greiðslu skaðabótanna. Í ljósi þessa var G gert að endurgreiða SA þá fjárhæð sem sjúkrahúsið hafði greitt A ásamt dráttarvöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.784.719 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi og þrír sérfræðingar í bæklunarlækningum, þar á meðal stefndi, gerðu 28. apríl 1999 með sér samkomulag um ferliverk. Í samkomulaginu sagði að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sem nú ber heiti áfrýjanda, hafi gert samning við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um ábyrgð og framkvæmd ferliverka tiltekinna sérgreina, þar með talinna bæklunarskurðlækninga, og skuldbindi aðilar sig til að vinna að framgangi þess samnings. Ábyrgist áfrýjandi viðsemjendum sínum aðeins þann fjölda verkeininga sem ráðuneytið semji um við hann hverju sinni. Í samkomulaginu voru ferliverk skilgreind sem öll þau læknisverk sem unnin væru hjá áfrýjanda án þess að sjúklingur þyrfti á innlögn að halda, þó þannig að einungis í undantekningartilvikum gæti komið til innlagnar, sem skyldi ekki vara lengur en í 24 klukkustundir. Væri hér meðal annars átt við skoðanir, rannsóknir, lyfja- og geislameðferð og skurðlækningar. Við það skyldi miðað að læknir innti af hendi ferliverk á þann hátt að þau dreifðust sem jafnast á ársfjórðunga, en sinnti hann því ekki eða lyki ekki umsömdum verkeiningarfjölda væri áfrýjanda heimilt að flytja þær frá honum til annars læknis. Fyrir einstök ferliverk skyldi innheimt samkvæmt einingaverði Tryggingastofnunar ríkisins vegna hlutaðeigandi sérgreinar og í samræmi við gildandi gjaldskrá hverju sinni. Fyrir viðtöl á göngudeild skyldi áfrýjandi greiða lækni 70% af einingaverði, en fyrir önnur ferliverk 55% einingaverðs. Lækni væri heimilt að vinna ferliverk á dagvinnutíma, en honum bæri þá að skila samsvarandi tímafjölda utan dagvinnutíma í samráði við framkvæmdastjóra lækninga. Óskaði læknir eftir því að þurfa ekki að skila tímum, sem vinna ætti á dagvinnutíma hans, átti greiðsla áfrýjanda að lækka um 11%. Fyrir ferliverkin skyldi læknir fá greitt sem verktaki og annast sjálfur greiðslu skatta, launatengdra gjalda, mótframlags í lífeyrissjóð og slysatryggingar, en áfrýjandi legði lækni til nauðsynlega starfsaðstöðu, þar með talda aðstoð annarra starfsmanna við móttöku sjúklings, undirbúning og framkvæmd aðgerða, tækjabúnað, umbúðir og lyf. Jafnframt skyldi áfrýjandi útvega starfsfólk á dagvinnutíma til aðstoðar við framkvæmd ferliverka. Í samkomulaginu var jafnframt eftirfarandi ákvæði: „Allar aðgerðir og undirbúningur aðgerða skv. samkomulagi um ferliverk eru alfarið framkvæmdar á ábyrgð og undir stjórn hlutaðeigandi læknis. FSA skal þó bera ábyrgð gagnvart sjúklingi á tjóni, sem af aðgerðum kann að hljótast. Þetta rýrir þó ekki endurkröfurétt sjúkrahússins gagnvart einstökum læknum.“ Samkomulagið skyldi gilda frá 1. janúar til 31. desember 1999 og félli þá úr gildi án uppsagnar, en jafnframt var kveðið á um heimild til að segja því upp með þriggja mánaða fyrirvara.
II
Stefndi gerði 26. maí 1999 að hné A á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og er óumdeilt að sú aðgerð hafi átt undir fyrrgreindan samning um ferliverk. Með bréfi 23. september 2002 til landlæknis var af hálfu A farið fram á athugun embættisins á læknismeðferðinni. Var það niðurstaða landlæknis í álitsgerð 29. september 2003 að svo virtist sem ástæða langvarandi verkja sjúklingsins væri enn óþekkt, en sjúkdómsgreiningu væri ekki lokið. Í álitsgerð bæklunarlæknis 5. mars 2004, sem leitað var af hálfu A, var komist að þeirri niðurstöðu að fremur líklegt yrði að teljast að röng staðsetning skrúfu eftir aðgerð stefnda hafi skaddað brjósk í hnélið auk þess sem skrúfuendinn hafi legið mjög nálægt hnéskeljarsin. Þá yrði að teljast líklegt að skrúfuendi hafi ert sinina meðan skrúfan var inni í liðnum. Af hálfu A var 24. júní 2004 óskað eftir að áfrýjandi tæki afstöðu til bótaskyldu, sem hann hafnaði 23. ágúst sama ár. Í matsgerð bæklunarlæknis 7. ágúst 2005, sem A hafði fengið dómkvaddan, var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski hennar, sem rekja mætti til aðgerðar stefnda, væri 5 stig og varanleg örorka 7%. Á grundvelli matsgerðarinnar krafðist A 16. ágúst 2005 bóta úr hendi áfrýjanda, samtals að fjárhæð 3.312.209 krónur. Með bréfi áfrýjanda 31. sama mánaðar var henni tilkynnt að hann hefði ákveðið að óska eftir yfirmati og væri skaðabótaskyldu hafnað að svo stöddu. Yfirmatsgerð tveggja bæklunarlækna lá fyrir 18. ágúst 2006. Töldu þeir að eingöngu mætti rekja hluta af verkjavandamálum A til rangrar staðsetningar áðurnefndrar skrúfu. Yfirmatsmenn komust jafnframt að þeirri niðurstöðu að hún hafi hlotið 7,5 stiga varanlegan miska af aðgerðinni og 10% varanlega örorku. Áfrýjandi greiddi henni samtals 4.784.719 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði 20. desember 2006, en það er sú fjárhæð sem áfrýjandi krefur stefnda um í málinu.
III
Svo sem fyrr greinir var kveðið á um það í samkomulagi aðila 28. apríl 1999 að stefndi fengi greitt fyrir ferliverk sem verktaki og annaðist sjálfur greiðslu skatta, launatengdra gjalda, mótframlags í lífeyrissjóð og slysatryggingar. Samkvæmt samkomulaginu annaðist áfrýjandi innheimtu greiðslna fyrir ferliverk stefnda, bæði frá sjúklingi og Tryggingastofnun ríkisins, og gerði áfrýjandi eftir gögnum málsins upp við stefnda mánaðarlega. Eftir þeim uppgjörum hélt áfrýjandi eftir tilteknum hundraðshluta af umsömdu einingaverði fyrir hverja aðgerð í svokallað aðstöðugjald, annars vegar 41% af einingaverði vegna skoðana og viðtala og hins vegar 55% fyrir aðgerðir. Greiðslur til stefnda samkvæmt þessum uppgjörum voru inntar af hendi til einkahlutafélagsins Akkillesar, sem hann mun hafa átt ásamt eiginkonu sinni. Að þessu virtu getur engum vafa verið háð að stefndi hafi verið verktaki samkvæmt þessu samkomulagi, en ekki starfsmaður áfrýjanda þegar hann vann ferliverk. Af þessum sökum er ekki unnt að líta svo á að áfrýjandi hafi borið vinnuveitandaábyrgð á ferliverkum stefnda og þar með skaðabótaábyrgð gagnvart þeim, sem urðu fyrir tjóni vegna slíkra verka. Af þessu leiðir að ákvæði 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 taka ekki til réttar áfrýjanda til að krefja stefnda um endurgreiðslu þeirra skaðabóta, sem sá fyrrnefndi innti af hendi til A samkvæmt framansögðu.
Samkvæmt samkomulagi aðilanna 28. apríl 1999 bar áfrýjandi ábyrgð gagnvart sjúklingum á tjóni, sem kynni að hljótast af aðgerðum, sem það tók til, en sérstaklega var tekið fram að þetta rýrði ekki endurkröfurétt áfrýjanda gagnvart stefnda. Án tillits til þess hvort að réttu lagi hafi mátt líta svo á að áfrýjandi bæri á þessum grundvelli beina ábyrgð á greiðslu skaðabóta gagnvart sjúklingi verður ekki horft fram hjá því að áfrýjandi gerði á engu stigi athugasemd við að A beindi kröfu sinni vegna læknisverks stefnda að sér. Þótt stefndi hafi hvergi átt hlut að máli við meðferð bótakröfu A, þar með talið við öflun matsgerða, verður að gæta að því að gögn málsins bera með sér að honum hafi að minnsta kosti að einhverju leyti verið kunnugt um kröfuna og þessa gagnaöflun áður en fyrirsvarsmaður áfrýjanda kynnti honum í október 2006 ráðagerð um uppgjör á kröfunni í samræmi við niðurstöðu yfirmatsins. Þá er einnig til þess að líta að í bréfi til áfrýjanda 15. janúar 2007 lét stefndi þess sérstaklega getið að hann efaðist ekki um „að unnið hafi verið að málinu á besta hátt“, en í málinu er því ekki borið við að áfrýjandi hafi greitt A bætur umfram það, sem skylda stóð til. Að þessu virtu getur engu breytt um endurkröfurétt áfrýjanda að hann hafi ekki svo að sannað sé haft samráð við stefnda um einstök atriði varðandi bótakröfu hennar.
Af áðurnefndu bréfi stefnda til áfrýjanda 15. janúar 2007 og bréfi Læknafélags Reykjavíkur til þess síðarnefnda 11. mars 2008 getur ekki orkað tvímælis að stefnda var kunnugt um fjárhæðina, sem greiða ætti A í skaðabætur, áður en hún var innt af hendi. Af sömu gögnum er jafnframt ljóst að strax á því stigi var stefnda kunnug ráðagerð áfrýjanda um að beina endurkröfu að sér vegna þessa. Stefndi hefur ekki borið því við að áfrýjandi hafi eftir þetta látið í ljós í orði eða verki að hann væri horfinn frá þeirri ráðagerð. Getur áfrýjandi því ekki hafa glatað rétti fyrir tómlæti til að hafa þessa endurkröfu uppi þótt hann hafi ekki höfðað mál þetta fyrr en 18. ágúst 2009 án frekari undangenginna tilkynninga.
Samkvæmt framansögðu nýtur áfrýjandi samningsbundins réttar til að endurkrefja stefnda um þær 4.784.719 krónur, sem um ræðir í málinu. Stefnda verður því gert að greiða áfrýjanda þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá 15. febrúar 2007 eins og krafist er.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Guðni Arinbjarnar, greiði áfrýjanda, Sjúkrahúsinu á Akureyri, 4.784.719 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. febrúar 2007 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2010.
Mál þetta var þingfest 2. september 2009 og tekið til dóms 9. nóvember sl. Stefnandi er Sjúkrahúsið á Akureyri, Eyrarlandsvegi, Akureyri, en stefndi er Guðni Arinbjarnar, Fákahvarfi 13, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.784.719 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2006 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
I.
Stefndi, sem er sérfræðingur í bæklunarlækningum, hóf störf hjá stefnanda þann 1. febrúar 1999. Þegar í stað fór stefnandi að vinna svokölluð ferilverk en með því er átt við læknisverk sem unnin eru innan sjúkrahússins án þess að sjúklingur þurfi á innlögn að halda og má sem dæmi nefna skoðanir, rannsóknir, lyfja- og geislameðferð svo og skurðlækningar. Frá og með fyrsta vinnudegi stefnda var hann í fullu starfi hjá stefnanda en um það bil þriðjungur af dagvinnutíma hans fór í umrædd ferilverk. Þegar stefndi hafði starfað hjá stefnanda í tæpa þrjá mánuði, eða þann 28. apríl 1999, undirritaði hann ásamt tveimur öðrum sérfræðingum í bæklunarlækningum sérstakt samkomulag vegna umræddra ferilverka.
Í því samkomulagi segir m.a.:
„Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, hér eftir nefnt FSA annars vegar og hér eftir nefndir læknar, hins vegar, gera með sér svofellt samkomulag um ferilverk.
FSA hefur gert samning við Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (HTR) um ábyrgð og framkvæmd ferliverka tiltekinna sérgreina, þ.m.t. bæklunarskurðlækninga. Með samkomulagi þessu skuldbinda aðilar sig til að vinna að framgangi fyrrnefnds samnings í samræmi við það sem síðar greinir. FSA ábyrgist þeim læknum hlutaðeigandi sérgreina, sem samkomulag gera um ferliverk, aðeins þann fjölda verkeininga sem HTR semur um við FSA hverju sinni. Fjöldi eininga i bæklunarskurðlækningum er 65.000 á ársgrundvelli. Samningur FSA og HTR fylgir með samkomulagi þessu og er hluti þess eftir því sem við á.
Með ferliverkum er í samkomulagi þessu átt við öll þau læknisverk sem unnin eru á FSA án þess að sjúklingur þurfi á innlögn að halda, þó þannig að einungis í undantekningartilvikum geti komið til innlagnar sem ekki skal vara lengur en í 24 klst. sbr. skilgreiningu í gildandi reglugerð um ferliverk á hverjum tíma. Er hér m.a. átt við skoðanir, rannsóknir, lyfja- og geislameðferð svo og skurðlækningar. Um nánari skilgreiningar á einstökum verkþáttum ferliverka vísast til fylgiskjals með samningi Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur vegna hlutaðeigandi sérgreinar.
Sérhver aðgerð, rannsókn og meðferð sjúklings, sem rekja má til eigin rannsóknarverkefnis læknis, fellur utan samkomulags þessa.
Með samkomulagi þessu skuldbindur læknir/læknar sig til að inna af hendi þann fjölda verkeininga sem tilgreindur er í samkomulagi þessu (eða honum kann að vera falinn af framkvæmdastjóra lækninga) séu nægilega margir sjúklingar fyrir hendi. Við það skal miðað að læknir inni af hendi ferliverk á þann hátt að þau dreifist sem jafnast á ársfjórðunga. Uppfylli læknir ekki þann vilja samkomulags að inna umsaminn verkeiningafjölda af hendi eða sé dreifing verkeininga ekki samkvæmt framansögðu er FSA heimilt að flytja verkeiningar frá hlutaðeigandi lækni/læknum til annarra.
2.gr.
Fyrir einstök ferliverk skal innheimt samkvæmt einingaverði Tryggingastofnunar ríkisins vegna hlutaðeigandi sérgreinar og í samræmi við gildandi gjaldskrá hverju sinni. Fyrir viðtöl á stofu (göngudeild) greiðir FSA lækni 70% einingaverðs en fyrirönnur ferliverk 55% einingaverðs. Sérstakt tækjagjald telst til greiðslugrunns. FSA skuldbindur sig til að annast innheimtu á sjúklingagjaldi. Verði vanhöld á greiðslum sjúklinga þrátt fyrir ítrekaðar innheimtur skulu FSA og læknir bera jafn skarðan hlut frá borði í samræmi við ofangreinda skiptingu greiðslna. Samningsaðilar skuldbinda sig til að tryggja að unnin ferliverk fari ekki umfram þær einingar sem samningur Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og FSA gerir ráð fyrir hverju sinni, enda skal læknir kanna og vera upplýstur um hvort einingafjöldi sé innan þeirra marka sem kveðið er á um í samningi þessum. Fari einingar umfram áðurnefnd viðmið, þ.e. samning HTR og FSA, skal samkomulag gert um að verðskrá verði reiknuð niður að því marki í formi afsláttar (skerðingar) eða að einingar næsta árs verði skertar um það sem mismuninum nemur.
Lækni er heimilt að vinna ferliverk á dagvinnutíma en skal þá skila samsvarandi tímafjölda utan dagvinnutíma í samráði við framkvæmdastjóra lækninga. Á bilinu 27. apríl - 27. maí skulu samningsaðilar koma sér saman um aðferð til að meta þann tíma sem varið er til ferliverka mánaðarlega. Heimilt er að jafna tímum sem ekki er skilað á móti óteknu orlofi, bakvakta- og yfirvinnufríi. Óski læknir eftir því að þurfa ekki að skila tímum sem unnir eru á dagvinnutíma hans, lækkar greiðsla FSA um 11 prósentustig og verður 59% af einingaverði vegna viðtala og 44% af einingaverði vegna annarra ferliverka. Ef læknir er á fastlaunasamningi fær hann greitt samkvæmt helgunarálagi. FSA skal tilkynna lækni breytingar á lista ráðuneytis um einingarverð skv. samningi svo fljótt sem verða má svo og breytingar sem rekja má til nýrra verka sem bætast við lista yfir ferliverk.
Fyrir ferliverk lækna skv. samkomulagi þessu greiðir sjúkratryggður gjald skv. 36. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 eða samkvæmt reglugerðarákvæðum um breytingu á því gjaldi, nú reglugerð nr. 68/1996.
3.gr.
Læknir, sem starfar skv. samkomulagi þessu að ferliverkum, skal fá greitt sem verktaki. Læknir skal sjálfur greiða skatta, launatengd gjöld, þ.m.t. tryggingagjald, mótframlag í lífeyrissjóð, slysatryggingar o.þ.h. FSA leggur lækni til þá starfsaðstöðu sern nauðsynlega má telja, þ.m.t. aðstoð annarra starfsmanna við móttöku sjúklinga, undirbúning og framkvæmd aðgerða, tækjabúnað, umbúðir, lyf og annað sem til þarf.
Framkvæmdastjóri lækninga skal hafa umsjón með framgangi og eftirliti ferliverka skv. samkomulagi þessu. FSA mun skv. samkomulagi þessu ábyrgjast útvegun starfsfólks á dagvinnutíma til aðstoðar við framkvæmd ferliverka, þ.e. á tímabilinu frá kl. 08.00-16.00 virka daga. Ennfremur á tímabilinu 16.00-19.00 skv. sérstöku samkomulagi.
4. gr.
Allar aðgerðir og undirbúningur aðgerða skv. samkomulagi um ferliverk eru alfarið framkvæmdar á ábyrgð og undir stjórn hlutaðeigandi læknis. FSA skal þó bera ábyrgð gagnvart sjúklingi á tjóni, sem af aðgerðum kann að hljótast. Þetta rýrir þó ekki endurkröfurétt sjúkrahússins gagnvart einstökum læknum.
5. gr.
Læknir skuldbindur sig til að virða í hvívetna ákvæði stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, laga um réttindi sjúklinga svo og önnur lög og reglugerðir sem við eiga eins og þau eru á hverjum tíma, við framkvæmd ferliverka og undirbúning þeirra. Læknir skuldbindur sig til að virða ákvæði laga um meðferð upplýsinga um sjúklinga. Upplýsingar um þá sjúklinga sem gangast undir ferliverk hjá FSA skv. samkomulagi þessu skulu meðhöndlaðar á sama hátt og upplýsingar annarra sjúklinga sjúkrahússins. Skulu upplýsingar þessar varðveittar hjá FSA.
Læknir skuldbindur sig til að leysa ferliverk af hendi í samræmi við almennt viðurkennd viðmið.
6. gr.
Samkomulag um ferliverk lækna er gert án útboðs og skuldbindur læknir sig til að uppfylla öll ákvæði er að slíkum samningum lúta m.a. skv. reglum um undirbúning, gerð og eftirlit með samningum til lengri tíma en eins árs skv. 30. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Núgildandi reglur útgefnar af fjármálaráðherra, með gildistöku 23. febrúar 1998, liggja fyrir við undirritun samkomulags þessa.
Læknir skuldbindur sig til að láta FSA í té allar upplýsingar vegna greiðslna, viðveru við ferliverk svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að vera.
7. gr.
Læknir sem ekki er á fastlaunasamningi, skal gera FSA reikning vegna ferliverka sem hann hefur innt af hendi skv. samkomulagi þessu. Fyrir 10. dag hvers mánaðar skal læknir leggja fram reikning vegna ferliverka sem hann hefur innt af hendi síðasta almanaksmánuð. Á reikningi skal koma fram skipting verka eftir gjaldnúmerum. Reikningar skulu staðfestir af framkvæmdastjóra lækninga og greiddir innan 15 daga frá framvísun.“
Þann 26. maí 1999 gekkst A undir aðgerð á hné hjá stefnda og hefur hún byggt á því að mistök hafi átt sér stað við umrædda aðgerð. A leitaði til embættis landlæknis með bréfi 23. september 2002 sem komst að þeirri niðurstöðu 29. september 2003 að festingarskrúfa hefði ekki lent á réttum stað. Hins vegar var talið að lega skrúfunnar væri „á engan hátt líkleg til að valda öðru en tímabundnum óþægindum og því ekki talin ástæða til að ætla að staðsetning skrúfunnar eftir aðgerðina 26. maí 1999 hafi valdið öðru en töf á áður áætlaðri meðferð auk óþæginda og ertingu á hnénu um einhverra vikna skeið.“ Þá segir jafnframt í áliti landlæknis að svo virðist sem ástæða langvarandi hnéverkja A séu enn óþekkt.
Í kjölfarið leitaði sjúklingurinn álits Stefáns Karlssonar bæklunarlæknis. Taldi hann fremur líklegt að röng staðsetning skrúfunnar hefði skaddað liðbrjósk. Á grundvelli þeirrar álitsgerðar óskaði lögmaður A eftir því að stefnandi tæki afstöðu til bótaskyldu án þess að gerð væri afmörkuð fjárkrafa. Stefnandi hafnaði bótaskyldu með bréfi, dags. 23. ágúst 2004, á þeim grundvelli að aðgerðin væri ekki orsök vanda sjúklingsins. Þann 3. maí 2005 var Yngvi Ólafsson bæklunarskurðlæknir dómkvaddur til að meta afleiðingar aðgerðarinnar. Samkvæmt matsgerð hans, dags. 7. ágúst 2005, var varanlegur miski, sem talið var að rekja mætti til mistaka við framkvæmd aðgerðarinnar, 5%, og varanleg örorka 7%. A krafðist bóta á þessum grundvelli þann 15. ágúst 2005.
Stefnandi óskaði þá eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna og voru bæklunarskurðlæknarnir Gauti Laxdal og Ríkharður Sigfússon dómkvaddir þann 9. febrúar 2006 til að meta hugsanlegar heilsufarslegar afleiðingar aðgerðarinnar. Í yfirmatsgerð, dags. 18. ágúst 2006, var komist að þeirri niðurstöðu að eingöngu hluta af verkjavandamálum A mætti rekja til rangrar staðsetningar skrúfu í hægra hné hennar. Þá töldu þeir að varanlegur miski hennar vegna aðgerðarinnar væri 7,5 stig og varanleg örorka 10%. Með vísan til þessarar matsgerðar krafðist A skaðabóta að fjárhæð 4.784.719 krónur og greiddi stefnandi þá fjárhæð þann 20. desember 2006.
Halldór Jónsson framkvæmdastjóri stefnanda, sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að ferilverkum væri þannig háttað að í samningum við Tryggingastofnun ríkisins væri ákveðið hve margar einingar væru fyrir hvert verk en þær gætu verið mismunandi eftir verkum. Læknar tækju saman einingar á uppgjörsblað sem spítalinn færi yfir og greiddi síðan samkvæmt því inn á reikning læknisins.
Þorvaldur Ingvarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lækninga hjá stefnanda, undirritaði samkomulag um ferilverk af hálfu stefnanda. Hann kvað það meginatriði samningsins að um verktakasamning væri að ræða. Kvaðst hann muna sérstaklega eftir því að hafa beðið stefnda að kaupa sér ábyrgðartryggingu vegna þess. Spítalinn hafi útvegað aðstöðu og úthlutað læknum ákveðna daga til að gera aðgerðir en þeir hafi skipulagt sinn tíma innan þess ramma. Sjúklingar hafi upphaflega pantað tíma hjá lækni. Stefnandi hafi séð um bókhald og skýrslugerð vegna þessara ferilverka og lagt fyrir lækninn til samþykkis. Að því búnu hafi stefnandi greitt lækni. Þorvaldur kvaðst hafa haldið fund með stefnda í janúar 2007 og hafi Árni Pálsson lögmaður verið viðstaddur þennan fund. Þar hafi stefnda verið gerð grein fyrir því að krafa um endurgreiðslu yrði sett fram.
Stefndi sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi heyrt það á göngum spítalans einhvern tímann á árinu 2002 að eitthvert mál væri í gangi. Þá minnti hann að hann hefði heyrt af kröfugerð á hendur spítalanum árið 2006. Svo hafi það verið á fundi með Þorvaldi Ingvarssyni og Árna Pálssyni lögmanni í janúar 2007 að honum hafi verið tilkynnt að stefnandi hefði fallist á að greiða A bætur. Þeir hafi jafnframt sagt honum að ólíklegt væri að gerð yrði krafa á hendur honum. Stefndi sagði að honum hafi aldrei gefist kostur á að fylgjast með málinu og ekkert samband hafi verið haft við hann þegar undir- og yfirmat hafi verið unnið. Hann hafi ekki fengið formlega kröfu fyrr en með birtingu stefnu. Hann hafi að vísu svarað landlækni á sínum tíma en stundum kæmi það fyrir að læknar þyrftu að senda landlækni greinargerð án þess að það leiddi til nokkurs eða hefði frekari eftirmála. Hann kvaðst hafa frétt af málinu þegar honum hafi verið sagt að yfirmatsgerð lagi fyrir. Hann minnti að öll skráning og bókhald vegna ferilverka hafi verið á vegum spítalans. Hann minnti að hann hafi undirritað yfirlitsblað en stefndi síðan séð alfarið um uppgjör.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína á 3. gr. samkomulags um ferilverk þar sem skýrt komi fram að um verktakavinnu sé að ræða. Tekið sé fram í þeirri grein að hlutaðeigandi læknir greiði sjálfur skatta og launatengd gjöld, þ.m.t. tryggingagjald, mótframlag í lífeyrissjóð, slysatryggingar o.þ.h. vegna þessara starfa. Stefnandi hafi hins vegar skuldbundið sig til að leggja lækni til nauðsynlega starfsaðstöðu, aðstoð annarra starfsmanna, tækjabúnað, umbúðir og lyf. Allar aðgerðir og undirbúningur þeirra hafi verið á ábyrgð og undir stjórn hlutaðeigandi læknis. Stefnandi hafi borið ábyrgð gagnvart sjúklingi á tjóni en skýrt hafi verið tekið fram að það rýrði ekki endurkröfurétt stefnanda gagnvart einstökum læknum. Af þessu megi sjá að ferilverkin hafi verið unnin af læknum sem verktökum en ekki sem starfsmönnum stefnanda. Stefnandi hafi einnig verið starfsmaður stefnda og þá fengið greitt fyrir vinnu sína samkvæmt kjarasamningi á grundvelli ráðningarsamnings.
Fjárhæð stefnukröfu svari til þeirra skaðabóta sem stefnandi hafi greitt A á grundvelli yfirmatsgerðar.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að umrædd aðgerð hafi ekki verið framkvæmd af stefnda sem sjálfstæðum verktaka heldur sem starfsmanni stefnanda. Vegna þess eigi meginregla skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð við en samkvæmt þeirri reglu beri stefndi ekki sjálfur ábyrgð á skaðaverkum sínum nema að uppfylltum þröngum skilyrðum.
Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að samkomulag um ferilverk teljist verksamningur. Nauðsynlegt sé að líta til þess að ráðningarsamband hafi verið á milli aðila og óumdeilt sé að stefndi hafi starfað og veitti þjónustu á vegum sjúkrahússins þegar umrædd aðgerð var gerð. Þá hafi stefndi unnið þau ferilverk, sem fjallað sé um í fyrrgreindu samkomulagi, með sama hætti og önnur störf sín innan sjúkrahússins. Hann hafi því litið svo á að vinna hans við ferilverk væri hluti af starfi hans hjá stefnanda.
Stefndi leggur áherslu á að sönnunarbyrði um eðli umrædds samkomulags hvíli á stefnanda sem vinnuveitanda, enda hafi hann samið skjalið einhliða og standi því honum nær að tryggja sér slíka sönnun. Verði stefnandi að bera hallann af því að vafi sé talinn leika á því um hvers konar samning hafi verið að ræða.
Nauðsynlegt sé að meta efni umrædds samkomulags með heildstæðum hætti. Í stefnu sé hins vegar eingöngu vikið að þeim ákvæðum samkomulagsins sem skilja megi þannig að um verksamning hafi verið að ræða. Vissulega segi í samkomulaginu að stefndi skuli fá greitt sem verktaki og hann skuli sjálfur greiða skatta, launatengd gjöld o.fl. því tengt. Þá segi jafnframt í 4. gr. samkomulagsins að allar aðgerðir og undirbúningur þeirra séu framkvæmdar á ábyrgð og undir stjórn hlutaðeigandi læknis.
Í þessu sambandi sé nauðsynlegt að líta til þess að samningur aðila hafi verið persónubundinn. Stefndi hafi verið ráðinn til að sinna ákveðnum störfum á vegum stefnanda. Það sé talið eitt af sérkennum ráðningarsamninga að réttarsambandið sé persónubundið, þannig að starfsmaður geti ekki fengið annan til að sinna því verki sem honum sé ætlað að leysa. Þá hafi stefnandi haft ákveðið boðvald yfir stefnda eða húsbóndavald, sbr. 1. málsliður 2. mgr. 3. gr. samningsins, þar sem segi að framkvæmdastjóri lækninga skuli hafa umsjón með framgangi og eftirliti ferilverka. Stefnandi hafi því haft ákveðnar heimildir til að veita stefnda fyrirmæli um framkvæmd ferilverkanna. Sé það ótvírætt einkenni ráðningarsambands.
Ljóst sé að stefnandi hafi skipt sér með ýmsum hætti af því hvernig umrædd ferilverk hafi verið unnin. T.d. hvernig þau skyldu dreifast sem jafnast á ársfjórðunga og á hvaða tíma þau skyldu unnin. Þá hafi stefnandi lagt til starfsaðstöðu og öll tæki til framkvæmdar verksins á sama hátt þegar stefndi vann önnur störf fyrir stefnanda. Stefndi hafi því ekki lagt annað til en vinnu sína svo sem venja sé þegar störf séu rækt á grundvelli vinnusamninga. Þar að auki hafi stefndi notið aðstoðar starfsmanna stefnanda við að vinna verkið, sbr. 3. gr. samkomulagsins. Allt bendi þetta til að um ráðningarsamband hafi verið að ræða. Ákvæði 9. gr. samkomulagsins bendi einnig til þess þar sem samið sé um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest.
Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt telur stefndi að samband aðila hafi öll einkenni ráðningarsambands. Geti það ekki haft afgerandi þýðingu þótt hann hafi fengið greiðslur „sem verktaki“ eins og það sé orðað í 3. gr. samkomulagsins.
Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Stefnandi hafi greitt umrædda bótafjárhæð 20. desember 2006 en það hafi ekki verið fyrr en með stefnu í þessu máli, sem birt hafi verið tæpum þremur árum síðar, sem endurkrafa á hendur stefnda hafi verið sett fram. Verði að meta þetta stefnanda til verulegs tómlætis, enda ekki að sjá að neitt útskýri þennan drátt. Þá beri einnig að líta til þess að stefnandi sé sem vinnuveitandi að krefja stefnda um skaðabætur vegna atviks sem átt hafi sér stað fyrir meira en 10 árum. Skaðabótakrafan sé því fyrnd og styðji það röksemd stefnda um að hún sé niðurfallin fyrir tómlæti.
Kröfu stefnanda um dráttarvexti sé mótmælt. Til stuðnings henni hafi stefnandi vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001. Af hálfu stefnda sé bent á að 9. gr. laganna einskorðist við skaðabótakröfu en ljóst sé að krafa stefnanda sé endurkrafa en ekki skaðabótakrafa. Upphafstíma dráttarvaxta sé einnig mótmælt með vísan til þess að stefnda hafi ekki verið gerð grein fyrir fjárhæð kröfunnar fyrr en með stefnu í málinu.
III.
Stefndi, sem er sérfræðingur í bæklunarlækningum, hóf störf hjá stefnanda 1. febrúar 1999 og starfaði hjá honum fram í júlí árið 2007. Hann var í fullri vinnu hjá stefnanda sem bæklunarlæknir en tók jafnframt að sér aukastörf ásamt fleiri læknum, svokölluð ferilverk, og undirritaði samkomulag þar að lútandi. Stefnandi hafði gert samning við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um ferilverk en í þeim fólst að fundnar voru út einingar fyrir hvert læknisverk og greiddi Tryggingastofnun ríkisins læknum eftir fjölda eininga samkvæmt nánari útfærslu í samningi aðila.
Stefndi gerði aðgerð á hné A 26. maí 1999 og hélt hún því fram að mistök hefðu átt sér stað við aðgerðina. Sjúklingurinn leitaði til embættis landlæknis sem komst að þeirri niðurstöðu 29. september 2003 að ólíklegt væri að langvarandi verkir sjúklings mætti rekja til aðgerðar stefnda. Með bréfi 23. ágúst 2004 hafnaði stefnandi bótaskyldu. Mats var aflað 7. ágúst 2005 og yfirmats 18. ágúst 2006. Í báðum matsgerðum var komist að þeirri niðurstöðu að hluta af verkjavandamálum A mætti rekja til aðgerðarinnar. Stefnandi greiddi tjónþola 4.784.719 krónur samkvæmt yfirmatinu þann 20. desember 2006.
Deilt er um hvenær stefnandi hafi sett fram endurgreiðslukröfu sína á hendur stefnda. Fyrir liggur að stefnda var ekki gert kleift að fylgjast með málinu á meðan það var á matsstigi og var ekki hafður með í ráðum þegar stefnandi tók þá ákvörðun að greiða skaðabætur 20. desember 2006. Þá ber aðilum ekki saman um hvað fór fram á fundi þeirra í janúar 2007. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þá hafi stefnda verið kynnt að endurgreiðslu yrði krafist en stefndi segir aftur á móti að honum hafi verið sagt á þessum fundi að ólíklegt væri að til þess kæmi.
Það var ekki fyrr en með stefnu í þessu máli, sem birt var 32 mánuðum eftir að stefnandi greiddi kröfuna, rúmum 10 árum frá tjónsatburði, sem krafa á hendur stefnda er sannanlega sett fram. Með aðgerðaleysi sínu í tæp þrjú ár þykir stefnandi hafa sýnt slíkt tómlæti að hann hafi fyrirgert hugsanlegum rétti sínum til endurkröfu.
Deilt er um hvort með aðilum hafi stofnast verksamningur eða vinnusamningur. Við mat á því verður að líta til þess að stefndi var í fullu starfi hjá stefnanda og sinnti sams konar störfum hjá honum í aukavinnu með sérstökum samningi um svokölluð ferilverk. Verður ekki annað séð en að sá háttur hafi fyrst og fremst verið hafður á til að bæta kjör stefnda. Vinna stefnda við ferilverk var bundin við persónu hans og var honum óheimilt að fela öðrum framkvæmd verkanna. Stefnandi hafði boðvald yfir stefnda eins og sjúkrahús hafa almennt yfir starfandi læknum, sbr. 1. málsliður 2. mgr. 3. gr. samnings aðila, sbr. einnig 2. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 1. gr. Tæki og tól sjúkrahússins voru notuð og aðstoðarfólk var á vegum stefnanda en ekki stefnda. Stefndi lagði einungis fram vinnu sína. Þá voru ákvæði um gagnkvæman uppsagnarfrest í samningi aðila sem bendir einnig til þess að um ráðningarsamning hafi verið að ræða.
Þegar framangreint er virt í heild þykir samningur aðila um ferilverk bera öll einkenni vinnusamnings en klæddur í búning verktöku. Verður því ekki fallist á með stefnanda að stefndi hafi verið sjálfstæður verktaki er hann vann umrætt verk. Stefndi verður því ekki á þeim grunni krafinn um endurgreiðslu vegna meintra mistaka.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi alfarið sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Guðni Arinbjarnar, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sjúkrahússins á Akureyri, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.