Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 30. apríl 2008. |
|
Nr. 184/2008. |
M(Helgi Birgisson hrl.) gegn K (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
M höfðaði málið á hendur K til „greiðslu meðlagsskuldar“ vegna nánar tilgreinds tímabils. Reisti hann kröfu sína á því að A sonur hans og K hafi búið á heimili hans frá nánar tilgreindum tíma en K hefði ekki farið að greiða meðlag með honum fyrr en nokkru síðar. Talið var að M hefði ekki í málatilbúnaði sínum vísað til þess með hvaða hætti skylda K til greiðslu meðlags á umræddu tímabili hefði stofnast í samræmi við ákvæði þar um í barnalögum nr. 76/2003. Þótti því skorta samhengi milli framangreindrar málsástæðu hans og dómkröfu. Var málinu því vísað frá dómi af sjálfsdáðum, sbr. e. liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála..
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Í máli þessu krefur sóknaraðili varnaraðila um „greiðslu meðlagsskuldar“ að fjárhæð 241.030 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Reisir hann kröfu sína á því að eldri sonur málsaðila, A, hafi búið á heimili sóknaraðila frá 25. nóvember 2003, en varnaraðili hafi ekki farið að greiða meðlag með drengnum fyrr en í mars 2005. Hún skuldi því meðlag frá 1. desember 2003 til febrúar 2005.
Í barnalögum nr. 76/2003 er kveðið á um með hvaða hætti meðlagsgreiðslur með barni skuli ákvarðaðar. Sóknaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum vísað til þess að varnaraðila hafi með neinum þeim hætti er þar greinir verið gert skylt að greiða honum meðlag vegna drengsins fyrir umrætt tímabil. Málsástæða sú sem hann hefur uppi getur samkvæmt þessu ekki, án þess að meira komi til, leitt til þess að dómkrafa hans verði tekin til greina og skortir þannig samhengi milli málsástæðu hans og dómkröfu. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2008.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 10. mars sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M, [heimilisfang] á hendur K, [heimilisfang], með stefnu birtri 30. nóvember 2007.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða honum meðlagsskuld að fjárhæð 241.030 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sem hér segir:
af kr. 15.558 frá 1. desember 2003 til 1. janúar 2004,
af kr. 31.583 frá 1. janúar 2004 til 1. febrúar sama ár
af kr. 47.608 frá 1. febrúar 2004 til 1. mars sama ár
af kr. 63.633 frá l. mars 2004 til 1. apríl-sama ár
af kr. 79.658 frá 1. apríl 2004 til 1. maí sama ár
af kr. 95.683 frá 1. maí 2004 til 1. júní sama ár
af kr. 111.708 frá 1. júní 2004 til 1. júlí sama ár
af kr. 127.733 frá 1. júlí 2007 til 1. ágúst sama ár
af kr. 143.758 frá 1. ágúst 2004 til 1. september sama ár
af kr. 159.783 frá 1. september 2004 til 1. október sama ár
af kr. 175.808 frá 1. október 2004 til 1. nóvember sama ár
af kr. 191.833 frá 1. nóvember 2004 til 1. desember sama ár
af kr. 207.858 frá 1. desember 2004 til 1. janúar 2005,
af kr. 224.444 frá 1. janúar 2005 til 1. febrúar 2005,
og loks af kr. 241.030 frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til greiðslu málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær að hún verði sýknuð af öllum fjárkröfum stefnanda. Jafnframt er krafist að stefndu verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir.
Málsaðilar gengu í hjónaband [...] 1988. Þau eignuðust tvo syni; hinn eldri 1990 og hinn yngri 1993. Málsaðilar slitu samvistum árið 1994 og skildu að borði og sæng 1996. Samningur var gerður um sameiginlega forsjá sonanna, en þar var kveðið á um að þeir skyldu eiga lögheimili hjá móður og njóta einfalds meðlags úr hendi föður frá 1. nóvember 1995.
Hinn 26. nóvember 2003 flutti eldri sonurinn til stefnanda og hefur frá þeim tíma búið hjá honum.
Hinn 16. desember 2003 höfðaði stefnandi forsjármál þar sem hann krafðist forsjár beggja sonanna. Jafnframt krafðist hann meðlags með sonunum frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs þeirra. Samhliða gerði stefnandi kröfu um það að honum yrði til bráðabirgða ákveðin forsjá sonanna og að stefndu yrði gert að greiða honum einfalt meðlag með báðum sonunum. Hinn 27. janúar 2004 var gerð dómsátt í bráðabirgðaforsjármálinu og ákveðið að lögheimili og dvalarstaður eldri sonarins skyldi flytjast til stefnanda.
Hinn 1. desember 2003 leitaði stefnandi til sýslumannsins í Reykjavík með kröfu um að honum yrði úrskurðað einfalt meðlag úr hendi stefndu frá 1. desember 2003.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2005 var stefnanda falin forsjá eldri sonarins, en stefndu forsjá yngri sonarins. Jafnframt var kveðið á um að foreldrar skyldu greiða einfalt meðlag með hvoru barni frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hvors sonar.
Hinn 23. mars 2005 vísaði sýslumaðurinn í Reykjavík frá kröfu stefnanda frá 1. desember 2003, þar sem í nefndum dómi Héraðsdóms kæmi fram að móður bæri að greiða föður einfalt meðlag með eldri syninum frá dómsuppkvaðningu og til 18. ára aldurs.
Hinn 5. nóvember 2004 krafðist stefnda þess að sýslumaðurinn í Reykjavík úrskurðaði stefnanda til að greiða þrefalt meðlag með yngri syninum. Embætti sýslumannsins vísaði þeirri kröfu einnig frá eftir að niðurstaða í forsjármálinu lá fyrir. Stefnda undi ekki þeirri niðurstöðu og krafðist þess að dómsmálaráðuneytið gerði embætti sýslumanns að taka efnislega ákvörðun í málinu. Á það féllst dómsmálaráðu-neytið og sendi erindið á ný til efnislegrar meðferðar sýslumannsins í Reykjavík. Í úrskurði 22. maí 2007 féllst sýslumaður á kröfu stefndu um þrefalt meðlag úr hendi stefnanda. Var stefnanda þá gert að greiða stefndu tvöfalt meðlag með yngri syninum frá 1. mars 2005 til 18 ára aldurs hans, til viðbótar við það grunnmeðlag sem hann greiddi þegar með drengnum.
Hinn 30. maí 2007 ritaði lögmaður stefnanda stefndu bréf og lagði fram tillögu að uppgjöri á kröfum aðila. Því mun ekki hafa verið svarað.
Hinn 27. ágúst 2007 fær stefnandi innheimtubréf vegna ógreidds meðlags. Því svarar stefnandi með bréfi 30. ágúst 2007 og setur þar fram athugasemdir við innheimtuna.
Hinn 3. október 2007 var stefnanda send greiðsluáskorun vegna meðlags-skuldarinnar.
Hinn 20. nóvember 2007 gerir stefnandi upp skuld sína við stefndu og greiðir henni meðlag samkvæmt úrskurði sýslumannsins frá 1. mars 2005.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Eins og að framan er rakið hefur eldri sonur málsaðila, búið á heimili stefnanda frá 25. nóvember 2003. Þrátt fyrir kröfu stefnanda fór stefnda ekki að greiða meðlag með honum fyrr en í mars 2005 og þá með skuldajöfnuði. Hún skuldar því stefnanda meðlag með drengnum frá 1. desember 2003 til febrúar 2005 eða í 15 mánuði.
Krafa stefnanda sundurliðast þannig:
meðlag 01.12.2003 15.558
meðlag 01.012004 16.025
meðlag 01.02.2004 16.025
meðlag 01.03.2004 16.025
meðlag 01.04.2004 16.025
meðlag 01.05.2004 16.025
meðlag 01.062004 16.025
meðlag 01.07.2004 16.025
meðlag 01.08.2004 16.025
meðlag 01.09.2004 16.025
meðlag 01.10.2004 16.025
meðlag 01.11.2004 16.025
meðlag 01.12.2004 16.025
meðlag 01.01.2005 16.586
meðlag 01.02.2005 16.586
Samtals kr. 241.030
Krafa stefnanda byggir á meginreglum barnaréttar um framfærsluskyldu og ákvæðum IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, og vísast til 53. og 56. gr. laganna, en óumdeilt er að drengurinn hefur búið með lögmætum hætti hjá föður síðan í nóvember 2003, án þess að stefnda hafi greitt meðlag með honum.
Dráttarvaxta er krafist frá gjalddaga hverrar meðlagsgreiðslu og styðst krafan við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefnda byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Með dómkröfum sínum nú sé stefnandi að freista þess að fá dæmda úr hendi stefndu fjárkröfur sem í raun var tekin afstaða til með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2005 en með þeim dómi var ákveðið að upphafstími meðlagsgreiðslu stefndu til stefnanda vegna eldri sonarins skyldi vera frá dómsuppsögu. Var það í fullu samræmi við dómkröfur stefnanda þá.
Verði ekki fallist á framangreint byggir stefnda sýknukröfu sína á því að stefnandi hefur hvorki stjórnvaldsákvörðun né dóm fyrir því að stefndu beri að greiða honum meðlag með eldri syninum frá 1. desember 2003 til 28. febrúar 2005. Milli aðila er þannig enginn gildur samningur um meðlagsgreiðslu stefndu á þessu tímabili, sbr. 55. og 56. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 55. gr. er samningur um meðlag einungis gildur að sýslumaður staðfesti hann eða að gerð sé sátt fyrir dómi um meðlagið. Hvorugu er til að dreifa og stefnandi gerði ekki kröfu um að upphafstími meðlagsgreiðslna stefndu með eldri syninum miðaðist við 1. desember 2003 þegar hann höfðaði forsjármál sitt gegn henni í desember s.á. Hefði stefnanda þó verið það í lófa lagið.
Stefnandi byggir því ekki kröfu sína um meðlag á neinni lögmætri ákvörðun. Tilraunir stefnanda til að fá úrskurð sýslumanns um meðlagsgreiðslu úr hendi stefndu frá 1. desember 2003 til 28. febrúar 2005 báru ekki árangur og var vísað frá embættinu.
Sú staðreynd að eldri sonurinn bjó hjá stefnanda það tímabil sem stefnandi krefst meðlags fyrir breytir engu í því sambandi. Stefnandi getur ekki lögum samkvæmt einhliða ákveðið sér meðlag fyrir tímabilið og krafið stefndu um það vegna sonarins þetta sama tímabil. Til að ná slíkri kröfu fram þarf stefnandi annað hvort úrskurð sýslumanns fyrir meðlagi til sín fyrir þetta tímabil, dómsátt um meðlagsgreiðslu úr hendi stefndu þetta tímabil eða dóm um hið sama. Kröfu stefnda um úrskurð var vísað frá embætti sýslumanns. Í dómsátt aðila var ekki vikið að greiðslu meðlags úr hendi stefndu til stefnanda þótt breytt væri um lögheimili sonarins og upphafstími meðlags með syninum í endanlegum dómi var sá hinn sami og stefnandi krafði, frá dómsuppsögu.
Gögn málsins bera ekki með sér að stefnandi hafi síðan gert reka að því að fá úrskurð sýslumanns fyrir meðlagi úr hendi stefndu með eldri syninum. Jafnvel þótt hann hefði gert það eru allar líkur á því að slíkri kröfu hefði verið hafnað því samkvæmt 1. mgr. 57. gr. barnalaga verður meðlag ekki ákvarðað lengra aftur í tímann en eitt ár frá því að krafa var sett fram nema alveg sérstakar ástæður leiði til þess. Enda tók embætti sýslumannsins í raun afstöðu til slíkrar kröfu stefnanda með ákvörðun sinni 23. mars 2005 þegar það vísaði kröfunni frá. Leit embættið svo á að dómstóll hefði tekið ákvörðun um það að upphafstími meðlags stefndu með eldri syninum hæfist ekki fyrr en við dómsuppsögu þótt fyrir lægi að sonurinn bjó hjá stefnanda skv. dómsátt í bráðabirgðaforsjármálinu alveg frá ársbyrjun 2004. Að öllu þessu virtu telur stefnda að sýkna beri hana af fjárkröfum stefnanda.
Telji dómurinn að þrátt fyrir ofangreindar málsástæður stefndu eigi stefnandi kröfu á greiðslu meðlags með eldri syninum fyrir umrætt tímabil þá telur stefnda að upphafstími dráttarvaxtakröfu geti ekki verið fyrr en mánuði eftir að stefnandi krafðist þess í fyrsta sinn að þessi endurgreiðsla yrði skuldajöfnuð við kröfu stefndu um viðbótarmeðlag með yngri syninum, sbr. bréf lögmanns stefnanda dags. 30. maí 2007.
Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um að bætt séu áhrif virðisaukaskatts af málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988.
Forsendur og niðurstaða
Málsaðilar eiga tvö börn saman. Við skilnað þeirra samþykkti stefnandi að greiða stefndu einfalt meðlag með hvoru barni. Ágreiningur málsaðila lýtur að því að stefnandi telur stefndu skulda sér einfalt meðlag fyrir tímabilið 1. desember 2003 til 1. febrúar 2005, en ágreiningslaust er að tímabilið afmarkast af því að sonur málsaðila flutti til stefnandi í nóvember 2003 og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi stefndu til að greiða stefnanda einfalt meðlag með honum frá 1. febrúar 2005. Við aðalmeðferð málsins upplýstu lögmenn að fljótlega eftir að eldri sonurinn fór til stefnanda hafi hann hætt að greiða meðlag með honum til stefndu. Því er í máli þessu ekki verið að gera kröfu um endurgreiðslu á meðlagi.
Eins og að framan greinir er stefnandi að krefjast þess að stefnda greiði honum einfalt meðlag með syni þeirra frá 1. desember 2003 til 1. febrúar 2005. Stefnandi telur að um skuld sé að ræða og höfðar mál þetta sem skuldamál. Í 57. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um hvernig framfærsluskyldur aðili fær úrskurð eða dóm fyrir meðlagi. Gert er ráð fyrir því að það sé sýslumaður sem úrskurði um greiðslu meðlagsins. Samkvæmt 6. mgr. sömu greinar skal dómari einungis leysa úr ágreiningi um meðlag í dómi að í dómsmálinu sé einnig fjallað um faðerni eða forsjá barnsins.
Nokkrum dögum eftir að sonur stefnanda flytur til hans, eða hinn 1. desember 2003, fer stefnandi fram á að sýslumaður úrskurði honum meðlag með syninum og var það í samræmi við málsmeðferð nefndrar 57. gr. barnalaganna. Í sáttinni vegna bráðabirgðaforsjárinnar var ekki samið um meðlagið. Í dóminum um forsjána frá 22. febrúar 2005 var hvoru foreldra um sig falin forsjá hvors sonarins um sig og skyldu þau greiða eitt meðlag með hvoru barni. Í forsjármálinu krafðist stefnandi meðlags frá dómsuppsögu og varð dómurinn við því. Þegar dómurinn í forsjármálinu liggur fyrir vísar sýslumaðurinn, með réttu eða röngu, frá kröfu stefnanda. Þennan úrskurð gat stefnandi kært til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 78. gr. barnalaganna, hefði hann verið ósáttur við hann. Það gerði hann ekki heldur kaus að una honum. Að mati dómsins varð stefnandi að tæma allar stjórnsýsluleiðir. Með því að hann gerði það ekki ber hann hallann að því.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að vegna ákvæða 6. mgr. 57. gr. barnalaga geti dómstóllinn ekki dæmt kröfuna eins og hún er sett fram, þar sem dómsmál þetta varðar ekki forsjá eða faðerni. Þá er ekki heldur verið að krefjast ógildingar á stjórnvaldsákvörðun. Því verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi, án kröfu. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi án kröfu.
Stefnandi, M, greiði stefndu, K, 200.000 krónur í málskostnað.