Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Réttaráhrif dóms
- Litis pendens áhrif
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 13. ágúst 2015. |
|
Nr. 402/2015.
|
Graníthöllin ehf. (Hilmar Magnússon hrl.) gegn Guðna Frey Sigurðssyni og Brynjari Guðmundssyni (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Réttaráhrif dóms. Litis pendens áhrif. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G ehf. á hendur G og B var vísað frá dómi. Krafðist G ehf. skaðabóta úr hendi G og B, sem næmu heildarfjárhæð kröfu sem G ehf. hafði áður lýst í þrotabú GH ehf., á þeim grunni að framferði G og B við stjórn GH ehf. hefði orðið til þess að G ehf. hefði farið á mis við greiðslu umræddrar kröfu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt gögnum málsins virtist sem þrotabú GH ehf. hefði haft nokkurn árangur af málum sem það hefði höfðað til riftunar á ráðstöfunum félagsins en um horfur á greiðslu upp í lýstar kröfur á hendur því lægi á hinn bóginn ekkert frekar fyrir. Þótt G ehf. kynni af þeim sökum að geta vænst einhverrar greiðslu upp í lýsta kröfu sína gæti það ekki leitt til þess að hann skorti lögvarða hagsmuni af því að leita annarra leiða til að fá kröfu sinni fullnægt. Óvissa um hugsanlega úthlutun upp í kröfu G ehf. og þar með umfang þeirrar kröfu, sem hann beindi að G og B, varðaði efnishlið málsins og gæti af þeim sökum ekki orðið til þess að því yrði vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt því var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila stofnaði Heiðar Steinsson á árinu 2005 Graníthúsið ehf., en hann er jafnframt eigandi sóknaraðila. Sóknaraðili kveður Heiðar í desember á því ári hafa selt félagi í eigu varnaraðila, Viðhaldi og nýsmíði ehf., helmingshlut í Graníthúsinu ehf. og hafi varnaraðilinn Guðni orðið eini stjórnarmaðurinn í síðastnefndu félagi, en Heiðar varamaður. Ágreiningur hafi risið um málefni Graníthússins ehf. á miðju ári 2011, en í framhaldi af því hafi varnaraðilinn Brynjar orðið varamaður í stjórn félagsins, sem varnaraðilinn Guðni hafi áfram setið í, og jafnframt tekið við starfi framkvæmdastjóra þess. Sóknaraðili hafi fram til þess leyst af hendi ýmis verk fyrir Graníthúsið ehf. og gert reikninga fyrir þau, en tvo þá síðustu, annan frá 31. mars 2011 og hinn 19. ágúst sama ár að fjárhæð samtals 4.569.729 krónur, hafi félagið ekki greitt. Höfðaði sóknaraðili 19. september 2012 mál til heimtu þessara reikninga og var Graníthúsinu ehf. með dómi 23. júlí 2013 gert að greiða honum af þessum sökum 4.232.234 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 30. apríl 2011 til greiðsludags, svo og 600.000 krónur í málskostnað.
Áður en sá dómur gekk hafði varnaraðilinn Guðni sem stjórnarmaður í Graníthúsinu ehf. krafist þess að á grundvelli 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í kröfunni sagði meðal annars eftirfarandi: „Samkvæmt ársreikningi 2011 liggur fyrir að félagið var rekið með tapi árið 2011 uppá 4.743.382 kr. og eigið fé neikvætt um 8.375.024 kr. Einnig liggur fyrir samkvæmt ársreikningi að skuldir félagsins eru töluverðar og ljóst að það mun ekki geta staðið í fullum skilum við lánadrottna sína og ekki séð fram á að greiðsluörðugleikar muni líða hjá innan skamms.“ Samkvæmt gögnum málsins var þessi krafa afturkölluð 18. nóvember 2012 án þess að úrskurður gengi um hana, en um ástæðu þess liggur ekkert fyrir. Eftir það ráðstafaði Graníthúsið ehf. þó nokkrum hluta eigna sinna með kaupsamningum 30. nóvember 2012 og 12. júní 2013 fyrir samtals 24.500.000 krónur.
Sýslumaður tók 19. september 2013 fyrir beiðni sóknaraðila um fjárnám hjá Graníthúsinu ehf. á grundvelli fyrrnefnds dóms frá 23. júlí sama ár. Fjárnám var þá gert í nánar tilteknum lausafjármunum, en því lokið að öðru leyti án árangurs. Fjárnámið var síðan endurupptekið 22. janúar 2014 og því lokið á ný með öllu án árangurs. Sóknaraðili krafðist þess 19. desember 2013 á grundvelli upphaflegu gerðarinnar að bú Graníthússins ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var sú krafa tekin til greina 30. janúar 2014. Við gjaldþrotaskiptin lýsti sóknaraðili meðal annars kröfu samkvæmt dóminum frá 23. júlí 2013, sem nam samtals 6.399.553 krónum. Í skrá, sem skiptastjóri í þrotabúinu gerði 15. apríl 2014 um lýstar kröfur á hendur því, var ekki tekin afstaða til þessarar kröfu sóknaraðila fremur en annarra krafna, sem krafist var að nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. eða 114. gr. laga nr. 21/1991, þar sem „sýnt þykir að ekkert komi upp í þær“, svo sem sagði í skránni.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðilum með stefnu 29. desember 2014 og krefst þess að þeim verði óskipt gert að greiða sér 4.832.234 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 30. apríl 2011 til greiðsludags, en dómkrafa þessi svarar til þess, sem Graníthúsinu ehf. var gert að greiða sóknaraðila með dóminum 23. júlí 2013 að meðtöldum málskostnaði. Í hinum kærða úrskurði er lýst þeim grunni, sem sóknaraðili reisir dómkröfuna á, en í meginatriðum byggir hann á því að varnaraðilar hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum, meðal annars með því að hafa látið hjá líða að verða við skyldu sinni til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi Graníthússins ehf. samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 95/2010. Með hinum kærða úrskurði var orðið við aðalkröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.
II
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna þeim röksemdum varnaraðila fyrir kröfu þeirra um frávísun, sem lúta að vanreifun í málatilbúnaði sóknaraðila og því að ákvæði 2. mgr. 116. gr. og 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 standi málsókn hans í vegi.
Sóknaraðili hefur sem fyrr segir lýst við skipti á þrotabúi Graníthússins ehf. kröfu samkvæmt áðurnefndum dómi frá 23. júlí 2013 á hendur félaginu, en í máli þessu krefur hann varnaraðila um skaðabætur, sem svara til heildarfjárhæðar þeirrar kröfu, á þeim grunni að framferði þeirra við stjórn félagsins hafi valdið því að hann hafi farið á mis við greiðslu kröfunnar úr hendi þess. Samkvæmt gögnum málsins virðist þrotabúið hafa haft nokkurn árangur af málum, sem það hefur höfðað til riftunar á ráðstöfunum félagsins, en um horfur á greiðslu upp í lýstar kröfur á hendur þrotabúinu liggur á hinn bóginn ekkert frekar fyrir. Þótt sóknaraðili kunni af þeim sökum að geta vænst einhverrar greiðslu upp í lýsta kröfu sína við gjaldþrotaskiptin, sem enn er óvíst um, getur það ekki leitt til þess að hann skorti lögvarða hagsmuni af því að leita annarra leiða til að fá kröfu sinni fullnægt, eftir atvikum með skaðabótum úr hendi varnaraðila. Óvissa um hugsanlega úthlutun upp í kröfu sóknaraðila við gjaldþrotaskiptin og þar með um umfang þeirrar kröfu, sem hann beinir að varnaraðilum, varðar efnishlið þessa máls og getur af þeim sökum ekki orðið til þess að því verði vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Eftir þessum úrslitum málsins verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar, Guðni Freyr Sigurðsson og Brynjar Guðmundsson, greiði óskipt sóknaraðila, Graníthöllinni ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2015.
Mál þetta var höfðað 5. janúar 2015 og tekið til úrskurðar 21. maí 2015. Stefnandi er Graníthöllin ehf., Bæjarhrauni 26, Hafnarfirði. Stefndu eru Guðni Freyr Sigurðsson, Kvisthaga 1, Reykjavík, og Brynjar Guðmundsson, Birkiási 15, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til greiðslu 4.832.234 króna með dráttavöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 700.063 krónum frá 30. apríl 2011 til 19. september sama ár, en af 4.232.234 krónum frá þeim degi til 7. ágúst 2013, en af 4.832.234 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum málskostnað.
Stefndu gera aðallega kröfu um að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefndu um frávísun.
I.
Málsatvik eru þau að Graníthúsið ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2014, að kröfu stefnanda í máli þessu. Þrotabú Graníthússins ehf. mun vera nær eignalaust og þeir óverulegu fjármunir sem fengist hafa við sölu á birgðum ekki dugað til að greiða skiptakostnað. Ekki hefur verið tekin afstaða til almennra krafna, en stefnandi hefur lýst kröfu í búið sem dómkrafa þessa máls tekur til.
Graníthúsið ehf. var stofnað af Heiðari Steinssyni, eiganda stefnanda, Graníthallarinnar ehf., og var tilgangur félagsins steinsmíði ýmiss konar, einkum með granít. Með kaupsamningi, dags. 6. desember 2005, keypti Viðhald og nýsmíði ehf. 50% hlut í Graníthúsinu ehf., en eigendur Viðhalds og nýsmíði ehf. eru stefndu, Guðni Freyr Sigurðsson og Brynjar Guðmundsson. Við kaupin á félaginu árið 2005 varð Guðni Freyr eini stjórnarmaður Graníthússins ehf. en Heiðar varamaður í stjórn. Þá var Brynjar síðar ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins. Síðar kom upp ágreiningur á milli Heiðars og stefndu. Stefnandi segir að atvik hafi verið þau að Heiðari hafi verið bolað frá störfum og að um mitt ár 2011 hafi honum verið bönnuð koma á vinnustað félagsins. Félag hans, Graníthöllin ehf., hafi átt verulegar fjárkröfur á hendur Graníthúsinu ehf. vegna verktöku, sem hafi falist í vinnuframlagi Heiðars við steinsmíðar fyrir Graníthúsið ehf.
Stefndu segja aftur á móti að atvik séu þau að forsendur sem Heiðar hafi gefið um stöðu Graníthússins ehf., sem hafi verið forsenda kaupa Viðhalds og nýsmíði ehf. á 50% hlut í félaginu, hafi verið rangar. Það hafi þurft að leggja frekara fjármagn inn í reksturinn og það komið í hlut Viðhalds og nýsmíði ehf. Þá hafi Heiðar unnið gegn fjárhagslegum hagsmunum Graníthússins ehf. með því að veita vinum og kunningjum verulegan afslátt og að hann beri ábyrgð á rýrnun á lager félagsins. Heiðar hafi svo látið sig hverfa úr rekstri Graníthússins ehf., hafið rekstur Graníthallarinnar ehf. í beinni samkeppni við Graníthúsið ehf. og leitað allra leiða til að koma Graníthúsinu ehf. í þrot.
Graníthöllin ehf. höfðaði mál á hendur Graníthúsinu ehf. í september 2012 fyrir Héraðsdómi Reykjaness til greiðslu skuldar vegna verktöku. Með dómi 23. júlí 2013, í máli nr. E-1149/2012, var Graníthúsið ehf. dæmt til að greiða Graníthöllinni ehf. 4.232.234 kr. auk dráttarvaxta og 600.000 kr. í málskostnað. Er það fjárhæð þessarar kröfu sem stefnandi krefur stefndu um greiðslu á, sbr. stefnukröfur málsins, en stefnandi byggir á því að stefndu hafi valdið stefnanda tjóni sem nemi þessari fjárhæð vegna saknæmrar háttsemi þeirra við stjórn Graníthússins ehf.
Á grundvelli framangreinds dóms var gert árangurslaust fjárnám hjá Graníthúsinu ehf. hjá sýslumanninum í Hafnarfirði að hluta þann 19. september 2013, auk þess sem fjárnám var gert í lausafé í eigu félagsins. Stefnandi kveður að þá fyrst hafi komið fram upplýsingar um að umræddir munir væru ekki lengur í eigu gerðarþola en engum kaupsamningum hafi verið framvísað þótt þeir hafi samkvæmt dagsetningu þeirra verið þá þegar löngu gerðir. Það hafi fyrst með endurupptöku meints kaupanda á umræddri fjárnámsgerð þann 22. janúar 2014 að samningum hafi verið framvísað.
Um er að ræða samning, dags. 30. nóvember 2012, sem ber yfirskriftina afsals- og kaupsamningur, milli Graníthússins ehf. og Best buy ehf. Samningurinn var undirritaður af Guðna Frey f.h. Graníthússins ehf. sem seljanda og Eggerti Arngrími Arasyni f.h. Best buy ehf. sem kaupanda. Í 1. gr. kaupsamningsins segir að seljandi lofi að selja og kaupandi að kaupa hluta af rekstri seljanda eða þá rekstrareiningu sem kallist plötusmíði, ásamt tækjum og áhöldum sem notuð væru í rekstrareiningunni. Samkvæmt samningnum var kaupverðið 23.600.000 kr. Í 3. gr. var kveðið á um að kaupverðið skyldi greiðast með eftirfarandi hætti: a) Með yfirtöku veðskuldar við Landsbanka Íslands hf. með veði í vélum, að fjárhæð ca 3.900.000 kr. b) Með yfirtöku yfirdráttarskuldar í Landsbanka Íslands hf. á tilteknum hlaupareikningi að fjárhæð ca 5.500.000 kr. c) Með yfirtöku hluta skuldar við Magna ehf. ca 6.200.000 kr. d) Með yfirtöku hluta skuldar við Viðhald og Nýsmíði ehf. ca 8.000.000 kr. e) Kæmi fram mismunur í fjárhæðum í liðum a-c skyldi hann koma til hækkunar eða lækkunar á lið d. Þá var ákvæði í samningnum um að uppgjöri og afstemmingu milli aðila skyldi lokið eigi síðar en 31. desember 2013.
Þá liggur fyrir afsals- og kaupsamningur, dags. 12. júní 2013, sem Guðni Freyr og Brynjar undirrituðu f.h. Graníthússins, þar sem Graníthúsið ehf. seldi Best buy ehf. rafmangslyftara og bílkrana ásamt vökvabúnaði.
Stefnandi segir að fyrirsvarsmanni stefnanda, Heiðari, hafi verið alls ókunnugt um efni framangreindra samninga og engin ákvörðun hafi verið tekin á hluthafafundi um sölu á rekstri félagsins, tækjum og lager. Fjárnám var endurupptekið og lokið sem árangurslausu og lausafjármunir voru leystir undan fjárnámi samkvæmt ákvörðun sýslumanns. Á grundvelli hins árangurslausa fjárnáms krafðist stefnandi þess að Graníthúsið ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta og lýsti stefnandi dómkröfu sinni í búið.
Í bréfi lögmanns stefnanda til stefndu, dags. 7. nóvember 2013, taldi stefnandi ráðstafanir samkvæmt framangreindum samningum óheimilar þar sem þær hefðu verið gerðar án heimilda stjórnar félagsins eða hluthafa þess, en það hefði þurft að taka slíkar ákvarðanir fyrir á fundi hluthafa og stjórnar þess. Þessar ráðstafanir væru því óheimilar og ógildar samkvæmt 44. og 52. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, auk þess sem þær færu berlega í bága við 48. og 51. gr. sömu laga. Stefnandi taldi einnig að um brot gegn 248. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri að ræða. Stefnandi kvaðst muna sækja bætur á hendur stefndu ef Graníthúsið ehf. eða hluthafar þess yrðu fyrir tjóni af þessum aðgerðum.
II.
Í stefnu málsins er málatilbúnaður stefnanda ítarlega rakinn. Stefnandi byggir á því að með dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. júlí 2013 hafi Graníthúsið verið dæmt til að greiða stefnanda 4.232.234 kr. auk dráttarvaxta og 600.000 krónur í málskostnað. Það sé fjárhæð þessarar kröfu sem stefnandi krefji stefndu um greiðslu á, sbr. stefnukröfu málsins. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi valdið stefnanda tjóni sem nemi þessari fjárhæð, vegna saknæmrar háttsemi við stjórn Graníthússins ehf.
Stefnandi telur að stefndu hafi brotið samþykktir einkahlutafélagsins Graníthússins ehf. og ákvæði laga um einkahlutafélög, hluthöfum félagsins og öðrum kröfuhöfum til tjóns, en á því beri stefndu einir ábyrgð. Með háttsemi sinni hafi stefndu fellt á sig bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins og reglum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 64. gr., svo og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Byggir stefnandi kröfu sína á öllum þessum málsástæðum, saman og í sitthvoru lagi, en stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem nemi fjárhæð dæmdrar kröfu á hendur Graníthúsinu ehf. ásamt dæmdum málskostnaði í dóminum nr. E-1149/2012, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness hinn 23. júlí 2013.
Stefnandi telur að kaupandi að rekstri Graníthússins ehf. hafi verið samverkamaður með stefndu við að koma eignum undan og kippa þar með undan grundvelli félagsins. Þessar aðgerðir hafi aldrei getað leitt til annars en að Graníthúsið ehf. yrði þá þegar gjaldþrota, eins og raunin hafi verið í nóvember 2012 þegar stefndu sjálfir hafi lagt fram gjaldþrotaskiptabeiðni, sem var svo afturkölluð. Beri stefndi Guðni ábyrgð á því sem stjórnarmaður félagsins að tilkynna félagið til gjaldþrotaskipta þegar svo var komið sem lýst var í beiðninni. Vanhöld á því leiði til skaðabótaábyrgðar. Auk þess byggir stefnandi á því að stefnda Brynjari hafi mátt vera kunnug þessi skylda sem framkvæmdastjóra félagsins og því borið að tilkynna stjórn félagsins um þá athafnaskyldu. Vanræksla beggja stefndu í þessu efni leiði til þess að þeir beri óskipt ábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir, með því að fá ekki kröfu sína greidda. Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu bóta úr hendi stefndu aðallega á 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994, sbr. 1. mgr. 80. gr. sömu laga, og á almennu skaðabótareglunni vegna saknæmrar háttsemi stefndu við stjórn félagsins.
Stefnandi heldur því fram að sameiginlegur bótagrundvöllur sé fyrir hendi gagnvart báðum stefndu þar sem þeir hafi staðið einhuga að þeirri ákvörðun að gefa Graníthúsið ehf. ekki upp til gjaldþrotaskipta og báðir staðið að umþrættum kaupsamningum. Þá hafi stefndu báðir notið góðs af þessum aðgerðum. Stefnandi telur að stefndu hafi í raun skotið eignum og viðskiptavild Graníthússins ehf. undan því og komið í annað félag sem nú reki granítverksmiðju á sama stað og Graníthúsið ehf., undir nafninu Granítsteinar, en engin greiðsla hafi komið fyrir viðskiptavildina að því er séð verði. Stefndu hafi í raun flutt rekstur Graníthússins ehf. yfir í nýtt félag án þess að greiðsla kæmi fyrir.
Stefnandi telur að ekki verði annað séð en að allur lager Graníthússins ehf. hafi í raun gengið til kaupanda, án þess að greitt hafi verið fyrir raunverð. Samkvæmt ársreikningi 2012 hafi birgðir verið sagðar nema 15.763.229 kr. í árslok. Einungis óverulegar birgðir hafi fundist í gámi sem skiptastjóri seldi fyrir tæpar 2 milljónir króna. Engar skýringar liggi fyrir um hvað hafi orðið af þessum birgðum en á því beri stefndu fulla ábyrgð. Viðskiptakröfur og aðrar skammtímakröfur hafi verið sagðar 13.271.910 kr. en ekki hafi fengist upplýsingar um stöðu þeirra og gegn hverjum þær séu þar sem ekkert bókhald sé til staðar. Þá hafi verið dulin eign í tækjum félagsins en bókfært verð þeirra í árslok 2011 hafi verið 1.668.028 kr. en söluverð þeirra 16.000.000 kr. samkvæmt kaupsamningi, sem stefnandi telur í lægri kantinum. Söluhagnaður eigna sbr. ársreikning 2012 hafi því verið 14.331.972 kr. Verði ekki annað séð en að heildareignir félagsins hafi samkvæmt því numið 50.967.111 kr. í árslok 2012. Skuldir félagsins í árslok 2012 hafi samkvæmt ársreikningi numið 51.729.200 kr. Hafi viðskiptaskuldir þá vaxið úr 6.101.821 kr. í 18.688.326 kr. en engar skýringar hafi verið gefnar á því hverju þetta sæti eða færslu vaxtagjalda í rekstrarreikning, en einu vaxtaberandi skuldir félagsins hafi verið við Landsbanka Íslands hf. og numið mun lægri fjárhæðum þegar horft sé til vaxtagjalda áranna á undan.
Stefnandi telur að ef stefndu hefðu ekki dregið til baka gjaldþrotaskiptabeiðni félagsins, í nóvember 2012, hefðu lánardrottnar líklega fengið fullnustu krafna sinna, þar sem líklegt sé að mun hærra söluverð hefði fengist fyrir tæki og lager, hefði það verið selt ásamt rekstri félagsins. Á því beri stefndu ábyrgð gagnvart stefnanda og öðrum kröfuhöfum svo og gagnvart hluthöfum, en tjón þeirra sé algert. Stefndu beri sönnunarbyrði um annað, þ.e. að sú vanræksla þeirra hafi ekki verið þeim saknæm. Vegna aðgerða stefndu um að selja eigur félagsins nokkru síðar sé sakarmatið strangt en til sömu niðurstöðu leiði sú staðreynd að stefndu hafi haft persónulega hagsmuni af þessum ráðstöfunum auk þeirra nánu tengsla sem séu á milli stefndu og félaga þeim tengdum svo og kaupanda.
Stefnandi byggir á því að stefndu hafi báðir saman eða í sitthvoru lagi borið þá skyldu sem kveðið er á um í 64. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi Guðni hafi verið eini stjórnarmaður félagsins og því á hans borði að sinna skyldu þessari samkvæmt skýrum ákvæðum laga um einkahlutafélög, einkum 44. gr., sbr. 80. gr. sömu laga. Þá skyldu hafi stefndi Brynjar einnig borið samkvæmt sömu lagaákvæðum. Ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 hafi að geyma svokallaða sakarlíkindareglu og því þurfi stefndu að sýna fram á að vanræksla þeirra á að gefa Graníthúsið ehf. ekki upp til gjaldþrotaskipta hafi ekki verið þeim saknæm.
Þá byggir stefnandi kröfu sína einnig á almennu skaðabótareglunni sem leiði til sömu niðurstöðu, vegna vanrækslu stefndu og bótaskyldrar háttsemi þeirrar við að gæta ekki hagsmuna kröfuhafa félagsins og hluthafa.
Stefnandi vísar til 108. gr. laga nr. 138/1994, þar sem kveðið sé á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar beri bótaábyrgð gagnvart hluthöfum eða öðrum sem verði fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laganna, en stefnandi telur að stefndu hafi með framferði sínu brotið m.a. gegn 80. gr. laganna svo og 51. gr. sömu laga, eins og áður segir. Eins og áður er rakið hafi brotin falist í því að gefa félagið ekki upp til gjaldþrotaskipta þegar þeim hafi verið það skylt, þar sem ljóst hafi verið að félagið hafi ekki verið greiðslufært a.m.k. í nóvember 2012 og raunar mun fyrr. Háttsemi stefndu við sölu á eignum félagsins hafi ljóslega brotið gegn 51. gr. laganna þar sem stærstum hluta söluandvirðisins hafi verið ráðstafað til greiðslu á skuldum við félög í þeirra eigu og gert það að verkum að ekki hafi neinar eiginlegar eignir verið eftir í félaginu eða ekki fengist upplýsingar um afdrif annarra eigna. Á því beri báðir stefndu ábyrgð samkvæmt skýru ákvæði í lögum um einkahlutafélög og samkvæmt almennum bótareglum. Þá hafi stefndu brotið ákvæði laga nr. 145/1994 um bókhald með því að færa ekki og varðveita bókhald Graníthússins ehf. og gerð ársreikninga. Með þeirri háttsemi sinni hafi stefnanda verið gert ófært að greina rekstur félagsins og athafnir stefndu á árinu 2013. Leiði það með öðru til þess að sönnunarbyrði um gjaldfærni félagsins og önnur þau atvik sem stefnandi byggir á hvíli á stefndu.
III.
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að aðild sé vanreifuð. Stefndu telja að stefnandi geti ekki byggt málshöfðun þessa á skaðabótaskyldu stefndu sem stjórnenda Graníthússins ehf., aðallega 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 135. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Samkvæmt dómaframkvæmd sé það félagið sjálft sem gæti beitt ákvæðinu vegna hinnar meintu saknæmu háttsemi stefndu, en ekki stefnandi. Allt að einu byggi stefndu á því að skilyrði bótaábyrgðar samkvæmt ákvæðinu séu óuppfyllt.
Stefnandi hafi enga aðra eða betri stöðu en hinn almenni kröfuhafi gagnvart Graníthúsinu. Ef fallist yrði á kröfu stefnanda sé ljóst að jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti þrotabús Graníthússins yrði raskað. Tilgangurinn með setningu ákvæðanna hafi ekki verið sá, heldur að gefa félögunum sjálfum, í tilvikum sem þessum, tækifæri til að krefjast bóta úr hendi þeirra sem farið hafa með stjórn félagsins og mögulega valdið því tjóni. Með innheimtu slíkra skaðabóta myndi hagur búsins vænkast og þar með hagur kröfuhafa, jafnt. Slíku sé ekki fyrir að fara í máli þessu.
Þá uppfylli málatilbúnaður stefnanda í engu þær kröfur sem dómstólar geri í sambærilegum málum um að bótagrundvöllurinn gagnvart hverjum og einum sé sannaður og á hvaða grundvelli hverjum og einum stjórnanda sé stefnt. Þessi aðild stefnanda sé þar með vanreifuð sem leiði til frávísunar. Stefnandi geri enga tilraun til að útskýra hvernig háttsemi hvors stefndu um sig hafi verið tjónsvaldandi fremur en meðstjórnanda þeirra, Heiðars. Samt sem áður byggi stefnandi kröfur sínar á sameiginlegri ábyrgð stefndu. Slíkur málatilbúnaður sé ófullnægjandi.
Í stefnu sé látið eins og Heiðar hafi hvergi komið nálægt rekstri Graníthússins ehf. en það sé auðvitað alrangt. Ljóst sé að Heiðar sem stjórnarmaður og stór hluthafi félagsins Graníthússins og stefnanda hafi getað nýtt sér heimildir laga um einkahlutafélög til að grípa inn í rekstur Graníthússins og koma í veg fyrir meint tjón ef atvik væru í raun og veru með þeim hætti sem stefnandi, félag í eigu og undir stjórn Heiðars, heldur nú fram. Málatilbúnaður stefnanda sé því svo vanreifaður að frávísun sæti. Hvers vegna stefnandi, sem sé kröfuhafi sem lýst hefur almennri kröfu í þrotabú Graníthússins ehf., telur sig eiga aðild að máli á þessum grundvelli sé einnig alfarið óútskýrt.
Í öðru lagi byggja stefndu frávísunarkröfu á vanreifun á dómkröfum og málsástæðum. Ekki verði ráðið af stefnu á hverju dómkrafa stefnanda byggist. Það sé hins vegar ljóst að Graníthúsið hafi verið dæmt, í héraðsdómsmálinu nr. E-1149/2012, til að greiða kröfu sem byggist á sömu reikningum vegna verktöku og stefnandi virðist byggja mál þetta á. Engin gögn hafi verið lögð fram önnur er tilvitnaður dómur og aðfararbeiðni og virðist þau gögn vera eini grundvöllur umfangs hins meinta tjóns stefnanda. Ekki sé á fullnægjandi máta lýst í stefnu í hverju bótakrafa stefnanda felist en dregin verði sú ályktun að hann byggist á sömu reikningum og Graníthúsið ehf. var dæmt til að greiða í ofangreindum dómi. Í dóminum komi fram að þeir reikningar sem Graníthúsið var dæmt til að greiða hafi verið gefnir út 31. mars 2011 og 19. ágúst 2011. Vanhöld stefnanda á lýsingu stofndags stefnukröfu skuli leiða til frávísunar máls þessa vegna vanreifunar.
Samkvæmt niðurstöðu dómsins og höfuðstól kröfu samkvæmt aðfararbeiðninni nemi krafa stefnanda á hendur Graníthúsinu ehf. 4.232.234 kr. Hvers vegna muni um 500.000 kr. á kröfu tilvitnaðs máls og meintri skaðabótakröfu stefnanda í þessu máli sé alfarið óútskýrt og vanreifað. Grundvöllur dómkröfu máls þessa sé því vanreifaður.
Að auki skortir samræmi á milli dómkröfu stefnanda og þeirra málsástæðna sem byggt er á. Málið hafi allt einkenni riftunarmáls sem rekið verði eftir lögum um gjaldþrotaskipti, á meðan dómkrafan byggist á skaðabótaákvæðum laga um einkahlutafélög, sem einungis félagið Graníthúsið gæti byggt á, en ekki stefnandi, en málið sé síðan reist á grundvelli vangoldinna verklauna, sem þegar hafi gengið dómur um á allt öðrum grundvelli. Þá skorti enn á tengingu þessa við aðild málsins, sem virðist einnig vera í kolröngum búningi.
Þá séu framlögð gögn ekki til þess fallin að skýra aðild málsins og alfarið skorti tilvísun til framlagðra gagna stefnanda í stefnu, sem þvæli málatilbúnaðinn enn meira. Ekki verði gerð sú krafa til stefndu að þeir taki til varna gegn slíkum málatilbúnaði, enda fari hann þvert gegn meginreglu íslensks réttarfars um skýran málatilbúnað.
Stefndu telja að úr því að stefnandi hefur kosið að ráðstafa sakarefninu á þennan veg þá sé ósamræmi milli kröfugerðar, málsástæðna, málsatvika og aðildar svo mikið og málið svo vanreifað að vísa beri málinu í heild sinni frá dómi á grundvelli 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Í þriðja lagi byggja stefndu á því að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni og það leiði til frávísunar. Þegar hafi gengið dómur Héraðsdóms Reykjaness um sömu kröfu stefnanda, í málinu nr. E-1149/2012, þá á hendur Graníthúsinu ehf. Stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá að nýju niðurstöðu um þá sömu kröfu, þrátt fyrir að hún beinist nú að öðrum aðilum og hafi verið klædd í búning skaðabótakröfu, sbr. nánari umfjöllun um res judicata áhrif.
Kröfunni hafi þar að auki verið lýst og hún samþykkt við gjaldþrotaskipti þrotabús Graníthússins ehf., sbr. kröfulýsingu stefnanda og skrá yfir kröfulýsingar í þrotabú Graníthússins ehf. Skiptum á þrotabúi Graníthússins ehf. sé hvergi nærri lokið. Riftunarmál hafi verið höfðuð og því með öllu óljóst hversu mikið stefnandi fái greitt af hinni umdeildu kröfu. Hann hafi enga hagsmuni af því að fá dóm um greiðsluskyldu stefndu vegna hinnar sömu kröfu, í það minnsta ekki að svo stöddu, enda myndi það leiða til óréttmætrar auðgunar stefnanda. Stefndu telja því ljóst að krafa stefnanda sé ódómtæk í þeim búningi sem hún er sett fram í máli þessu.
Málið hafi stefnandi klætt kolröngum búningi. Ágreiningsmálum um kröfur vegna vinnu fyrir bú í gjaldþrotaskiptum hafi verið markaður skýr farvegur í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, enda hafi allur málatilbúnaður stefnanda einkenni riftunarmáls. Af þessu leiði að vísa beri málinu frá á grundvelli 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Í fjórða lagi byggja stefndu á því að res judicata áhrif dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-1149/2012 leiði til frávísunar. Ljóst sé að um sama sakarefni sé að ræða, þ.e. sömu kröfu vegna vangoldinna verktakagreiðslna til Graníthallarinnar fyrir vinnu Heiðars. Stefndu vísa í þessu sambandi til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi geti því ekki nú krafist dóms um greiðslu á sömu fjárkröfu á grundvelli sömu verktöku. Breyti þar engu hinn óútskýrði 500.000 kr. munur sem sé á dómkröfu í þessu máli og í hinu fyrra máli.
Stefnanda hafi verið skylt að hafa uppi allar málsástæður sem hann byggir málshöfðun þessa á í hinu fyrra máli skv. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Vanræksla stefnanda þar á leiði til þess að hann geti ekki byggt á slíkum málsástæðum í máli þessu og leiði til frávísunar ex officio. Það að stefnandi beini nú kröfu sinni að öðrum aðilum en í hinu fyrra máli breyti ekki res judicata áhrifum fyrri dómsins.
Í fimmta lagi telja stefndu að litis pendens áhrif leiði til frávísunar. Skiptum á þrotabúi Graníthússins ehf. sé hvergi nærri lokið og óljóst hversu mikið greiðist upp í lýstar kröfur eftir að fyrirhuguðum riftunarmálum er lokið. Krafan sé því í lögformlegu ferli samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og ógerlegt að bera hana á sama tíma undir dómstóla í einkamáli. Breyti þar engu þó að ekki sé rekið dómsmál um þessa sömu kröfu á sama tíma þar sem ferli gjaldþrotaskipta hafi þau hin sömu áhrif að ekki sé tækt að taka hana til umfjöllunar fyrir dómnum. Framangreint leiði til frávísunar á grundvelli 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu stefndu. Í máli þessu er dómkrafa stefnanda skýr og ljóst hvernig hún er tilkomin. Í stefnu er gerð grein fyrir því á hverju aðild stefndu er byggð og í hverju hin meinta saknæma háttsemi stefndu felst. Ágreiningur um það hvort stefnandi geti byggt skaðabótakröfu sína á 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög varðar efni máls og getur ekki leitt til frávísunar. Er hvorki aðild vanreifuð né dómkröfur eða málsástæður. Þá verður málinu ekki vísað frá dómi á grundvelli res judicata áhrifa, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem málsgrundvöllur stefnanda í máli þessu er annar en í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 23. júlí 2013, í máli nr. E-1149/2012, og málið er ekki á milli sömu aðila. Af sömu ástæðu eiga ekki við litis pendens áhrif, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 1991.
Mál þetta sem stefnandi hefur höfðað á hendur stefndu er til heimtu skaðabóta. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi valdið honum tjóni með saknæmum hætti, með því að hafa ekki gefið Graníthúsið ehf. upp til gjaldþrotaskipta og gert umrædda afsals- og kaupsamninga við Best buy ehf. Stefnandi heldur því fram að þetta hafi leitt til þess að hann hafi orðið fyrir tjóni með því að hann hafi ekki fengið dæmda kröfu sína greidda.
Grundvöllur þess að stefnandi geti haft uppi skaðabótakröfu á hendur stefndu er að hann hafi orðið fyrir tjóni. Stefnandi lýsti kröfu sinni samkvæmt framangreindum dómi í þrotabú Graníthússins ehf. Skiptum er ekki lokið og eru riftunarmál til meðferðar fyrir dómstólum. Þannig liggur ekki fyrir hvort stefnandi fái kröfu sína greidda eða ekki og að hann hafi orðið eða verði fyrir tjóni. Hefur stefnandi því að svo stöddu ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um skaðabótakröfu sína á hendur stefndu. Ber því að vísa máli þessu frá dómi.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefndu hvorum um sig 250.000 krónur í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Graníthöllin ehf., greiðu stefndu, Guðna Frey Sigurðssyni og Brynjari Guðmundssyni, hvorum um sig 250.000 krónur í málskostnað.