Hæstiréttur íslands
Mál nr. 405/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 6. október 2004. |
|
Nr. 405/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. nóvember 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Telja verður að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafa framið þau brot sem gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2004.
Ár 2004, laugardaginn 2. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hervöru Þorvaldsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 15. nóvember 2004, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði sé vanaafbrotamaður í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en sakaferill kærða nái aftur til ársins 1979. Kærði hafi síðast hlotið dóm í héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. júní sl., [...], þar sem hann hafi verið sakfelldur fyrir fjölda auðgunarbrota og hann dæmdur í 3 ára óskilorðsbundið fangelsi. Áður en saksókn framangreinds máls hafi hafist hafði kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Sama dag og dómurinn hafi verið kveðinn upp þá hafi kærða verið með úrskurði héraðsdóms áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi á sama grundvelli meðan áfrýjunarfresturinn hafi verið í gildi, þó eigi lengur en til 27. júlí sl. Hæstiréttur hafi staðfest þann úrskurð með dómi uppkveðnum 1. júlí sl., sbr. mál réttarins nr. 272/2004. Þann 16. júlí sl. hafi dómi héraðsdóms verið áfrýjað til Hæstaréttar og hafi kærði verið látinn laus. Á undanförnum vikum hafi komið upp nokkur mál þar sem kærði sé grunaður um aðild að auðgunarbrotum.
[...]
Sterkur grunur þykir vera fyrir hendi um aðild kærða að framangreindum brotum. Kærði hafi játað að öllu leyti eða hluta meinta aðild sína að brotunum og önnur gögn í málinu styðja játningu hans. Sakaferill kærða og hegðun hans undanfarnar vikur þykir benda til þess að yfirgnæfandi líkur séu fyrir hendi að kærði muni halda afbrotum sínum áfram gangi hann laus. Haldlagning framangreindra fíkniefna í gær og framburður hans í dag um fíkniefnaneyslu sína og fjármögnun hennar sýnir að kærði sé nú í fíkniefnaneyslu og hann fjármagni hana með afbrotum. Miklu skiptir því að kærði sæti gæsluvarðhaldi svo komið verði í veg fyrir frekari afbrot en á gæsluvarðhaldstímanum er stefnt að því að ljúka rannsókn, gefa út ákæru og vísa málum hans til dómsmeðferðar með saksókn.
Verið sé að rannsaka meint brot gegn 244. gr., 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., og 254. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og 2. gr., sbr. 5. gr., laga um áv. og fíkniefni nr. 65/1974. Slík brot geti varðað fangelsisrefsingu ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Með vísan til framlagðra rannsóknargagna er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í málum hans og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldstímanum skemmri tíma. Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 15. nóvember 2004, kl. 16:00.