Hæstiréttur íslands
Mál nr. 359/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2014. |
|
Nr. 359/2014. |
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Gestur Jónsson hrl.) Y (Hörður Felix Harðarson hrl.) Z (Grímur Sigurðsson hrl.) Þ (enginn) Æ (enginn) Ö (enginn) R (enginn) S og (enginn) T (enginn) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X, Y og Z um dómkvaðningu matsmanna í máli sem ákæruvaldið höfðaði á hendur X, Y, Z, Þ, Æ, Ö, R, S og T vegna ætlaðra brota gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilarnir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Ingólfur Helgason skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo óvilhalla, hlutlausa og sérfróða menn til nánar tiltekinna skoðunar- og matsstarfa. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fyrstu tvær spurningar í matsbeiðni lúta að því annars vegar hvort myndast hafi „almenn venja“ með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf., á meðan hlutabréf þessara banka og forvera þeirra voru skráð í Kauphöll, sem fólst í því að þeir hafi átt viðskipti með eigin bréf. Hins vegar hvort myndast hafi „almenn venja“ á markaði með hlutabréf um að markaðsaðilar hafi leitað til deildar eigin viðskipta viðkomandi viðskiptabanka í því skyni að kaupa eða selja mikið magn hlutabréfa í viðkomandi banka. Svör við þessum spurningum geta ekki varpað ljósi á þá háttsemi, sem varnaraðilum er gefin að sök í ákæru, enda getur sú venjubundna framkvæmd sem þeir hyggjast leiða í ljós með matinu, ekki firrt þá refsiábyrgð lögum samkvæmt verði sök talin sönnuð. Slíkt mat er því tilgangslaust til sönnunar í máli þessu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Aðrar matsspurningar lúta að gagnaöflun en ekki mati samkvæmt 1. mgr. 128. gr. sömu laga. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2014.
Með ákæru, útgefinni 15. mars 2013, höfðaði sérstakur saksóknari mál á hendur níu mönnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti. Af hálfu þriggja hinna ákærðu, X, Y og Z, er þess krafist, sbr. 127. og 128. gr. laga nr. 88/2008, að dómkvaddir verði tveir óvilhallir og sérfróðir menn til að meta þau atriði er hér fara á eftir:
„I. Mat á markaðsvenju:
1. Matsmenn meti það hvort myndast hafi almenn venja með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf. á meðan hlutabréf þessara banka, og forvera þeirra, voru skráð í kauphöll, sem fólst í því að þeir hafi átt viðskipti með eigin bréf með þeim áhrifum að dýpka markað með bréfin, þ.e. bætt möguleika hluthafa til að selja bréf sín og allra til að kaupa bréf í bönkunum og þessi eigin viðskipti hafi verið nefnd „viðskiptavakt“ af þeirra hálfu eða „óformleg viðskiptavakt“. Er þess óskað að matsmenn lýsi upphafi og fyrirkomulagi slíkra viðskipta í hverjum banka fyrir sig.
2. Matsmenn meti það hvort myndast hafi almenn venja á markaði með skráð hlutabréf um að markaðsaðilar hafi leitað til deildar eigin viðskipta viðkomandi viðskiptabanka í því skyni að kaupa eða selja mikið magn hlutabréfa í viðkomandi viðskiptabanka.
II. Samanburður við aðra markaðsaðila:
3. Matsmenn lýsi þróun kennitalnanna a) markaðsverð sem hlutfall af bókfærðu verði (e. „price to book“) og b) markaðsverð sem hlutfall af hagnaði (v/h hlutfall) [...] á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008.
4. Matsmenn lýsi því og meti hver hafi verið þróun kennitalnanna í spurningu 3 hjá öðrum fjármálafyrirtækjum, innlendum sem erlendum. Þess er óskað að matsmenn beri þróun kennitalna [...] saman við þróun kennitalna sambærilegra, erlendra fjármálafyrirtækja (með tilliti til starfssvæðis, stærðar og starfsemi), sem og eftirfarandi innlendra fjármálafyrirtækja:
a. Straumur Burðarás fjárfestingarbanki hf.
b. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf.
c. Byr sparisjóður.
d. Sparisjóðurinn í Keflavík.
5. Matsmenn lýsi því og meti hver hafi verið þróun markaðsverðs hlutabréfa í [...] samanborið við þróun á markaðsverði hlutabréfa eða stofnfjárbréfa þeirra fjármálafyrirtækja sem talin eru upp í liðum a-d í spurningu 4.
6. Matsmenn lýsi því og meti hver hafi verið þróun markaðsverðs hlutabréfa í [...] samanborið við þróun á gengisvísitölu Norrænna fjármálafyrirtækja á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008. Þess er sérstaklega óskað að svör matsmanna verði sett fram þannig að tekið verði tillit til gengisþróunar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum á tímabilinu.
7. Hvert er áætlað endurheimtuhlutfall úr slitabúi [...] samanborið við endurheimtuhlutfall þeirra íslensku fjármálafyrirtækja sem talin eru upp í liðum a-d í spurningu 4?“
Ákærðu kveða tilganginn með matsbeiðninni vera að afla sönnunargagna til stuðnings þeirri málsástæðu sinni að háttsemi þeirra hafi verið lögmæt og að þau viðskipti, sem í ákæru eru talin markaðsmisnotkun, hafi verið í samræmi við reglur og áralangar viðskiptavenjur á markaðnum sem allir markaðsaðilar hafi þekkt.
Aðrir ákærðu hafa ekki látið beiðnina um dómkvaðningu til sín taka.
Ákæruvaldið hefur mótmælt því að matsmenn verði dómkvaddir. Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að beiðni ákærðu sé ekki í samræmi við 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 og lúti þar að auki ekki að ákæruatriðunum.
Fyrstu tvær matsspurningarnar lúta að því hvort myndast hafi almenn venja varðandi tiltekin viðskipti með hlutabréf eins og þar greinir. Matsbeiðendur telja nauðsynlegt að afla sönnunargagna um það fyrirkomulag er stærstu viðskiptabankarnir höfðu komið upp varðandi viðskipti með eigin hlutabréf bankanna. Þeir telja að við mat á því hvort matsbeiðendur hafi með háttsemi sinni blekkt viðskiptavini verði að líta til þess hvað hafi verið almenn venja á þeim tíma er viðskiptin áttu sér stað og hver hafi verið þekking þeirra er viðskipti áttu á markaðnum. Þetta sé ekki hægt að sanna með skýrslum vitna, enda sérfræðivitni ekki leyfð.
Þessar spurningar í matsbeiðninni lúta að því að leggja á fyrir matsmenn að afla sönnunargagna og draga af þeim ályktanir um hvort tilteknar venjur hafi myndast um framangreind viðskipti. Matsgerð um þessi atriði yrði því álitsgerð um atriði er lúta að mati á sönnun um atvik málsins. Slíkt mat er í verkahring dómara, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 og er því hafnað beiðni ákærðu um dómkvaðningu matsmanna til meta þessi atriði.
Matsspurningar 3 til 6 lúta að því annars vegar að lýsa þróun kennitalna og hins vegar að því að upplýsa um þróun markaðsverðs hlutabréfa. Matsbeiðendur segja tilganginn vera að sýna fram á að þróun kennitalna og hlutabréfaverðs [...] hafi verið hin sama og hjá öðrum sambærilegum fjármálafyrirtækjum.
Öll þessi atriði er hægt að sýna fram á með gögnum sem hægt er að leggja fyrir dóminn. Það er því þarflaust að dómkveðja matsmenn til þess og er beiðni matsbeiðenda að þessu leyti því einnig hafnað.
Matsspurning 7 lýtur að áætluðu endurheimtuhlutfalli úr slitabúi [...] samanborið við tiltekin önnun fjármálafyrirtæki. Með þessu hyggjast matsbeiðendur sýna fram á stöðu [...] þegar það fór í slitameðferð samanborið við stöðu annarra fjármálafyrirtækja. Af því megi svo draga ályktun um huglæga afstöðu stjórnenda og starfsmanna félagsins til þess hvort [...] kæmist af úr fjármálahruninu.
Hið sama á við hér og um spurningar 3 til 6. Hægt er að sýna fram á þessi atriði með gögnum sem lög verði fyrir dóminn. Það á svo undir dóminn að leggja mat á þau eins og önnur sönnunargögn, sbr. nefnda 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni ákærðu um dómkvaðningu matsmanna varðandi þetta atriði er því einnig hafnað.
Samkvæmt öllu framanrituðu er beiðni ákærðu um dómkvaðningu matsmanna hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ú r s k u r ð a r o r ð
Beiðni ákærðu, X, Y og Z, um dómkvaðningu matsmanna er hafnað.