Hæstiréttur íslands
Mál nr. 30/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Kyrrsetning
|
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2005. |
|
Nr. 30/2005. |
Sparisjóðurinn í Keflavík(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Guðrúnu Jónínu Karlsdóttur (Halldór H. Backman hrl.) |
Kærumál. Kyrrsetning.
Nokkrum dögum eftir að eiginmaður G gaf út skuldabréf til S undirrituðu hjónin kaupmála þar sem tvær fasteignir voru lýstar séreign G. Eftir að bú eiginmannsins var tekið til gjaldþrotaskipta óskaði S eftir því að umræddar fasteignir yrðu kyrrsettar til tryggingar fullnustu skuldar hans samkvæmt skuldabréfinu. Var talið að ekki væri fullnægt skilyrðum laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. fyrir kyrrsetningu eigna G til tryggingar fullnustu þessarar skuldar eiginmanns hennar. Þá var ekki á það fallist að heimild til kyrrsetningar yrði sótt í 73. gr. hjúskaparlaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 11. janúar 2005, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. janúar 2005, en þar var hafnað kröfum sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 19. nóvember 2004 um að neita kyrrsetningu eigna varnaraðila til tryggingar skuldar samkvæmt skuldabréfi útgefnu til sóknaraðila 30. desember 1999. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi, framangreind ákvörðun sýslumannsins í Keflavík ógilt og krafa sóknaraðila tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Úrskurður héraðsdóms er staðfestur.
Sóknaraðili, Sparisjóðurinn í Keflavík, greiði varnaraðila, Guðrúnu Jónínu Karlsdóttur, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2005.
Mál þetta, sem þingfest var 26. nóvember 2004, var tekið til úrskurðar 15. f.m.
Sóknaraðili er Sparisjóðurinn í Keflavík, Tjarnargötu 12-14, Keflavík.
Varnaraðili er Guðrún Jónína Karlsdóttir, Bragavöllum 6 í Keflavík.
Sóknaraðili gerir þá dómkröfu að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 19. nóvember 2004 um að hafna því að kyrrsetja tilteknar eignir varnaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 25.771.649 krónur. Til vara er sú krafa gerð að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að kyrrsetja eignir varnaraðila fyrir kröfu að fjárhæð 18.817.759 krónur. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Verði fallist á aðal- eða varakröfu sóknaraðila krefst varnaraðili þess til vara að kæra á úrskurði héraðsdóms til Hæstaréttar fresti réttaráhrifum hans. Þá er krafist málskostnaðar.
I.
Málavextir eru þeir helstir að 30. desember 1999 gaf Sigurjón Rúnar Vikarsson, sem er eiginmaður varnaraðila, út skuldabréf til sóknaraðila að fjárhæð 19.000.000 krónur. Nokkrum dögum síðar, eða 5. janúar 2000, undirrituðu Sigurjón Rúnar og varnaraðili kaupmála þar sem tvær fasteignir voru lýstar séreign varnaraðila. Var þar annars vegar um að ræða einbýlishús að Bragavöllum 6 í Keflavík og hins vegar sumarhús í landi Norðurkots í Grímsneshreppi ásamt tilheyrandi lóð. Var kaupmálinn móttekinn til skráningar í kaupmálabók og skráður í hana daginn eftir. Fyrir gerð kaupmálans var einbýlishúsið þinglýst eign Sigurjóns Rúnars, en sumarhúsið eign þeirra hjóna að jöfnu. Lánstími samkvæmt framangreindu skuldabréfi var 15 ár og skyldu afborganir af því greiddar mánaðarlega. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að Sigurjón Rúnar hafi greitt af skuldabréfinu í um það bil tvö ár en síðan ekki söguna meir. Bú hans hafi síðan verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 7. október 2004 í kjölfar árangurslauss fjárnáms 16. júní sama árs. Með beiðni 16. nóvember 2004 óskaði sóknaraðili eftir því að framangreindar fasteignir yrðu kyrrsettar til tryggingar fullnustu skuldar Sigurjóns Rúnars samkvæmt skuldabréfinu, en hún á þá að hafa numið 25.771.649 krónum. Var kyrrsetningarbeiðni beint að varnaraðila með vísan til 73. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Er í fyrsta málslið greinarinnar mælt fyrir um það að hafi annað hjóna gefið hinu verðmæti geti sá sem þá átti kröfu á hendur gefanda, sem hann fær ekki fullnustu fyrir, gengið að gjöfinni eða verðmæti hennar nema það sannist að gefandi hafi ótvírætt verið gjaldfær þrátt fyrir gjafagerninginn. Fulltrúi sýslumannsins í Keflavík tók kyrrsetningarbeiðnina fyrir 19. nóvember 2004. Mætti lögmaður fyrir hönd varnaraðila við þá fyrirtöku málsins og mótmælti því að gerðin næði fram að ganga. Ákvað fulltrúi sýslumanns í ljósi mótmæla varnaraðila og þess að sóknaraðili hefði ekki sýnt nægilega fram á lagalegan grundvöll kröfu sinnar á hendur varnaraðila að gerðin færi ekki fram. Hefur sóknaraðili borið þessa ákvörðun undir dóminn.
Fyrir liggur að varnaraðili seldi fasteignin Bragavelli 6 í Keflavík 22. nóvember 2004. Miðar sóknaraðili nú við að beiðni hans um kyrrsetningu muni í stað fasteignarinnar taka til kaupsamningsgreiðslna sem kaupendur hennar eiga að inna af hendi til varnaraðila 1. febrúar og 1. maí 2005 og íbúðar að Hjallavegi 11 í Njarðvík sem kaupverðið var að hluta til greitt með.
II.
Af hálfu sóknaraðila er álitið að skilyrði kyrrsetningar séu fyrir hendi og að ákvörðun sýslumanns sé tekin á röngum forsendum.
Í kyrrsetningarbeiðninni sé fjallað um grundvöll kröfu sóknaraðila sem gerðarbeiðanda. Um sé að ræða kröfu á grundvelli 73. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt þeirri grein sé kröfuhafa heimilt að ganga að eignum eða verðmæti eigna sem gefnar hafa verið með kaupmála ef sá sem gefur getur ekki efnt þær skuldbindingar sínar sem til staðar voru þegar gjöfin var innt af hendi. Telur sóknaraðili sig hafa lagt fram gögn fyrir því að ákvæðið eigi við í málinu. Ljóst sé að varnaraðili hafi móttekið gjafir sem nemi að minnsta kosti fjárhæð skuldar eiginmanns hennar við sóknaraðila. Það megi sjá af nýlegum kaupsamningi um Bragavelli 6, Keflavík, en söluverð eignarinnar hafi samkvæmt honum numið 26.100.000 krónum. Til viðbótar verðmæti þeirrar eignar komi helmings eignarhluti í sumarbústaðnum sem kaupmálinn taki jafnframt til.
Ábyrgð viðtakanda samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði sé varaábyrgð sem verði virk við árangurslaust fjárnám eða gjaldþrot. Málum sé þannig háttað hér. Þá hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að Sigurjón Rúnar Vikarsson hafi verið gjaldfær þrátt fyrir gjafagerninginn á varnaraðila og hnykkt sé á þeim ríku sönnunarkröfum sem til gjafþega séu gerðar með því orðalagi ákvæðisins að sannast þurfi að gefandi hafi „ótvírætt“ verið gjaldfær þrátt fyrir gjafagerninginn. Á sóknaraðila hvíli því ekki nokkur sönnunarbyrði að þessu leyti, en fyrir liggi að eiginmaður varnaraðila sé ógjaldfær. Í ákvæðinu sé ekki settur sérstakur fyrningarfrestur. Litið sé svo á í fræðikenningum að frestur til þess að gera kröfu á gjafþega sé jafnlangur og fyrningarfrestur á hendur skuldara upphaflegu kröfunnar. Krafan á hendur Sigurjóni Rúnari sé ófyrnd. Þá hafi því ranglega verið haldið fram af hálfu varnaraðila við kyrrsetningargerðina að ákvæðið takmarkist af riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga. Svo sé alls ekki enda sé það skilyrði þess að beita megi ákvæðinu að sá sem gaf sé orðinn gjaldþrota. Alls ekki sé víst að þrotabú gæti átt tilkall til kröfu á þessum grunni. Það séu einvörðungu þeir kröfuhafar sem sýnt geti fram á að hafa átt kröfu þegar gjöf var innt af hendi með kaupmála. Umrædd regla sé ekki riftunarregla heldur regla um ábyrgð gjafþega, sem stofnist þegar gert er árangurslaust fjárnám hjá gefanda eða við gjaldþrot hans.
Sóknaraðili telur að hvað sem líði efnislegum ágreiningi um réttmæti fjárkröfu sóknaraðila sé ljóst að úr honum verði ekki skorið á þessu stigi kyrrsetningarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. þurfi gerðarbeiðandi ekki að leiða sönnur að réttmæti kröfu sinnar. Þvert á móti megi vera lagalegur vafi um kröfuna, enda sé hann ekki svo mikill að ætla megi að gerðarbeiðandi eigi ekki réttindin. Synjun sýslumanns á þeim grundvelli að sóknaraðili hafi ekki „sýnt nægilega fram á lagalegan grundvöll kröfu sinnar“ sé í ósamræmi við sönnunarreglur 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. Sóknaraðili muni að sjálfsögðu höfða mál til staðfestingar á kyrrsetningu og efnislegum rétti sínum í málinu í beinu framhaldi af málsmeðferð hjá sýslumanni. Hann hafi lagt fram ríflega tryggingu, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990. Kyrrsetning sé bráðabirgðaaðgerð og ekki sé gert ráð fyrir fullkominni sönnunarfærslu um réttmæti þeirra réttinda sem leitast sé við að tryggja með gerðinni. Af þeim sökum og með því að trygging sé lögð fram verði fremur en ekki að heimila kyrrsetningu þótt ágreiningur kunni að vera um túlkun á lagaákvæði sem krafa byggir á eða um sönnunaratriði í máli.
Sóknaraðili tekur fram að í ljósi H.1995.2003, þar sem meðal annars var byggt á 73. gr. hjúskaparlaga, verði ekki talið heimilt að leita aðfarar í formi fjárnáms fyrir umræddum kröfum fyrr en að gengnum dómi. Því sé hér uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 að kröfu verði ekki fullnægt þegar með aðför. Þá sé krafa sóknaraðila peningakrafa í skilningi ákvæðisins enda verði fullnustu ekki leitað á grundvelli ábyrgðar varnaraðila í öðru formi.
III.
Varnaraðili byggir á því að ekki séu uppfyllt skilyrði laga fyrir kyrrsetningu, sbr. einkum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. Jafnframt er á því byggt að af fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði varnaraðila sé ljóst að svo verulegur vafi sé um réttmæti kröfu sóknaraðila og þeirra réttinda sem tryggja á með kyrrsetningunni að 2. mgr. 5. gr. laganna eigi við, sbr. það orðalag ákvæðisins að synja skuli um kyrrsetningu “ef ætla verður [...] að [sóknaraðili] eigi ekki þau réttindi, sem hann hyggst tryggja”. Fjalla verði því ítarlega um grundvöll þeirrar kröfu eða þeirra réttinda sem sóknaraðili byggir á, jafnvel þó svo að sömu atriði kunni að koma til álita við meðferð hugsanlegs staðfestingarmáls eða almenns dómsmáls um skyldu varnaraðila. Málatilbúnaður varnaraðila sé þó því marki brenndur að viðunandi tími hafi ekki fengist til undirbúnings, gagnaöflunar eða sönnunarfærslu. Málsmeðferðarreglur kyrrsetningarlaga séu enda miðaðar við það að réttur gerðarbeiðanda sé almennt svo skýr og afdráttarlaus að umfangsmikil sönnunarfærsla sé óþörf, sbr. til hliðsjónar 83. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Af því leiði að allan vafa um réttmæti kyrrsetningar almennt verður að túlka varnaraðila í hag.
Varnaraðili og eiginmaður hennar, Sigurjón Rúnar Vikarsson, gengu í hjónaband 31. október 1970. Áður en eignin að Bragavöllum 6 var byggð hafi varnaraðili ein verið eigandi fasteignar að Heiðargarði 21 í Keflavík og fyrir þann tíma hafi hún átt íbúð í fjöleignarhúsi að Brekkubraut 7 í Keflavík. Sigurjón Rúnar hafi hins vegar verið skráður sem lóðarhafi á þeim lóðarleigusamningur sem gerður var um Bragavelli 6 hinn 19. desember 1983 án þess þó að til þess hefði verið ætlast að í því fælust raunveruleg eignarráð, enda hafi bygging hússins sem þar reis að mestu verið fjármögnuð með þeirri eign sem varnaraðili átti fyrir. Sigurjón Rúnar hafi á hinn bóginn átt að baki lengri búsetu í Keflavík og hefðu úthlutunarreglur bæjarins leitt til þess að umsókn um lóð hafi orðið að stafa frá honum. Með kaupmála 5. janúar 2000 hafi fasteignin að Bragavöllum 6 verið gerð að séreign varnaraðila. Að framansögðu virtu hafi ekki falist í þeim gerningi tilfærsla á raunverulegum eignarréttindum né gjöf í skilningi 73. gr. hjúskaparlaga. Í því sambandi megi benda á grunnreglu 104. gr. laganna um frávik frá helmingaskiptareglu í fjármálum hjóna. Allt að einu og ef litið sé fram hjá kaupmálanum sé ljóst að varnaraðili hafi átt að minnsta kosti helming af eigninni á grundvelli hjúskapareignar sinnar. Eins sé ljóst að með kaupmálanum hafi einvörðungu verið ráðstafað nettóeign. Loks hljóti að verða að miða við verðmæti viðkomandi eigna á þeim tíma er kaupmálinn var gerður, ekki síðar. Rétt sé að eignin hefur nú verið seld. Á hinn bóginn byggir varnaraðili á því að í þeirri ráðstöfun felist ekki gerningur sem gefi tilefni til að ætla að grunnskilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 sé uppfyllt, það er að sennilegt megi telja að verulega dragi úr líkindum á fullnustu nái kyrrsetningin ekki fram að ganga. Um þetta sé meðal annars vísað til H.2000.1155. Fasteignin að Bragavöllum 6 hafi verið til sölu mánuðum saman og tengist sölumeðferðin eingöngu endurnýjun á heimili fyrir fjölskyldu varnaraðila. Ekki standi til að selja þann sumarbústað sem sóknaraðili hefur bent á í málinu. Hafi sóknaraðili ekki gert sennilegt að það hugsanlega andlag fjárnáms fari forgörðum nái kyrrsetningin ekki fram að ganga.
Varðandi þá fjárkröfu sóknaraðila sem um ræðir í málinu er í greinargerð varnaraðila vísað til þess að eiginmaður hennar hafi á sínum tíma tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir verulegum skuldum Umbrots ehf.. Hafi skuldirnar numið tæpum 19 milljónum króna. Í tengslum við þær ábyrgðir hafi skuldabréf það sem krafa sóknaraðila byggist á verið gefið út. Með vísan til þess hvernig eignarréttindum hafi raunverulega verið háttað í hjúskapnum, svo og með vísan til 60. 62. gr. hjúskaparlaga, hafi aldrei komið til álita, hvorki af hálfu sóknaraðila né eiginmanns varnaraðila, að bréf þetta yrði tryggt með veð í fasteigninni Bragavöllum 6 eða öðrum eignum varnaraðila. Þess í stað hafi sóknaraðili fallist á að bréfið yrði tryggt annars vegar með handveði í hlutabréfum eiginmanns varnaraðila í félaginu Grágás ehf., alls 35% hlutafjár, og hins vegar með víxilábyrgð þess sama félagsins er nema skyldi 5.000.000 krónum af höfuðstóli lánsins. Tryggingar þessar hafi sóknaraðili metið fullnægjandi. Aldrei hafi því staðið til að fasteignin að Bragavöllum 6 eða aðrar eignir, hjúskapareignir eða séreignir, myndu standa til tryggingar fyrir skuldinni, hvorki beint né óbeint. Þessar forsendur endurspeglist vitaskuld í því að sóknaraðila hafi verið kunnugt um þá fyrirætlan varnaraðila og eiginmanns hennar að gera hinn umdeilda kaupmála áður en skuldabréfið var gefið út. Tilvist kaupmálans og opinber skráning hans hafi enda ekki leitt til neinna viðbragða eða aðgerða hjá sóknaraðila á þeim tíma. Varðandi þetta sé ennfremur til þess að líta að 5. september 2000 hafi verið aflað verðmats frá Deloitte & Touche á Grágás ehf. Hafi niðurstaða matsins verið sú að innra virði hluta í félaginu bæri að miða við gengið 4,89. Hinn veðsetti eignarhlutur sé að nafnvirði 3.803.188 krónur og samkvæmt því nemi raunvirði hans 18.597.592 krónum. Ekkert liggi fyrir í málinu um það að verðmæti félagsins hafi rýrnað að mun síðan matið var gert, enda sé verðmæti þess fyrst og fremst byggt á eignum sem enn séu fyrir hendi. Gera verður alvarlegar athugasemdir við það að sóknaraðili hafi ekki gengið að þessari veðtryggingu sinni eða framangreindri víxilábyrgð þegar eftir að bera fór á vanskilum á greiðslu skuldabréfsins. Þess í stað hafi sóknaraðili látið kröfuna vaxa óhæfilega vegna dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Eins sé það sérstaklega ámælisvert að sóknaraðili skuli hefja aðgerðir gegn varnaraðila án þess að hafa svo mikið sem reynt að ganga að öðrum og fyrirliggjandi tryggingum.
Að mati varnaraðila er ákvæði 73. gr. hjúskaparlaga bundið þeirri forsendu að sóknaraðili geti eingöngu átt kröfu á hendur varnaraðila að því marki sem sóknaraðili fái ekki fullnustu kröfu sinnar að öðru leyti. Með öðrum orðum sé hugsanleg ábyrgð varnaraðila í besta falli varaábyrgð. Í ljósi þess að sóknaraðili hafi ekki reynt fullnustu kröfunnar með því að ganga fyrst að þeim tryggingum sem settar voru fyrir efndum skuldabréfsins í öndverðu sé einfaldlega ekki ljóst og að sama skapi alfarið vanreifað hvaða fjárkröfu sóknaraðili geti yfir höfuð átt á hendur varnaraðila. Meint krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila sé byggð á sérstakri undantekningarreglu hjúskaparlaga og eins sé fyrirliggjandi að varnaraðili hafi á engan hátt skuldbundið sig með beinum hætti gagnvart sóknaraðila. Á þessu stigi, og með vísan til framanritaðs, sé einfaldlega ekki fyrirliggjandi hvort sóknaraðili eigi yfir höfuð kröfu á hendur varnaraðila. Niðurstaðan um það fáist eingöngu með dómsúrlausn í kjölfar málshöfðunar sóknaraðila eftir almennum leiðum og eftir að sóknaraðili hafi gengið að þeim tryggingum sem séu fyrir hendi. Slíkri málsókn fylgi viðamikil sönnunarfærsla á báða bóga, sönnunarfærsla sem vart verði við komið í þessu máli þar sem allir frestir séu mjög skammir og sönnunarfærsla takmörkuð.
Þá sé það afdráttarlaust skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 að krafa sóknaraðila sé „lögvarin [...] krafa um greiðslu peninga“. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili eigi ekki slíka kröfu á hendur varnaraðila á þessu tímamarki. Jafnvel þótt greiðsluskylda eða ábyrgð varnaraðila sé byggð á tilteknu lagaákvæði þá sé raunverulegt inntak meints kröfuréttar sóknaraðila á hendur varnaraðila óljóst. Krafan sé því óviss og ekki eins skýr og nauðsynlegt sé samkvæmt fyrrnefndu grundvallarskilyrði.
Samkvæmt 73. gr. hjúskaparlaga geti sóknaraðili eingöngu átt rétt á hendur varnaraðila sem nemur þeirri „gjöf“ sem varnaraðili kynni að hafa fengið frá eiginmanni sínum. Kröfuréttur sóknaraðila geti því aldrei numið annarri fjárhæð en meintum og efnislega óréttmætum ávinningi varnaraðila. Ekkert sé fyrirliggjandi um umfang þess meinta kröfuréttar sóknaraðila á þessu stigi, en allt að einu sé ljóst að sóknaraðili geti ekki byggt kyrrsetningarbeiðni sína á fjárhæðum skuldabréfsins eins og gert sé. Það sé einfaldlega ekki sú fjárhæð sem varnaraðili þyrfti að standa sóknaraðila skil á. Hér komi einnig til álita framangreind atriði um eignastöðu varnaraðila í hjúskapnum, sem óneitanlega sýni fram á það að í kaupmálanum hafi ekki falist „gjöf“ að neinu teljandi marki.
Málatilbúnaður sóknaraðila sé meðal annars byggður á því að sóknaraðili hafi, samkvæmt margnefndu ákvæði hjúskaparlaga, rétt til að ganga að þeim verðmætum sem ráðstafað var með kaupmála milli varnaraðila og eiginmanns hennar. Krafa sóknaraðila sé því í eðli sínu ekki bein krafa um greiðslu fjármuna heldur krafa um aðgang að viðkomandi eignum. Með setningu laga nr. 31/1990 hafi verið tekin af öll tvímæli um það að ekki sé hægt með kyrrsetningu að tryggja kröfu sem eftir aðalefni sínu sé um annað en greiðslu peninga. Í þessu sambandi sé áréttað að umfang meintrar fjárkröfu sóknaraðila sé óljóst á þessu stigi. Sé það enn frekar til marks um raunverulegt eðli kyrrsetningarkröfu sóknaraðila.
Í greinargerð sinni bendir sóknaraðili H.1995.2003 þar sem synjað var um fjárnám á sama grundvelli og sóknaraðili byggir á í þessu máli, það er 73. gr. hjúskaparlaga. Niðurstaða dómsins hafi verið afdráttarlaus varðandi það að aðför án undangengis dóms verði að byggjast á skýrum og ótvíræðum lagaákvæðum. Téð ákvæði hjúskaparlaga hafi ekki verið talið uppfylla það skilyrði. Þessi niðurstaða sé og í samræmi við kenningar fræðimanna og norræna dómaframkvæmd varðandi skilyrði kyrrsetningar. Byggir varnaraðili á því að sömu grundvallarskilyrði hljóti að gilda um lögmæti kröfu hvort sem krafist sé fjárnáms eða kyrrsetningar.
Áður sé getið þeirra trygginga sem settar hafi verið fyrir efndum á greiðslu hins umrædda skuldabréfs og þeirrar líklegu staðreyndar að sóknaraðili fái fullnustu kröfunnar með því að ganga einfaldlega að tryggingunum. Í það minnsta verði, meðal annars með hliðsjón af fyrirliggjandi verðmati hlutafjár í Grágás ehf., að ætla að eiginmaður varnaraðila hafi verið ótvírætt gjaldfær er kaupmálinn var gerður, enda ekki tækt að miða við fjárhagsstöðu hans nú, tæpum 5 árum síðar. Við það bætist að á þeim tíma hafi hann haft verulegar tekjur og skuldir, að skuldabréfinu frátöldu, verið lágar. Við mat á gjaldfærni í skilningi hjúskaparlaga hljóti að verða að miða við sambærileg atriði og koma fram í 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sé þetta enn frekar til marks um þá staðreynd að meintur kröfuréttur sóknaraðila á hendur varnaraðila sé í besta falli vafasamur.
Öllu framangreindu til viðbótar byggir varnaraðili á því að hver sá sem réttur sóknaraðila á hendur henni á sínum tíma kunni að hafa verið sé hann allt að einu fallinn niður í dag. Kaupmálinn hafi verið gerður 5. janúar 2000 og hann skráður í kaupmálabók og birtur í Lögbirtingablaði. Fyrst nú, tæpum 5 árum eftir stofnun kaupmálans, hreyfi sóknaraðili andmælum eða hafi uppi tilburði til að beina kröfu að varnaraðila, þvert á fyrri skilning aðila. Tómlæti sóknaraðila sé verulegt og í raun vítavert, enda megi telja að sóknaraðila hafi borið að tilkynna varnaraðila sannanlega um athugsemdir sínar tafarlaust eftir að kaupmálinn var birtur opinberlega og gera varnaraðila þannig ljóst að sóknaraðili myndi ganga að varnaraðila ef til vanefnda kæmi á greiðslu skuldabréfsins. Varnaraðili hafi verið í góðri trú um gildi kaupmálans og þeirrar formlegu en í raun óefnislegu eignatilfærslu sem leiddi af honum, ekki eingöngu vegna þess að varnaraðili hafi átt allar fasteignir sem fjölskyldan bjó í áður heldur líka vegna þess að skuldabréfið hafi verið tryggt með öðrum hætti sem sóknaraðili hafi sjálfur metið fullnægjandi. Tómlæti sóknaraðila sé enn alvarlegra í ljósi þess að sóknaraðili er bankastofnun, fagaðili á þessu sviði. Loks endurspeglist tómlæti sóknaraðila ennfremur í þeirri staðreynd, sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila, að eingöngu hafi verið greitt af skuldabréfinu í um það bil tvö ár „en síðan ekki söguna meir“. Vanskil hafi því varað árum saman án þess að sóknaraðili aðhefðist nokkuð gagnvart varnaraðila eða gengi að þeim tryggingum sem voru settar.
Varnaraðili byggir á því að sömu sjónarmið eigi að gilda um frest til að hafa uppi kröfu á grundvelli 73. gr. hjúskaparlaga og gilda um riftun samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, það er að málshöfðunarfrestur sé að hámarki 24 mánuðir. Þessu til stuðnings bendir varnaraðili á að samkvæmt lokamálslið téðs ákvæðis hjúskaparlaga víki það fyrir hagsmunum þrotabús þess hjóna sem gefi verðmæti. Það sé því beinlínis gert ráð fyrir því í ákvæðinu að það tengist riftunarreglum gjaldþrotalaga. Fráleitt sé að réttur kröfueiganda sé takmarkalaus í tíma og enn fráleitari sé sú niðurstaða að einhver kröfuhafa í þrotabúi geti átt betri rétt á hendur þriðja aðila, það er gjafþega, en þrotabúið sjálft. Leiði það til augljósrar og óréttmætrar mismununar á stöðu kröfuhafa á þeim grundvelli einum hvort til kröfu var stofnað fyrir gerð kaupmála eða ekki. Byggir varnaraðili á því að með ákvæðum gjaldþrotalaga hafi verið settar meginreglur um málshöfðunar- og riftunarfresti vegna hvers kyns undanskots eigna. Beita verði sömu reglum hér með lögjöfnun.
Varnaraðili telur að hugleiðingar um fyrningu kröfu sem fram koma í greinargerð sóknaraðila tengist ekki því álitaefni sem hér er til umfjöllunar, né heldur þær kenningar fræðimanna sem þar er vísað til. Hvenær krafa fyrnist almennt sé alfarið óháð þeim tímafrestum sem hér um ræðir. Á hinn bóginn telur varnaraðili, verði ekki fallist á framangreind sjónarmið um gildi frestákvæða gjaldþrotalaga, að þá verði að minnsta kosti að líta til þess í málinu að ábyrgðarskuldbindingar fyrnist á 4 árum samkvæmt 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Staða varnaraðila sé ekki sú sama og sjálfskuldarábyrgðaraðila á viðkomandi skuldabréfi og því gildi einu hvenær sú skuld gjaldféll í raun. Upphafsdagur, eða með öðrum orðum gjalddagi, hugsanlegrar ábyrgðar varnaraðila á grundvelli hjúskaparlaga hljóti að vera sá dagur sem kaupmálinn var gerður, það er 5. janúar 2000. Krafan hljóti því að teljast fallin niður af þeim sökum.
Varakrafa varnaraðila er á því byggð að svo mikill vafi sé um réttmæti kröfu sóknaraðila að komist dómurinn engu að síður að þeirri niðurstöðu að fallast beri á kröfu sóknaraðila verði varnaraðili að fá tóm til að bera þá ákvörðun undir Hæstarétt án þess að þurfa að þola þær viðurhlutamiklu þvingunaraðgerðir sem felist í kyrrsetningu eigna. Er minnt á að þau verðmæti sem sóknaraðili hefur í hyggju að kyrrsetja eru grundvöllur heimilishalds varnaraðila og fjölskyldu hennar. Kyrrsetning muni því hafa í för með sér verulega röskun á stöðu varnaraðila og í raun setja í uppnám hagsmuni fjölskyldunnar. Telur varnaraðili að gæta verði meðalhófs í þessu sem öðru, enda vandséð að sóknaraðili verði af verulegum hagsmunum þó svo varnaraðili fái ráðrúm til að skjóta málinu til Hæstaréttar.
Í varakröfu gerir varnaraðili jafnframt kröfu um að málskostnaður verði látinn niður falla. Byggist sú krafa einkum á 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má að tilteknum skilyrðum uppfylltum kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga. Af 15. gr. laganna leiðir að ennfremur má kyrrsetja eignir annars manns, enda bjóði hann þær sjálfur fram til kyrrsetningar, sbr. 1. mgr. 36. gr. aðfaralaga nr. 90/1989. Eigi á grundvelli sérákvæða í lögum að heimila kyrrsetningu í eignum annarra en skuldara, þótt því skilyrði sé ekki fullnægt að eigandi bjóði þær fram, þurfa þau að vera skýr og ótvíræð.
Eins og fram er komið styðst sú fjárkrafa sóknaraðila sem hann leitar kyrrsetningar fyrir við skuldabréf sem eiginmaður varnaraðila gaf út 30. desember 1999. Varnaraðila er ekki skuldari samkvæmt skuldabréfinu. Á sóknaraðili því ekki samkvæmt bréfinu lögvarða kröfu á hendur henni um greiðslu peninga. Er því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fyrir því að unnt sé kyrrsetja eignir varnaraðila til tryggingar fullnustu þessarar skuldar eiginmanns hennar. Þá er ekki á það fallist að heimild til kyrrsetningar verði sótt í 73. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Af þessu leiðir að eigi sóknaraðila að vera unnt í skjóli tilvitnaðs ákvæðis hjúskaparlaga að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í eignum varnaraðila eða verðmæti þeirra þarf hann áður að afla viðurkenningar fyrir þeirri heimild sinni í almennu dómsmáli samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt framansögðu er dómkröfum sóknaraðila í málinu hafnað og fallist á það með varnaraðila að sýslumaðurinn í Keflavík hafi með réttu hafnað beiðni sóknaraðila um kyrrsetningu.
Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Sparisjóðsins í Keflavík, um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 19. nóvember 2004 um að hafna því að kyrrsetja eignir varnaraðila, Guðrúnar Jónínu Karlsdóttur, til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi útgefnu til sóknaraðila 30. desember 1999.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.