Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 15. desember 2004. |
|
Nr. 486/2004. |
Jónas B. Guðmarsson og Sigurborg Þórsdóttir (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Kötlu Bjarnadóttur Sigmundi Heiðari Árnasyni og (Kristján Stefánsson hrl.) Soffíu Magnúsdóttur(Hákon Árnason hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kröfugerð J og SÞ í máli þeirra til viðurkenningar á skaðabótarétti vegna leyndra galla á fasteign sem þau höfðu keypt af K og SÁ þótti svo óljós og ónákvæm að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 6. desember 2004 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. nóvember 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar Katla Bjarnadóttir og Sigmundur Heiðar Árnason krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður óskipt.
Varnaraðili Soffía Magnúsdóttir krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða henni kærumálskostnað.
Fyrir héraðsdómi stefndu sóknaraðilar Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu og hefur félagið látið kærumál þetta til sín taka á báðum dómstigum. Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar dómkröfur í málinu.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Jónas B. Guðmarsson og Sigurborg Þórsdóttir, greiði í kærumálskostnað varnaraðilunum Kötlu Bjarnadóttur og Sigmundi Heiðari Árnasyni hvoru fyrir sig 40.000 krónur og varnaraðilanum Soffíu Magnúsdóttur 75.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 22. nóvember 2004.
Mál þetta var höfðað 1., 5. og 6. júlí 2004 og tekið til úrskurðar 18. nóvember sama ár. Stefnendur eru Jónas B. Guðmarsson og Sigurborg Þórsdóttir, bæði til heimilis að Presthúsabraut 28 á Akranesi, en stefndu eru Katla Bjarnadóttir og Sigmundur Heiðar Árnason, bæði til heimilis að Hellisbraut 21 á Hellissandi, og Soffía Magnúsdóttir, Jörundarholti 208 á Akranesi. Þá er Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3 í Reykjavík, stefnt til réttargæslu.
Stefnendur hafa höfðað málið til að fá viðurkennda bótaskyldu stefndu vegna fasteignaviðskipta. Dómkrafa stefnenda er svohljóðandi: „Að viðurkennt verið með dómi, að stefnendur eigi skaðabótarétt in solidum á hendur stefndu Sigmundi Heiðari Árnasyni, Kötlu Bjarnadóttur og Soffíu Magnúsdóttur, vegna sölu Sigumundar Heiðars og Kötlu Bjarnadóttur á fasteigninni Presthúsabraut 28, 300 Akranesi, þann 19. ágúst [2003] til stefnenda og á Soffíu Magnúsdóttur sem löggilts fasteignasala, vegna umsjónar hennar með sölunni, sökum leyndra galla á eigninni.“ Þá gera stefnendur kröfu um að stefndu verði gert að greiða málskostnað.
Stefndu Katla og Sigmundur krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að þau verði sýknuð af kröfum stefnenda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.
Stefnda Soffía krefst þess að hún verði sýknuð af kröfum stefnenda auk þess sem þeim verði gert að greiða henni málskostnað. Þótt stefnda geri ekki kröfu um frávísun málsins tekur hún undir röksemdir stefndu Kötlu og Sigmundar til stuðnings frávísunarkröfu og telur jafnframt að vísa beri málinu frá dómi án kröfu.
Með úrskurði þessum er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu Kötlu og Sigmundar. Í þeim þætti málsins krefjast stefnendur þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og að málið verði tekið til efnismeðferðar.
I.
Með kaupsamningi 19. ágúst 2003 keyptu stefnendur fasteignina Presthúsabraut 28 á Akranesi af stefndu Kötlu og Sigmundi. Um er að ræða einbýlishús á tveimur hæðum 143,2 m² að stærð. Milligöngu við söluna hafði stefnda Soffía, löggiltur fasteignasali hjá Fasteignamiðlun Vesturlands ehf. Kaupverð eignarinnar var 11.000.000 krónur.
Í söluyfirliti eignarinnar er að finna nánari lýsingu á húsinu auk þess sem tekið er fram að starfsmanni fasteignasölunnar sé ekki kunnugt um aðra galla á eigninni en þá sem tilgreindir eru í þeirri lýsingu. Í lýsingu á eigninni segir meðal annar svo:
„...Rafmagnstafla og lagnir endurnýjað. Timburgólf milli hæða. Hluti gólfs er timburgólf frá 1882, nýrri hluti er steypt 1966, ath. að gólf halla. Eftir að einangra undir hálfa gólfplötu. Skolplögn endurnýjuð frá húsvegg út í götu, mynduð 2003, í lagi. Búið að leggja drenlögn að mestum hluta, eftir að leggja í planið. ...“
Samkvæmt kaupsamningi var eignin afhent stefnendum 15. september 2003. Eftir að þau höfðu búið í eigninni um skamma hríð töldu þau sig verða var við að gólf á neðri hæð í eldri hluta hússins væri farið að síga. Í kjölfarið settu stefnendur sig í samband við Smára Jónsson, fyrri eiganda hússins, en yfirlýsing hans frá 30. mars 2004 liggur frammi í málinu. Þar fullyrðir Smári að hann hafi við sölu eignarinnar árið 1997 til stefndu Kötlu og Sigmundar gert þeim grein fyrir að gólf í eldra hluta hússins væri ónýtt og að nauðsynlegt væri að endurnýja það. Stefnda Soffía hafði þá einnig milligöngu um söluna og heldur Smári því fram að henni hafi verið kunnugt um ástand hússins að þessu leyti. Þá er fullyrt í yfirlýsingunni að stefndu Katla og Sigmundur hafi fengið trésmið til að gera við gólfið til bráðabirgða svo það héldist uppi.
Stefnendur hafa aflað áætlunar frá Trésmiðjunni Akur um kostnað við að lagfæra gólfi hússins. Þar kemur fram að rífa þurfi gólfið og veggi sem á því standa og endurnýja. Kostnaður við þetta nemi um 1.450.000 krónur en ekki sé gert ráð fyrir kostnaði við málningu, pípulagnir eða raflagnir.
Stefnendur töldu sig einnig verða vör við rakaskemmdir í veggjum og gera þau ráð fyrir að seljendum hafi verið kunnugt um það við sölu eignarinnar. Þá telja þau að ekki sé unnt að hafast við í húsinu nema þegar hlýtt er í veðri sökum kulda sem leitar inn í húsið um gólfið. Þessu til viðbótar halda stefnendur því fram að stefndu hafi fullyrt við sölu eignarinnar að þak væri endurnýjað. Í ljós hafi hins vegar komið að eingöngu var búið að negla járnplötu á þakið en ekki ganga frá samskeytum, rennum eða ljúka frágangi þannig að þakið væri regnhelt. Loks halda stefnendur því fram að drenlagnir hafi ekki fundist og að neysluvatnslagnir séu stíflaðar að mestu leyti nema í þvottahúsi.
Stefnendur skoðuðu eignina í tvígang fyrir kaupin en þau halda því fram að húsgögn hafi komið í veg fyrir að sjá mátti að gólfi á neðri hæð væri áfátt. Jafnframt halda stefnendur því fram að stefndu hafi vanrækt að veita viðhlítandi upplýsingar um ástand eignarinnar við kaupin. Af þessum sökum beri stefndu skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum.
II.
Af hálfu stefndu Kötlu og Sigmundar er krafa um frávísun málsins reist á því að dómkröfur stefnenda séu vanreifaðar og málatilbúnaður allur svo óglöggur að stefndu geti ekki tekið til varnar með viðeigandi hætti. Einnig benda stefndu á að stefnendur hafi ekki lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings kröfum sínum, svo sem með því að afla matsgerðar. Telja stefndu að þessi málatilbúnaður fari gegn 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Loks benda stefndu Katla og Sigmundur á að þau beri ekki skyldur með öðrum í tilefni af sölu fasteignarinnar.
Af hálfu stefnenda er vísað til þess að þau hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um bótaskyldu stefndu og leiti því viðurkenningardóms um kröfur sínar á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá andmæla stefnendur því að málatilbúnaður þeirra sé óljós og málið vanreifað.
III.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili sem hefur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands leitað viðurkenningardóms um kröfu sína í þeim efnum. Gildir þetta án tillits til þess hvort honum væri þess í stað unnt að leita dóms sem fullnægja mætti með aðför. Á þessum grundvelli var stefnendum heimilt að höfða málið til viðurkenningar á bótaskyldu stefndu Kötlu og Sigmundi vegna vafnefnda þeirra á kaupsamningi um fasteign og stefndu Soffíu vegna milligöngu hennar sem löggilts fasteignasala við sölu eignarinnar.
Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal greina í stefnu svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda. Um viðurkenningarmál er jafnframt gerður sá áskilnaður að kröfur lúti að „viðurkenningu á tilteknum réttindum“, eins og tekið er fram í ákvæðinu. Felst í þessu að kröfugerðin sé svo ákveðin og ljós að hún geti orðið dómsniðurstöðu í máli þar sem sakarefninu er ráðið til lykta, ef lög standa til þeirra málaloka.
Í kröfugerð stefnenda er krafist viðurkenningar á því að þau eigi skaðabótarétt in solidum á hendur stefndu vegna leyndra galla á fasteigninni að Presthúsabraut 28 á Akranesi. Þannig er í kröfugerðinni með engu móti afmarkað í hverju sá galli sé fólginn sem leiði til bótaskyldu stefndu. Að þessu leyti er kröfugerð stefnenda svo óljós og ónákvæmt að óhjákvæmilegt er þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi án þess að fjalla þurfi um aðrar ástæður sem stefndu Katla og Sigmundur hafa teflt fram fyrir frávísunarkröfu sinni.
Eftir 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnendum in soldium gert að greiða hverjum stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir. Af hálfu réttargæslustefnda Vátryggingafélags Íslands hf. er ekki gerð krafa um málskostnað.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Jónas B. Guðmundsson og Sigurborg Þórsdóttir, greiði hvorum stefndu, Kötlu Bjarnadóttur, 20.000 krónur í málskostnað og stefndu, Soffíu Magnúsdóttur, 30.000 krónur.