Hæstiréttur íslands
Mál nr. 581/2006
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Miski
- Matsgerð
- Málsástæða
- Aðfinnslur
|
|
Mánudaginn 2. apríl 2007. |
|
Nr. 581/2006. |
Alcan á Íslandi hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Magnúsi Guðmundssyni (Ástráður Haraldsson hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Miski. Matsgerð. Málsástæða. Aðfinnsla.
M krafði A um bætur vegna slyss sem hann varð fyrir við vinnu sína í einum af kerskálum álvers A í Straumsvík 28. maí 2001. Hann var á leið á reiðhjóli austur svokallaðan hliðargang og beygði til vinstri áleiðis inn á miðgang þegar hann lenti í árekstri við lyftara sem ekið var austur þann gang. Samkvæmt grein 7.3.1. í akstursreglum A bar ökumanni lyftarans að virða stöðvunarskyldu fyrir umferð sem kom þvert á akstursstefnu hans. Var því talið að umræddur starfsmaður A hafi átt að víkja fyrir umferð sem kom til hægri á akstursstefnu hans og bæri hann því meginsök á slysinu. M hafi þó borið að gæta sérstakrar varúðar er hann hjólaði inn á miðganginn og var hann því látinn bera einn þriðja hluta tjóns síns sjálfur. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna taldist sannað að hluta af heilsufarseinkennum M mætti rekja til umrædds slyss. Hæstiréttur taldi matsgerðina vera ítarlega og rökstudda og að niðurstöðu hennar hefði ekki verið hnekkt. Þá hafi A ekki gert athugasemdir við framkvæmd matsgerðarinnar. Var því fallist á niðurstöðu matsins um að varanleg örorka M vegna slyssins væri 10% og varanlegur miski 10%. Var A dæmt til að greiða M bætur í samræmi við það.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson og Pétur Kr. Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. nóvember 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 28. nóvember 2006. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 2.388.886 krónur auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 708.000 krónum frá 28. maí 2001 til 14. nóvember 2001 en af 2.388.886 krónum frá þeim degi til 6. maí 2005 og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann staðfestingar héraðsdóms um málskostnað og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi varð fyrir slysi við vinnu sína í einum af kerskálum álvers aðaláfrýjanda í Straumsvík 28. maí 2001. Hann var á leið á reiðhjóli austur svokallaðan hliðargang en beygði til vinstri áleiðis inn á miðgang þegar hann lenti í árekstri við lyftara, sem ekið var austur þann gang. Milli ganganna tveggja liggja álbræðsluker og bar eitt þeirra í milli gagnáfrýjanda og ökumanns lyftarans í þann mund er sá fyrrnefndi tók beygjuna inn að miðganginum. Aðila greinir á um hvort ökumaður lyftarans eða gagnáfrýjandi eigi sök á slysinu svo og hvort orsakasamband sé á milli þess og líkamstjóns gagnáfrýjanda.
Í stefnu reisti gagnáfrýjandi kröfu sína um skaðabætur á hendur aðaláfrýjanda meðal annars á því að ökumaður lyftarans hafi ekki gætt nægilegrar aðgæslu við akstur hans. Þessari málsástæðu mótmælti aðaláfrýjandi í greinargerð sinni í héraði með þeim rökum að ökumaður lyftarans hafi verið að sinna hefðbundnum störfum á svæði sem sérstaklega væri ætlað til aksturs vinnutækja, meðal annars lyftara. Gagnáfrýjandi hafi hjólað þvert á akstursstefnu lyftarans og þannig brotið svokallaðar akstursreglur, sem gilt hafi um umferð í kerskálunum. Aðaláfrýjandi lagði fram akstursreglurnar í sama þinghaldi og greinargerð sína. Í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti hélt aðaláfrýjandi því fram að gagnáfrýjandi hafi fyrst við flutning málsins í héraði haft uppi þá málsástæðu að hann hafi átt forgang gagnvart lyftaranum samkvæmt akstursreglunum. Ekki verður fallist á með aðaláfrýjanda að um nýja málsástæðu hafi verið að tefla, enda fólust í þessu andsvör gagnáfrýjanda við þeirri varnarástæðu aðaláfrýjanda að sá fyrrnefndi hafi brotið reglurnar. Var ekki tilefni til að færa þau fram fyrr en við munnlegan flutning málsins í héraði.
Óumdeilt er að slysið varð þar sem mætast miðgangur og þvergangur milli kera númer 1139 og 1141. Aðaláfrýjandi heldur því fram að öll umferð hafi verið bönnuð um þennan milligang. Af ljósmyndum af vettvangi og öðrum gögnum er ljóst að umferð ökutækja og vinnuvéla hefur verið um báða gangana svo og hliðarganginn sem er nokkuð mjórri en miðgangurinn. Við sum keranna eru stöðvunar- eða biðskyldumerki þar sem akstursleið er um milliganga þvert á akstursleið eftir kerskálum. Ekkert slíkt merki var hins vegar við þann milligang sem gagnáfrýjandi fór um er hann flutti sig af hliðargangi og inn á miðgang þar sem slysið varð. Fram kemur í grein 7.1 í fyrrnefndum akstursreglum að þær eru settar til viðbótar við almennar umferðarreglur. Segir í grein 7.3.1 að ökutæki sem aka langsum eftir kerskálunum verði að virða stöðvunarskyldu fyrir umferð sem kemur þvert á kerskálann. Að auki sé biðskyldumerking við ker 100 í báðum skálum og stöðvunarskyldumerki við ker 80 í skála 1. Að öðru leyti gildi almennar umferðarreglur. Samkvæmt þessu átti ökumaður lyftarans að víkja fyrir umferð sem kom frá hægri á akstursstefnu hans, en eins og fram kemur í héraðsdómi kvaðst hann ekki hafa séð til ferðar gagnáfrýjanda. Verður því talið að þessi starfsmaður aðaláfrýjanda hafi átt meginsök á slysinu. Gagnáfrýjanda bar einnig að gæta sérstakrar varúðar er hann hjólaði inn á miðganginn þar sem hann mátti vænta umferðar vinnuvéla um ganginn. Verður hann því látinn bera einn þriðja hluta tjóns síns sjálfur.
Eins og fyrr segir telur aðaláfrýjandi að ósönnuð séu orsakatengsl á milli líkamstjóns gagnáfrýjanda og slyssins. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna 30. mars 2005 er byggt á því að hluta af heilsufarseinkennum gagnáfrýjanda megi rekja til þess. Gagnáfrýjandi búi hins vegar við meiri örorku sem ekki verði með öryggi talin til afleiðinga slyssins. Vegna þeirra heilsufarseinkenna sem með vissu megi rekja til slyssins búi gagnáfrýjandi við verulegt óöryggi í starfi miðað við það sem áður var. Ef svo færi að honum yrði sagt upp núverandi starfi væri þess ekki að vænta að hann fengi atvinnu sem sanngjarnt væri að ætlast til að hann tækist á hendur. Þá telja matsmenn miklar líkur vera á því að gagnáfrýjandi verði að láta af störfum fyrr en ella sökum heilsubrests vegna slyssins. Gagnáfrýjandi búi auk þess við allnokkra skerðingu á getu til heimilisstarfa, þar með talið til að halda við húsi sínu, en það megi telja til sérhæfðra heimilisstarfa. Fallist er á með hinum dómkvöddu matsmönnum að framangreind atriði hafi áhrif við mat á varanlegri örorku gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi hefur ekki gert athugasemdir við framkvæmd matsgerðarinnar. Hún er ítarleg og rökstudd og hefur niðurstöðu hennar ekki verið hnekkt. Að þessu virtu verður niðurstaða matsins um 10% varanlegan miska gagnáfrýjanda og 10% varanlega örorku hans lögð til grundvallar í málinu. Samkvæmt þessari niðurstöðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 1.592.590 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir, en um útreikning bótanna er ekki ágreiningur í málinu.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Það athugist að héraðsdómara hefði verið rétt að kveðja til sérfróða meðdómendur þar sem aðilar deildu um afleiðingar slyssins á læknisfræðilegar afleiðingar slyssins. Eins og gögnum málsins er háttað nægir þetta þó ekki til að ómerkja héraðsdóm.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Alcan á Íslandi hf., greiði gagnáfrýjanda, Magnúsi Guðmundssyni, 1.592.590 krónur með 4,5% ársvöxtum af 472.000 krónum frá 28. maí 2001 til 14. nóvember sama ár, en af 1.592.590 krónum frá þeim degi til 6. maí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. september sl., er höfðað með stefnu birtri 3. nóvember sl.
Stefnandi er Magnús Guðmundsson, Fjarðarseli 2, Reykjavík.
Stefndi er Alcan á Íslandi hf., Straumsvík, Hafnarfirði.
Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.388.886 krónur auk vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 708.000 krónum frá 28. maí 2001 til 14. nóvember 2001, en af 2.388.886 krónum frá þeim degi til 6. maí 2005 og dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Til vara gerir stefndi þær dómkröfur að sök verði skipt í málinu, dómkröfur lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur enda engar dómkröfur gerðar á hendur félaginu.
MÁLSATVIK
Stefnandi varð fyrir slysi við vinnu sína í álverinu í Straumsvík hinn 28. maí 2001. Nánar tiltekið voru tildrög slyssins þau að stefnandi var á leið á reiðhjóli í austurátt frá keri 1141 í hliðargangi en þaðan breytti hann um stefnu og ætlaði út á miðgang í átt að keri 1139 þegar árekstur varð með stefnanda og lyftara, með raflausnardeiglu framan á. Deiglan lenti ofarlega á vinstri öxl stefnanda og þeytti honum á þekjuhorn kers 1139. Stefnandi telur að ökumaður lyftarans hafi ekki orðið var við áreksturinn og ekið áfram en skyggni úr lyftaranum hafi verið takmarkað vegna ástands glerja og deiglunnar sem var framan á honum. Ökumaður lyftarans hafi einungis haft útsýni út um hliðarglugga sem snéri frá stefnanda en þar að auki hafi aðvörunarljós á lyftaranum ekki verið í lagi. Stefnandi fékk högg á bakið og hægri öxl og hruflaðist hann. Stefnandi tilkynnti slysið til Reynis E. Guðjónssonar, sem kom ásamt Baldri Guðjónssyni flokkstjóra í kerskála, sem gerði að sárum stefnanda. Slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins og fór því engin rannsókn fram á ástandi lyftarans og aðstæðum á slysstað. Stefnandi gerði samantekt um slysið sjálfur og lét stefnda það í té. Fljótlega eftir slysið fór stefnandi í hlutastarfsfjarveru, sem er kjarasamningsbundinn réttur til fjarveru sem búið er að vinna sér inn á ársgrundvelli, og var því ekkert líkamlegt álag hjá honum fyrstu vikurnar eftir slysið. Fljótlega eftir slysið kveður stefnandi afleiðingar þess hafa farið versnandi og leitaði stefnandi af þeim sökum til heimilislæknis síns, Sigurbjörns Sveinssonar. Leitaði stefnandi meðal annars aðstoðar sjúkraþjálfara til þess að reyna að fá bót meina sinna en án árangurs. Við skoðun lækna hafi komið í ljós að stefnandi hefði skaddast á hryggjarlið og tognað í baki. Eftir að stefnandi hóf störf að nýju að lokinni hlutastarfsfjarveru hafi komið í ljós að hann gæti ekki unnið þá vinnu sem hann hefði unnið fyrir slysið. Hafi þá fyrst komið í ljós að afleiðingar slyssins hefðu verið stórlega vanmetnar bæði af hálfu stefnanda sjálfs sem og stefnda. Stefnandi var frá vinnu vegna líkamlegs ástands síns fyrstu fjórar vikurnar eftir að hann hóf störf að lokinni hlutastarfsfjarveru. Meðferðir sjúkraþjálfara og lækna hafi skilað litlum árangri. Reynt hefur verið að sprauta í öxlina en án árangurs.
Atli Þór Ólason, læknir, lagði mat á afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum og var niðurstaða hans sú að varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda væri 8%. Óskað var álits Örorkunefndar á afleiðingum slyss stefnanda og var niðurstaða hennar að stefnandi hefði ekki hlotið varanlega örorku vegna slyssins. Stefnandi tali niðurstöðu nefndarinnar vera í algeru ósamræmi við raunverulegar afleiðingar slyssins og var af þeim sökum óskað eftir því að dómkvaddir matsmenn legðu mat á afleiðingar slyssins. Guðjón Baldursson læknir og Páll Sigurðsson lagaprófessor voru dómkvaddir til matsins og var það niðurstaða þeirra að stefnandi hefði hlotið tognunaráverka á mjóbaki án sköddunar á bein- eða taugavef í vinnuslysinu. Hins vegar var niðurstaðan sú að mein stefnanda í hægri öxl tengdust ekki slysinu. Niðurstaða matsmanna um afleiðingar slyssins eru neðangreindar:
Þjáningarbætur batnandi
frá 28. maí 2001 til 14. nóvember 2001.
Varanlegur miski 10 %
Varanleg örorka 10 %
Stöðugleikapunktur 14. nóvember 2001.
Réttargæslustefnda var sent kröfubréf þann 6. apríl 2005. Bótaskyldu var hafnað á þeim forsendum að ekki væri orsakatengsl milli meina stefnanda og slyssins. Stefnandi er þessu ósammála og er málshöfðun þessi því óhjákvæmileg.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi beri ótvíræða bótaábyrgð á vinnuslysi stefnanda. Grundvallist sú ábyrgð á meginreglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð vegna saknæmrar vangæslu starfsmanna og vanbúnaðar á vinnustað.
Ökumanni lyftarans hafi borið að gæta ríkrar aðgæslu við akstur lyftarans enda um hættulegt tæki að ræða á svæði þar sem starfsmenn séu við störf. Bágborið ástand lyftarans hafi þar að auki lagt sérstaka skyldu á ökumann hans til þess að gæta varúðar enda hafi skyggni út um glugga lyftarans verið lélegt auk þess sem skyggni hafi verið takmarkað vegna deiglunnar framan á. Góður og gegn ökumaður hefði undir þessum kringumstæðum átt að tilkynna stefnda um að lyftarinn væri í ónothæfu ástandi vegna skerts útsýnis og skorts á aðvörunarljósum. Ökumaðurinn hafi hins vegar látið það undir höfuð leggjast og ekið lyftaranum í saknæmu ástandi. Þessi vangæsla ökumannsins hafi valdið tjóni stefnanda og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.
Þá hafi stefnda borið að tryggja að ökumaður vinnuvélarinnar hefði nægilega þjálfun og leiðbeiningar um það hvernig hann ætti að bregðast við hættu sem notkun vinnulyftarans kynni að hafa í för með sér. Vísar stefnandi til 9. gr. reglugerðar um notkun tækja nr. 431/1997.
Einnig er byggt á meginreglu skaðabótaréttar um saknæman vanbúnað á vinnustað. Samkvæmt meginreglum laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að tæki sem starfsmönnum eru látin í té séu í góðu ásigkomulagi þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra sem og annarra starfsmanna stafi hætta af. Vísist í þessu sambandi einnig til reglugerðar nr. 431/1997 um notkun tækja.
Lyftarinn hafi verið vanbúinn að tvennu leyti og sá vanbúnaður hafi valdið slysi stefnanda. Í fyrsta lagi hafi framrúða verið mjög léleg og þar af leiðandi hafi útsýni úr lyftaranum verið verulega skert. Í öðru lagi hafi aðvörunarljós lyftarans verið biluð og það gert að verkum að stefnandi hafi ekki orðið lyftarans var fyrr en hann keyrði á hann. Ofangreindur vanbúnaður lyftarans hafi valdið árekstrinum. Stefnandi áréttar að það sé grundvallaratriði við akstur vinnulyftara að ökumaður hans hafi góða yfirsýn yfir ökuleiðina en vanbúnaðurinn hafi valdið því að svo var ekki. Ökumaður lyftarans hafi ekki einu sinni orðið var við áreksturinn heldur haldið áfram sína leið án þess að stöðva för sína og hlúa að stefnanda. Af þeirri staðreynd sé ljóst að útsýni ökumannsins hafi verið verulega bágborið. Þá byggir stefnandi á því að ef aðvörunarljós hefðu verið í lagi hefði hugsanlega mátt afstýra tjóninu þar sem stefnandi hefði orðið lyftarans var í tæka tíð til þess að forða sér frá honum. Þar sem slysið hafi ekki verið tilkynnt liggi ekki fyrir númer vinnulyftarans og þar af leiðandi skoðunarskýrsla Vinnueftirlits ríkisins um það hvort hann hafi uppfyllt kröfur þess um ástand og öryggisbúnað. Af þessum skorti á gögnum beri stefndi halla, enda leiði hann beint af eigin vanrækslu hans um tilkynningu slyssins um leið og honum hafi orðið ljóst að varanlegt heilsutjón hefði orðið. Þá megi einnig leiða líkur að því að í þeim tilvikum þar sem vélknúið ökutæki er ekið á vegfaranda hljótist varanlegt heilsutjón þannig að slysið beri að tilkynna samstundis.
Slys stefnanda hafi orðið af ofangreindum vanbúnaði, sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Á stefnda hvíli lögmælt skylda til þess að tryggja að tæki séu örugg í notkun og séu þar að auki ekki vanbúin. Vísist í því sambandi til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Sérstaklega er fjallað um skyldu atvinnurekenda til þess að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað í 13. gr. laga nr. 46/1980. Þá fjalli VII. kafli sérstaklega um vélar og tækjabúnað. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um notkun tækja nr. 431/1997 séu settar fram lágmarkskröfur til atvinnurekenda um öryggi og hollustu þegar starfsmenn noti tæki á vinnustöðum. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skuli atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að tæki sem starfsmönnum séu látin í té innan fyrirtækis henti til þeirra verka sem vinna á eða séu hæfilega löguð að þeim, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skuli atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að áhættu sé haldið í lágmarki þegar ekki sé að fullu unnt að tryggja að starfsmenn geti notað tækið án þess að hætta öryggi sínu og heilsu. Með vísan til framanritaðs hvíli á stefnda skylda samkvæmt settum rétti til þess að tryggja að tækjabúnaður sé í fyrsta lagi útbúinn þannig að starfsmönnum stafi ekki hætta af og í öðru lagi að gera ráðstafanir til þess að tryggja öryggi starfsmanna. Þessa lögmæltu skyldu hafi stefndi virt að vettugi þegar hann hafi látið undir höfuð leggjast að skipta um rúður í lyftaranum, þannig að skyggni úr honum væri ekki takmarkað, og að sjá til þess að öll aðvörunarljós væru í lagi.
Af vanbúnaði vélarinnar hafi tjón stefnanda hlotist og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni með vísan til sakarreglu skaðabótaréttar.
Réttargæslustefndi hafi hafnað bótaskyldu fyrir hönd stefnda á þeim grunni að engin orsakatengsl væru milli meina stefnanda og slyssins. Stefnandi mótmælir þessum málatilbúnaði og vísar sérstaklega til matsgerðar dómkvaddra matsmanna sem reki mjóbaksáverka og þrekskerðingu stefnanda til slyssins. Við áreksturinn hafi stefnandi kastast og fengið þungt högg á hrygginn og hægri öxl. Alkunna sé að það taki oft langan tíma að áverkar vegna höggs komi endanlega í ljós. Það að stefnandi hafi ekki kennt þeirra strax eftir slysið, og ekki fyrr en hann hóf störf að lokinni hlutastarfsfjarveru, leiði ekki til þess að afleiðingarnar megi ekki rekja beint til slyssins. Er því sérstaklega mótmælt að stefndi geti firrt sig bótaábyrgð vegna slyssins með því einu að telja engin orsakatengsl vera til staðar þvert á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna. Stefnandi hafi ekki lent í öðru hnjaski en ofangreindu slysi og því ekkert annað sem gæti orsakað þau líkamlegu vandkvæði sem hafa hrjáð hann frá því að slysið átti sér stað.
Stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt lögboðinni skyldu, sbr. ákvæði laga nr. 46/1980. Samkvæmt ákvæði 79. gr. laganna skuli atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyi eða verði óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur séu á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skuli tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Þótt stefnandi hafi ekki orðið óvinnufær vegna slyssins fyrr en að lokinni hlutastarfsfjarveru breyti það engu um skyldu stefnda til þess að tilkynna slysið þegar honum hafi orðið ljóst að afleiðingar þess hefðu í för með sér varanlegt heilsutjón fyrir stefnanda. Þar sem stefndi hafi virt þessa skyldu að vettugi sé skortur á gögnum varðandi slysið, sérstaklega sem tengist ástandi vinnulyftarans og aðstæðum að öðru leyti. Af þessu hafi hlotist óvissa um nákvæm tildrög slyssins. Með vísan til ofanritaðs telur stefnandi að stefndi verði að bera hallann af hugsanlegri óvissu um nákvæma orsök og tildrög slyssins, enda skorturinn bein afleiðing af hans eigin vanrækslu og bæði óeðlilegt og ósanngjarnt að það varði stefnanda réttarspjöllum.
Um eigin sök stefnanda segir að hann verði fráleitt sviptur bótarétti með vísan til eigin sakar. Aðvörunarljós á lyftaranum hafi ekki verið í lagi, en þau hefðu hugsanlega getað komið í veg fyrir slysið, sérstaklega þar sem hávaði sé til staðar. Stefndi hafi hins vegar látið undir höfuð leggjast að tryggja að vélin væri í samræmi við almennar öryggiskröfur. Vanræksla stefnda sé mjög alvarleg með tilliti til hættueiginleika lyftarans, sérstaklega þar sem umferðarleiðir hans hafi verið innan um gangandi og hjólandi vegfarendur.
Stefnandi vísar til reglna skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð og ábyrgð atvinnurekanda á vanbúnaði á vinnustað. Þá byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 50/1993 um skaðabætur. Stefnandi byggir einnig á ákvæðum laga nr. 46/1980. Um varnarþing vísast til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Aðalkrafa stefnda um sýknu er byggð á því, að ekki sé sannað að hann eða starfsmenn hans hafi valdið slysi stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti. Hins vegar hafi stefnandi með eigin gáleysi orðið fyrir slysi og eigi hann alla sök á því. Verði hann því að bera tjón sitt sjálfur. Íslenskur skaðabótaréttur byggi á sakarreglunni, þ.e. aðili verður ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars nema tjónið verði rakið til sakar hans. Sönnunarbyrðin fyrir því að stefndi sé skaðabótaskyldur að íslenskum lögum hvíli á stefnanda og er því hafnað sem ósönnuðu að rekja megi slysið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanns stefnda.
Því er mótmælt sem ósönnuðu að ökumaður lyftarans hafi sýnt af sér vangæslu í starfi sem leiði til skaðabótaskyldu vegna óhapps stefnanda. Ökumaður lyftarans hafi verið að sinna hefðbundnum störfum þennan dag og verið á svæði sem sé sérstaklega ætlað til aksturs vinnutækja m.a. lyftara. Það hafi verið stefnandi sem hjólað hafi þvert á umferðaleið lyftarans í andstöðu við öryggisreglur sem gildi hjá stefnda um akstursleiðir. Það hafi því verið eigið gáleysi stefnanda sem valdið hafi óhappinu. Stefnanda, sem var á reiðhjóli, hafi borið að halda sig á þar til gerðum reiðhjólastígum sem hann hafi og gert þar til hann allt í einu hafi beygt til vinstri og farið með því beint inn á akstursleið vinnuvéla án þess að gæta að sér. Ákoma stefnanda sé inn í hlið lyftarans. Á milli stefnanda og lyftarans hafi verið ker og hafi ökumanni lyftarans verið fyrirmunað að sjá stefnanda. Það hefði ekkert slys orðið hefði stefnandi virt umferðareglur þær sem gildi um akstursleiðir stefnda. Það sé ekkert fram komið í málinu sem sanni það að ökumaður lyftarans hafi ekki haft alla þá aðgæslu við akstur lyftarans sem honum var kleift.
Því er mótmælt sem röngu að lyftarinn hafi verið í ónothæfu ástandi. Vélar og tæki stefnda séu skoðuð og tekin út með reglubundnum hætti, m.a. sé með reglubundnum hætti skipt um rúður. Á starfsmönnum hvíli rík skylda til að tilkynna ef eitthvað sé athugavert við útbúnað tækja sem eru í notkun. Á slysdegi hafi ekkert verið athugavert við ástand lyftarans, gler verið í lagi og fjólublátt aðvörunarljós ofan á þaki lyftarans hafi ekki verið bilað.
Engin tilraun sé gerð til að rökstyðja með hvaða hætti stefndi hafi brotið gegn ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 431/1997 um notkun tækja. Ökumaður lyftarans sé með 20 ára starfsreynslu hjá stefnda og með tilskilin réttindi til að stjórna m.a. lyftara. Því er mótmælt að stefndi hafi með einhverjum hætti brotið gegn framangreindu ákvæði.
Það sé ósannað að lyftarinn hafi verið vanbúinn. Stefndi skipti með reglubundnum hætti um gler í lyfturum og öðrum vinnutækjum og á slysdegi hafi ekkert verið að rúðum lyftarans. Eins og áður segi hafi ákoma stefnanda á lyftarann verð á hlið hans. Á milli stefnanda og lyftarans hafi verið ker sem valdið hafi því að útsýni beggja aðila til hliðar hafi verið skert. Stefnandi hafi skyndilega beygt þvert inn á akstursleið lyftarans og ökumaður lyftarans því ekki verið í aðstöðu til að varna óhappinu. Þá sé það ósannað að aðvörunarljós lyftarans hafi verið biluð. Ofan á lyftaranum sé fjólublátt aðvörunarljós sem verið hafi í lagi á slysdegi. Hugsanleg ástæða þess að stefnandi hafi ekki séð ljósið sé sú að kerið á milli hans og lyftarans hafi byrgt honum sýn. Stefnandi hafi ákveðið að beygja inn á akstursleið vinnutækja og því skylda hans að fara varlega í ljósi skerts útsýnis. Það hafi hann ekki gert og óhappið átt sér stað. Komi í ljós að lyftarinn hafi að einhverju leyti verið vanbúinn á slysdegi séu orsakatengsl á milli þess meinta vanbúnaðar og slyssins ósönnuð en stefnandi beri sönnunarbyrðina um það.
Tilvísun stefnanda til almennra ákvæða laga nr. 46/1980 og reglna nr. 431/1997 um notkun tækja gefa engar leiðbeiningar við gáleysismat.
Stefndi telur að ósönnuð séu orsakatengsl á milli þeirra líkamseinkenna sem hrjá stefnanda og óhappsins hinn 28. maí 2001. Stefndi fallist ekki á niðurstöður þær sem birtist í matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þá telur stefndi, verði talið að orsakatengsl séu á milli einhverra þeirra líkamseinkenna sem stefnandi býr við vegna óhappsins, að þau leiði ekki til varanlegrar örorku.
Í málinu liggi fyrir þó nokkur læknisvottorð þar sem orsakatengsl á milli líkamseinkenna stefnanda og óhappsins séu dregin í efa eða talin ólíkleg. Megi í því samhengi nefna t.d. læknisvottorð Alberts Páls Sigurðssonar þar sem fram komi að við skoðun hafi engin merki fundist um bakverki og segi í vottorðinu: „Óljóst er hvort bein tengsl séu milli umrædds vinnuslyss og verkjavandamála Magnúsar, sérstaklega í ljósi þess hve langan tíma það tók fyrir þau að koma fram.“ Loks segi: „Mér þykir ólíklegt að festumein í hæ. handlegg tengist umræddu slysi [beint], hefði búist við að þau hefði komið fyrr [fram].“
Í læknisvottorði Ágústs Kárasonar segi orðrétt: „Mitt álit er að þau einkenni sem hann hefur í öxlinni og koma fram 1 ári eftir slys (að hans sögn í maí 2002). Þau einkenni eru óljós og flokkast fremur sem sjúkdómur en afleiðing slyssins að mínu mati, vegna hins langa tíma frá slysinu að einkennum hans.“ Þá segi örlítið neðar í vottorðinu: „Þess ber að geta að einkenni Magnúsar í bakinu geta líka flokkast sem sjúkdómur og gerir það í flestum tilfellum.“
Í ákvæði 78. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segi að atvinnurekandi skuli skrá öll slys sem eigi sér stað á vinnustað og m.a. leiða til óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga. Í 79. gr. laganna segi að atvinnurekandi skuli tilkynna án ástæðulausrar tafar til Vinnueftirlits ríkisins slys sem falli undir 78. gr. laganna. Um tilkynningu vinnuslysa gildi reglur nr. 612/1989. Samkvæmt 1. gr. reglnanna séu slys tilkynningaskyld ef áverkinn sem af þeim hlýst getur valdið langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, svo sem ef slasaði missir útlim eða hluta af útlim, beinbrotnar, fer úr liði, fær meiriháttar sár, missir meðvitund, hlýtur skemmdir á taugavef, verður fyrir alvarlegu augnslysi, innvortis meiðslum eða eitrun. Það sé ljóst miðað við gögn málsins að áverkinn sem stefnandi varð fyrir fellur ekki undir framangreinda skilgreiningu og eigi því reglur nr. 612/1989 ekki við í máli þessu.
Í málinu liggi fyrir að stefnandi sjálfur hafi talið afleiðingar óhappsins litlar sem engar, sbr. atviklýsing í stefnu og önnur skjöl. Stefnandi hafi ekki einu sinni talið ástæðu til að láta gera slysaskýrslu sem stefndi hafi þó ákveðið að gera. Stefnandi hafi lokið sínum vinnudegi hinn 28. maí 2001 og tekið þær vaktir sem honum hafi borið næstu daga á eftir. Þá hafi stefnandi farið í frí og ekki komið aftur til starfa fyrr en í september, 3 mánuðum eftir að óhappið varð. Í fyrsta læknisvottorði sem borist hafi stefnda segi að óvinnufærni stefnanda haustið 2001 sé vegna sjúkdóms en ekki slyss. Það hafi því hvorki verið tilefni til né hvílt lagaskylda á stefnda að tilkynna óhapp stefnanda til Vinnueftirlits ríkisins. Þrátt fyrir það hafi stefndi ákveðið að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins og gert það með tilkynningu, dagsettri 6. september 2002.
Þá bendir stefndi á að skortur eða vangæsla á tilkynningu í tæka tíð um vinnuslys til Vinnueftirlits ríkisins sé ekki sjálfstæður grundvöllur skaðabótaskyldu, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar. Því verði sönnunarbyrðinni í máli þessu hvorki snúið við né skaðabótaskylda byggð á því einu, að tilkynningu um slysið, sem að mati stefnda var ekki tilkynningarskylt, hafi verið áfátt.
Varakrafa stefnda er reist á því að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar stefnanda og óhappatilviljunar með vísan til þeirra röksemda sem reifaðar séu í aðalkröfunni og verði stefnandi að bera tjón sitt í hlutfalli við það.
Stefnandi byggi dómkröfu sína á matsgerð dómkvaddra undirmatsmanna frá 30. mars 2005. Slys stefnanda hafi orðið 28. maí 2001 og gildi því skaðabótalög nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, um ákvörðun skaðabóta.
Varakrafa stefnda er á því byggð að niðurstöður matsgerðar dómkvaddra undirmatsmanna séu ekki réttar. Stefndi fallist ekki á niðurstöðu matsgerðarinnar um að stefnandi hafi vegna óhappsins hlotið 10 stiga varanlegan miska og 10% varanlega örorku. Í þessu samhengi bendir stefndi á að í málinu liggi fyrir álitsgerð Örorkunefndar, sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski væri 5 stig og varanleg örorka engin, en nefndinni sé ætlað að tryggja festu og samræmi í mati á varanlegum afleiðingum slysa. Að álitsgerðinni standi þrír sérfræðingar, þar á meðal bæklunarlæknir, en læknir sá er kom að gerð matsgerðar dómkvaddra matsmanna sé krabbameinslæknir. Sönnunargildi álitsgerðar Örorkunefndar sé mikið enda sé hún vel rökstudd og í samræmi við þau fræði sem örorkumöt grundvallist á og engir ágallar séu á álitsgerðinni. Í gögnum málsins liggi fyrir að orsakatengsl milli líkamseinkenna matsþola og óhappsins séu ekki sönnuð, a.m.k. ekki önnur líkamseinkenni en þau er snúi að bakverkjum matsþola.
Á slysdegi hafi stefnandi verið 57 ára. Eftir óhappið hafi hann sinnt léttari störfum hjá stefnda en stundað fulla vinnu. Það sé alveg ljóst af gögnum málsins að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tekjuskerðingu vegna afleiðinga slyssins. Á stefnanda hvíli skylda til þess að takmarka tjón sitt og megi segja að með aðstoð stefnda hafi hann náð að takmarka tjón með þeim hætti að fá starf hjá stefnda sem henti honum betur í dag. Með hliðsjón af því að tekjur stefnanda hafi ekkert skerst eftir óhappið geti varla staðist að hann hafi orðið fyrir varanlegu fjárhagslegu tekjutjóni enda niðurstaða álitsgerðar Örorkunefndar í samræmi við það.
Kröfugerð stefnda í varakröfu byggir á niðurstöðum álitsgerðar Örorkunefndar þar sem fram komi að stöðugleikapunktur hafi verið 28. ágúst 2001, tímabil þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 án rúmlegu hafi verið frá 28. maí til 28. ágúst 2001. Varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi verið metinn 5 stig.
Tölulega lítur kröfugerð stefnda í varakröfu út með eftirfarandi hætti.
Þjáningabætur 92 dagar x 1050 kr. = 96.600 kr.
Varanlegur miski 5.456.500 x 5% = 272.825 kr.
Vextir skv. 16. gr. skaðabótalaga 4,50% = 61.629
Heildarbætur samtals: 452.875 kr.
Gerður er almennur fyrirvari um vaxtakröfu stefnanda. Upphafstíma dráttarvaxtakröfu er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, sbr. niðurlag 4. mgr. 5. gr., sbr. 9. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
NIÐURSTAÐA
Ökumaður lyftarans, vitnið Róbert Crosby, ók til austurs eftir miðgangi kerskálans. Samkvæmt gr. 7.3.1. í akstursreglum sem giltu um umferð í kerskálanum bar þeim sem ók langsum eftir kerskálanum að virða stöðvunarskyldu fyrir umferð sem kemur þvert á kerskálann. Bar ökumanni því að gæta sérstaklega að umferð úr þeirri átt sem stefnandi kom í umrætt sinn. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við stefnanda fyrr en árekstur varð með þeim og telur dómari að með því að svo var hafi ökumaður ekki viðhaft nægilega aðgát við aksturinn og beri stefndi því nokkra ábyrgð á slysi stefnanda.
Á hitt ber að líta að stefnandi sem kom hjólandi eftir hliðargangi og ók inn á miðgang varð ekki var við lyftarann fyrr en í þann mund er áreksturinn varð og telur dómari að með því að svo var hafi hann ekki viðhaft nægilega aðgát við akstur sinn um svæðið. Ber hann því einnig sök á slysi sínu og eins og atvikum er hér háttað verður sök á slysi því er stefnandi varð fyrir skipt til helminga með aðilum.
Stefnandi heldur því fram að framrúða lyftara hafi verið mjög léleg og aðvörunarljós lyftara biluð. Um það liggur ekki fyrir sönnun og þegar litið er til þess sem fram er komið í málinu um viðbrögð stefnanda sjálfs við slysinu og þess að afleiðingar þess urðu ekki ljósar fyrr en nokkru eftir að það varð verður ekki litið svo á að stefndi beri sönnunarbyrði um það að tæki hans hafi verið í lagi þar sem hann hefði ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins.
Samkvæmt þessu er það álit dómsins að slys stefnanda stafi af vangá hans sjálfs og ökumanns lyftarans eins og að framan er lýst.
Stefnandi hlutaðist til um að fram færi mat dómkvaddra manna um hverjar væru afleiðingar slyss hans og var niðurstaða þeirra sú að rekja mætti orsakir mjóbaksáverka og þrekskerðingar stefnanda til slyssins 28. maí 2001. Matsgerð þessari hefur ekki verið hnekkt með yfirmati eða á annan hátt og verður á henni byggt hér um afleiðingar slyss stefnanda.
Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.194.443 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.250.000 krónur í málskostnað og er þar til þess litið að útlagður kostnaður stefnanda er 647.825 krónur samkvæmt gögnum málsins.
DÓMSORÐ
Stefndi, Alcan á Íslandi hf., greiði stefnanda, Magnúsi Guðmundssyni, 1.194.443 krónur með 4,5% ársvöxtum af 354.000 krónum frá 28. maí 2001 til 14. nóvember sama árs en með 4,5% ársvöxtum af 1.194.443 krónum frá þeim degi til 6. maí 2005 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.250.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon.