Hæstiréttur íslands

Mál nr. 449/1998


Lykilorð

  • Verksamningur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 27. maí 1999.

Nr. 449/1998.

Anika Jóna Ragnarsdóttir

Bergþóra Ragnarsdóttir

Gunnar Ragnarsson og

dánarbú Sigríðar Ragnarsdóttur

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Helga Magnúsi Gunnarssyni

(sjálfur)

Verksamningur.

Systkinin S leituðu til smiðsins H vegna viðgerða á húsi í þeirra eigu í Arnarfirði. Útbjó H skjöl þar sem fram kom kostnaður vegna einstakra þátta verksins og sýndi hann systkinunum skjölin á fundi sem hann átti með þeim. Á fundinum upplýsti H einnig um tímagjald sem hann reiknaði sér fyrir vinnu og óvissuþætti varðandi fúa. Hóf H síðan vinnu við viðgerðir, án þess að aðilar gerðu með sér skriflegan samning um verkið. Eftir að verkinu lauk risu deilur um hvort umrædd skjöl hefðu verið kostnaðaráætlun eða bindandi tilboð H í viðgerðina, en verkið varð kostnaðarsamara en H hafði ætlað. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að útlit og uppsetning skjalanna hefði verið þannig að vart hefði verið hægt að skilja það sem bindandi tilboð H. Þá var litið til þess að þegar H sendi systkinunum skjölin aftur voru þau merkt með orðinu kostnaðaráætlun og gerðu viðtakendur ekki athugasemdir við það. Því var talið að skjölin hefðu verið áætlun H um væntanlegan viðgerðarkostnað og að systkinunum hefði mátt vera ljóst á meðan á framkvæmd verksins stóð að verkið var orðið umfangsmeira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna og systkinunum gert að greiða H stefnufjárhæðina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. september 1998. Af þeirra hendi varð ekki af þingfestingu málsins fyrir Hæstarétti og áfrýjuðu þau á ný 12. nóvember 1998 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Einn stefndu í héraði, Sigríður Ragnarsdóttir, lést 30. ágúst 1998 og hefur dánarbú hennar tekið við aðild að málinu. Áfrýjendur krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Anika Jóna Ragnarsdóttir, Bergþóra Ragnarsdóttir, Gunnar Ragnarsson og dánarbú Sigríðar Ragnarsdóttur, greiði óskipt stefnda, Helga Magnúsi Gunnarssyni, 60.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. júní sl., var höfðað með stefnu, birtri 24. nóvember og 10. desember 1997.

Stefnandi er Helgi Magnús Gunnarsson, kt. 041264-5439, Snorrabraut 83, Reykjavík.

Stefndu eru Anika Ragnarsdóttir, kt. 141234-4399, Hjallalandi 38, Reykjavík, Bergþóra Ragnarsdóttir, kt. 040537-3929, Víðilundi 11, Garðabæ, Sigríður Ragnarsdóttir, kt. 130924-3449, Hrafnabjörgum, Arnarfirði og Gunnar Ragnarsson, kt. 200626-4789, Eskihlíð 10, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda

Að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 429.826 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. október 1997. Þá er þess krafist að dæmt verði að dráttarvextir legggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn 29. október 1998, sbr. 12. gr. sömu laga.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum.

Dómkröfur stefndu

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda þar með talin málflutningslaun að mati dómsins.

Málavextir

Í byrjun maí 1997 tók stefnandi, sem er húsasmíðameistari, að sér að gera við íbúðarhúsið að Hrafnabjörgum í Arnarfirði að ósk stefndu, sem eru sameigendur að húsinu.

Að sögn stefnanda er húsið bárujárnsklætt timburhús frá fyrri hluta aldarinnar. Viðgerðin var í aðalatriðum fólgin í því að skipt var um bárujárn á þaki hússins, skipt um alla glugga, viðbygging við inngang hússins rifin og ný reist í staðinn og gert við gafl þess.

Stefnandi segir stefndu hafa fengið styrk til verksins frá húsafriðunarsjóði 200.000 krónur. Styrkurinn hafi verið veittur með því skilyrði að viðgerðin miðaðist við að halda upprunalegu útliti hússins og aðferðum, þar sem það átti við, í samræmi við óskir Magnúsar Skúlasonar framkvæmdastjóra húsafriðunarnefndar, sem hafi haft umsjón með verkinu.

Fljótlega eftir að stefndu óskuðu eftir liðsinni stefnanda við verkið, eða þann 17. maí 1997, kveðst stefnandi hafa farið vestur að Hrafnabjörgum til þess að taka saman það magn af efni sem til verksins þurfti, taka mál af gluggum og bárujárni og til þess að meta ástand eldri glugga hússins. Ef hægt væri hafi átt að fúabæta gömlu gluggana og láta nægja að skipta um lausa gluggaramma sem í þeim voru. Niðurstaðan varð hins vegar sú að það borgaði siga að skipta um gluggana að öllu leyti.

Í framhaldi af þessari ferð segir stefnandi að haldinn hafi verið fundur með stefndu og stefnanda 2. júní 1997. Stefnda Sigríður sótti ekki fundinn. Á fundinum kynnti stefnandi áætlun sem hann hafði gert vegna væntanlegs kostnaðar við verkið. Áætlunina kveðst stefnandi hafa gert að ósk stefndu svo þau gætu betur áttað sig á væntanlegum kostnaði vegna verksins. Á fundinum var ákveðið að stefnandi skyldi hefja undirbúning verksins. Ákveðið var að gera við gafl, skipta um glugga og endurbyggja viðbyggingu við útidyr hússins. Stefnandi segir að beðið hafi verið með að ákveða hvort gera ætti við þak hússins.

Skömmu eftir fund þennan kveðst stefnandi hafa fengið upphringingu frá Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni, eiginmanni stefndu Aniku, þar sem hann hafi tilkynnt stefnanda að stefndu hefðu ákveðið að ráðist yrði í alla fjóra verkþættina. Í þessu samtali kveðst stefnandi hafa tjáð Guðjóni Ármanni að hann tæki 1.400 kr. á tímann auk virðisaukaskatts og 100 kr. vegna leigu rafmagnsverkfæra auk virðisaukaskatts. Að sögn stefnanda gerði Guðjón Ármann enga athugasemd við tímagjaldið en óskaði eftir að fá send fjögur vinnublöð þar sem stefnandi hafði tekið áætlunina saman. Skömmu síðar sendi stefnandi honum blöðin.

Stefnandi kveðst hafa hafist handa við verkið 27. júní 1997 og lokið því 1. ágúst 1997.

Auk framangreindrar viðgerðar segir stefnandi að sér hafi verið falið að annast öll efniskaup vegna verksins fyrir hönd stefndu og að hafa samskipti við Magnús Skúlason og trésmiðjuna Borg hf. í Borgarnesi, sem annaðist smíði glugga og hurða vegna verksins. Til að standa straum af kostnaði vegna efniskaupa, flutnings- og ferðakostnaðar, greiddu stefndu í upphafi inn á reikning stefnanda 1.100.000 krónur.

Stefnandi segir að þegar á verkið leið hafi komið í ljós að fúaskemmdir í húsinu voru verulega miklar og hafi það leitt til þess að vinna við verkið hafi orðið umtalsvert meiri og tafsamari en gert hafi verið ráð fyrir. Þá hafi bæst við verkefni sem stefnandi hafi ekki reiknað með þar á meðal hafi hann klætt panil upp í loft í herbergi á annarri hæð hússins að ósk stefndu Sigríðar og lagt múrhúð í gólf viðbyggingar.

Þegar upp var staðið kom í ljós að sögn stefnanda, að kostnaður vegna efnis-, flutnings- og ferðakostnaðar varð 76.199 kr. hærri en áætlunin gerði ráð fyrir og kostnaður vegna verklauna, tækjaleigu og aksturs 404.910 kr. hærri en áætlunin gerði ráð fyrir. Í lok verksins barst stefnanda greiðsla frá húsafriðunarsjóði upp á 200.000 kr. og frá stefndu Sigríði 300.000 kr. Höfðu stefndu því greitt 1.600.000 krónur vegna verksins en af því runnu 1.087.763 kr. í útlagðan kostnað vegna efniskaupa, flutnings- og ferðakostnaðar. Inn á reikning stefnanda vegna verklauna, tækjaleigu og aksturs höfðu verið greiddar 512.237 kr., en sá reikningur hljóðaði upp á 942.063 kr. með virðisaukaskatti 142.093kr. Eftirstöðvar vegna reikningsins séu því 429.826 kr. eða stefnufjárhæð.

Stefnandi kveðst hafa krafið stefndu um greiðslu þessara eftirstöðva en þau hafnað greiðslu á þeim forsendum að stefnandi hafi gert þeim bindandi tilboð og séu þau búin að standa að fullu skil á greiðslum samkvæmt því.

Samkvæmt reikningi nr. 3 frá 29. sept. 1997 sem stefnufjárhæðin byggir á skiptist heildarkrafa stefnanda vegna verksins á eftirfarandi máta:

Verklaun vegna útseldrar vinnu með kostnaðarliðum samkvæmt tímaskýrslum 534,5 tímar á 1400 kr.

748.300 kr.

Tækjaleiga vegna rafmagnsverkfæra 410 tímar á 100 kr.

41.100 kr.

Aksturskostnaður samkvæmt akstursskýrslu  302 km á 35 kr.

10.570 kr.

Virðisaukaskattur

142.093 kr.

Samtals

942.063 kr.

Innágreitt

Eftirstöðvar

512.237 kr.

429.826 kr.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi byggir á því að komist hafi á bindandi verksamningur milli hans og stefndu um að verkið yrði unnið samkvæmt tímagjaldi sem skyldi vera 1.400 kr. auk virðisaukaskatts og 100 kr. fyrir tækjaleigu auk virðisaukaskatts. Reikningur stefnanda byggi á þeim tíma sem í verkið hafi farið og fyrrnefndu tímagjaldi auk virðisaukaskatts. Beri stefnanda því greiðsla eftirstöðva samkvæmt útgefnum reikningi.

Á fundinum, sem haldinn var 2. júní 1997, hafi stefnandi kynnt áætlun þá sem hann hafi gert með þeim orðum, að um áætlun væri að ræða sem miðaðist við áætlun hans á þeim tíma sem færi í verkið og tímagjaldi sem hann tæki fyrir þjónustu sína og þeim efnis-, flutnings- og ferðakostnaði sem félli til vegna þess. Hafi stefnandi jafnframt tekið fram að hann gæti ekki gert áætlun um kostnað vegna viðgerða á fúa í húsinu þar sem engin leið væri að sannreyna fúann fyrr en farið yrði að vinna við verkið. Sá þáttur væri því ekki innifalinn í áætluninni. Mætti því búast við að aukinn kostnaður fylgdi viðgerðinni ef húsið reyndist skemmt af fúa. Auk þess hafi hann gert stefndu grein fyrir að liðurinn um flutningskostnað væri ekki sérstaklega áreiðanlegur þar sem stefnandi hefði ekki tök á að áætla hann nema með algerri ágiskun. Hafi það því ekki farið á milli mála á fundinum að kostnaður vegna verksins kynni að verða meiri en áætlunin gerði ráð fyrir.

Slæmt ástand hússins sé ekki eitthvað sem hann hafi tekið ábyrgð á. Hann hafi gert stefndu grein fyrir þeirri hættu sem gæti verið á því að húsið væri illa farið af völdum fúaskemmda. Því hafi ekki verið hægt að sjá endanlegan kostnað við verkið fyrr en við lok þess. Verkið allt hafi verið tafsamt og dýrt vegna erfiðra aðstæðna þar sem flytja hafi þurft efni langar leiðir og vegna verulegra fúaskemmda í húsinu. Þar að auki hafi vinnuaðferðir við viðgerðir á húsinu kallað á seinlega handavinnu á köflum í samræmi við kröfur húsafriðunarnefndar um aðferðir og efnisval. Þá verði áætlun aldrei skoðuð sem bindandi tilboð heldur liggi það í eðli máls að kostnaður, sem kunni að vera umfram áætlunina, sé eins og annar kostnaður við verkið á ábyrgð verkkaupa.

Um leið og vinna hófst á Hrafnabjörgum og síðustu vikuna sem verkið stóð hafi stefnda Sigríður innt stefnanda þráfaldlega eftir því hvort kostnaður vegna verksins færi ekki fram úr áætlun. Hafi stefnandi tjáð Sigríði að svo væri og veitt henni um það upplýsingar eftir því sem unnt var. Megi því ljóst vera að stefnda Sigríður hafi gert ráð fyrir að um áætlun á væntanlegum kostnaði hafi verið að ræða. Einnig hafi stefnda Sigríður tjáð stefnanda að hún myndi greiða þann kostnað við verkið sem færi fram úr áætlun og hafi hún í samræmi við það verið búin að greiða það mikið að heildarupphæð greiðslna hafi verið 1.600.000 kr. í stað 1.564.633 eins og áætlunin hljóði upp á. Styðji þetta kröfu stefnanda þar sem stefndu Sigríði hafi verið ljóst hver upphæð áætlunarinnar var og hversu mikið hafði verið greitt inn á verkið. Hafi hún því með þessu verið að viðurkenna frekari greiðsluskyldu vegna verksins, sem hafi átt að koma til eftir útgáfu reiknings samkvæmt samkomulagi stefnanda og stefndu Sigríðar.

Stefnandi byggir einnig á því að stefnda Anika og eiginmaður hennar Guðjón Ármann hafi staðfest í verki að um kostnaðaráætlun hafi verið að ræða. Stefnandi hafi sent þeim snemma í júní afrit af áætluninni. Áætlunin  hafi verið á fjórum blöðum og hafi þau öll verið árituð orðunum „áætlun”. Þar sem fyrrnefnd áætlun hafi borist stefndu þetta snemma hafi þau getað haft samband við stefnanda ef þau hafi verið ósammála því að blöðin geymdu áætlun á kostnaði og talið að þar væri um að ræða tilboð. Þetta hafi ekki verið gert og með þessu tómlæti hafi þau viðurkennt í verki að samningur aðila hafi verið um tímagjald en ekki tilboð eins og þau kjósi að halda fram að verki loknu. Eigi þetta að leiða til þess að þau geti ekki, þegar verkinu er lokið, borið fyrir sig að þau hafi litið á samning aðila sem bindandi tilboð. Megi af þessu ljóst vera að stefndu hafi gert samning við stefnanda sem hafi hljóðað upp á að verkið yrði unnið gegn tímagjaldi en ekki væri um að ræða fast tilboð.

Teljist ekki sannað að efni samnings stefnanda við stefndu hafi verið svo sem stefnandi heldur fram byggir stefnandi á því að honum beri greiðsla samkvæmt framlögðum reikningi á grundvelli grunnreglu 5. gr. kaupalaga nr. 39/1922. Reikningur stefnanda byggi á tímaskýrslum hans og nákvæmri sundurliðun og lýsingu einstakra verkþátta. Framangreindu tímagjaldi sé verulega í hóf stillt þar sem 1.400 kr. auk virðisaukaskatts sé rétt meðaldagvinnugjald fyrir útselda vinnu manns með hans menntun og reynslu auk þess sem vel rúmlega helmingur tímanna hafi verið unninn á næturvinnutíma, sem ekki sé krafist neins aukagjalds fyrir. Sé gjald vegna tækjaleigu eðlilegt og þeim tíma sem hún sé reiknuð af í hóf stillt. Akstursgjald sé vegna útlagðs kostnaðar við snúninga til innkaupa og við umsjón verksins og styðjist við sundurliðaða akstursskýrslu stefnanda og gjald á kílómetra eins og aksturskostnaðarnefnd ríkisins ákvarði það. Verði því að telja að uppsett gjald fyrir veitta þjónustu stefnanda sé ekki ósanngjarnt heldur þvert á móti sanngjarnt og eigi hann þess vegna að fá það viðurkennt óskert í samræmi við útgefinn reikning.

Stefnandi styður kröfu sína við almennar reglur samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, lögvernd kröfuréttinda, grunnreglu 5. gr. kaupalaga nr. 39/1922 og 1. mgr. 32. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. 2. gr., laga nr. 11/1986.

Málkostnaðarkröfu sína styður stefnandi við 3. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um dráttarvexti er studd við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, aðallega 9., 12. og 2. mgr. 14. gr.

Málsástæður og rökstuðningur stefndu

Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnanda hafi verið kunnugt um að stefndu hugðust einungis leggja 1.500.000 kr. í verkið að meðtöldum styrk húsafriðunarnefndar. Stefnanda hafi einnig verið kunnugt að í umsókn stefndu til húsafriðunarnefndar hafi verið byggt á bindandi verksamningi við trésmið.

Hinn 2. júní 1997 hafi stefnandi komið á fund stefndu til að ræða samning um verkið. Á fundinum hafi stefnandi lagt fram þau fjögur blöð sem lögð hafa verið fram sem dskj. 14. Orðið „kostnaðaráætlun” hafi ekki verið ritað á blaðið þá. Það sé síðar til komið. Samkvæmt blöðum þessum hafi kostnaður í aðalatriðum verið þessi:

Gluggar

864.378 kr.

Gafl

205.709 kr.

Dyraskúr

338.753 kr.

Þak

155.793 kr.

Samtals

1.564.633 kr.

Engir fyrirvarar séu í tilboði stefnanda að því undanskildu að við fjárhæðina flutningskostnaður sé í öllum þáttunum settur einskonar fyrirvari með orðinu „ca”.

Í öllum liðunum sé að finna vinnulið sem sé skilgreindur þannig „Vinna, tækjaleiga og vsk” og sundurliðist þannig:

Gluggar

317.115 kr.

Gafl

100.000 kr.

Dyraskúr

87.150 kr.

Þak

48.804 kr.

Stefndu hafi samþykkt tilboð stefnanda á fundinum að því undanskildu að þeir hafi ekki tekið ákvörðun þar um það hvort ráðist skyldi í þakviðgerðina. Með því að fresta henni hefði kostnaður aðeins orðið 1.400.000 kr. og þar af hafi húsafriðunarnefnd greitt 200.000 kr. Í framhaldi af fundinum hafi verið ákveðið að taka þakið með og hafi Guðjón Ármann Eyjólfsson tilkynnt stefnanda um það. Jafnframt hafi hann beðið stefnanda að senda sér til baka blöðin á dskj. 14 og það hafi stefnandi gert. Hann hafi þá bætt orðinu „kostnaðaráætlun” á blöðin. Ekki skipti máli að stefndu brugðust ekki við áritun þessari enda hafi þá þegar verið samið um fast verð.

Meðan á verkinu stóð hafi stefndu greitt stefnanda 1.400.000 kr. og að auk hafi hann fyrir mistök fengið greiðsluna frá húsafriðunarnefnd, sem hafi átt að renna til stefndu. Þar sem 1.600.000 kr. hafi runnið til stefnanda hafi samningsverðið verið að fullu greitt. Í þeirri greiðslu felist engin viðurkenning á því að stefnanda hafi verið heimilt að fara framúr samningsverðinu. Hafa beri í huga að stefnandi hafi fengið stefndu Sigríði til þess að greiða sér fé enda þótt hún vissi ekki nákvæmlega hvaða fjárhæðir aðrir stefndu höfðu innt af hendi.

Stefnandi hafi hafist handa um verkið fyrir vestan. Stefndu hafi ekki fylgst með framvindu þess. Stefnda Sigríður hafi verið að heiman vegna veikinda mestan þann tíma sem stefnandi vann að verkinu. Stefnandi hafi gert kröfu um að ráðin yrði ráðskona til að elda honum mat og hafi það verið gert og María Brink ráðin. Sambýlismaður hennar, Sigmundur, hafi verið á bænum tímabundið og þá unnið að trésmíðinni með stefnanda án þess að krefja hann um endurgjald.

Stefnandi hafi komið að verkinu á Hrafnabjörgum 3. júní og farið 1. ágúst 1997. Samkvæmt framlagðri tímaskýrslu hafi hann ekki verið við störf 10. og 14. júlí en hina 28 dagana kveðist hann hafa unnið að meðaltali 15,5 stundir á dag, sem stefndu véfengi.

Hinn 14. ágúst 1997 hafi stefnandi lagt fram reikning að fjárhæð 965.224 kr. fyrir vinnulaun, tækjaleigu og aksturskostnað auk vsk. Reikningur þessi hafi ekki verið í lögbundnum búnaði, án númers og virðisaukaskattsnúmers stefnanda. Reikningi þessum hafi verið hafnað þar sem hann hafi ekki verið í samræmi við samning aðila. Stefnandi hafi lagt fram nýja reikninga, sem einnig hafi verið hafnað þar sem þeir hafi ekki verið í samræmi við samning aðila. Reynt hafi verið að sætta málið en það strandað á því að stefnandi hafi ekki sagst vera bundinn af tilboði sínu. Honum væri heimilt að skrifa hvern þann tímafjölda sem ekki teldist bersýnilega ósanngjarn.

Tímskýrsla stefnanda beri með sér að stefnandi krefji stefndu um greiðslu fyrir tíma sem hann hafi unnið áður en samningurinn var gerður 2. júní 1997. Þessu er mótmælt af hálfu stefndu. Stefnandi hafi farið vestur til að afla gagna til að gera tilboð. Kostnaður hans þar af sé kostnaður við verkefnaöflun og stefndu óviðkomandi. Því er mótmælt að stefnandi hafi aflað allra tilboða og undirbúið öll efniskaup.

Stefnandi geti ekki gert grein fyrir því hvers vegna vinnukostnaður fór úr böndum. Því er mótmælt að fúi í þessu gamla húsi hafi verið óvæntur og ófyrirsjáanlegur.

Stefnandi haldi því fram að samið hafi verið um 1.400 kr. í tímagjald án þaks. Hvergi sé minnst á þetta tímagjald í kostnaðaráætluninni á dskj. 14 og styðji það þá staðhæfingu stefndu að um fast verð hafi verið að ræða. Enginn fyrirvari hafi verið gerður á fundinum 2. júní að kostnaðurinn yrði annar en nefnt hafi verið og stefnanda hafi verið fullkunnugt um að stefndu hefðu ekki lagt í verkið nema búið væri að fastsetja verðið. Því er mótmælt að í samtölum stefnanda við stefndu Sigríði hafi falist fyrirvari um að hækka verðið eða að það færi fram úr því sem samið hafði verið um. Hafi stefnandi komist að því að verkið yrði miklu dýrara en um var rætt 2. júní hafi honum borið að tilkynna þeim stefndu er á fundinum voru um þá breytingu svo þeim gæfist kostur á að hætta við það enda  hafi stefnanda verið kunnar forsendur stefndu.

Stefndu hafi ekki sýnt af sér tómlæti með því að gera ekki athugasemdir við síðar tilkomið orðið „kostnaðaráætlun” eins og byggt sé á í stefnu. Sé óheiðarlegt af stefnanda að bera fyrir sig þá málsástæðu. Því er mótmælt að 5. gr. kaupalaga leiði til þess að stefnandi geti krafið stefndu um annað en samið var um og byggt var á. Stefnandi vinni ekki rétt með því að staðhæfa að verð hans hafi verið sanngjarnt. Verðið hafi verið markaðsverð. Næturvinna skipti engu máli í verksamningi þessum.

Því er mótmælt að stefnandi hafi haft þann kostnað af verkinu fram yfir það sem hafi verið rætt og samið 2. júní 1997 en jafnframt á því byggt að stefnandi hafi sem aðrir verktakar tekið áhættuna af tapi og hagnaði í verktakastarfsemi sinni.

Stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að stefndu hafi tekið þá áhættu að skrifa uppá opinn tékka í þágu stefnanda. Venja sé að gera bindandi samninga um verð þegar svo standi á sem hér greinir. Slíkt hafi verið forsenda stefndu og það hafi stefnanda verið kunnugt um og það hafi hann samþykkt.

Af hálfu stefndu er vísað til almennra reglna samningalaga um stofnun samninga og efndir þeirra. Enn fremur til laga um meðferð einkamála og vaxtalaga.

Skýrslutökur

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi: Stefndu Anika og Bergþóra, Guðjón Ármann Eyjólfsson eiginmaður stefndu Aniku, Eyjólfur Ármann Guðjónsson sonur stefndu Aniku, Sigrún Ragnarsdóttir systir stefndu og María Brink.

Niðurstaða

Stefndu leituðu til stefnanda í því skyni að hann annaðist fyrir þau viðgerðir á íbúðarhúsi í þeirra eigu að Hrafnabjörgum í Arnarfirði. Vegna þessa fór stefnandi í maí 1997 að Hrafnabjörgum til þess að taka saman efni sem þyrfti til verksins og til þess að athuga glugga, það er hvort hægt væri að gera við gömlu gluggana eða rétt væri að smíða nýja. Í framhaldi af því gerði stefnandi plagg þar sem kostnaður vegna glugga er talinn 864.378 kr., kostnaður vegna gafls 205.709 kr., kostnaður vegna dyraskúrs 338.753 kr., kostnaður vegna þaks 155.793 kr. eða samtals 1.564.633 kr. Plagg þetta sýndi stefnandi stefndu á fundi sem haldinn var á heimili stefndu Bergþóru 2. júní 1997.

Fram er komið að á fundinum upplýsti stefnandi að hann reiknaði sér sem endurgjald fyrir vinnu sína 1.400 kr. á klukkustund auk virðisaukaskatts. Jafnframt að á fundinum talaði stefnandi um óvissuþætti varðandi fúa í gafli.

Málsaðilar hafa ekki gert skriflegan samning um verk það sem málið er af risið. Ágreiningur er með aðilum hvort plaggið, sem stefnandi sýndi á fundinum 2. júní 1997, sé kostnaðaráætlun eða bindandi tilboð stefnanda í viðgerð á húsinu að Hrafnabjörgum. Plagg þetta er fjögur handskrifuð blöð óundirrituð og ódagsett og þannig að útliti og uppsetningu að það verður vart skilið sem bindandi tilboð stefnanda um að vinna verkið fyrir þetta tiltekna verð. Þegar plaggið var sent stefndu skömmu eftir fundinn 2. júní 1997 var það áritað orðinu kostnaðaráætlun. Stefndu gátu gert athugasemd við þessa áritun hafi þau viljað líta á plaggið sem bindandi tilboð, enda verkið ekki hafið þegar plaggið var sent stefndu. Það gerðu stefndu ekki. Þá ber einnig að líta til þess að þegar samið er um fast verð verður að gera strangari kröfur til gerðar samnings heldur en ef um tímavinnu er að ræða. 

Hinir sérfróðu meðdómendur segja það algengast þegar samið er um viðgerðir á gömlum timburhúsum að fúaviðgerðir séu mældar upp og greiddar sérstaklega samkvæmt umfangi verksins eða greitt samkvæmt tímavinnu..

Verður plagg þetta því ekki talið annað en áætlun stefnanda um væntanlegan viðgerðarkostnað. Skoðun þessa styðja og upplýsingar stefnanda, sem fram komu á fundinum 2. júní 1997 og síðar um tímalaun og tækjaleigu. Hér er og á það að líta að stefndu samþykktu tilboð í glugga, sem þau hefðu ekki þurft að gera ef þau hefðu gert bindandi samning við stefnanda.

Framlagðar ljósmyndir sýna að nauðsynlegt hefur verið að skipta um hluta af burðarvirki í austurgafli hússins.

Fram er komið að á verktíma sagði stefnandi stefndu, Sigríði, sem er bóndi að Hrafnabjörgum, frá því að kostnaður við verkið færi fram úr áætlun. Fram kom hjá stefndu, Bergþóru, að vitnið, María Brink, sem dvaldi að Hrafnabjörgum þann tíma sem stefnandi vann þar, hafi sagt að gaflinn væri illa farinn. Fram kom hjá stefndu Aniku að á tímabilinu 26. júlí til 1. ágúst hafi hún heyrt að gafl og fótstykki væri fúið. Það sem hér hefur verið rakið þykir gefa til kynna að verk það sem stefnandi vann fyrir stefndu hafi orðið umfangsmeira en framangreind áætlun gerði ráð fyrir og það hafi stefndu mátt vera ljóst á meðan á framkvæmd stóð. Ekki var stefnandi beðinn um að draga úr framkvæmdum.

Verður þá tekin afstaða til reiknings stefnanda og tímafjölda.

Dómurinn telur eðlilegt að stefndu greiði stefnanda fyrir ferð að Hrafnabjörgum í maí 1997 og fyrir vinnu hans við efniskaup og undirbúning verksins. Einnig er fram komið að stefnandi vann við glerjun á Þingeyri áður en hann fór að Hrafnabjörgum og hófst handa um viðgerðina á húsinu.

Hinir sérfróðu meðdómendur telja tímafjölda stefnanda ekki óeðlilegan þegar miðað er við umfang verksins eftir því sem það verður ráðið af framlögðum skjölum og litið til fúaviðgerða á austurgafli. Þá er einnig til framburðar vitnisins Maríu Brink að líta varðandi tilgreindan vinnustundafjölda á dag, en hún bar að stefnandi hafi unnið frá morgni og fram á nótt. Hér er og á það að líta, varðandi daglegan vinnustundafjölda, að stefnandi fór út á land til þess að vinna verk, sem ljúka átti á ákveðnum tíma. Ekki er óeðlilegt í slíku tilviki að starfsmaður taki sér lítinn daglegan frítíma. Hinir sérfróðu meðdómendur telja tímakaup stefnanda, sem er jafnaðarkaup, 1.400 kr. á klukkustund auk virðisaukaskatts sanngjarnt.

Með vísan til framanritaðs eru kröfur stefnanda teknar til greina með vöxtum eins og krafist er.

Stefndu greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 100.000 krónur.

Málið dæma Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari, Vífill Oddsson verkfræðingur og Þorkell Jónsson byggingatæknifræðingur.

Dómsorð:

Stefndu, Anika Jóna Ragnarsdóttir, Bergþóra Ragnarsdóttir, Sigríður Ragnarsdóttir og Gunnar Ragnarsson, greiði in solidum stefnanda, Helga Magnúsi Gunnarssyni, 429.826 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. október 1997 og 100.000 krónur í málskostnað.

Heimilt er að leggja áfallna dráttarvexti við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn 29. október 1998.