Hæstiréttur íslands

Mál nr. 736/2014


Lykilorð

  • Kröfugerð
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Lán
  • Fyrning


                                     

Fimmtudaginn 21. maí 2015.

Nr. 736/2014.

Arion banki hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

gegn

Ágústi Þór Árnasyni

(Eva Hrönn Jónsdóttir hrl.)

Kröfugerð. Áfrýjunarfjárhæð. Lán. Fyrning.

A hf. höfðaði mál á hendur A til heimtu greiðslukortaskuldar sem féll í gjalddaga á fyrri hluta árs 2009. Talið var að kröfurnar A hf. á hendur A teldust lán í merkingu 2. málsliðar 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og fyrndust á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laganna. Samkvæmt fyrirmælum laganna hefði nýr fyrningarfrestur tekið að líða þegar A innti síðast af hendi innborgun á kröfurnar í september 2009, en hann var liðinn þegar A hf. höfðaði málið á hendur A í febrúar 2014. Voru kröfur A hf. af þeim sökum fallnar niður samkvæmt 24. gr. laga nr. 150/2007 og A því sýknaður af kröfu A hf. Fyrir Hæstarétti hafði A uppi kröfu um frávísun málsins frá réttinum með skírskotun til þess að krafa A hf. næði ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu einkum þar sem A hafði ekki teflt fram röksemdum um að A hf. hefði að virtum fyrirmælum 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 verið óheimilt að haga kröfugerð sinni á þann veg sem gert var, með því að miða áfrýjunarfjárhæð við samtölu greiðslukortaskuldar A án tillits til innborgana hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.075.824 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 2. janúar 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda 12. febrúar 2009 og 6. september sama ár samtals að fjárhæð 609.813 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Krafa stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti er á því reist að höfuðstóll kröfu áfrýjanda nái ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem á árinu 2014 hafi verið 761.423 krónur. Kveður stefndi höfuðstól kröfu áfrýjanda í raun vera 466.011 krónur þegar tekið hafi verið tillit til þeirra tveggja innborgana stefnda sem áður greinir. Telur hann að við mat á því hvort krafa uppfylli skilyrði til áfrýjunar að þessu leyti skuli eingöngu miða við höfuðstól hennar, en ekki taka tillit til vaxta eða kostnaðar sem á hana hefur fallið.

Takmarkanir á heimildum til að skjóta málum til Hæstaréttar hafa lengi verið við lýði hér á landi og hefur helsta takmörkunin falist í reglum sem áskilja að hagsmunir þeir, sem um er deilt í máli, nái tilteknu lágmarki. Slíkar reglur fela í sér takmarkanir á því að málsaðilar eigi þess kost að fá mál sitt prófað á tveimur dómstigum. Í 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að áfrýjunarfjárhæð skuli ákveða eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Af skýringum í almennum hluta athugasemda með frumvarpi sem varð að lögum nr. 38/1994, um breyting á lögum nr. 91/1991, en þau lög fólu meðal annars í sér verulega hækkun áfrýjunarfjárhæðar, kom fram að þegar metið sé hvort krafa nái áfrýjunarfjárhæð beri aðeins að líta til höfuðstóls hennar, án vaxta eða framreiknings vegna verðlagsbreytinga frá því að hún féll í gjalddaga.

Áfrýjandi hagaði kröfugerð sinni í héraði með sama hætti og í áfrýjunarstefnu. Sú tilhögun sætti engum athugasemdum af hálfu stefnda við meðferð málsins í héraði og ekki er um það deilt að sá höfuðstóll, sem tilgreindur er, sé samtala úttekta stefnda samkvæmt reikningsyfirlitum VISA greiðslukorts hans, án tillits til þeirra tveggja innborgana sem áður greinir. Í héraði tefldi stefndi ekki fram röksemdum um að áfrýjanda hafi verið óheimilt að haga kröfugerð sinni á þennan veg. Samkvæmt því verður kröfu stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti hafnað.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kröfu stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti er hafnað.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Arion banki hf., greiði stefnda, Ágústi Þór Árnasyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2014.

I.

         Mál þetta, sem var dómtekið 25. september sl., er höfðað 5. febrúar 2014 af Arion banka hf., Borgartúni 19 í Reykjavík, gegn Ágústi Þór Árnasyni, Oddeyrargötu 8 á Akureyri.

         Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.075.824 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 242.391 krónu frá 2. janúar til 2. febrúar 2009, af 417.400 krónum frá þeim degi til 2. mars 2009, af 566.760 krónum frá þeim degi til 2. apríl 2009, af 670.306 krónum frá þeim degi til 4. maí 2009, af 1.075.824 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 12. febrúar 2009 að fjárhæð 224.000 krónur og 6. september 2009 að fjárhæð 385.813 krónur, samtals að fjárhæð 609.813 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

         Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

II.

         Stefndi var handhafi VISA greiðslukorts sem veitti honum rétt til úttekta á vöru og þjónustu. Þá gat hann tekið út reiðufé í bönkum, sparisjóðum og hraðbönkum með kortinu. Stefnandi var útgefandi greiðslukortsins. Samkvæmt 4. gr. kortaskilmála stefnanda, sem hann hefur lagt fram í málinu, er korthafi ábyrgur fyrir öllum úttektum sem staðfestar eru með undirritun hans eða PIN-númeri nema að hann sanni að vara eða þjónusta hafi ekki verið afhent. Þá segir 7. gr. skilmálanna að útgefandi hafi heimild til þess að færa á reikningsyfirlit korthafa allar úttektir sem berast á kortið og að korthafi sé ábyrgur fyrir greiðslu á þeim úttektum. Þar kemur einnig fram að útgefandi sendi korthafa eða birtir rafrænt í netbanka viðskiptavinar mánaðarlega reikningsyfirlit yfir úttektir tímabils sem gjaldfalla á næsta eindaga. Segir þar að korthafa beri að greiða útgefanda að fullu í síðasta lagi annan dag hvers mánaðar nema að daginn beri upp á almennan lokunardag banka og sparisjóða. Í greininni kemur jafnframt fram að úttektir korthafa séu vaxtalausar fram að gjalddaga, en greiði korthafi ekki úttektir tímabilsins á eindaga beri skuldin dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags.

         Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skuld vegna notkunar stefnda á umræddu korti í lok árs 2008 og fyrri hluta árs 2009. Stefnandi sundurliðar kröfuna á eftirfarandi hátt og vísar þar til reikningsyfirlita:

         Nr.                    Útgáfudagur                               Gjalddagi                          Fjárhæð

         1.                      19.12.2008                                 02.01.2009                       243.391

         2.                      21.01.2009                                 02.02.2009                       175.009

         3.                      20.02.2009                                 02.03.2009                       149.360

         4.                      20.03.2009                                 02.04.2009                       103.546

         5.                      21.04.2009                                 04.05.2009                       405.518

         Fram kemur í stefnu og greinargerð að stefndi hafi greitt 224.000 krónur inn á kortaskuldina 12. febrúar 2009 og 385.813 krónur 6. september 2009.

         Hinn 24. janúar 2011 sótti stefnandi um heimild til þess að leita samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Hófst þá tímabundin frestun greiðslna í samræmi við 11. gr. og ákvæði II til bráðabirgða í lögunum, sbr. lög nr. 128/2010. Hinn 5. september 2011 samþykkti embætti umboðsmanns skuldara umsóknina og var Jón Bjarni Kristjánsson hdl. skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlöguninni. Innköllun til kröfuhafa birtist 19. september 2011 í Lögbirtingablaði og var frestur til þess að lýsa kröfum fjórar vikur frá birtingu innköllunarinnar. Stefnandi sendi umsjónarmanni kröfulýsingu, dags. 4. október 2011, þar sem kröfu var lýst er byggðist á fyrrgreindri kortaskuld. Umsjónarmaður mun hafa nýtt heimild í 15. gr. laga nr. 101/2010 og sent málið aftur til embættis umboðsmanns skuldara þar sem komið hefðu fram upplýsingar sem talið var að bentu til þess að skilyrðum væri ekki fullnægt til að ljúka greiðsluaðlögun. Með ákvörðun 25. febrúar 2013 mun umboðsmaður skuldara hafa fellt niður heimild stefnda til þess að leita greiðsluaðlögunar.

         Með bréfi stefnanda 2. desember 2013 var skorað á stefnda að greiða fyrrgreinda kröfu, sem þar var nánar sundurliðuð. Honum var enn fremur ritað innheimtubréf 18. desember 2013 og skorað á hann að greiða skuldina. Ekki verður séð að stefndi hafi brugðist við þessum áskorunum.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggir á því að skuld stefnda, sem er nánar sundurliðuð í stefnu og lýst í kafla II, sé til komin vegna úttekta hans með umræddu VISA greiðslukorti. Samkvæmt skilmálum kortsins hafi stefnda borið að greiða stefnanda úttektir hvers tímabils í síðasta lagi annan dag næsta mánaðar eftir lok viðkomandi tímabils. Skuldin hafi ekki verið greidd af hálfu stefnda. Honum hafi verið tilkynnt um vanskilin eins og framlögð innheimtubréf beri með sér.

         Í stefnu er þess getið að bankakostnaður, eða áfallinn innheimtukostnaður, sé að fjárhæð 5.440 krónur. Krafa um bankakostnað sé vegna kostnaðar stefnanda við að halda kröfu sinni til haga vegna vanskila stefnda fram að löginnheimtu og kveður stefnandi fjárhæðina byggjast á framlagðri gjaldskrá stefnanda, reikningsyfirlitum og viðskiptaskilmálum stefnanda vegna VISA kreditkorta. Stefnandi kveður stefnda hafa greitt inn á skuldina neðangreindar innborganir og getur þess í stefnu að tekið verði tillit til þeirra við uppgjör kröfunnar: 12. febrúar 2009 224.000 krónur; 6. september 2009 385.813 krónur.

         Stefndi kveður almennar reglur kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga leiða til þess að stefnda beri að greiða kröfuna. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Óskar stefnandi sérstaklega eftir því að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til áfallins innheimtukostnaðar stefnanda fram að löginnheimtu.

         Við aðalmeðferð málsins hélt stefnandi því enn fremur fram að kröfurnar væru ófyrndar þar sem þær væru reistar á peningaláni sem eigi að fyrnast á tíu árum, sbr. 1. málslið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stefnandi færði einkum þau rök fyrir þessari afstöðu að andlag lánsins væru peningar sem stefndi hefði fengið að láni með úttektum til að greiða fyrir vörur og þjónustu auk þess sem unnt hafi verið að nota kortið til þess að taka út peninga t.d. í hraðbönkum. Væri lánið hliðstætt yfirdráttarláni sem væri skilgreint sem peningalán í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 150/2007. Yrði ekki á það fallist byggir stefnandi á því að fyrning kröfunnar hafi verið rofin með umsókn stefnda um greiðsluaðlögun, sbr. 16. gr. laga nr. 150/2007. Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að túlka beri 4. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 á þann veg að þegar frestun greiðslna hefjist sé krafan undanskilin lögbundnum fyrningarfresti. Telji dómurinn að ákvæðið gefi ekki tilefni til svo rúmrar túlkunar byggir stefnandi á því að lögjafna beri frá ákvæðinu um þá aðstöðu sem hér sé fyrir hendi. Þá telur stefnandi efni til þess að lögjafna frá 2. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem mælt er fyrir um það að þegar kröfu er lýst fyrir umsjónarmanni við nauðasamningsumleitanir sé fyrningu slitið gagnvart skuldaranum. Stefnandi vísaði í þessu sambandi enn fremur til 18. gr. laga nr. 150/2007 þar sem kveðið er á um það að fyrningu kröfu sé slitið þegar henni er lýst við gjaldþrotaskipti og við skipti á dánarbúi.

         Um lagarök vísar stefnandi að öðru leyti til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga en reglur þessar fái meðal annars stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er í stefnu vísað til 35. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Undir rekstri málsins vísaði stefnandi enn fremur til 3. mgr. 42. gr. sömu laga um heimild til að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Í greinargerð stefnda áskildi hann sér rétt til þess að krefjast frávísunar málsins þar sem málið hafði ekki höfðað á heimilisvarnarþingi hans. Eftir að stefnandi lagði fram skilmála fyrir greiðslukortið, þar sem kveðið er á um heimild stefnanda til að höfða mál út af brotum á skilmálunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, var því lýst yfir af hálfu stefnda að ekki væri krafist frávísunar málsins.

         Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að kröfur stefnanda séu fyrndar. Gjalddagar krafnanna hafi verið 2. janúar, 2. febrúar, 2. mars, 2. apríl og 4. maí 2009. Stefndi hafi greitt inn á kröfurnar 12. febrúar 2009 og aftur 6. september 2009. Því hafi þær fyrnst í síðasta lagi 6. september 2013, þ.e. fjórum árum eftir síðustu innborgun. Stefnan hafi verið birt fyrir stefnda eftir þann tíma og fyrningarfrestur samkvæmt framansögðu því liðinn.

         Um lagarök fyrir þessari niðurstöðu vísar stefndi til 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en þar komi fram að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár. Umræddar kröfur eigi undir þessa meginreglu, enda séu þær með skýrum gjalddaga líkt og rakið sé í stefnu, og hafi stefnandi þannig átt ótvíræðan rétt til efnda frá þeim degi. Ekki sé um að ræða peningalán í skilningi 2. mgr. 5. gr. laganna. Rökstyður hann það meðal annars með því að slíkar kröfur hafi ekki ákveðinn gjalddaga. Við aðalmeðferð taldi stefndi enn fremur að skilgreina beri peningalán sem lán þar sem peningar eru veittir að láni, en eftir það væru þeir til frjálsrar ráðstöfunar og eignar lántaka. Það eigi ekki við um úttektir á vöru og þjónustu með kreditkorti, enda fái hann ekki með því fé til eigin ráðstöfunar. Vísar stefndi meðal annars til þess að slíkar úttektir séu vaxtalausar fram að eindaga og að gefinn sé út mánaðarlega reikningur vegna úttekta en ekki greiðsluseðill.

         Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki slitið fyrningu í skilningi IV. kafla laganna á fyrningartíma kröfunnar. Umsókn um greiðsluaðlögun og heimild sem embætti umboðsmanns skuldara hafi veitt stefnda til að leita greiðsluaðlögunar teljist ekki rjúfa fyrningu. Þótt ákveðnar takmarkanir séu á möguleikum kröfuhafa til þess að innheimta kröfuna hjá skuldara meðan greiðsluskjól er til staðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna, hafi kröfuhafar eftir sem áður fullar heimildir til að sækja sér dóm fyrir kröfum sínum og tryggja þannig að þær fyrnist ekki. Gagnálykta megi frá ákvæði 4. mgr. 11. gr. greiðsluaðlögunarlaganna þar sem fram komi sérregla um lögveðskröfur, en þar segi að sá tími, sem frestun greiðslna er í gildi, skuli vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs. Um fyrningarfrest annarra krafna hljóti því að fara samkvæmt almennum lögum.

         Stefndi telur að þótt kröfu hafi verið lýst fyrir umsjónarmanni í greiðsluaðlögun rjúfi sú kröfulýsing ekki fyrningu. Kröfulýsing rjúfi aðeins fyrningu þegar lýst sé í þrotabú eða dánarbú, sem tekið hafi verið til opinberra skipta, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Í 13. gr. laganna sé fjallað um þá aðstöðu þegar kröfu sé lýst í kjölfar opinberrar innköllunar. Þar komi fram að sé kröfu lýst fyrnist hún ekki fyrr en liðið sé ár frá því að kröfulýsingarfresti hafi verið lokið. Þar sem kröfulýsingarfresti hafi lokið í október 2011 í tilviki greiðsluaðlögunarumleitana stefnda hafi þetta ákvæði ekki þýðingu í þessu máli.

         Við aðalmeðferð hafnaði stefndi því enn fremur að unnt væri að byggja á því að fyrningu hafi verið slitið á grundvelli 16. gr. eða 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2007 með lögjöfnun. Sama eigi við um fyrirmæli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 sem og 2. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991. Því séu umræddar kröfur fyrndar. Í samræmi við 24. gr. laga nr. 150/2007 hefði stefnandi þar með glatað rétti sínum til efnda auk þess sem vextir og aðrar tengdar greiðslur falli þá niður.

         Um lagarök vísar stefndi til framangreindra ákvæða laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 3. og 24. gr. laganna. Þá vísar hann til ákvæða laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, einkum 11. og 15. gr. Um réttarfarsleg atriði vísar hann til laga nr. 91/191 um meðferð einkamála. Um ákvörðun málflutningsþóknunar vísar stefndi til 130. gr. laganna og um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar í málinu.

IV.

         Stefndi reisir sýknukröfu sína alfarið á því að krafa stefnanda, sem stofnaðist með notkun hans á kortinu frá nóvember 2008 til apríl 2009, sé fallin niður sökum þess að fjögurra ára fyrningarfrestur hafi verið liðinn þegar málið var höfðað. Stefnandi hafnar því að krafan sé fyrnd og byggir þá afstöðu sína á tveimur atriðum. Annars vegar vísar stefnandi til þess að krafan fyrnist ekki á fjórum árum heldur á tíu árum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007. Hins vegar er á því byggt að fyrningu hafi verið slitið í tengslum við umsókn stefnda um greiðsluaðlögun.

         Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 er almennur fyrningarfrestur fjögur ár frá þeim degi er kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Í öðrum greinum II. kafla laganna eru ákvæði sem víkja frá framangreindri meginreglu. Þar er í 2. mgr. 5. gr. meðal annars kveðið á um að kröfur sem byggjast á peningalánum fyrnist á tíu árum. Tekið er fram í málsgreininni að þetta gildi þó ekki um lán sem seljandi eða annar aðili hefur veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti. Þá kemur fram í ákvæðinu að fyrningarfrestur þessi gildi ekki um vexti og verðbætur. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 150/2007 eru þau rök færð fyrir þessari reglu að ýmis peningalán séu veitt án þess að tiltekinn sé ákveðinn gjalddagi, t.d. lán milli venslamanna. Eðlilegt sé að fyrningarfrestur slíkra lána sé ríflegur, meðal annars með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins, sem geti falið í sér að fyrningarfrestur byrji að líða strax þegar lánið er veitt. Fram kemur í athugasemdunum að reglan taki bæði til peningalána, sem veitt eru í atvinnuskyni, þar með talið yfirdráttarlána, og lána milli einstaklinga, hvort sem um formlegan lánagerning sé að ræða eða ekki. Ákvæðinu sé hins vegar ekki ætlað að taka til annars konar fjármögnunar, sem fyrnist á fjórum árum eftir almennu reglunni í 3. gr. frumvarpsins.

         Þegar handhafi kreditkorts notar það við kaup á vöru eða þjónustu fær hann greiðslufrest á úttekt sinni. Seljandinn framselur útgefanda kortsins síðan kröfuna á hendur korthafa á grundvelli skilmála milli seljandans og útgefandans. Útgefandinn gerir því næst korthafa reikning vegna úttekta hans. Eindagi reikningsins er umsaminn samkvæmt skilmálum sem korthafinn hefur gengist undir og ber krafan ekki vexti fyrr en frá þeim tíma.

         Seljandinn veitir korthafa með þessu lán fyrir andvirði hinnar keyptu vöru eða þjónustu sem útgefandi kortsins yfirtekur. Lánið er samkvæmt framansögðu veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti. Samkvæmt skýrum fyrirmælum 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 gildir 10 ára fyrningarfrestur á kröfum sem byggjast á peningalánum ekki um lán af þessu tagi. Því fyrnast slíkar kröfur á fjórum árum í samræmi við almennan fyrningarfrest kröfuréttinda í 3. gr. laganna.

         Stefnandi hefur ekki fært rök fyrir því að kröfur hans á hendur stefnda vegna úttekta hans með kortinu eigi rætur að rekja til annars en fjármögnunar á kaupum á vöru eða þjónustu með greiðslufresti. Af þessu leiðir að fyrningarfrestur þeirra er fjögur ár.

         Eins og rakið hefur verið sótti stefnandi 24. janúar 2011 um greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þegar tekið var við umsókninni hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði II í lögunum, sbr. 11. gr. laga nr. 135/2010. Í 11. gr. laganna kemur fram að meðan tímabundin frestun greiðslna varir sé lánardrottnum meðal annars óheimilt að krefjast eða taka við greiðslum á kröfum sínum, sbr. a-lið 1. mgr. ákvæðisins. Með málshöfðun gegn skuldara er hann krafinn um greiðslu skuldarinnar og er það liður í löginnheimtu kröfunnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og 24. gr. a í lögum nr. 77/1998 um lögmenn. Samkvæmt þessu virðist ákvæði 11. gr. laga nr. 101/2010 meðal annars hafa verið ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhafar höfðuðu dómsmál til innheimtu á kröfum sínum meðan greiðsluaðlögunarumleitanir stæðu yfir.

         Þrátt fyrir framangreinda ályktun um ætlan löggjafans er í lögum nr. 101/2010 ekki mælt fyrir um það að unnt sé á einhvern annan hátt en með málshöfðun að slíta fyrningu kröfu á hendur þeim sem æskir greiðsluaðlögunar. Þar kemur einungis fram að sé krafa tryggð með lögveði, þegar frestun greiðslna hefst, skuli sá tími sem sú frestun er í gildi vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs, eins og segir í 4. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 135/2010. Athugasemdir við ákvæðið í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp það er varð að lögum nr. 135/2010 gefa til kynna að tilefni lagabreytingarinnar hafi verið að lögveðum væri oft „áskilin tímabundin lögvernd“. Ákvæði þetta tekur samkvæmt efni sínu aðeins til krafna sem tryggðar eru með lögveði og framlengir einungis gildistíma lögveðsréttarins, eins og lýst í nefndarálitinu. Þær aðstæður sem ákvæðið fjallar um eru því ekki efnislega sambærilegar þeim aðstæðum sem uppi eru í þessu máli er lýtur að fyrningu almennrar kröfu. Því er skilyrðum ekki fullnægt til þess að láta ákvæðið gilda með lögjöfnun um fyrningu þeirrar kröfu sem stefnandi kveðst eiga á hendur stefnda. Breytir engu í því sambandi þó að áætlanir löggjafans um tímalengd greiðsluaðlögunarumleitana hafi ekki reynst raunhæfar.

         Opinber innköllun var gefin út af umsjónarmanni vegna umsóknar stefnda um greiðsluaðlögun. Þar var skorað á kröfuhafa stefnda að lýsa kröfum sínum innan ákveðins frests. Stefnandi lýsti þeirri kröfu sem um ræðir innan kröfulýsingarfrests. Ákvæði 13. gr. laga nr. 150/2007 gildir um fyrningu kröfu sem þannig hefur verið lýst fyrir umsjónarmanni. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist hún ekki fyrr en eitt ár er liðið frá því að kröfulýsingarfresti lauk. Við gjaldþrotaskipti og opinber skipti dánarbúa gilda hins vegar sérstakar reglur, sbr. 18. gr. og 2. mgr. 22. gr. laganna, sem og við nauðasamningsumleitun, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í öllum þessum tilvikum er kveðið á um það að fyrningu sé slitið ef kröfunni er lýst áður en kröfulýsingarfrestur er á enda runninn. Útilokað er að beita þessum ákvæðum með rýmkandi skýringu eða lögjöfnun um það tilvik þegar kröfu er lýst fyrir umsjónarmanni með greiðsluaðlögun, enda lögákveðið hvaða áhrif slík kröfulýsing hefur á fyrningu kröfunnar, sbr. fyrrgreint ákvæði 13. gr. laga nr. 150/2007.

         Stefnandi byggir málatilbúnað sinn enn fremur á því að fyrningu krafna stefnanda hafi verið slitið við það að stefndi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun fyrir umboðsmann skuldara. Um það vísar hann til 16. gr. laga nr. 150/2007. Þar kemur fram að fyrningu sé slitið þegar kröfuhafi leggur málið til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Sama regla gildir þegar kröfur eru lagðar fyrir kæru- og úrskurðarnefndir sem settar hafa verið á fót af skuldara eða starfsgreinasamtökum sem hann á aðild að eða með þátttöku þeirra. Eins er fyrningu kröfu slitið sé hún lögð fyrir kæru- eða umkvörtunarnefnd sem hefur verið sett á fót á grundvelli fyrirmæla í lögum eða ef skuldari samþykkir að krafan sé lögð fyrir starfandi kæru- eða umkvörtunarnefnd.

         Dómurinn fær ekki séð að þessi lögákveðnu tilvik taki til þess þegar óskað er greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara. Því til stuðnings ber í fyrsta lagi að taka fram að það er skuldari, en ekki kröfuhafi, sem æskir greiðsluaðlögunar. Þá er hvergi gert ráð fyrir því í lögum nr. 101/2010 að afstaða sé tekin til réttmætis lýstra krafna, einungis að leitað sé heildstæðrar lausnar á greiðsluvanda skuldara með samningum við kröfuhafa. Því er hvorki unnt að líta á umboðsmann skuldara né umsjónarmann með greiðsluaðlögun sem stjórnvald sem hafi sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka ágreiningi um kröfuna. Því síður eru þessir aðilar kæru- eða úrskurðarnefndir sem hægt er að leggja ágreining um kröfuna fyrir. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á að fyrningu krafna stefnanda hafi verið slitið á grundvelli 16. gr. laga nr. 150/2007.

         Þær kröfur sem hér eru til umfjöllunar áttu að koma til greiðslu 2. janúar, 2. febrúar, 2. mars, 2. apríl og 4. maí 2009. Stefndi greiddi inn á kröfurnar síðast 6. september 2009 og hófst þá nýr fyrningarfrestur, sbr. 14. gr. og 20. gr. laga nr. 150/2007. Í samræmi við 3. gr. sömu laga fyrndust kröfurnar á fjórum árum eins og nánar hefur verið rökstutt hér að framan. Fyrningu er slitið við lögákveðnar aðstæður. Ekki eru lagarök fyrir því að fyrningu krafnanna hafi verið slitið með því að stefndi sótti um greiðsluaðlögun, með samþykkt umboðsmanns skuldara samkvæmt 7. gr. laga nr. 101/2010 eða með því að stefnandi lýsti kröfum sínum fyrir umsjónarmanni með greiðsluaðlögun. Kröfurnar voru ófyrndar þegar ár var liðið frá kröfulýsingarfresti í október 2012. Þær voru einnig ófyrndar þegar umboðsmaður skuldara ákvað að fella niður heimild stefnda til að leita greiðsluaðlögunar í febrúar 2013. Fyrningarfrestur þeirra var aftur á móti liðinn þegar mál þetta var höfðað 5. febrúar 2014 og kröfurnar því fallnar niður samkvæmt 24. gr. laga nr. 150/2007. Því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

         Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir, með hliðsjón af eðli málsins og meðferð þess fyrir dómi, og að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

         Stefndi, Ágúst Þór Árnason, er sýkn af kröfum stefnanda, Arion banka hf.

         Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.