Hæstiréttur íslands

Mál nr. 508/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 25

 

Mánudaginn 25. september 2006.

Nr. 508/2006.

Lögreglustjórinn í Keflavík

(enginn)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fallist er á með héraðsdómara að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið allmörg auðgunarbrot og að ætla megi að hann muni halda áfram brotum á meðan að máli hans er ekki lokið. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2006.

Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur í dag, með endanlegri kröfugerð sinni, krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, með lögheimili að [...], en án fasts samastaðar, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 föstudaginn 20. október nk. á meðan mál hans eru til rannsóknar og eftir atvikum þar til dómur gengur í málum hans.

Krafan er reist á ákvæðum c liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að kærði sé grunaður um að hafa framið fjölda auðgunarbrota á þessu ári og séu mál þessi til rannsóknar hjá lögreglu í Keflavík, Reykjavík, á Selfossi og á Húsavík. Þann 19. þessa mánaðar hafi kærði verið handtekinn af lögreglunni á Selfossi grunaður um að hafa, í félagi við aðra, brotist inn í Árnes, Skeiða- og Gnúpverjahreppi og stolið þar skjávarpa, fartölvum, áfengi o.fl. Hinir grunuðu hafi verið á bifreið sem hafði verið tekin án heimildar á Húsavík. Kærða og félögum hans hafi verið sleppt eftir yfirheyrslur og síðan ekið af lögreglu til Reykjavíkur. Í nótt hafi lögregla handtekið kærða og félaga hans þar sem þeir voru á bifreið sem tekin hafði verið í heimildarleysi. Séu þeir grunaðir um að hafa brotist inn á heimili bifreiðareigandans og tekið þar lykla að bifreiðinni. Þá hafi í bifreiðinni fundist munir sem lögregla telji að geti verið þýfi.

Lögregla kveður a.m.k. fimmtán mál auk framangreindra tveggja brota vera til rannsóknar á hendur kærða þar sem hann, einn eða í félagi við aðra, sé grunaður um innbrot eða þjófnað á verulegum fjármunum. Eru brotin í kröfu tilgreind þannig:

,,Mál nr. 34-2006-7088 – Þjófnaður. (06.07.2006)

[X] viðurkennir þjófnað á vörum í versluninni Samkaup í Njarðvík.

 

Mál nr. 34-2006-7409 – Þjófnaður. (14.07.2006)

[X] viðurkennir þjófnað á áfengisflösku í verslun ÁTVR í Keflavík.

 

Mál nr. 34-2006-7760 – Hótanir. (23.07.2006)

[X] neitar að hafa ógnað vegfarenda neð hnífi á Hafnargötu í Keflavík, þó veiðihnífur fannst í háu grasi þar sem hann stóð þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum.

 

Mál nr. 10-2006-38526 – Innbrot. (10.08.2006)

[X] viðurkennir innbrot í Dagur Group í Skeifunni í Reykjavík eftir að kennsl voru borin á hann með fingrafararsamanburði.

 

Mál nr. 34-2006-8465 – Innbrot – þjófnaður. (11.08.2006.)

[X] viðurkennir ekki innbrot og þjófnað á [Y] í [...].  Þýfi úr þess innbroti fannst í bifreið sem [X] var í þann 13.08.2006.

 

Mál nr. 34-2006-8487 – Innbrot – þjófnaður. (12.08.2006)

[X] viðurkennir ekki innbrot og þjófnað að [Z] í [...].  Þýfi úr þess innbroti fannst í bifreið sem [X] var í þann 13.08.2006.

 

Mál nr. 34-2006-8505 – Innbrot -  þjófnaður. (13.08.2006)

[X] viðurkennir innbrot og þjófnaði í [...].

 

Mál nr. 34-2006-8804 – Innbrot – þjófnaður – hilming. (22.08.2006)

[X] neitar að hafa brotist inn í tryggingafélagið Vörð í Keflavík, hann hafi verið alla nóttina í íbúð á [Þ].  Einnig neitar hann að hafa vitað að munir sem fundust á honum við handtöku hafi verið þýfi.  [A], leigjandi íbúðarinnar að[ Þ], segir [X] hafa farið út um nóttina ásamt [B] og þeir komið með baka með peningaskáp.

 

Mál nr. 34-2006-9052 – þjófnaður – fjársvik. (28.08.2006)

[X] neitar að hafa stolið veski með depet- og kretidkortum í á [Æ] í [...] en játar að hafa verið viðstaddur þegar peningar voru teknir út úr hraðbanka í [...] morguninn eftir þjófnaðinn, með kreditkortinu.  [X] neitar að greina frá því hver tók peninginn út en myndir náðust af honum og öðrum manni að athafna sig í hraðbankanum.

 

Mál nr. 34-2006-9406 – Þjófnaður – fjársvik. (05.09.2006)

[X] neitar að hafa stolið depet- og kretidkortum úr bifreið sem var utan við [Ö] í [...], og neitar að hafa notað kortin í viðskiptum á Fitjagrilli seinna þann dag.  [C] hefur viðurkennt að hafa verið með [X] þegar kortaviðskiptin fóru fram á Fitjagrill.

 

034-2006-07979,  29. júlí 2006.  þjófnaður - fjársvik-greiðslukort

Þjófnaður úr rútubifreið.  Hér hefur [X] gengist við að hafa stolið munum.  [D] þóttist sjálfur eiga hluta þýfisins.  Voru þar ásamt [B]. Greiðslukort voru misnotuð og þarf frekari rannsóknar við.

 

034-2006-09064, dags. 28. ágúst 2006.  Þjófnaður

Innbrot á heimili.  Þýfið fannst við húsleit á heimili móður [D].  [D] játaði og sagði sig og [X] hafa brotist inn.  [X] neitaði.  Enn vantar hluta þýfis.

 

034-2006-09426, dags. 5. september.  Nytjastuldur   þjófnaður fjársvik-greiðslukort

Nytjastuldur ökutækis, stolið greiðslukorti og það notað.  [X] handtekinn á bifr. og gekkst við brotunum.  [D] með honum í bifr.”

 

Lögregla kveður kærða vera vanaafbrotamann sem þurfi að stöðva til þess að hægt sé að afgreiða mál hans með lögreglurannsókn, ákærumeðferð og væntanlegri dómsmeðferð.

Kærði hefur fyrir dóminum játað sök í sjö ofangreindra brota en neitað sök að öðru leyti. Þá bar kærði fyrir dóminum að hann neytti fíkniefna en stundaði ekki vinnu auk þess sem hann ætti ekki fastan samastað. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki geta skýrt hvernig hann fjármagnaði fíkniefnaneyslu sína.

Af hálfu kærða var þess krafist að gæsluvarðhaldskröfunni yrði hafnað.

Af gögnum málsins má sjá að kærði er grunaður um að hafa frá því í júlí sl. framið fjölda augðunarbrota auk annarra hegningarlagabrota og hefur hann gengist við sjö þeirra. Þá er komið fram að kærði er heimilislaus fíkniefnaneytandi og benda gögn málsins til þess að hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína með auðgunarbrotum. Á sakavottorði kærða kemur fram að þann 15. febrúar sl. var ákvörðun refsingar hans frestað skilorðsbundið í 2 ár vegna þjófnaðarbrots og brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá var kærði þann 6. júní sl. dæmdur í 9 mánaða fangelsi, þar af voru 6 mánuðir skilorðsbundnir í 2 ár, fyrir rán en um hegningarauka var að ræða.

Þegar litið er til framangreinds og rannsóknargagna málsins verður að telja að rökstuddur grunur leiki á því að kærði hafi framið tilgreind brot og hefur hann ekki látið sér segjast þrátt fyrir tvo skilorðsbundna dóma á þessu ári og afskipti lögreglu af honum. Má ætla að kærði muni halda brotum áfram á meðan málum hans er ekki lokið. Kærði á yfir höfð sér fangelsisrefsingu fyrir framangreind brot auk þess sem hann hefur rofið skilorð framangreindra dóma. Þykja því uppfyllt skilyrði c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þes að fallast á kröfu lögreglustjórans í Keflavík um gæsluvarðhald yfir kærða. Þykja engin efni til að marka gæsluvarðhaldinu styttri tíma en krafist er og er endanleg krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, [X], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október nk. kl. 16:00.