Hæstiréttur íslands

Mál nr. 330/2000


Lykilorð

  • Upplýsingaskylda
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. október 2000.

Nr. 330/2000.

Rannsóknarnefnd sjóslysa

(Haraldur Blöndal hrl.)

gegn

Sigurði Rúnari Hrólfssyni

(Skúli Pálsson hrl.)

                                     

Upplýsingaskylda. Sératkvæði.

S, sem varð fyrir slysi um borð í skipi E hf., reyndi að fá félagið til að afhenda sér gögn er slysið vörðuðu. Var því neitað nema gegn því að hann afsalaði sér kröfum á hendur félaginu vegna slyssins. Gögn þessi, sem honum voru þannig ekki tiltæk frá öðrum en R án höfðunar dómsmáls, voru S nauðsynleg svo hann gæti gert sér grein fyrir því hvort hann ætti frekari kröfur vegna slyssins. Þar sem gögnin vörðuðu S sjálfan var talið að um um skyldu R til afhendingar skjalanna færi að 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga og undantekningarákvæði 2. mgr. sömu greinar og 4. gr. sömu laga ættu ekki við í máli þessu.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 25. ágúst 2000. Hann krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 3. ágúst 2000 í málinu A-99/2000 og dæmt að synja beri stefnda um aðgang að þeim gögnum, er H/f Eimskipafélag Íslands lét áfrýjanda í té vegna slyss, er stefndi varð fyrir um borð í m.s. Altona 8. febrúar 1997. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Tildrög máls og málsástæður koma fram í héraðsdómi. Stefndi reyndi að fá H/f Eimskipafélag Íslands til að afhenda sér gögn sem vörðuðu slys, er hann varð fyrir um borð í skipinu m.s. Altona. Var því neitað nema gegn því að hann afsalaði sér kröfum á hendur félaginu vegna slyssins. Honum eru þessi gögn þannig ekki tiltæk frá öðrum en áfrýjanda án höfðunar dómsmáls. Gögn þessi eru honum nauðsynleg svo að hann geti gert sér grein fyrir því, hvort hann eigi frekari kröfur vegna slyssins.

Gögnin, sem um er deilt, varða stefnda sjálfan, en skýran mun verður að gera á almennri skyldu samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996 og þeim aðgangi að skýrslum og gögnum sem aðilar sjálfir eiga rétt á samkvæmt lögunum.  Með vísun til raka héraðsdóms ber að fallast á að um skyldu áfrýjanda til afhendingar skjalanna fari að 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga og undantekningarákvæði 2. mgr. sömu greinar og 4. gr. sömu laga eigi ekki við í máli þessu. Ber því að staðfesta héraðsdóm.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                      Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Rannsóknarnefnd sjóslysa, greiði stefnda, Sigurði Rúnari Hrólfssyni, 150. 000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

I.

Rannsóknarnefnd sjóslysa var sett á stofn á árinu 1970 samkvæmt fyrirmælum 44. gr. (síðar 45. gr.) laga nr. 52/1970 um eftirlit með skipum. Voru störf hennar í öndverðu einkum fólgin í því að fylgjast með störfum sjódóma við rannsóknir á sjóslysum og safna með þeim og öðrum hætti upplýsingum um orsakir sjóslysa, sem miðla mætti til sjómannaskóla, sjómanna og útgerðarmanna, ásamt tillagnagerð um ráðstafanir til að draga úr slysahættu á sjó. Með lögum nr. 21/1986 um breytingu á siglingalögum nr. 34/1985 voru ákvæði um nefndina í raun flutt í 230. gr. og 231. gr. þeirra laga, þar sem kveðið hafði verið á um heimild handa samgönguráðherra til að skipa sérstaka nefnd til rannsóknar á einstökum sjóslysum, ef sérstaklega ríkar ástæður þættu mæla með því, svo sem ef slys væri stórfellt eða þyrfti óvenju umfangsmikillar rannsóknar við. Gæti rannsókn slíkrar nefndar komið í stað sjóprófa fyrir dómi, ef því væri að skipta. Í breytingunni, sem tók til 230. gr., fólst ákvörðun þess efnis, að starfandi yrði föst nefnd kunnáttumanna, er kanna skyldi orsakir allra sjóslysa, þegar íslensk skip færust, og einnig rannsaka öll slys, þar sem manntjón yrði eða annars væri rík ástæða til rannsóknar. Skyldi nefnd þessi starfa sjálfstætt og óháð og embættisdómurum og lögreglustjórum á hverjum stað vera skylt að veita henni aðstoð við skýrslutöku og aðra þætti málsrannsóknar. Nánari fyrirmæli um starfshætti nefndarinnar var að finna í 4. – 5. mgr. 230. gr. og 231. gr. laganna, sem hélst óbreytt. Samkvæmt ummælum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 21/1986 var breytingunni ætlað að beina rannsókn sjóslysa í svipaðan farveg og rannsókn flugslysa í höndum flugslysanefndar eftir loftferðalögum.

Á grundvelli þessara ákvæða var rannsóknarnefnd sjóslysa endurskipulögð á árinu 1986 og henni falið að gegna því rannsóknarhlutverki, sem þau gerðu ráð fyrir. Hefur hún starfað eftir þeim fram til 1. september sl., þegar við tóku ákvæði sérstakra laga nr. 68/2000 um rannsókn sjóslysa. Í störfum sínum hefur nefndin þó lengst af ekki beitt heimildum sínum til sjálfstæðra rannsókna út í æsar, heldur hefur hún stuðst að miklu leyti við rannsóknir í sjóprófum og hjá lögreglu. Er að því stefnt með hinum nýju lögum og ákvæðum laga nr. 69/2000 um breytingar á siglingalögum nr. 34/1985, að á þessu verði breyting í hina áttina. Í samræmi við upphafleg verkefni sín og ákvæði 1. mgr. 231. gr. siglingalaganna hefur nefndin fylgt því viðhorfi í rannsóknarstörfum sínum, að markmið þeirra væri ekki að kalla fram niðurstöður um sök eða ábyrgð á slysum, heldur að greina orsakir sjóslysa til að leiða í ljós, hvað betur mætti fara, og efla þannig öryggi í sjóferðum og ráðstafanir til að forðast slys um borð í skipum. Á þetta viðhorf einnig að ráða um rannsóknir samkvæmt lögum nr. 68/2000, sbr. 12. gr. þeirra, og er það ennfremur í samræmi við alþjóðlegar reglur, sem Ísland hefur staðfest.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga taka þau til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í 2. gr. laganna, sem fjallar um gildissvið þeirra gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum, segir þó með upptalningu í 1. mgr., að lögin gildi ekki um þinglýsingu, aðfarargerðir, nauðungarsölu, gjaldþrotaskipti eða búskipti eða skylda stjórnsýslu, sem fyrrum var á valdsviði fógeta, né heldur um rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Á þetta ákvæði er óþarft að líta sem undantekningu frá meginreglu 1. gr., þar sem í því felst í raun önnur meginregla þess efnis, að sérstök sjónarmið eigi við á þeim stjórnsýslusviðum, er næst standa dómsvaldinu, að meðtöldu verksviði ákæruvalds og lögreglu á vettvangi opinberra mála. Meðal annars varða þau sjónarmið væntanlega þá ýmsu aðila, sem hagsmuna eiga að gæta á þessum sviðum. En hvað sem nafngiftum líður í þessu tilliti ber að skýra ákvæðið eftir efni sínu og umhverfi, eins og aðra lagastafi.

Telja verður ljóst, að rannsóknarnefnd sjóslysa sé stjórnvald og tilheyri stjórnsýslu í landinu í þeirri merkingu, sem um ræðir í 1. gr. upplýsingalaga. Hins vegar er jafnljóst, að vegna verkefna sinna stendur hún mjög nærri þeirri stjórnsýslu, sem lýst er í 1. mgr. 2. gr. Virðist að mörgu leyti eðlilegt að fella störf nefndarinnar undir þessa lagagrein með rúmri skýringu, einkum þegar horft er til beinna orða 230. gr. siglingalaga um starfshætti hennar hingað til. Nauðsynlegt er þó að taka tillit til þess, að nefndin hefur í reynd ekki stundað rannsóknir sínar sjálfstætt nema að takmörkuðu leyti, og þess viðhorfs um markmið rannsóknanna, sem fyrr greinir og nú er lýst í lögum nr. 68/2000. Að því athuguðu virðist réttara að líta svo á, að lagagreinin eigi ekki við, þannig að almenn ákvæði upplýsingalaga taki til nefndarinnar.

Eftir sem áður blasir það við, að verkefni nefndarinnar veita henni sérstöðu, sem gerir það að verkum, að fyrirmæli upplýsingalaga geti ekki átt við um skyldur hennar nema með takmörkunum, sem leiða kunni af ákvæðum laganna um hana sjálfa. Af þeim má draga allskýrar ályktanir um upplýsingaskyldur nefndarinnar og aðgang að gögnum hennar, og á það bæði við um 230. gr. 231. gr. siglingalaga og samsvarandi ákvæði laga nr. 68/2000. Er eðlilegt, að þessi ákvæði gangi framar reglum upplýsingalaga, svo langt sem þau ná.

Meðal þessara ályktana eru þær, að nefndinni sé ætlað að geta unnið að rannsóknum sínum með sem líkustum hætti og þeim, er við á um sjópróf og rannsókn opinberra mála, og að henni sé að jafnaði ekki ætlað að tjá sig um rannsóknirnar eða niðurstöður þeirra nema með skýrslu, er út sé gefin í lok rannsóknar, sbr. 231. gr. siglingalaga og 12.-14. gr. laga nr. 68/2000. Er það einkum þetta, sem máli skiptir andspænis kröfu stefnda um aðgang að gögnum í fórum nefndarinnar, þar sem nefndin hefur haft um hönd rannsókn á slysi því, er hann varð fyrir, og skýrir svo frá hér fyrir dómi, að þeirri rannsókn sé ekki lokið. Er þannig álitaefni, hvort hafna beri kröfu hans af þeirri ástæðu, að hún sé ekki tímabær, og að hann muni geta ætlast til aðgangs að skýrslu nefndarinnar við lok rannsóknarinnar. Á hinn bóginn er á það að líta, að nefndin hefur ekki haft þessa málsástæðu uppi nema öðrum þræði, og að afhending afrits af gögnunum virðist ekki mundu raska rannsóknarhagsmunum hennar. Fyrir liggur jafnframt, að gögnin eru hlutlæg og þess eðlis, að stefndi eigi að njóta aðgangs að þeim að öðru jöfnu, ásamt því, að honum eru þau ekki tiltæk frá öðrum án atbeina dómstóla, þótt hagsmunir hans séu brýnir og bersýnilegir.

Telja verður samkvæmt þessu, að umrædd ákvæði siglingalaga eða laga nr. 68/2000 standi því ekki í vegi, að krafa stefnda verði tekin til greina, og að því athuguðu er ég sammála atkvæði annarra dómenda.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. ágúst 2000.

 

Mál þetta sem dómtekið var 22. þ.m. höfðaði Rannsóknarnefnd sjóslysa, kt. 540782-0169, Hafnarhúsinu, Reykjavík á hendur Sigurði Rúnari Hrólfssyni, kt.140847-2169, Dalhúsum 48, Reykjavík, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu móttekinni af lögmanni stefnda 16. þ.m.

Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991.

 

I

Dómkröfur stefnanda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 3. ágúst 2000, í málinu nr. A-99/2000: Sigurður Rúnar Hrólfsson gegn Rannsóknar­nefnd sjóslysa og dæmt að synja beri stefnda um aðgang að þeim gögnum, er H/f Eimskipafélag Íslands lét stefnanda í té vegna slyss er stefndi varð fyrir um borð í m.s. Altona hinn 8. febrúar 1997.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

 

Úrskurðarorðið í framangreindum úrskurði er svohljóðandi:

„Rannsóknarnefnd sjóslysa er skylt að veita kæranda, Sigurði Rúnari Hrólfssyni, aðgang að gögnum sem Hf. Eimskipafélag Íslands lét nefndinni té vegna slyss er kærandi varð fyrir um borð í m.s. Altona hinn 8. febrúar 1997.”

 

Dómkröfur stefnda eru þær að kröfum stefnanda verði hrundið og að staðfestur verði úrskurður Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 3. ágúst 2000, í málinu A­99/2000.

Stefndi krefst málskostnaðar að skaðlausu.

 

II

Stefndi varð fyrir slysi um borð í skipinu m.s. Altona þegar það var statt í Argentia á Nýfundnalandi hinn 8. febrúar 1997 og hefur verið metinn 60% öryrki af tryggingalækni. Hann vann þá sem “supercargo”, eða sem umsjónarmaður farms, í þjónustu Hf. Eimskipafélags Íslands. Stefndi hefur fengið greiddar bætur frá tryggingarfélagi Hf. Eimskipafélags Íslands. Hann telur sig geta átt rétt á frekari bótum, annað hvort frá vinnuveitanda sínum, sem hann telur þó vera ólíklegt, eða eiganda skipsins Altona, en það var í tímaleigu hjá Eimskipafélaginu.

Fram kemur í bréfi lögmanns stefnda til stefnanda dags. 28. apríl sl. að hann hafi reynt að fá í sínar hendur gögn frá Hf. Eimskipafélagi Íslands en fengið þau svör frá lögmanni félagsins að þau yrðu látin í té gæfi stefndi skriflega yfirlýsingu um að hann myndi ekki gera neinar kröfur á hendur félaginu vegna slyssins. Við það hafi stefndi ekki viljað una.

Í bréfi þessu fer lögmaður stefnda þess á leit við Rannsóknarnefnd sjóslysa að

„nefndin hafi milligöngu um að hafa upp á gögnum, sem kunna að vera í vörslum

Eimskipafélagsins og annarra varðandi slysið.”

Með bréfi dags. 22. mars sl. bað stefnandi ítrekað Hf. Eimskipafélag Íslands um eftirgreindar upplýsingar um slysið.

 

1. Skýrsla skipstjóra um slysið

2. Afrit af dagbók skipsins fyrir 8., 9. og 10. feb. 1997

3. Upplýsingar um skipið s.s. hvar skráð, stærð þess brl., lengd, breidd og dýpt

4. Skrá  yfir skipverja í umræddri ferð

5. Upplýsingar um hvort yfirvöld í Argentia hafi rannsakað slysið og skýrslur þaðan

6. Skýrslur teknar af slasaða og öðrum skipverjum og varða slysið

 

Umbeðin gögn fékk stefnandi send með bréfi dags. 24. apríl sl. og segir m.a. í því

eftirfarandi:

„Með vísan til bréfs þíns dags. 22.03.00, þar sem þú ferð fram á að fá afhent gögn

varðandi ofangreint mál, sendast meðfylgjandi þau gögn sem um er beðið. Þykir rétt að árétta að meðfylgjandi gögn eru afhent sem trúnaðarmál og í trausti þess að þau sjálf eða afrit þeirra komi ekki fyrir augu annarra en nefndarinnar.”

Hinn 13. júní sl. ritaði formaður Rannsóknarnefndar sjóslysa lögmanni stefnda bréf og

í því segir m.a. eftirfarandi:

„Eins og málið liggur fyrir, getur  nefndin ekki án úrskurðar afhent þau gögn, er h/f Eimskipafélag Íslands afhenti nefndinni. Bera má þess synjun undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50, 24. maí 1996.”

Með bréfi dags. 28. júní sl. gerði lögmaður stefnda kröfu fyrir Úrskurðarnefnd um upplýsingamál um að hún úrskurðaði um neitun Rannsóknarnefndar sjóslysa um upplýsingar varðandi Sigurð Rúnar Hrólfsson, sem orðið hafi fyrir slysi í m.s. Altona 8. febrúar 1997 í Argentia á Nýfundnalandi.

Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð sinn 3. ágúst sl. eins og fyrr er frá greint.

 

III

Stefnandi telur sig ekki geta unað úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál af þeim sökum að afleiðingar hans yrðu þær að allt trúnaðartraust milli þeirra, er nefndin leiti til um upplýsingar þegar sjóslys verða, og nefndarinnar myndi bresta.

Rannsóknum Rannsóknarnefndar sjóslysa megi öldungis líkja við rannsóknir í opinberum málum. Nefndin hafi m.a. heimild til að kveðja til lögreglu og fá aðstoð dómstóla við störf sín. Nefndin sé því ekki stjórnvald í þeirri merkingu orðsins enda starfi hún sjálfstætt og óháð, sbr. 230. og 231. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þar af leiði að lög nr. 50/1996 eigi ekki við um starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, a.m.k. ekki á meðan rannsókn nefndarinnar standi. Rannsóknarskýrsla nefndarinnar, þegar hún hafi verið gefin út, geti hins vegar orðið sönnunargagn í dómsmáli.

Ennfremur heldur stefnandi því fram, að gögn þau sem stefndi krefst að fá í hendur falli undir 2. tl. 4. gr. laga nr. 50/1996, sbr. 9. gr. og sé nefndinni því ekki skylt að láta þau af hendi við hann.

Þótt samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar frá 1997 um reglur um rannsóknir sjóslysa og óhappa á sjó hafi ekki verið birt hér á landi þá beri til hennar að líta við skýringar á íslenskum lögum, en Ísland sé bundið við hana að þjóðarétti. Um sé að ræða áskorun um að haga sjóslysarannsóknum með ákveðnum hætti. Kveðið sé á um það hver tilgangur rannsókna, eins og Rannsóknarnefnd sjóslysa framkvæmi, eigi að vera og skýrt tekið fram að slíkar rannsóknir séu óháðar öllum öðrum rannsóknum sem fram fari á sjóslysum.

Stefnandi hafi fengið hin umdeildu gögn með þeim fyrirvara að þau yrðu ekki látin af hendi til þriðja aðila. Sá fyrirvari hafi fullt gildi. Stefndi reyni nú að fá þau gögn í hendur sem Hf. Eimskipafélag Íslands hafi synjað honum um og sé með þeim hætti að nota Rannsóknarnefnd sjóslysa til öflunar gagna í hugsanlegu einkamáli. Stefndi eigi að beina þessari kröfu gegn Eimskipafélaginu eða útgerðarfélagi skipsins, sem honum sé í lófa lagið.

 

IV

Stefndi heldur því fram að Rannsóknarnefnd sjóslysa sé stjórnvald í skilningi 1. gr. laga nr. 50/1996. Nefndin starfi á grundvelli 230. og 231. gr. siglingalaga, nr. 45/1985, sé skipuð af samgönguráðherra og ríkissjóður kosti starfsemi hennar.

Stefndi heldur því fram að undantekningarákvæðin í 4. gr. laga nr. 50/1996 eigi engan veginn við um hin umdeildu gögn.

Þá heldur stefndi því fram að hann sé aðili í skilningi 1. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1996 og eigi samkvæmt því ákvæði rétt á því að fá umdeild gögn í hendur. Undantekningarákvæði 2. og 3. mgr. 9. gr. laganna eigi ekki við. Enginn vafi leiki á því að hagsmunir stefnda, sem sé 60% öryrki eftir slysið og eigi í miklum eftirköstum eftir það, gangi framar hagsmunum Hf. Eimskipafélags Íslands, bæði fjárhagslega og á annan hátt.

Ljóst sé að stjórnvald, sem Rannsóknarnefnd sjóslysa, geti ekki borið fyrir sig, þegar um stórvægilega hagsmuni sé að ræða, að því hafi verið afhent gögn í trúnaði þegar þau gögn snerti þá hagsmuni. Þegar aðilar eigi óskertan rétt til gagna í höndum stjórnvalda sé ekki heimilt að halda þeim leyndum skv. ákvæðum upplýsingalaga. Sú fullyrðing stefnanda, að afhending gagnanna muni skerða trúnaðartraust milli aðilja sér haldlaus. Ljóst sé að niðurstöður stefnanda séu birtar opinberlega og þar komi fram hverjar stefnandi telji orsakir þeirra slysa sem rannsókn nái til. Þannig geti þau gögn sem frá nefndinni sjálfri komi orðið sönnunargagn í dómsmáli.

Þegar stefndi hafi skrifað stefnanda hinn 28. apríl sl. hafi hann beðið um að aflað yrði gagna í vörslum Eimskipafélagsins og annarra sem kynnu að hafa gögn undir höndum varðandi slys stefnda. Hann hafi þá ekki vitað að stefnandi hafi þá þegar haft hin umdeildu gögn undir höndum. Það sem hér skipti máli sé að stefnandi hafi aflað upplýsinga sem honum skylt að lögum að láta stefnda í té.

 

V

Niðurstaða dómsins

 Stefnandi heldur því fram að rannsóknir Rannsóknarnefndar sjóslysa séu hliðstæðar rannsóknum í opinberum málum og byggir m.a. á því að í 4. mgr. 230. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, sé kveðið á um það að nefndin skuli í störfum sínum fylgja meginreglum laganna um sjópróf og um skyldu manna til þess að gefa skýrslu fyrir nefndinni, um öflun sönnunargagna og um vettvangskönnun gildi sömu reglur og í opinberum dómsmálum eftir því sem við geti átt. Þá sé lögreglu skylt að aðstoða nefndina við rannsókn. Af þessu leiði að Rannsóknarnefnd sjóslysa sé undanþegin upplýsingalögum nr. 50/1996.

Í 1. gr. upplýsingalaganna er kveðið á um það að lögin nái til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og er það aðalregla. Frá þessari reglu er að finna undantekningar í 2. gr. laganna og segir í niðurlagi 1. mgr. að lögin gildi ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli. Þessa undantekningarreglu ber að skýra þröngt.

Þótt í 230. gr. siglingalaga sé vísað til reglna um sjópróf og reglna um skýrslugjöf, gagnaöflun og vettvangskönnun í opinberum málum, eftir því sem við getur átt, þá verður að líta svo á að um sé að ræða fyrirmæli um starfsháttu Rannsóknarnefndar sjóslysa, sem leiði ekki til þess að nefndinni sé markaður bás utan stjórnsýslu ríkisins í skilningi upplýsingalaga. Til þess að svo væri þyrfti mun skýrari lagafyrirmæli. Samkvæmt þessu verður á því byggt að Rannsóknarnefnd sjóslysa sé stjórnvald í skilningi upplýsingalaga og ákvæði laganna nái því til starfsemi nefndarinnar.

Í niðurlagi úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að einvörðungu er leyst úr því álitaefni hvort stefndi í þessu máli eigi rétt á því að fá aðgang að hinum umdeildu gögnum sem aðili máls.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga er kveðið á um það að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Það er án vafa og óumdeilt að þær upplýsingar sem úrskurður Úrskurðarnefndar um upplýsingamál nær til hafa að geyma upplýsingar um stefnda og slys það sem hann varð fyrir og ber því að skoða stefnda sem aðila í skilningi 1. mgr. 9. gr. Samkvæmt því lagaákvæði á stefndi rétt á því að fá aðgang að þessum upplýsingum.

Undantekingaákvæði 4. gr. upplýsingalaga eiga hér ekki við og ekki heldur undantekningaákvæði 2. mgr. 9. gr. laganna.

Dómarinn í máli þessu kynnti sér hin umdeildu gögn. Þar er ekki að finna að því er séð verður neinar upplýsingar um einkamálefni annarra manna. Upplýsingar um slys á borð við það sem stefndi varð fyrir geta ekki talist einkamálefni þess býr yfir upplýsingum um það og hefur ekki orðið fyrir slysinu sjálfur. Fyrirvari Hf. Eimskipafélags Íslands um að Rannsóknarnefnd sjóslysa megi ekki afhenda öðrum gögnin þykir ekki hafa neina þýðingu í þessu máli. Undantekningarákvæðið í 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga á því ekki við hér.

Samkvæmt framansögðu er stefnanda, Rannsóknarnefnd sjóslysa, skylt að veita stefnda aðgang að þeim gögnum sem úrskurður Úrskurðarnefndar um upplýsingamál nær til.

Er því kröfu stefnanda í máli þessu hafnað.

Málskostnaður sem stefnandi greiði stefnda þykir hæfilega ákveðinn kr. 65.000.

Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu stefnanda, Rannsóknarnefndar sjóslysa, um að felldur verði úr gildi úrskurður Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 3. ágúst 2000, í málinu nr. A-99/2000 Sigurður Rúnar Hrólfsson gegn Rannsóknarnefnd sjóslysa.

Stefnandi greiði stefnda, Sigurði Rúnari Hrólfssyni, kr. 65.000 í málskostnað.