Hæstiréttur íslands

Mál nr. 254/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Tímabundin örorka
  • Aðild
  • Aðilaskýrsla
  • Fyrning
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 24. janúar 2002.

Nr. 254/2001.

Guðgeir Ársælsson

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Kvistfelli ehf. og

til vara Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Tímabundin örorka. Aðild. Aðilaskýrsla. Fyrning. Gjafsókn.

G, starfsmaður K ehf., varð fyrir bakmeiðslum þegar unnið var við að reisa með handafli forsmíðaðan húsgafl á sökkli. Búið var að festa gaflinn að ofanverðu þegar hann fauk til á sökklinum. Tók G á gaflinum til að koma honum í réttar skorður og meiddist við þau átök. Eins og atvikum var háttað var G talinn hafa haft mun betri forsendur til að meta það hvort ástæða var til að láta rannsókn fara fram og eiga að henni frumkvæði. Að þessu virtu voru ekki efni til að meta K ehf. í óhag að umræddur atburður var ekki tilkynntur Vinnueftirliti ríkisins eða lögreglu. Ekki var það metið forsvarsmönnum K ehf. til gáleysis hvernig staðið var að því að reisa umrædda veggeiningu. Talið var sannað að ekki hefði verið hætta á að gaflinn félli og því ekki verið brýn þörf skjótra viðbragða G af þeim sökum. Hins vegar var til þess litið að annar forsvarsmanna K ehf. viðurkenndi fyrir dómi að það hafi falist í starfsskyldum G að lyfta gaflinum aftur á sinn stað eftir að hann raskaðist á undirstöðum sínum. Var þetta metið forsvarsmönnum K ehf. til sakar og var fébótaábyrgð vegna bakmeiðsla G því lögð á félagið. Á hinn bóginn var talið að G hefði mátt vera ljóst að óvarlegt var að ætla einn að færa gaflinn, sérstaklega þegar haft var í huga að hann hafði átt við bakmeiðsli að stríða í nokkur ár. Vegna þessa gáleysis G þótti hæfilegt að hann bæri helming tjóns síns sjálfur. Af þessum úrslitum leiddi að krafa G á hendur T hf., sem stefnt var til vara, kom ekki til umfjöllunar.    

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndi Kvistfell ehf. verði dæmdur til að greiða sér 4.878.926 krónur með 2% ársvöxtum frá 7. desember 1994 til 20. janúar 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. verði dæmdur til að greiða sér 1.013.524 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. júní 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Aðalstefndi Kvistfell ehf. krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður verði látinn niður falla. Verði bætur að einhverju leyti dæmdar er þess krafist að fjárhæð þeirra verði miðuð við verðlag á dómsuppsögudegi, sbr. 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og beri 2% ársvexti frá 5. september 1996 til þess dags, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Varastefndi Tryggingamiðstöðin hf. krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu áfrýjanda og að hún beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. febrúar 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í því tilviki krefst hann þess að málskostnaður falli niður.

I.

Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að áfrýjandi varð fyrir meiðslum við vinnu sína hjá stefnda Kvistfelli ehf. 7. desember 1994, þegar unnið var að smíði húss. Voru veggeiningar hússins smíðaðar innan dyra í verkstæðishúsi stefnda og síðan bornar þaðan út og reistar á sökkli, sem stóð á plani sunnan við verkstæðishúsið. Hafði annar gafl hússins og önnur hlið þess þegar verið reist og var unnið að því að koma síðari gaflinum fyrir á sökklinum þegar áfrýjandi varð fyrir bakmeiðslum við það að taka á gaflinum til að koma honum í réttar skorður á sökklinum.

Atburður þessi var ekki tilkynntur lögreglu eða Vinnueftirliti ríkisins og fór engin rannsókn fram á honum fyrr en í tilefni af beiðni þáverandi lögmanns áfrýjanda til lögreglunnar á Selfossi 28. ágúst 1996. Tók lögreglan í september þess árs skýrslur af áfrýjanda og þeim mönnum, sem ásamt honum höfðu unnið að því að reisa fyrrnefndan húsgafl, en þá var liðinn 21 mánuður frá því að áfrýjandi varð fyrir meiðslum. Reisir hann kröfu sína öðrum þræði á því að stefnda Kvistfelli ehf. hafi án tafar borið að tilkynna um atvikið samkvæmt 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa. Vanræksla á þeirri skyldu hljóti að verða metin stefndu í óhag, enda hefðu atvik málsins verið betur upplýst ef atburðurinn hefði strax verið rannsakaður af kunnáttumönnum. Í gögnum málsins kemur fram að áfrýjandi hafði fyrir atburð þennan átt við bakmeiðsl að stríða og var forsvarsmönnum stefnda Kvistfells ehf. um það kunnugt. Eftir atburðinn kveðst áfrýjandi hafa legið stutta stund á jörðinni, en síðan ætlað að halda vinnu sinni áfram. Honum hafi ekki verið það fært vegna kvala í baki og hafi hann að því búnu ekið heim til sín í eigin bifreið, en leitað læknis síðar um daginn. Eins og þessum atvikum er háttað verður að fallast á það með stefnda Kvistfelli ehf. að forsvarsmenn félagsins hafi ekki haft vísbendingar um annað en að fyrri bakmeiðsli áfrýjanda hefðu tekið sig upp og enga ástæðu haft til að ætla að hann hafi orðið fyrir slysi í umrætt sinn. Hafði áfrýjandi mun betri forsendur til að meta það hvort ástæða var til að láta rannsókn fara fram og eiga að henni frumkvæði. Að þessu virtu eru ekki efni til að meta stefndu í óhag að umræddur atburður var ekki tilkynntur Vinnueftirliti ríkisins eða lögreglu.

II.

Eins og að framan er rakið varð áfrýjandi fyrir bakmeiðslum þegar unnið var við að reisa með handafli forsmíðaðan húsgafl á sökkli, sem var fyrir utan verkstæðishús stefnda Kvistfells ehf. Var áfrýjandi ásamt fjórum öðrum mönnum við það verk, en þeir voru Svavar Valdimarsson, annar eigandi og þáverandi forstjóri félagsins, Þorsteinn Þorvaldsson, sem var eigandi þess ásamt Svavari, Árni Guðfinnsson og Axel Þór Gissurarson. Gáfu þeir allir skýrslu fyrir héraðsdómi sem og fyrir lögreglu í september 1996. Fyrir liggur samkvæmt framburði þeirra hjá lögreglu og fyrir dómi að þessir fimm menn báru húsgaflinn út úr verkstæðisbyggingunni og stilltu honum upp á brún sökkulsins. Þrír þeirra, Þorsteinn, Svavar og Árni, stóðu inni á sökklinum og höfðu það hlutverk að reisa gaflinn, en tveir mannanna, áfrýjandi og Axel, stóðu utan sökkulsins hvor við sinn enda á gaflinum og var ætlað að halda við hann þegar hann var reistur.

Áfrýjandi heldur því fram að allur gaflinn hafi verið reistur í einu lagi og hafi hann verið 400 til 500 kg að þyngd. Stefndu halda því fram að einungis hafi verið um að ræða hálfan gafl hússins og að sú veggeining hafi verið mun léttari. Skýrslur þeirra Svavars og Þorsteins hjá lögreglu og fyrir dómi um að gaflinn hafi verið reistur í tvennu lagi og því hafi einungis verið unnið við hálfan húsgafl þegar áfrýjandi meiddist eru studdar framburði vitnisins Árna Guðfinnssonar fyrir héraðsdómi. Þeir Svavar og Þorsteinn töldu fyrir héraðsdómi að gafleiningin hefði verið 100 kg að þyngd eða rúmlega það, en vitnið Árni giskaði á að hún hefði verið um það bil 150 kg. Þá liggur fyrir í málinu bréf frá Verkfræðistofu Suðurlands ehf., sem hannaði húsið, til forsvarsmanns stefnda Kvistfells ehf., þar sem þungi veggeiningarinnar er reiknaður 139,5 kg miðað við húsþurrt efni. Verður á grundvelli þessa að telja í ljós leitt að áfrýjandi hafi meiðst við meðferð á hálfri gafleiningu sem hafi verið um eða innan við 150 kg að þyngd. Samkvæmt fyrirliggjandi teikningum Verkfræðistofu Suðurlands ehf. var gaflhelmingurinn 2,5 m á breidd, en hæð hans 2,7 m við langvegg og 3,6 m við mæni. Þá liggur fyrir í málinu að vinnubrögð voru í umrætt sinn hin sömu og jafnan voru viðhöfð hjá stefnda Kvistfelli ehf. og að ekki var tíðkað að nota krana við að reisa veggeiningar. Á grundvelli framanritaðs verður það ekki metið forsvarsmönnum stefnda Kvistfells ehf. til gáleysis að ætla fimm mönnum að bera og reisa umrædda veggeiningu, enda er nægilega í ljós leitt að þyngd hennar og umfang hafi ekki verið slíkt að það væri svo mörgum mönnum ofviða og ekki er ágreiningu um að veður var gott í umrætt sinn.

Eftir að gaflinn hafði verið reistur var hafist handa um að festa hann. Bar áfrýjandi fyrir héraðsdómi að þá hafi vindhviða feykt gaflinum til að neðanverðu þeim megin, sem hann hélt við hann. Við þetta hafi gaflinn farið út af sökklinum að hluta og sigið aðeins niður og hafi verið ákveðin hætta á að gaflinn félli. Hafi hann þá tekið á gaflinum til að hann færi ekki niður og komið honum aftur á sinn stað uppi á sökklinum, en við þessi átök hafi eitthvað bilað í baki hans. Kvaðst hann aðspurður fyrir héraðsdómi enn hafa haldið við gaflinn þegar hann færðist til, en eitthvað verið búinn að losa takið.

 Svavar Valdimarsson taldi í skýrslu fyrir héraðsdómi að búið hafi verið að festa gaflinn með stífu niður í gólf sökkulsins og með þvingum og lítilsháttar neglingu við þá veggi, sem áður höfðu verið reistir, þegar hann fór að hluta til út af sökklinum. Hafi því ekki verið nein hætta á að gaflinn félli þótt hann færðist til að neðanverðu. Taldi hann að áfrýjandi hafi verið kominn aðeins frá gaflinum þegar þetta gerðist, en gengið aftur að honum og hnykkt honum inn á sökkulinn.

 Þorsteinn Þorvaldsson skýrði fyrir héraðsdómi mjög á sömu lund frá atvikum varðandi það hvernig gaflinn hefði verið festur þegar hann færðist til og kvaðst hann hafa verið byrjaður að negla gaflinn fastan að neðanverðu þegar hann skekktist. Hafi áfrýjandi, sem hafi verið farinn aðeins frá gaflinum, þá gengið til og tekið í hornið á gaflinum til að færa hann upp á sökkulinn, en þá fengið í bakið. Hann var sérstaklega spurður um það af lögmanni áfrýjanda hvort til þess hafi verið ætlast af áfrýjanda að hann setti gaflinn aftur upp á sökkulinn og hvort það hefði verið hluti af starfsskyldum hans. Svaraði Þorsteinn því til að segja mætti að svo væri. Hefði áfrýjandi hins vegar ekki gert það hefði hann gert það sjálfur.

 Árni Guðfinnsson bar fyrir héraðsdómi að búið hefði verið að festa gaflinn að ofan þegar hann raskaðist á sökklinum. Hann mundi ekki við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi hvort áfrýjandi hafi staðið við gaflinn þegar hann færðist til, en hjá lögreglu skýrði hann svo frá að áfrýjandi hafi stokkið til og tekið undir horn gaflsins til að koma því inn á undirstöðuna.

Á grundvelli framangreindra skýrslna verður að ganga út frá því að gaflinn hafi verið orðinn það tryggilega festur að ofanverðu þegar hann fauk til á sökklinum að ekki hafi verið hætta á að hann félli og því ekki brýn þörf skjótra viðbragða áfrýjanda af þeim sökum. Til þess ber hins vegar að líta að Þorsteinn Þorvaldsson, annar forsvarsmanna stefnda Kvistfells ehf., viðurkenndi fyrir héraðsdómi að það hafi falist í starfsskyldum áfrýjanda að lyfta gaflinum aftur á sinn stað eftir að hann raskaðist á undirstöðum sínum. Verður það lagt til grundvallar með vísan til 1. mgr. 50. gr. laga nr 91/1991 um meðferð einkamála. Verður að meta það forsvarsmönnum stefnda Kvistfells ehf. til sakar að hafa ætlað einum manni að lyfta slíkri byrði. Fébótaábyrgð vegna bakmeiðsla áfrýjanda verður því lögð á félagið. Áfrýjanda hlaut á hinn bóginn að vera ljóst að óvarlegt var að ætla einn að færa gaflinn, sem hann kvaðst telja vera 400 til 500 kg að þyngd, á sinn stað, sérstaklega þegar haft er í huga að hann hafði átt við bakmeiðsli að stríða frá árinu 1990 og hafði að auki leitað til læknis vegna bakverkja eftir áreynslu við vinnu í febrúarmánuði sama ár og atvik það varð, sem um ræðir í málinu. Sýndi áfrýjandi því einnig af sér gáleysi. Er að þessu gættu hæfilegt að hann beri sjálfur helming tjóns síns.

Krafa áfrýjanda á hendur stefnda Kvistfelli ehf. er reist á örorkumati læknis frá 20. desember 1999, sem sent var vátryggjanda félagsins, Tryggingamiðstöðinni hf., 25. janúar 2000. Ekki er ágreiningur um aðra þætti kröfu áfrýjanda en bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Í örorkumatinu var talið við mat á tímabundnu atvinnutjóni að áfrýjandi hafi verið alveg óvinnufær í um það bil tvö ár eftir að hann hlaut meiðslin. Stefndi Kvistfell ehf. hefur andmælt þessu, en fallist á að miðað verði við að áfrýjandi hafi verið óvinnufær í tólf mánuði. Ekkert liggur fyrir í málinu um að áfrýjandi hafi gengið til læknis eða mátt vænta frekari bata eftir að tólf mánuðir voru liðnir frá tjónsatburðinum. Verða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón áfrýjanda því miðaðar við það tímabil, en frá þeim dregin laun í veikindaforföllum hans frá stefnda Kvistfelli ehf., 546.866 krónur, og greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 213.120 krónur. Ekki eru efni til að verða við kröfu stefnda Kvistfells ehf. um að bótafjárhæð verði miðuð við verðlag á dómsuppsögudegi og dráttarvextir reiknaðir frá þeim tíma.

Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, sem nemur 1.187.086 krónum að frádregnum áðurgreindum greiðslum að fjárhæð samtals 759.986 krónur, en að auki ber honum 306.050 krónur í þjáningabætur, 713.325 krónur í bætur fyrir varanlegan miska og 1.485.379 krónur í bætur fyrir varanlega örorku. Tjón hans nemur þannig alls 2.931.854 krónum, en af því verður hann að bera helming sjálfur. Verður stefndi Kvistfell ehf. þannig dæmdur til að greiða áfrýjanda 1.465.927 krónur. Fallast verður á með stefnda Kvistfelli ehf. að vextir af kröfu áfrýjanda fram til 5. september 1996 séu fyrndir, sbr.  2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Verða dæmdir 2% ársvextir af tildæmdri fjárhæð frá þeim degi til 25. febrúar 2000, en þann dag var mánuður liðinn frá því að áfrýjandi kynnti gagnaðilum sínum örorkumat. Um vexti fer að öðru leyti samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Stefndi Kvistfell ehf. verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandi stefndi Tryggingamiðstöðinni hf. til vara í málinu með heimild í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Lýsti hann því yfir við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að aðeins væri krafist dóms á hendur öðrum hvorum stefndu, en ekki báðum, þannig að ekki reyndi á kröfu á hendur varastefndum Tryggingamiðstöðinni hf. nema aðalstefndi Kvistfell ehf. yrði sýknaður. Kemur krafa áfrýjanda á hendur Tryggingamiðstöðinni hf. því ekki til umfjöllunar. Rétt er að málskostnaður í þessum þætti málsins falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Kvistfell ehf., greiði áfrýjanda, Guðgeiri Ársælssyni, 1.465.927 krónur með 2% ársvöxtum frá 5. september 1996 til 25. febrúar 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi, Kvistfell ehf., greiði í ríkissjóð samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en málskostnaður milli áfrýjanda og varastefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., fellur niður á báðum dómstigum.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. apríl 2001.

Mál þetta höfðaði Guðgeir Ársælsson, kt. 110160-5779, Þrastarima 12, Selfossi, með stefnu birtri 5. september 2000 aðallega gegn Kvistfelli ehf., kt. 680794-2279, Grashaga 1a, Selfossi, og til réttargæslu Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Reykjavík, til vara gegn Tryggingamiðstöðinni hf.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi Kvistfell ehf. verði dæmdur til að greiða skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 4.878.926 með 2% vöxtum frá 7. desember 1994 til 20. janúar 2000, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess að varastefndi Tryggingamiðstöðin hf. verði dæmd til að greiða bætur úr slysatryggingu launþega að fjárhæð kr. 1.013.524 með dráttarvöxtum frá 10. júní 1997 til greiðsludags.  Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 16. október 2000.

Aðalstefndi og varastefndi krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að viðbættum virðisaukaskatti.  Til vara krefst aðalstefndi lækkunar á stefnufjárhæð og að hún beri einungis 2% vexti frá 5. september 1996 til dómsuppsögudags, en dráttarvexti ekki fyrr en frá þeim degi.  Varastefndi krefst þess til vara að kröfur á hendur sér verði lækkaðar og að þær beri dráttarvexti ekki fyrr en frá 8. febrúar 2000 og að í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður. 

Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 15. fyrra mánaðar.

Stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá stefnda Kvistfelli 7. desember 1994.  Unnið var að því að reisa hús á sökkul á planinu fyrir framan starfsstöð stefnda við Gagnheiði og hvarf hann frá verki illa haldinn í baki. 

Slysið var ekki tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins.  Skýrslur voru teknar af stefnanda, samstarfsmönnum hans og fyrirsvarsmönnum stefnda hjá lögreglu haustið 1996, er nærri tvö ár voru liðin frá slysinu.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa komið til vinnu um klukkan hálf átta.  Þeir hafi verið mættir fjórir, en Þorsteinn Þorvaldsson hafi ekki verið kominn.  Stefndi hefði verið nýbúinn að fá pallbíl með krana og til hefði staðið að nota hann við verkið, en Þorsteinn hefði ekki verið kominn á bílnum.  Taldi stefnandi að gaflinn hefði verið reistur í heilu lagi vegna þess að ætlunin hafði verið að nota kranann.  Stefnandi sagði að Svavar Valdimarsson og Þorsteinn, en þeir eru eigendur stefnda Kvistfells, hefðu vitað að hann væri veill í baki.  Þeir hafi fljótlega byrjað að reisa húsið.  Þeir hafi fyrst borið húsgaflinn út fjórir saman, komið honum fyrir á sökklinum og síðan raðað sér á hann og reist upp.  Hafi verið byrjað að festa sökkulinn en hann og annar maður hafi staðið við endann á gaflinum og stutt við hann.  Þá hafi komið vindhviða sem hafi feykt gaflinum til og út af sökklinum þeim megin sem hann stóð.  Stefnandi kveðst hafa tekið á öllu sínu og komið gaflinum upp á sökkulinn aftur.  Við þetta hafi hann bilað eitthvað í bakinu, það hafi klikkað eitthvað í bakinu og hann hnigið niður.  Hann hafi legið smástund þarna í snjónum en síðan farið í bíl sinn og keyrt heim.  Hann hafi hringt til læknis og farið til hans um tveimur tímum síðar. 

Nánar aðspurður kvaðst hann hafa verið við gaflinn og tekið á móti þegar vindhviðan tók í hann og færði útaf sökklinum.  Þá hefði ekki verið búið að festa gaflinn neitt.  Hann kvaðst halda að gaflinn hafi verið um 400 – 500 kg á þyngd.  Hann hafi verið í heilu lagi, um fimm metrar á breidd og rúmlega þriggja metra hár.  Þetta hafi verið talsvert stærri gafl en þeir voru vanir að vinna við.  Þeir hafi ekki fengið neinar leiðbeiningar um verkið fyrirfram, þetta hafi verið unnið eftir hendinni. 

Stefnandi kvaðst hafa látið Svavar vita um ástand sitt eftir að hann hafði farið til læknis. 

Svavar Valdimarsson gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann var forstjóri stefnda á þessum tíma.  Hann lýsti framkvæmd verksins og aðdraganda slyssins í öllum meginatriðum á svipaðan veg og stefnandi.  Þó sagði hann að þeir hefðu einungis verið að reisa hálfan gaflinn, um sex fermetra að stærð.  Giskaði hann á að þyngd hans væri rúmlega 100 kg.  Hann sagði að þeir hefðu staðið að nákvæmlega á sama hátt og þeir hafi alltaf gert.  Gaflinum sé komið í stöðu og reistur upp.  Þá séu tveir menn hvor við sinn enda til að varna því að hann fari útaf fótstykkinu, en aðrir fari í að festa hann.  Hann taldi að ekki hefði verið rætt um að nota krana við verkið.  Búið hefði verið að stífa gaflinn uppi þannig að ekki hafi verið hætta á að hann félli.  Þá sagði hann að er gaflinn gekk til hafi stefnandi gengið að honum og hnykkt honum inn.  Hann hafi verið búinn að sleppa áður þar sem ekki hafi átt að vera þörf á að halda við hann.  Við þetta átak hafi hann fengið í bakið. 

Þorsteinn Þorvaldsson, húsasmíðameistari, annar eigenda stefnda, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann sagði að búið hefði verið að festa gaflhlutann við hinn gaflinn.  Hann hefði sjálfur verið að negla að neðan.  Stefnandi hefði þá farið aðeins frá endanum þar sem hann hafði staðið.  Hann hafi þá staðið innan við einn meter frá gaflinum, nokkuð til hliðar við hann.  Gaflinn hefði færst til og stefnandi þá gengið að honum og tekið í hann til að færa í réttar skorður.  Þá hefði hann fengið í bakið.  Þegar þetta gerðist hafi sumir hinna verið lagðir af stað inn á verkstæði til að ná í fleiri einingar. 

Þorsteinn sagði að ekki hefði neitt verið rætt um að nota kranann við þetta verk.  Taldi hann að ekki hefði verið hægt að nota hann í þessu tilviki.

Þorsteinn sagði að þeim hefði verið kunnugt um bakveiki stefnanda og hann hefði verið nokkrum sinnum frá vinnu vegna hennar.  Þá hefði honum verið hlíft að nokkru við vinnu.  Hann giskaði á að gaflhlutinn hefði verið um 100 – 120 kg að þyngd. 

Árni Guðfinnsson, húsasmiður, var starfsmaður stefnda á þessum tíma.  Hann sagði að þeir hefðu verið búnir að reisa hálfan gaflinn og verið að reisa seinni hluta hans er stefnandi slasaðist.  Snörp vindhviða hafi orðið til þess að gaflinn fór útaf á horninu.  Stefnandi hafi þá gripið undir hornið og tekið á.  Árni kvaðst ekki vita hvað gaflinn hefði verið þungur, kvaðst giska á um 150 kg.  Hann hafi verið svipaður öðrum göflum er þeir hafi reist áður.  Hann kvaðst ekki minnast þess að til hafi staðið að nota krana við verkið.  Þá sagði hann að það hefði ekki verið neitt sérstakt skipulag á vinnunni við að reisa gaflana. 

Axel Þór Gissurarson, starfsmaður stefnda á þessum tíma, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann mundi lítið eftir atvikinu.  Taldi sig ekki hafa séð neitt þar sem hann hafi verið á leið inn á verkstæði er stefnandi meiddist. 

Loks gaf Árni Guðmundsson skýrslu, en hann var starfsmaður hjá stefnda á þessum tíma.  Hann lýsti atvikum á sama veg og önnur vitni.  Hann sagði að þeir hefðu verið að reisa hálfan gaflinn og giskaði hann á að hann væri um 150 kg að þyngd. 

Áverkum stefnanda er að nokkru lýst í þeim gögnum sem hafa verið lögð fram.  Rétt er að taka orðrétt upp úr örorkumati er Atli Þór Ólason, dr. med., framkvæmdi 20. desember 1999, en kröfur stefnanda eru reistar á því mati  Þar segir m.a.:

“... Árið 1990 hafi Guðgeir dottið af hestbaki, hlotið áverka á mjóhrygg, þar sem II. og III. mjóhryggjartindur brotnuðu.  Hann kveðst hafa náð sér vel í baki eftir þetta.  Í febrúar 1994 hafi hann verið að vinna erfiðisvinnu og fengið þá aukin mjóbaksóþægindi.  Í áverkavottorði Ásmundar Jónassonar kemur fram að Guðgeir hafi haft verki í mjóbaki með leiðni niður í vinstri fót og dofatilfinningu.  Tölvusneiðmynd sem gerð var í febrúar 1994 hafi sýnt slitbreytingu milli IV. og V. mjóhryggjarliðbola og V. mjóhryggjarliðbolar og spjaldhryggjar.  Slitnabbar þrengdu að taugaopi hægra megin á slitsvæði.  Guðgeir kveðst hafa verið búinn að jafna sig í baki að mestu.  Hann hafi ekki verið frá vinnu þrátt fyrir bakverki. 

...

SJÚKDÓMSGREINING

1.                        Slit í mjóhrygg (óháð slysi 07.12.1994).

2.                        Gróin brot á II. og III. hryggtindi mjóhryggjar (háð slysi 1990).

3.                        Mjóbakstognun (háð slysi 07.12.1994).

...

Telja verður að um slysaatburð sé að ræða.  Guðgeir er að vinna reglubundin smiðsstörf þegar óvæntur atburður gerist, þ.e. vindhviða feykir gaflinum út af sökkli en við það þarf Guðgeir að taka skyndilega við meiri byrði.  Atburðurinn uppfyllir því öll skilyrði slyss, þ.e. um er að ræða einn atburð sem kemur skyndilega og óvænt og þá átt við vindhviðuna.

Við þennan slysaatburð fær Guðgeir skyndilegan verk í mjóbak sem leiðir niður í hægri ganglim.  Þann sama dag leitar hann til heimilislæknis og skýrir frá slysaatvikinu.  Heimilislæknir staðfestir, við skoðun, verki, eymsli og hreyfiskerðingu í baki.  Röntgenmyndir, teknar af mjóbaki með og án skuggaefnis, í janúar 1995, sýna fyrrnefnt slitástand í mjóbaki en ekki merki um beinskaða eða brjósklos.  ...

Við slysaatburðinn hinn 07.12.1994 þarf Guðgeir skyndilega að taka á aukinni byrði húsgaflsins sem var að fjúka af sökkli og hlaut við það tognunaráverka í mjóbaki.  Varanlegur vefjaskaði er því bundinn við tognunaráverka.  Jafnframt er litið til þess að einkenni frá baki eru nú mun meiri en áður og Guðgeir var óvinnufær í tvö ár og er ekki fær til fyrri starfa.  ...

NIÐURSTAÐA 

...

1.       Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:  2 ár.......100%

2.       Þjáningabætur skv. 3. grein:

Rúmliggjandi 2 dagar

Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, 12 mánuðir.

3.       Varanlegur miski skv. 4. grein:  15%.

4.       Varanleg örorka skv. 5. grein:  15%.

5.       Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka:  15%.”

 

Ágreiningi stefnanda við Tryggingu hf. vegna bóta á grundvelli slysatryggingar launþega var skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.  Í áliti nefndarinnar, sem dagsett er 29. júní 1999 er komist að þeirri niðurstöðu að “það atvik sem hér ræðir um verður ekki skilgreint sem slys skv. þeim tryggingarskilmálum, sem hér ræðir um og er því þegar af þeim ástæðum ekki um bótaskyldu að ræða.” 

Að framan er lýst mismunandi hugmyndum stefnanda og fyrirsvarsmanna stefnda og vitnisins Árna Guðmundssonar um þyngd gaflsins sem verið var að reisa.  Stefndi lagði fram bréf Erlings Ingvasonar, byggingatæknifræðings hjá Verkfræðistofu Suðurlands ehf., dagsett 23. október 2000.  Þar er svarað fyrirspurn frá Svavari Valdimarssyni um þyngd byggingahluta, þ.e. gaflveggs í timburhúsi.  Nánar er sagt að um sé að ræða hálfan gafl, eina veggeiningu, með gluggum en án glers.  Veggeiningin vegi 139,5 kg. 

Stefnandi mótmælti þessu skjali.  Sagði hann það óstaðfest og benti á að fyrirspurnin sem beint var til verkfræðistofunnar væri ekki lögð fram.  Þá hefði Erlingur Ingvason ekki verið dómkvaddur matsmaður.  Stefndi benti hins vegar á að húsið væri smíðað eftir teikningum Verkfræðistofu Suðurlands. 

Málsástæður stefnanda.

Aðalkrafa stefnanda er byggð á því að stefndi Kvistfell sé bótaskyldur vegna afleiðinga framangreinds slyss.  Varakrafan er reist á samningi um slysatryggingu við Tryggingu hf., sem sameinast hefur varastefnda Tryggingamiðstöðinni hf. 

Stefnandi bendir á að rannsókn hafi ekki farið fram á slysinu fyrr en löngu síðar og það hafi verið alls ófullnægjandi rannsókn.  Stefndi hafi vanrækt að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins.  Þessi vanræksla leiði til þess að leggja beri frásögn sína um tildrög slyssins til grundvallar.  Stefndi verði að bera hallann af því að slysið var ekki rannsakað á sínum tíma.  Vísar stefnandi hér til 81. gr. laga nr. 46/1980. 

Stefnandi telur að vinnuaðstæður hafi verið alls ófullnægjandi og ekki í samræmi við reglur.  Hann vísar um þetta fyrst og fremst til reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, en þær eru settar samkvæmt heimild í 38. gr. laga nr. 46/1980 og með hliðsjón af tilskipun 90/269/EBE í XVIII. viðauka samnings um Evrópska efnahagssvæðið.  Telur stefnandi að samkvæmt þessum reglum hafi verið skylt að nota krana við umrætt verk, en ekki handaflið eitt. 

Það hafi verið gálaus aðferð að nota handaflið eitt við meðferð svo stórs og þungs hlutar eins og gaflinn var.  Hann taki auðveldlega á sig vind og telur stefnandi að þar sé skýringin á þeim áverkum er hann hlaut.  Hafi fyrirsvarsmönnum aðalstefnda sem stjórnuðu verki mátt vera ljóst að vinnuaðferðin væri til þess fallin að valda slysum. 

Stefnandi telur samkvæmt þessu að aðalstefndi sé bótaskyldur samkvæmt sakarreglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð. 

Stefnukrafa er sundurliðuð svo:

Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, 2. gr. skbl.2.374.172.

Þjáningabætur, 3. gr. skbl.   306.050.

Bætur fyrir varanlegan miska, 4. gr. skbl.   713.325.

Bætur fyrir varanlega örorku, 5. – 7. gr. skbl.1.485.379.

Samtals kr.4.878.926.

Stefnandi krefst hér bóta fyrir tímabundið atvinnutjón miðað við að hann hafi verið alfarið óvinnufær í tvö ár.  Er það stutt við niðurstöðu í örorkumati Atla Þórs Ólasonar.  Í matinu er komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda sé 15% og að varanleg örorka hans sé sömuleiðis 15%. 

Varakrafa um greiðslu úr hendi varastefnda Tryggingamiðstöðvarinnar er reist á slysatryggingu launþega sem var í gildi um launþega aðalstefnda Kvistfells ehf. á slysdegi.  Félagið telji óhapp stefnanda ekki vera slys í skilningi skilmála tryggingarinnar.  Telur stefnandi hins vegar augljóst að svo sé. 

Annars vegar er hér krafist örorkubóta, 15% af vátryggingarfjárhæðinni sem nemur kr. 2.433.200, þ.e. kr. 364.980.  Hins vegar er krafist dagpeninga í 104 vikur, samtals kr. 6.236 á viku, þ.e. kr. 648.544. 

Málsástæður aðalstefnda.

Aðalstefndi telur að gaflinn hafi verið reistur á venjulegan hátt.  Hann mótmælir því að staðið hafi til að nota krana við verkið.  Þá mótmælir hann því að gaflinn hafi verið níðþungur.  Stefndi telur að stefnandi hafi ekki orðið fyrir gaflinum er hann færðist úr stað.  Engin hætta hafi verið á ferðum er gaflinn færðist.  Það sem hafi gerst sé að stefnandi hafi tekið ótæpilega á til að koma gaflinum á sinn stað á ný.  Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að taka á gaflinum og það átak hafi verið meira en bak hans þoldi. 

Aðalstefndi mótmælir því að skylt hafi verið að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins eða lögreglu um atvikið.  Vitað hafi verið að stefnandi var veill í baki og hafi menn því talið að hann væri frá vinnu vegna þess veikleika.  Stefnanda beri að sanna að óhappið hafi orðið vegna atvika er aðalstefndi beri ábyrgð á.  Það hafi honum ekki tekist. 

Varakröfu um lækkun stefnukröfu styður aðalstefndi annars vegar við að stefnandi beri sjálfur sök á tjóni sínu og því beri að lækka kröfu hans vegna eigin sakar, hins vegar við að krafa um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón sé allt of há.

Málsástæður varastefnda.

Sýknukrafa varastefnda er byggð á því að óhapp stefnanda sé ekki slys í skilningi 1. gr. skilmála þeirra sem um slysatrygginguna giltu.  Þar segi að með orðinu slys sé átt við “skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem [valdi] meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist án vilja hans.”

Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að taka á gaflinum.  Vindhviðan sem kom gaflinum af stað hafi verið yfirstaðin svo og tilfærsla gaflsins sem hún kom af stað.  Hún eða hreyfing á gaflinum hafi ekki valdið meiðslum stefnanda.  Því sé ekki unnt að líta á atvikið sem slys í skilningi skilmálanna.

Þá mótmælir varastefndi kröfu um greiðslu dagpeninga.  Bendir hann á að samkvæmt yfirliti um bótafjárhæðir greiðist dagpeningar fyrst eftir fjórar vikur frá slysi og í 48 vikur að hámarki.  Stefnandi geti því ekki átt rétt á hærri dagpeningum en kr. 299.328. 

Loks bendir varastefndi á að örorkumat það sem kröfugerð stefnanda sé reist á hafi ekki borist sér fyrr en 26. janúar 2000.  Því geti stefnandi ekki krafist dráttarvaxta fyrr en frá 8. febrúar 2000, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 og 15. gr. skilmála slysatryggingarinnar.

Stefndi og varastefndi mótmæltu málskostnaðarreikningi stefnanda sem óhæfilega háum. 

Loks ítreka stefndi og varastefndi kröfu um málskostnað og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.  Réttargæslu- og varastefndi Tryggingamiðstöðin hf. muni samkvæmt vátryggingasamningum aðila greiða kostnað af málsvörn og hann hafi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi með höndum.

Niðurstaða.

Um atvik að slysi eða óhappi stefnanda eru aðilar ekki alveg sammála.  Í málatilbúnaði og skýrslum stefnanda er sagt að hann hafi staðið við gaflinn og haft hendur á honum er vindhviðan ýtti honum útaf burðarbitanum og að hann hafi tekið á móti honum og samtímis tekið á til að lyfta honum og við það farið í bakinu.  Forsvarsmenn aðalstefnda og eitt þeirra vitna sem gáfu skýrslur bera að stefnandi hafi ekki haft hönd á gaflinum er hann fór útaf heldur þá farið strax að og tekið á.  Þessi lýsing er í nokkuð góðu samræmi við frásögn stefnanda við skýrslugjöf hjá lögreglu 3. september 1996.  Verður að telja sannað að gaflinn hafi verið kominn útaf burðarbitanum er stefnandi tók á honum þannig að hann fór í baki.  Þegar komist er að þessari niðurstöðu verður jafnframt að fallast á að ekki hafi verið sérstakt tilefni til þess af hálfu aðalstefnda að tilkynna atvikið til Vinnueftirlits ríkisins. 

Aðstæður og verklag var ekki í samræmi við þær reglur sem stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til, reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar.  Eins og stefnandi hlaut áverka sína verður þó ekki fallist á að skaðvænt orsakasamband sé á milli þessarar vanrækslu aðalstefnda og meiðsla þeirra er stefnandi hlaut.  Meginorsök þess að stefnandi hlaut þau meiðsl sem lýst er í örorkumati Atla Þórs Ólasonar er sú að hann tók hraustlega á þungri byrði.  Var átakið meira en veikt bak hans þoldi.  Verður þetta ekki rakið til atvika sem aðalstefndi ber ábyrgð á og verður því að hafna því að hann sé bótaskyldur. 

Ágreiningur stefnanda og varastefnda snýst fyrst og fremst um það hvort óhapp stefnanda sé slys í skilningi 1. gr. skilmála þeirra sem giltu um slysatrygginguna.  Þar segir í 2. mgr.:  “Með orðinu “slys” er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist án vilja hans.” 

Stefnandi hefur um skýringu á þessari afmörkun vísað til rits Ivan Sörensen, Forsikringsret (útgefið 1997).  Höfundur segir þar á blaðsíðu 369:  “... Når forsikrede løfter en tung genstand og herved pådrager sig en rygskade, er der ikke tale om et ulykkestilfælde i forsikringsretlig forstand, hvis løftningen er villet, og skaden er en følge af løftningen.  Der skal foreligge kausalitet og adækvans mellem løftningen og skaden.  Selskaberne påstår ofte, at sådanne løfteskader ikke skyldes en ekstern årsag og af denne grund ikke opfylder definitionens krav.  Dette er ikke rigtigt.  Genstandens vægt er en udefra kommende årsag.  Man kan sige, at genstandens vægt er conditio sine qua non.”

Á bls. 370 heldur höfundur áfram:  “Løfteskader med afvigelser i årsagsforløbet kan anerkendes som ulykkestilfælde.  Løfteskader kan også anerkendes, hvis påvirkningen eller skaden bliver meget voldsommere, end den forsikrede kunne regne med (kravet om påregnelighed).” 

Af þessu má draga þá ályktun, sem styðst einnig við rit sama höfundar, Den private syge- og ulykkesforsikring (bls. 96), svo og rit Preben Lyngsø, Dansk Forsikringsret (bls. 809), að við venjulega framkvæmd verka verði ekki litið á það sem slys þó einhver meiðsli komi fram.  Til þess sé nauðsynlegt að einhver umtalsverð frávik verði við framkvæmd verksins, t.d. að átak breytist vegna utanaðkomandi atvika, undirstaða undir viðkomandi bresti o.þ.h.  Þannig hefði orðið að líta á óhapp stefnanda sem slys í skilningi vátryggingarskilmálanna ef sannað hefði verið að hann hefði orðið fyrir meiðslum við það að gaflinn rann út af sökklinum.  Að framan er hins vegar talið sannað að svo hafi ekki verið. 

Samkvæmt þessu verður einnig að sýkna varastefnda af kröfum stefnanda.

Skynsamlegur vafi leikur á um hvort kröfur stefnanda í málinu eru réttmætar eða ekki og ber því samkvæmt reglu 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að fella málskostnað niður. 

Stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 16. október 2000.  Ber því að ákveða málflutningsþóknun lögmanns hans svo og þann kostnað sem endurgreiða ber.  Málflutningsþóknunin verður ákveðin án virðisaukaskatts kr. 325.000.  Útlagður kostnaður nemur kr. 69.205, en hafnað er endurgreiðslu gjalds fyrir málsskot til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og greiðslu til lögmanna fyrir mót, sem telja verður hluta af málflutningsþóknun. 

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Aðalstefndi Kvistfell ehf., og varastefndi, Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Guðgeirs Ársælssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, kr. 325.000, og útlagður kostnaður stefnanda, kr. 69.205, greiðist úr ríkissjóði.