Hæstiréttur íslands

Mál nr. 692/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns
  • Gjafsókn


                                     

Mánudaginn 3. nóvember 2014.

Nr. 692/2014.

 

A

(Guðríður Lára Þrastardóttir hdl.)

gegn

Fjölskyldu- og velferðarnefnd B

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Vistun barns. Gjafsókn. 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Fjölskyldu- og velferðarnefndar B um að sonur A yrði vistaður utan heimilis hennar í 12 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem móttekin var í héraðsdómi 20. október 2014, en barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2014, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sonur sóknaraðila skyldi vistaður utan heimilis hennar í 12 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að vistun drengsins utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2014.

I.

Hinn 11. ágúst 2014 barst Héraðsdómi Reykjaness krafa sóknaraðila, Fjölskyldu- og velferðarnefndar B, [...], [...], dagsett sama dag, um að úrskurðað yrði að barnið C verði vistað utan heimilis forsjáraðila í 12 mánuði.

Varnaraðili er A, kt. [...], [...], [...].

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að úrskurðað verði að barnið C, kt. [...], til heimilis að [...], [...], sem lýtur forsjár A, kt. [...], verði vistað utan heimilis, á vegum sóknaraðila, í tólf mánuði, samkvæmt 1. mgr. 28. gr., sbr. b-lið 27. gr. barnaverndarlaga.

Af hálfu sóknaraðila er ekki krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að ógiltur verði með dómi úrskurður sóknaraðila frá 12. júní 2014. Til vara krefst varnaraðili þess að vistun drengsins C utan heimilis verði markaður skemmri tími en krafist sé af hálfu sóknaraðila.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

II.

Málavextir eru þeir að málefni barnsins og móður þess, varnaraðila málsins, hafa verið til meðferðar hjá sóknaraðila frá byrjun árs 2011. Foreldrar barnsins slitu samvistum árið 2010 og deildu um forsjá barna sinna. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2012 var varnaraðila veitt forsjá barnanna þrátt fyrir að fram kæmi í dóminum að forsjárhæfni hennar þætti ábótavant. Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a. eftirfarandi:

„Þá liggur fyrir að fari stefnandi ekki eftir tilmælum almennt frá félagsmála- og skólayfirvöldum, þá eru þvingunarúrræði félagsmálayfirvalda ekki fullreynd. Bregðist stefnandi þeim skyldum sem hún hefur við uppeldi barna sinna, meðal annars að þiggja þá aðstoð og þjónustu sem henni stendur til boða fyrir drengina og heimilið þá hafa barnaverndaryfirvöld þvingunarúrræði sem dómurinn telur að verði að vera virk til að gæta hagsmuna drengjanna.“

Í beiðni sóknaraðila segir að þær áætlanir sem sóknaraðili hafi gert frá uppkvaðningu dómsins með það að markmiði að styðja varnaraðila í uppeldishlutverki sínu og að aðstoða hana við að búa börnum sínum viðunandi uppeldisskilyrði hafi ekki borið árangur. Tilkynningar hafi borist sóknaraðila er lýsi alvarlegri vanrækslu gagnvart C og bróður hans D. Tilkynningar þessar varði bæði misbrest á skólasókn og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Jafnframt hafi borist tilkynningar er varði áhættuhegðun. Móðir hafi neitað að sinna nauðsynlegri læknisaðstoð, lyfjagjöf, leiðveislu, sálfræðiþjónustu, stuðningsfjölskyldu, frístundanámskeiðum, persónulegri ráðgjöf og öðrum viðeigandi úrræðum í þágu bræðranna.

Í beiðni sóknaraðila segir að C sé með þroskahömlun, athyglisbrest og ofvirkni. Jafnframt glími C við mikla málþroskaröskun. Drengurinn njóti sérúrræða í skólanum, hitti þroskaþjálfa reglulega og sé með einstaklingsmiðaða stundaskrá. Skólayfirvöld hafi lýst áhyggjum af velferð drengsins þar sem ekki hafi náðst samkomulag við varnaraðila um stuðningsúrræði fyrir hann, svo sem aðkomu talmeinafræðings og viðeigandi lyfjagjöf. Skólasókn drengsins hafi verið ábótavant og hann hafi iðulega mætt illa hirtur í skóla og nestislaus. Sjálfur hafi C lýst talsverðri vanlíðan vegna stöðu sinnar, bæði heima fyrir og í skólanum.

Starfsmenn sóknaraðila hafi talið nauðsyn bera til að vista C tímabundið utan heimilis með það að markmiði að aðstoða hann við að ná tökum á vanlíðan og styrkja hann. Jafnframt hafi verið talið nauðsynlegt að gefa móður hans færi á að efla foreldrafærni og ná tökum á eigin erfiðleikum. Hafi starfsmenn lýst því að önnur og vægari úrræði væru fullreynd. Sóknaraðili hafi kveðið upp úrskurð 10. apríl sl. um að C skyldi vistaður utan heimilis til tveggja mánaða. Fram kom við munnlegan málflutning að ekki hafi tekist að finna heimili fyrir drenginn fyrr en að þeim tíma liðnum og hafi sóknaraðili kveðið upp annan úrskurð 12. júní sl. um vistun hans utan heimilis til tveggja mánaða. Fundið hafi verið heimili fyrir drenginn hjá hjónum í [...] þar sem drengurinn hafi dvalist frá 18. júní sl. Í forsendum úrskurðar sóknaraðila sé kveðið á um að nauðsynlegt sé að vistun barnsins utan heimilis standi í 12 mánuði og að lögmanni verði falið að gera kröfu þess efnis fyrir héraðsdómi.

Í greinargerð varnaraðila segir að afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum drengsins C megi rekja til tilkynningar Grunnskólans í [...] í janúar 2011 þar sem fram hafi komið áhyggjur af aðbúnaði drengsins, hegðun og námi. Eftir það hafi borist reglulegar tilkynningar frá skólanum vegna málefna C, en á umræddum tíma hafi staðið yfir forsjárdeila foreldra drengsins. Varnaraðili hafi verið fús til samvinnu við barnaverndaryfirvöld, en þó hafi hún ekki verið tilbúin að eftirláta barnaverndaryfirvöldum alger yfirráð á heimilinu. Á ákveðnum tímapunkti hafi varnaraðili kallað eftir meiri aðstoð þar sem eldri drengir úr vinahópi eldri dóttur hennar hafi gert sig heimakomna á heimilinu og haft slæm áhrif á D, bróður C. Sú tilkynning hafi leitt til aukinna afskipta sóknaraðila sem hafi að lokum leitt til þess að úrskurður gekk um vistun drengjanna utan heimilis í tvo mánuði

Áður en úrskurður gekk hafi verið lögð fyrir sóknaraðila skýrsla talsmanns drengjanna, þar sem fram komi að C hafi tekið skýrt fram að hann vildi búa áfram hjá móður sinni. Jafnframt að hann hafi verið snyrtilegur til fara, en af honum hafi mátt greina lykt.

Varnaraðili kveðst búa í félagslegri íbúð í eigu bæjarins að [...] í [...]. Þegar hún hafi flutt inn í íbúðina hafi hún orðið vör við að megna lykt lagði frá teppi íbúðarinnar, sem smitast hafi í allt sem verið hafi í íbúðinni. Starfsmenn bæjarins hafi lofað að fjarlægja teppið, en ekkert hafi orðið úr efndum. Þegar varnaraðila hafi orðið ljóst að einn þeirra þátta, sem vegið hafi þungt við mat á uppeldisskilyrðum barnanna, væri sú lykt sem legði frá teppinu og smitaðist í föt heimilismanna, hafi hún þrýst á það að fá teppið fjarlægt. Varnaraðili hafi einnig losað sig við kettlinga, sem hafi verið á heimilinu, en þeim hafi á sínum tíma verið bjargað frá grimmum örlögum. Þrátt fyrir eftirgangsmuni hafi varnaraðili ekki fengið það í gegn að teppið yrði fjarlægt úr íbúðinni áður en C og bróðir hans voru teknir úr umsjá varnaraðila. Að lokum hafi teppið verið fjarlægt af fjölskylduvinum og dúkur settur í staðinn. Eftir það hafi allt önnur lykt verið í íbúðinni.

Varnaraðili kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni E, F og G.

III.

Sóknaraðili kveðst telja að C hafi búið við óviðunandi aðstæður á heimili varnaraðila og að líkamlegri og andlegri heilsu hans hafi verið hætta búin við óbreyttar aðstæður. Því beri nauðsyn til að vista drenginn á heimili á vegum sóknaraðila þar sem hann dveljist nú svo hægt sé að veita drengnum viðeigandi stuðning og þjónustu sem hann eigi rétt á. Þau úrræði og stuðningsaðgerðir sem sóknaraðili hafi gripið til á undanförnum árum hafi ekki skilað tilætluðum árangri og önnur og vægari úrræði séu því fullreynd.

Sóknaraðila beri að tryggja óskilyrtan rétt drengsins fyrir vernd og umönnun í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2003. Með hliðsjón af atvikum máls og í þágu hagsmuna barnsins sé nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt framansögðu standi í tólf mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga. Um frekari lagarök vísar sóknaraðili til IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.

Varnaraðili kveðst í fyrsta lagi byggja kröfu sína um að kröfu sóknaraðila verði hafnað á 2. gr. barnaverndarlaga, en þar komi fram að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki þeirra. Varnaraðili telji að sóknaraðili hafi misst sjónar á þessu markmiði laganna þar sem ljóst sé að ekkert standi því í vegi að styrkja megi varnaraðila í uppeldishlutverki sínu. Varnaraðili neyti ekki vímuefna og sé tilbúin til að þiggja aðstoð í þessum efnum.

Varnaraðili bendir á að of þung áhersla hafi verið lögð á slæma lykt á heimilinu og annað sem hægt hafi verið að lagfæra með því að fjarlægja teppi og kettlinga sem hafi verið á heimilinu. Nú sé teppið ekki lengur í íbúðinni og kettlingarnir hafi verið látnir fara.

Varnaraðili kveðst í öðru lagi byggja kröfu sína um að kröfu sóknaraðila verði hafnað á 4. gr. barnaverndarlaga. Í 2. mgr. þeirra greinar, sem tilheyri meginreglum laganna, segi að barnaverndaryfirvöld skuli taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til. Varnaraðili kveðst telja að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til sjónarmiða og óska drengsins í málinu. Skýrt hafi komið fram hjá drengnum í viðtali við talsmann að hann vildi búa hjá varnaraðila. Þá hafi komið fram hjá honum að honum liði vel hjá varnaraðila og að hún uppfyllti þarfir hans. Kveðst varnaraðili benda á að C sé orðinn 12 ára og hafi náð nokkrum þroska þrátt fyrir þroskahömlun sína.

Varnaraðili kveðst jafnframt benda á að hún hafi lengi unnið með drengnum við að ná stjórn á þeim hlutum sem hann eigi í erfiðleikum með og með því að taka hann úr því umhverfi sem hann þekki sé hætta á því að árangur af þeirri vinnu glatist. Langan tíma taki að vinna traust drengsins og því sé hætt við að fósturforeldrar muni ekki geta aðstoðað hann við umrædda hluti.

Þá bendir varnaraðili á að í 7. mgr. 4. gr. segi jafnframt að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þá skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Varnaraðili kveðst telja að sóknaraðili hafi ekki virt þessa meðalhófsreglu í málinu, þar sem ljóst er að varnaraðili hafi verið tilbúin að taka á móti allri þeirri tilsjón og styrkingu sem barnaverndaryfirvöld hafi verið tilbúin að veita henni.

Varnaraðili kveðst jafnframt benda á að mikill stuðningur sé við fjölskylduna, bæði frá móðurömmu og fjölskylduvinum.

Varnaraðili kveðst telja að ekki hafi verið dregin upp rétt mynd af því hvaða stuðning hún hafi verið tilbúin að þiggja og hvern ekki. Í kröfu sóknaraðila komi fram að varnaraðili hafi neitað að sinna nauðsynlegri læknisaðstoð, lyfjagjöf, liðveislu, sálfræðiþjónustu, stuðningsfjölskyldu, frístundanámskeiðum og annarri persónulegri ráðgjöf. Varnaraðili kveðst benda á að þetta stangist á við gögn málsins þar sem fram komi að hún hafi ítrekað þegið og skrifað undir aðstoðar- og tilsjónaráætlanir. Þá hafi hún þegið liðveislu og stuðning fyrir drenginn.

Þá kveðst varnaraðili benda á að fullyrðingar sóknaraðila um að varnaraðili hafi hafnað nauðsynlegri læknisaðstoð séu byggðar á viðhorfi skólayfirvalda. Varnaraðili kveðst ekki hafa verið tilbúin til að setja C á ofvirknilyf þar sem henni hafi fundist þau valda honum vanlíðan. Kveðst varnaraðili hafa lent í útistöðum við stjórnendur skólans vegna þessa þar sem þeim hafi fundist C meðfærilegri á lyfjunum. Á ákveðnum tímapunkti hafi deilur hennar við skólann vegna lyfjagjafar drengsins komið fram í aukinni tíðni tilkynninga skólans til sóknaraðila.

Varnaraðili kveðst benda á að viss atvik hafi orðið til þess að umræddir hlutir komust ekki á eða héldust ekki. Stundum hafi drengurinn ekki viljað fara á frístundanámskeið og í öðrum tilvikum hafi úrræði ekki komist á vegna þess að ekki hafi verið hægt að samræma sjónarmið varnaraðila og barnaverndaryfirvalda.

Varnaraðili kveðst í þessum efnum vísa til 4. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem fram komi að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra.

Varnaraðili kveðst með vísan til framangreinds rökstuðnings hafna því alfarið að drengurinn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður á heimili varnaraðila og að líkamlegri og andlegri heilsu hans sé hætta búin þar. Kveðst varnaraðili benda á að annmarkar á aðstæðum drengsins séu ekki svo miklir sem barnaverndaryfirvöld vilji vera láta. Varnaraðili kveðst því telja að aðgerðir sóknaraðila standist ekki skoðun með tilliti til meðalhófsreglu barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum kveðst varnaraðili telja að hvorki barnalög nr. 76/2003 né lög nr. 19/2003, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, veiti aðgerðum varnaraðila stuðning. Kveðst varnaraðili því til stuðnings vísa til 9. gr. samningsins og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 76/2003.

Hvað varðar lagarök vísar varnaraðili til barnaverndarlaga nr. 80/2002 og barnalaga nr. 76/2003. Einnig til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 19/2003 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem og til meginreglna á sviði stjórnsýslu, barna- og sifjaréttar.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar varnaraðili til XX. og XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V.

Eins og fram kemur í gögnum málsins kvað sóknaraðili upp úrskurð 10. apríl sl. um að C skyldi vistaður utan heimilis til tveggja mánaða. Sá úrskurður mun ekki hafa komið til framkvæmdar þar sem ekki tókst að finna drengnum fósturheimili fyrr en að liðnum þeim tíma sem úrskurðurinn tók til. Sóknaraðili kvað því upp annan úrskurð 12. júní sl. um vistun barnsins utan heimilis til tveggja mánaða og samkvæmt gögnum málsins fór drengurinn í fóstur á vegum sóknaraðila 18. júní sl. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki efni til að fallast á kröfu varnaraðila um ógildingu úrskurðar sóknaraðila frá 12. júní sl.

Fram kemur í gögnum málsins að sóknaraðila, sem fer m.a. með hlutverk barnaverndarnefndar, hafa borist ítrekaðar tilkynningar vegna vanrækslu varnaraðila við umönnun og uppeldi barna sinna, sem og um áhættuhegðun barnanna. Þá kemur fram að málefni fjölskyldunnar hafi verið til meðferðar hjá sóknaraðila frá ársbyrjun 2011.

Í greinargerð starfsmanna sóknaraðila, dags. 8. apríl 2014, kemur fram að á árinu 2011 hafi borist fjórar tilkynningar vegna málefna C, fjórar á árinu 2012, ein á árinu 2013 og á fyrstu rúmum þremur mánuðum þessa árs hafi borist þrjár tilkynningar vegna málefna drengsins.

Í júní 2013 bárust sóknaraðila tilkynningar frá skóla drengjanna um vanrækslu varðandi eftirlit og umsjón, þ.e. að þeir hafi mætt illa undir lok skólaárs. Varnaraðili hafi ekki tilkynnt skóla um fjarveru, en veitt þær upplýsingar að þeir væru veikir og síðar að þeir ættu ekki viðeigandi klæðnað til að taka þátt í vordögum. Í janúar sl. hafi borist tilkynning undir nafnleynd um að C hefði mætt stopult í skólann. Einnig að bræðurnir væru vakandi fram eftir nóttu marga daga vikunnar, en færslur og virkni á Facebook og öðrum netmiðlum bæru þess vitni. Í febrúar barst tilkynning undir nafnleynd um að D beitti yngri bróður sinn andlegu og líkamlegu ofbeldi, sem móðir gæti ekki stöðvað. Í mars sl. barst tilkynning undir nafnleynd um að á heimili bræðranna væru fjórir einstaklingar, þar af einn undir 18 ára aldri, sem væru í neyslu fíkniefna. Einnig að skortur væri á eftirliti með börnunum.

Í gögnum málsins kemur fram að C er í miklum sérúrræðum í skóla, þ. á m. hittir hann þroskaþjálfa mjög reglulega og er með einstaklingsmiðaða stundaskrá. Þá kemur fram í gögnunum að C er með þroskahömlun og er einnig greindur með athyglisbrest með ofvirkni, en í gögnunum segir að hann hafi átt einstaklega erfitt með einbeitingu í skólanum. Drengurinn hafi einu sinni fengið lyfjagjöf að tilmælum læknis og starfsmenn skólans hafi fundið mikinn mun á drengnum og hann tekið miklum framförum í námi á þeim tíma. Þá hafi fótboltaþjálfari drengsins merkt jákvæð áhrif lyfjagjafar á drenginn. Móðir hafi hins vegar ekki talið sig finna mun á drengnum til batnaðar og talið lyfin hafa mikil og neikvæð áhrif á hann. Móðir hafi ekki samþykkt lyfjagjöf á ný, en skóli og barnaverndaryfirvöld telji mikilvægt að lyfjagjöf verði endurmetin miðað við stöðu drengsins í skóla. C sé seinn í málþroska og eigi við alvarlega málþroskaröskun að etja. Honum hafi verið vísað í talþjálfun hjá talmeinafræðingi, en móðir hafi illa sinnt því að koma drengnum til talmeinafræðings og tilkynnt forföll þegar svo hafi borið undir. Þá hafi móðir og móðuramma greint frá því að þær telji ekki þörf á aðstoð talmeinafræðings. Þá hafi drengnum verið veittur stuðningur til að taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi og íþróttum en eftirfylgni móður hafi verið takmörkuð og því hafi drengurinn hætt fljótlega.

Þá segir í gögnum málsins að móðir hafi samþykkt stuðning leiðveitanda á árinu 2011, en hann hafi þó staðið stutt yfir þar sem móðir hafi ekki samþykkt slíkan stuðning til lengri tíma. Nýverið hafi móðir þó samþykkt að láta reyna á stuðning liðveitanda á ný. Einnig kemur fram að C sé ekki með sérherbergi á heimilinu, en hann sofi uppi í rúmi móður sinnar á vindsæng þar sem hann pissi oft undir. Móðir hafi ekki viljað taka á þeim vanda með neinum hætti, en telji að vandinn muni eldast af honum og að hann hafi ekki þörf fyrir sérherbergi. Eitt herbergi hafi þó verið laust á heimilinu svo mánuðum skipti, en varnaraðili hafi ekki verið tilbúin til að leyfa C að nota það herbergi.

Í viðtali við talsmann kom fram hjá drengnum að hann óskaði sér þess að fá sérherbergi og nýtt rúm þar sem rúmið hans væri ónýtt. Þá hafi hann greint frá því að oft væri lítið til í ísskápnum, en stundum væri mikið til. Þá kom fram hjá drengnum að móðir hans færi stundum til Reykjavíkur og honum fyndist óþægilegt þegar hún léti hann ekki vita og stundum kæmi hún seint heim á kvöldin. Einnig sagði hann að móðir sín gæti ekki alltaf stöðvað ofbeldi eldri bróður hans. Hann sagðist yfirleitt mæta í skólann, en væri oft nestislaus þar sem móðir hans gleymdi að smyrja nesti. Hann fengi þó stundum nesti hjá bekkjarfélögum. Þá sagðist C ekki sjá á töfluna þar sem hann vantaði gleraugu. Loks greindi hann talsmanni sínum frá því að eftir skóla færi hann heim og fengi sér að borða og færi eftir það beint út að leika sér í hvaða veðri sem væri og væri oft úti til kl. 10.00 á kvöldin.

Í gögnum málsins kemur fram að fjölskyldunni hafi staðið til boða ýmis konar stuðningur og móðir hafi verið virkjuð til samstarfs við starfsmenn barnaverndar og skóla. Komið hafi verið á teymisvinnu með foreldri og starfsmönnum skóla og barnaverndar, sem fundað hafi á fjögurra til sex vikna fresti um málefni drengjanna. Þrátt fyrir mikið aðhald og stuðning í skóla hafi staða drengjanna ekki tekið miklum breytingum. Varnaraðila hafi verið vísað í PMTO-meðferð hjá meðferðaraðila hjá félagsþjónustunni, en hún hafi talið meðferðina lítið gagnast sér og ekki lokið henni. Varnaraðila hafi einnig verið veittur stuðningur á heimilinu með tilsjón á árinu 2011, en hlutverk tilsjónaraðila hafi verið að leiðbeina móður í uppeldishlutverki sínu og koma heimilislífinu í rétt horf. Varnaraðili hafi tekið stuðningi og tilsjón illa, stundum ekki komið til dyra, ekki verið heima, ekki svarað síma og sinnt úrræðinu illa. Varnaraðili hafi hætt að taka á móti stuðningnum undir lok árs 2012 og talið hann lítið hafa gagnast sér. Samkvæmt skýrslum tilsjónaraðila hafi varnaraðili verið vanvirk á heimilinu og átt erfitt með að setja börnunum mörk. Íbúðin hafi lyktað af reykingum og kattahlandi, hár drengjanna hafi verið illa hirt og óþrifnaður mikill á heimilinu. Þá hafi heimalærdómi verið illa sinnt og ekkert skipulag verið á honum.

Þá kemur fram í gögnum að varnaraðili hafi ekki viljað þiggja félagslega heimaþjónustu til að auka hreinlæti á heimilinu og minnka álag á hana sjálfa. Móðir hafi ítrekað verið hvött til þess að vinna á tilfinningalegum og líkamlegum heilsufarsvandamálum sínum og til að veita börnunum viðeigandi þjónustu, en hún hafi afþakkað slíkan stuðning fram að þessu. Drengjunum hafi staðið til boða stuðningur liðveitanda og persónulegs ráðgjafa, en varnaraðili hafi ýmist afþakkað þjónustuna eða samþykkt hana og síðan ekki sinnt úrræðinu. Tilsjón með heimilinu hafi verið komið á að nýju í lok desember 2013 og hafi illa gengið að koma stuðningnum á og langan tíma tekið að mynda traust.

Með vísan til alls framangreinds þykir ljóst að barnið C bjó við óviðunandi aðstæður á heimili varnaraðila. Þá þykir ljóst að varnaraðili hefur vanrækt umönnun drengsins og ekki búið honum viðunandi uppeldisaðstæður, en í ljósi sérþarfa drengsins þykir sýnt að líkamlegri og andlegri heilsu drengsins hafi verið hætta búin við óbreyttar aðstæður.

Af gögnum málsins er ljóst að varnaraðili hefur ekki verið til fullrar samvinnu við sóknaraðila vegna málsins og verið bæði úrræða- og sinnulítil við uppeldi drengjanna. Ráða má af gögnum málsins að varnaraðili eigi sjálf við sálræna erfiðleika að etja sem dragi úr getu hennar til að takast á við vandamál í tengslum við uppeldi drengjanna. Þau úrræði og stuðningsaðgerðir sem sóknaraðili hefur gripið til á undanförnum árum hafa ekki skilað tilætluðum árangri.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og gögnum málsins er ljóst að af hálfu sóknaraðila höfðu önnur og vægari úrræði verið reynd án árangurs áður en ákvörðun var tekin um vistun drengsins utan heimilis varnaraðila. Var skilyrðum 26. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga því fullnægt.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að fallast beri á kröfur sóknaraðila um að drengurinn verði vistaðar utan heimilis varnaraðila í tólf mánuði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Málskostnaðar var ekki krafist af hálfu sóknaraðila, en varnaraðili hefur krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fella málskostnað niður.

Gjafsókn varnaraðila er lögbundin, sbr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2020, sbr. 61. gr., sbr. 28. gr. sömu laga.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Snorra Snorrasonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 282.375 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar var höfð hliðsjón af máli nr. [...]/2014, sem er á milli sömu aðila og var rekið samhliða þessu máli.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Drengurinn, C, kt. [...], til heimilis að [...], [...], sem lýtur forsjár varnaraðila, A, kt. [...], skal vistaður utan heimilis, á vegum sóknaraðila, í tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins að telja.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Snorra Snorrasonar héraðsdómslögmanns, 282.375 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.