Hæstiréttur íslands

Mál nr. 194/2013


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 10. október 2013.

Nr. 194/2013.

NK 8 ehf. og

Sigursteinn Sigurðsson

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Sparisjóði Norðfjarðar

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Lánssamningur. Gengistrygging.

N ehf. og SS höfðuðu mál gegn sparisjóðnum SN og kröfðust þess aðallega að viðurkennt yrði að lánssamningur milli SS og SN fæli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum sem væri tengd gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. SN var sýknað af kröfunni og var meðal annars vísað til þess að á forsíðu lánssamningsins kæmi fram að um væri að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og að skuldbindingin væri tilgreind í erlendum gjaldmiðlum.  Enda þótt gerður hefði verið viðauki við lánssamninginn þar sem eftirstöðvar skuldbindingarinnar voru tilgreindar í íslenskum krónum gaf skjalið ekki til kynna að gerðar hefðu verið breytingar á samningnum að öðru leyti en skipt var um skuldara. Þá var vísað til þess að samningurinn væri hlutlaus um það í hvaða gjaldmiðli skyldi greiða lánið. Ekki var talið að orðalag ákveðinna samningsákvæða hnekktu skýrri tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í erlendum myntum í samningnum sjálfum og viðaukum við hann. Hið sama átti við um þá staðreynd að greitt hafði verið af láninu í íslenskum krónum. Þótt tryggingarbréf í íslenskum krónum hefðu verið gefið út af hálfu SS breytti það ekki efni lánssamningsins, enda voru þau til tryggingar öllum skuldum SS hjá SN og annað þeirra útgefið áður en lánssamningurinn var undirritaður. NK 8 ehf. hefði síðar lagt fram tryggingarbréf sem var bundið við tilgreindar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum. Þá var bent á að óumdeilt væri að lánið var ætlað til endurfjármögnunar skuldum SS hjá SN sem voru í íslenskum krónum. Til vara var þess krafist að SN greiddi SS þá fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum sem lánssamningurinn laut að gegn því að SS greiddi til baka þá fjárhæð sem hann hafði fengið í íslenskum krónum.  Þar sem SN hafði greitt SS lánsfjárhæðina út í íslenskum krónum að ósk hans sjálfs var talið að SN hefði efnt aðalskyldu sína. Var SN því einnig sýknað af varakröfu N ehf. og SS.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. mars 2013. Þeir krefjast þess aðallega að viðurkennt verði að lánssamningur 23. febrúar 2006, milli áfrýjandans Sigursteins og stefnda, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggður þannig að fjárhæð samningsins sé bundin við gengi svissnesks franka og japansks jens í andstöðu við 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Til vara er þess krafist að stefndi greiði áfrýjandanum Sigursteini 228.950 svissneska franka og 20.805.000 japönsk jen  gegn því að hann greiði stefnda 24.514.790 krónur. Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendur verða dæmdir óskipt til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, NK 8 ehf. og Sigursteinn Sigurðsson, greiði óskipt stefnda, Sparisjóði Norðfjarðar, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 21. desember 2012.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 31. október sl. höfðuðu NK 8 ehf., Blómsturvöllum 3, Neskaupstað og Sigursteinn Sigurðsson, til heimilis á sama stað, 17. febrúar 2012 á hendur Sparisjóði Norðfjarðar, Egilsbraut 25, Neskaupstað.

                Dómkröfur stefnenda eru aðallega þær að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur, dags. 23. febrúar 2006, milli Sigursteins Sigurðssonar og Sparisjóðs Norðfjarðar, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggður þannig að fjárhæð samningsins sé bundin við gengi svissnesks franka og gengi japansks jens, í andstöðu við 13. sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001.

                Til vara gera stefnendur þá dómkröfu að stefnda verði gert að standa við aðalskyldu lánssamnings, dags. 23. febrúar 2006, milli Sigursteins Sigurðssonar og Sparisjóðs Norðfjarðar, þannig að stefndi greiði stefnanda Sigursteini 228.950 svissneska franka og 20.805.000 japönsk jen inn á reikninga í hans eigu gegn því að stefnandi Sigursteinn endurgreiði Sparisjóði Norðfjarðar 24.514.790 krónur sem greiddar voru inn á reikning Sigursteins þann 27. febrúar 2006.

                Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts að því er stefnanda Sigurstein varðar.

                Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda í málinu. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnenda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

               

I

                Málsatvik eru ítarlega rakin bæði í stefnu og greinargerð, en helstu málavextir samkvæmt gögnum málsins eru þeir að hinn 23. febrúar 2006 gerðu stefnandi Sigursteinn Sigurðsson og stefndi með sér lánssamning, sem ber heitið „Lánssamningur (lán í erlendum gjaldmiðlum)“. Samkvæmt lánssamningnum skyldi stefndi lána stefnanda Sigursteini allt að 241.000 svissneska franka (CHF) og 21.900.000 japönsk jen (JPY). Skyldi lánið bera svokallaða eins mánaðar LIBOR/EURIBOR-vexti, eins og þeir væru ákvarðaðir fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu 2,20% vaxtaálagi. Átti lánið að endurgreiðast með mánaðarlegum afborgunum á fimm árum þannig að 1/180 hluti upphaflegs höfuðstóls yrðu greiddar á hverjum gjalddaga út lánstímann en eftirstöðvar þess, þ.e. 121/180 hlutar upphaflegs höfuðstóls, skyldu greiddar að fullu undir lok lánstímans, nema lánið yrði framlengt í samræmi við ákvæði samningsins þar um. Í samningnum kemur fram að tilgangur lánveitingarinnar sé að endurfjármagna skuldir lántaka hjá lánveitanda. Í viðauka 1 við samninginn, sem dagsettur er sama dag, er að finna „beiðni um útborgun láns“, sem undirrituð er af stefnanda Sigursteini, þar sem framangreindur tilgangur lánveitingarinnar er ítrekaður og óskað eftir að lánið verði greitt út inn á tilgreindan tékkareikning stefnanda hjá stefnda. Í samræmi við framangreint voru 24.514.790 krónur millifærðar af reikningi stefnda inn á tékkareikning stefnanda þann 27. febrúar s.á. og liggur fyrir að fjárhæðinni var varið til greiðslu tilgreindra skulda stefnanda við stefnda, þ.á m. yfirdráttarskuldar.

                Lánssamningurinn var í samræmi við ákvæði hans upphaflega tryggður með tryggingarbréfi, útgefnu af stefnanda Sigurgeiri 7. desember 2004, að fjárhæð 25 milljónir króna, en frekari tryggingar voru lagðar fram með tryggingarbréfi stefnanda þann 4. október 2006 að fjárhæð 10 milljónir króna og loks með tryggingarbréfi stefnanda NK 8 ehf. 22. október 2008 að fjárhæð CHF 100.000 og JPY 9.100.000.

                Í desembermánuði 2007, með skjali sem ber yfirskriftina „Viðauki við lánssamning – skuldskeyting“, tók stefnandi NK 8 ehf. við greiðslu lánssamningsins af stefnda Sigursteini sem nýr skuldari. Var þar kveðið á um að skuldfærslureikningur skv. samningnum skyldi framvegis vera tilgreindur tékkareikningur í eigu stefnanda NK 8 ehf. Frekari viðaukar voru gerðir við samninginn 5. febrúar og 5. ágúst 2009, sem hvor um sig fól í sér að endurgreiðsluferli samningsins var frestað um 6 mánuði. Jafnframt var með viðaukum þessum gerð sú breyting á skilmálum lánsins að sett voru inn ákvæði um heimildir lánveitanda til að „myntbreyta höfuðstóli skuldarinnar“, annað hvort í evrur eða íslenskar krónur.

                Í stefnu greinir að með dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi farið að renna á stefnanda NK 8 ehf. tvær grímur um það hvort gengistrygging lánasamnings hans við stefnda væri í samræmi við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi hafi jafnan haldið því fram að um lán í erlendri mynt sé að ræða og hafi ekki fengist til að endurreikna lánið í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001. Sjái stefnendur engan annan kost í stöðunni en að stefna málinu fyrir dóm til viðurkenningar á því að lánið teljist vera skuldbinding í íslenskum krónum þar sem fjárhæð skuldbindingarinnar sé verðtryggð miðað við gengi erlendra gjaldmiðla.

                Í greinargerð stefnda er vísað til þess að til grundvallar fjármögnun stefnda á umræddu láni til handa stefnanda Sigursteins hafi legið rammasamningur á milli stefnda og Sparisjóðabanka Íslands, dags. 10. desember 2004, um lánsheimild í formi reikningsláns í erlendum gjaldmiðlum. Með beiðni um ádrátt í febrúar 2006 hafi stefndi óskað eftir því við Sparisjóðabankann að CHF 241.000 og JPY 21.900.000 yrðu greiddar inn á reikning í eigu bankans. Fjárhæðina, sem Sparisjóðabankinn hafi lánað stefnda af þessu tilefni, hafi bankinn fengið aftur lánaða frá erlendum bönkum og hafi uppruni lánsins þannig óumdeilanlega verið erlend mynt. Sé ljóst að án rammasamningsins við Sparisjóðabankann hefði stefnda ekki verið unnt að fjármagna lán stefnanda í hinum umbeðnu myntum.

II

                Um aðild stefnenda að málinu segir í stefnu að umþrættum samningi hafi verið skuldskeytt með viðauka við lánssamninginn þann 19. desember 2007 og stefnandi NK 8 ehf. þannig gerst skuldari samningsins í stað stefnanda Sigursteins. Samkvæmt almennum reglum samningaréttar taki nýr skuldari við öllum réttindum og öllum skyldum samkvæmt samningnum við slíka skuldskeytingu. Ætti NK 8 ehf. því að öllu eðlilegu að vera einn stefnandi í máli þessu. Stefnendur telji þó að nauðsynlegt að Sigursteinn sé aðili málsins með vísan til 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, en með því ákvæði skapist sjálfstæður réttur til handa fyrri skuldara lánssamninga þar sem ákvæði verðtrygginga eða vaxta teljist ógild. Fallist héraðsdómur á kröfur stefnanda beri stefnda að endurreikna samninginn með tilliti til 18. gr. laga nr. 38/2001. Við þann endurreikning myndist mögulega inneign stefnanda Sigursteins hjá stefnda. Hafi stefnandi Sigursteinn því lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins, þótt hann teljist ekki skuldari að lánssamningnum í dag. Teljist báðir stefnendur því réttir aðilar málsins skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, enda eigi dómkrafa aðila rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og samningurinn skapi sjálfstæðan rétt til beggja aðila nái aðalkrafa stefnenda fram að ganga.

                Í stefnu er helstu málsástæðum stefnenda lýst svo að byggt sé á því að lánssamningurinn sé skuldbinding í íslenskum krónum og fjárhæð hans verðtryggð miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Slíkt fyrirkomulag sé í mótsögn við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 14. gr. fyrrnefndra laga sé einungis heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem um vísitöluna gildi. Þá sé einnig heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda sem erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi. Ákvæði 14. gr. laganna sé ófrávíkjanlegt.

                Ekki sé deilt um það að um lánssamning sé að ræða og snúist deila málsaðila því eingöngu um það hvort lánið teljist vera í íslenskum krónum eða í erlendum myntum. Vísi stefnandi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2001, þar sem rétturinn hafi mótað þau sjónarmið sem líta verði til þegar ákvarðað sé hvort lán skuli teljast hafa verið veitt í íslenskum krónum eða í erlendri mynt.

                Stefnendur telji að lánssamningurinn sem um hér um ræði sé í erlendri mynt [sic] og því eigi að endurreikna lánið í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001. Telji stefnendur það engu máli skipta þótt fjárhæð lánssamningsins sé tilgreind í erlendri mynt, heldur sé þar einungis um að ræða hina raunverulegu tímasetningu verðtryggingu miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla. Í stað þess að fjárhæð hinna erlendu mynta hafi verið ákveðin við útborgunardag, líkt og í þeim samningum sem framangreind mál fjalla um, þá hafi fjárhæð hinna erlendu mynta verið ákvörðuð við undirritunardag lánssamningsins. Stefnandi Sigursteinn hafi óskað eftir láni að fjárhæð 25 milljónir króna eða sömu fjárhæð og nægt hafi til að endurfjármagna skuldir hans hjá stefnda. Tryggingarbréf sömu upphæðar hafi verið gefið út til tryggingar lánasamningsins. Lánssamningurinn hafi hinsvegar verið saminn einhliða af stefnda og því hafi ekki verið um neinar samningaviðræður að ræða, enda hafi stefnandi fengið greiddar íslenskar krónur inn á tékkareikning sinn og nýtt þær krónur til uppgreiðslu á skuldbindingum sínum hjá stefnda.

                Stefnandi kveður að í lánssamningnum hafi þeirri fjárhæð sem stefnandi Sigursteinn óskað eftir, 25 milljónir króna, í raun verið breytt í 21.900.000 japönsk jen og 241.000 svissneska franka.

                Í 1. gr. samningsins segi: ,,Lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi að lána umsamdar lánsfjárhæðir“. Sé lánið í erlendri mynt eins og stefndi haldi fram sé ljóst að ekki hafi verið staðið við þetta umrædda ákvæði, enda hafi lánið verið greitt til stefnanda Sigursteins inn á íslenskan tékkareikning hans í íslenskum krónum.

                Í 2. gr. samningsins sé tekið fram í þriðju málsgrein: ,,Dragist greiðsla höfuðstóls eða vaxta fram yfir gjalddaga er lánveitanda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags.“ Hér komi beinlíns fram heimild stefnda til þess að láta gengistryggingu lánsins haldast, eða hina raunverulegu gengistryggingu. Þá segi í 7. og 8. mgr. sömu greinar: ,,Við greiðslu á lánshluta í erlendri mynt, þegar greitt er með viðkomandi mynt, skal lántaki greiða, á gjalddaga afborgana og/eða vaxta, inn á gjaldeyrisreikninga sem lánveitandi tilgreinir hverju sinni“ og einnig: ,,Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur af lánshluta í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda á gjalddaga“. Með þessum ákvæðum samningsins sé fjallað um endurgreiðsluskyldu stefnenda. Samningurinn sé ruglingslegur að þessu leyti, enda ljóst að ekki sé tekið af skarið um það með hvaða mynt skuli endurgreiða lánssamninginn. Stefnendur hafi ekki fengið neinar upplýsingar um umrædda gjaldeyrisreikninga enda hafi afborganir vaxta og höfuðstóls ávallt verið greiddar í íslenskum krónum. Veki það upp þá spurningu hvort lánið sé ekki í raun í íslenskum krónum. Aðalskylda stefnda sem lánveitanda hafi verið að lána ákveðna fjármuni, skylda sem hann hafi efnt í íslenskum krónum. Aðalskylda stefnenda hafi verið að endurgreiða lánssamninginn sem þeir hafi gert í íslenskum krónum án nokkurra mótmæla frá stefnda. Hafi því báðir samningsaðilar, stefnendur og stefndu, efnt meginskyldur sínar samkvæmt samningnum með greiðslum í íslenskum krónum. Hljóti lánið því að teljast hafa verið í íslenskum krónum í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.

                Í 6. gr. samningsins sé kveðið á um myntbreytingarheimild. Þar segi: ,,Lántaka er heimilt að óska eftir breytingu á myntsamsetningu lánsins, þannig að það miðist við aðrar erlendar myntir, eina eða fleiri […].“ Hér sé annars vegar fjallað um samsetningu myntar í lánssamningnum og hins vegar að lánið ,,miðist við“ einhverjar ákveðnar erlendar myntir. Hafi lánssamningurinn átt að vera raunverulega í erlendri mynt, þá hljóti það að vera í þeim myntum en ekki að það miðist við slíkar myntir. Þá segi einnig í 2. mgr. 6. gr.: ,,Valréttur lántaka takmarkast hverju sinni við gjaldmiðlanna USD, JPY, CHF, EUR og GBP. Lánið má aldrei vera samsett úr fleiri gjaldmiðlum en tveimur í seinn og fjárhæð hvers gjaldmiðils má ekki vera lægri en jafnvirði einnar milljónar króna. [...] Við myntbreytingu skal við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem fallið er frá og kaupgengi þess gjaldmiðils sem valinn er, miðað við gengisskráningu Sparisjóðabanka Íslands hf. á viðkomandi myntum [..]..“ Hér sé aftur miðað við ákveðnar myntir og miðað við gengisskráningu þeirra mynta í íslenskum krónum hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. en ekki t.d. innbyrðis skráningu þeirra á milli. Hér sé því enn eitt dæmið um það hvernig hin íslenska króna birtist í lánssamningnum og verði þannig að horfa á lánssamninginn í heild sem skuldbindingu í íslenskum krónum. Þá sé athyglisvert að stefndi hafi aldrei talið stefnanda vera að vanefna samninginn, jafnvel þótt í 2. tl. 1. mgr. 11. gr. komi skýrt fram að það teljist vera vanefnd lántaka ef hann greiði ítrekað ekki á réttum tíma og ekki í réttum gjaldmiðli. Stefnendur hafi, eins og áður segi, ávallt greitt af samningnum í íslenskum krónum.

                Í 16. gr. samningsins sé tekið sérstaklega af skarið um þetta, en þar komi fram heimild lánveitanda til þess að skuldfæra reikning lántaka. Þar segi: ,,Lántaki veitir lánveitanda heimild til þess að skuldfæra viðskiptareikning sinn hjá Sparisjóði Norðfjarðar, nr. 1106-26-1743, fyrir afborgunum, vöxtum, gengismun, verðbótum, dráttarvöxtum og hvers konar kostnaði […]“. Hér lýsi stefndi því beinlínis yfir í hinum einhliða samda lánssamningi að hann geri ráð fyrir því að skuldfærsla reikningsins geti verið vegna gengismunar sem komi til vegna samningsins. Sé lánssamningurinn hinsvegar í erlendum myntum, þá geti slíkur gengismunur aldrei komið upp.

                Samningnum hafi verið skuldskeytt þann 14. desember 2007 og hafi stefnandi NK 8 ehf. gerst skuldari að lánssamningnum. Hafi lánssamningnum verið skuldskeytt með viðauka samkvæmt samningnum sjálfum. Í viðaukanum sé fjallað um lánssamninginn og segi að stefnandi Sigursteinn og stefndi hafi gert með sér lánssamning um lán upphaflega að fjárhæð CHF 241.000 og JPY 21.900.000. Svo segi: ,,Lánið er nú að eftirstöðvum kr. 22.357.652 miðað við 15. desember 2007.“ Þá samþykki nýr skuldari, stefnandi NK 8 ehf., að íslenskur tékkareikningur hans nr. 1106-26-1743 verði skuldfærður skv. samningnum til greiðslu á afborgunum og vöxtum. Hér sé skýrt að lánssamningurinn sé í íslenskum krónum enda ljóst að við yfirtöku samningsins eigi nýr skuldari rétt á að vita stöðu samningsins. Sú staða sé tilgreind eingöngu í íslenskum krónum.

                Með tveimur viðaukum, dags. 5. febrúar 2009 og 5. ágúst 2009, hafi verið gert samkomulag milli stefnanda NK 8 ehf. og stefnda um að fresta greiðslum á afborgun lánsins í 6 mánuði. Hafi þetta verið vegna þess að greiðslur höfðu rúmlega tvöfaldast vegna falls krónunnar á haustmánuðum 2008. Jafnframt því að samþykkja þessa breytingu hafi viðaukinn kveðið á um aukinn rétt stefnda samkvæmt samningnum, en viðaukinn hafi verið einhliða saminn af stefnda. Í viðaukanum segi m.a.: ,,Þá er gerð sú breyting á skilmálum lánsins að lánveitandi skal hafa heimild, hvenær sem er á lánstímanum að myntbreyta höfuðstól skuldarinnar þannig að í stað þess að miðast við jafnvirði íslenskra króna í ofangreindum mynt/myntum og tilgreindum hlutföllum þá skuli fjárhæð framvegis miðast við jafnvirði íslenskra króna í evrum. Við myntbreytingu í evrur skal við umreikning nota sölugengi þeirrar gjaldmiðla sem myntbreytt er, miðað við gengisskráningu lánveitanda á viðkomandi myntum […]“. Þá sé lánveitanda (stefnda) veitt heimild til þess að myntbreyta láninu í íslenskar krónur en þó með þeim hætti að framvegis skuli nota verðtryggða kjörvexti skuldabréfalána hjá lánveitanda og að lánið verði þá verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs. Eins og sjá megi á framangreindu þá komi fram í viðaukunum að stefndi líti svo á að höfuðstóll skuldarinnar miðist við jafnvirði íslenskra króna í þeim myntum sem samningurinn samanstandi af. Hafi Hæstiréttur þegar tekið af skarið um slíkt jafnvirðisorðalag eins og nánar sé lýst í dómum réttarins í málum nr. 603 og 604/2010. Þá hafi stefnendur fengið sendar við hverja greiðslu greiðslukvittanir þar sem sérstaklega sé tekin fram fjárhæð greiðslunnar í íslenskum krónum miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla.

                Stefnendur leggi áherslu á þá meginreglu samningaréttar að líta skuli til efnis samnings en ekki heitis hans. Þannig verði að skoða samninginn í heild sinni, en ekki endilega einstaka liði eins og fyrirsögn samningsins eða að fjárhæð hinna umræddu mynta komi fram í samningnum. Stefnendur bendi á að eini mismunurinn milli þess samnings sem deilt sé um hér og þeirra samninga sem dæmdir hafi verið ólögmætir í Hæstarétti sé sú að fjárhæð hinna erlendu mynta komi fram í samningnum sjálfum. Sú staðreynd leiði þó ekki ein til þess að samningurinn skuli teljast vera í erlendri mynt. Það sem skiptir hvað mestu máli sé að fjárhæð samningsins hafi verið greidd út í íslenskum krónum og sé greidd til baka í íslenskum krónum. Þannig hafi báðir samningsaðilar, eins og áður segi, fullnægt aðalskyldu sinni með greiðslum í íslenskum krónum. Að auki bendi viðaukar samningsins til þess að litið sé á lánið sem svokallað jafnvirðislán en í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi slík lán verið talin vera í íslenskum krónum. Sé þetta ljósast í viðauka varðandi skuldskeytingu þar sem hin raunverulega höfuðstólsfjárhæð lánsins komi fram í íslenskum krónum.

                Að auki telji stefnendur að umþrættur lánssamningur sé alltaf skuldbinding í íslenskum krónum, burt séð frá framangreindu, þó svo að lánsfjárhæð hafi verið tilgreind í erlendum gjaldmiðli þar sem greiðslur hafi ávallt farið fram í íslenskum krónum. Í 13. gr.laga nr. 38/2001 segi: ,,Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.“ Í frumvarpi til laganna segi eftirfarandi: „Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður.“ Áfram segi: „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“

                Af framangreindu megi ráða að löggjafinn hafi sérstaklega tekið fram að undir VI. kafla laga nr. 38/2001 falli ekki einungis skuldir sem skráðar séu í íslenskum krónum heldur skuldbindingar í íslenskum krónum með víðtækari hætti. Sérstaklega hafi þótt þurfa að taka fram að taka skuli af allan vafa þar að lútandi. Lánveiting stefnda til stefnenda hafi að mati stefnenda verið að öllu leyti skuldbinding í íslenskum krónum þ.e. sótt hafi verið um lán í íslenskum krónum, útborgun lánsins hafi verið í íslenskum krónum og afborganir hafi farið fram í íslenskum krónum. Eina sem frábrugðið sé frá þeim samningi sem dæmdur hafi verið ólögmætur samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 og 603 og 604/2010 sé að fjárhæð lánasamningsins sé tilgreind í erlendri mynt. Ágreiningur þessa máls snúist því fyrst og fremst um það hvort lánveitingin hafi verið skuldbinding í íslenskum krónum eða ekki.

                Stefnendur kveða tilgang 13. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001 hafa verið þann að fella niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að taka af allan vafa þar að lútandi. Vilji löggjafans hafi verið ótvíræður og skýr. Stefnendur telji að ekki sé hægt að semja sig frá lögunum, sem taka hafi átt af allan vafa, með þeim einfalda hætti að snúa hlutunum við með því  að setja fram í lánssamningi skuld í erlendri mynt, sem síðan hafi verið greidd út í íslenskum krónum og taka jafnframt við greiðslum í íslenskum krónum. Að halda því fram að slík skuld sé lán í erlendri mynt fáist ekki staðist. Verði litið á slíka útfærslu á lánveitingu sem skuldbindingu í erlendri mynt sé ljóst að hinn ótvíræði vilji löggjafans um að banna skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sé með öllu merkingarlaus og tilviljun ein ráði hvort um lögmætt eða ólögmætt lán sé að ræða, allt eftir því hvernig lánveitandi hafi hagað orðalagi og uppsetningu samningsins. Lánveiting stefnda hafi verið veitt til viðskipta stefnanda þar sem undirliggjandi verðmæti hafi verið í íslenskum krónum og greiðsla hafi farið fram í íslenskum krónum þrátt fyrir að erlend lánsfjárhæð væri tilgreind í texta samningsins.

                Stefnendur ítreki að þeir telji að lánið sé í íslenskum krónum þar sem fjárhæð þess sé bundið við gengi JPY og CHF og að eini munurinn á þessum lánssamningi og þeirra sem hafi verið til umfjöllunar fyrir Hæstarétti sé sá að hin svokallaða gengistrygging hafi verið lögð á við undirritun samningsins (eða við gerð hans) en ekki við útborgunardag eins og tíðkast hafi á grundvelli þeirra samninga þar sem fjárhæðin hafi komið fram í íslenskum krónum. Þannig kveði samningurinn sjálfur á um það að lánveitanda sé heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldföllnum fjárhæðum til greiðsludags.

                Þá byggi stefnendur á andskýringarreglu samningaréttar sem sé meginregla við skýringu og túlkun staðlaðra samninga. Í reglunni felist að komi upp vafi við túlkun eða skýringu staðlaðs samnings beri að skýra slíka samninga þeim í óhag sem samið hefur hina einhliða skilmála.

                Með varakröfu stefnenda sé farið fram á að stefndi standi við samninginn samkvæmt aðalefni hans. Telji stefnendur að þá beri stefndi þá skyldu að greiða stefnanda Sigursteini 228.950 svissneska franka og 20.805.000 japönsk jen inn á reikninga í hans eigu gegn því að Sigursteinn greiði stefnanda 24.514.790 kr. en það sé sú fjárhæð sem lögð hafi verið inn á reikning hans þann 27. febrúar 2006.

                Stefnandi byggi varakröfu sína á meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda. Í 1. gr. samningsins sé skýrt kveðið á um að lánveitandi skuli lána ,,umsamdar fjárhæðir“. Ljóst sé að stefndi geti ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum, lánað íslenskar krónur og talið að lánið sé í erlendum myntum. Sé fallist á skýringar stefnda um að lánið hafi verið í erlendri mynt hafi honum samkvæmt lánssamningnum borið að greiða lánið út í hinum erlendu myntum, eða 228.950 CHF og 20.805.000 JPY að loknum frádrætti vegna lántökukostnaðar. Stefnandi Sigursteinn muni þá, þegar greiðsla hafi verið innt af hendi, endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem lögð hafi verið inn á reikning hans í íslenskum krónum. Þá loks sé aðalskylda lánveitanda uppfyllt samkvæmt samningnum.

                Leggi stefnendur áherslu á að þrátt fyrir að fallist sé á varakröfu stefnenda þýði það ekki að lánssamningurinn sé settur í uppnám við þá viðurkenningu. Hér sé eingöngu gerð sú krafa að aðalskylda stefnda sé uppfyllt samkvæmt samningnum. Engu breyti þótt gengi hinna erlendu gjaldmiðla hafi hækkað eða lækkað á lánstímanum enda ljóst að þar sem stefndi líti svo á að hann sé einungis að lána erlendar myntir þá skipti verðmæti þeirra mynta gagnvart hinni íslensku krónu engu máli.

                Um lagarök kveðast stefnendur vísa til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, meginreglna samninga- og kröfuréttar og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað styðjist við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert skylt að skila virðisaukaskatti af þjónustu sinni en stefnandi Sigursteinn sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir honum.

III

                Stefndi kveður aðalkröfu sína um sýknu byggja á því að skuldbinding stefnenda samkvæmt lánssamningi aðila sé skuldbinding í erlendri mynt. Þegar af þeirri ástæðu eigi ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ekki við, enda sé því ekki um að ræða verðtryggingu samningsfjárhæðarinnar í skilningi VI. kafla nefndra laga. Vísist um það einkum til 1. mgr. 13. gr. laganna, þar sem kveðið sé á um að ákvæði kaflans taki eingöngu til skuldbindinga um lánsfé í íslenskum krónum.

                Af hálfu stefnda sé á því byggt að samningur aðila beri með sér að hann hafi tekið til svokallaðrar myntkörfu í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum. Skuldbindingin hafi verið ákveðin í japönskum jenum og svissneskum frönkum og fjárhæðin tilgreind sem JPY 21.900.000 og CHF 241.000. Jafnframt sé ljóst að í lánssamningnum sé hvergi minnst á skuldbindingu í íslenskum krónum og engin krónufjárhæð tilgreind. Telji stefnandi því hafið yfir vafa að lánssamningurinn falli utan gildissviðs laga nr. 38/2001. 

                Stefndi árétti að hann hafi sjálfur tekið samsvarandi lán í viðkomandi myntum hjá viðskiptabanka sínum og endurlánað stefnanda Sigursteini á þennan hátt svo sem að framan greini. Samningar af þessum toga hafi verið algengir, enda hafi vextir af erlendu lánsfé verið lágir á þessum tíma miðað við lán í íslenskum krónum og hafi stefnandi Sigursteinn því sótt það fast að lánið yrði veitt með þessum hætti.

                Í lögum nr. 38/2001 sé ekki að finna skilgreiningu á því hvað skuli teljast vera ,,skuldbinding um lánsfé í íslenskum krónum“. Af því leiði að túlka verði skuldbindingu aðila í hvert og eitt skipti samkvæmt fyrirliggjandi samningi og orðalagi hans. Við þá túlkun verði sem endranær að horfa til grundvallarreglu samningaréttar um samningafrelsi aðila, en af henni leiði meðal annars að allar takmarkanir frá henni verði að túlka þröngt. Þá hafi því verið slegið föstu í Hæstarétti Íslands að við þetta mat þurfi fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þess gernings sem liggi til grundvallar skuldbindingunni. Hafi rétturinn og lagt á það áherslu að hér skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í viðkomandi löggerningi, sbr. einkum dóm réttarins frá 23. nóvember 2011 í máli nr. 552/2011.

                Við útgreiðslu lánsins hafi hin erlenda lánsfjárhæð verið sú sama og í lánssamningnum og gengi fjárhæðarinnar tilgreint. Vísi stefndi þar um til viðauka I við lánssamninginn („beiðni um útborgun“) og framlagðrar kaupkvittunar. Þá hafi einnig verið sett fram áætlað greiðsluflæði lánsins miðað við „núverandi greiðsluskilmála og vexti“ og sé hún tiltekin í hinum lánuðu myntum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Sé framangreint einnig ótvírætt til marks um að lánveitingin sé í erlendri mynt. Framangreint fái jafnframt stoð í neðangreindum ákvæðum lánssamningsins:

                1. Á forsíðu lánssamningsins komi skýrum orðum fram að um sé að ræða ,,lán í erlendum gjaldmiðlum“. Í þessu felist að mati stefnda skýr yfirlýsing beggja aðila um að lánið hafi ekki verið veitt í íslenskum krónum, heldur erlendri mynt.

                2. Í upphafi lánssamningsins komi skýrt fram að stefndi láni stefnanda Sigursteini ,,CHF 241.000 ***tvöhundruðfjörutíuogeittþúsund svissneska franka***“ og ,,JPY 21.900.000***tuttuguogeinamilljónogníuhundruðþúsund japönsk jen***“. Að mati stefnda felist í þessu að stefnandi Sigursteinn hafi samþykkt að undirgangast skuldbindingu um að taka lán í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum.

                3. Í 2. grein lánssamningsins sé greinilega gert ráð fyrir endurgreiðslu í japönskum jenum og svissneskum frönkum, en ekki íslenskum krónum. Þannig sé t.d. gert ráð fyrir því að við greiðslu á lánshluta í erlendri mynt skuli lántaki greiða inn á gjaldeyrisreikninga í eigu stefnda. Sé af þessu ljóst að ætlun aðila hafi greinilega verið að miða lánssamninginn við þær erlendu myntir sem tilgreindar hafi verið í samningnum. 

                4. Í 3. gr. samningsins komi fram skylda stefnanda til að greiða vexti af láninu. Samkvæmt greininni lofi stefnandi að greiða stefnda vexti jafnháa LIBOR/EURIOBOR-vöxtum eins og þeir ákvarðist fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu 2,20% vaxtaálagi. Með umræddri skammstöfun sé átt við vexti á millibankamarkaði í London/Frankfurt. Skuldbinding stefnanda hafi samkvæmt þessu ekki falist í greiðslu vaxta á íslenskar krónur. Sé enda ljóst að ef ætlun aðila hefði verið að miða við íslenskar krónur hefði skuldbindingin byggst á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og vextirnir þannig orðið umtalsvert hærri en samkvæmt fyrirliggjandi samningi. Í ljósi þessa byggi stefndi á því að skilgreina verði skuldbindingu aðila samkvæmt lánssamningnum sem skuldbindingu í erlendri mynt, en ekki íslenskum krónum.

                5. Í 6. gr. lánssamningsins sé að finna ákvæði sem veiti skuldara heimild til að breyta þeirri erlendu mynt sem lánið hafi upphaflega verið tekið í. Þó séu sett fram ákveðin skilyrði í tengslum við myntbreytingarheimildina. Þannig sé t.d. kveðið á um að slíka beiðni þurfi að setja fram með ákveðnum fyrirvara og að valréttur skuldara í þessum efnum takmarkist við ákveðna gjaldmiðla. Sé og gengið út frá því að ef lánveitandi geti ekki útvegað viðkomandi gjaldmiðil sé honum heimilt að nota USD í stað þess gjaldmiðils. Af þessu sé ljóst að lán stefnda til handa stefnanda Sigursteini hafi verið veitt í erlendri mynt. Hafi enda verið óþarft að hafa fyrirvara um að stefndi gæti útvegað myntina ef lánið hefði í reynd átt að vera í íslenskum krónum.

                6. Þá sé jafnframt í 11. gr. heimild til handa lánveitanda að breyta láninu úr hinni erlendu lánsmynt yfir í íslenskar krónur komi til vanskila af hálfu lántaka, en slíkt hefði verið óþarfi ef lánið hefði frá upphafi verið í íslenskum krónum.

                Af hálfu stefnda sé á því byggt að framangreind atriði varpi skýru ljósi á þá staðreynd að skuldbinding stefnanda Sigursteins, og síðar NK 8 ehf., samkvæmt lánssamningi aðila hafi verið í erlendum myntum, en ekki íslenskum krónum. Þegar af þeirri ástæðu eigi ákvæði laga um nr. 38/2001, vexti og verðtryggingu, ekki við um skuldbindinguna.

                Auk framangreinds skuli á það bent að af kaupkvittunum, sem sendar hafi verið stefnanda Sigursteini frá Sparisjóðabankanum, sem lánað hafi stefnda umbeðnar myntir samkvæmt framansögðu, megi greinilega ráða að áður en lánsfjárhæðin var greidd inn á tékkareikning stefnanda hafi japönsk jen og svissneskir frankar verið seldir fyrir íslenskar krónur. Þannig sé ljóst að lánveitingin hafi kallað á að gjaldeyrisviðskipti færu fram, þar sem gjaldeyrir og íslenskar krónur skiptu um hendur.

                Renni þetta að mati stefnda stoðum undir það sem að framan greinir, þ.e. að andvirði lánsins hafi verið myntbreytt í íslenskar krónur hjá Sparisjóðabankanum og lánið síðan greitt út til stefnanda á íslenskan reikning í hans eigu, reikning sem tilgreindur hafi verið í viðauka við lánssamninginn. Stefndi bendi jafnframt á að enda þótt lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum þá helgist það af þeirri einföldu ástæðu að stefnandi hafi sjáanlega viljað nýta sér lánsfjárhæðina í íslenskum krónum, sbr. tilgang lánsins eins og honum sé lýst í 3. mgr. 1. gr. lánssamningsins, sbr. og framangreint. Ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að greiða lánsfjárhæðina út í hinni erlendu mynt hefði stefnandi farið þess á leit. Stefndi telji það hins vegar með öllu fráleitt og í andstöðu við viðurkennd sjónarmið um samningsfrelsi, að leggja þá skyldu á lánveitanda að greiða „fýsískt“ út fjármunina í hinni erlendu mynt, eða á gjaldeyrissreikning, til þess að um lánsskuldbindingu í erlendri mynt geti verið að ræða. Enn síður geti gildi samnings verið háð því, að lánveitandi gangi gegn fyrirmælum lántaka um útborgun láns. Í þessu sambandi verði og að horfa til þess að niðurstaðan í fjárhagslegu tilliti sé sú sama þegar lánið var greitt út, hvort heldur fyrir lánveitanda eða lántaka. Sömu sjónarmið eigi við um greiðslu afborgana og vaxta að breyttu breytanda. Í öllu falli geti greiðsla lánsins og afborgana og vaxta aldrei leitt til þess að lánið teljist í íslenskum krónum þegar svo sé ástatt að lánsfjárhæðin og þar með lánsskuldbindingin sé í grunninn tiltekin í hinni erlendu mynt svo sem hér sé ástatt, sbr. og umfjöllun um dóma Hæstaréttar nr. 520/2011, nr. 551/2011 og nr. 552/2011, hér síðar.

                Jafnframt bendi það endurgreiðslufyrirkomulag, sem gert hafi verið ráð fyrir í viðskiptum aðila, eindregið til þess að um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða. Þannig sýni greiðslutilkynningar, sem sendar hafi verið til stefnanda NK 8 ehf., svo ekki verði um villst, að tilgreining á lánsfjárhæðinni hafi verið í erlendum myntum. Sé þannig ljóst að aðilar hafi gert ráð fyrir að stefndi fengi lánið endurgreitt í japönskum jenum og svissneskum frönkum, sem hann skyldi síðan greiða Sparisjóðabankanum í samræmi við ofangreint.

                Ennfremur sé ljóst að kvittanir fyrir greiðslu á vöxtum og afborgunum sýni glögglega að endurgreiðsla lánsins hafi raunverulega farið fram í erlendri mynt, enda komi þar skýrt fram að þar hafi verið keyptur gjaldeyrir. Þannig hafi afborganir af láninu verið teknar út af áðurnefndum tékkareikningi stefnanda og fjárhæðinni ráðstafað til að kaupa erlendan gjaldeyri, sem síðan hafi verið greiddur stefnda í samræmi við ákvæði samningsins. Sé og ljóst að á öllum greiðslukvittunum vegna lánsins hafi ávallt verið tekið fram hver afborgunarfjárhæðin og vaxtagreiðslur væru hverju sinni í hinum erlendu myntum, svo og vaxtaprósenta. Síðan hafi gengi myntanna verið tiltekið og greiðslufjárhæð í íslenskum krónum að teknu tilliti til þess. Tilgreining fjárhæðarinnar í íslenskum krónum vísi einvörðungu til þess hvert söluandvirði hinna erlendu mynta, að teknu tilliti skráðs gengis þeirra í íslenskum krónum, hafi verið á afborgunardegi.

                Stefndi hafni alfarið þeirri málsástæðu stefnenda að dómar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010 og 604/2010, þar sem rétturinn sló föstu að óheimilt væri að binda skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla, séu fordæmisgefandi fyrir mál þetta. Í því sambandi bendi stefndi einkum á að í nefndum málum hafi atvik verið með allt öðrum hætti en í máli þessu. Þannig hafi t.d. háttað til í máli nr. 155/2011 að á forsíðu samningsins hafi verið tilgreint að lánsfjárhæðin væri í íslenskum krónum og lánsfjárhæðin sömuleiðis tilgreind sem jafnvirði tiltekinnar íslenskrar krónutölu í nánar tilgreindum myntum. Af forsendum dómanna megi ráða að framangreint atriði hafi haft verulega þýðingu um þá niðurstöðu að talið var að um lán í íslenskum krónum væri að ræða bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefndi vísi hér jafnframt til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 603 og 604/2010, þar sem einnig sé sérstaklega til þess vísað að hin erlenda lánsfjárhæð sé hvergi tilgreind. Hér hátti hins vegar ekki svo til. Í máli þessu reyni á skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum sem sé gjörólík þeim lánssamningum sem á hafi reynt í ofangreindum málum. Stefndi vísi í þessum efnum til dóms Hæstaréttar Íslands frá 23. nóvember 2011 í máli nr. 552/2011. Í greindu máli hafi því einnig verið haldið fram að þeir dómar, sem stefnendur vísi til máli sínu til stuðnings, væru fordæmisgefandi fyrir lánssamninginn sem aðilar deildu um. Rétturinn hafi hins vegar hafnað því með eftirfarandi rökum:

                „Með skírskotun til þess að heiti lánsins ber með sér að um sé að ræða skuldbindingu í erlendum myntum og enn frekar að í beiðni um lánið er hún nákvæmlega tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum og eingöngu í staðfestingu þess, eru áðurgreindir dómar Hæstaréttar ekki fordæmi fyrir ólögmæti skuldbindingarinnar. Í þeim málum, sem þar var leyst úr, var þessu ólíkt farið að því leyti að þær skuldbindingar, sem krafist var efnda á, voru ekki tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum, heldur ýmist sem tilteknar fjárhæðir í íslenskum krónum eða jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum er skiptast skyldu eftir ákveðnum hlutföllum í tvær eða fleiri erlendar myntir.“

                Hafi rétturinn þannig lagt til grundvallar að í ljósi þess m.a. að fjárhæð hinna erlendu mynta væri tilgreind í samningnum, en ekki hin íslenska fjárhæð lánsins, hefðu dómar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010 og 604/2010 ekki fordæmisgildi fyrir mat á lögmæti hins umþrætta samnings. Hefði í þeim málum enda háttað svo til að skuldbindingarnar voru ekki tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum, heldur ýmist tilteknar sem fjárhæðir í íslenskum krónum eða jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum sem skiptast skyldu eftir nánar tilgreindum hlutföllum í erlendar myntir. Hafi sama niðurstaða verið lögð til grundvallar í dómum Hæstaréttar frá 3. nóvember 2011 í máli nr. 520/2011 og frá 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011.

                Í máli þessu hátti þannig til að í samningi aðila hafi, líkt og í málum nr. 552/2011 og 520/2011, verið um það að ræða að lánsfjárhæðin var ekki tilgreind í íslenskum krónum, heldur í erlendum myntum. Í samningi aðila sé ekki að finna neina skírskotun til íslensku krónunnar eða jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Þá beri heiti lánsins það glögglega með sér að um sé að ræða lánssamning í erlendum myntum. Í ljósi þessa sé á því byggt af hálfu stefnda að dómar Hæstaréttar, sem vísað sé til af hálfu stefnenda, hafi ekkert gildi fyrir mál þetta. Þvert á móti verði að sýkna stefnda af kröfum stefnenda með vísan til þess að lánssamningurinn aðila hafi, öfugt við það sem um var að ræða í ofangreindum málum, þ.e. nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010 og 604/2010, sannarlega verið í erlendri mynt. Byggi stefndi þannig á því að dómar Hæstaréttar í málum nr. 551/2011, 552/2011 og 520/2011 séu réttu fordæmin sem líta beri til við mat á lögmæti lánssamnings aðila. 

                Af hálfu stefnda er jafnframt vísað til þess að litið hafi verið til fordæma Hæstaréttar í málum nr. 520/2011, 551/2011 og 552/2011 í tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. mars 2012, þ.e. í málum nr. E-3210/2011 og E-3209/2011.

                Að mati stefnda sé áréttað að stefnandi Sigursteinn hafi raunverulega fengið lán í erlendum myntum og stefndi borið skuldbindingar á móti gagnvart sínum lánardrottni í erlendum myntum. Aðilar hafi gert með sér gagnkvæman samning í erlendum myntum sem samkvæmt meginreglu samningaréttarins skuli standa óbreyttur. Meginreglan um samningsfrelsi sé grundvallarregla í íslenskum rétti og sé ljóst að takmarkanir á því verða almennt ekki gerðar nema með settum lögum. Í ljósi þessa og með vísan til þess sem að framan greini verði að telja að stefnendur séu skuldbundnir samkvæmt skýru orðalagi samningsins.  

                Að síðustu skuli áréttað að það hafi verið eindregin ósk stefnanda Sigursteins að lánið yrði veitt í erlendri mynt. Séu skilmálar lánsins, útborgun þess og greiðslutilhögun að öðru leyti þannig í fullu samræmi við vilja stefnanda. Þá sé ljóst að stefnendur hafi greinilega gert ráð fyrir hinu sama, enda hafi í ársreikningi stefnanda NK 8 ehf. verið tilgreindar sérstaklega skuldir í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Sé ljóst að stefnanda hefði verið í lófa lagið að tilgreina skuldina í íslenskum krónum, líkt og aðrar skuldir, ef hann hafi staðið í þeirri trú að lánið væri íslenskt. Enda þótt stefnandi hafi á endanum fengið lánið greitt út í íslenskum krónum þá hafi það einfaldlega helgast af þeirri staðreynd að stefnandi hafi viljað fá fjárhæðina lagða inn á tékkareikning sinn og nýta sér andvirði lánsfjárhæðinnar í íslenskum krónum til þess að greiða skuldir sínar hjá stefnda, sbr. lýstan tilgang í 3. mgr. 1. gr. lánssamningsins og beiðni um útborgun lánsins. Sé ljóst að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að greiða stefnanda lánið út í erlendri mynt hefði hann kosið það greiðslufyrirkomulag, sbr. hér að framan.

                Í þessu sambandi sé og bent á að einungis einn einstaklingur og átta fyrirtæki hafi fengið erlend lán hjá stefnda á greindum tíma. Hafi það enda verið yfirlýst stefna að halda lánveitingum í erlendri mynt í hófi og hafi slík lánskjör einungis verið veitt þeim sem voru í miklum viðskiptum eða sóttu það mjög fast. Fyrir utan stefnanda Sigurstein hafi þannig engin erlend lán verið veitt einstaklingum.

                Stefndi hafni sérstaklega þeirri röksemdafærslu stefnenda að skuldskeyting samningsins þann 14. desember 2007, þar sem stefnandi NK 8 ehf. hafi verið gerður að skuldara samningsins, skipti nokkru máli í þessu sambandi. Enda þótt lánsfjárhæðin hafi í greindum viðauka verið tilgreind í íslenskum krónum skipti það engu um efni og form upphaflegu lánsskuldbindingarinnar eða mat á því hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Sé enda ljóst að tilgreining fjárhæðarinnar í íslenskum krónum hafi eingöngu vísað til þess hver lánsfjárhæðin í hinum erlendu myntum, umreiknuð í íslenskar krónur, hafi verið á afborgunardegi. Það hafi eingöngu verið til upplýsinga fyrir stefnendur að getið hafi verið um skuldbindinguna í íslenskum krónum. Í greindum viðauka hafi engin frekari skírskotun eða vísbending falist um það að láninu hefði verið breytt í íslenskt lán. Í þessu sambandi sé og bent á að eftir umrædda skuldskeytingu hafi stefnanda NK 8 ehf. verið sendar fjölmargar greiðslutilkynningar, en á þeim hafi alltaf komið fram eftirstöðvar lánsins í erlendu myntunum. 

                Samkvæmt framansögðu sé ljóst að lánssamningur aðila hafi verið um skuldbindingu í erlendum myntum. Í öllu falli sé ósannað að um hafi verið að ræða íslenskt lán. Sé ljóst að stefnendur beri sönnunarbyrðina fyrir því að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum, þvert á fyrirliggjandi gögn og skýrt orðalag samningsins.

                Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um hafi verið að ræða gengistryggt íslenski lán andstætt lögum nr. 38/2001, sé á því byggt að skuldbindingin sé allt að einu lögmæt. Þannig hafi stefnda verið heimilt að víkja frá ákvæðum IV. kafla laga nr. 38/2001 þar sem það hafi verið til hagsbóta fyrir stefnendur, sbr. 2. gr. laganna. Á því tímamarki sem samningurinn hafi verið gerður hafi sú fjármögnun sem samningurinn fól í sér verið stefnanda hagfelldari en aðrar sem honum hafi staðið til boða og hún því um leið verið lögmæt á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis. Gerð samningsins hafi þannig ekki verið andstæð lögum nr. 38/2001

                Um varakröfu stefnenda kveðst stefndi vísa til sömu röksemda og að framan greinir, að breyttu breytanda. Svo sem fram sé komið hafi stefnendur gengist undir skuldbindingu sem þeir geti ekki vikið sér undan að efna í samræmi við efni hennar. Verði réttarsambandi aðila hvorki breytt né það gert upp og efnt að nýju af hálfu stefnda sex árum síðar.

                Því sé alfarið hafnað að nokkur efni séu til þess að stefndi greiði umbeðnar fjárhæðir inn á reikning stefnanda Sigursteins. Í fyrsta lagi liggi fyrir, svo sem að framan greini, að samningurinn sé löngu efndur samkvæmt efnu sínu af hálfu stefnda. Sé ljóst að krafan beinist að því að stefndi greiði sömu fjárhæðir í erlendum myntum og hann hafi þegar greitt með láni frá Sparisjóðabankanum. Hafi stefnendur engin rök fært fyrir því að rétt sé að þær efndir verði látnar ganga til baka og síðan endurteknar sex árum síðar.

                Í öðru lagi sé sjálfstætt byggt á því að sex ár séu liðin frá því að samningur aðila hafi verið undirritaður og efndur. Jafnvel þótt stefnendur kynnu að eiga réttmætt tilkall til þess að stefndi greiddi honum á ný umræddar myntir verði í öllu falli að telja að sú krafa sé fallin niður fyrir tómlætissakir.

                Stefndi bendi í þessu sambandi á að aðilar hafi lagt sama skilning í efni skuldbindingarinnar fyrir sex árum, þ.e. að stefndi væri að lána stefnanda Sigursteini 241.000 svissneska franka og 21.900.000 japönsk jen. Hafi stefnendur staðið í þeirri trú að þrátt fyrir skýrt orðalag samnings aðila hafi lánið raunverulega verið veitt í íslenskum krónum, og að stefndi hafi þannig virt að vettugi samkomulag aðila, hafi þeim verið í lófa lagið að setja fram slíka kröfu þegar í upphafi. Í öllu falli hafi þeim borið að koma að athugasemdum þar að lútandi eins fljótt og kostur var á. Stefnendur hafi hins vegar engum athugasemdum hreyft við greiðslufyrirkomulag lánsins. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna varakröfu stefnenda. 

                Í þriðja lagi sé á það bent að verði talið að lánssamningur aðila hafi verið í erlendri mynt, svo sem haldið sé fram af hálfu stefnda, felist jafnframt í því viðurkenning á því að lánsfjárhæðin, svo sem hún hafi verið tilgreind í hinum umþrætta samningi, hafi þegar verið greidd. Stefnendur hafi þannig enga lögvarða hagsmuni af úrlausn um varakröfu sína í málinu verði aðalkröfu þeirra hafnað. 

                Um lagarök kveðst stefndi vísa til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga. Kröfu sína um dráttarvexti styðji stefndi við III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, einkum 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. þeirra sömu laga. Krafa stefnda um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Í máli þessu greinir aðila á um hvort framangreindur lánssamningur, dags. 23. febrúar 2006, sem upphaflega var gerður milli stefnda og stefnanda Sigurgeirs, en sem stefnandi NK 8 ehf. tók síðar við sem skuldari, sé skuld í erlendum myntum eða hvort um sé að ræða skuld í íslenskum krónum sem bundin sé með ólögmætum hætti við gengi erlends gjaldmiðils, í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Óheimilt er að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla eða á annan hátt en þann sem sérstaklega er heimilaður í lögum nr. 38/2001, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, frá 14. febrúar 2010 í málum nr. 603/2010 og  604/2010, frá 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 og frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, þar sem í öllum tilvikum var komist að þeirri niðurstöðu að um lán í íslenskum krónum væri að ræða, sem með ólögmætum hætti væru bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Lán í erlendri mynt falla hins vegar ekki undir reglur laga nr. 38/2001 um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Stefnendur vísa til þeirra dóma sem fyrr voru taldir, einkum í máli nr. 155/2011, til stuðnings staðhæfingum sínum um að skuldbinding sú sem stefnandi Sigurgeir gekkst undir og stefnandi NK 8 ehf. tók síðar við sé í íslenskum krónum og með ólögmætum hætti bundin gengi erlendra gjaldmiðla. Byggja stefnendur á því að líta verði heildstætt á samninginn, viðauka við hann og framkvæmd samningsins.

                Að undanförnu hafa gengið nokkrir dómar í Hæstarétti þar sem fjallað hefur verið um það hvort skuldbindingar teldust lán í erlendum gjaldmiðli eða ólögmæt gengistryggð lán í íslenskum krónum. Með dómi Hæstaréttar frá 3. nóvember 2011 í máli nr. 520/2011 og dómum réttarins frá 23. sama mánaðar í málum nr. 551/2011 og 552/2011 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að um lán í erlendum myntum væri að ræða. Vísaði rétturinn þar einkum til þess að fjárhæð skuldbindinganna væri nákvæmlega tilgreind í hinum erlenda gjaldmiðli. Í dómunum frá 23. nóvember kemur fram að af orðalagi ákvæða 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 og lögskýringargögnum verði ráðið að við úrlausn um það hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í viðkomandi gerningum.

                 Í dómi Hæstaréttar frá 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011, þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að skuldbinding samkvæmt skuldabréfi væri í erlendum myntum, var auk þess sem litið var til heitis skuldabréfsins og tilgreiningar þess á lánsfjárhæð, litið til þess að vextir samkvæmt skuldabréfinu væru tilgreindir sem Libor og Euribor vextir og til skilmálabreytinga bréfsins, sem hvort tveggja þótti samræmast því að um erlent lán væri að ræða.

                Hinn 27. september 2012 kvað Hæstiréttur síðan upp dóm í máli nr. 50/2012, þar sem fjallað var um lánssamning, ekki ósvipaðan þeim sem hér á í hlut, þar sem annar sparisjóður átti hlut að máli. Staðfesti rétturinn þar með vísan til forsendna þá niðurstöðu héraðsdóms að um skuldbindingu í erlendum myntum væri að ræða en ekki í íslenskum krónum.

                Eins og háttar til í máli þessu er á forsíðu lánssamningsins milli stefnda og stefnanda Sigursteins frá 23. febrúar 2006 tilgreint að um sé að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum“. Þá er skuldbindingin einvörðungu tilgreind í svissneskum frönkum og japönskum jenum í lánssamningnum, ólíkt því sem á við um skuldbindingar þær sem voru til umfjöllunar í þeim dómum Hæstaréttar sem stefnandi vísar til.

                Í viðauka sem gerður var við lánssamninginn í desember 2007, þar sem stefnandi NK 8 ehf. tók við samningnum sem nýr skuldari, er efni lánssamningsins lýst þannig að hann sé „um lán upphaflega að fjárhæð CHF 241.000 og JPY 21.900.000“. Tekið er fram að lánið sé nú ,,að eftirstöðvum kr. 22.357.652 miðað við 15. desember 2007“. Undir skjalið ritar stefnandi Sigurgeir fyrir sjálfs síns hönd sem fyrri skuldara og einnig fyrir hönd nýs skuldara, stefnanda NK 8 ehf, sem stjórnarmaður félagsins. Ekkert í skjali þessu gefur til kynna að breytingar séu gerðar á lánssamningnum að öðru leyti en því að skipt sé um skuldara.

                Í viðaukum sem gerðir voru við lánssamninginn 5. febrúar og 5. ágúst 2009 er sömuleiðis tilgreint að lánssamningurinn sé „um lán upphaflega að fjárhæð CHF 241.000 og JPY 21.900.000“ og hvergi getið um aðrar myntir í lýsingu á lánssamningnum.

                Efni lánssamningsins styður að öðru leyti að um erlent lán sé að ræða, enda ber það skv. 3. gr. samningsins svokallaða LIBOR/EURIBOR-vexti, eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu vaxtaálagi.

                Lánssamningurinn er hlutlaus um það hvort lánið sé endurgreitt í „viðkomandi mynt“ inn á gjaldeyrisreikninga sem lánveitandi tilgreini eða hvort greitt sé í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi lánveitanda á gjalddaga, sbr. 2. gr. samningsins. Síðar í samningnum er kveðið á um heimild lánveitanda til að skuldfæra viðskiptareikning lántaka er greiðslur teljist fallnar í gjalddaga. Verður að skýra ákvæði 2. tölul. 11. gr. lánssamningsins um að það teljist vanefnd lántaka á samningnum ef hann greiði ítrekað ekki á réttum tíma og „ekki í réttum gjaldmiðli“ í ljósi 2. gr. samningsins og er því haldlaus sú málssástæða stefnenda að athyglisvert sé að stefndi hafi aldrei talið um vanefnd af hálfu stefnenda að ræða, þótt ávallt væri greitt af samningnum í íslenskum krónum.   

                Eins og rakið er í kafla um málsástæður stefnenda hér að framan er af þeirra hálfu byggt á því að tiltekin ákvæði lánssamningsins og viðauka við hann bendi til þess að um ólögmætt gengistryggt lán sé að ræða. Að áliti dómsins geta þau ákvæði ekki hnekkt því sem rakið hefur verið hér að framan um skýra tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í erlendum myntum í lánssamningum sjálfum og viðaukum við hann. Sama á við um þær málsástæður stefnenda sem lúta að framkvæmd samningsins og því að aðilar hafi efnt meginskyldur sínar samkvæmt samningnum í íslenskum krónum, en fyrir liggur að lánið var greitt út í íslenskum krónum að ósk stefnanda Sigursteins sjálfs. Þá verður af dómi Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 dregin sú ályktun að þegar tilgreining lánsins í erlendum myntum er eins skýr og ótvíræð og hér um ræðir geti það að útgreiðsla og endurgreiðsla láns fari fram í íslenskum krónum ekki skipt máli.

                Framlagðar kaupkvittanir vegna útgreiðslu lánsins, greiðslutilkynningar og greiðslukvittanir styðja sömuleiðis að um lán í erlendum myntum sé að ræða, en í þessum skjölum eru fjárhæðir ýmist einungis tilgreindar í hinum erlendu myntum eða bæði í þeim og íslenskum krónum og gengisviðmiðs þá getið. Þá breytir engu að áliti dómsins þótt til tryggingar lánssamningum hafi að hálfu stefnanda Sigurgeirs verið lögð fram tryggingarbréf í íslenskum krónum, en þau bréf voru lögð fram til tryggingar öllum skuldum stefnanda við stefnda, og annað þeirra gefið út allnokkru áður en lánssamningurinn var undirritaður. Tryggingarbréf sem lagt var fram af hálfu stefnanda NK 8 ehf. á árinu 2008 er aftur á móti bundið við tilgreindar fjárhæðir í svissneskum frönkum og japönskum jenum, sem styður að litið hafi verið svo á að um erlent lán væri að ræða. Stoð fyrir því er einnig að finna í ársreikningi stefnanda NK 8 ehf. fyrir árið 2008, þar sem m.a. eru tilgreindar langtímaskuldir félagsins í japönskum jenum og svissneskum frönkum.

                Óumdeilt er og tekið fram í lánssamningnum að lánið var ætlað til endurfjármögnunar skulda lántaka hjá lánveitenda, sem fyrir liggur að voru í íslenskum krónum. Stefnendur hafa ekki skýrt hvers vegna ekki voru fyrr settar fram athugasemdir við tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í svissneskum frönkum og japönskum jenum ef ætlun þeirra var að gangast undir skuldbindingu í íslenskum krónum en ekki í hinum erlendu gjaldmiðlum. 

                Með vísan til framanritaðs og til dóma Hæstaréttar í m.a. málum nr. 520/2011, 524/2011 og 50/2012 verður ekki fallist á það með stefnendum að þeir dómar réttarins sem vísað er til af þeirra hálfu í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011 hafi fordæmisgildi í máli þessu. Verður að telja að í lánssamningi þeim sem hér um ræðir felist skuldbinding í erlendum myntum, sem ekki sé í andstöðu við reglur laga nr. 38/2001, sbr. dóma réttarins í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Samkvæmt öllu framanrituðu verður að hafna aðalkröfu stefnenda um að viðurkennt verði að lánssamningurinn, dags. 23. febrúar 2006, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum, sem verðtryggður sé þannig að fjárhæð samningsins sé bundin við gengi svissnesks franka og japansks jens, í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001

                Varakrafa stefnenda lýtur að því að stefnda verði gert að standa við aðalskyldu lánssamningsins frá 23. febrúar 2006, þannig að stefndi greiði stefnanda Sigursteini 228.950 svissneska franka og 20.805.000 japönsk jen inn á reikninga í hans eigu gegn því að stefnandi Sigursteinn endurgreiði Sparisjóði Norðfjarðar 24.514.790 krónur sem greiddar voru inn á reikning hans þann 27. sama mánaðar.

                Framangreind fjárhæð, 24.514.790 krónur, samanstendur af lánsfjárhæðinni, 241.000 svissneskum frönskum og 21.900.000 japönskum jenum, miðað við sölugengi þessara mynta umræddan dag, að frádregnum lántökugjöldum. Að ósk stefnanda sjálfs, samkvæmt skriflegri beiðni hans um útgreiðslu lánsins í viðauka við lánssamninginn, var lánsfjárhæðin greidd inn á íslenskan tékkareikning hans og þar með í íslenskum krónum. Hefur stefndi því efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum og ber þegar af þessum ástæðum að sýkna stefnda af varakröfu stefnenda.

                Með hliðsjón af úrslitum málsins verða stefnendur dæmdir in solidum til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og í dómsorði greinir.

                Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

                Stefndi, Sparisjóður Norðfjarðar, er sýkn af kröfum stefnenda, NK 8 ehf. og Sigursteins Sigurðssonar, í máli þessu.

                Stefnendur greiði stefnda in solidum 376.500 krónur í málskostnað.