Hæstiréttur íslands

Mál nr. 670/2017

Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) og Skaftárhreppur (Anton B. Markússon hrl.)
gegn
Veiðifélagi Grenlækjar og Geilum ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var beiðni V og G ehf. um dómkvaðningu matsmanna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 20. og 24. október 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 24. síðarnefnda daginn. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2017 þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreindri beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, íslenska ríkið og Skaftárhreppur, greiði óskipt varnaraðilum, Veiðifélagi Grenlækjar og Geilum ehf., hvorum fyrir sig, 175.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

               

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2017.

Með beiðni, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 1. september sl., hafa sóknaraðilar, Veiðifélag Grenlækjar og Geilar ehf., óskað eftir því, með vísan til 1. mgr. 76. gr. og 73. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til að svara tilteknum spurningum sem nánar eru tilgreindar í beiðninni. Varnaraðilar eru íslenska ríkið og Skaftárhreppur.

Við fyrirtöku málsins 6. október sl. mótmæltu báðir varnaraðilar fram kominni beiðni og lögðu fram bókanir þar að lútandi. Munnlegur málflutningur um kröfur aðila fór fram 11. október sl.

Sóknaraðilar óskar eftir því að hinir dómkvöddu matsmenn svari eftirfarandi spurningum eins og þær eru fram settar í beiðni sóknaraðila:

  1. Telja hinir dómkvöddu matsmenn að rennsli vatns í Grenlæk hafi minnkað á undanförnum árum, þ.e. frá því að rennslismælingar hófust árið 1993. Þá er einnig óskað svara við því hvort unnt sé að segja til um hvort rennslið hafi minnkað fyrir það tímamark, þ.e. eftir 1983 og ef svo er – á að giska - hvenær og – á að giska – hversu mikið tók vatnsrennslið að minnka að meðaltali frá 1983 til 1993?

  2. Telji hinir dómkvöddu matsmenn að vatnsrennslið í Grenlæk hafi minnkað á tímabilinu frá 1993 og eftir atvikum frá 1983, þá er spurt hvort vatnsrennslið hafi verið breytilegt eftir tímabilum, t.d. eftir árið 2000 þegar rörum mun hafa verið fjölgað í þrjú við munna Árkvísla?

  3. Ef hinir dómkvöddu matsmenn komast að þeirri niðurstöðu að rennsli vatns í Grenlæk hafi farið minnkandi frá árinu 1992 og eftir atvikum einnig frá 1983, en þó hugsanlega breytilega eftir tímabilum, þá er spurt hvort þeir telji að rennslisminnkunin í Grenlæk verði rakin til aðgerða matsþolanna eða aðila á þeirra vegum í grennd við Grenlæk að öllu leyti eða að hluta?

  4. Ef hinir dómkvöddu matsmenn komast að þeirri niðurstöðu að minnkandi vatnsrennsli í Grenlæk verði aðeins að hluta rakið til aðgerða opinberra aðila í grennd við Grenlæk, þá er óskað mats þeirra á því að hve miklum hluta rennslisminnkunin verði rakin til aðgerða opinberra aðila eða aðila á þeirra vegum og að hve miklu leyti til annarra orsakaþátta.

  5. Telji hinir dómkvöddu matsmenn að rennsli hafi minnkað í Grenlæk er spurt hvort vatnsminnkunin verði að einhverju leyti og þá að hve miklu leyti rakin til

  1. lokunar Árkvísla (Brests) í Eldhrauni að minnsta kosti að hluta með stíflugarði, sem matsbeiðendur telja að hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið og/eða

  2. stöðvunar vatnsrennslis með stíflugarði ofan við þjóðveg 1 austan Árkvísla, sem matsbeiðendur telja að hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið og dregið úr rennsli í grunnvatn í hrauninu.

  1. Spurt er hvort hinir dómkvöddu matsmenn telji að dregið hafi úr rennsli grunnvatns til Grenlækjar ekki síst til efstu linda Grenlækjar vegna þess að minna vatn renni í Árkvíslar.

  2. Spurt er hvort hinir dómkvöddu matsmenn telji að dregið hafi úr rennsli grunnvatns til Grenlækjar vegna stíflugarðsins austan Brests norðarn þjóðvegar 1.

  3. Telja hinir dómkvöddu matsmenn að minnkun vatnsrennslis í Grenlæk hafi haft neikvæð áhrif á lífríkið í Grenlæk og telji þeir svo vera, er spurt í hverju hin neikvæðu áhrif eru fólgin.

  4. Telja matsmenn að urriðastofninn og bleikjustofninn í Grenlæk hafi minnkað af völdum minnkandi vatnsrennslis i Grenlæk á undanförnum árum, þ.e. frá árinu 1993 eða eftir atvikum frá árinu 1983.

  5. Verði niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna sú, að vatnsrennsli í Grenlæk hafi minnkað af völdum aðgerða opinberra aðila eða aðila á þeirra vegum, sem lýst er í matslið V hér að framan, og fiskistofnar og þar með veiði í Grenlæk hafi minnkað, þá er spurt hversu mikil minnkun vatnsrennslis í Grenlæk hefur verið og hvort minnkun þessi verði að öllu leyti rakin til aðgerða opinberra aðila, sbr. matslið V eða hvort hún verði að hluta rakin til greindra aðgerða og þá að hve miklu leyti.

  6. Verði niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna sú, að minnkandi vatnsrennsli til Grenlækjar, ekki síst til efstu linda Grenlækjar, hafi minnkað af völdum aðgerða opinberra aðila eða aðila á þeirra vegum þá er spurt hvort rennslisminnkunin hafi haft skaðleg áhrif á uppvöxt seiða í Grenlæk og ef svo telst vera, þá er spurt í hverju hin skaðlegu áhrif eru fólgin.

  7. Þá er þess óskað að matsmenn, telji þeir að minnkandi vatnsrennsli í Grenlæk af völdum aðgerða opinberra aðila hafi haft áhrif á lífríki Grenlækjar og leitt til minnkandi veiði urriða og bleikju, leggi mat á hvort matsbeiðendur hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna minnkandi veiði í ánni.

    Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar sameiginlega úr hendi varnaraðila. Varnaraðilar krefjast þess báðir að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar að mati dómsins.

    Málsatvik

    Mál þetta á rætur sínar að rekja til dómsmáls sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem mál nr. E-4971/2014. Í málinu gerðu sóknaraðilar kröfu um að viðurkennd yrði skaðabótaskylda varnaraðila beggja vegna verklegra framkvæmda við þjóðveg 1 austan Árkvísla. Nánar tiltekið var kröfugerð sóknaraðila í héraði sú gagnvart stefnda, íslenska ríkinu, að viðurkennd yrði bótaskylda þess vegna lokunar Árkvíslar (Brests) með stíflugarði og vegna stöðvunar vatnsrennslis með stíflugarði ofan við þjóðveg 1 austan Árkvísla, sem hvort tveggja hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Þá var gerð sú krafa gagnvart stefnda Skaftárhreppi að viðurkennd yrði bótaskylda sveitarfélagsins vegna lokunar Árkvíslar (Brests) í Landbroti með stíflugarði sem hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu 11. apríl 2017 voru varnaraðilar sýknaðir af kröfum sóknaraðila.

    Sóknaraðilar málsins hafa nú áfrýjað héraðsdóminum og er málið rekið fyrir Hæstarétti undir númerinu 444/2017. Mun áfrýjunarstefna hafa verið endurútgefin 3. október 2017 á grundvelli 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og mun eiga að þingfesta málið fyrir Hæstarétti 15. nóvember nk.. Hyggjast sóknaraðilar með framkominni beiðni afla matsgerðar til að leggja fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

    II

    Málsástæður og lagarök sóknaraðila

    Í matsbeiðni sóknaraðila kemur fram að tilgangur matsbeiðni og öflunar mats dómkvaddra manna sé að sýna fram á að minnkandi vatnsrennsli í Grenlæk stafi af aðgerðum matsþolanna, varnaraðila máls þessa, eða aðila á þeirra vegum. Að áliti sóknaraðila hafi aðgerðir þessar leitt til vatnsþurrðar í Grenlæk með þar af leiðandi neikvæðum áhrifum á lífríki í ánni og til verulega skertrar fiskveiði með stórfelldu fjárhagslegu tjóni fyrir sóknaraðila. Héraðsdómur hafi ekki talið unnt að byggja dóm um bótaskyldu varnaraðila á framlögðum sönnunargögnum, þ.m.t. álitsgerð sérfróðra mann, sem ekki höfðu verið dómkvaddir.

    Hvað varði lokun Árkvísla í Eldhrauni taka sóknaraðilar fram að garð sem loki fyrir rennsli úr Árkvíslum (eða breytti rennsli vatnsins) hafi Vegagerð ríkisins líklega byggt árið 1992. Garður hafi þá verið með einu tveggja metra víðu gegnumrennslisröri. Öðru jafnstóru hafi verið bætt við árið 1997. Sóknaraðilar telja að samkvæmt rennslismælingum hafi garðurinn frá 1992 haft í för með sér að rennsli í Skaftá hafi aukist um 12-15 rúmmetra á sekúndu mælt við Kirkjubæjarklaustur og rennsli vatns á Eldhraunið minnkað samsvarandi. Garður þessi hafi verið fjarlægður árið 1998 en reistur að nýju árið 2000 af Vegagerðinni og varnaraðilanum Skaftárhreppi en ágreiningur sé með varnaraðilum um hlutdeild hreppsins í framkvæmdinni. Er garðurinn hafi verið reistur að nýju árið 2000 hafi fyrirætlan opinberra aðila verið sú að um tilraunaverkefni væri að ræða til fjögurra ára og komust umhverfisyfirvöld að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að fara fram umhverfismat vegna hins skamma tíma. Á tilraunatímabilinu skyldu fara fram rannsóknir á vegum opinberra aðila á vatnafari svæðisins, en lítið eða ekkert hafi orðið úr þeim áformum. Á garðinum hafi verið þrjú tveggja metra víð rör og skyldi eitt þeirra vera lokað yfir sumartímann. Sóknaraðilar telja að á þessum tíma hafi Vegagerðin og Landgræðslan minnkað rennsli vatns á Eldhraunið ef miðað er við meðalrennsli áranna fyrir framkvæmdir í Árkvíslum árið 1992 og þá sérstaklega ef miðað er við meðalrennsli fyrir 1983, en veiðirétthafar hafi viljað auka það. Vatn hafi síðan runnið um tvö röranna og á stundum um hið þriðja. Þess skuli getið að þrátt fyrir fyrri afstöðu umhverfisyfirvalda um að ekki væri þörf á umhverfismati vegna hinnar fjögurra ára tilraunar þá breyttu lok tilraunarinnar engu um afstöðu þeirra enda þótt aðstæður væru að mestu hinar sömu að loknu tilraunatímabilinu. Ekki verði séð að veitt hafi verið formlegt leyfi til að láta garðinn standa áfram að loknu tilraunatímabilinu.

    Hvað varði garð við þjóðveg 1 taka sóknaraðilar fram að talið sé að á árunum 1984 til 1985 hafi Vegagerðin reist varnargarð með fram þjóðvegi 1 frá Bresti, þar sem Árkvíslar renni undir brúna, austur að Litla-Bresti. Síðar eða um árið 1999 hafi varnargarður þessi verið lengdur í austur samhliða því að einu röri hafi verið bætt við í ræsi „fyrir Litla-Brest“. Telji sóknaraðilar að garður þessi hindri rennsli vatnsins suður í Eldhraunið og hafi þannig neikvæð áhrif á grunnvatnið í hrauninu og þar með á vatnsrennsli í Grenlæk með þeim afleiðingum að lífríkið þar skaðist og veiði urriða og bleikju dragist verulega saman.

    Sóknaraðilar hafna öllum sjónarmiðum varnaraðila um að umbeðið mat sé andstætt reglum laga nr. 91/1991. Ljóst sé af ákvæðum laganna að sóknaraðilar hafi heimild til að afla gagna á milli dómstiga. Sóknaraðilar telja ljóst að á þau atriði sem óskað sé mats um reyni í efnislegum ágreiningi aðila sem nú hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þá hafi öflun mats engin áhrif á meðferð málsins fyrir Hæstarétti og tímafresti í því sambandi. Matsbeiðnin geti því ekki verið of seint fram komin. Tíminn sé nægur og ekki sé unnt að hafna beiðninni með vísan til málshraða.

    Þá sé engan veginn hægt að fallast á að umbeðið mat sé á einhvern hátt til­gangs­laust með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Um sé að ræða viður­kenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna tjóns sem sóknaraðilar telja sig hafa orðið fyrir vegna athafna varnaraðila eða aðila á þeirra vegum og ætlunin sé að sanna það tjón. Ekki geti því verið um það að ræða að gagnið skipti ekki máli eða sé ber­sýni­lega tilgangslaust til sönnunar enda hafi málið fallið á því í héraði þar sem ekki hafi tekist að færa sönnur á málstað sóknaraðila. Athugasemdir varnaraðila lúti að efnis­atriðum máls sem kom í hlut Hæstaréttar að taka afstöðu til en hafi ekkert með heimild til mats að gera enda sé það á áhættu sóknaraðila sjálfra.

    Þá benda sóknaraðilar á að varnaraðili muni eiga þess kost að koma að at­huga­semdum sínum á matsfundum svo sem lög nr. 91/1991 geri ráð fyrir. Varnaraðilar hafi það svo í hendi sér að afla yfirmats telji þeir þörf á því þegar þar að kemur.

    III

    Málsástæður og lagarök varnaraðilans íslenska ríkisins

    Varnaraðilinn krefst þess að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Að mati varnaraðilans virðist tilgangur matsbeiðninnar vera sá að bæta úr ágöllum á rekstri málsins í héraði. Telur varnaraðilinn ljóst að ekki verði bætt úr þessu með öflun matsgerðar milli dómstiga.

    Varnaraðilinn tekur fram að áfrýjunarstefna hafi upphaflega verið gefin út undir lok áfrýjunarfrests eða 10. júlí sl. Frestur varnaraðila til að tilkynna um hvort tekið yrði til varna var ákveðinn 6. september sl. sem jafnframt var síðasti dagur fyrir sókn­araðila til að þingfesta málið fyrir Hæstarétti sbr. 1. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðilar munu hafa tilkynnt Hæstarétti innan frestsins að þeir hefðu í hyggju að taka til varna í málinu. Með bréfi Hæstaréttar 7. september sl. mun þeim hafa verið tilkynnt að þar sem málið hefði ekki verið þingfest yrði það fellt niður með vísan til 157. gr. laga nr. 91/1991.

    Þá hafi varnaraðilanum borist tölvupóstur frá héraðsdómi 13. september sl. þess efnis að dómstólnum hefði borist matsbeiðni í málinu og spurt hvort aðilar vildu reyna að koma sér saman um óvilhalla og hæfa matsmenn. Varnaraðilanum hafi fyrst verið send umrædd matsbeiðni með tölvupósti 25. september sl. Áfrýjunarstefna hafi svo verið endurútgefin með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 og sé frestur sóknaraðila til þingfestingar málsins 15. nóvember nk. sem sé einnig sá tímafrestur sem varnaraðilar hafi til að tilkynna að þeir hyggist hafa uppi varnir í málinu.

    Varnaraðilinn kveður málsmeðferð héraðsdóms hafa tekið langan tíma og fjöl­mörg gögn hafa verið lögð þar fram. Þá hafi ítarlegar skýrslur verið gefnar fyrir hér­aðs­dómi. Héraðsdómur hafi lagt mat á gildi allra sönnunargagna en dómurinn hafi verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómendum. Ágreiningsefni málsins varði vatna­far Eldhrauns sem rannsakað hafi verið um áratugaskeið. Sóknaraðilar hafi ekki aflað mats dómkvaddra manna undir rekstri málsins í héraði þrátt fyrir áskorun varnar­aðilans í greinargerð sinni til héraðsdóms. Álitsgerð sem sóknaraðilar höfðu aflað ein­hliða og án samráðs við varnaraðila hafi dómurinn hafnað af þeim sökum og vegna þess að á henni hafi verið annmarkar sem dómurinn hafi sérstaklega tekið afstöðu til. Niðurstaðan hafi verið sú að álitsgerðin hefði lítið sem ekkert sönnunargildi.

    Þær spurningar sem fram komi í síðbúinni matsbeiðni séu þess eðlis að þær kalli á mjög umfangsmikla rannsókn sem gæti tekið langan tíma og mun lengri tíma en sem nemur þeim fresti sem ákveðinn hafi verið til þingfestingar málsins.

    Nánar vísar varnaraðilinn í fyrsta lagi til þess að beiðni sóknaraðila sé allt of seint fram komin. Sóknaraðilum hafi gefist kostur á að afla mats áður en málið var höfðað fyrir héraðsdómi eða undir rekstri þess þar en þeir hafi kosið að gera það ekki. Að mati varnaraðila séu ekki efni til að dómkveðja matsmenn nú eftir að hæsta­réttar­málið hafi verið fellt niður og áfrýjun byggð á heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Telur varnaraðilinn að hafna verði beiðninni með vísan til þessa og vísar til dóma­framkvæmdar Hæstaréttar þar að lútandi.

    Í öðru lagi bendir varnaraðilinn á að sérfróðir meðdómendur hafi dæmt málið með dómsformanni. Af augljósum ástæðum muni þeir ekki geta spurt matsmenn út í mats­gerðina svo sem eðlilegt væri. Með framgangi matsmáls væri því raskað máls­grund­velli, jafnræði aðila og málsforræði. Þá séu matsspurningar vandasamar og kalli á sjálfstæða, tímafreka og ítarlega rannsókn án þess að sérfróðir meðdómendur, sem aug­ljóslega hafi þurft að kalla til, geti spurt út í áformaða matsgerð. Vísar varnar­aðilinn þar um til dóms Hæstaréttar í máli nr. 377/2013.

    Í þriðja lagi kveður varnaraðilinn að spurningar í matsbeiðni séu leiðandi. Þá skorti á að tekin séu inn atriði sem máli gætu skipt svo sem áhrif annarra mannvirkja sem ekki sé deilt um, náttúrulegar orsakir, tímabil þau sem spurt sé um o.fl. Hæpið sé að byggja mat einvörðungu á þeim tímabilum sem sóknaraðilar leggi til. Varnaraðilar muni tæplega hafa raunhæf úrræði til að koma sjónarmiðum sínum að í svo flóknu mats­máli á þeim stutta tíma sem til stefnu sé, taka afstöðu til matsgerðar eða nýta úrræði til að afla annars mats eða yfirmats.

    Hvað varðar einstakar spurningar tekur varnaraðilinn fram að þær séu alltof almennt orðaðar og ekki nægilega skýrar. Þá séu þau tímabil sem þar séu nefnd ekki þau sömu og voru til úrlausnar í málinu er það lá fyrir héraðsdómi. Þá sé þar rætt um „opinbera aðila“ og „aðila á þeirra vegum“ án nánari útskýringa.

    Með vísan til alls þessa leggst varnaraðilinn gegn því að dómkvaddir verði matsmenn í samræmi við matsbeiðni og að henni verði hafnað.

    IV

    Málsástæður og lagarök varnaraðilans Skaftárhrepps

    Varnaraðilinn tekur undir allar málsástæður og öll sjónarmið varnaraðilans íslenska ríkisins en tekur eftirfarandi fram.

    Með umbeðnu mati sé ljóst að sóknaraðilar hyggist berja í þá bresti sem verið hafi á sönnunarfærslu þeirra í héraðsdómsmálinu nr. E-4971/2014. Tilgangur matsins sé sá að sýna fram á að minnkandi vatnsrennsli í Grenlæk stafi af aðgerðum varnar­aðila eða aðila á þeirra vegum. Varnaraðilinn telur útilokað að matsgerð komist að í málinu á þessu stigi.

    Sóknaraðili hafi höfðað dómsmál á hendur varnaraðilum og krafist þess að viður­kennd yrði bótaskylda þeirra vegna lokunar Árkvíslar í Landbroti með stíflugarði sem þeir töldu að heft hefði náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Aðal­sönn­un­ar­gagnið í málatilbúnaði sóknaraðila hafi verið skýrsla þeirra Stefáns Óla Steingríms­sonar fiskavistfræðings og Vífils Oddsonar verkfræðings. Þeirrar skýrslu hafi sókn­ar­aðilar aflað einhliða og án nokkurs samráðs við varnaraðila. Fyrir vikið hafi sönn­un­ar­gildi skjalsins verið veikt.

    Þrátt fyrir þennan annmarka sem augljóslega hafi verið á sönnunarfærslu sókn­ar­aðila hafi varnir varnaraðila miðast við að hrekja þær forsendur sem niðurstaða skýrsl­unnar grundvallaðist á. Nú hafi sóknaraðilar lagt fram afar ítarlega og um­fangs­mikla matsbeiðni sem telji alls 12 matsspurningar. Að mati varnaraðilans sé vandséð að hvaða notum svör sem byggist á „giski matsmanna“ koma, hvað þá heldur að þau mæti þeim sönnunarkröfum sem ætlast verði til af sóknaraðilum. Þá hafi sóknaraðilar fært tímabilið allt aftur til ársins 1983 eða fyrr. Það breyti að sjálfsögðu miklu fyrir mats­þola sem miðað hafi varnir sínar við tímabilið 2000 til 2004 í samræmi við mála­tilbúnað sóknaraðila í héraði. Síðast en ekki síst þá telji varnaraðilinn einboðið að öflun matsgerðar á þessu stigi máls sé til þess fallin að raska málsgrundvellinum sem varnaraðilinn hafi lagt í upphafi að vörnum í málinu og málið í héraði hafi snúist um.

    Með vísan til framangreinds telur varnaraðilinn að hafna beri framkominni matsbeiðni.

    V

    Niðurstaða

    Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2017 í máli nr. E-4971/2014 voru varn­araðilar sýknaðir af kröfu sóknaraðila um viðurkenningu bótaskyldu vegna tiltekinna fram­kvæmda á vatnasviði Skaftár. Laut ágreiningur aðila í málinu að því hvort tiltekin mann­virki á þessu svæði hafi haft þau áhrif á grunnvatnsborð í og undir Eldhrauni að dregið hafi úr vatnsrennsli í Grenlæk, sem rennur undan hrauninu, þannig að veiði sjó­birtings í vatnsfallinu hafi minnkað. Beindust dómkröfur sóknaraðila annars vegar að mann­virki við útfall Árkvísla úr Skaftá og hins vegar að varnargarði sem liggur sam­hliða þjóðvegi 1 að norðanverðu frá brúnni yfir Brest og austur fyrir ræsi undir þjóð­veginn þar sem heitir Litli-Brestur. Að mati héraðsdóms þóttu sóknaraðilar ekki hafa sýnt fram á orsakatengsl milli tiltekinna mannvirkja við Skaftá og í Eldhrauni og auk­innar vatnsþurrðar í Grenlæk. Sóknaraðilar hafa nú áfrýjað málinu til Hæstaréttar og mun það verða þingfest þar 15. nóvember nk. en samkvæmt 1. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 er það einnig sá frestur sem varnaraðilar hafa til að tilkynna varnir. Sókn­ar­aðilar hafa nú með beiðni til héraðsdóms óskað eftir dómkvaðningu matsmanna í því skyni að afla matsgerðar til að renna frekari stoðum undir kröfur sínar við meðferð máls­ins fyrir Hæstarétti. Er málið rekið hér fyrir dóminum eftir ákvæðum XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

    Í XI. kafla laga nr. 91/1991 er að finna heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þeim þar sem mál er rekið. Í 73.-76. gr. eru skilyrði og réttarfarsreglur um mál samkvæmt XI. kafla nánar tilgreind. Samkvæmt 76. gr. gildir ákvæði 75. gr., og þar með ákvæði kaflans í heild, þegar gagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðri dómi. Þá er í 1. mgr. 75. gr. vísað til þess að gagnaöflun fari eftir ákvæðum II. og VII.-X. kafla laganna.

    Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila svo að umbeðin matsgerð sé þeim nauð­synleg til þess að þeir geti, við áfrýjun héraðsdóms, fært frekari sönnur á or­saka­tengsl tiltekinna framkvæmda á umræddu landsvæði og afleiðingar þeirra á vatns­rennsli á svæðinu. Þetta sé þeim heimilt samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 og sé það almennt hvorki á valdi dómara né gagnaðila að meina þeim um slíka sönn­un­ar­færslu. Þá eigi það ekki við í málinu að tafir verði á rekstri þess fyrir Hæstarétti enda hafi málið ekki enn verið þingfest og frestir til greinargerðaskila og gagnaöflunar ókomnir. Varnaraðilar byggja á því umbeðið mat sé alltof seint fram komið, það raski grund­velli málsins, jafnræði aðila og málsforræði. Þá séu spurningarnar óljósar og jafn­vel leiðandi auk þess sem það fari í bága við reglur laga nr. 91/1991 um milliliða­lausa sönnunarfærslu og málshraða að fram fari mat á þessu stigi málsins. Sókn­ar­aðilar hafi átt þess kost, undir rekstri málsins í héraði, að afla mats dómkvaddra mats­manna. Það hafi þeir kosið að gera ekki og verði að bera hallann af því.

    Dómurinn tekur í upphafi fram að ekki verði annað séð en að fram komin beiðni sókn­araðila sé í samræmi við 1.mgr. 61. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., laga nr. 91/1991 hvað varðar efni og framsetningu.

    Þá tekur dómurinn fram að aðili að einkamáli á að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á máli sínu til stuðnings. Það er því almennt hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum. Heimildir dómara til að neita aðila um sönnunarfærslu eru þannig reistar á und­an­tekn­ingar­reglum sem takmarka forræði aðilanna á máli og ber því að beita þeim af var­færni. Af þessum sökum ber dómara almennt að verða við beiðni málsaðila um dóm­kvaðningu matsmanna nema formskilyrði um efni og framsetningu matsbeiðni séu ekki uppfyllt, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna eða að matsbeiðnin lúti einvörðungu að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 61. gr.

    Þá tekur dómurinn einnig fram að samkvæmt 158. og. 159. gr. laga nr. 91/1991 er aðilum játaður réttur til að koma að nýjum gögnum fyrir Hæstarétti og jafnframt að aflað verði gagna eftir áfrýjun máls og greinargerðaskil að því gefnu að þau séu lögð fram innan gagnaöflunarfrests, sbr. 1. mgr. 160. gr. laganna. Þá er sérstaklega gert ráð fyrir því í 1. mgr. 76. gr. sömu laga, sbr. 75. gr. og IX. kafla þeirra að aðilar geti aflað mats­gerðar milli dómstiga.

    Aðilar hafa því almennt forræði á því hvaða sönnunargagna þeir afla máli sínu til stuðnings. Verður ekki séð að ákvæði 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 komi í veg fyrir að umrædds mats verði aflað. Jafnframt verður að telja, eins og mál þetta liggur fyrir dóminum, að ekkert verði fullyrt um að bersýnilegt sé að umbeðin matsgerð sé þarf­laus, skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, en af notagildi hennar verða sóknaraðilar að bera áhættu samhliða kostnaði við öflun hennar, sbr. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991.

    Þá telur dómurinn það ekki næga ástæðu til að hafna beiðni sóknaraðila að um flókið og umfangsmikið mat sé að ræða og verður ekki sé að slík sjónarmið geti ráðið úr­slitum um hvort fallist verði á dómkvaðningu matsmanna eður ei. Verður ekki talið að unnt sé að fullyrða að það raski grundvelli málsins að aflað verði mats á þessu stigi máls­ins eins og varnaraðilar hafa haldið fram. Telur dómurinn það raunar ekki á for­ræði sínu, á þessu stigi málsins, að taka afstöðu til þess hvort réttaráhrif þess að mats­gerðar var ekki aflað undir rekstri málsins í héraði heldur á milli dómstiga hafi þau áhrif sem raunin varð í máli nr. 377/2013 fyrir Hæstarétti en varnaraðilar hafa einnig vísað til þess dóms máli sínu til stuðnings. Dómurinn telur því að eins og hér standi á sé ekki unnt að takmarka rétt sóknaraðila til að afla sönnunar um þau atriði sem beiðni þeirra lýtur að þótt matsgerðarinnar hefði verið unnt að afla bæði áður en málið var höfðað og undir rekstri þess í héraði. Dómurinn bendir á að það er að lokum Hæsta­réttar að taka afstöðu til þýðingar og sönnunargildis matsgerðarinnar við efnislega úr­lausn á deilumáli aðila og hvaða réttaráhrif það hafi að matsgerðar hafi ekki verið aflað undir rekstri málsins í héraði.

    Þá fellst dómurinn ekki á að aðstæður séu með þeim hætti er greinir í dómum Hæsta­réttar í málum nr. 104/2015 og nr. 558/2011 sem varnaraðilar hafa vísað til máli sínu til stuðnings. Þannig liggur ekkert fyrir um að öflun matsgerðarinnar muni fyrir­sjá­anlega valda töfum á meðferð þess fyrir Hæstarétti. Málið hefur ekki enn verið þing­fest í Hæstarétti og frestir hvað varðar framlagningu greinargerða og sam­eig­in­legur gagnaöflunarfrestur aðila liggur ekki fyrir. Sjónarmið um málshraða koma því varn­araðilum ekki að haldi hvað þetta varðar.

    Hvað einstakar spurningar varðar tekur dómurinn fram að sóknaraðilar verða að bera hallann af óljósum spurningum eða að þar séu lagðar til grundvallar forsendur sem ekki fá staðist eða eru aðrar en fyrir héraðsdómi. Á enn við um þetta það sama og áður sagði að áhættan af því að matsgerðin komi sóknaraðilum að notum hvílir á þeirra herðum og það er Hæstaréttar að taka afstöðu til sönnunargildis hennar þegar þar að kemur. Verður sóknaraðilum því ekki meinað að afla matsgerðar um þær spurn­ingar sem settar eru fram í matsbeiðni.

    Með vísan til framangreinds þykja lög nr. 91/1991 þannig ekki standa því í vegi að dómkvaðning fari fram og aflað verði matsgerðar í samræmi við beiðni sóknaraðila þar um. Því verður fallist á kröfu þeirra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

    Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður varnaraðilum gert að greiða sóknar­aðilum málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

    Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 6. október sl.

    Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

    Fallist er á beiðni sóknaraðila, Veiðifélags Grenlækjar og Geila ehf., um dóm­kvaðningu matsmanna samkvæmt framlagðri matsbeiðni á dómskjali nr. 1.

    Varnaraðilar greiði sóknaraðilum sameiginlega 250.000 krónur í málskostnað.