Hæstiréttur íslands
Mál nr. 37/2012
Lykilorð
- Kærumál
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
- Evrópska efnahagssvæðið
|
|
Þriðjudaginn 24. janúar 2012. |
|
Nr. 37/2012.
|
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (Skúli Bjarnason hrl.) gegn HOB-vínum ehf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. Evrópska efnahagssvæðið.
Á kærði úrskurð héraðsdóms þar sem ákveðið var að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál H ehf. á hendur Á. Hæstiréttur féllst á að nægilega væri fram komið í málinu að 11. og 13. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gætu haft þýðingu þegar leyst yrði úr kröfum H ehf. á hendur V. Voru því fimm nánar tilgreindar spurningar lagðar fyrir EFTA-dómstólinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2011, þar sem héraðsdómari ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál það er varnaraðili rekur á hendur sóknaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram er varnaraðili íslenskt fyrirtæki sem hefur með höndum innflutning áfengis til Íslands, meðal annars frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sóknaraðili fer á hinn bóginn með einkaleyfi til smásölu á áfengi á Íslandi, sbr. 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998.
Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að á fyrri hluta árs 2010 synjaði sóknaraðili ósk varnaraðila um að taka til reynslusölu þrjá áfenga cider-drykki sem varnaraðili flytur inn. Um er að ræða drykkina Tempt 2, Tempt 7 og Tempt 9 sem allir eru í áldósum, 4,5% að áfengisstyrkleika, framleiddir í Danmörku og löglega markaðssettir þar. Ágreiningslaust er að drykkirnir eru framleiðsluvörur sem falla undir gildissvið II. hluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins). Synjun sóknaraðila byggðist á því að umbúðir drykkjanna samræmdust ekki vöruvalsreglum hans nr. 631/2009, eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði, en þær reglur voru settar af sóknaraðila og staðfestar af fjármálaráðherra, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 883/2005 um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Sú reglugerð var sett með heimild í lögum nr. 63/1969 um verslun með áfengi og tóbak. Reglugerð nr. 883/2005 hefur verið leyst af hólmi með reglugerð nr. 756/2011 um sama efni, sbr. 16. gr. laga nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak.
Þá liggur og fyrir samkvæmt gögnum málsins að sóknaraðili setti um svipað leyti það skilyrði fyrir að taka í sölu sex aðra áfenga drykki sem varnaraðili flytur inn, að umbúðir þeirra drykkja skyldu merktar sérstaklega með límmiða þar sem skýrt kæmu fram orðin „áfengur drykkur“, en slík merking er ekki á upprunalegum umbúðum drykkjanna. Annars vegar eru tveir drykkir sem framleiddir eru á Bretlandi og löglega markaðssettir þar á glerflöskum, það er drykkirnir Caribbean Kick og Diabolo Ice, en áfengisstyrkleiki þeirra er 4%. Hins vegar er um að ræða fjóra drykki sem framleiddir eru á Spáni og löglega markaðssettir þar án slíkrar merkingar. Virðist ágreiningslaust með málsaðilum að tveir þessara drykkja, það er drykkurinn Sangría Siesta sem er á fernu og drykkurinn Don Simon Sangría sem er á plastflösku, falli undir vöruhugtak II. hluta EES-samningsins. Hinir tveir drykkirnir eru rauðvínstegundin Tinto de Verano Don Simon og hvítvínstegundin Blanco de Verano don Simon, en þessir drykkir sem eru að áfengisstyrkleika 3,9% og 4,5% eru báðir markaðssettir á plastflöskum. Ágreiningslaust er að tveir síðastnefndu drykkirnir falla ekki undir vöruhugtak II. hluta EES-samningsins.
II
Af gögnum málsins má ráða að ákvarðanir sóknaraðila sem lýst er í kafla I hér að framan hafa það í för með sér annars vegar, að varnaraðili á þess ekki kost að bjóða fyrrnefnda þrjá áfenga cider-drykki til sölu í áfengisverslunum sóknaraðila hér á landi, nema því aðeins að skipt sé um umbúðir eða þeim breytt. Hins vegar leiðir það af ákvörðun sóknaraðila, að varnaraðili getur með sama hætti ekki boðið til sölu sex aðrar vörutegundir í verslunum sóknaraðila, nema því aðeins að auðkenna vörurnar sérstaklega í samræmi við kröfur sóknaraðila og umfram það sem fram kemur á upprunalegum umbúðum þeirra. Af þessum sex vörutegundum virðast fjórar falla undir gildissvið EES-samningsins eins og áður segir.
Í málatilbúnaði sínum heldur varnaraðili því meðal annars fram, að framangreind afstaða sóknaraðila sé andstæð EES-samningnum sem samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hefur lagagildi hér á landi. Leitar varnaraðili í málinu ógildingar á fyrrgreindum synjunum og krefst skaðabóta vegna meints tjóns af þeirra völdum og beinir kröfum sínum að sóknaraðila. Er á því byggt af hálfu varnaraðila að synjun sóknaraðila feli í báðum tilvikum í sér tæknilega viðskiptahindrun og þar með ráðstöfun sem hafi áhrif samsvarandi magntakmörkunum, en slíkar ráðstafanir séu bannaðar samkvæmt 11. gr. EES-samningsins. Verða þær að mati varnaraðila í hvorugu tilvikinu réttlættar með vísan til 13. gr. EES-samningsins.
Að virtu því er að framan greinir en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á þá niðurstöðu hans að nægilega sé fram komið í málinu, að hin tilvitnuðu ákvæði EES-samningsins geti haft þýðingu þegar leyst er úr kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila og þar með á úrslit málsins. Samkvæmt þessu verður ekki haggað því mati héraðsdómara að næg efni séu til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu um þann þátt þess sem tengist skýringu og túlkun EES-samningsins. Verður þeim spurningum sem vísað er til EFTA-dómstólsins hagað á þann veg sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1. Fer það í bága við 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef ríkisfyrirtæki, sem hefur einkarétt til smásölu áfengis í samningsríki, er heimilt á grundvelli laga eða stjórnvaldsfyrirmæla að synja að taka í sölu áfengi, sem er löglega framleitt og markaðssett í öðru samningsríki, á þeirri forsendu að umbúðir og áletranir vörunnar feli í sér gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar eða gefi til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu, en skírskoti ekki einungis til vörunnar, gerðar hennar eða eiginleika?
2. Fer það í bága við 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef samningsríki setur í lög eða stjórnvaldsfyrirmæli reglur er leiða til þess, að á umbúðum áfengra drykkja skuli greinilega koma fram að um áfengi sé að ræða, og að ríkiseinkasala geti synjað að taka slíka vöru til sölu ef umbúðir vörunnar fullnægja ekki þeim kröfum?
3. Skiptir máli þegar fyrstu og annarri spurningu að framan er svarað, hvort lögin eða stjórnvaldsfyrirmælin ná jafnt til innlendra og erlendra vörutegunda?
4. Ef talið er að fyrirkomulag á borð við það sem lýst er í fyrstu og/eða annarri spurningu feli í sér magntakmörkun eða ráðstöfun sem hafi sambærileg áhrif í skilningi 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þá er óskað svara við því hvort slíkt fyrirkomulag geti engu að síður talist réttlætanlegt með vísan til 13. gr. samningsins.
5. Ef fyrirkomulag eins og það, sem greinir í fyrstu og annarri spurningu og byggir á laga- eða stjórnvaldsfyrirmælum, er talið fara í bága við 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er óskað svara við því hvort EFTA-dómstóllinn telji að fullnægt sé skilyrðum fyrir skaðabótaskyldu vegna brota á EES-samningnum að því marki sem EFTA-dómstóllinn leggur mat á það atriði.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2011.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 25. nóvember sl., er höfðað 3. júní 2011 af HOB-vínum ehf., Ásbúð 9 í Garðabæ, gegn Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Stuðlahálsi 2 í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1) Að ógilt verði með dómi ákvörðun stefnda, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá 31. maí 2010 um að synja stefnanda um reynslusölu á drykkjunum Tempt Cider 2 Apple, Tempt 7 Elderflower & blueberry taste og Tempt 9 Strawberry & lime taste.
2) Að stefndi greiði stefnanda 1.605.830 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2011 til greiðsludags, vegna fjártjóns sem hann hefur orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu synjunar stefnda um að setja í reynslusölu drykkina Tempt Cider 2 Apple, Tempt 7 Elderflower & blueberry taste og Tempt 9 Strawberry & lime taste á tímabilinu frá byrjun júní 2010 til loka mars 2011.
3) Að ógilt verði með dómi ákvörðun stefnda um að gera þá kröfu til stefnanda að hann merki vörurnar Don Simon Sangria Siesta í 1,5 lítra plastflöskum og 3 lítra fernum, Sangría Siesta í 1,5 lítra fernum, Don Simon Blanco de Verano í 1,5 lítra plastflöskum, Don Simon Tinto de Verano í 1,5 lítra plastflöskum, Caribbean Kick í 275 ml flöskum og Diabolo Ice í 275 ml flöskum með orðunum „áfengur drykkur“ þ.e. með öðrum merkingum en fram koma á upprunalegum umbúðum varanna.
4) Að stefndi greiði stefnanda 519.061 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2011 til greiðsludags, vegna kostnaðar sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna kröfu stefnda um að stefnandi merki vörurnar Don Simon Sangria Siesta í 1,5 lítra plastflöskum og 3 lítra fernum, Sangria Siesta í 1,5 lítra fernum, Don Simon Blanco de Verano í 1,5 lítra plastflöskum, Don Simon Tinto de Verano í 1,5 lítra plastflöskum, Caribbean Kick í 275 ml flöskum og Diabolo Ice í 275 ml flöskum sérstaklega með orðunum „áfengur drykkur“ frá febrúar 2010 til 1. maí 2011.
5) Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Af hálfu stefnda er þess krafist að hann verði sýknaður af framangreindum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðarreikningi.
Í þinghaldi 18. október sl. krafðist stefnandi þess að dómurinn leitaði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við málið og lagði fram tillögur að spurningum í því sambandi. Aðilum var gefið færi á því að koma að munnlegum athugasemdum við kröfu þessa 25. nóvember sl. og er ágreiningsefni þetta hér til úrlausnar. Af hálfu stefnda er því mótmælt að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu.
II.
Stefnandi er fyrirtæki sem flytur til landsins áfenga drykki meðal annars frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Stefndi hefur einkaleyfi til smásölu áfengis hér á landi, sbr. 10. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Eins og rakið er í stefnu mun stefnandi hafa óskað eftir því við stefnda á fyrri hluta ársins 2010 að hann tæki þrjá cider-drykki í reynslusölu. Þetta voru drykkirnir Tempt 2 Apple, Tempt 7 Elderflower Blueberry og Tempt 9 Strawberry Lime. Allir þessir drykkir eru framleiddir í Danmörku af drykkjarvöruframleiðandanum Royal Unibrew. Með tölvuskeyti 31. maí 2010 var því hafnað af stefnda að taka fyrrgreinda drykki til sölu í verslunum stefnda. Um synjunina var vísað til greinar 5.10 í vöruvalsreglum stefnda nr. 631/2009, þar sem gerðar eru ákveðnar kröfur til texta og myndmáls á umbúðum.
Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafi leitað eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Þá var því haldið fram af hálfu stefnanda að ákvörðunin væri ólögmæt þar sem hún stangaðist á við 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Ef stefndi félli ekki frá afstöðu sinni áskildi stefnandi sér rétt til að höfða mál og krefjast skaðabóta.
Erindum stefnanda var svarað með bréfi lögmanns stefnda 30. júní 2010. Þá barst stefnanda sama dag álitsgerð lögmannsins, dags. 19. maí 2010, þar sem færð eru rök fyrir því að rétt sé að hafna því að taka drykki þessa til sölu í verslunum stefnda þar sem texti og myndmál á umbúðum drykkjanna stangaðist á við grein 5.10 í vöruvalsreglum stefnda. Fram kemur í álitsgerðinni að vörurnar séu allar í stílhreinum og fagurlega skreyttum 33 cl áldósum. Myndum er prýða dósirnar er síðan lýst og gerð grein fyrir þeim texta sem þar er að finna auk efnis á heimasíðu framleiðandans, en til hennar mun vera vísað á umbúðunum. Því næst er vikið að grein 5.10 í vöruvalsreglunum þar sem fram kemur að umbúðir og áletranir megi einungis innhalda skilaboð er tengjast vörunni, gerð hennar eða eiginleikum og að stefndi taki ekki við vörum ef texti eða myndmál á umbúðum hennar innhalda m.a. „gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar eða gefa til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu“ eða brjóti „í bága við almennt velsæmi m.a. með skírskotun til ofbeldis, trúarbragða, kláms, ólöglegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar refsiverðrar háttsemi o.s.frv.“. Í álitsgerðinni er komist að þeirri niðurstöðu að skreytingu dósanna „sé augljóslega ætlað að gera vöruna spennandi og ögrandi á nautnalegan hátt“ og blasi kynferðisleg skírskotun við. Talið er að þessi undirtónn, hlaðinn slíkum gildum, samrýmdist engan veginn áfengisstefnu íslenskra stjórnvalda, eins og henni er lýst í álitsgerðinni. Þá væru „léttúðugar myndir með nautnalegum, jafnvel lostafullum undirtón“ svo sannarlega á mörkum hins almenna velsæmis. Þegar auglýst heimasíða framleiðanda væri jafnframt skoðuð blasti enn fremur við að í raun væri um „eina stóra ímyndarherferð að ræða“. Fram kemur í álitsgerðinni að ekki hafi verið fallist á að slík samtvinnun ímyndar og áfengis félli að vöruvalsstefnu stefnda og gilti þá einu hvort reynt hefði verið að „höfða til orku, hreysti eða skemmtilegheita eða einhverra annarra ímyndarspursmála sem hafa nákvæmlega ekkert með vöruna að gera“. Síðan er áréttað að um áfengi gildi á Íslandi „önnur lögmál en um aðra neysluvöru“ og að taka þurfi mið af áfengisstefnu íslenskra stjórnvalda og hvernig hún hefði verið túlkuð „með hófsemi, varúð og íhaldssemi að leiðarljósi“. Að lokum er bent á að ef fallist yrði á að taka umrædda vöru til sölu væri vandséð hvar draga ætti markalínuna næst. Niðurstaða álitsgerðarinnar varð því sú að auðvelt væri að hafna því með lagarökum að taka vöruna í reynslusölu og var lagt til að það yrði gert.
Með tölvuskeyti 20. maí 2010 var af hálfu stefnda svarað fyrirspurn stefnanda um tilteknar vörur sem stefnandi hafði óskað eftir að yrðu teknar til sölu í verslunum stefnda. Meðal þeirra var drykkjarvaran Sangria Siesta í 1,5 lítra fernum. Í tölvuskeytinu kemur fram að sala þessarar vöru yrði einungis heimiluð að uppfylltu skilyrði um „aukna merkingu“. Þar væri átt við límmiða sem tæki skýrt fram að um áfengan drykk væri að ræða. Til stuðnings þessari kröfu var vísað til greinar 5.10 í vöruvalsreglum stefnda.
Samkvæmt bréfi lögmanns stefnanda 11. október 2010 virðast sömu kröfur hafa verið gerðar til merkinga á umbúðum drykkjarvaranna Don Simon Sangria, Carabbean Kick og Diabolo Ice. Í bréfinu er því haldið fram að krafa um slíka merkingu falli undir bannákvæði 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og að stefnandi myndi krefja stefnda um endurgreiðslu þessa aukakostnaðar.
Af hálfu stefnda var svarað með bréfi 20. október 2010, þar sem því er haldið fram að stefndi hafi fulla heimild að lögum til þess að hafna vöru í sölu ef umbúðum er áfátt að því er varðar merkingar eða vegna ruglingshættu við óáfenga drykki.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda sem hér skipta máli
Varðandi dómkröfur 1 og 2 heldur stefnandi því fram að synjun stefnda á því að taka cider-drykkina í reynslusölu standist ekki grein 5.10 í vöruvalsreglum ÁTVR eða reglur íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar. Þá stangist synjunin á við lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.
Í tengslum við síðustu málsástæðu stefnanda bendir hann á að umræddir drykkir séu framleiddir í Danmörku og að þeir falli undir II. hluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) um frjálsa vöruflutninga, sbr. fyrrgreind lög nr. 2/1993. Stefnandi byggir á því að synjun stefnda feli í sér ólögmæta viðskiptahindrun samkvæmt 11. gr., sbr. 13. gr. EES-samningsins. Í því sambandi vísar hann til þess að fjöldi dómafordæma Evrópudómstólsins liggi fyrir þar sem kröfur einstakra ríkja um sérstaka kynningu, lögun eða merkingu á umbúðum vöru feli í sér tæknilega viðskiptahindrun, þ.e. ráðstöfun sem sé samsvarandi magntakmörkunum, en þær séu bannaðar samkvæmt 11. gr. EES-samningsins. Í þessu sambandi vísar stefnandi meðal annars til mála nr. C-120/78, Cassis de Dijon, og C-470/93, Verein gegen Unwesen in Handel und Gewerbe Köln eV gegn Mars GmbH. Þá er af hálfu stefnanda vísað til dóms Evrópudómstólsins frá 8. mars 2001 í máli Konsumentombudsmannen gegn Gourmet International Products AB um túlkun og beitingu ákvæða í Rómarsamningnum er svari til 11. og 13. gr. EES-samningsins.
Stefnandi tekur fram að viðskiptahindranir á borð við synjun stefnda geti verið réttlætanlegar á grundvelli almenns siðferðis, sbr. 13. gr. EES-samningsins. Stefnandi telur að þá undantekningu eigi að túlka þröngt og hindrunin eða takmörkunin megi ekki ganga lengra en nauðsynlegt er. Hann telur að synjun stefnda fullnægi ekki þeim kröfum.
Um bótaskyldu samkvæmt öðrum kröfulið er af hálfu stefnanda bæði vísað til almennu skaðabótareglunnar og sérstakrar skaðabótareglu vegna brota á EES-samningnum sem leiða megi af dómafordæmum Evrópudómstólsins, EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands.
Stefnandi reisir kröfuliði 3 og 4 á sömu röksemdum og málsástæðum og kröfuliðir 1 og 2 byggjast á. Hvað þessar kröfur varðar telur stefnandi rétt að leggja áherslu á að um sé að ræða matvöru, þ.e. drykkjarvöru, sem stefndi hafi enga heimild til að gera kröfu um að verði merkt umfram það sem matvæla- eða heilbrigðisyfirvöld krefjast. Til stuðnings kröfulið 3 vísar stefnandi sérstaklega til dóms Evrópudómstólsins í máli nr. 27/80, Fietje, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að krafa samkvæmt hollenskum reglum um að merkja áfengan epladrykk með 25% áfengisinnihaldi með orðinu „likeur“ á umbúðum hefði stangast á við 28. gr. Rómarsamningsins, sem svari til 11. gr. EES-samningsins.
2. Málsástæður og lagarök stefnda sem hér skipta máli
Í greinargerð kemur meðal annars fram að meginstoðir áfengisstefnu íslenskra stjórnvalda felist í því að takmarka aðgengi að áfengi, banna auglýsingar og hefta markaðssetningu áfengis að öðru leyti. Telur hann lykilatriði í áfengisstefnu stjórnvalda að stefndi hafi einkasöluleyfi á áfengi í smásölu, sbr. 10. gr. áfengislaga og 5. gr. laga nr. 69/1963, sbr. nú 7. gr. laga nr. 86/2011. Með einkasöluleyfinu sé stjórnvöldum unnt að hafa eftirlit með og stjórn á sölu áfengis í smásölu og þannig tryggja að áfengisstefnan sé virt í framkvæmd. Í því felist meðal annars að stefndi velji þær vörur sem fari í sölu. Stefndi byggi á því að allar þær lög- eða reglugerðarbundnu takmarkanir eða hömlur á sölu, meðferð, framleiðslu, innflutningi, aðgengi og markaðssetningu áfengis, sem hér á landi gildi, styðjist við augljós lýðheilsu- og heilbrigðissjónarmið. Hafi fjölmargar rannsóknir sýnt fram á það að með auknu aðgengi almennings að áfengi aukist áfengisneysla og að það leiði til heilsufars- og samfélagsvandamála sem aftur leiði til aukins kostnaðar fyrir samfélagið í heild. Stefndi skírskotar í þessu sambandi einnig til heilbrigðisáætlunar íslenskra stjórnvalda, sem hafi verið samþykkt á Alþingi 20. maí 2001, þar sem áhersla sé lögð á að draga úr neyslu áfengis, sérstaklega meðal fólks undir lögaldri. Þá vísar stefndi til þess að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hafi gefið út stefnu sína í áfengismálum þar sem lögð sé áhersla á að draga úr neyslu áfengis, sérstaklega meðal ungs fólks. Þá hafi verið unnið að því að samræma reglur um áfengismál innan Evrópusambandsins (ESB).
Stefndi vísar til þess að áfengisframleiðendur hafi í auknum mæli beint markaðssókn sinni að börnum og unglingum með ýmsum aðferðum. Áfengisframleiðendur geri sér grein fyrir því að umbúðir, litir, neysluaðferðir, framsetning, kynning og markaðssetning vöru skipti miklu máli og oft meira máli en drykkurinn sjálfur. Markaðssetningin miði meðal annars að því að gera vöruna spennandi í augum ungs fólks og tengja hana við ákveðinn lífstíl sem gerður er eftirsóknarverður með markaðsherferðum. Meðal annars með þetta í huga hafi forgangsröðuninni verið hagað þannig að fyrst og fremst sé aðgengi barna og unglinga að áfengi takmarkað, verðlag haft hátt, þar sem þessir aldurshópar hafi minna fé á milli handanna en aðrir, og skorður settar við auglýsingu og markaðssetningu áfengis. Í því sambandi tekur stefndi fram að rannsóknir hafi sýnt að markaðssetning áfengis gagnvart yngstu aldurshópunum auki sölu.
Stefndi byggir á því að honum sé ætlað að taka þátt í ábyrgri og aðhaldssamri áfengisstefnu íslenskra stjórnvalda sem séu reist á lýðheilsu- og heilbrigðissjónarmiðum. Við skýringu á einstökum framkvæmdaþáttum þessarar stefnu verði að horfa heildstætt á gildandi lagaumhverfi og áfengisstefnuna í heild. Það séu þau málefnalegu sjónarmið sem stefnda beri meðal annars að líta til við vöruval í áfengisútsölur fyrirtækisins. Í því ljósi hafi stefndi hafnað vörum sem miða að markaðssókn gagnvart ungu fólki og/eða hafa ómálefnalegar skírskotanir eða boðskap.
Í tilefni af málsástæðum stefnanda er lúta að ætluðu broti á reglum Evrópuréttar tekur stefndi fram að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði hafi fyrst og fremst verið ætlað að tryggja að erlendir og innlendir aðilar sitji við sama borð á þeim réttarsviðum sem samningurinn taki til. Því geti aðildarríkin hvert fyrir sig útfært efnisreglur á samningssviðunum eins og þau kjósi, að öðrum skilyrðum uppfylltum, svo fremi að grunnkröfunnar um jafnræði milli innlendra og erlendra birgja sé gætt. Í máli þessu liggi hvorki fyrir að regluverkið né framkvæmdin hygli innlendum aðilum á kostnað erlendra. Stefndi telur að 13. gr. EES-samningsins, sem og tilvitnaður dómur Evrópudómstólsins frá 8. mars 2001 í máli Konsumentombudsmannen gegn Gourme International Products AB, séu til marks um þessa grunnreglu. Íslandi sé þannig fullkomlega heimilt að setja þær efnisreglur sem þurfa þyki til þess að framfylgja hinni opinberu áfengisstefnu stjórnvalda, þ.m.t. að standa gegn því að boðnar séu fram í vínbúðum stefnda áfengisumbúðir sem hafi að geyma önnur skilaboð en beinlínis varði vöruna, sbr. grein 5.10 í vöruvalsreglum nr. 631/2009. Það sé vissulega háð sama skilyrði og endranær, að eitt verði látið yfir alla ganga, bæði vegna áskilnaðar Evrópulöggjafarinnar, en einnig vegna jafnræðissjónarmiða að öðru leyti. Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 550/2006, HOB-vín ehf. gegn Faxaflóahöfnum sf.
IV.
Stefnandi reisir kröfu sína um að leita skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu á því að það sé hlutverk dómstólsins að skýra EES-samninginn. Málatilbúnaður stefnanda byggi að verulegu leyti á því að fyrrgreindar kröfur stefnda til umbúða utan um vörurnar, sem stefnandi flytji inn frá öðru samningsríki EES-samningsins, fari í bága við 11. gr. samningsins. Þær setji verulegar hindranir fyrir markaðssetningu þeirra hér á landi og telur stefnandi það vera ráðstöfun sem hafi samsvarandi áhrif og magntakmarkanir, sbr. 11. gr. samningsins. Umfangsmikil og flókin dómaframkvæmd Evrópudómstólsins liggi fyrir um túlkun ákvæðisins sem og hvort undantekningar frá því banni sem þar greini geti átt við, sbr. eftir atvikum 13. gr. samningsins. Það leiði til þess að jafnan sé vandasamt að ráða fram úr því hvernig meta eigi tilteknar reglur eða athafnir samningsríkis í ljósi þessara fyrirmæla samningsins og því sé rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. Af hálfu stefnanda er talið að ákvæði EES-samningsins eigi við um flestar af þeim vörum sem málið fjalli um, sbr. 3. mgr. 8. gr. samningsins og töflu I og II við bókun 3 í samningnum. Einu vörurnar sem falli sennilega ekki undir vörusvið samningsins séu vörurnar Don Simon Blanco de Verano og Don Simon Tinto de Verano.
Stefndi telur að ágreiningur aðila kalli ekki á að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, enda liggi ekkert fyrir um að stefndi geri greinarmun á innlendri og erlendri framleiðslu þegar afstaða er tekin til þess hvort merkingar vörunnar fullnægi kröfum vöruvalsreglna stefnda. Evrópudómstóllinn hafi þegar skorið úr um að ríkiseinkasölum áfengis í aðildarríkjum Evrópusambandsins sé heimilt að velja vörur til sölu í verslunum sínum eftir sjónarmiðum sem mismuna ekki erlendri og innlendri framleiðslu, sbr. mál nr. C-189/95, Harry Franzén. Með hliðsjón af þessu telur stefndi að ekki eigi að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli þessu, enda leiði það til aukins kostnaðar, fyrirhafnar og tafa á málinu.
V. Forsendur og niðurstaða
Í málatilbúnaði stefnanda er því meðal annars haldið fram að synjun stefnda á því að taka cider-drykki, sem stefnandi flytur inn frá Danmörku, til sölu í verslunum stefnda sé andstæð 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningnum, sem samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hafi lagagildi hér á landi. Þá byggir stefnandi enn fremur á því að krafa stefnda um sérstakar merkingar á öðrum áfengum drykkjarvörum, sem stefnandi flytur inn til Íslands, stangist á við sömu grein EES-samningsins. Eins og hér hefur verið vikið að telur stefnandi að þessar aðgerðir feli í sér magntakmörkun á innflutningi áfengis eða ráðstöfun sem hafi samsvarandi áhrif og magntakmörkun, en slíkar ráðstafanir séu bannaðar samkvæmt fyrrgreindri 11. gr. í EES-samningnum.
Af hálfu beggja aðila hefur verið vísað til nokkurra dóma Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins og hafa aðilar lagt út af þeim með mismunandi hætti. Ljóst er að þó nokkur fjöldi úrlausna þessara dómstóla liggur fyrir, þar sem fjallað hefur verið um hvort hömlur einstakra samningsríkja á sölu og markaðssetningu á vörum, þ. á m. vegna merkinga þeirra, hafi stangast á við 11. gr. EES-samningsins eða 28. gr. Rómarsamningsins (áður 30. gr.). Ekki virðast þó liggja fyrir dómsúrlausnir er fjalli um túlkun þessara ákvæða í máli þar sem sakarefnið er í meginatriðum hliðstætt því máli sem hér er til úrlausnar. Þá er til þess að líta að stefndi er ríkiseinkasala, en fjallað er um þær í 16. gr. EES-samningsins og 31. gr. Rómarsamningsins (áður 37. gr.). Af dómi Evrópudómstólsins í máli C-189/95, Harry Franzén, sem stefndi hefur vísað til, má meðal annars ráða að ráðstafanir eða reglur er tengjast viðskiptum eða rekstri einkasölu eru ýmist metnar í ljósi fyrrgreindrar sérreglu um einkasölur eða út frá banni við viðskiptahindrunum samkvæmt 28. gr. Rómarsamningsins og 11. gr. EES-samningsins. Sama kemur fram í dómi EFTA-dómstólsins frá 17. janúar 2006 í máli nr. E-4/05, HOB-vín ehf. gegn íslenska ríkinu og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Þar virðist ráða úrslitum hvort umræddar ráðstafanir eða reglur varði tilvist og rekstur einkasölunnar og hvernig hún beitir einkarétti sínum eða hvort reglurnar hafi áhrif á viðskipti innan Evrópska efnahagssvæðisins, en varði ekki beint starfsemi ríkiseinkasölunnar, þótt þau geti haft áhrif á hana.
Að virtum málsástæðum stefnanda og málatilbúnaði hans verður fallist á að nægilega sé fram komið að fyrirmæli 11. gr. EES-samningsins, og þá eftir atvikum 13. gr. sama samnings, geti með réttu haft raunhæfa þýðingu fyrir úrslit málsins. Það er hlutverk EFTA-dómstólsins að skýra EES-samninginn, sbr. 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994. Dómurinn telur að ekki verði fullyrt með afdráttarlausum hætti út frá dómafordæmum Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins hvort hinar umdeildu ákvarðanir stefnda, sem í meginatriðum voru reistar á vöruvalsreglum stefnda nr. 631/2009, falli undir bannákvæði 11. gr. EES-samningsins og ef svo er, hvort sjónarmið, sem tilgreind eru í 13. gr. samningsins eða eru reist á dómafordæmum um túlkun 11. gr. samningsins, geti réttlætt undanþágu frá því banni sem þar kemur fram. Ekki verður séð að stefnandi reisi kröfur sínar á því að hinar umdeildu reglur og beiting þeirra af hálfu stefnda við vöruval stangist á við 16. gr. EES-samningsins. Ekki er því forsenda til að leita álits EFTA-dómstólsins um túlkun ákvæðisins, en væntanlega verður fjallað um álitaefni er lúta að mörkum 11. gr. og 16. gr. samningsins þegar afstaða verður tekin til þess að hvaða leyti fyrrnefnda greinin kunni að eiga við í máli þessu. Enn fremur verður að fallast á með stefnanda að ástæða sé til að leita svara EFTA-dómstólsins um mögulega skaðabótaábyrgð stefnda ef ætla má að ákvarðanir stefnda hafi brotið gegn 11. gr. EES-samningsins, að því marki sem dómstóllinn leggur mat á það álitaefni. Það er því niðurstaða dómsins að nægilegt tilefni sé til þess að óska ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, á þeim atriðum sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1) Fer það í bága við 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef aðildarríki veitir ríkiseinkasölu, sem hefur einkarétt til smásölu áfengis, heimild í stjórnvaldsfyrirmælum til að krefjast þess að texti og myndmál á umbúðum áfengis, sem óskað er eftir að tekið verði til sölu í verslunum hennar, innihaldi aðeins skilaboð er tengjast vörunni, gerð hennar eða eiginleikum, og að þær megi ekki innihalda gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar eða brjóta í bága við almennt velsæmi?
2) Á sama hátt er spurt hvort það fari í bága við 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef aðildarríki setur í lög eða stjórnvaldsfyrirmæli reglur er leiða til þess að á umbúðum áfengra drykkja skuli greinilega koma fram að um áfengi sé að ræða og að ríkiseinkasala krefjist úrbóta ef upprunalegar umbúðir framleiðanda fullnægja ekki þeim kröfum.
3) Ef talið er að fyrirkomulag á borð við það sem lýst er í fyrstu og/eða annarri spurningu feli í sér magntakmörkun eða ráðstöfun, sem hafi sambærileg áhrif í skilningi 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þá er óskað svara við því hvort slíkt fyrirkomulag geti engu að síður talist réttlætanlegt með vísan til 13. gr. samningsins.
4) Ef fyrirkomulag það sem greinir í fyrstu og/eða annarri spurningu er talið fara í bága við 11. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er óskað svara við því hvort EFTA-dómstóllinn telji að fullnægt sé skilyrðum fyrir skaðabótaskyldu ríkiseinkasölunnar, að því marki sem dómstóllinn leggur mat á það atriði.