Hæstiréttur íslands
Mál nr. 238/2005
Lykilorð
- Leigusamningur
- Verkkaup
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2005. |
|
Nr. 238/2005. |
Háskóli Íslands(Stefán B. Gunnlaugsson hrl.) gegn Sjóverki ehf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Leigusamningur. Verkkaup. Frávísun máls frá héraðsdómi.
S ehf. krafði HÍ um greiðslu eftirstöðvar reiknings vegna leigu á pramma í tengslum við vísindarannsókn og vinnu starfsmanna félagsins við stjórnun prammans, auk annars kostnaðar, sem S ehf. taldi að HÍ ætti að greiða. Vísindamennirnir, sem stóðu að rannsóknunum, mótmæltu því að greiða bæri meira en þegar hefði verið gert. Skriflegur samningur lá ekki til grundvallar þessum viðskiptum en S ehf. hafði þó látið gera drög af slíkum samningi og kynnt fyrir þeim sem stóðu að rannsókninni skömmu áður en hún hófst. Í dómi Hæstaréttar var talið að við úrlausn málsins yrði að fara eftir skýringu á samningsdrögunum og öðru því sem telja yrði sannað að aðilar hefðu samið um sín í milli. Yrði S ehf. talið bundið af drögunum og að óskýrleiki þeirra þyrfti að túlka félaginu í óhag. Þá hefðu aðrar athugasemdir vísindamannanna við reikningsgerðina en þær sem komu strax fram í tengslum við útgáfu reikningsins, ekki þýðingu, sbr. til hliðsjónar meginreglu 47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. og 45. gr. sömu laga. Var talið að umræddur reikningur samrýmdist ekki skuldbindingum HÍ samkvæmt ofangreindu og að ekki yrði heldur ráðið af framlögðum gögnum hvert skyldi vera hæfilegt endurgjald fyrir framlag S ehf. í viðskiptunum. Var héraðsdómur því ómerktur og málinu vísað frá héraði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. júní 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Sumarið 2003 réðust Áslaug Geirsdóttir prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Gifford H. Miller prófessor við Háskólann í Colarado í að rannsaka þróun veðurfars á Íslandi út frá kjörnum teknum úr setlögum stöðuvatnanna, Hestvatns í Grímsnesi, Hvítárvatns við Langjökul og Haukadalsvatns í Dölum. Einnig var ætlunin að taka kjarna úr botni Vatnsdalsvatns í Barðastrandarsýslu en frá því var horfið. Rannsóknir þessar voru kostaðar með styrkjum frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og National Science Foundation í Bandaríkjunum, svo og af sjálfsaflafé vísindamannanna. Raunvísindastofnun Háskólans hafði með höndum bókhald fyrir verkefnið og leit einnig til með því. Aðild stofnunarinnar hefur ekki verið mótmælt. Samkvæmt yfirlýsingu lögmanns áfrýjanda var það gert í fullu samráði við yfirvöld Háskóla Íslands. Verður Háskóli Íslands því talinn réttur aðili að málinu sóknarmegin samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Vísindamennirnir leigðu til rannsóknanna bor frá bandarísku fyrirtæki og pramma undir hann frá stefnda. Í málinu deila aðilar um greiðslu á eftirstöðvum reiknings vegna leigu prammans, vinnu starfsmanna stefnda, sem fylgdu prammanum, og annars kostnaðar stefnda sem hann telur áfrýjanda eiga að greiða. Skriflegur samningur var ekki gerður en af gögnum málsins kemur fram að Áslaug gekk ítrekað eftir því við fyrirsvarsmann stefnda að hann skilaði kostnaðaráætlun um verkið. Við því varð hann ekki en lagði hins vegar fram drög að samningi, sem aðilar eru sammála um að hann hafi lagt fyrir Áslaugu og dr. Miller á fundi deginum áður en farið var til borunar á vötnunum. Annar liður samningsdraganna hljóðar svo: „Lýsing: Leiga á borpramma vegna borvinnu í vötnum. Daggjaldið 120.000,- ISK miðast við vinnutímann á milli kl. 8:00 og 19:00. Daggjaldið miðast við leigu á borpramma ásamt léttabát. Notkun á borprammanum fyrir kl. 8:00 og eftir kl. 19:00 reiknast sem tímagjald 12.000,- ISK á klukkustund. Ef vinnutíminn er skemmri en 10 tímar per dag reiknast samt fullt daggjald. Vinna umfram 10 tíma per dag reiknast sem tímagjald sem þá bætist við daggjaldið. Leigugjald reiknast á meðan pramminn er ekki í heimahöfn (Kópavogshöfn) en einnig á meðan pramminn er í höfn en bundinn við verkið vegna undirbúnings- og/eða frágangsvinnu. ... . Þessi verð miðast við að umfang og lengd verksins sé samkvæmt áður afhentri verkáætlun verkkaupa. Ath.: öll verð eru án vsk. Leigutaki en ekki stjórnandi ber fulla ábyrgð á borprammanum á meðan hann er utan hafnar Kópavogs. Leigutaki sér stjórnendum borprammans fyrir fæði og húsnæði og lögbundnum matar- og kaffihléum á meðan á verkinu stendur. Verkkaupi sér stjórnendum borprammans fyrir bifreið og eldsneyti á hann meðan á verkinu stendur. Þessi bíll verði eingöngu notaður af stjórnendum borprammans á verktíma.” Þá liggur fyrir verkáætlun frá vísindamönnunum um borunina og var þar áætlað að leggja upp frá Reykjavík að kvöldi 17. júní 2003 og hefja verkið á Hestvatni 18. júní. Ætlaðir voru að lágmarki 27 dagar til verksins, en þá voru meðtaldir 6 dagar til borunar í botn Vatnsdalsvatns en þangað var aldrei farið. Boruninni átti að vera lokið 13. júlí 2003 en lauk í raun 15. júlí.
Fyrirsvarsmaður stefnda sagði fyrir dómi að þar sem ekki var gert ráð fyrir launum starfsmanna sinna í samningsdrögunum hafi hann átt að setja ákvæði þar um í samninginn í samræmi við fjárhæðir, sem ritaðar eru neðst á samninginn, og koma með hann síðan til undirritunar. Áslaug og dr. Miller segja aftur á móti að þau hafi ekki sætt sig við að í drögunum væri gert ráð fyrir að daggjaldið miðaðist við notkun prammans frá 8:00 til 19:00 og hafi fremur viljað að það tæki mið af notkun hans án tillits til þess hvenær dagsins hann væri notaður. Þau hafi hins vegar fallist á fjárhæð daggjalds og tímagjalds leigunnar. Á framlögð samningsdrög er við daggjaldaákvæðið rituð samtalan 11 tímar. Þá segjast þau hafa fallist á að greiða tveimur starfsmönnum stefnda uppsettan kauptaxta en þá hafi verið við það miðað að þeir væru báðir sérfræðingar um notkun prammans. Segist Áslaug hafa staðið í þeirri trú að fyrirsvarsmaður stefnda ætlaði sjálfur að stjórna prammanum. Framlagður tölvupóstur styður þennan framburð hennar. Fram er komið að starfsmaðurinn, sem kom í stað fyrirsvarsmannsins, hafði takmörkuð vélstjórnar- og skipstjórnarréttindi og hafði unnið við starfrækslu pramma en hinir tveir, sem unnu á vegum stefnda við verkefnið hvor á eftir öðrum, höfðu engin réttindi og voru að mestu óvanir þessum störfum.
Stefndi framvísaði tveimur reikningum, öðrum að fjárhæð 622.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti 15. júní 2003 og hinum að fjárhæð 3.884.400 krónur einnig að meðtöldum virðisaukaskatti 17. júlí sama ár, sem áfrýjandi greiddi. Vísindamennirnir rituðu fyrirsvarsmanni stefnda bréf 1. ágúst 2003 og gerðu athugasemdir, sem snerta frekari reikningsgerð stefnda. Umdeildur reikningur hans er ekki dagsettur fyrr en 10. september sama ár. Er ekki að fullu ljóst hvaða gögn þau höfðu þegar athugasemdirnar voru gerðar. Í fyrsta lagi sögðust þeir hafa samþykkt 120.000 króna daggjald vegna prammans, en að þær breytingar sem gera þurfti á honum hafi þau ekki átt að greiða og hafi þær átt að vera innifaldar í leigugjaldinu. Í öðru lagi hafi þeim verið sagt að pramminn yrði tilbúinn til verksins og öll tæki sem þyrfti til þess að flytja hann á borstað og festa niður með akkerum væru innifalin í leigunni og því telji þau allar viðgerðir og viðhald á ábyrgð stefnda. Reipin vegna akkeranna hafi verið léleg og ekki nægilega löng til að festa prammann örugglega meðan unnið var á Hestvatni. Því hafi starfsmaður stefnda orðið að splæsa reipin saman sem hafi skapað erfiðleika við stillingu á akkerunum og einnig hafi hnútarnir stoppað á vindunum. Telja þau lagfæringar á þessu á ábyrgð stefnda. Í þriðja og fjórða lagi hafi starfsmenn stefnda verið reynslulausir og ekki tekið leiðbeiningu bormanns, sem fylgdi bornum frá Bandaríkjunum, og hafi þetta skapað frekari vandræði við stjórn prammans og akkeranna og valdið því að borinn brotnaði. Hafi þetta allt kostað vísindamennina fjóra daga við borunina á Hestvatni og orðið til þess að hætta varð við borun á Vatnsdalsvatni. Þeim hafi hins vegar verið lofað að vanir menn yrðu fengnir að stjórn prammans. Í fimmta lagi hafi orðið miklar bilanir á vélum fylgibátanna og eigi allur slíkur kostnaður að falla innan leigugjalds. Í héraðsdómi var á þetta síðastnefnda fallist með vísindamönnunum og unir stefndi þeirri niðurstöðu. Í sjötta lagi voru gerðar athugasemdir við skráðar yfirvinnustundir starfsmanna stefnda og þær taldar vera miklu fleiri en bandaríska borstjórans, sem þó hafi unnið flestar vinnustundir. Loks segjast þau hafa gert ráð fyrir að greiða 20 daga leigu fyrir aukabát á Hestvatni og Hvítárvatni en hann hafi ekkert verið notaður á Haukadalsvatni. Þau neita hins vegar að greiða nokkuð fyrir þriðja bátinn á Hvítárvatni og halda því fram að hans hefði ekki þurft með hefði báturinn, sem upphaflega fylgdi með í leigu prammans, dugað til þess að draga hann.
II.
Af því sem að framan er skráð þykir niðurstaða máls þessa eiga að fara eftir skýringu á framlögðum samningsdrögum og öðru því sem telja verði sannað að aðilar hafi samið um sín í milli. Skiptir máli við þá skýringu að Áslaug hafði ítrekað skorað á fyrirsvarsmann stefnda að leggja fram kostnaðaráætlun og að ætla má að hann hafi samið og lagt samningsdrögin fyrir vísindamennina til að svara þeirri áskorun. Stefndi telst því bundinn af drögunum og óskýrleiki þeirra verður að túlkast honum í óhag. Verður ekki talið að hann geti fengið annað og meira greitt en fólgið er í þeim nema hann sýni fram á að vísindamennirnir hafi samþykkt í orði eða verki að greiða það sérstaklega. Aðrar athugasemdir þeirra við reikningsgerð stefnda en þær sem að framan eru reifaðar og komu strax fram þykja ekki geta haft þýðingu, sbr. til hliðsjónar meginreglu 47. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. og 45. gr. sömu laga.
Vísindamennirnir kváðust fyrir dómi hafi gert athugasemdirnar vegna þess að samningsdrögin gerðu ráð fyrir því að daggjaldið miðaðist við að unnið yrði ákveðinn tíma dags. Áritun, sem gerð er á framlögð samningsdrög, þótt knöpp sé, styður þessa staðhæfingu þeirra. Þá verður til þess að líta að samningsdrögin, sem eins og áður segir stafa frá stefnda, bera það með sér að texti þeirra sé við það miðaður að laun stjórnanda prammans séu innfalin í leigu fyrir hann, þar sem ekkert ákvæði draganna varða laun hans. Aftur á móti eru laun starfsmanna stefnda þar með stjórnanda innheimt sérstaklega og á það fallist af áfrýjanda. Verður fyrst svo háttar til að telja eðlilegt að miða daggjaldið við hámarksnotkun prammans hvern sólarhring, sem hér virðist hafa átt samkvæmt árituninni að vera 11 klukkustundir. Tímagjald hafi því átt að reiknast hvern sólarhring eftir að 11 klukkustundum var náð. Fullt daggjald átti að greiða fyrir hvern dag eftir að farið var frá Reykjavík samkvæmt samningsdrögunum og verkáætlun vísindamannanna, sem áður er nefnd. Þá sýnist eiga að túlka samningsdrögin svo að stefndi hafi átt að fá greitt leigugjald fyrir daga til undirbúnings og frágangs. Samkvæmt framburði vísindamannanna og framlögðum tímaskýrslum stefnda þykir mega fallast á að hann eigi að fá greidda leigu fyrir þann tíma sem tók að setja borinn á prammann og taka hann af honum, 15. og 16. júní vegna undirbúnings og 16. og 17. júlí vegna frágangs. Þegar framangreint er virt þykir nægjanlega fram komið að skýra eigi samning aðila um endurgjald fyrir prammann svo sem hér hefur verið rakið og að við þetta eigi að miða í viðskiptum aðilanna.
Vísindamennirnir gerðu strax 1. ágúst 2003 athugasemd vegna reikningsgerðarinnar þar sem þeir töldu að akkerisreipi og lítil reynsla stjórnanda prammans hefði kostað þá fjóra daga aukalega við Hestvatn. Þetta styðst við framburð bandaríska bormannsins fyrir rétti. Fram er þó komið að vegna þess að aukabor var til staðar, er borinn brotnaði svo sem áður er frá sagt, seinkaði óhappið borun ekki mikið. Fyrirsvarsmaður stefnda var kallaður á staðinn, reipi voru endurnýjuð og ákveðið að bandaríski bormaðurinn stjórnaði eftirleiðis útlagningu akkera. Er þetta viðurkennt. Tölvupóstur sem fram er lagður styður þá fullyrðingu vísindamannanna að þeir hafi mátt gera ráð fyrir að fyrirsvarsmaður stefnda stjórnaði sjálfur vinnu við prammann. Þetta gerði hann ekki en að framan er því lýst að sá sem til þess var fenginn hefði átt að hafa til þess færni og er ekki annað fram komið en svo hafi verið. Er því rétt að miða reikningsgerðina við það kaup sem um var samið vegna hans. Hins vegar er samningurinn óskýr um það á hvaða útseldu kaupi aðstoðarmennirnir áttu að vera og jafnframt hvernig haga átti tímaskráningu vegna verksins. Gilda því um það efni þær reglur sem tíðkanlegar eru á almennum markaði. Bar stefnda að reikna með útseldum launum ófaglærðra verkamanna vegna aðstoðarmannanna og halda tímaskráningu fyrir stjórnandann og aðstoðarmenn hans og kynna vísindamönnunum hana jafnóðum. Stefndi heldur því fram að hann byggi á framlagðri tímaskráningu stjórnanda prammans en vísindamennirnir hafa ekki viljað á hana fallast. Stjórnandi prammans hefur borið fyrir dómi að hann hafi orðið að ganga frá og sinna ýmsum aðdráttum eftir að borun lauk dag hvern og séu því vinnustundir sínar fleiri en bormannsins. Framlögð vinnustundaskráning bormannsins er ekki svo skýr að hún verði lögð til grundvallar í málinu. Verður því að taka mið af skráningu stjórnanda prammans að öðru leyti en því sem hún verður skilin svo að innheimt sé vegna vinnu við viðgerðir á því sem stefndi átti að leggja til verkefnisins og innifalið var í leigu prammans. Hins vegar verður að miða kaup aðstoðarmannanna við útselda vinnu ófaglærðra.
Loks hafa vísindamennirnir gert athugasemd við leigu fyrir báta. Einn bátur átti samkvæmt samningsdrögunum að fylgja prammanum og verður ekki innheimt sérstakt endurgjald fyrir hann. Áslaug Geirsdóttir hefur viðurkennt að hafa beðið um annan bát í önnur störf og ber því áfrýjanda að greiða fyrir hann. Stjórnandi prammans hefur borið að hann hafi án samráðs við vísindamennina útvegað öflugri bát til aðstoðar við prammann við borun á Hvítárvatni þar sem sá bátur sem fylgdi hafi ekki reynst nægilega öflugur. Þar sem samningsdrögin verða ekki öðruvísi skilin en að bátur, sem nægilega var útbúinn til að ráða við prammann, hafi átt að fylgja honum verður stefnda ekki dæmt sérstakt endurgjald fyrir þennan bát.
Samkvæmt samningsdrögunum og því sem viðurkennt er af vísindamönnunum átti ekki að greiða annað og meira fyrir útvegun prammans og verður því að telja að allt annað sem stefndi vill innheimta hjá áfrýjanda hafi átt að vera innifalið í leigu fyrir prammann. Á það við útselda vinnu fyrirsvarsmanns stefnda, kostnað við gerð prammans, endurbætur á honum og viðhald hans. Stefndi hefur ekki lagt fram reikning sem uppfyllir framangreint og ekki verður af framlögðum gögnum ráðið hvert skuli vera hæfilegt endurgjald fyrir framlag stefnda í heild. Máltilbúnaður áfrýjanda er ekki að heldur svo skýr að niðurstaða verði fengin um mál þetta. Verður því ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu frá héraðsdómi.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera ómerkur og er málinu vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2005.
Mál þetta, sem þingfest var 30. júní 2004, var tekið til dóms 10. febrúar sl. Stefnandi er Sjóverk ehf., Bakkabraut 5a, Kópavogi en stefndi er Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Dunhaga 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmd til að greiða 6.495.788 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. september 2003 til greiðsludags að frádregnum 2.187.220 krónum sem greiddar voru 12. mars 2004 og 1.016.658 krónum sem greiddar voru 17. mars 2004. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
I.
Málsatvik eru þau að sumarið 2003 réðist Áslaug Geirsdóttir prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands í samvinnu við dr. Gifford H. Miller við Háskólann í Colorado í Bandaríkjunum í rannsóknarverkefni sem Áslaug hafði fengið styrk til. Verkefnið fólst í rannsókn á þróun veðurfars á Íslandi með kjarnatöku úr setlögum stöðuvatna, nánar tiltekið í Hestvatni í Grímsnesi, Hvítárvatni við Langjökul, Haukadalsvatni í Dalasýslu og í Vatnsdalsvatni á Barðaströnd.
Til verkefnisins þurfti að leigja bor og pramma undir hann. Borinn var leigður af bandarísku fyrirtæki og komu tveir menn á vegum þess til landsins. Annars vegar maður sem setti borinn upp á prammann og hvarf síðan af landi brott og hins vegar vitnið Vance Hiatt sem stjórnaði bornum á vettvangi. Þriðji útlendingurinn sem kom að verkefninu var Doug Schnurrenberger frá Háskólanum í Minneapolis í Bandaríkjunum. Hann vann sem sjálfboðaliði við verkefnið, fyrst og fremst með eigin rannsóknarhagsmuni í huga.
Samningur tókst milli stefnanda annars vegar og Áslaugar Geirsdóttur og Gifford H. Miller hins vegar um að stefnandi leigði stefnda pramma undir setlagaborinn og að stefnandi innti ákveðna vinnu af hendi við verkefnið sem verktaki. Skriflegur samningur var ekki gerður en stefnandi lagði fram drög að skriflegum leigusamningi sem aldrei var undirritaður eða frágenginn. Svo fór að verkið hófst án þess að gengið væri frá samningsmálum að fullu.
Þetta rannsóknarverkefni var fjármagnað með styrkjum, einkum frá Rannís og Nationals Science Foundation í Bandaríkjunum svo og sjálfsaflafé þeirra einstaklinga sem að því stóðu.
Unnið var að þessu verkefni í júní og júlí 2003. Stefnandi sendi stefnda fljótlega reikning með ósk um greiðslu upp í væntanlegan heildarkostnað. Stefndi greiddi tvo reikninga, annan þann 23. júní 2003 að fjárhæð 638.032 krónur og hinn þann 21. júlí 2003 að fjárhæð 3.884.400 krónur eða samtals 4.522.432 krónur. Hinn umdeildi lokareikningur er að fjárhæð 6.495.788 krónur og andmælti stefndi þeim reikningi. Stefndi segir að ef þessi reikningsgerð stefnanda fái staðist sé stefndi að greiða samtals 11.018.220 krónur fyrir leigu á pramma og vinnu að umræddu rannsóknarverkefni. Telur stefndi að slík fjárhæð fái ekki staðist að teknu tilliti til forsendna aðila, efni samnings þeirra og atvika máls.
Sættir voru reyndar með aðilum og greiddi stefndi tvær greiðslur vegna hins umdeilda reiknings. Þann 17. mars 2004 greiddi stefndi 1.016.658 krónur og 12. mars 2004 2.272.455 krónur eða samtals 3.289.113 krónur. Hefur stefndi þá alls greitt stefnanda vegna verkefnisins 7.811.545 krónur. Varðandi síðastnefndu greiðsluna að fjárhæð 2.272.455 krónur telur stefnandi greiðsluna eingöngu hafa numið 2.187.220 krónur. Skýrist það af því að þessi greiðsla er frá Háskólanum í Colorado sem var að fjárhæð 31.000 USD. Taldi stefndi að samkomulag hefði tekist á sáttarfundi 23. janúar 2004 um að stefnandi myndi innleysa þessa greiðslu á meðalgengi þannig að aðilar bæri gengistap að jöfnu. Stefnandi vill hins vegar ekki kannast við þetta samkomulag.
Stefndi telur sig hafa greitt meira en honum sé skylt og viðræður aðila um lausn málsins hafa ekki borið árangur.
II.
Kjartan Hauksson, framkvæmdastjóri stefnanda, skýrði svo frá fyrir dómi að hann og hans fyrirtæki hafi langa reynslu af borun á sjó, lagningu ljósleiðara í sjó og köfun. Áslaug Geirsdóttir hafi haft samband við hann og hafi verið ákveðið að hann útvegaði og leigði vísindafólkinu pramma og önnur tæki fyrir verkið. Hann hafi átt stóran pramma sem hafi verið hentugur til verkefnisins en í ljós hafi komið að Vegagerðin hafi ekki samþykkt flutning hans upp á hálendið. Hafi þá verið ákveðið að smíða nýjan pramma sem unnt væri að taka í sundur og setja saman á borstað. Prammanum sé raðað saman með mörgum flotholtum. Á honum sé spil og vökvaaflsstöð en ekki mótor til að knýja hann áfram. Nokkurn búnað hafi þurft að setja á prammann að ósk Chris Delahunty sem hafi fylgt bornum til Íslands og komið honum fyrir á prammanum.
Af gögnum málsins sést að Áslaug Geirsdóttir var í tölvupóstsamskiptum við Kjartan og óskaði eftir kostnaðaráætlun frá honum. Kjartan svarði þeirri fyrirspurn ekki en sagði að þau hefðu rætt þessi mál í síma. Hann hafi sagt henni að hann treysti sér ekki til þess að gefa föst verð þegar hann eigi undir vinnuframlagi annarra en sinna starfsmanna. Hann geti til dæmis ekki borið ábyrgð á því ef borinn bilaði eða verk tefðist eða breyttist. Daginn áður en lagt hafi verið af stað hafi þessi mál verið rædd. Hafi Kjartan, Áslaug og Gifford Miller átt fund þar sem Kjartan kvaðst hafa lagt fyrir þau drög að leigusamningi þar sem segi meðal annars:
„Daggjaldið 120.000,-- ISK miðast við vinnutímann á milli kl. 8:00 og 19:00. Daggjaldið miðast við leigu á borpramma ásamt léttabát.
Notkun á borprammanum fyrir kl. 8:00 og eftir kl. 19:00 reiknast sem tímagjald 12.000,-- ISK á klukkustund.
Ef vinnutími er skemmri en 10 tímar per dag reiknast samt fullt daggjald.
Vinna umfram 10 tíma per dag reiknast sem tímagjald sem bætist þá við daggjaldið.
Leigugjald reiknast á meðan pramminn er ekki í heimahöfn (Kópavogshöfn) en einnig á meðan pramminn er í höfn en bundinn við verkið vegna undirbúnings- og/eða frágangsvinnu.
Vinnupramminn verði ekki notaður í önnur verk á leigutímanum.
Þessi verð miðast við umfang og lengd verksins sé samkvæmt áður afhendri verkáætlun verkkaupa.
Ath.: öll verð eru á vsk.
Leigutaki en ekki stjórnandi ber fulla ábyrgð á borprammanum á meðan hann er utan hafnar Kópavogs.
Leigutaki sér stjórnendum borprammans fyrir fæði og húsnæði og lögbundnum matar- og kaffihléum á meðan á verkinu stendur.
Verkkaupi sér stjórnendum borprammans fyrir bifreið og eldsneyti á hana á meðan á verkinu stendur. Þessi bíll verði eingöngu notaður af stjórnendum borprammans á verktímanum.“
Kjartan sagði að Áslaug og Gifford Miller hafi samþykkt þennan leigusamning og engar athugasemdir komið fram af þeirra hálfu. Rætt hafi verið um tímakaup starfsmanna stefnanda og orðið samkomulag um að þeir fengju 2.500 krónur í kaup á tímann í dagvinnu og 3.500 krónur í eftirvinnu. Þessar fjárhæðir hafi hann ritað á samninginn. Kjartan sagði að til hafi staðið að hann færði tímagjaldið inn í samninginn í tölvu sinni og að því búnu myndu aðilar skrifa undir. Af því hafi þó ekki orðið, aðallega vegna þess að fyrirsvarsmenn stefnda hafi horfið til sinna starfa úti á landi en hann sjálfur verið mjög upptekinn við verk úti á Faxaflóa þetta sumar.
Á þessum fundi hafi einnig verið samþykkt af hálfu stefnda að stefnandi fengi greidda tvo daga vegna þeirra breytinga sem stefnandi hafði gert á prammanum að ósk stefndi. Hafi þurft að smíða ýmislegt aukalega til þess að koma búnaði stefnda fyrir á prammanum og hafi það verið gert eftir fyrirmælum Chris Delahunty sem sett hafi borinn upp á prammann. Hins vegar standi smíði prammans að öðru leyti fyrir utan reikningsgerð stefnanda.
Í leigusamningi segir að einn léttabátur fylgi prammanum. Kjartan sagði að það hafi átt að vera nægilegt til þess að setja ankeri út og til þess að færa prammann úr stað á vatni. Á fundi aðila daginn fyrir brottför hafi Áslaug og Gifford Miller óskað eftir öðrum bát fyrir vísindafólkið til þess að geta stundað dýptamælingar, flytja borkjarna í land og til annarra snúninga. Kjartan lýsti léttabátnum sem fylgdi prammanum sem 8-10 manna opnum báti með utanborðsmótor. Viðbótarbáturinn var af sömu gerð en nokkuð minni. Þá var bætt í verkið þriðja bátnum og var sá úr áli og stærstur þeirra þriggja. Þessa tvo báta leigði stefnandi hjá Köfunarþjónustu Árna Kópssonar ehf. og er sú leiga innifalin í reikningsgerð stefnanda. Kjartan réði þrjá starfsmenn að þessu verkefni, þá Sigurð Stefánsson, Hafstein og Fróða Jóhannsson. Sagði Kjartan að Sigurður hafi verið ráðinn sem prammastjóri en hinir tveir, sem báðir hafi verið um tvítugt, verið til aðstoðar við ýmis störf úti á vatni og í landi. Sigurður hafi átt að stjórna öllum búnaði á prammanum og leggja út ankeri í nánu samstarfi við borstjórann Vance Hiatt.
Það óhapp hafi hent á Hestvatni að eitt anker hafi losnað sem leitt hafi til þess að pramminn hafi færst úr stað með þeim afleiðingum að borinn hafi brotnað. Sagði Kjartan að fjögur ankeri hafi verið á prammanum sem sett hafi verið niður til þess að gera hann stöðugri á meðan borun hafi staðið yfir. Ankerin séu sett skáhalt út til þess að ná sem mestum stöðuleika og síðan sé strekkt á reipinu. Í málsvörn stefnda komi fram að stefndi telji Sigurð bera ábyrgð á þessu óhappi. Það telur Kjartan hins vegar að fáist ekki staðist. Hið rétta sé að borstjórinn Vance Hiatt hafi strekkt alltof mikið á reipinu og við það hafi ankerið skotist upp úr leirbotninum. Togvinda prammans sé miklu öflugri en hald ankerisins í slíkum botni. Því geti þetta gerst ef of mikið sé strekkt á böndum. Það sé hlutverk borstjóra að meta hvenær hann telji prammann nógu stöðugan. Þegar þetta óhapp hafi gerst hafi hann farið upp að Hestvatni og átt fund með vísindafólkinu. Hafi verið ákveðið að þau myndu alfarið stjórna útsetningu ankera og hafi það verið meinalaust af hans hálfu. Þá hafi hann útvegað þyngri ankeri og lengri reipi.
Sigurður Stefánsson sagði fyrir dómi að hann væri vélstjóri að mennt og hafi verið til sjós í sjö ár sem stýrimaður og vélstjóri. Þá hafi hann réttindi til köfunar. Hann hafi unnið með Kjartani að nokkrum verkefnum, meðal annars við boranir á Faxaflóa og við boranir í Sandgerðishöfn. Hans verkefni hafi verið að setja prammann saman við vötnin og taka hann í sundur fyrir flutning. Hann hafi séð um flutning prammans milli vatna og sett hann saman á borstað. Þá hafi hann stillt prammann af með ankerum í samráði við bormann. Hann sagðist ekki hafa tekið ákvarðanir um þessi efni á eigin spýtur heldur látið bormann ráða algjörlega ferðinni enda hann sérfræðingur á þessu sviði. Aldrei hafi risið ágreiningur milli þeirra og aldrei hafi bormaður eða aðrir af rannsóknaraðilum kvartað undan hans störfum. Vinnudagurinn hafi oft verið langur og oft hafi starfsmenn stefnanda þurft að vinna lengur en hinir. Hafi þá verið unnið við ýmiskonar undirbúning fyrir næsta dag og starfsmenn stefnanda þá orðið eftir á vettvangi en aðrir farið heim á gistiheimili. Nokkuð mál væri gert úr því í greinargerð stefnda að reipi hafi slitnað og það valdið töfum. Þetta sé ekki rétt þar sem reipi hafi aðeins slitnað tvisvar sinnum og þeim þá splæst saman. Þetta hafi aðeins valdið nokkurra klukkustunda töf og fljótlega hafi Kjartan útvegað ný og lengri reipi og eftir það hafi engin vandamál komið upp í þeim efnum.
Við borun á Hvítárvatni hafi hann tekið þá ákvörðun í samráði við Kjartan að fá þriðja bátinn. Hafi hann séð að öðruvísi myndi verkið ekki ganga vegna þess að veður hafi verið vont og léttabátarnir tveir ekki ráðið við verkefnið. Þetta hafi verið stór álbátur og hafi hann meðal annars verið notaður í að ýta ísjökum úr skriðjöklinum frá prammanum. Það hafi verið hans mat að þetta hafi verið nauðsynlegt til þess að verkið hefði eðlilegan framgang.
Af hálfu stefnanda gáfu Fróði Jóhannesson, starfsmaður stefnanda, og Árni Kópsson einnig skýrslu fyrir dómi.
III.
Eins og áður sagði gerði stefnandi stefnda tvo reikninga meðan á verkinu stóð, annan að fjárhæð 638.032 krónur sem stefndi greiddi 23. júní 2003 og hinn að fjárhæð 3.884.400 krónur sem stefndi greiddi 21. júlí 2003 eða samtals 4.522.432 krónur. Kemur fram á seinni reikningnum að hann sé vegna Hestvatns og Haukadalsvatns. Lokareikningur stefnanda er að fjárhæð 6.495.788 krónur. Sundurliðast hann svo að höfuðstóll sé 5.717.500 krónur, greitt hafi verið inn á hann 500.000 krónur og virðisaukaskattur sé 1.278.288 krónur, eða samtals 6.495.788 krónur.
Í tíma- og tækjaskýrslu stefnanda er reikningurinn sundurliðaður nánar. Kemur þar fram nákvæm tímaskráning starfsmanna stefnanda, þeirra Sigurðar, Fróða og Hafsteins. Þessi tímaskráning er byggð á dagbókarfærslum Sigurðar á vettvangi en þar er gerð enn frekari grein fyrir við hvað var unnið á hverjum degi, hvenær verk hófst að morgni og hvenær því lauk að kvöldi. Í þessari tímaskýrslu er jafnframt sundurliðun á vinnu Kjartans við verkefnið og gerði hann nánari grein fyrir vinnu sinni í skýrslu sinni fyrir dómi og með framlagðri vinnuskýrslu.
Samtals nema umkrafðir dagvinnutímar 217 stundum á 2.500 krónur pr. klukkustund eða 542.500 krónur. Yfirvinnustundir eru 498 á 3.500 krónur klukkustundin eða 1.743.000 krónur. Samtals nemur krafa stefnanda því 2.285.500 krónur vegna vinnu starfsmanna stefnanda.
Tækjaskýrsla stefnanda sundurliðast þannig:
Prammi...................... 4.5 dagar x 120.000....................... 540.000 kr.
Prammi........................29 tímar x 12.000............................348.000 kr.
Prammi........................7.5 dagar x 120.000........................900.000 kr.
Prammi........................11 tímar x 12.000............................132.000 kr.
Lyftari..........................6 dagar x 25.000.............................150.000 kr.
Rafsuða.......................28.5 dagar x 9.000...........................256.500 kr.
Akstur.........................14 einingar x 2.500........................... 35.000 kr.
Efni...................................................................................... 25.000 kr.
Vesti.................................................................................... 25.000 kr.
Bátaleiga og þjónusta.........................................................1.020.500 kr.
Samtals 3.432.000 kr.
Vinnuliður stefnukrafna nemur því 2.285.500 krónum og tækjaliður 3.432.000 krónum eða samtals 5.717.500 krónum sem er höfuðstóll reiknings stefnanda án virðisaukaskatts.
Í tímaskýrslu stefnanda er sundurliðuð leiga á pramma samkvæmt þeim samningi aðila sem stefnandi heldur fram að komist hafi á. Þannig eru tíundaðar þær aukaklukkustundir sem pramminn var notaður umfram það sem getið er um í samningi og byggist sú skráning á dagbók Sigurðar Stefánssonar. Á sama hátt eru sundurliðaðir tímar sem fóru í rafsuðu, notkun lyftara og akstur.
Í reikningi Köfunarþjónustu Árna Kópssonar ehf. kemur fram að léttabátur hafi verið leigður í 20 daga á 15.000 krónur á dag eða 300.000 krónur. Álbáturinn hafi verið leigður í 18 daga á 20.000 krónur á dag eða samtals 360.000 krónur. Þá er jafnframt getið um viðgerðarþjónustu í reikningnum að fjárhæð 360.500 krónur. Í fylgiskjali kemur fram og jafnframt í dómskýrslu Árna Kópssonar að þrisvar sinnum hafi þurft að fara á vettvang og skipta um mótor og skrúfu á bátunum.
IV.
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi eigi enga fjárkröfur á hendur honum. Öllum málsástæðum og staðhæfingum stefnanda er mótmælt sem ósönnuðum. Dagvinnu- og yfirvinnustundafjölda starfsmanna stefnanda og notkunartíma pramma og annarra tækja og sundurliðun þeirra er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Hinum umstefndi reikningi er mótmælt sem röngum og tilhæfulausum og alltof háum og ósamrýmanlegum efni, leigu- og verksamnings aðila og þeim forsendum sem eðlilegt og sanngjarnt sé að leggja til grundvallar uppgjöri í viðskiptum aðila. Þá beri að líta til þess að forsvarsmaður stefnanda, Kjartan Hauksson, hafi atvinnu af prammaleigu og tengdri vinnu og beri að líta til þess við túlkun á leigu- og verksamningi aðila.
Ekki sé ágreiningur um að daggjald skyldi vera 120.000 krónur fyrir leigu á prammanum og að notkunartími hans á daggjaldi skyldi vera 11 klukkustundir innan hvers sólarhrings. Ágreiningur sé hins vegar um hvort þessar 11 klukkustundir skyldu vera einhverjar sérstakar stundir hvers sólarhrings eða ekki. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að samið hafi verið um að þetta skyldi vera einhverjar sérstakar stundir. Sanngjarnt og eðlilegt sé að daggjald fyrir prammann sé ekki bundið tilteknum tíma dags.
Samkvæmt vinnuskýrslum Vance Hiatt og Doug Schnurrenberger hafi pramminn ekki verið notaður lengur en þar komi fram.
Samkvæmt samningi aðila hafi léttabátur átt að fylgja prammanum. Stefndi byggir á því að skilja beri þetta ákvæði samningsins svo að einn léttabátur hafi átt að duga til að draga prammann. Hafi það verið í samræmi við fullyrðingar forsvarsmanns stefnanda. Þær fullyrðingar hafi hins vegar ekki staðist. Þess vegna sé greiðsluskyldu vegna kostnaðar við bátaleigu mótmælt. Þá hafi komið í ljós að ekki hafi reynst öruggt að leggja út ankeri með eingöngu einum báti. Pramminn hafi því ekki talist vera verkhæfur með einum báti og því ekki í samningsbundnu ástandi. Þetta hafi forsvarsmaður stefnanda átt að vita enda verkefnið kynnt fyrir honum ítarlega. Stefndi hafi hins vegar fallist á að honum beri að greiða fyrir leigu á léttabáti sem leigður hafi verið aukalega í tíu daga á Hvítárvatni.
Miklar bilanir hafi komið fram á bátum og bátamótorum. Allur kostnaður vegna léttabáts sem fylgt hafi prammanum eigi að falla undir leigugjald á prammanum. Mótmælt er greiðsluskyldu vegna viðgerðarkostnaðar og þjónustu fyrir bátana.
Pramminn hafi verið leigður með stjórnanda samkvæmt samningi aðila. Ágreiningur sé um hvaða tímagjald beri að leggja til grundvallar vegna vinnu stjórnandans og aðstoðarmanna hans. Stefndi hafi samþykkt tímagjald að fjárhæð 2.500 krónur fyrir dagvinnu og 3.500 krónur fyrir yfirvinnu en forsenda þess hafi verið að það væru sérfræðingar sem ynnu á prammanum. Á daginn hafi hins vegar komið að stjórnandi prammans og aðstoðarmenn hans hafi ekki haft reynslu, þekkingu eða menntun til að stjórna prammanum. Þá hafi þeir ekki haft þekkingu til að stjórna ankerismálum við þær aðstæður sem fyrir hendi voru.
Reynsluleysi starfsmanna stefnanda hafi haft dýrkeypt mistök í för með sér og ollið töfum á verkinu. Sigurður Stefánsson hafi ekki haft þekkingu til að setja út ankeri við þær aðstæður sem hafi verið á Hestvatni í júní 2003. Hann hafi ekki lagt ankerin út nógu langt miðað við dýpi vatnsins til þess að halda prammanum stöðugum með þeim afleiðingum að eitt ankeri hafi losnað og borinn brotnað. Tjónið vegna borsins hafi fengist bæst úr bandarískum vísindasjóði en tafir hafi hins vegar orðið á verkinu. Þessar tafir hafi leitt til þess að stefndi hafi þurft að hætta við að bora í fjórða vatnið sem hafi verið Vatnsdalsvatn á Barðaströnd.
Greiðsluskyldu fyrir dagvinnu- og yfirvinnustundir starfsmanna stefnanda er mótmælt. Þær séu miklu fleiri en borstjórans sem þó hafi unnið lengstan vinnudag. Fara beri eftir vinnuskýrslum Vance Hiatt og Doug Schnurrenberger í þessu sambandi. Byggt er á því að vinnustundir starfsmanna stefnanda hafi ekki verið fleiri en þar komi fram.
Alfarið sé hafnað greiðsluskyldu vegna umkrafinna vinnustunda Kjartans Haukssonar, forsvarsmanns stefnanda. Kjartan hafi ekkert unnið við verkefnið öfugt við það sem hann hafi í upphafi staðhæft. Einu skiptin sem hann hafi komið á staðinn hafi verið þegar tæki á hans vegum hafi bilað eða handvömm og vankunnátta annarra starfsmanna hans hafi leitt til þess að eitthvað hafi farið úrskeiðis varðandi verkefnið. Með sömu málsástæðum og rökum sé mótmælt greiðsluskyldu vegna aksturs Kjartans.
Stefndi mótmælir því að honum beri að greiða leigugjald fyrir prammann á undirbúningstíma. Stefndi hafi staðið í þeirri trú að verið væri að leigja prammann tilbúinn til verkefnisins. Leigutökum hafi ekki verið gerð grein fyrir því að greiða þyrfti fyrir undirbúning prammans og fyrir breytingar sem þyrfti að gera á honum. Í þessu sambandi bendir stefndi á að Kjartan hafi samið drög að leigusamningi og hvergi í þeim samningi sé minnst á slíkan kostnað. Með sömu málsástæðum og rökum mótmælir stefndi greiðsluskyldu vegna vinnu og viðhalds á tækjum og tólum, svo sem ankerum og fleiru. Samkvæmt samningi aðila hafi pramminn átt að vera tilbúinn til verksins og tól og tæki innifalin í leigugjaldi. Reipi hafi ekki reynst nógu löng og ekki verið nógu sterk svo þau hafi slitnað. Hnútar sem hafi myndast við splæsingar hafi stoppað á vindum og orsakað vandamál við stillingar á ankerum. Viðhald og viðgerðir, þar með talin rafsuða, á þessum tækjum séu á ábyrgð stefnanda.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta í dómkröfum stefnanda. Ekki hafi verið fyrirfram samið um gjalddaga í viðskiptum aðila og þótt aðilar hafi átt í viðræðum um hvað gæti talist rétt og sanngjörn fjárhæð reikningsins, þá hafi stefnandi aldrei gert kröfu um greiðslu hans. Það hafi hann fyrst gert með símskeyti lögmanns stefnanda sem stefndi hafi móttekið 20. nóvember 2003. Því sé ekki heimilt að krefjast dráttarvaxta fyrr en að liðnum mánuði frá þeim tíma. Til vara byggir stefndi á því að ekki sé heimilt að dæma dráttarvexti fyrr en 30. nóvember 2003 þar sem hinn umdeildi reikningur hafi ekki borist stefnda fyrr en 30. október sama ár.
V.
Símaskýrslur voru teknar af vitnunum Áslaugu Geirsdóttur, Gifford H. Miller, Vance Hiatt og Doug Schnurrenberger sem öll búa í Bandaríkjunum. Í máli þeirra kom meðal annars fram að Kjartan hafi samið drög að leigusamningi og borið undir Áslaugu sem hafi verið verkefnisstjóri og Gifford H. Miller sem hafi verið aðstoðarverkefnisstjóri. Þetta hafi verið daginn áður en lagt hafi verið af stað upp að Hestvatni sem hafi verið fyrsta verkefni þeirra. Þau hafi gert athugasemdir á þessum fundi við ákvæði samningsins um að tímagjald fyrir prammann skyldi reiknast fyrir klukkan 8:00 og eftir klukkan 19:00. Þau hafi hins vegar ekki gert athugasemdir við fjárhæð daggjalds eða fjárhæð tímagjalds vegna leigu prammans. Þau hafi óskað eftir að gera þá breytingu á samningnum að daggjald prammans væri miðað við 11 stundir á dag og það skipti ekki máli hvenær sólarhringsins sú notkun væri. Þá hafi þau heldur ekki gert athugasemdir við tímakaup starfsmanna stefnanda enda hafi Kjartan kynnt starfsmenn sína sem sérfræðinga á þessu sviði. Annað hafi hins vegar komið á daginn. Á þessum fundi hafi einnig fyrst komið í ljós að Kjartan hafi ekki ætlað að stjórna prammanum sjálfur eins og þau höfðu gert ráð fyrir. Í framburði Kjartans kom fram um þetta atriði að aldrei hafi staðið til að hann sjálfur yrði í þessu verkefni.
Í framburði fjórmenningana kom jafnframt fram að þau töldu það hafa verið í verkahring Sigurðar Stefánssonar að stjórna prammanum og setja út ankeri svo pramminn yrði nógu stöðugur. Auk þess hafi Kjartan lagt á það áherslu að Sigurður stjórnaði ankerismálum. Ágreiningur hafi komið upp um borð um verklag og hafi Sigurður þá tekið af skarið og sagt að hann réði. Í ljós hafi komið að reipin í ankerunum hafi verið of stutt og því ekki unnt að setja þau út á ská eins og nauðsynlegt hafi verið. Gripið hafi verið til þess ráðs að splæsa reipum saman en þá hafi þau fests þegar verið var að vinda upp í gegnum blakkirnar.
Þegar borinn hafi brotnað á Hestvatni hafi verið gott veður og lítilsháttar gola. Kjartan hafi verið kallaður á fund og málin rædd. Hann hafi samþykkt að vísindafólkið tæki alfarið yfir stjórn á ankerum og því verki að skorða prammann af fyrir borun.
Rætt hafi verið um léttabáta á fundinum áður en lagt hafi verið af stað úr bænum. Gifford hafi spurt Kjartan hvort að hann gæti útvegað einn léttabát til viðbótar og Kjartan samþykkt það. Síðar hafi komið í ljós að þessir tveir bátar hafi ekki dugað til þess að færa prammann úr stað og hafi stefnandi þá komið með þriðja bátinn. Sá bátur hafi verið notaður í tíu daga á Hvítárvatni. Þau hafi talið að þessi bátur væri innifalinn í samningi aðila því ekki hafi verið unnt að bora nema koma prammanum á borstað. Bátarnir hafi aðeins bilað í meðförum Sigurðar enda hafi hann ekki farið mjúkum höndum um þá. Auk þess hafi starfsfólk stefndasvo til eingöngu notað minnsta bátinn og mótor hans hafi aldrei bilað.
Vitnin töldu að fjögurra daga seinkun hafi orðið á verkinu í heild sinni þegar allar tafir væru teknar saman, þ.e. óhappið með borinn, vandamál með reipi og fl.
Auk ofangreindra komu fyrir dóminn af hálfu stefnda Þorsteinn Jónsson og Sigurður Guðnason, starfsmenn stefnda.
VI.
Sumarið 2003 réðist Áslaug Geirsdóttir prófessor á vegum stefnda og í samvinnu við dr. Gifford H. Miller við Háskólann í Colorado í Bandaríkjunum í verkefni sem fólst í því að rannsaka þróun veðurfars á Íslandi með kjarnatöku úr setlögum þriggja stöðuvatna á Íslandi. Borbúnaður var leigður af bandarísku fyrirtæki og komu tveir menn með bornum til landsins, annar til þess að setja borinn upp á pramma en hinn, Vance Hiatt, til þess að stjórna bornum á vettvangi. Þriðji útlendingurinn, Doug Schnurrenberger, tók þátt í verkefninu og hefur borið vitni í málinu.
Fram hefur komið að stefnandi hefur langa reynslu af borun á pramma úti á sjó. Að sögn Áslaugar hefur ekki áður verið borað á vötnum á Íslandi með þessum hætti. Áslaug leitaði til Kjartans Haukssonar, forsvarsmanns stefnanda, og með þeim tókst samkomulag um að stefnandi útvegaði pramma í verkefnið og mannskap til þess að stjórna prammanum og sjá um rekstur hans, þ.á m. að taka hann í sundur fyrir flutning milli vatna og setja hann saman á ný.
Af framlögðum gögnum má sjá að samskipti aðila fóru að nokkru leyti fram með tölvupósti og hófust þau samskipti í febrúar 2003. Ljóst var þá orðið að smíða þyrfti sérstakan pramma fyrir verkefnið og í tölvupósti aðila skiptust þau á tæknilegum upplýsingum um smíði prammans og hvernig koma ætti bornum og öðrum búnaði fyrir á prammanum. Strax í upphafi bað Áslaug Kjartan um kostnaðaráætlun og ítrekaði þá beiðni síðar. Þeirri beiðni var ekki svarað af hálfu Kjartans en fyrir dómi sagði hann að þau hafi rætt kostnað símleiðis og hann tjáð henni að hann gæti ekki gert kostnaðaráætlun vegna svona verkefnis sem væri einskonar tilraunarverkefni með mörgum óvissuþáttum.
Pramminn var smíðaður á vegum stefnanda og stendur sá kostnaður fyrir utan reikningsgerð stefnanda enda pramminn í eigu hans.
Borinn og annar búnaður kom til landsins 12. júní 2003 og hófst þá vinna við að koma honum fyrir á prammanum. Þeirri vinnu lauk 16. júní og þann 17. júní var haldið af stað að Hestvatni.
Aðilar eru sammála um að daginn fyrir brottför hafi Kjartan, Áslaug og Gifford átt fund saman. Tilefni fundarins var að ganga frá samningi um störf stefnanda en Kjartan var þá búinn að gera drög að leigusamningi. Segir Kjartan að þau Áslaug og Gifford hafi samþykkt drögin í einu og öllu og ákveðið hafi verið að Kjartan færði inn í samninginn laun starfsmanna fyrir dagvinnu og eftirvinnu og að því búnu myndu aðilar skrifa undir samninginn. Af því varð hins vegar ekki. Áslaug segir aftur á móti að þau Gifford hafi gert eina athugasemd við samningsdrögin, þ.e. það ákvæði að leigutími prammans væri bundinn við ákveðinn tíma á dag, frá klukkan 8:00 til klukkan 19:00. Hafi þau viljað miða daggjaldið við ellefu stundir á dag án þess að sérstakur tími væri tiltekinn. Að öðru leyti hafi þau samþykkt samninginn, þ.m.t. laun starfsmanna stefnanda að fjárhæð 2.500 krónur á klukkustund fyrir dagvinnu og 3.500 krónur á klukkustund fyrir eftirvinnu. Þegar þau hafi samþykkt þessar fjárhæðir hafi þau staðið í þeirri trú að Kjartan myndi sjálfur stjórna prammanum og að aðrir starfsmenn stefnanda væru einnig sérfræðingar. Kjartan segir aftur á móti að það hafi aldrei staðið til að hann sjálfur stjórnaði prammanum en hann hafi hins vegar fengið sérfræðing til þess.
Eins og sjá má af framansögðu lögðu forsvarsmenn stefnda af stað í þetta verkefni án þess að ganga frá skriflegum samningi við stefnanda. Flest öll þau atriði sem nú er deilt um og sem stefndi teflir fram í vörn sinni hefði mátt ganga frá í samningi áður en verkið hófst. Þá virðist stefndi ekki hafa fylgst með tímaskráningu stefnanda, hvorki fyrir dagvinnu eða eftirvinnu né vegna rafsuðu, en algengt er að verkkaupi skrifi upp á og samþykki slíka skráningu í lok hvers dags, sérstaklega þegar verktaki og verkkaupi vinna samhliða að verki. Stefndi lét allt framangreint undir höfuð leggjast og hefur það vissulega áhrif á sönnunarstöðu í málinu. Verður því að fylgja þeirri meginreglu laga og dómaframkvæmd að telja reikning stefnanda réttan nema stefndi sýni fram á með mati eða öðrum sannarlegum hætti að reikningur stefnanda sé bersýnilega of hár og ósanngjarn. Sönnunarbyrðin um ranga reikningsgerð stefnanda hvílir því á stefnda.
Verður nú málsástæðum stefnda gerð skil í þeirri röð sem þær koma fram í greinargerð stefnda.
1. Stefndi mótmælir ekki daggjaldi fyrir leigu á prammanum að fjárhæð 120.000 krónur en telur sanngjarnt og eðlilegt að daggjaldið miðist við 11 stundir á sólarhring og þá skipti ekki máli hvenær sólarhringsins pramminn sé í notkun. Stefndi þykir eiga sönnunarbyrðina fyrir því að svona hafi verið samið. Sú sönnun hefur ekki tekist og verður því að miða við ákvæði leigusamningsins enda þykir skilningur stefnanda á þessu atriði eðlilegur og sanngjarn, þ.e. að daggjald miðist við ákveðinn tíma á dag. Reikningsgerð stefnanda vegna prammans byggist á dagbókarfærslu Sigurðar Stefánssonar sem stjórnaði prammanum. Þessi dagbókarfærsla er ítarleg og hefur henni ekki verið hnekkt af hálfu stefnda. Ber því að taka þessa tímaskráningu stefnanda til greina.
2. Deilt er um þá léttabáta sem notaðir voru við verkefnið en alls komu þrír bátar að verkinu þegar mest var. Í samningi aðila segir að daggjald prammans miðist við leigu borpramma ásamt léttabáti. Byggir stefndi á því að skilja verði þetta ákvæði samningsins þannig að léttabáturinn sem fylgdi hafi átt að duga til að draga prammann. Það hafi verið í samræmi við fullyrðingar forsvarsmanns stefnanda. Stefndi mótmælir greiðsluskyldu vegna leigu á hinum bátunum tveimur. Pramminn hafi ekki verið verkhæfur með einvörðungu einum báti og því ekki í samningsbundnu ástandi.
Fram hefur komið í málinu að Áslaug og Gifford óskuðu eftir aukabáti fyrir starfsfólk stefnda á áðurnefndum fundi aðila. Kjartan samþykkti að útvega slíkan bát en leigugjald var ekki rætt. Kjartan útvegaði bát frá Köfunarþjónustu Árna Kópssonar ehf. sem gerði reikning vegna þessara viðskipta að fjárhæð 300.000 krónur. Kjartan greiddi þennan reikning og gerir nú kröfu um greiðslu hans í þessu máli. Samkvæmt framansögðu kom fram við aðalmeðferð að þessi bátur var fenginn að beiðni Áslaugar og Giffords og ber stefnda því að greiða fyrir notkun hans og þar sem stefndi hefur ekki sýnt fram á að þessi krafa sé ósanngjörn verður hún tekin til greina. Þá liggur fyrir að Kjartan útvegaði þriðja bátinn, sem var þeirra stærstur og öflugastur, og gaf þá skýringu að öðruvísi hefði verkið ekki gengið. Prammastjórinn Sigurður Stefánsson hafi metið það svo að þetta væri nauðsynlegt til þess að verkið hefði eðlilegan framgang. Sagði Kjartan að sér hafi dugað einn bátur í borunarverkefni á sjó en í ljós hafi komið að aðstæður hefðu verið erfiðari við þetta verkefni og nauðsyn á þriðja bátnum. Hafi þurft fleiri báta til að setja út ankeri en einnig til þess að ýta ísjökum frá prammanum á Hvítárvatni.
Ekki er unnt að túlka leigusamning aðila þannig að einn léttabátur hafi átt að vera nægilegur til þess að sinna verkefninu. Fram hefur komið að ekki hafiði áður verið unnið með þessum hætti á íslenskum vötnum. Gegn mótmælum forsvarsmanns stefnanda þykir ósönnuð sú staðhæfing stefnda að forsvarsmaður stefnanda hafi lofað að einn bátur myndi duga. Þá verður einnig að líta til þess að stefndi gerði ekki athugasemd við það þó þriðji báturinn bættist við. Stefndi hafði og not af bátnum við rannsóknarverkefnið. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að fjárhæð reikningsins sé ósanngjörn og verður reikningurinn því tekinn til greina.
3. Fram hefur komið að vélar bátanna biluðu nokkrum sinnum og leigusali þurft að gera við vélarnar og skrúfur. Litið verður svo á að sú þjónusta eigi að vera innifalin í leigu nema öðruvísi sé samið um. Auk þess þykir nægilega fram komið að það voru starfsmenn stefnanda sem stjórnuðu umræddum bátum sem biluðu. Þessi krafa stefnanda að fjárhæð 360.500 krónur verður því ekki tekin til greina.
4. Stefndi telur umkrafið tímagjald of hátt. Stefndi viðurkennir þó að hafa samið um 2.500 krónur fyrir dagvinnu og 3.500 krónur fyrir eftirvinnu en það tímagjald hafi verið miðað við að stefnandi legði til sérfræðinga til verksins. Þessi fullyrðing stefnda telst ósönnuð og fyrir liggur einnig að Sigurður Stefánsson, sem stjórnaði prammanum, er sérfræðingur í þeim skilningi að hann er vélstjóri að mennt og með reynslu af borun á sjó. Stefndi hefur að öðru leyti ekki sýnt fram á að umkrafið tímagjald sé ósanngjarnt fyrir útselda vinnu.
5. Ósönnuð þykir sú fullyrðing stefnda að það hafi verið Sigurði Stefánssyni að kenna að ankeri losnaði með þeim afleiðingum að borinn brotnaði. Þykir nægilega komið fram í málinu að um óhapp var að ræða enda hefur stefndi ekki sýnt fram á í hverju vankunnátta Sigurðar hafi átt að vera fólgin. Gagnkrafa stefnda vegna tafa á verkinu vegna þessa verður því ekki tekin til greina.
6. Stefndi mótmælir greiðsluskyldu fyrir dagvinnu og yfirvinnustundir starfsmanna stefnanda og vill miða við vinnuskýrslur Vance Hiatt og Doug Schnurrenberger. Þær vinnuskýrslur fjalla hins vegar ekki um störf starfsmanna stefnanda heldur svo til eingöngu um rannsóknarverkefnið og sérstaklega hvernig gekk að bora. Tímaskráning stefnanda byggist aftur á móti á dagbók Sigurðar Stefánssonar þar sem skráð er hvenær dags starfsmenn stefnanda hófu störf og hvenær þeir hættu að kvöldi. Þá er einnig skráð við hvað þeir unnu. Þessi tímaskráning verður lögð til grundvallar enda hefur stefndi ekki hnekkt henni.
Stefndi mótmælir einnig greiðsluskyldu vegna dag- og yfirvinnustunda Kjartans Haukssonar. Kjartan hefur gert grein fyrir tímaskrift sinni á framlögðum vinnuskýrslum og í skýrslu sinni fyrir dómi. Þessi krafa verður því tekin til greina.
7. Stefndi mótmælir tíma,- tækja- og vinnuskýrslum stefnanda sem röngum. Það er álit dómsins að stefnandi hafi gert nægilega grein fyrir þessum atriðum undir rekstri málsins og í skýrslum við aðalmeðferð.
8. Stefndi mótmælir greiðsluskyldu vegna vinnu stefnanda við undirbúning prammans undir verkefnið. Stefndi segist hafa staðið í þeirri trú að hann væri að leigja pramma sem væri tilbúinn undir verkefnið. Umrædd verk voru breytingar á prammanum að ósk stefndi og verður krafa vegna þessara vinnu tekin til greina.
Stefndi mótmælir greiðsluskyldu vegna vinnu og viðhalds á tækjum tengdum prammanum. Í samningi aðila er ekki kveðið á um hvernig með þetta atriði skyldi fara. Þykir því rétt að skýra samninginn þannig að öll þjónusta stefnanda við stefndi, sem beinlínis er ekki kveðið á um í samningi aðila, standi fyrir utan samninginn. Krafa stefnanda varðandi þessi atriði verður því tekin til greina.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina að öðru leyti en því að krafa hans vegna viðgerðar á hinum leigðu bátum að fjárhæð samtals 360.500 krónur verður ekki tekin til greina. Stefndi verður því dæmd til þess að greiða stefnanda 6.135.288 krónur (6.495.788 - 360.500) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2003 til greiðsludags, en stefnandi skoraði fyrst á stefnda að greiða skuldina með skeyti 20. nóvember 2003. Til frádráttar dæmdum fjárhæðum koma greiðslur að fjárhæð 2.187.220 krónur sem greidd var 12. mars 2004 og 1.016.658 krónur sem greidd var 17. mars 2004 og Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 650.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, greiði stefnanda, Sjóverki ehf., 6.135.288 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2003 til greiðsludags og 650.000 krónur í málskostnað, allt að frádregnum 2.187.220 krónum sem greiddar voru 12. mars 2004 og 1.016.658 krónum sem greiddar voru 17. mars 2004.