Hæstiréttur íslands
Mál nr. 393/2015
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Greiðsla
- Riftun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2015. Hann krefst þess að viðurkennd verði riftun frá 14. maí 2014 á 19 nánar greindum greiðslum Marmetis ehf. til stefnda á tímabilinu frá 18. apríl 2013 til 4. nóvember sama ár samtals 90.500.000 krónur og að stefnda verði gert að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ágreiningslaust er að stefndi og Marmeti ehf. voru nákomnir í skilningi 5. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bátur stefnda, Örn KE 14, landaði afla hjá Marmeti ehf., sem hóf rekstur fiskvinnslu í febrúar 2013. Félagið keypti einnig afla á fiskmarkaði fyrir vinnslu sína. Bátur stefnda landaði fyrst afla hjá Marmeti ehf. 18. febrúar 2013 og mun hafa gert það síðast um miðjan október sama ár. Stefndi gerði Marmeti ehf. reikning um mánaðamót vegna fisksölu undangengins mánaðar og kom fram á hverjum reikninganna hver gjalddagi hans væri og jafnframt eindagi, sem tilgreindur var sjö dögum eftir gjalddaga. Af gögnum málsins má sjá að Marmeti ehf. greiddi reikningana ekki á eindaga, heldur innti óreglulega af hendi hlutagreiðslur til stefnda. Þá lagði stefndi Marmeti ehf. til rekstrarfé sem hann kveður hafa verið skammtímalán til félagsins. Voru fjárhæðir þessara framlaga verulegar. Vegna vanskila Marmetis ehf. á greiðslum reikninga fyrir landaðan fisk og áðurgreindra framlaga stefnda var félagið í skuld við hann allt frá því í febrúar 2013. Sú skuld hækkaði fljótlega en samkvæmt viðskiptamannabókhaldi stefnda var skuldin í lok febrúar 9.500.789 krónur, í lok mars 40.627.900 krónur, í lok apríl 60.227.518 krónur, í lok maí 64.776.872 krónur, í lok júní 44.276.872 krónur, í lok júlí 66.576.872 krónur, í lok ágúst 82.176.872 krónur, í lok september 91.503.177 krónur, í lok október 77.656.973 krónur og loks um miðbik nóvember er viðskiptum lauk 79.156.973 krónur.
II
Krafa áfrýjanda um riftun tekur til 19 af þeim 23 greiðslum sem Marmeti ehf. innti af hendi til stefnda á tímabilinu frá janúar til nóvember 2013. Reisir hann kröfu sína bæði á því að þær greiðslur hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var og að þær hafi skert greiðslugetu félagsins verulega. Séu greiðslurnar því riftanlegar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. sömu greinar, þar sem um greiðslur milli nákominna var að ræða. Þá reisir hann riftunarkröfu sína einnig á 141. gr. sömu laga svo sem rakið er í héraðsdómi.
Hið gjaldþrota félag innti greiðslur sínar af hendi eftir eindaga þeirra reikninga sem um ræðir, oft löngu síðar og þá einungis með hlutagreiðslum. Ekki kom fram á greiðsluskjölum, að frátöldu einu tilviki, hvort verið væri að greiða inn á reikninga vegna fiskkaupa eða endurgreiða skammtímalán, sem stefndi kveðst sem fyrr segir hafa veitt félaginu. Þá ber einnig að líta til þess, sem að framan er lýst, að Marmeti ehf. var jafnan í verulegri skuld við stefnda og fóru innborganir félagsins aldrei á tímabilinu nærri því að greiða að marki niður skuldina. Hefur áfrýjandi engin haldbær rök fært fyrir því að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt var.
Á hinn bóginn verður fallist á að greiðslur Marmetis ehf., sem um ræðir, hafi skert greiðslugetu félagsins verulega svo sem fjárhag þess var háttað og að því leyti farið í bága við 1., sbr. 2. mgr., 134. gr. laga nr. 21/1991. Á þetta einkum við um þær greiðslur sem félagið innti af hendi til stefnda í október 2013, en er leið á þann mánuð hætti stefndi að mestu reglulegri starfsemi sinni. Síðasta löndun Arnar KE 14 hjá Marmeti ehf. mun hafa verið 13. þessa mánaðar. Aftur á móti verður að taka tillit til þess að stefndi lagði Marmeti ehf. til fé og hélt því áfram í október og byrjun nóvember þetta ár, samtals 16.500.000 krónur í þeim tveimur mánuðum. Auk þess nam reikningur vegna löndunar í september 13.726.305 krónum og í október 3.153.796 krónum eða samtals 16.880.101 krónu. Þótt sjá megi af gögnum málsins að skuld Marmetis ehf. við stefnda hafi lækkað frá 2. október úr 98.003.177 krónum í 79.156.973 krónur 16. nóvember, þegar félagið var hætt rekstri að mestu, ber að líta til þess að skuldin var 20. september þetta ár 77.776.872 krónur en hækkaði svo í byrjun október, vegna áðurnefnds reiknings fyrir landaðan fisk í september og framlaganna frá stefnda, í þær 98.003.177 krónur sem áður greinir. Af framangreindu er ljóst að skuld Marmetis ehf. við stefnda var nánast hin sama 16. nóvember 2013 og hún var 20. september sama ár.
Samkvæmt framanröktu verða greiðslur þær sem áfrýjandi krefst riftunar á taldar venjulegar eftir atvikum og verða ekki metnar sjálfstætt án tillits til reikninga frá stefnda fyrir landaðan afla báts hans og framlaga hans í formi skammtímalána til rekstrar hins gjaldþrota félags. Þótt eingöngu væri miðað við reikninga vegna landaðs afla Arnar KE 14 liggur fyrir að skuld Marmetis ehf. vegna þess, að teknu tilliti til allra greiðslna félagsins til stefnda, var um 16.000.000 krónur þegar yfir lauk. Með vísan til alls framangreinds verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna því að greiðslurnar séu riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991.
Þá verður hvorki talið, með vísan til þess sem áður greinir, að greiðslurnar hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa né að öðrum skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt svo riftun verði viðurkennd. Skiptir máli í því sambandi að stefndi tapaði 79.156.973 krónum á viðskiptum sínum við Marmeti ehf. þá tíu mánuði sem þau stóðu og hefur sú krafa verið samþykkt sem almenn krafa í þrotabúið. Er það næst hæsta krafan í þeim flokki í kröfuröð á eftir kröfu móðurfélags Marmetis ehf., Unga ehf., sem nam 361.725.284 krónum. Samkvæmt gögnum málsins eru samþykktar almennar kröfur í þrotabúið 599.011.192 krónur auk 115.191 evru.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, þrotabú Marmetis ehf., greiði stefnda, Sólbakka hf., 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2015.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 17. október 2014 og tekið til dóms 7. maí sl. Stefnandi er þrotabú Marmetis ehf., Skólavörðustíg 12, Reykjavík, en stefndi er Sólbakki hf., Hafnargötu 90, Sandgerði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að þola riftun hinn 14. maí 2014 á eftirtöldum greiðslum sem inntar voru af hendi frá Marmeti ehf. til stefnda: Hinn18. apríl 2013 að fjárhæð 20.000.000 króna, hinn 14. maí 2013 að fjárhæð 2.000.000 króna, hinn 24. maí 2013 að fjárhæð 6.000.000 króna, hinn 7. júní 2013 að fjárhæð 25.000.000 króna, hinn 4. júlí 2013 að fjárhæð 200.000 krónur, hinn 4. júlí 2013 að fjárhæð 500.000 krónur, hinn 27. ágúst 2013 að fjárhæð 400.000 krónur, hinn 20. september 2013 að fjárhæð 1.500.000 krónur, hinn 20. september 2013 að fjárhæð 2.900.000 krónur, hinn 4. október 2013 að fjárhæð 6.500.000 krónur, hinn 15. október 2013 að fjárhæð 3.000.000 króna, hinn 15. október 2013 að fjárhæð 3.000.000 króna, hinn 16. október 2013 að fjárhæð 1.000.000 króna, hinn 16. október 2013 að fjárhæð 4.000.000 króna, hinn 17. október 2013 að fjárhæð 3.000.000 króna, hinn 17. október 2013 að fjárhæð 4.000.000 króna, hinn 23. október 2013 að fjárhæð 3.000.000 króna, hinn 24. október 2013 að fjárhæð 2.000.000 króna og hinn 4. nóvember 2013 að fjárhæð 2.500.000 krónur.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 90.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júní 2014 til greiðsludags.
Loks gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi með inniföldum áhrifum 25,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu í málinu og málskostnaðar að skaðlausu.
I
Bú Marmetis ehf, stefnanda í máli þessu, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði sem kveðinn var upp 18. febrúar 2014. Sama dag var skiptastjóri skipaður í þrotabúinu. Frestdagur í búinu er 30. janúar 2014. Innköllun var gefin út og birtist í fyrsta sinn 27. febrúar 2014 og lauk kröfulýsingarfresti 27. apríl 2014.
Aðaleigandi stefnda með 60% hlutafjár er Örn Erlingsson. Eigandi stefnanda, með 100% hlutafjár, er Ungi ehf. og stjórnarformaður félagsins er Örn Erlingsson. Eigandi Unga ehf. með 100% hlutafjár er einnig Örn Erlingsson. Ekki er deilt um í málinu að aðilar málsins eru nákomnir í skilningi ákvæða 5. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Málavextir eru að öðru leyti þeir að Marmeti ehf. var stofnað 30. mars 2012. Á árinu 2012 og í byrjun árs 2013 byggði félagið upp fiskvinnsluhús í Sandgerði og hóf rekstur. Stefndi á bátinn Örn KE-14 og aflaði hann hráefnis fyrir Marmeti ehf. og seldi félaginu en auk þess keypti Marmeti ehf. hráefni á fiskmarkaði. Landanir Arnar KE-14 hjá Marmeti ehf. hófust 18. febrúar 2013. Marmeti ehf. hætti kaupum á afla í október 2013 og síðasta löndum bátsins hjá Marmeti ehf. var 13. október 2013. Marmeti ehf. hætti rekstri fljótlega upp úr því.
Stefnandi segir að við skoðun á reikningum þrotabúsins hafi komið í ljós millifærslur þar sem fjármunir höfðu verið færðir af reikningum stefnanda yfir á reikning stefnda, sem stefnandi telur riftanlegar, samtals að fjárhæð 90.500.000 krónur. Af hálfu stefnda er því haldið fram að þessar greiðslur hafi allar verið vegna fiskkaupa Marmetis ehf. af stefnda og að þær séu ekki riftanlegar.
II
Stefnandi byggir kröfu sína á því að ofangreindar greiðslur hafi verið reiddar af hendi fyrr en eðlilegt var og að fjárhæðin sem reidd var af hendi hafi skert greiðslugetu þrotabúsins verulega. Aldrei hafi verið samið um ákveðnar endurgreiðslur, aðrir kröfuhafar hafi auk þess ekkert fengið í sinn hlut og því hafi greiðslurnar falið í sér mismunun á kröfuhöfum.
Skilyrði fyrir riftun séu því óumdeilanlega fyrir hendi en um það vísar stefnandi til 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var, auk þess sem fjárhæðin hafi skert greiðslugetu þrotabúsins verulega. Skilyrði 134. gr. séu sjálfstæð og nægi að einu þeirra sé fullnægt svo að riftun megi ná fram að ganga svo fremi að greiðslan teljist ekki venjuleg eftir atvikum. Á engan hátt geti umræddar greiðslur talist venjulegar eftir atvikum.
Varðandi það að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var megi benda á að hvorki hafi verið samið um endurgreiðslur né ákveðna gjalddaga milli Marmetis ehf. og stefnda. Hefði því verið nær að kröfur með umsamda gjalddaga hefðu verið greiddar á þessum tíma.
Um dagsetningar greiðslnanna vísist til 2. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga en þar segi að krefjast megi riftunar á greiðslum til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag en stefnandi og stefndi séu nákomin félög í skilningi 5. tl. 3. gr. laga nr. 91/1991.
Um fjárhagsstöðu Marmetis ehf. á þessum tíma sé ljóst að eigendur og fyrirsvarsmenn stefnda, sem jafnframt voru eigendur og fyrirsvarsmenn Marmetis ehf., máttu gera sér grein fyrir að þær fjárhæðir, sem greiddar voru, skertu greiðslugetu félagsins verulega og að greiðslurnar voru ekki eðlilegar því að á sama tíma greiddi félagið ekki öðrum kröfuhöfum. Félagið hafi því ekki verið gjaldfært. Þeim hafi því verið fullljóst að þessar ráðstafanir voru á ótilhlýðilegan hátt stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa félagsins og leiddu til þess að eignir félagsins voru ekki kröfuhöfum þess til reiðu til fullnustu krafna þeirra. Greiðslurnar hafi því verið öðrum kröfuhöfum til tjóns. Því sé riftunin jafnframt byggð á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Stefnandi bendir á að lýstar kröfur í þrotabúið séu 1.115.000.000 króna. Þar sem félagið hafi aðeins verið rekið í um átta mánuði, eða frá febrúar til október 2013, sé ljóst að umræddar greiðslur hafi verið reiddar af hendi á sama tíma og háar kröfur mynduðust á hendur félaginu sem ekki voru greiddar.
Endurgreiðslukrafa stefnanda eigi sér stoð í 142. gr. laga nr. 21/1991. Dráttarvaxta sé krafist frá því mánuði eftir að stefndi var sannanlega krafinn um endurgreiðslu á umræddum greiðslum en vísað sé í reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta skattinn af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og því beri honum nauðsyn til að tekið sé tillit til skattskyldunnar við ákvörðun málskostnaðar. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.
III
Stefndi bendir á að allar greiðslur, sem stefnandi krefst riftunar á í máli þessu, hafi verið innborganir Marmetis ehf. á viðskiptaskuld félagsins við stefnda vegna afurðakaupa Marmetis ehf. af stefnda á tímabilinu febrúar til október 2013. Óumdeilt sé að Marmeti ehf. keypti og fékk afla af skipi stefnda á tímabilinu febrúar til og með október 2013. Kaupverð þess afla komi fram á framlögðum reikningum stefnda og hafi verið skuldfært á viðskiptareikning Marmetis ehf. hjá stefnda. Gjalddagar þeirra skuldfærslna komi fram á framlögðum reikningum. Allar greiðslur Marmetis ehf. til stefnda séu færðar sem innborganir á viðskiptareikning Marmetis ehf. hjá stefnda og lækki þar með viðskiptaskuld Marmetis ehf. við stefnda í samræmi við það. Þessar greiðslur Marmetis ehf. til stefnda nái þó aldrei að greiða upp viðskiptaskuld Marmetis ehf. vegna fiskkaupanna. Þannig komi fram í gögnum málsins að skuld Marmetis ehf. við stefnda hafi verið liðlega 79.000.000 króna þegar reikningnum var lokað. Á rekstrartímabilinu hafi stefndi aðstoðað Marmeti ehf. með samtals 63.000.000 króna greiðslu og ógreidd skuld Marmetis ehf. vegna fiskkaupa Marmetis ehf. af stefnda á tímabilinu hafi numið 16.000.000 króna.
Stefndi byggir á að það sé skilyrði riftunar greiðslna samkvæmt 134. grein laga nr. 21/1991 að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri. Stefnandi geti þess ekki sérstaklega að hann byggi riftunarkröfu sína á því skilyrði lagaákvæðisins en til öryggis tekur stefndi fram að greiðslur Marmetis ehf. til stefnda hafi farið fram með peningagreiðslum.
Annað skilyrði ákvæða 134. greinar laga nr. 21/1991 sé að skuld hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var. Af hálfu stefnda er byggt á því að gjalddagar afurðakaupa Marmetis ehf. hjá stefnda hafi verið útgáfudagur reiknings stefnda hverju sinni í lok mánaðarlegra úttekta. Eindagi hvers einstaks reiknings hafi verið sjö dögum seinna. Gjalddagar og eindagar hvers einstaks reiknings komi skýrt fram á reikningunum sjálfum. Marmeti ehf. hafi aldrei náð að greiða skuld sína á eindaga reikningsskuldarinnar á hverjum tíma og ennfremur ekki náð að greiða skuld sína vegna fiskkaupanna að fullu.
Marmeti ehf. hafi þannig aldrei á öllu viðskiptatímabilinu náð að greiða skuld sína vegna fiskkaupanna að fullu.
Það liggi fyrir í málinu samtíma skjalleg gögn sem sanni á ótvíræðan hátt að tilteknir gjalddagar og eindagar hafi verið ákveðnir í umræddum viðskiptum og greiðslur Marmetis ehf. til stefnda hafi verið fjarri því að vera nokkru sinni greiddar fyrr en eðlilegt var. Fyrir liggi að þær greiðslur, sem krafist sé riftunar á í málinu, hafi í öllum tilvikum farið fram eftir eindaga reikninganna. Þær greiðslur hafi allar gengið til lækkunar á skuld Marmetis ehf. við stefnda vegna fiskkaupanna en ekki náð að greiða skuldina að fullu. Skilyrði ákvæða 134. greinar laga nr. 21/1991 um að Marmeti ehf. hafi greitt stefnda einhverja eða allar umræddar greiðslur fyrr en eðlilegt var eigi því ekki við um viðskipti þessi.
Síðasti þáttur 1. mgr. 134 gr. laga nr. 21/991 um skilyrði riftunar fjalli um að greidd hafi verið fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Stefnandi byggi mál sitt á því að þessi skilyrði 134. greinar hafi verið fyrir hendi og bæti reyndar í og fullyrði í stefnu að aðrir kröfuhafar hafi auk þess ekkert fengið í sinn hlut og að greiðslurnar hafi falið í sér mismunun á kröfuhöfum.
Sú fullyrðing í stefnu að aðrir kröfuhafar hafi ekki fengið neitt í sinn hlut sé röng. Þessi fullyrðing stefnanda stangast á við gögn málsins. Þar komi fram að rekstur félagsins hafi verið í fullum gangi á þessu tímabili. Auk viðskipta við fjölmarga aðila og greiðslna til þeirra á umræddu tímabili hafi Marmetis ehf. keypt afla af nokkrum aðilum sem allir hafi fengið þau afurðakaup að fullu greidd. Stefndi hafi verið eini seljandi afla til Marmeti ehf. á þessu tímabili sem ekki hafi fengið að fullu greitt.
Það sé markmið riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 að tryggja jafnræði kröfuhafa þrotamanns þannig að enginn þeirra hagnist á ráðstöfunum hans í aðdraganda gjaldþrots umfram aðra kröfuhafa. Það sé ágreiningslaust í málinu að stefndi seldi Marmeti ehf. afla af skipi sínu Erni KE 14 frá febrúar til október 2013, afla sem Marmeti ehf. nýtti sér í rekstri sínum. Þau viðskipti hafi leitt til þess að mynda og auka afurðatekjur stefnanda sem aftur hafi orðið til þess að auka greiðslugetu stefnanda í stað þess að skerða hana eins og stefnandi haldi nú fram. Það hafi bæði verið umsamið og fyllilega eðlilegt að Marmeti ehf. greiddi kaupverð aflans sem Marmeti ehf. keypti af stefnda.
Í málatilbúnaði stefnanda sé þess ekki getið að Marmeti ehf. keypti afla af öðrum á sama tíma og félagið keypti afla af stefnda. Þess sé heldur ekki getið að kaupverð þess afla hafi að fullu verið greitt allan tímann. Frekar hafi hallað á stefnda í þessum viðskiptum en ekki öfugt. Til þessa beri að líta samkvæmt grundvallarreglum gjaldþrotaskiptaréttar um mat á aðstæðum. Stefndi hafi notið tengsla sinna við eiganda Marmetis ehf. umfram aðra kröfuhafa á neikvæðan hátt fyrir stefnda þegar dráttur varð á greiðslu kaupverðs afla af stefnda fram yfir eindaga og haldið var áfram að afhenda Marmeti ehf. afla þrátt fyrir það. Greiðslur þær sem inntar voru af hendi, bæði fjárhæð greiðslna og greiðsludagur, beri það með sér að stefndi hafi verið aftarlega, ef ekki aftast, í forgangsröð móttakenda greiðslna hverju sinni allt umrætt tímabil.
Engan efnislegan rökstuðning sé að finna í stefnu eða gögnum fyrir því að greiðslur þær, sem greiddar voru til stefnda hverju sinni, hafi verið óeðlilegar eða óvenjulegar miðað við aðstæður hverju sinni. Þess utan sé engin tilraun gerð til þess að tengja greiðslur frá stefnda til Marmetis ehf. við atvik máls þessa. Peningagreiðslur stefnda til Marmetis ehf. hafi verið gerðar til stuðnings uppbyggingu rekstrar Marmetis ehf.á hliðstæðan hátt og gert hafi verið af öðrum fyrirtækjum tengdum eiganda Marmetis ehf. á þeim tíma, greiðslur sem allar sjáist samþykktar á framlögðu kröfuyfirliti. Þrátt fyrir þessa aðstoð við uppbyggingu félagsins hafi eigendur Marmetis ehf. og stefnda enga ástæðu haft til að ætla að Marmeti ehf. stefndi í greiðsluþrot eða gjaldþrot. Það hafi ekki verið fyrr en í lok janúarmánaðar 2014 sem þær aðstæður hafi komið upp sem leiddu til gjaldþrotabeiðni Marmetis ehf. Allt til þess tíma hafi verið unnið markvisst að því að styrkja stoðir rekstrar Marmetis ehf. Innborgun stefnda til Marmetis ehf. hinn 16. nóvember 2013 sé gott dæmi þar um.
Af hálfu stefnda er á því byggt að Marmeti ehf. hafi verið gjaldfært allt til loka janúarmánaðar 2014 í skilningi ákvæða 2. mgr. 134. greinar laga nr. 21/1991 og það þrátt fyrir greiðslurnar sem riftunarkrafan nær til. Sú lagagrein eigi því ekki við í máli þessu og þegar af þeirri ástæðu komi ekki til framlengingar þar greinds frests.
Af því sem að framan er rakið sjáist að skilyrði ákvæða 134. greinar laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi. Það leiði til sýknu stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Stefnandi byggi mál sitt einnig á ákvæðum 141. greinar laga nr. 21/1991. Framangreindar málsástæður stefnda fyrir sýknukröfu riftunar á grundvelli ákvæða 134. gr. eigi einnig við um 141. gr.
Í málinu hafi verið lagður fram rekstrarreikningur Marmetis ehf. frá janúar 2013 til loka október 2013. Þar komi fram að söluverðmæti afurða félagsins hafi numið 522.000.000 króna frá febrúar til október árið 2013. Þannig hafi rekstur félagsins að mörgu leyti gengið vel í upphafi rekstrar. Í þessum reikningi komi þó fram að tap hafi orðið á rekstrinum í heild þennan tíma og hafi þá þegar verið hugað að endurbótum og endurskipulagningu á honum. Það hafi hins vegar komið í ljóst seinni hluta árs 2013 að tveir af stærri viðskiptamönnum Marmetis ehf. brugðust þegar á leið árið, auk þess sem lægra skilaverð fékkst fyrir afurðir verksmiðjunnar frá þessum viðskiptamönnum en gert hafði veri ráð fyrir í upphafi. Háar greiðslur frá þeim viðskiptamönnum hafi einnig dregist úr hófi þegar á leið árið 2013. Ekki hafi komið í ljós fyrr en í desember 2013 að þær greiðslur fengjust ekki án málshöfðunar. Innheimtuaðgerðir Marmetis ehf. hafi hafist þá þegar og hafi skiptastjóri tekið við meðferð þeirra mála. Þessar aðstæður hafi af augljósum ástæðum alls ekki verið fyrir hendi við upphaf rekstrar stefnanda. Umfang þessa og afleiðingar hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir lok rekstrar Marmetis ehf. Eigandi Marmetis ehf. hafi talið allt til enda janúar 2014 að unnt væri úr að bæta. Stefndi byggir á því að gögn málsins sýni og sanni ótvírætt að Marmeti ehf. hafi ekki orðið ógjaldfært í skilningi ákvæða 141. greinar laga nr. 21/1991 fyrr en í lok janúar 2014 þegar tilraunir eiganda félagsins til að endurskipuleggja efnahag þess í samstarfi við Íslandsbanka hf. náðu ekki fram að ganga. Stefnda kemur á óvart að því sé nú haldið fram í stefnu máls þessa að eigendum stefnda og Marmetis ehf., sem lögðu Marmeti ehf. til fé án vaxtafærslna allt til loka nóvember mánaðar 2013, óveðtryggða fjárhæð samtals að fjárhæð 440.000.000 króna, hafi verið það fulljóst, svo notað sé orðalag stefnu, að þeir væru að gera öðrum kröfuhöfum einhverjar ótilhlýðilegar ráðstafanir þeim til tjóns í upphafi rekstrar Marmetis ehf. og eða á rekstrartíma stefnanda.
Af því sem að framan er rakið, þ. á m. undir umfjöllun um ákvæði 134. greinar laga nr. 21/199, sjáist að skilyrði ákvæða 141. gr. laganna til riftunar greiðslna Marmetis ehf. til stefnda séu ekki fyrir hendi. Það leiði til sýknu stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Verði krafa stefnanda tekin til greina, að hluta til eða öllu leyti, krefst stefndi skuldajafnaðar kröfu hans á hendur stefnanda við kröfu stefnanda á grundvelli ákvæða 1. mgr. 100. greinar laga 21/1991, sbr. ákvæði 28. grein laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varðandi ákvörðun dómsins um málskostnað sé vísað til ákvæða c liðar 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna þess að stefnandi hafi haft uppi efnislega rangar staðhæfingar um lykilþætti máls þessa svo sem að framan sé rakið. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til ákvæða laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, 134. gr., 141. gr., 1. mgr. 99. gr. og 1. mgr. 100. gr. Þá er ennfremur vísað til 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, almennra reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð og fleira og almennra reglna gjaldþrotaskiptaréttar. Krafa um málskostnað byggist á ákvæðum 129., 130. og c lið 131. greinar laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Bú Marmetis ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 18. febrúar 2014 og var frestdagur í búinu 30. janúar 2014. Þrotabúið höfðar mál þetta til riftunar á greiðslum til stefnda að fjárhæð samtals 90.500.000 krónur sem greiddar voru á tímabilinu 18. apríl 2013 til 4. nóvember 2013.
Stefnandi reisir kröfu sína um riftun aðallega á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en einnig á 141. gr. laganna. Ekki er ágreiningur um að aðilar málsins eru nákomnir í skilningi 5. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991.
Marmeti ehf. byggði upp fiskvinnsluhús í Sandgerði og hóf rekstur í byrjun árs 2013. Samið var um milli aðila að bátur í eigu stefnda, Örn KE 14, aflaði Marmeti ehf. hráefnis en auk þess keypti Marmeti ehf. fisk á fiskmarkaði. Landanir bátsins hjá Marmeti ehf. hófust 18. febrúar 2013 og síðasta löndun var 13. október 2013. Samkvæmt gögnum málsins virðist Marmeti ehf. hafa hætt rekstri fljótlega upp úr því. Í málinu er deilt um greiðslur Marmetis ehf. til stefnda sem stefnandi heldur fram að séu riftanlegar en stefndi telur eðlilegar og venjulegar greiðslur vegna hráefniskaupa Marmetis ehf. af stefnda.
Í málinu hefur verið lögð fram útprentun úr viðskiptamannabókhaldi stefnda þar sem fram kemur viðskiptareikningur Marmetis ehf. hjá stefnda fyrir tímabilið 7. janúar 2013 til 16. nóvember 2013. Á þessum reikningi má sjá að stefndi lánaði Marmeti ehf. fé til rekstursins á framangreindu tímabili, rúmlega 63.000.000 króna. Hefur komið fram í málinu að það var vegna náinna tengsla félaganna en Örn Erlingsson á 60% hlutafjár í stefnda og var einn eigandi stefnanda í gegnum einkahlutafélagið Unga ehf. Framangreint lán var liður í fjármögnun Marmetis ehf.
Á viðskiptamannareikningi Marmetis ehf. hjá stefnda koma einnig fram útgefnir reikningar stefnda vegna afurðakaupa Marmetis ehf. hjá stefnda. Eru þeir samtals að fjárhæð 97.050.331 króna, dagsettir á tímabilinu 27. mars 2013 til 31. október 2013.
Loks sýnir viðskiptamannareikningur Marmetis ehf. hjá stefnda millifærslur frá Marmeti ehf. til stefnda á tímabilinu 18. apríl 2013 til 4. nóvember 2013, samtals að fjárhæð 90.000.500 krónur sem deilt er um í málinu.
Stefndi heldur því fram að framangreindar millifærslur hafi allar verið greiðslur vega fiskkaupa Marmetis ehf. af stefnda. Fyrsta greiðsla að fjárhæð 20.000.000 króna, dags. 18. apríl 2013, er í millifærslukvittun skýrð út sem greiðsla á fiski. Allar aðrar millifærslur eru hins vegar án skýringa. Vitnið Guðni Þór Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að við færslu bókhalds Marmetis ehf. hafi verið litið svo á að umkrafðar greiðslur hefðu verið greiðslur vegna fiskkaupa Marmetis ehf. af stefnda.
Í máli þessu eru málavextir sérstakir að því leyti að fiskverkunarfyrirtækið Marmeti ehf. starfaði aðeins í um átta mánuði á árinu 2013. Félagið byggði fiskvinnsluhús í Sandgerði og eru aðilar sammála um að það hafi verið mjög fullkomið. Fjárfesting Marmetis ehf. í tækjabúnaði á árinu 2012 og 2013 nam samtals 817.000.000 króna samkvæmt bókhaldi félagsins. Fyrirtækjasvið KPMG vann viðskipta- og fjárhagsáætlun fyrir félagið fyrir árin 2013 til 2017. Félagið naut fjármögnunar frá Íslandsbanka hf. Í framlögðum gögnum má sjá að félagið var á árinu 2013 í uppbyggingu og verið var að fjármagna það á þessu tímabili. Frá júní 2013 og fram í nóvember 2013 studdi stefndi Marmeti ehf. með lánveitingu samtals að fjárhæð rúmlega 63.000.000 króna. Þessi fjárveiting stefnda til Marmetis ehf. var liður í að byggja fyrirtækið upp og fjármagna það. Á svipuðu tímabili fóru hin umdeildu viðskipti fram.
Stefnandi reisir kröfur sínar um riftun greiðslna til stefnda á 134. gr. laga nr. 21/1991 og heldur því fram að ofangreindar greiðslur hafi verið reiddar fram fyrr en eðlilegt var og að þær hafi skert greiðslugetu þrotabúsins verulega. Ekki hafi verið samið um ákveðnar endurgreiðslur og aðrir kröfuhafar hafi ekkert fengið í sinn hlut. Greiðslurnar geti því ekki talist venjulegar eftir atvikum.
Nægjanlega er komið fram í málinu að hinar umdeildu greiðslur voru greiðslur Marmetis ehf. vegna fiskkaupa af stefnda og gefnir voru út reikningar vegna kaupanna. Á reikningunum voru tilgreindir gjalddagar og eindagar. Marmeti ehf. greiddi aldrei á umsömdum tíma, heldur ætíð eftir á með samtals 19 innborgunum á tímabilinu 18. apríl 2013 til 4. nóvember 2013. Við gjaldþrot Marmetis ehf. stóð félagið enn í skuld við stefnda vegna hráefniskaupa. Því fær sú málsástæða stefnanda ekki stoð í gögnum málsins að greitt hafi verið fyrr en um var samið og ekki hafi verið samið um ákveðnar endurgreiðslur.
Stefndi útvegaði Marmeti ehf. hráefni til vinnslu í fiskvinnsluhúsi sínu. Með því jók Marmeti ehf. verðmæti aflans sem væntanlega hefur komið öðrum kröfuhöfum til góða. Marmeti ehf. greiddi stefnda fyrir aflann eins og öðrum sem félagið keypti fisk af. Umkrafðar greiðslur Marmetis ehf. til stefnda voru því venjulegar eftir atvikum í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Í öðru lagi styður stefnandi riftunarkröfu sína sjálfstætt við 141. gr. laga nr. 21/1991 og byggir á að ráðstöfunin hafi skert greiðslugetu Marmetis ehf. verulega. Greiðslurnar hafi ekki verið eðlilegar eftir atvikum því á sama tíma hafi Marmeti ehf. ekki greitt öðrum kröfuhöfum. Félagið hafi því ekki verið gjaldfært. Fyrirsvarsmönnum þess hafi verið fullljóst að þessar ráðstafanir voru á ótilhlýðilegan hátt stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leiddu til þess að eignir félagsins voru ekki kröfuhöfum þess til reiðu til fullnustu krafna þeirra. Greiðslurnar hafi verið kröfuhöfum til tjóns og um það hafi fyrirsvarsmenn Marmetis ehf. vitað.
Hér að framan er það rakið að Marmeti ehf. starfaði aðeins í um átta mánuði á árinu 2013. Félagið var því í uppbyggingu þegar umkrafðar greiðslur til stefnda áttu sér stað. Enda þótt Marmeti ehf. hafi samkvæmt efnahagsreikningi 31. október 2013 og rekstrarreikningi janúar til október 2013 verið rekið með umtalsverðu tapi var samt sem áður verið að reyna að styrkja reksturinn, m.a. með fjárframlögum stefnda, um 63.000.000 króna, alveg fram í nóvember 2013. Ekki verður því fallist á með stefnanda að umkrafðar greiðslur Marmetis ehf. til stefnda tengist gjaldþroti félagsins og vitneskju fyrirsvarsmanna Marmetis ehf. um að vera kynni að félagið stefndi í gjaldþrot, enda bera greiðslurnar ekki keim af því að tilgangur þeirra hafi verið að mismuna kröfuhöfum, heldur ætlaðar til að greiða fyrir hráefni sem væntanlega nýttist öðrum kröfuhöfum í meiri verðmætum þegar aflinn hafði verið unninn. Á sama tíma greiddi Marmeti ehf. öllum öðrum sem félagið keypti fisk af. Verður því ekki fallist á með stefnanda að ráðstafanir Marmetis ehf. hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra eða að öðrum skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt í málinu.
Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu og eftir þeim málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 1.000.000 króna í málskostnað. Ekki hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunna Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Sólbakki hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Marmetis ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.