Hæstiréttur íslands

Mál nr. 323/2005


Lykilorð

  • Hylming
  • Vitni
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. desember 2005.

Nr. 323/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Jóni Andra Júlíussyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Hylming. Vitni. Skilorðsrof.

J hafði viðurkennt að hafa tekið við þremur fartölvum af bróður sínum, A, sem hafði stolið þeim út verslun. Við yfirheyrslu A hafði þess ekki verið gætt að gefnu tilefni að benda honum á þann rétt að mega skorast undan því að tjá sig um atriði sem gætu falið í sér refsiverða háttsemi bróður hans, sbr. b. lið 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð opinberra mála. Við mat á sönnun varð því hvorki byggt á skýrslu A í málinu, né framburði þess lögreglumanns sem tók lögregluskýrsluna, líkt og gert hafði verið í héraðsdómi. J hafði neitað því að hafa gert sér grein fyrir að tölvurnar væru stolnar. Talið var að J hafi hlotið að vera ljóst að varningurinn væri þýfi, þótt ósannað væri að honum hafi verið ljóst að tölvunum hafi verið stolið úr umræddri verslun, eins og honum var gefið að sök í ákæru. Var háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið var til brots ákærða, sakaferils hans og þess að um skilorðsrof var að ræða, þótti ekki koma til greina að skilorðsbinda refsingu hans. Var J dæmdur til sjö mánaða fangelsisvistar en fimm mánaða skilorðsdómur var dæmdur með.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. júlí 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara mildunar á refsingu.

          Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur ákærði viðurkennt að hafa síðla aðfaranætur 9. janúar 2005 tekið við þremur fartölvum, samtals að verðmæti tæpar 700 þúsund krónur af bróður sínum, A, sem hafði stolið þeim fyrr um nóttina úr tilgreindri verslun. Var A dæmdur fyrir þann verknað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2005. Við aðalmeðferð í máli því sem hér er til meðferðar skoraðist A undan því að bera vitni. Í forsendum héraðsdóms er við mat á sönnun á sekt ákærða meðal annars byggt á framburði A fyrir lögreglu og vætti þess lögreglumanns sem tók skýrsluna af honum. Við þá yfirheyrslu var A yfirheyrður sem sakborningur. Þess var ekki gætt að gefnu tilefni að benda honum á þann rétt að mega skorast undan því að tjá sig um atriði sem gætu falið í sér refsiverða háttsemi bróður hans, sbr. b. lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Við mat á sönnun verður því hvorki byggt á skýrslu hans í málinu, sbr. og meginreglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, né framburði þess lögreglumanns sem tók lögregluskýrsluna.

          Ákærði hefur neitað því að hann hafi gert sér grein fyrir að tölvurnar væru stolnar. Hann kvaðst hafa hringt á leigubíl fyrir A að heiman frá sér fyrr umrædda nótt og hafi A komið með tösku, sem ákærði hafi leyft honum að geyma í farangursrými bifreiðar sinnar. Kvaðst ákærði ekki hafa skoðað í töskuna fyrr en morguninn eftir og þá séð að í henni voru þrjár fartölvur. Hafi vantað rafhlöður í tvær þeirra. Hann kvaðst hafa farið með þriðju tölvuna til ónefnds vinar síns þar sem það hafi verið eina tölvan sem var í lagi. Aðspurður nánar hvers vegna hann hafi gert það svaraði ákærði: „Bara skoða hana, ég veit það ekki.“

          Af framburði ákærða fyrir dómi er ljóst að honum var fullkunnugt um að bróðir hans hafði áður hlotið refsidóma. Er fallist á með héraðsdómi að eins og hér var í pottinn búið hafi ákærða hlotið að vera ljóst að varningurinn, sem hann geymdi fyrir bróður sinn væri þýfi, þótt ósannað sé að honum hafi verið ljóst að tölvunum hafi verið stolið úr umræddri verslun, eins og honum er að sök gefið í ákæru. Varðar háttsemi hans við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði á að baki nokkurn sakaferil. Hann var dæmdur á árinu 1994 í fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað, en með þeim dómi var dæmt upp tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi samkvæmt dómi ári áður vegna nytjastuldar og umferðarlagabrota. Á árinu 1998 var hann dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði fyrir fíkniefnalagabrot. Þá var hann dæmdur 30. september 2004 í sex mánaða fangelsi, þar af fimm mánuði skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Loks hlaut hann dóm 11. febrúar 2005 fyrir þjófnað, en honum var ekki gerð refsing. Með broti sínu sem hér er fjallað um hefur ákærði rofið hinn skilorðsbundna hluta dómsins frá 30. september 2004. Verður því sá hluti dómsins tekinn upp og honum dæmd í einu lagi refsing í málinu, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 7 mánuði. Þegar litið er til brots ákærða, sakaferils hans og þess að um skilorðsrof er að ræða, þykir ekki koma til greina að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Jón Andri Júlíusson, sæti fangelsi í 7 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað í málinu í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 242.775 krónur, en það eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, á báðum dómstigum.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí sl., er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, á hendur ,,Jóni Andra Júlíussyni, kt. 220375-3669, Norðurfelli 11, Reykjavík, fyrir hylmingu með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 9. janúar 2005 að Norðurfelli 11 í Reykjavík tekið við 3 fartölvum samtals að verðmæti kr. 689.000 úr höndum A, kt. [...], þrátt fyrir að ákærða hafi verið ljóst að þeim hafði verið stolið úr versluninni Office One, Skeifunni 17 í Reykjavík um nóttina”. Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Málsatvik.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 9. janúar 2005 var lögregla send að Norðurfelli 11 að heimili ákærða, þann 9. janúar 2005, til að leita að þýfi úr innbroti í verslunina Office One. Áður hafði lögregla handtekið A, bróður ákærða, og lék grunur á að þýfið væri í vörslu ákærða. Ákærða var gerð grein fyrir tilefni afskipta lögreglu og játti ákærði því að hann væri með tvær fartölvur í farangursrými bifreiðar sinnar, sem stóð fyrir utan heimili hans að Norðurfelli. Ákærði sagði hina fartölvuna vera í geymslu hjá félaga sínum og kvaðst geta náð í hana. Hann fór fótgangandi frá heimili sínu að Æsufelli 2, þar sem hann náði í tölvuna. Ákærði tjáði lögreglu að bróðir hans, A, hefði komið um fimmleytið, nóttina áður, með þrjár tölvur, en A hafi jafnframt talað um að fjórða tölvan hefði orðið eftir í ruslagámi við Office One. Hafi ákærði lánað A fyrir leigubíl og geymt fyrir hann þýfið.

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af A 9. janúar 2005, er haft eftir A að hann viðurkenni að hafa brotist inn í Office One í Skeifunni og tekið þaðan fjórar fartölvur. Hann hafi haft samband við ákærða og beðið hann að sækja sig, en ákærði hafi sagt að hann gæti ekki sótt hann. Ákærði hafi hins vegar hringt á leigubíl fyrir hann og hafi A beðið leigubifreiðina að aka að Norðurfelli 11, þar sem ákærði búi. Ákærði hafi boðist til að geyma fyrir hann tölvurnar og hafi A sagt ákærða að hann hafi brotist inn í Office One. A kvaðst hafa komið með þrjár tölvur til ákærða. Ein tölva hafi orðið eftir á Sogaveginum í ruslageymslu, en A kvaðst hafa sótt hana næsta dag. Tómas Frosti Sæmundsson tók skýrslu þessa af A.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 9. janúar 2005. Hann kvað bróður sinn hafa komið til sín um fimmleytið nóttina áður með einhverja tösku fulla drasli. Ákærði hafi boðist til að geyma það fyrir hann og sett það í skottið á bílnum sínum. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvað var í töskunni, fyrr en næsta dag, er hann hafi kíkt í skottið á bílnum að hann hafi séð að þetta voru tölvur. Ákærði kvaðst hafa farið með eina af tölvunum að Æsufelli 2, en gat ekki skýrt hvers vegna hann hefði gert það. Ákærði kvað A ekki hafa tjáð sér hvernig tölvurnar voru fengnar.

A var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdur fyrir að hafa stolið 4 fartölvum úr Office One, aðfaranótt sunnudagsins 9. janúar 2005.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst neita sök, en kvað þýfið úr innbrotinu hafa fundist í bifreið hans. Hann kvað bróður sinn, A, hafa komið til hans um þrjú- eða fjögurleytið aðfaranótt 9. janúar, en ákærði hafði áður hringt á leigubifreið fyrir A. Ákærði kvaðst hafa verið dauðadrukkinn er bróðir hans kom til hans. A hafi ekki sagt honum hvaðan hlutir þeir væru, er A hafði meðferðis og hafi ákærði sagt A að henda þeim í skottið á bílnum sínum. Hann hafi ekki haft hugmynd um að hlutir þessir væru þýfi og neitaði því að A hefði sagt honum að um þýfi væri að ræða. Ákærði kvaðst hafa vísað lögreglu á þýfið í bifreið sinni. Hann hafi skoðað í bílinn daginn eftir. Þar hafi verið þrjár tölvur og kvaðst ákærði hafa farið með eina af tölvunum til vinar síns, en það hafi verið eina tölvan sem var í lagi. Hann hafi séð að það vantaði batterí i hinar tvær. Ákærði gat ekki skýrt hvers vegna hann hafi farið með eina tölvuna til vinar síns.

Vitnið, Haukur Sigmarsson lögreglumaður, kvaðst hafa komið að málinu á því stigi, er búið var að handtaka A og grunur hafi vaknað um að ætlað þýfi væri á heimili ákærða. Vitnið hafi farið þangað ásamt rannsóknarlögreglumönnum. Ákærði hafi vísað á tvær fartölvur í bifreið hans, sem stóð fyrir utan heimili ákærða. Ákærði hafi sagt að ein tölva væri geymd hjá vini ákærða og hafi ákærði farið og náð í hana. Á leiðinni niður á stöð hafi lögregla fengið vitneskju um að ein tölva væri ófundin, en ákærði hafi sagt bróður sinn hafa tjáð sér að hana væri að finna í gámi við Office One, hjá Skeifunni. Lögregla hafi leitað þar, en ekki fundið tölvuna. Vitnið staðfesti lögregluskýrslu sem það ritaði 9. janúar 2005 og liggur frammi í málinu.

Vitnið, A, kom fyrir dóminn og skoraðist undan vitnaskyldu á grundvelli 50. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Vitnið, Tómas Frosti Sæmundsson lögreglumaður, kvað A hafa tjáð lögreglu að bróðir hans, ákærði, hefði geymt tölvurnar. Vitnið staðfesti að hafa gert skýrslu þá sem liggur frammi í málinu af A. Vitnið las yfir skýrslu sína og var spurður um það hvort A hafi tekið svo til orða sem segir í skýrslunni: ,,Aðspurður hvort hann hafi sagt bróður sínum hvar hann hafi fengið tölvurnar þá segir hann að hann hafi sagt bróður sínum að hann hafi brotist inn í Office One.” Kvað vitnið það rétt að A hefði tekið svo til orða.

Niðurstaða.

Ákærði hefur játað að hafa, aðfaranótt 9. janúar 2005, samþykkt að geyma fyrir bróður sinn einhverja hluti og hafi ákærði sagt bróður sínum að setja þá í farangursrými bifreiðar ákærða. Ákærði hefur neitað að hafa vitað að munirnir væru fengnir með auðgunarbroti. Ákærði hefur jafnframt borið fyrir dómi að hann hafi skoðað muni þessa næsta dag og séð að um þrjár tölvur var að ræða.

Bróðir ákærða, A, var dæmdur 19. apríl 2005, fyrir þjófnað á 4 fartölvum úr Office One, þessa sömu nótt. Við mat á trúverðugleika framburðar ákærða kemur til skoðunar, að bróðir ákærða hefur að baki langan sakarferil og hefur ítrekað verið dæmdur fyrir auðgunarbrot. Þá verður að líta til þess að samkvæmt framburði ákærða sjálfs, kom bróðir ákærða til hans í leigubíl um hánótt, með tösku fulla af varningi og bað ákærða að geyma fyrir sig. Voru munirnir geymdir í farangursrými bifreiðar ákærða. Ákærði kvaðst hafa skoðað munina daginn eftir og kvað þá hafa komið í ljós að um þrjár fartölvur var að ræða. Ákærði fór með eina tölvuna til vinar síns og kvað ástæðu þess hafa verið að það hafi verið eina tölvan sem ekki var batteríslaus.

Það er mat dómsins að í ljósi framangreindra aðstæðna hafi ákærða hlotið að vera ljóst, að minnsta kosti þegar hann leit varninginn augum, að þeirra hafði verið aflað með auðgunarbroti.

Þá hefur vitnið, Tómas Frosti Sæmundsson, sem tók lögregluskýrslu af A, komið fyrir dóm og staðfest að A hefði sagt í yfirheyrslu að hann hefði farið til ákærða umrædda nótt, með tölvurnar og sagt ákærða að hann hefði brotist inn í Office One og stolið þaðan tölvunum.

Þegar framangreint er virt er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um hilmingu og brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga.

Viðurlög og sakarkostnaður.

Ákærði á að baki nokkurn sakarferil, en hann hlaut síðast 6 mánaða fangelsisdóm 30. september 2004, og voru 5 mánuðir skilorðsbundnir í 2 ár. Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur ákærði rofið skilorð dómsins. Ber með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp skilorðshluta dómsins, 5 mánuði, og ákveða refsingu ákærða í einu lagi fyrir bæði brotin, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða er með hliðsjón af framangreindu ákveðin 7 mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu 5 mánaða refsingarinnar og fellur sá hluti refsingarinnar niður, að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ekki verður séð að annan sakarkostnað hafi leitt af málinu en málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem eru ákveðin 75.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda María Stefánsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Jón Andri Júlíusson, sæti fangelsi í 7 mánuði, en frestað er fullnustu 5 mánaða refsivistarinnar og falli sá hluti refsingarinnar niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmar Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.