Hæstiréttur íslands
Mál nr. 381/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 17. október 2001. |
|
Nr. 381/2001. |
Ákæruvaldið(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
Kærumál. Ákæra. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Ný gögn í skilningi 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 höfðu komið fram eftir að lögreglustjóri felldi niður rannsókn gegn versluninni Y. Var því talið, að honum hefði verið heimilt að taka rannsóknina upp að nýju og höfða mál á hendur X, forsvarsmanni Y, til upptöku á tilteknu vopni, sem var í eigu Y. Samkvæmt þessu var frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara gert að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2001 var byssusmiður, sem starfaði hjá versluninni Y, sakfelldur fyrir vopnalagabrot með því að hafa í maí 2000 breytt tilteknum riffli í verslunni án tilskilins leyfis með því að útbúa hann með hljóðdeyfi. Í ákæru á hendur honum var gerð krafa um refsingu og upptöku riffilsins. Ákærði í því máli upplýsti við þingfestingu þess 23. apríl 2001 að riffillinn, sem verið hafði í eigu verslunarinnar, hafi verið seldur eftir breytinguna, en kaupin gengið til baka. Í þinghaldinu var einnig haft eftir fulltrúa ákæruvaldsins að það lægi nú fyrir að nafngreindur maður hefði keypt vopnið af versluninni en skilað því aftur og kaupin gengið til baka. Ekki var þó fallið frá kröfunni um upptöku riffilsins. Var þeirri kröfu á hendur byssusmiðnum vísað frá dómi, þar sem ekkert í málinu benti til þess „að munir þessir séu eða hafi nokkru sinni verið eign ákærða.“
Lögreglustjórinn í Reykjavík tilkynnti framkvæmdastjóra verslunarinnar Y, S, með bréfi 10. apríl 2001 að eins og málið horfði við þættu ekki efni til að halda rannsókn þess áfram að því er hann varðaði og væri henni því hætt með vísan til 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991. Af gögnum málsins verður ekki séð að lögreglustjóra hafi þá verið kunnugt um að verslunin væri eigandi riffilsins. Þær upplýsingar virðast fyrst hafa borist fulltrúa embættisins í fyrrgreindu þinghaldi 23. apríl 2001. Samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 er heimilt að taka rannsókn upp að nýju gegn sökunaut ef ný sakargögn eru fram komin. Þar sem ný gögn í skilningi þessa ákvæðis bárust um eignarhald verslunarinnar á rifflinum eftir að lögreglustjórinn í Reykjavík felldi niður rannsókn gegn henni var honum heimilt að taka rannsóknina upp að nýju og höfða mál á hendur varnaraðila sem forsvarsmanni verslunarinnar til upptöku á vopninu. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að vísa málinu frá dómi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2001.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 12. júní sl. “á hendur [ . . . ], X, [ . . . ] til þess að sæta upptöku á riffli með hljóðdeyfi, Marlin 882SS, nr. 01241368, sem er eign félagsins og lögreglan lagði hald á þann 12. maí 2000 á verkstæði í verslun félagsins í [ . . . ] þar sem starfsmaður félagsins hafði án tilskilins leyfis breytt rifflinum með því að útbúa hann með hljóðdeyfi og var vegna þess sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 38. gr. vopnalaga nr. 16,1998 með dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. maí 2001.
Þess er krafist að ákærði verði fyrir hönd Íslenskrar útivistar hf. dæmdur til að sæta upptöku samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga á framangreindum riffli með hljóðdeyfi.”
Málavextir.
Með ákæru dagsettri 10. apríl sl. höfðaði Lögreglustjórinn í Reykjavík opinbert mál á hendur starfsmanni verslunarinnar Y fyrir það að breyta riffli sem keyptur hafði verið hjá versluninni án tilskilins leyfis með því að útbúa hann með hljóðdeyfi. Í ákærunni var þess krafist að ákærði sætti refsingu og jafnframt var þess krafist að riffillinn með hljóðdeyfinum yrði “gerður upptækur”. Starfsmaður þessi var sakfelldur fyrir brotið en upptökukröfunni var vísað frá dómi. Sagði í dóminum, sem kveðinn var upp 10. maí sl., að þar sem munirnir hefðu ekki verið eign starfsmannsins hefði borið að höfða mál til upptöku þeirra á hendur eiganda eða eigendum þeirra og dygði ekki að gefa honum eða þeim kost á að gæta hagsmuna sinna í málinu, eins og ákæruvaldið hafði gert með því að tilkynna um þinghöld í því. Meðal gagna málsins er bréf sem lögreglustjóraembættið ritaði S, framkvæmdastjóra verslunarinnar Y, hinn 10. apríl sl. og tilkynnti honum: “Eins og mál þetta horfir við þykja eigi efni til þess að halda rannsókn þess áfram að því er yður varðar og er henni því hætt, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.”
Af hálfu ákærða er þess krafist að ákærunni verði vísað frá dómi þar sem dómur hafi þegar gengið um sakarefnið. Þá er á því byggt að lögreglustjóraembættið hafi ritað framkvæmdastjóra verslunarinnar bréf, þar sem honum hafi verið tilkynnt að málið hefði verið fellt niður að því er verslunina varðar. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að málið verði tekið til meðferðar og dóms um ákæruna.
Ákærði og S framkvæmdastjóri, eru báðir í fyrirsvari fyrir verslunina Y þar sem margnefndum riffli var breytt án heimildar yfirvalda. Þá verður að telja að framkvæmdastjóri verslunarinnar stæði nær því að bera refsiábyrgð ásamt starfsmanni verslunarinnar en stjórnarformaður félagsins sem hana á. Ekki verður séð að nein ný gögn hafi komið fram í málinu sem gætu réttlætt það að taka upp málið á hendur framkvæmdastjóranum, sbr. 3. mgr. 76. gr. oml. Álítur dómarinn að bréf þetta bindi einnig hendur ákæruvaldsins að því er ákærða varðar. Ber því að vísa ákæru í málinu frá dómi og leggja sakarkostnað af því á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun til Ásgeirs Þ. Árnasonar hrl., 50.000 krónur, á ríkissjóð.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun til Ásgeirs Þ. Árnasonar hrl., 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.