Hæstiréttur íslands

Mál nr. 137/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. mars 2002.

Nr. 137/2002.

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Y

(enginn)

 

Kærumál. Nauðungarvistun.

Hæstiréttur staðfesti ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að X skyldi vistaður nauðugur á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2002, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 7. sama mánaðar um að sóknaraðili skuli vistaður á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og allur kostnaður af málinu greiddur úr ríkissjóði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í greinargerð, sem talsmaður sóknaraðila lagði fram á dómþingi í héraði 13. mars sl., kemur fram að sóknaraðili hafi komið sjálfviljugur á geðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, en síðan verið haldið þar gegn vilja sínum þar til hann hafi verið vistaður nauðugur á geðdeildinni. Í vottorði Stefáns Steinssonar læknis 7. mars sl. kemur fram að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðhvarfasjúkdómi. Telur læknirinn miklar líkur til þess að sóknaraðili muni valda sjálfum sér skaða verði hann ekki vistaður á sjúkrahúsi. Sé slík niðurstaða óverjandi. Að þessu virtu er fullnægt skilyrðum til að sóknaraðili verði vistaður á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. áðurnefndra laga, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 60.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2002.

Með bréfi dagsett 7. þessa mánaðar var af hálfu sóknaraðila skotið til dómsins samþykki dómsmálaráðuneytisins til þess að hann yrði vistaður nauðugur á sjúkrahúsi.  Krefst hann þess að ákvörðun ráðuneytisins verði felld úr gildi og að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. 

Varnaraðili er bróðir sóknaraðila, Y, kt. […], en að hans beiðni var tekin ákvörðun um vistun sóknaraðila.  Hann lét mál þetta ekki til sín taka. 

Ákvörðun ráðuneytisins byggir á vottorði Stefáns Steinssonar, sem dagsett er 7. mars sl.  Í vottorðinu segir m.a.: 

“...X er haldinn alvarlegum geðhvarfasjúkdómi (manic depressive psychosis), alvarlegum fíknivanda og alnæmi á háu stigi.  Þetta er margra ára saga.  Hann heimtar nú útskrift af geðdeild.

X er ör og algerlega óraunhæfur.  Miklar líkur eru á að hann skaði sig ef hann útskrifast.  Það er því óverjandi og ekki skynsemi.  Þá bólar á hótunum í garð annarra og ekki hægt að útiloka að hann skaði aðra.” 

Frekari gögn um sjúkdóma hans liggja ekki frammi og ekki gafst við meðferð máls þessa ráðrúm til frekari gagnaöflunar.  Þess skal getið að kröfur sama efnis vegna sóknaraðila hafa verið til meðferðar hér við dóminn áður. 

Í greinargerð lögmanns sóknaraðila er því mótmælt sem segir í vottorði læknisins um að hjá honum bóli á hótunum í garð annarra og að ekki sé útilokað að hann geti skaðað aðra.  Segir lögmaðurinn að engin gögn liggi fyrir sem styðji þessa fullyrðingu.  Þá segir að sóknaraðili sé ósáttur við veru sína á geðdeildinni.  Hann hafi ítrekað óskað eftir því að verða vistaður á svokallaðri alnæmisdeild. 

 

Niðurstaða.

Ekki er unnt að draga í efa framlagt vottorð og niðurstöður Stefáns Steinssonar um heilsufar sóknaraðila.  Eins og heilsufari sóknaraðila er lýst verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að vistun hans á geðdeild sé nauðsynleg.  Þannig er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997.  Verður því að staðfesta ákvörðun ráðuneytisins.

Þóknun lögmanns sóknaraðila, 40.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um vistun sóknaraðila, X, á sjúkrahúsi, er staðfest. 

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.