Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 17. júlí 2006. |
|
Nr. 377/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Daði Kristjánsson fulltrúi) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. ágúst 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili setið í gæsluvarðhaldi um nokkurt skeið, fyrst á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 en frá 7. júní 2006 samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Þessi síðarnefnda heimild er eðli máls samkvæmt háð því að ekki verði óhæfilegur dráttur á rannsókn máls og það sé síðan rekið með viðhlítandi hraða. Fram kemur í málinu að sóknaraðili bíður nú gagna sem hann hefur óskað eftir erlendis frá. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til föstudagsins 25. ágúst 2006, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglunnar segir að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint stórfellt fíkniefnabrot. Lagt hafi verið hald á 15.227,90 g af amfetamíni og 10.283,05 g af hassi sem falin hafi verið í bifreið sem flutt hafi verið til landsins frá Rotterdam í Hollandi. Fíkniefnin hafi fundist við leit tollgæslu þann 3. apríl sl. Bifreiðin hafi verið flutt inn á nafni kærða. Lögregla hafi haft eftirlit með bifreiðinni frá því fíkniefnin fundust og hafi hljóðupptökubúnaði og gerviefnum verið komið fyrir í bifreiðinni og símar grunaðra hlustaðir. Bifreiðin hafi verið tollafgreidd og sótt nokkrum dögum síðar og flutt á bifreiðastæði við heimili nefnds kærða. A, B og C hafi sótt bifreiðina á umrætt bifreiðastæði að kvöldi 13. apríl sl. Hafi þeir flutt bifreiðina í verkstæðishúsnæði við D en þeir hafi verið handteknir skömmu síðar. Aðkoma á vettvangi og hljóðritað samtal við bifreiðina í húsnæðinu bendi eindregið til þess að umræddir þremenningar hafi verið að móttaka efnin með því að fjarlægja þau úr bifreiðinni.
Kærði hafi viðurkennt aðild að innflutningi fíkniefna með því að hafa, að beiðni meints vitorðsmanns, E, flutt inn bifreið á sínu nafni sem átti að vera hlaðin kannabisefnum. Kærði hafi lýst nánar meintri aðkomu sinni að málinu og greint frá tveimur utanlandsferðum í því sambandi og samskiptum hans við vitorðsmenn erlendis og flutningi bifreiðarinnar í vöruafgreiðslu Eimskip í Rotterdam. Kærði kvaðst hafa verið í góðri trú að einungis kannabisefni yrðu falin í bifreiðinni en honum hafi hins vegar verið greint frá því undir lok síðari ferðarinnar, í Belgíu, að eitthvað meira yrði í bifreiðinni. Kærði kvaðst hafa gert athugasemd vegna þessa við nefndan E þegar heim hafi verið komið en E gert lítið úr þessu og sagt honum að hann fengi aukalega greitt fyrir þetta. Þegar kærði hafi verið búinn að fá tilkynningu um að bifreiðin væri komin til landsins þá hafi hann sett sig í samband við einn af vitorðsmönnunum erlendis og í framhaldinu hafi E afhent honum peninga í reiðufé til að fá bifreiðina afgreidda úr tolli og kærði í framhaldinu fengið bifreiðina afgreidda og skráða. Kærði kvaðst ekki hafa séð fíkniefnin sem höfðu verið í bifreiðinni, hann hafi ekki komið að pökkun þeirra í bifreiðinni né hafi hann lagt til fjármuni til kaupa á fíkniefnunum. Sé nánar vísað til framburðarskýrslna kærða frá 25. og 27. apríl sl., skýrslu fyrir héraðsdómi þann 26. s.m. og og framburðarskýrslu frá 10. maí sl.
Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti en hinir grunuðu virtust hafa skipt með sér verkum. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 14. apríl sl., nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 296/2006, þar sem almannahagsmunir höfði verið lagðir til grundvallar gæsluvarðhaldi og felldi þar með úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-293/2006. Rannsókn málsins sé ekki lokið en unnið sé að frekari gagnaöflun frá erlendum lögregluyfirvöldum í því skyni að upplýsa frekar um aðild og verknaðarþætti hinna grunuðu. Kærði þyki hafa átt beina aðild að brotinu að því er varðar flutning fíkniefnanna til landsins og um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki þannig mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu annarra sakborninga í sama máli sem sætt hafa gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna sem og stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hefur fyrir sterkur rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Með dómi Hæstaréttar frá 7. júní sl. í máli nr. 296/2006 er fallist á að fyrir hendi sé sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem að lögum geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með því er að minnsta kosti fallist á að um sérstaklega saknæma háttsemi geti verið að ræða. Í dóminum er brotið talið þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Samkvæmt þessu er öllum skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála fullnægt til að gæsluvarðhaldi verði beitt eins og krafist er. Ber því að taka kröfuna til greina.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til föstudagsins 25. ágúst 2006, kl. 16:00.