Hæstiréttur íslands
Mál nr. 247/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 20. apríl 2010. |
|
|
Nr. 247/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl nk. kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að síðla kvölds laugardaginn 10. apríl 2010, um kl. 23.00, hafi lögreglan fundið og lagt hald á mikið magn hættulegra fíkniefna, sem flutt höfðu til landsins með flugi frá Alicante á Spáni fyrr um daginn. Efnin hafi verið kyrfilega falin í þremur ferðatöskum. Við skoðun á töskunum hafi mátt sjá hvar efnunum hafði verið komið fyrir í innvolsi þeirra og ekki hafi verið unnt að ná efnunum úr nema rífa upp innvolsið. Hin haldlögðu efni hafi vegið tæp 1.600 grömm af mjög sterku kókaíni, en samkvæmt matsgerð lyfjafræðistofnunar sé styrkur kókaínsins um og yfir 80%.
Að morgni 11. apríl 2010, um kl. 05.00, hafi lögregluyfirvöld á Keflavíkurflugvelli stöðvað ungt par við komu sína frá Alicante. Hafi parið verið með í fórum sínum þrjár samskonar töskur og hafi efnunum verið komið fyrir í töskunum með sama hætti. Hin haldlögðu efni hafi vegið rúm 1.700 grömm af mjög sterku kókaíni, en samkvæmt matsgerð lyfjafræðistofnunar sé styrkur kókaínsins um og yfir 80%. Lögregla telji fullvíst að málin tengist.
Í greinargerðinni segir að í þágu rannsóknar ofangreindra mála sæti nú alls átta manns gæsluvarðhaldi.
Þá segir í greinargerðinni að lögreglan hafi um nokkurt skeið hlustað á og hljóðritað símtöl kærða, svo og fylgst með ferðum hans með eftirfararbúnaði. Sú athugun hafi leitt í ljós að kærði hafi verið í miklum og nánum samskiptum við mann, sem nú sæti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins. Sá maður hafi viðurkennt hjá lögreglu að tengjast ofangreindum innflutningi og jafnframt að hann legði stund á fíkniefnasölu. Viðkomandi maður hafi bent lögreglu á geymslustað fíkniefna, en kærði X, hafi margoft sést fara á þann stað. Þá hafi einnig sést til ferða kærða um Hvaleyrarvatnsveg. Á tímabilinu 25. mars til 8. apríl sl. hafi kærði ekið hann um þann veg átta sinnum og í öll skiptin stoppað þar stutta stund við gamalt jarðhýsi. Eftir eina för kærða hafi lögreglan ákveðið að leita á svæðinu og fundið þar holu undir steini. Í holunni hafi verið að finna fíkniefni. Við leit lögreglu á heimili kærða hafi fundist sendibréf frá manni, sem nú sé vistaður í erlendu fangelsi eftir að hafa reynt að flytja fíkniefni hingað til lands og sé það mat lögreglu að kærði tengist þeirri tilraun. Þá liggi fyrir í þessu máli að kærði sé leigutaki bifreiðarinnar [...], en sú bifreið hafi verið notuð til að sækja efnin á heimili þess aðila sem flutt hafi þau inn frá Alicante og þá hafi efnin verið geymd í bifreiðinni, þar sem hún hafi staðið við Ofanleiti í Reykjavík.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði hafi verið handtekinn í gær við komu til landsins, grunaður um aðild að ofangreindum fíkniefnainnflutningi. Í stuttri yfirheyrslu fyrr í dag hafi kærði neitað allri aðild að málinu.
Rannsókn málsins sé skammt á veg komin, en málið sé talið tengjast vel skipulögðum og umfangmiklum innflutningi á fíkniefnum hingað til lands. Til dæmis leiti lögreglan nú, í samstarfi við Europol á Spáni, Íslendings sem búsettur sé á Spáni. Það sé ætlun lögreglu að sá aðili standi að ofangreindum fíkniefnainnflutningum til landsins.
Rannsókn málsins sé stutt á veg komin, en málið sé talið tengjast vel skipulögðum og umfangmiklum innflutningi á fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að taka þurfi frekari skýrslur af kærða, meðkærðu og hugsanlegum vitnum málsins og öðrum sem kunna að tengjast málinu. Þá sé nauðsynlegt í þágu rannsóknar að hafa upp á ofangreindum aðila sem nú sé staddur erlendis. Málið sé mjög umfangsmikið og hafi lögregla handtekið og yfirheyrt átta manns vegna þess.
Í ljósi þess að rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi sé afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina, þannig að kærði fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild broti sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins stendur enn yfir. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl nk. kl. 16.00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæslu stendur.