Hæstiréttur íslands

Mál nr. 239/2008


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Starfsréttindi
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Fjártjón


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. janúar 2008.

Nr. 239/2008.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Kjartani Ólasyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

og gagnsök

Opinberir starfsmenn. Starfsréttindi. Stjórnsýsla. Skaðabætur. Fjártjón.

K, sem hafði verið lausráðinn kennari við F í sjö ár, fékk ekki starf við F þegar hann sótti um. K hafði leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, en í starfið var ráðinn réttindalaus kennari. Taldi K að brotið hefði verið á sér og krafðist skaða- og miskabóta. Talið var að leyfi K hafi veitt honum forgang í starfið umfram umsækjanda sem hafði ekki slíkt leyfi. Var K því talinn eiga rétt á bótum vegna hugsanlegs tjóns. Ekki voru þó taldar forsendur til að ákvarða K bætur vegna fjártjóns þar sem ekki voru lögð fram gögn sem gætu skotið stoðum undir ákvörðun bóta. K var hins vegar talinn eiga rétt til miskabóta þar sem vegið hafði verið að starfsheiðri hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hans verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. júní 2008. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða sér 5.772.548 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í 1. málslið 11. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra segir að rétt til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og starfa sem slíkur hér á landi hafi sá einn sem til þess hafi leyfi menntamálaráðherra. Í 2. málslið greinarinnar segir að í leyfisbréfi skuli tilgreina kennslugrein eða sérsvið viðkomandi framhaldsskólakennara samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Var ákvæði þessa málsliðar nýmæli í lögunum og skýrt svo í lögskýringargögnum að með því væri lögð áhersla á mikilvægi sérmenntunar framhaldsskólakennara og að sú sérþekking nýttist til kennslu. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 15. gr. laganna þarf umsækjandi um stöðu framhaldsskólakennara að hafa öðlast leyfi til að nota það starfsheiti til að verða ráðinn. Í 2. málslið sömu málsgreinar segir að miða skuli við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði, sem hann er menntaður á, og er í því sambandi meðal annars vísað til fyrrnefndrar 11. gr. Var þetta ákvæði skýrt svo í athugasemdum með frumvarpi til laganna að kveðið væri á um að framhaldsskólakennari skuli fyrst og fremst kenna þær greinar, sem hann hafi sérhæft sig í. Loks segir í 1. mgr. 20. gr. að óheimilt sé að ráða til kennslu við framhaldsskóla aðra en þá sem uppfylli skilyrði laganna, en í þeirri lagagrein er að öðru leyti fjallað um undanþágur frá þessari reglu.

 Í leyfisbréfi gagnáfrýjanda 31. ágúst 2004 til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari var kennslugrein tilgreind tréiðngreinar. Í málflutningi fyrir Hæstarétti var því haldið fram af gagnáfrýjanda, án þess að mótmælum sætti af hálfu aðaláfrýjanda, að aldrei hafi tíðkast að tilgreina kennslu fatlaðra sem sérsvið í leyfisbréfum menntamálaráðherra. Í ljósi þess og með hliðsjón af framangreindum lögskýringargögnum er enginn vafi á því að leyfi þetta veitti gagnáfrýjanda forgang til að annast kennslu á starfsbraut fatlaðra við Framhaldsskólann á Húsavík umfram umsækjanda, sem ekki hafði slíkt leyfi samkvæmt lögunum, enga sérmenntun umfram stúdentspróf og enga kennslureynslu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að aðaláfrýjandi sé bótaskyldur vegna þess tjóns, sem gagnáfrýjandi kann að hafa beðið við það að gengið var fram hjá honum við ráðningu í störf kennara við fyrrnefndan skóla sumarið 2005.

 Óumdeilt er að gagnáfrýjandi, sem starfað hafði eftir tímabundnum ráðningarsamningnum við Framhaldsskólann á Húsavík frá hausti 1998 og var búsettur ásamt fjölskyldu sinni í þeim bæ, réði sig sumarið 2005 til kennslustarfa við framhaldsskóla í öðrum landshluta og varð ekki fyrir tekjumissi vegna þeirrar breytingar á starfsvettvangi. Þá hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi beðið tjón vegna húsnæðiskaupa á þeim stað sem hann flutti til. Líkur má hins vegar að því leiða að gagnáfrýjandi kunni að hafa haft einhvern kostnað af búferlaflutningum og því að fjölskyldu hans hafi ekki verið fært að fylgja honum fyrr en síðar. Gagnáfrýjandi hefur hins vegar ekki lagt fram kvittanir vegna útgjalda af þessum sökum. Þá hefur hann heldur ekki lagt fram nein önnur gögn, sem honum hefðu þó átt að vera tiltæk og skotið gætu stoðum undir ákvörðun bóta honum til handa vegna þessa. Eru því ekki forsendur til að ákveða þær að álitum.

Eins og að framan er rakið var gengið fram hjá gagnáfrýjanda við ráðningu til kennslustarfa, sem hann hafði réttindi til að sinna, og í staðinn ráðinn til starfans óreyndur kennari án starfsréttinda. Með þessu var vegið að starfsheiðri gagnáfrýjanda og á hann því rétt til miskabóta úr hendi aðaláfrýjanda, sem hæfilega eru ákveðnar í hinum áfrýjaða dómi.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Kjartani Ólasyni, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2007 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. febrúar 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið 19. nóvember sl., en endurupptekið og dómtekið á ný í dag, höfðaði Kjartan Ólason, Álfhólum 7, Selfossi, hér fyrir dómi þann 11. apríl 2007 á hendur Framhaldsskólanum á Húsavík, Stóragerði 10, Húsavík, Norðurþingi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.772.548 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001, frá 2. maí 2007 til greiðsludags og málskostnað.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnda, en til vara að stefnukrafa verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.

I.

Stefnandi kveðst vera með sveinspróf í smíðum og iðnfræðingur að mennt frá Danmörku árið 1996.  Að loknu því námi hafi hann flutt til Húsavíkur ásamt eiginkonu sinni og hafi hún fengið starf sem kennari við grunnskólann þar.  Stefnandi nam kennslufræði við Háskólann á Akureyri og lauk kennsluréttindaprófi í maí 2003 og fékk leyfisbréf menntamálaráðaherra sem framhaldskólakennari 31. ágúst 2004 með tréiðngreinar sem sérsvið.  Þá fékk hann útgefið leyfisbréf menntamálaráðherra til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari 27. september 2004.

Stefnandi hóf starf hjá stefnda í ágúst 1998.  Kenndi hann frá þeim tíma þar ýmis fög, svo sem stærðfræði, lífsleikni, grunnteikningu, listir, dönsku, hagnýt verslunarstörf, trésmíði, tölvufræði, tjáningu og verslun og þjónustu og kveðst þannig hafa verið í fullu starfi hjá stefnda frá árinu 1998, að lágmarki 24 kennslustundir á viku fyrir utan vorið 1999 er hann hafi kennt 20 kennslustundir.  Kveðst hann m.a. hafa kennt á starfsbraut fyrir fatlaða og kveðst hafa tekið þátt í gerð skólanámskrár, þróað námsáfanga, unnið að tillögugerð um frumkvöðlafræðslu og starfað sem umsjónarkennari og einnig deildarstjóri í dönsku.  Hann var kosinn varatrúnaðarmaður kennara á kennarafundi í ágúst 2004.

Stefnandi segir það hafa komið fram í starfsmannaviðtali við skólameistara stefnda í nóvember 2004 að ekki væri unnt að ráða hann nema til árs í senn.  Hafi skólameistari gefið þá skýringu að stefnandi hefði ekki réttindi til að kenna stærðfræði og dönsku.  Kveðst stefnandi þetta sama haust hafa verið eini kennarinn við skólann sem ekki fékk yfirvinnu.

Þann 20. janúar 2005 ritaði stefnandi skólameistara stefnda bréf og vísaði til þess að sér hefði verið tilkynnt í starfsmannaviðtali í nóvember að ekki yrði um að ræða ótímabundna ráðningu sér til handa, en hann vildi engu að síður reyna á það að sækja um slíka ráðningu skriflega.  Skólameistari svaraði stefnanda með bréfi hinn 11. febrúar 2005.  Segir þar að stefndi geti ekki orðið við umsókninni.  Árleg tímabundin ráðning stefnanda frá hausti 1998 hafi verið til komin vegna þess að ekki hafi fengist kennari með menntun og kennsluréttindi í dönsku til að kenna þá grein.  Umfang dönskukennslunnar hafi verið á bilinu 50 til 100% af heilli stöðu við skólann.  Þar sem stefnandi hafi ekki háskólamenntun í dönsku nái nýfengin kennsluréttindi hans til að kenna tréiðngreinar við framhaldskóla ekki til dönskukennslu og því muni skólinn áfram leita eftir dönskukennara með full réttindi.  Áfangar í kennslugreinum sem réttindi stefnanda nái til séu fáir og ekki kenndir reglulega við skólann og því ekki skilyrði til að ráða kennara ótímabundið til þeirrar kennslu.

Hinn 14. apríl 2005 tilkynnti skólameistari um laus störf við skólann frá og með 1. ágúst 2005, nánar tiltekið hálfar stöður í dönsku, hjúkrunarfræðum, sálarfræði og þýsku og einnig voru auglýst sagnfræði, sérgreinar á sjúkraliðabraut og rekstrar­hagfræði sex stundir á viku.  Var tekið fram að umsækjendur þyrftu að hafa lokið BA/BS prófi í kennslugrein sinni og hafa leyfisbréf til kennslu í framhaldsskólum.  Þá voru á Starfatorgi fjármálaráðuneytisins samkvæmt Morgunblaðinu hinn 17. apríl 2005 auglýst 40% starf námsráðgjafa og tvær kennarastöður við starfsbraut fatlaðra við skólann.  Stefnandi sótti um áframhaldandi starf hjá stefnda hinn 28. apríl 2005 án nánari tilgreiningar.  Jafnframt sótti hann um hálfa stöðu námsráðgjafa.

Með bréfi dagsettu 10. júní 2005 tilkynnti skólameistari stefnanda að umsókn hans um stöðu námsráðgjafa og kennarastöðu við skólann hefði verið tekin fyrir ásamt öðrum umsóknum.  Kom fram í bréfinu að ráðið hefði verið í stöðurnar og gæti ekki orðið af ráðningu stefnanda við skólann næsta skólaár.  Var ekki rætt við stefnanda áður en þetta bréf var ritað.

Stefnandi óskaði rökstuðnings fyrir þessari synjun hinn 4. október 2006 og óskaði jafnframt eftir upplýsingum um allar nýráðningar við skólann fyrir starfsárið 2005 til 2006.  Í svari skólameistara frá 27. október 2006 er reifað að fyrri ráðning stefnanda hafi byggst á því að ekki  hafi fengist réttindakennari til dönskukennslu.  Hafi stefnandi fengið undanþágu til þeirrar kennslu á grundvelli samþykkis ráðherra.  Þá var tekið fram að um starf námsráðgjafa hefði sótt einstaklingur með BA próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands sem hefði auk þess lokið kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri.  Hefði þessi einstaklingur haft kennslureynslu bæði af grunnskóla- og framhaldskólastigi og getið sér gott orð og verið ráðinn til starfans.  Þá hafi verið ráðinn kennari til dönskukennslu sem hefði lokið 30 einingum í dönskunámi og auk þess haft leyfisbréf til að kenna dönsku á framhaldsskólastigi.  Ekki hafi verið full staða í þeim sérgreinum er stefnandi hefði kennt.  Hefði kennsluframboð ekki gefið tilefni til tímabundinnar ráðningar stefnanda til skólans.

Félag framhaldsskólakennara ritaði skólameistara stefnda bréf hinn 23. nóvember 2006 og óskaði eftir upplýsingum um ráðningu í tvær kennarastöður á starfsbraut fyrir fatlaða við skólann skólaárið 2005 til 2006.  Einnig var óskað upplýsinga um ráðningu í sex kennslustundir á viku til kennslu rekstrarhagfræði.  Skólameistari svaraði þann 5. desember 2006 og upplýsti að nauðsynlegt hefði verið talið að kennari við starfsbraut fyrir fatlaða væri kvenkyns þar sem einn kvenkyns nemandi þyrfti aðstoðar við á snyrtingu og salerni.  Tók hann fram að nauðsynlegt hefði verið talið að kennarar deildarinnar gætu skipt með sér kennslu þessa nemanda þar sem umönnun hennar hefði verið erfið.  Af þessari ástæðu m.a. hefði stefnandi ekki komið til greina við kennslu á þessari braut skólans.

Stefnandi kveður bæði karl- og kvenkyns nemendur hafa verið á braut fyrir fatlaða nemendur á þessum tíma.

Einnig kom fram að í starfið hefðu verið ráðnar tvær konur, önnur með BA próf í þroskaþjálfun og með kennsluréttindi, en hin með stúdentspróf án réttinda og án starfsreynslu.  Til að kenna rekstrarhagfræði hefði verið ráðin kona með BA próf í þýsku og viðskiptafræði, sem hafi auk þess lokið einingum í mastersnámi í viðskiptafræði.  Ekki var óskað undanþágu frá undanþágunefnd framhaldsskóla fyrir þann starfsmann sem var réttindalaus og ráðinn á starfsbraut fyrir fatlaða.

Hinn 31. janúar 2007 ritaði félag framhaldsskólakennara skólameistara bréf þar sem lögð var áhersla á að stefndi hefði ráðið ófaglærðan stúdent til starfa við skólann á sama tíma og fyrir lá umsókn stefnanda um störf.  Þá hafi heldur ekki verið sótt um undanþágu fyrir þeirri ráðningu til undanþágunefndar framhaldskóla eins og hafi borið að gera samkvæmt lögum nr. 86, 1998.  Taldi félagið hafa verið brotið með ráðningunni gegn 4. gr. laga nr. 80, 1996 um framhaldsskóla og að skólameistara hefði borið með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að kanna hug stefnanda til starfsins áður en hann réði réttindalausan kennara.  Þá var óskað eftir viðræðum við stefnda um greiðslur bóta til stefnanda.  Stefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi dagsettu 3. febrúar 2007.

Fyrir liggur að stefnandi réði sig til Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi frá og með 1. ágúst 2005.  Er ráðningarsamningurinn dagsettur 13. júní 2005, en samkvæmt framlögðu bréfi skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands var ráðningarsamningurinn gerður mánuði síðar eða 13. júlí 2005.  Tekið er fram í stefnu að eiginkona stefnanda hafi kennt við grunnskólann á Húsavík skólaárið 2005 til 2006, en þau séu nú bæði flutt suður með fjölskyldu sína.

II.

Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi brotið á honum er hann sumarið 2005 réð ófaglærðan starfsmann til skólans á starfsbraut fyrir fatlaða á sama tíma og fyrir lá umsókn stefnanda um starf við skólann.  Hafi stefndi á ólögmætan hátt gengið fram hjá stefnanda við ráðningu til starfa við skólann skólaárið 2005 til 2006 og þannig valdið honum og fjölskyldu hans tjóni sem stefnda beri að bæta honum eftir almennu skaðabótareglunni.  Hafi skólameistari virt að vettugi að stefnandi var með leyfisbréf ráðherra sem framhaldsskólakennari samkvæmt lögum nr. 86, 1998.  Í 11. gr. þeirra laga komi fram sú meginregla að rétt til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við framhaldsskóla hafi sá einn sem til þess hafi leyfi menntamálaráðherra.  Skuli í leyfisbréfi tilgreina kennslugrein eða sérsvið viðkomandi framhaldsskólakennara samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.  Við val á umsóknum um auglýstar stöður á starfsbraut fyrir fatlaða hafi skólanum borið að taka til greina umsókn stefnanda um starf við skólann þar sem stefnandi hafi leyfisbréf til kennslu við framhaldsskóla.  Stefnda hafi því borið að kanna afstöðu stefnanda til kennslu á starfsbrautinni með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993 og andmælareglu sömu laga.  Að öðrum kosti hafi stefnda borið að auglýsa starfið aftur og síðan að sækja um tímabundna undanþágu til ráðningar til hins réttindalausa starfsmanns samkvæmt lögum nr. 86, 1998 til starfans og jafnframt láta þess getið að einnig væri fyrirliggjandi umsókn frá kennara með leyfisbréf til kennslu í framhaldsskólum um sama starf.

Stefnandi kveður það liggja fyrir að önnur af þeim tveimur konum sem var ráðin til starfa við starfsbraut fyrir fatlaða hafi ekki uppfyllt hæfisskilyrði til kennslu í framhaldsskólum samkvæmt lögum nr. 86, 1998 og ekki hafi verið sótt um undanþágu fyrir hana samkvæmt ákvæðum sömu laga.  Fyrir liggi að stefnanda hafi áður verið treyst fyrir kennslu á starfsbraut fyrir fatlaða og þá liggi fyrir að hann hafi haft starfsréttindi sem kennari við framhaldsskóla.  Telur stefnandi það, að skólameistari óskaði ekki eftir undanþágu fyrir kennarann sem ráðinn var, benda til þess að hann hafi annað hvort viljandi ætlað að leyna stefnanda ráðningunni eða að hann hafi metið stöðuna svo að undanþága yrði ekki veitt með fyrirliggjandi umsókn frá kennara með réttindi til kennslu á framhaldsskólastigi.  Hafi skólameistari ekki mátt ráða réttindalausan kennara í stöðuna nema sú ráðning færi eftir reglum laga nr. 86, 1998, sbr. 4. og 5. mgr. 11. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80, 1996, þar sem segi að hafi umsækjandi um stöðu kennara ekki réttindi til kennslu við framhaldsskóla skuli fara með umsókn hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 86, 1998 um lögverndun.

Í rökstuðningi skólameistara komi fram að einn kvenkyns nemandi á starfsbraut fyrir fatlaða hafi verið sérstaklega erfiður og kvenkennara hafi þurft til þess að sinna þörfum hennar.  Stefnandi hafi m.a. neitað að taka að sér kennslu þess nemanda á þessum forsendum.  Stefnandi kveður ástæðu þessa hafa einfaldlega verið þá að á þeim tíma hafi verið ráðinn sérstakur þroskaþjálfi til að sinna kennslu þessa nemanda, auk þess sem nemandinn hafi verið sendur aðra hverja viku til Akureyrar.  Þá hafi skólameistara ekki verið heimilt að gefa sér það að sama yrði uppi á teningnum, heldur hafi honum borið að kanna hug stefnanda til starfsins áður en hann útilokaði hann, sbr. rannsóknar- og andmælareglu 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Þá sé einnig á því byggt að ákvörðun skólameistara hafi verið brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993 og þannig hafi neitun hans um að ráða stefnanda við skólann verið íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun í skilningi ákvæðisins, enda skólinn rekinn á ábyrgð ríkisins samkvæmt 39. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80, 1996.

Skólameistara hafi verið kunnugt að engin önnur kennslustörf hafi staðið stefnanda til boða á svæðinu.  Hafi ákvörðun skólameistara leitt til þess að stefnandi hafi orðið að flytja búferlum, fyrst einn og síðan árið eftir með fjölskyldu sína.  Því hafi skólameistara borið að gera allt sem í hans valdi stóð til að ráða stefnanda frekar en að ráða réttindalausan starfsmann til skólans.  Þannig hafi skólameistari getað náð fram því markmiði að fá kennara með leyfisbréf við starfsbraut fyrir fatlaða með því að ráða stefnanda til starfsins, í stað þess að ráða óreyndan stúdent til þess.

Þá tekur stefnandi það fram að hann hafi átt rétt á fastráðningu við skólann með vísan til starfsaldurs og ákvæða laga um lögverndun nr. 86, 1998 og laga nr. 70, 1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.

Enn kveðst stefnandi byggja á því að afstöðu skólameistara megi rekja til eineltis í garð hans, m.a. vegna deilna sem hafi komið upp um launamál hans.  Hafi stefnandi verið kosinn trúnaðarmaður við skólann og hann hafi þannig verið látinn gjalda þess.  Þannig hafi ómálefnalegar ástæður í raun ráðið þeirri ákvörðun skólameistara að ráða stefnanda ekki áfram við skólann þrátt fyrir að hann væri með leyfisbréf framhaldsskólakennara.  Þá hafi stefnandi, sem annar af kosnum trúnaðar­mönnum skólans, að öllu jöfnu átt að sitja fyrir um stöður við skólann og kveðst stefnandi þar vísa til 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94, 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefnandi kveðst byggja á því að þær ólögmætu ákvarðanir sem teknar hafi verið af stefnda hafi leitt af sér tjón fyrir sig og fjölskyldu sína.  Stefndi beri ábyrgð á því tjóni á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, þar sem ákvarðanir stefnda hafi verið teknar af ásetningi, en til vara sé byggt á því að þær hafi verið teknar af gáleysi.  Bæði hafi verið um að ræða fjárhagslegt tjón sem endurspeglist í flutningi suður með fjölskyldu stefnanda og eins hafi verið um að ræða ófjárhagslegt tjón í formi skerðingar á mannorði og starfsheiðri.  Hafi stefnandi gegnt starfi sínu athugasemdalaust við skólann frá árinu 1998 en síðan þurft að yfirgefa skólann og það bæjarfélag sem hann bjó í vegna ákvörðunar stefnda, en eiginkona stefnanda hafi gegnt stöðu grunnskólakennara við grunnskóla bæjarins nokkur ár.  Sú staðreynd að óreyndur og ófaglærður starfsmaður var tekinn fram yfir stefnanda við kennslu hafi verið freklegt brot gegn starfsheiðri hans.  Kveðst stefnandi því sækja miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.

III.

Stefndi tekur fram að í bréfi skólameistara dagsettu 21. september 2005 komi fram að stefnandi hafi kennt þrjár kennslustundir á viku eina önn á starfsbraut fyrir fatlaða.  Við nánari athugun á þessum tímafjölda hafi komið í ljós að aðeins hafi verið um að ræða eina klukkustund á viku, samsvarandi einni og hálfri kennslustund.  Um hafi verið að ræða svokallaðan frjálsan tíma sem stefnandi hafi nýtt til leikja og spila með nemendum sínum.  Sé augljóst að þetta sé einungis lítill hluti af kennslumagni þessa starfs.

Engar athugasemdir hafi borist fyrir skólabyrjun haustið 2005 frá stefnanda við ráðningar til stefnda, en stefnandi hafi ráðið sig til kennslu á Selfossi frá 1. ágúst 2005 og launagreiðslur til hans hafi því aldrei fallið niður.  Eftirgrennslan stefnanda hafi fyrst hafist með tölvupósti hans frá 25. október 2006.

Umsókn um starf við skólann við kennslu á starfsbraut hafi borist frá þroskaþjálfa sem hafi verið að ljúka kennsluréttindanámi um vorið og fengið útgefið leyfisbréf  7. júlí 2005.  Hafi þessi umsækjandi verið ráðinn, enda búinn að kenna við skólann í þrjú ár við góðan orðstír.  Annar umsækjandi hafi sótt um 40% stöðu námsráðgjafa og kennslu jafnframt til að fylla eitt stöðugildi.  Hafi sá umsækjandi nefnt kennslu á starfsbraut, enda kennt þar með góðum árangri árið áður, svo og kennslu í félagsfræði og einnig hafi stærðfræði og verslunarreikningur komið til greina af hálfu þessa umsækjanda.  Hafi sá umsækjandi verið ráðinn og lofað fullu starfi, m.a. með það í huga að hann tæki að sér kennslu á starfsbraut svo í reynd hafi ekki verið um að ræða á þessu tímamarki að það vantaði kennara á starfsbraut.  Þessi umsækjandi hafi einnig verið að ljúka kennsluréttindanámi um vorið og fengið útgefið leyfisbréf  5. ágúst 2005.  Sá umsækjandi sem um síðir var ráðinn til kennslu á starfsbraut hafi í upphafi sótt um starf dönskukennara við skólann.  Hafi umsækj­andinn verið með stúdentspróf en hvorki með háskólapróf né kennsluréttindi.  Eftir að þessi umsókn barst hafi skólameistari rætt við umsækjandann í síma og upplýst að ekki væru miklar líkur til að hann fengi stöðu dönskukennara, því fyrir lægi umsókn um þá kennslu, en hins vegar væri laus staða skólaritara og hafi orðið að ráði að þessi umsækjandi sæktist einnig eftir starfi skólaritara.  Nokkru síðar hafi borist önnur umsókn um stöðu skólaritara frá hæfari umsækjanda sem hafi verið ráðinn og hafi fyrrgreindum umsækjanda án kennsluréttinda verið tilkynnt þetta símleiðis.  Í ljósi þess að sá umsækjandi var að leita að starfi á Húsavík hafi verið sammælst um að skólameistari hefði samband við hann ef einhverjar breytingar yrðu.  Gengið hafi verið út frá því að annar kennari tæki að sér starf á starfsbraut fyrir fatlaða, en ljóst  hafi orðið síðsumars að starfskraftar þess kennara nýttust betur til annarrar kennslu en á starfsbraut.  Hafi því umsækjandinn sem ekki hafði kennsluréttindin verið ráðinn enda hafi hann haft góð meðmæli frá fyrri vinnuveitanda auk stúdentsprófs. Hafi ráðningin verið um miðjan ágúst og ráðningarsamningur undirritaður 20. ágúst 2005 rétt fyrir skólabyrjun.  Á þeim tíma hafi stefnandi að öllum líkindum verið kominn í starf hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Í bréfi skólameistara 5. desember 2006 hafi komið fram að í ljósi þess að einn nemandi á starfsbraut fyrir fatlaða var kvenkyns og þurfti mikla aðstoð m.a. við ferðir á salerni og aðrar líkamlegar þarfir, hafi verið talið nauðsynlegt að kennarar hennar væru kvenkyns.  Komi fram í bréfinu að þessi vandi hefði komið upp þegar stefnandi hafi tekið að sér forfallakennslu á starfsbraut, en þá hefði hann af þessum ástæðum neitað að taka að sér kennslu viðkomandi nemanda.  Nauðsynlegt hefði verið talið að báðir kennarar starfsbrautar skiptu með sér kennslu þessa nemanda í ljósi þess hve ummönnun nemandans hafi verið erfið.  Komi fram í bréfi skólameistara að m.a. af þessum ástæðum hafi stefnandi ekki verið talinn koma til greina til kennslu á starfsbraut og því hefðu verið ráðnir tveir kvenkyns umsækjendur.

Þá tekur stefndi fram að stefnandi hafi ekki verið trúnaðarmaður við skólann heldur kosinn varatrúnaðarmaður.  Kveðst stefndi mótmæla dylgjum um að stefnandi hafi verið lagður í einelti og að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið ákvörðun skólameistara.

Hvað varði yfirvinnu tekur stefndi fram að kennslumagn sé misjafnt frá önn til annar og enginn kennari hafi fyrirfram tryggingu fyrir yfirvinnu.  Sé ósönnuð fullyrðing um að stefnandi hafi verið eini kennarinn sem ekki fékk yfirvinnu og vandséð hvaða þýðingu þetta hafi.

Stefndi byggir á því að rangt sé að brotinn hafi verið réttur á stefnanda vegna ráðningar á starfsbraut fyrir fatlaða við stefnda um miðjan ágúst 2005.  Þá sé rangt að stefndi hafi á ólögmætan hátt gengið fram hjá stefnanda við ráðningu til starfa við skólann.  Þá sé því einnig mótmælt að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni og kveðst stefndi mótmæla öllum málsástæðum stefnanda sem röngum.  Leyfisbréf stefnanda hafi verið gefið út til kennslu í tréiðngreinum.  Um sé að ræða leyfi á mjög þröngu sviði, en kennsla í greinum sem tengdust þessu sviði hafi numið aðeins um 25 hundraðshlutum af heilli stöðu við skólann þegar áfangi í grunnteikningu sé kenndur, en oftar hafi enginn áfangi verið kenndur á sviði tréiðngreina.  Stefnandi hafi starfað sem leiðbeinandi við skólann frá árinu 1998 og kennt dönsku sem aðalgrein með undanþágu frá ráðherra.

Stefndi kveðst byggja á því að leyfisbréf stefnanda hafi afmarkast við kennslu í fögum sem því tengdust en í því hafi ekki falist leyfi til kennslu á starfsbraut fyrir fatlaða samkvæmt lögum nr. 86, 1998, sbr. m.a. 15. gr., sbr. 11. gr. þeirra laga.  Stefnandi hafi því ekki haft leyfi til að starfa sem framhaldsskólakennari á starfsbraut fyrir fatlaða.  Þroskaþjálfinn og annar umsækjandi sem báðir hafi verið að ljúka kennsluréttindanámi hafi sótt um auglýst störf.  Umsækjendurnir hafi verið hæfari til að sinna þeim en stefnandi að mati stefnda.  Í auglýsingu hafi komið fram að æskileg menntun væri háskólapróf í sérkennslu, iðjuþjálfun, þroskaþjálfun eða í uppeldis- og félagsgreinum.

Eins og lýst sé hér að framan hafi skólameistari talið sig hafa mannað auglýstar stöður en vegna breyttra aðstæðna síðar um sumarið hafi hann ákveðið í ljósi endanlegrar röðunar nemanda í áfanga og eftir mati á því hverja þeirra skyldi kenna og hverjum sleppa og þá einnig með tilliti til fjárheimildar skólans hafi verið ákveðið að nýta starfskrafta annars þessara starfsmanna til annarrar kennslu en á starfsbraut fyrir fatlaða og hafi skólameistari því boðið stúdentinum starfið.  Þetta hafi verið seinni hluta sumars og því eins konar neyðarráðstöfun en skólameistara hafi verið nauðsynlegt að manna stöðuna. Stefnandi hafi byrjað störf við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi sumarið 2005 og verið búinn að ráða sig til þess starfa er stúdentinn var ráðinn.

Stefndi telur að líta verði til sérstakra aðstæðna sem hafi verið fyrir hendi varðandi kennslu á starfsbraut fyrir fatlaða vegna þess að einn nemandi brautarinnar hafi verið kvenkyns og þurft mikla aðstoð við ferðir á salerni og aðrar líkamlegar þarfir og því hafi verið nauðsynlegt að kennarar hennar væru kvenkyns.  Segi í bréfi skólameistara að nauðsynlegt hafi verið talið að báðir kennarar starfsbrautar skiptu með sér kennslu þessa nemanda í ljósi þess hve umönnun hennar hafi verið erfið.  Kveðst stefndi byggja á því að þessi sjónarmið hafi verið lögmæt og málefnaleg.  Skýring á því að ekki var sótt um undanþágu fyrir stúdentinn sé að það hafi gleymst þar sem stutt hafi verið í skólabyrjun er hún var ráðin.  Geti stefnandi ekki byggt rétt á þessu atriði.  Ósannað sé að stefnandi hafi verið hæfari til þessa starfs en stúdentinn.  Hafi leyfisbréf stefnanda til að kenna á framhaldsskólastigi ekki veitt stefnanda forgang fram yfir aðra til starfa á starfsbraut fyrir fatlaða.

Stefnandi hafi sótt um ótímabundið starf hjá stefnda en skólameistari hafi ekki fallist á að ráða hann ótímabundið og rökstutt þá ákvörðun.  Sé á því byggt að stefnandi hafi ekki átt rétt til fastráðningar við skólann.  Í rökstuðningi skólameistara komi m.a. fram að skólaárið 2005 til 2006 hefði enginn áfangi verið kenndur af þeim áföngum sem stefnandi hafði helst kennt til að bæta við dönskukennsluna svo úr yrði full staða, nema einn áfangi í lífsleikni á haustönn og hann hefði fallið í hlut annars sem hefði kennt þá grein um langt skeið.  Komi fram í rökstuðningnum að kennsluframboð skólans hefði því ekki gefið tilefni til að ráða stefnanda áfram í ótímabundið starf við skólann.

Þá sé sérstaklega bent á að svo virðist sem stefnandi hafi alls ekki sóst eftir því starfi sem deilt sé um í þessu máli.  Hafi stefnandi ekki sótt um tiltekið starf, heldur um áframhaldandi starf hjá stefnda og jafnframt um hálfa stöðu námsráðgjafa.  Í bréfi skólameistara 10. júní 2005 komi fram að umsóknin um stöðu námsráðgjafa og kennarastöðu við framhaldsskólann á Húsavík hefði verið tekin fyrir ásamt öðrum umsóknum.  Í starf námsráðgjafa og til dönskukennslu hefðu verið ráðnir tilteknir kennarar og því gæti ekki orðið af ráðningu stefnanda að skólanum.  Stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við þetta bréf, þrátt fyrir að í því væri starf á starfsbraut fyrir fatlaða ekki nefnt sérstaklega.  Stefnandi hafi óskað eftir rökstuðningi í tölvupósti 25. október 2006 og ekki gert athugasemdir við ráðninguna fyrr en með bréfi Félags framhaldsskólakennara 31. janúar 2007.  Verði talið að stefnandi hafi átt kröfu á stefnda sé hún því fallin niður fyrir stórfellt tómlæti.  Þetta tómlæti styðji það einnig að stefnandi hafi ekki sóst eftir starfi við starfsbraut fatlaðra. Þá hafi hann ekki kært ákvörðun skólameistara innan stjórnsýslunnar.

Stefndi kveðst mótmæla því að hafa brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga og því að synjun hans um að ráða stefnanda til starfa hafi verið íþyngjandi stjórnsýsluákvörðun.  Ósannað sé að skólameistara hafi verið kunnugt um að stefnanda stæðu ekki önnur kennslustörf á svæðinu til boða og að ákvörðun hans hafi neytt stefnanda til að flytja búferlum.  Kveðst stefndi benda á að stefnandi hafi verið ráðinn tímabundið til eins skólaárs í senn og ekki getað treyst á áframhaldandi starf við skólann.  Starfið hafi tvívegis verið auglýst og sé því mótmælt að skylt hafi verið að auglýsa það á ný.

Þá tekur stefndi fram að ekki sé tilefni að fullyrða að þroskaþjálfi hafi átt að sinna einni stúlku á starfsbraut fyrir fatlaða sérstaklega.  Þá sé rangt að sú stúlka hafi verið á Akureyri aðra hverja viku, heldur hafi hún verið þar eina viku í mánuði.  Hafi það verið til að létta foreldrum hennar álag vegna þess hve hún hafi verið erfið í athöfnum daglegs lífs.  Styðji þetta sterklega þá röksemd að skipta hafi þurft vinnunni í skólanum með henni nokkuð jafnt milli tveggja kennara, sem báðir hafi þurft að vera kvenkyns.

Þá kveðst stefndi mótmæla því að stefnandi hafi að öllu jöfnu átt að sitja fyrir um stöður við skólann með vísan til 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986.  Hafi hann verið trúnaðarmaður til vara, en aldrei hafi komið til þess að staða hans sem trúnaðarmanns yrði virk.

Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna ákvarðana stefnda.  Hafi aldrei orðið rof á launagreiðslum til hans, þótt hann hæfi störf á öðrum vinnustað.  Sé skilyrðum skaðabótaréttar, hvorki samkvæmt almennum reglum, skaðabótalögum né öðrum bótareglum, fyrir bótakröfu stefnanda ekki fullnægt.

IV.

Stefnandi og skólameistari stefnda, Guðmundur Birkir Þorkelsson, gáfu skýrslur hér fyrir dómi, svo og vitnin Ingólfur Freysson og Gunnar Baldursson aðstoðar­skólameistari.

Hér að framan er rakið hvaða afgreiðslu umsókn stefnanda um áframhaldandi starf hjá stefnda hlaut, sbr. bréf skólameistara 10. júní 2005, þar sem tekið var fram að nánar greindir einstaklingar hefðu verið ráðnir dönskukennari og námsráðgjafi.  Í þessu bréfi er þess að engu getið hverjir hefðu verið ráðnir í aðrar stöður sem auglýstar voru, þ.m.t. tvær stöður á starfsbraut fyrir fatlaða.

Í greinargerð stefnda kemur fram að tilgreindur umsækjandi hafi sótt um stöðu námsráðgjafa og fengið hana.  Gert hafi verið ráð fyrir að þessi umsækjandi tæki að sér kennslu á starfsbraut fatlaðra auk annars umsækjanda sem ráðinn var.  Hafi því í reynd ekki verið um það að ræða á þessu tímamarki að kennara vantaði á starfsbraut fatlaðra.  Þykir ekki verða á því byggt að þessi lýsing atvika sé röng.  Verður ekki miðað við að ómálefnalegar ástæður hafi ráðið því að þessir umsækjendur voru ráðnir og verður ekki á því byggt að skólameistari hafi haft óvild í garð stefnda sem hafi haft áhrif á ákvörðun hans um það.

Fyrir liggur að um síðir var kennari án kennsluréttinda samt sem áður ráðinn til kennslu á starfsbraut fyrir fatlaða. Segir í greinargerð stefnda að það hafi komið til vegna þess að síðsumars hafi komið í ljós að starfskraftar námsráðgjafans nýttust betur til annarrar kennslu.  Er svo var komið bar skólameistara stefnda að gæta að því, áður en staðan var endanlega mönnuð, að stefnandi hafði sótt um áframhaldandi kennslu.  Gat hann ekki byggt á því án nánari könnunar að kennsla á starfsbraut fatlaðra væri þar undanskilin af hálfu stefnanda.

Í rökstuðningi skólameistara kemur fram að nauðsynlegt hafi verið talið að kennarar við starfsbraut fatlaðra væru konur.  Þetta skilyrði kemur ekki fram í þeim starfsauglýsingum sem liggja frammi í málinu.  Verður ekki á því byggt að það að stefnandi er karlkyns hafi útilokað að hann gæti gegnt starfinu, eða að skólameistara hafi fyrirfram verið rétt að ætla að það væri útilokað af hálfu stefnda með tilliti til einstaks nemanda á starfsbrautinni.

Samkvæmt þessu verður á það fallist að skólameistari hafi ekki gætt rannsóknarskyldu sinnar um afstöðu stefnanda til starfans, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, áður en hann réð kennara án kennsluréttinda til að gegna honum.  Gekk hann með því fram hjá stefnanda sem hafði leyfisbréf til kennslu í framhaldsskóla, sbr. 15. gr. laga nr. 86/1998.  Þótt miða beri við það samkvæmt því ákvæði að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem hann er menntaður á, er sú viðmiðun ekki fortakslaus.  Samkvæmt 20. grein sömu laga er óheimilt að ráða til kennslu við framhaldsskóla aðra en þá sem uppfylla ákvæði laganna, en sækja má um undanþágu ef enginn sem það gerir sækir um þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.  Eins og áður segir var skólameistara ekki rétt að ætla að fyrirliggjandi umsókn stefnanda um áframhaldandi starf hjá stefnda tæki ekki til þessa starfs. Af nefndum ákvæðum laga nr. 86/1998, sbr. einnig 11. gr. þeirra, leiðir að stefnandi átti forgang til þess gagnvart umsækjanda án kennsluréttinda í skjóli leyfisbréfs síns til að starfa sem framhaldsskólakennari.  Aldrei var sótt um undanþágu fyrir þann kennara sem ráðinn var.

Samkvæmt þessu verður á það fallist að stefndi hafi með ólögmætum hætti gengið fram hjá stefnanda við ráðningu í starfið og með því bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda.  Verður ekki fallist á að stefnandi hafi glatað rétti gagnvart stefnda vegna tómlætis eins og atvikum er háttað.

Stefnandi hefur uppi kröfur um bætur í fjórum liðum.  Krefst hann 182.000 króna vegna flutningskostnaðar frá Húsavík til Selfoss, 750.000 króna vegna kostnaðar við veru á Selfossi fyrsta árið auk ferðakostnaðar, 3.340.548 króna vegna 92.793 króna mismunar á mánaðarlegum kostnaði við íbúðarhúsnæði annars vegar á Húsavík og hins vegar á Selfossi í 36 mánuði og 1.500.000 króna í miskabætur.

Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.  Kveðst hann benda sérstaklega á það að aldrei hafi orðið rof á launagreiðslum til stefnanda þótt hann byrjaði vinnu á öðrum vinnustað.  Sé bótaskilyrðum ekki fullnægt og kröfur stefnanda vanreifaðar.  Þá kveðst stefndi benda á að stefndi hafi verið ráðinn tímabundið hvert skólaár og ekki getað treyst því að fá áframhaldandi kennslu við skólann.  Áætlanir hans og fjárfestingar séu alfarið á hans ábyrgð.

Fyrstu þrír kröfuliðirnir eru sprottnir af því að stefnandi réð sig í starf í öðrum landshluta. Samkvæmt yfirlýsingu skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands var ráðningarsamningur undirritaður 13. júlí 2005.  Ekki verður talið útilokað að stefnandi hefði átt þess kost að velja það starf sem stefnda bar samkvæmt framansögðu að gæta að afstöðu hans til og komast þar með hjá því að fara í starf á öðrum vettvangi.

Fyrir liggur að stefnandi varð ekki fyrir tekjumissi vegna ákvörðunar stefnda.  Með tilliti til þess að stefndi er eini skólinn á framhaldsstigi á Húsavík verður hins vegar að fallast á að ekki verði á því byggt að stefnandi hafi átt þess kost að sinni að fara í starf framhaldsskólakennara án þess að flytja búferlum.  Verður því að fallast á að stefnandi eigi rétt til bóta úr hendi stefnda þess vegna.

Kröfur stefnanda um bætur vegna búferlaflutninga, dvalar á Selfossi og ferðakostnaðar eru samkvæmt einhliða áætlun hans.  Verður fallist á það með stefnda að þessir kröfuliðir verði ekki lagðir tölulega til grundvallar.  Ljóst er hins vegar að stefnandi hefur orðið fyrir einhverjum kostnaði sem erfitt er að meta tölulega.  Þykir hér verða að dæma nokkrar bætur að álitum, sem ákveðast 400.000 krónur.

Dómurinn telur hins vegar að ekki séu efni til að leggja bótaábyrgð á stefnda vegna þess að húsnæði sé dýrara í því byggðarlagi sem stefnandi flutti til en hann flutti frá.  Verður stefndi því sýknaður af þeim kröfulið.

Með því að ganga fram hjá stefnanda við framangreinda ráðningu, eins og hér hefur verið rakið, þykir stefndi hafa gerst sekur um persónulega meingerð gegn starfsheiðri hans sem framhaldsskólakennara.  Þykir stefnandi því eiga rétt til miskabóta úr hendi stefnda, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, sem þykja hæfilega ákveðnar 600.000 krónur.

Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna, sem rétt er að beri dráttarvexti frá þingfestingardegi málsins, þann 2. maí 2007, eins og krafist er.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 750.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Framhaldsskólinn á Húsavík, greiði stefnanda, Kjartani Ólasyni, 1.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. maí 2007 til greiðsludags og 750.000 krónur í málskostnað.